Fimmtudagur 26.03.2020 - 16:10 - Rita ummæli

Jesús á tímum covid

Óttist eigi

Þessi hugmynd er þráður í öllu sem Jesús talar. Ekkert er að óttast segir okkar maður. Óttinn er ekki í elskunni og fullkomin elska stekkur óttanum á flótta,

Ekki sérlega flókið er það nokkuð hjá þeim sem trúir, við heyrum þetta og hættum að hafa áhyggjur,

Er það ekki?

Því miður er það ekki svo og kannski þess vegna sem Jesús og aðrir höfundar biblíunnar þurfa að minna sig og okkur á að við eigum skjól. Þetta skjól er Jesús Kristur,

Þessa daga er heilmikill vandi að halda lífi sínu fyrir utan óttann. Vissulega er vá fyrir dyrum og það hefur alltaf áhrif á okkur og þennan tíma lifum við ástand sem við þekkjum ekki. Óvissa og ótti er ekki góð blanda,

Ég verð ringlaður

Óttist eigi er samt það sem Jesús segir. Hann vakir yfir, Hann þekkir staðinn sem við erum á, veit hvernig okkur líður,

Huggarinn,

Hvernig væri það ef við ættum þjóðfélag sem núna ætti bænalíf? Ef kirkjan og leiðtogar hennar væru framarlega, fremst, að tala líf og von og fullvissuna um að Jesús er þarna þó aðstæður geri okkur örðugt um vik að sjá það,

Kannski finnst einhverjum skrýtið að tala um Jesú og von núna þegar fréttir hafa eingöngu neikvætt að segja. Hvar er Jesús á svona stundum, af hverju er þessu ekki bara reddað svo við þurfum ekki að fara í gegnum storminn?

Ég hugsa ekki svona. Ég veit ekki af hverju mennirnir gera þetta eða hitt sem hefur þessar og hinar afleiðingar en ég veit að Jesús er ekki þar með í ráðum og ég man líka að þvi er lofað að ekki verði við öllu séð,

En að Jesús muni alltaf vera til staðar og þó Hann fjarlægi ekki farsóttir og hver önnur mannana böl þá getur Hann, kannski ekki fjarlægt ótta og kvíða, en Hann býður frið, einstakan frið, ekki af þessum heimi,

Líka við aðstæður þar sem engan frið virðist að hafa,

Guð blessi Ísland. Þessi ógleymanlegu orð þáverandi stjórnmálaforingja og hvar eru þeir sem nú stýra. Af hverju biðjum við ekki okkur sjálfum og landinu Guðs blessunar?

Nægt er andrýmið því mikið má maður vera utan dagskrár ef aðstæðurnar núna fá okkur ekki til þess að hugsa allan okkar gang. Tilgang hlutanna. Núna erum við neydd til þess að endurmeta, setja líf okkar í nýtt samhengi þegar utanaðkomandi vá tekur hversdaginn burt,

Og við sitjum á einhvern veg uppi með okkur sjálf og kannski, jafnvel líklega, ótta í ýmsu formi,

Fáum við heiminn kannski ekki aftur eins og hann var og var hann kannski ekki svo eftirsóknarverður?

Eitt og annað sem þýtur í gegn þessa furðulegu daga,

Við þjöppum okkur saman núna, getum ekki annað og kunnum það þegar fótum er kippt undan. Við verðum öll vinir, fjölskylda og náungakærleikurinn bæði vopn og huggun,

Þegar við skrælum utan af okkur heiminn, veraldlegan heiminn, þá sjáum við hvað?

Við eigum öll það sama, sömu verðmætin sem eru lífið sjálft og hitt skipti eftir allt engu máli, til vara, litlu….

Þetta er tíminn þar sem við megum halla okkur að Jesú, Hans sem alltaf hefur verið til staðar. Við ætlum að vera góðir borgarar og hlýða því og þeim sem hlýða ber og svo er engin hugmynd betri en að leita að trúnni, leita að Jesú sem býr innra með okkur,

Kannski er góð hugmynd að biðja eilítið eða finna nýja testamentið og lesa þar smotterí og sjá hvort þar er ekki huggun og styrk að fá. Þeir sem þar skrifa þekktu þrengingar, farsóttir og stríð og hörmungarástand af flestum sortum,

Jesús kom ekki við kjöraðstæður til þess að frelsa heiminn og kannski var jarðvegurinn frjórri fyrir trú þá hjá þeim sem ekki höfðu raðað inn í líf sitt því sem við nútímafólk höfum gert. Og er nú frá okkur tekið, um stund,

Jesús frelsar enn í dag. Hann gefur enn sama friðinn, Hann stillir sjó þó hann fjarlægi ekki allt úthafið. Núna er tíminn, þegar upplýsingaveiturnar hafa engin góð tíðindi, að leita í þann grunn sem settur er undir okkur,

Klettinn Jesú,

Sem gefur okkur tækifæri til þess að snúa sjónum okkar frá aðsteðjandi tímabundnum vanda til þess ljóss og öryggis sem trúin á Jesú Krist hefur verið og er,

Veirur koma og fara og þessi sem nú er mun gera það líka. Þá fáum við heiminn okkar aftur til afnota en hann verður á vissan og öruggan hátt allt öðruvísi. Núna vitum við að ekkert er sjálfgefið, við vissum það en þekktum það ekki og þar erum við með danskortið autt,

Hvernig dans viljum við stíga, hvað viljum við að þessir tímar kenni okkur því að þeir munu gera það, þeir munu bjóða okkur upp á nýja hugsun,

Kannski er raunverulega lífið nær en við hugðum, kannski er það þannig í raun, ekki bara í orðum, að það sem skiptir máli er ókeypis…

Jesús er aldrei nær okkur en á svona tímum,

Hann er einni bæn í burtu

Leitum Hans þessa daga

Flokkar: Bloggar

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og þremur? Svar:

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur