Sunnudagur 25.08.2013 - 11:32 - 8 ummæli

Að hata skoðanir

Hrunið og byltingin sem það hratt af stað hefur tekið á sig ýmsar myndir. Og mun án efa halda áfram að gera það. Sumt gott annað heldur lakara….

Bætt umræðuhefð og virðing fyrir skoðunum var eitt baráttumálið, og er. Ég þekki engan sem ekki er til í þá baráttu enda svigrúm hjá okkur flestum til bætingar þar.

Við tjáum okkur orðið mjög beinskeytt, skilin á milli að skerpast. Þetta var fyrirséð og þarf alls ekki að vera slæmt. 

Eitt vekur sífellt meiri undrun  hjá mér. Það er þegar fólk kallar skoðanir annarra hatur. 

Ýmsir málsmetandi bloggarar og álitsgjafar hafa tekið þetta ömurlega orð til handargagns og klína því án hiks á þá sem ekki eru sammála, eða kjósa að styðja eitthvað sem hinir rétthugsandi vita að er vont.

Þetta er alveg fáránleg nálgun og hrokinn lekur af. 

Fólk sem kallar skoðanir annarra hatur er að mínu mati orðið uppgefið á rökræðunni og kýs því að afgreiða málið með þessum hætti.

Hvaðan kemur þetta hatur allt saman?

Röggi

 

Flokkar: Bloggar

«
»

Ummæli (8)

  • Elín Sigurðardóttir

    Mikið rosalega er þetta hatursfullur og fasískur pistill 🙂

  • Þorsteinn Úlfar Björnsson

    Hatrið stafar af óréttlæti og misskiptingunni sem pöpullinn hefur fyrir augunum daglega.

  • Það er verið að tala um þetta Rögnvaldur:

    http://en.wikipedia.org/wiki/Hate_speech#Iceland

    Af því að sumur málflutningur er einfaldlega svo ljótur að það er ekki hægt að afsaka það með þvi að það séu bara „skoðanir“

    Þessvegna eru lög um hatursorðræðu fyrir hendi í flestum löndum.

  • Héðinn Björnsson

    Tek undir með Anton hér að ofan. Það er heimska að láta eins og það sé enginn munur á hatursorðræðu og „skoðunum“. Það á ekki að kalla hómófóbíu manna eins og Franklin Graham „skoðun“. Það á að fordæma slíkar skoðanir, enda spretta þær beinlínis af hatri, og því er það beinlínis óheiðarlegt að kalla hómófóbíu hans, og áhangenda hans, „hatur“. Það má segja eitthvað svipað um Íslamófóbíu fólks eins og Ólafs F Magnússonar. Ólafur F. er ekki að tjá skoðanir, hann er að afhjúpa eigin fordóma og mæla upp fordóma annarra, fordóma sem eru í grunninn ekkert annað en hatur.

    Það mætti spyrja Rögga á móti hvaðan allt þetta stórundarlega umburðarlyndi gagnvart hatursboðskap og fordómum á að koma? Hvernig slíkt „umburðarlyndi“ myndi gera samfélagið betra?

    Á endanum er þetta ekkert annað en krafa um algera siðferðilega afstæðishyggju þar sem ekkert er rangt, ekkert rétt, allt eru skoðanir og allar skoðanir jafnréttháar. Algert og fullkomið siðferðilegt gjaldþrot.

  • Elín Sigurðardóttir

    Hvað nær umburðarlyndi þitt langt Héðinn? Ertu hlynntur Shariasvæðum í Reykjavík?

    http://www.pressan.is/Frettir/Lesafrett/iman-i-nyrri-mosku-i-kaupmannahofn-tengist-ofgasinnudum-islamistum

  • Hatur þrífst vegna öfgva og heilaþvottar hérna á Íslandi hefur þjóðinni verið skipt upp í tvær fylkingar síðustu árinn ESB sinnar og þeir sem eru á móti.Finnst andstæðingar ESB hafa sýnt meiri fordóma gagnvart þeim sem eru á öndverðum skoðunum.Vill taka fram er ekki búinn að gera upp við mig hvort við eigum að ganga í ESB eða ekki og finnst umræðan vera allt of svört/hvít um þessi mál og skorta skynsemi.

  • Þú spyrð hvaðan hatur fólks er komið? Það er komið vegna stórvægilegra lyga stjórnmála-/embættismanna, stjórnkerfis sem ekki er fært um að vinna að almannahag og pólitískra rannsóknarskýrslna Alþingis þar sem helsta markmiðið var hvítþvottur samkrulls atvinnu- og stjórnmálalífs, bæði fyrir og eftir Hrun. Þetta er það helsta en það má telja upp mun fleiri þætti. Almenningur sér í gegnum þetta og er réttilega reiður.

    Það sem þarf er Sannleiksnefnd þar sem Hrunið og aðrir glæpsamlegir þættir eru gerðir upp. Fyrr munu sárin okkar ekki gróa og meðan sárin gróa ekki verður fólk reiðara og reiðara, sem færir fólki ekki betri umræðuhefð. Betri umræðuhefð mun því ekki fást ekki fyrr en sannleikurinn kemst upp á yfirborðið.

    Vandamálið er hins vegar að sumir aðilar innan stjórnmálastéttar/embættismannakerfis eru sek um margvíslega glæpi og halda því aftur af sannleikanum. Þetta sést m.a. af hlutverki hins opinbera í aðdraganda Hruns þar sem eftirlitsstofnanir brugðust og valdir opinberir aðilar tóku hreinlega þátt í að gera innviði þjóðfélagsins veikari. Sama hefur verið upp á teningnum eftir Hrun með svokallaða „endurreisn“ bankakerfis og pólitískra rannsóknarskýrslna. Ef ekki er hægt að treysta rannsóknarskýrslum Alþingis, þá er ekki hægt að treysta neinu sem kemur þaðan.

    Til að forðast að glæpirnir komist upp þarf ávallt að halda áfram að ljúga en áframhaldandi lygarnar veikja innviði þjóðfélags okkar með beinum hætti. Stjórnkerfið er því ekki fært um að sinna sínu starfi lengur og er hættulegt almannahag.

    Mestallt hatur má því beinlínis rekja til uppbyggingar þjóðfélagsins. Sama hversu mikið meirihluti fólks berst fyrir betri umræðuhefð verða ávallt valdameiri öfl sem hafa beinan hag af því að það gerist ekki og berjast því gegn markmiði meirihlutans, sem endurspeglast svo t.d. í öfgakenndum álitum þingmanna sem veita hatursfullri umræðunni nýjan og nýjan kraft með reglulegu millibili. Það er mestallt pólitískt ryk til að fólk skoði grunnvandamálin okkar ekki nánar ofan í kjölinn.

    Umræðuhefðin mun því ekki batna, sama hve mikið flestallt fólk vill það – hún mun versna. Til að hún batni þarf að taka grunn þjóðfélagsins rækilega í gegn.

  • Ágætur pistill þetta frá hinum unga Rögnvaldi Hreiðarssyni.
    En Héðinn kann illa að feta sig fram í skipulegum rökræðum.
    „Það á ekki að kalla hómófóbíu manna eins og Franklin Graham “skoðun”. Það á að fordæma slíkar skoðanir, enda spretta þær beinlínis af hatri,“ segir hann, harla óvísindalega og virðist telja sér heimilt að byrja allt heila gumsið á því að gefa sér forsenduna (hómófóbíu), begging the question og fær þá „niðurstöðu“ sem hann lagði í raun út með.
    En afstaða Franklins Graham er EKKI skoðun, heldur trú (og þar með fullvissa) og það kristin trú. Þeirri trú fylgir líka að hata ekki fólk, og það veit hann vel og talar ekki af neinu hatri, eins og ég og aðrir sem höfum hlustað á hann í Kastljósi og í Laugardalshöll vitum mætavel.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og átta? Svar:

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur