Laugardagur 05.01.2013 - 15:17 - 2 ummæli

Jóhanna og samræðustjórnmálin

Við erum oft óttalegir molbúar. Hvergi sést það betur en í stjórnmálum. Stjórnmál eru í eðli sínu þannig að þar er tekist á um ólík sjónarmið. Þeir sem hyggjast stunda stjórnmál ættu að leggja allt kapp á að skilja að ágreiningur sem upp kemur snýst ekki um persónur, og taka slaginn svo þaðan.

Jóhanna Sigurðardóttir er af eldgamla skólanum. Hún hefur fyrir margt löngu hætt að taka þátt í umræðum um stjórnmál. Þá sjaldan hún tekur til máls er það með ólund og leiðindi á vörum. Og oftar en ekki snýst tal hennar um að þeir sem hún er ekki sammála séu hitt eða þetta.

Rökræðan er henni framandi heimur. Rökræða þar sem hún tekur málefnalegan slag við andstæð sjónarmið vopnuð eigin málsstað. Í huga Jóhönnu snýst  pólitíkin um að ráðast að persónum, og þetta hefur því miður smitast inn í marga úr hennar pólitíska ranni.

Stefán Ólafsson sem er mikilvægur hlekkur í okkar háskólasamfélagi er prýðilegt dæmi um þetta. Hann stillir þeim sem hann rökræðir við að jafnði upp á vondum stað að hans mati, spyrðir þá hugsanlega við aðra vonda menn, áður en hann reynir að takast á við það sem málið snýst um.

Þetta er arfleifð Jóhönnu. Þetta er gamli skólinn. Svona var pólitíkin og svona vilja margir hafa hana, því miður. Fjölmiðlar dansa svo dansinn líka. Ég veit ekki hvort það er vegna pólitískrar stöðutöku eða bara vanhæfni.

Núna berast fréttir af uppákomu á ríkisráðsfundi. Þetta er auðvitað ekki gott mál en við getum heldur ekki gert ráð fyrir að þetta sé óeðlilegt þó þetta sé óvenjulegt.

Ég bíð spenntur eftir viðbrögðum Jóhönnu og Steingríms, og ekki síður fjölmiðla. Mér finnst líklegra en ekki að þau viðbrögð sem berist frá Jóhönnu snúist um að ala á áunnini andúð á forsetanum, en alls ekkert um þau málefni sem málið varðar.

Þegar ég sit hér og skrifa þessa grein dúkkar upp einn mesti orðhákur þingsögunnar og tjáir sig um þetta mál. Þetta er alveg klássískt dæmi um það sem ég fjalla hér um. Allt snýst um að ata menn auri en ekkert um það sem máli skiptir. Þessi maður er glæstur fulltrúi þeirrar umræðuhefðar sem vinstri menn ætluðu að innleiða undir heitinu, samræðustjórnmál.

Við þurfum að gera þá kröfu til fólks að það hafi styrk til að takast málefnalega á um málin.

Röggi

 

Flokkar: Bloggar

«
»

Ummæli (2)

  • Magnús Björgvinsson

    Ekki er ég að ná því hvað bókun forseta og umræður um hana koma rökræðum eða stjónrunarstíl Jóhönnu við sorry! Frekar finnst mér þetta merki um að Forsetinn líti á að hér sé við ríki sama fyrirkomulag og fyrir Lýðveldisstofnun þegar að ríkisráðsfundir voru fundir þar sem ráðherrar báru upp mál fyirr konung sem var jú staðsettur í öðru landi en réð okkar málum á mörgum sviðum. Finnst þetta frekar merki um að forseti í ljósi meintra vinnsælda sinna sé að sækja sér völd sem engin vissi að hann hefði. Bendi á að stjórnarskrármálið er í afgreiðslu Alþingis. Drögin eru í athugun hjá Feneyjarnefndinni sem gefur álit sitt í lok Janúar og upp úr því fer að koma mynd á það hvernig málið verður á endanum afgreitt.

  • Það er athyglisvert að fylgjast með stjórnarskrárumræðunni eftir nýársávarp forsetans. Nánast ekkert er fjallað efnislega um það sem forsetinn hafði fram að færa en þeim mun meira um persónu hans og það með dylgjum og óhróðri.
    Og dapurlegt er að fylgjast með fjölmiðlunum. Aðalfréttin er sótt í bloggskrif Björns Vals sem hvað eftir annað hefur veist að forsetanum með orðbragði sem engum er sæmandi. Það er ekki góð blaðamennska að leita í sífellu í smiðju undirmálsmanns sem finnur augljóslega til sársauka í návist forsetans. Og grunnfærni og leit eftir hasar eru ær og kýr einstakra fjölmiðla og þykir söluvæn aðferðarfræði.
    En meiri kröfur verður að gera til RUV og fréttamanna þar en þeir brugðust einnig. Aðalfréttin þar var ríkisráðsfundurinn og hvort trúnaður hafi verið brotinn og leitað álits um víðan völl. Hvað forsetinn sagði í nýársávarpinu um stjórnarskrárdrögin og aðfinnslur hans virtust aukaatriði.
    Forsætisráðherra var spurður um ríkisráðsfundinn en ráðherrann brást lipurlega við og svaraði engu og bar við trúnaði. Þar með var viðtalinu lokið og fréttamaður RUV lét það gott heita. Hann brást þar með þjónustuhlutverki sínu við almenning að krefja forsætisráðherra um svör við því sem skipti máli og átti að vera aðalfréttin. Hvað segir þú um efnistök forsetans í nýársávarpinu? Ertu sammála þeirri gagnrýni sem hann viðhafði um einstaka greinar í stjórnarskrárdrögunum. Ef ekki; hver er þá þín afstaða?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og þremur? Svar:

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur