Fimmtudagur 04.07.2013 - 05:23 - Rita ummæli

Minning um mann

Við erum á árlegum haustfundi sem þetta árið er haldinn á laugarvatni. Góður hópur dómara sem þar kemur saman til undirbúnings fyrir tímabilið. Ólíkt fólk úr ýmsum áttum, með allskonar vonir og væntingar, en allir með sama markmiðið. Að standa okkar plikt fyrir leikinn sem við öll elskum, körfubolta.

Það er þarna sem mörg okkar kynntumst Óla Rafns fyrst er hann heiðraði samkomuna með nærveru sinni. Óli var þannig að við sem hittum þarna stoltan formann KKÍ í embættiserindum fundum fyrir því að honum var þetta ekki síðri heiður en okkur. Hann skynjaði fljótt mikilvægi þess að rækta garðinn út í öll horn og að gefa af sér.

Þannig þekktum við Óla alla tíð. Hann gaf af sér, bæði faglega og ekki síður persónulega. Hafði yndislega nærveru og reisn, strangheiðarlegur maður og traustur. Eindrægni hans fyrir velferð körfuboltans í stóru og smáu duldist engum hvorki fyrr né síðar, hérlendis sem erlendis.

Körfuboltafjölskyldan kveður stóra manneskju þegar við kveðjum Óla Rafns. Við skulum halda merki hans hátt á lofti þar sem metnaður og skipulag einkenndi vinnuna, en auðsýnd hlýja og virðing fyrir öllum persónuna.

Hugur okkar allra er hjá fjölskyldu hans og vinum. Venjuleg orð duga skammt til að lýsa þeirri sorg sem við finnum en við hugsum með þakklæti til þess tíma sem við fengum með einum af bestu sonum íslensks körfubolta.

Minning um einstakan dreng lifir

Röggi

Flokkar: Bloggar

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og sjö? Svar:

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur