Mánudagur 06.04.2020 - 14:42 - Rita ummæli

Trúarþroski

Jesús er með í för

Annað hvort erum við, þessir milljarðar sem játa trú á Hann, snarbiluð, mögulega heilaþvegin og andsetið þráhyggjufólk, eða hinn möguleikinn;

Raunverulega endurfædd til nýs lífs með upprisnum Jesú Kristi

Gildir í raun einu fyrir mig, ég hvorki get né vil snúa við, hætta við og gleyma Jesús, hverfa aftur til lífs með óljósan tilgang og engan leiðarvísi,

Einn daginn rann það upp fyrir mér að þetta líf með Jesús er heilt líf. Það tekur sinn tíma, þroskinn kemur ekki einn tveir og þrír frekar en í hinni fyrri bernsku. Hinn daginn gleymdi ég þessum sannindum auðvitað og varð óþolinmóður áður en ég varð latur, sem ég er of oft,

Og varð þá fljótlega gamli ég, engum til gagns eða skemmtunar,

Þetta munstur er enn til staðar, eða vill vera til staðar. Eðlið gefst ekki svo auðveldlega upp. Það vill fá að ráða þetta óstýriláta eðli sem er í öllum aðalatriðum óralangt frá Jesús,

Glíman er tvísýn, kraftarnir sem takast á virðast hafa samskonar afl og það er óþolandi. Alltaf óþolandi að tapa, sér í lagi þegar við höfum sigurinn í hendi okkar, erum í vinningsliðinu, vitum hvað er gott en kunnum samt að tapa,

Hann getur verið sár ósigurinn þarna af því að við vitum, vitsmunir okkar, takmarkaðir sem þeir eru í vissum tilfellum, segja okkur ótvírætt að þarna höfum við breytt gegn betri vitund og vilja. Hvers konar hegðun er það?

Af hverju sé ég ekki Jesús sem er þó alltaf með mér?

Sagan segir að ég lesi ekki nóg og biðji líka of lítið en ég þekki margar sögur af fólki sem gerði hvoru tveggja en missti samt fótanna illa. Stundum háheilagt fólk…

Stundum er ég eins og barn, smábarn sem bara ætlar ekki að læra, kann ekki að taka út þroskann. Jesús sér mig þó ekki þannig ekki frekar en ég sé mín eigin afkvæmi þannig. Framtíðinni er ekki ógnað af ósigrinum sjálfum heldur því hvernig við bregðumst við,

Við endurfæðumst hvorki meira né minna. Það var heilmikið mál að fæðast fyrra sinnið og reyna að læra mannganginn óreynd að þroska og það er ekki minna verkefni að eignast nýjan, og oft óskiljanlegan þroska, verandi fullorðin, með allan þann farangur sem lífið hefur gefið okkur,

Þess vegna erum við oft fyrir,

Þess vegna sjáum við Jesús stundum ekki þó hann sé með okkur. Þetta tekur tíma, þetta krefst þrautsegju og þarna þarf að vera traust, miklu meira traust en við höfum nokkru sinni þurft að reiða okkur á fyrr, eða gefa,

Sigrarnir, þroskasigrarnir koma í kjölfar mistaka, ósigurs. Við getum þekkt og lesið hvaðeina en við lærum helst þegar okkur verður á. Jesús breytir ósigri í sigur, aftur og aftur,

Við sjálf erum þess albúin að dæma, og dæma hart en Jesús er ekki dómari. Hann er í frelsarabusiness,

Fagnaðarerindið er sterkasta erindi allra tíma. Það hefur brotist í gegnum sterkari andstöðu en þá sem ég og þú höfum að eðli. Jesús mun ekki gefast upp á okkur. Hann þarf þess ekki, við erum einfær um að gefast upp á þessari göngu,

Ósköp er þetta neikvætt allt gætir þú sagt,

En ég er að tala um dásamlega göngu og endalausa sigra en ég segi líka söguna eins og hún er mér. Ég elska hvern dag, hvern meter á þessari göngu,

Það er ekkert mál að þykjast vera með þetta. Sá þykjustuleikur er hið ytra, leikurinn sjálfur fer fram innra með okkur, í hjartanu og þar dugar ekki að plata og ég er hreinlega ekki viss um að þar sé hægt að plata, einungis sniðganga,

Við getum valið aðra leið en hjartað vill og ég trúi þvi að ekki slái eitt einasta hjartaslag illa í nokkrum manni. Við erum öll góð og við verðum öll æði þegar við tengjumst hjarta okkar,

Við eigum aðgang að stórkostlegum kærleika. Ekki þessum klassíska heldur þeim sem er án skilyrða. Kærleikur skapara til sköpunar sinnar,

Og ekki bara það heldur kærleika til okkar sjálfra og annarra. Þetta var sett í okkur og er í okkur og ég þurfti og þarf stanslaust samband, samfélag við Jesús til þess að þetta virki til fullnustu í mínu lífi,

Mér munu ekki endast ævidagarnir svo ég megi skilja þetta almennilega enda eru þetta ávallt eins og ný tíðindi í hvert sinn sem ég verð var við þetta í mér og hjá mér,

Allt var þetta einfalt þegar ég var barn og þurfti ekki að skilja heldur trúa. Það var áður en ég gerðist fullorðinn og þroskaður einstaklingur. Þvælist þá þroskinn fyrir trúnni hlýtur að vera næsta spurning…

Held ekki en það er víst að enginn finnur trú á þann hátt einan að fatta plottið. Skilningur á fagnaðarerindinu er eilíft viðfangsefni og hefur ýmist dregið fólk að trú eða fjarlægt,

Ég held þetta gerist ekki þannig að einn daginn kvikni endanlega á trúarperunni. Trúin er ný á hverjum degi og týran í kollinum fylgir ekki eftir sjálfvirkt. Þar þarf að taka ákvarðanir og svo að hafa uppi á takkanum sem kveikir á viljanum til þess að veðja á Jesús,

Treysta Jesús sama hversu fáránlegt það getur verið stundum að leggja allt sitt á Hann þegar við sjálf virðumst hafa lausnina,

Lausnina er að finna hjá Jesús,

Ekkert minna en það. Ef ég ekki trúi því, fyrirfram, og treysti Honum svo fyrir mér þá er næsta víst, eins og skáldið sagði, að upplifun mín af Jesú sem frelsara, launsara og huggara verði sveiflukennd og ótrúverðug, eins og eðlið mitt,

Mér er fullkunnugt um þetta,

Ég hef staðreynt að Jesús er alltaf með mér

Flokkar: Bloggar

«

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og tveimur? Svar:

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur