Þriðjudagur 05.03.2013 - 19:14 - 2 ummæli

Að kenna öðrum um

Ekki er að spyrja að Össuri. Hann sér víða pólitískar matarholur. Þá skipta staðreyndir stundum litlu máli. Nýjast hjá klækjastjórnmálamanninum er að reyna að sækja atkvæði með því að úthúða Sjálfstæðisflokknum vegna þess að ríkisstjórnin heykist á því að reyna að koma stjórnarskrármálinu áfram.

Þegar Össur iðkar samræðustjórnmálin sem Samfylkingin kynnti síðast þá birtast þau svona. Og til þess að fá nú örugglega nógu marga viðhlægjendur til að gapa af aðdáun þá bregður hann fyrir sig gömlu stefi. Það er stefið, tölum illa um útgerðarmenn. 

Staðreyndin um stjórnarskrármálið hvað varðar þingið og meðferðina þar er auðvitað sú að Össur og félagar eru ekki tilbúin að greiða frumvarpinu atkvæði sitt, Ríkisstjórnin hefur ekki meirihluta fyrir því.

Þetta hefur Össur vitað lengi og málið því geymt það þangað til að fyrirséð var að ekki ynnist tími til að koma því í farveg. Þannig vonast Össur til þess að geta bullað upp fjarvistarsönnun og slegið keilur í leiðinni.

Það er merki um pólitískt hugleysi Össurar að ætla að kenna Sjálfstæðisflokknum um hvernig fyrir þessu máli er komið. Árni Páll hefur ekki hugmyndaflug til þess að haga sér með þessum hætti en freistingin varð Össurri ofviða. 

Þetta mál er himnasending fyrir ref eins og Össur. Enn eitt málið sem ríkisstjórninni tekst alls ekki að leiða til neinna lykta. Mál sem ekki liggur á að hraða í gegn en allt er undir að vanda vel til og ná um það samstöðu þó það taki einhvern tíma. 

En þetta nýtist afar vel til þess að fá fólk til að hugsa um eitthvað annað en það sem raunverulega er að gerast. Yfirgripsmikið dugleysi og ósamsætti ríkisstjórnarflokkanna í nánast öllum málum brennur á fólki. 

Ýmist eru lausnir ríkisstjórnarinnar til mikilla vandræða eða að úrræðaleysið ætlar allt að drepa. Þá er alltaf best að tala illa um Sjálfstæðisflokkinn sem er vel að merkja ekki í ríkisstjórn.

Það er stórmagnað að fylgjast með umfjöllun um pólitík á Íslandi þessa dagana. Fyrir ókunnuga nýkomna til landsins er bara ekki annað að sjá en að Sjálfstæðisflokkurinn sé við völd. Össur og félagar taka varla til máls án þess að ræða þann flokk og innvígðir taka undir í rétttrúnaðar takti.

Og flestir fjölmiðlar dansa líka með. Margt má kenna Sjálfstæðisflokknum um enda fólk þar ekki óskeikult umfram aðra. En það er hreinlega magnað að fylgjast með ríkisstjórn kenna stjórnarandstöðu um allt sem miður fer.

Hvernig væri að gengið yrði á þetta fólk um loforðin og lausnirnar? Og jafnvel mætti þá í leiðinni spyrja Össur og félaga að því af hverju Samfylking og VG treysta sér ekki til að koma þessu máli í gegnum þingið?

Röggi

 

 

Flokkar: Bloggar

«
»

Ummæli (2)

  • Steingrímur Jónsson

    Röggi, þú ert kannski að tala um eins og þegar Sjálfstæðisflokkurinn kenndi öllum nema sjálfum sér um þegar landið hrundi:

    Og þó voru þeir búnir að stjórna landinu í 18 ár og fá allt í gegn sem þeir vildu!

    Og þó vour þeir búnir að hæla sér fyrir það hvernig verk þeirra hleyptu af stað kraftinum í íslenslu útrásinni!

    Og þó voru þeir búnir að eyða 300 milljörðum í banka sem skv. forsvarsmanni þeirra áttu að vera farnir á hausinn!

    Og þó var búið að vara við svona gæti farið en menntamálaráðherra flokksins sagði viðkomandi bara að fara í endurmenntun!

    En nei, þegar allt hrundi þá var þetta allt saman einhverjum öðrum að kenna!

  • Flottur pistill hjá þér Rögnvaldur og ég sé að Steingrímur hefur ekki fylgst vel með því sem gerðist árin fyrir hrun.

    Ef menn vilja hengja hrunið á stjórnmálaflokka, þá er hægt að segja að þrír flokkar, Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarfokkur og Samfylkingin hafi verið á sömu línunni, dásamað útrásina og bóluhagkerfið eins og það lagði sig.

    En hrunið er engum íslenskur stjórnmálaflokki að kenna þótt eftir á að hyggja hefðu stjórnmálamenn ekki átt að vera svona svakalega bjartsýnir, þetta var bóla sem hlaut að springa.

    Af hverju eru allir búnir að gleyma ræðu formanns SF á landsfundinum 2007, þegar hún þakkaði jafnaðarmönnum það, að vöxtur fjármálakerfisins og útrásin var jafnaðarmönnum að þakka? Og hefur enginn lesið ályktun SF um atvinnumálin frá landsfundinum árið 2007? Þar var talað um að skapa gott umhverfi fyrir fjármálafyrirtæki.

    Og allt sem Björgvin G sagði sem viðskiptaráðherra, þegar hann dásamaði fjármálakerfið íslenska og útrásina?

    Hefði ég rætið hugarfar, þá myndi ég segja að Samfylkingin væri hrunflokkurinn en ég veit betur og stunda ekki svona andskotans óþverrahátt.

    Þorgerður Katrín sagði jú að hann þyrfti endurmenntun, en hún iðraðist þess mjög og sagði að ummæli sín væru óafsakanleg.

    Rögnvaldur, ég hef áhyggjur af því að okkur sjálfstæðismönnum gangi illa að þroskast því við höfum svo svakalega lélega og andlausa andstæðinga. Það þarf sterka andstöðu til að halda okkur á tánum, vonandi skánar manvalið hjá vinstri flokkunum svo maður þurfi ekki stöðugt að lesa bull út í loftið, eins og hjá honum Steingrími.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og átta? Svar:

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur