Mánudagur 24.02.2014 - 10:51 - 2 ummæli

Þjóðaratkvæðagreiðslur fyrr og nú

Í byrjun er vert að hafa það í huga að mín skoðun er, eindregin, að besta leiðin sé að taka ákvarðanir um meginstefnu í ESB málum í nánu samráði við þjóðina. Þjóðaratkvæðagreiðsla er þar kjörin aðferð. Hefði jafnvel getað fellt mig við slíka afgreiðslu mála í icesave málunum en þar voru ég og ríkisstjórn þess tíma ósammála,

Ég hef haft þessa skoðun áður og fyrr. Nú þegar ákveðið hefur verið að slíta viðræðum sem búið var að gefast upp á er ég enn þessarar skoðunar,

Sem er meira en hægt er að segja um suma,

Ég hafði þessa skoðun afgerandi árið 2010 þegar stjórnarandstaða þess tíma barðist um á hæl og hnakka við þing og ríkisstjórn, VG og Samfylking hafi einhver gleymt, um að gefa þjóðinni kost á að kjósa um það hvort við ættum að halda áfram aðildarviðræðum.

Minnugir menn og konur ættu að geta ryfjað upp hvernig og hverjir börðu allt slíkt niður enda skoðanakannanir þá óvenju skýrar í andstöðu við málið allt. Þá gleymdist lýðræðisástin og aðdáun á því sem stundum er kallað þjóðarvilji,

Í fjögur ár reyndi ósamstíga ríkisstjórn, þvert á títtnefndan þjóðarvilja og án þess að bera það undir þjóðina, að semja við ESB, með þeim árangri að hún ákvað að gera hlé á viðræðunum eins og það er kallað. Enn á ný án þess að bera það undir nokkurn mann eða nokkra konu,

Uppgjöf er eitt orðið yfir það,

Samfylkingin gékk svo, einn flokka, til kosninga hnarreyst með ESB sem sinn eina valkost. Minnugir ættu einnig að geta kastað því  upp í snarhasti, enda fremur stutt síðan, hvernig hin margumtalaða þjóð tók þeim boðskap,

Nú þegar ný ríkisstjórn sem inniheldur tvo flokka sem hafa komist að þeirri niðurstöðu að þeir vilji ekki inn í ESB, það vissu allir áður en síðasta þjóðaratkvæðagreiðsla fór fór fram þ.e. þingkosningar, tekur ákvörðun um að slíta viðræðum sem fyrrverandi þingmeirihluti studdi í orði en ekki á borði, dúkka upp aðildarsinnar allt að því andsetnir af hneykslan og hrópa um þjóðaratkvæðagreiðslu á sex mínútna fresti í tali og á prenti,

Hvað er svona lagað kallað?

Þó er það bót í máli að einhversstaðar stendur, er það ekki, að ekki verði tekin ákvörðun um að hefja viðræður við ESB á nýjan leik, viðræður sem Össur stöðvaði, nema að spyrja þjóðina álits.

Það eru nýmæli í þessari nútímasögu málsins því slíkt mátti ríkisstjórnin sem bæði hóf, og lauk málinu án þess að ræða það við þjóðina, aldrei heyra nefnt á nafn,

Ég hef eins og ég sagði efst á blaðsíðunni samúð með þeim málsstað að best hefði verið að taka ákvörðun um framhaldið í þjóðaratkvæðagreiðslu,

En finnst hreinlega ótrúlegt að fylgjast með ýmsum mjög góðum mönnum og málsmetandi aðildarsinnum hamast sem aldrei fyrr með stóryrðin lýðræði og þjóðarvilja að vopni í umræðunni núna,

Röggi

 

 

Flokkar: Bloggar

«
»

Ummæli (2)

  • Brynjólfur Þorvarðsson

    Rögnvaldur, ég er algjörlega sammála þér að það hefði átt að halda þjóðaratkvæðagreiðslu á sínum tíma um aðildarumsókn.

    En er það ekki frekar hæpin afsökun í núverandi upphlaupi að benda á hvað hinir gerðu eða gerðu ekki?

    Mér finnst fyrirliggjandi þingsályktunartillaga arfavitlaus af eftirfarandi ástæðum:

    1) Fjandskapur við ESB stefnir EES samningnum í stórhættu. Sumum finnst það kannski allt í lagi – en ekki mér og ég held að mikill meirihluti þjóðarinnar sé sömu skoðunar. Ísland hefur frá 2008 brotið alvarlega gegn grundvallarstoð EES samningsins um frjálst fjármagnsflæði. Ein augljós leið út úr þeirri klemmu hefði verið aðild að ESB – og án efa sú leið sem ESB hefur stefnt að. Ef viðræðum verður formlega slitið þá fáum við ESB á bakið innan EES, og ekki munu Norðmenn styðja okkur þar, þeir borga 95% af EES og eru í harðri deilu við okkur varðandi makrílveiðarnar.

    2) Ég hef aldrei verið fylgjandi aðild Íslands að ESB, en þó haft þann fyrirvara á að það er aldrei að vita um hvað væri hægt að semja. Ekki svo að jafnvel þótt góður samningur myndi liggja fyrir þá er ég ekki viss um að ég myndi styðja inngöngu. En þetta er mjög stórt mál og flausturslegur heiftarleiðangur stjórnarliða er einhver sú alvitlausasta leið sem hægt er að fara.

    3) Núverandi ríkisstjórn virkar, frá mér séð, einhver sú versta sem starfað hefur í langan tíma. Hrokinn og yfirgangurinn, vænisýkin og veifilskapurinn yfirgengilegur. Síðasta vika slær þó öllu við, hvernig er hægt að sýna nokkra virðingu stjórnmálaflokkum sem lofa því nánast því sama fyrir kosningar, skrifa það í stefnuskrá, og svíkja svo lóðrétt 9 mánuðum seinna? Hvort sem maður er með eða á móti ESB á maður ekki að láta svona lágkúru yfir sig ganga.

  • Hvejrir ætli séu helstu andstæðingar þess að aðildarumsóknin sé dregin til baka? Eru það ekki að stórum hluta þeir hinir sömu og vildu ekki fyrir nokkra muni gefa fólki kost á að segja sína skoðun á málinu þegar farið var í aðildarviðræðurnar 2009? Er þetta ekki að stórum hluta til sami hópur og kaus að blekkja almenning með því að telja honum trú um að um eiginlegar aðildarviðræður væri ekki að ræða, heldur það sem þeir kölluðu „könnunarviðræður“ og „að kíkja í pakkann“, sem væru algerlega oformlegar viðræður. Annað kom svo á daginn.

    Hvernig getur þetta sama fólk farið fram á aðrar trakteringar núna þegar viðræður eru dregnar til baka, en það sjálft bauð upp á þegar aðildarviðræðurnar voru hafnar?

    Það eru ólíkar skoðanir um málið innan Sjálfstæðisflokksins. Það hefur alltaf verið vitað. Menn mega þó ekki gleyma að ályktun sem var samin á landsfundi flokksins árið 2013 var mun meira afgerandi en ályktun landsfundar 2011, þar sem ályktað var um að aðildarviðræðum skyldi hætt, í stað þess að hlé skyldi gert á þeim. Þetta gat ekki verið mikið skýrara.

    Forráðamenn flokksins hefðu átt að vera eindregnari í aðdraganda kosninganna. Þeir flokkar sem sóttu ESB aðild hvað fastast guldu algert afhroð í síðustu kosningum, aðallega vegna utanríkisstefnu sinnar, auk loforða um að styðja við skuldug heimili, sem ekkert varð svo úr.

    Sú ríkisstjórn sem tók við síðasta vor var kosin til að breyta hlutum. Velferðarstjórnin svo kallaða hafði ekki gert nokkurn skapaðan hlut. Mörg af helstu stefnumálum vinstri flokkanna fyrir kosningarnar 2009 voru þverbrotin, s.s. ESB stefna VG, sem er í molum, en öllu fjölmiðlafólki virðist fyrirmunað að spyrja formann VG hver afstaða flokksins sé í raun og veru.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og sjö? Svar:

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur