Jóhanna Sigurðardóttir segist sjá til lands og að bjart sé framundan. Vonandi hefur hún rétt fyrir sér en ég held að hér sé í besta falli um barnaskap af hennar hálfu að ræða eða óskhyggju nema hvoru tveggja sé.
Núna þegar búið er að ganga frá „stóru“ málum þessarar ríkisstjórnar tekur ekki betra við. Samfylkingin hefur algerlega áttað sig á að hún getur ekki látið Indriða H og Félaga í VG stýra för í efnahagsmálum og þráir heitt að finna útgönguleið sem ekki rústar því litla sem eftir er af orðspori flokksins sem samstarfsaðila. Sú leið er ekki auðfundin núna en ekki skyldi neinn vanmeta Össur…
Margir eru að bíða eftir því að Sjálfstæðisflokkurinn verði tekinn af lífi þegar rannsóknarnefnd þingsins talar í febrúar. Ég held reyndar að ekki sé mikil innistæða fyrir þeirri aftöku því að flokknum hefur fram til þessa verið kennt um allt sem aflaga hefur farið og ekki loku fyrir það skotið að niðurstöður nefndarinnar muni einmitt leiða í ljós að fleirum er um að kenna…
… og þar er allt eins víst að bæði Framsókn og Samfylking eigi eitthvað inni sem fjömiðlar og spunakarlar hafa ekki hirt um. Þessi kvíði læsist nú um Samfylkinguna ofan á allt annað og svo er stutt í sveitarstjórnarkosningar.
Sem verða haldnar í skugga skattaæðis Vinstri grænna og lamaðs atvinnulífs og fjandskapar við samtök hinna vinnandi stétta. Og hver á að taka við skútinni þegar Jóhanna fær hvíldina ef að erfðaprinsinn hans Össurar, Dagur B, vinnur ekki borgina. Situr Samfylking þá uppi með Árna Pál? Hversu grimm örlög yrðu það?
Spennandi tímar framundan í pólitíkinni og mjög verður gaman að fylgjast með því hvernig Samfylkingin losar sig frá VG því það verður hún að gera af öllum ástæðum því flokkarnir eiga litla sem enga samleið í öðru en að upplifa gamlan draum um vinstra vor.
En nú er haust og það er fimbulkalt þetta haust og það er lengst til vinstri og stefnir enn lengra þangað…
Röggi
Spyrjum frekar hvernig þjóðin losar sig við Samfylkinguna. Við viljum ekki að ríkisstjórnin sé skipuð undirgefnum krjúpandi krötum sem tilbiðja kúgara okkar og fórna öllu til þess að „vera memm“ í alþjóðasamfélaginu.