Það var í desember minnir mig sem ég veðjaði við kunningja minn, þrautreyndan lögmann og ljóngáfaðann, um það hvort Ólafur Ragnar léti það eftir þjóðinni að fá að kjósa um Icesave. Við erum báðir Sjálfstæðismenn og á löngum köflum stutt á milli skoðana okkar í pólitík.
Ég setti aurinn á að forseti myndi undirrita en kunninginn var sannfærður um hið gagnstæða og var sigurreifur og er enn. Að sið lögmanna beitti hann fyrir sig rökum og vitnaði í það sem á undan er gengið máli sínu til stuðnings og taldi Ólaf Ragnar ekki geta verið sjálfum sér samkvæmur ef hann undirritaði. Þar er ég honum reyndar nánast sammála.
En ég benti honum á að Ólafur Ragnar heyri ekki undir ákvæði um samkvæmni og rökrétta framvindu mála og gerði grín að þessum ályktunum lögmannsins og barnaskap. Ólafur Ragnar er fyrst og framst stjórnmálamaður sem hugsar um eigin stöðu og vinsældir.
Andrúmið er að breytast finnst mér. Stjórnmálin eru gersamlega uppgefin á þessu erfiða máli enda tók það ekki lítið á að halda Steingrími frá þeirri fullkomlega fáránlegu hugmynd að semja um það sem hann samdi um síðast.
Þjóðin sjálf er líka orðin afar þreytt á Icesave og þegar stjórnmálamenn koma núna og segjast vilja „klára“ málið þá hljómar það sem fagur fuglasöngur. Iss, hvað eru 50 000 milljónir? Og þó það yrði kannski aðeins meira. Við vorum að semja um að sleppa við 500 milljarða og svo fáum við bara lánað fyrir þessu. Íslenskara verður það varla.
Hvað borgar þú í skatta? Hvað þarf marga eins og þig til að ríkið öngli saman 50 000 milljónir í tekjur til að borga? Íslensk þjóð hefur aldrei hugsað um svona hluti. Vextir og raunvextir og yfirdráttarvextir og hvað þetta heitir allt er leiðinlegt. Yfirdráttur er aftur á móti mikið stuð…
Ég játa það að ég hef vissa samúð með báðum fylkingum. Þetta bévítans mál er að þvælast fyrir að mér skilst og áhættan af dómstólaleiðinni langt því frá léttvæg. Lögfræði er skrýtinn bransi og fátt virðist gefið og mér sýnist auk þess að réttlætiskennd ráði meiru en lögfræði hjá þeim sem vilja setja undir sig hausinn og taka hvaða þann slag sem við þurfum að taka afneitum við þessum samningi.
Réttlætiskennd minni er líka stórlega misboðið og mér finnst svo gersamlega óþolandi að þurfa að taka krónu á mig vegna Icesave enda trúi ég því ekki fyrir fimm aura að viðsemjendur okkar myndu gera það sama í okkar stöðu.
Ég tel enn að Ólafur Ragnar muni skrifa undir og muni týna til þau rök sem henta þeirri ákvörðun. Í þeirri stöðu sem upp er komin mun hann ekki geta glatt alla eins og síðast þegar öll þjóðin barðist við þvermóðskuna í félaga Steingrími. Því tel ég að stjórnmálamaðurinn taki yfir og hann safni í leiðinni prikum frá félögum sínum í ráðherrabústöðunum.
Þar slær hann tvær flugur í einu höggi því slík ákvörðun gleður varla gamla pólitíska andstæðinga sem fara kannski fremstir í baráttunni fyrir þjóðaratkvæðgreiðslu. Undarlegt hvernig tíminn fer með menn og hvernig áður ónýtur málsstaður verður skyndilega öndvegis.
Það er ekki í lítið ráðist að ætla að lesa í Ólaf Ragnar og enn undarlegra að veðja um það hvernig hann bregst við. Svo er eitt furðulegt með hann sjálfan mig…..
Ég er ekki hlynntur því að fjölga þjóðaratkvæðagreiðslum og vill treysta löggjafanum til að leysa mál eins og Iceasave. Samt einhversstaðar innst í kollinum vona ég að Ólafur Ragnar skrifi ekki undir og að ég tapi veðmálinu og hafi hraustlega rangt fyrir mér um samkvæmnina og rökrétta framvindu.
Djöfull er stundum erfitt að vera sjálfum sér samkvæmur alltaf og kannski er ég bara ekkert betri en Ólafur Ragnar þegar kemur að samkvæmni og rökhugsun.
Röggi
„Íslensk þjóð hefur aldrei hugsað um svona hluti.“ Góður og gildur sjálfstæðismaður sagði í pottinum að við borguðum hér og hefðum alltaf borgað um 2% meiri ársvexti vegna krónunnar. Þetta sagði hann að kostaði og hefði lengi kostað heimili og fyrirtæki um 100 milljarða á ári. Ég hef ekki eftir ummæli hans um rekstur íslenskra banka.