Mánudagur 24.03.2008 - 16:50 - 6 ummæli

Agalegir dómarar.

Í gær fór fram stórleikur í enska boltanum. Mikið undir og tilfinningar stórar. þar gerðist það að dómaranum varð það á að reka leikmann af velli undir lok fyrri hálfleiks. Eða mætti kannski segja að leikmanninum hafi orðið á sú reginskyssa að láta reka sig útaf?

Umfjöllun um þetta atvik hér á landi er öll á einn veg. Dómarinn eyðilagði leikinn enda húmorslaus og ekki með neina tilfinningu fyrir leiknum, líklega almennt. Gott ef ekki heimskur og hörundsár ofan í kaupið. En er ekki eitthvað meira inn í þessari mynd?

Hvað er það í okkar þjóðfélagsgerð sem fær okkur til að hafa megnustu ímugust á aga og öllum þeim sem þurfa að halda honum uppi? Er til að mynda eitthvað sérstakt sem bendir til þess að þessi tiltekni dómari hafi haldið með öðru liðinu og beinlínis langað til þess að gera þetta?

Getur verið að leikmaðurinn hafi verið búinn að ganga þvert gegn því sem dómarinn var búinn að biðja hann um? Mótmælti þessi maður ekki nánast öllu sem hann mögulega komst yfir í þessum leik? Er það sérstaklega fagmannlegt hjá honum?

Umfjöllun um starf dómara er oftar en ekki byggð á fullkominni vanþekkingu. Þeir sem að leiknum koma, þjálfarar, leikmenn, stjórnarmenn og áhorfendur vilja að dómarar haldi upp röð og reglu, aga. Þeir skulu vera sanngjarnir og réttsýnir og ekki gera mistök. Og þeir skulu ekki vera hræddir við stórar ákvarðanir, þó sérstaklega þegar þær ákvarðanir snerta hitt liðið. Enginn vill dómara sem ekki þorir.

Þeir skulu vera harðir á sínu og ekki bogna undan pressunni sem fylgir oft. Þetta gengur auðvitað misvel hjá mönnum og jafnvel þeir sem njóta mestrar virðingar geta lennt í slæmum dögum. Skárra væri það nú.

Hvernig komast dómarar í þá stöðu að njóta virðingar og geta haldið upp röð og reglu jafnvel í mjög erfiðum leikjum? Væntanlega ekki með því að láta vaða yfir sig. Þeir dómarar sem lengst ná eru þekktir fyrir það að láta menn ekki komast upp með að fara ekki eftir því sem þeir eru beðnir um. Trúi menn því ekki að aðvörunum verði fylgt eftir þá missa þær gildi sitt. Legg til að þeir sem áhuga hafa á þessu lesi sér til um Collina þann fræga ítalska dómara sem komst glæsilega á toppinn. Það gerði hann ekki með því að láta menn komast upp hvað sem er.

Hér á landi er viðkvæðið oft að dómarinn sé að missa tökin á sjálfum sér og leiknum ef hann þarf að beita agaviðurlögum í leikjum. Þetta þekkist líka í skólum þar sem kennarinn verður oft vandamálið þegar hann vill fá nemendur til að gangast undir aga.

Enginn vafi er í mínum huga að þjálfari Liverpool mun lesa sínum manni pistilinn fyrir það að hafa látið reka sig útaf og með því farið illa með möguleika liðsins til sigurs. Reglan hlýtur að vera þessi;

Engu máli skiptir hversu mikið þér þykir viðkomandi dómari vera að gera í buxurnar og hve litla virðingu þú berð fyrir persónunni, þér ber að bera virðingu fyrir hans starfi. Og þeim fyrirmælum sem hann kann að leggja fyrir er varða agahegðun á velli. Allt annað en það er ófagmannlegt.

Dómarar gera mistök og þeim mun alltaf verða mótmælt. Ekkert er að því upp að því marki sem talið er eðlilegt. Geti leikmaður ekki fengið sig til þess að fara eftir þeim reglum sem settar eru verður hann í það minnsta að axla hluta ábyrgðarinnar.

Ekki verður séð af umfjöllun hérlendis að sá skilningur sé fyrir hendi.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (6)

  • Kannski ber minna á þeim sem eru ekki eins æstir yfir dómnum. Ég er fullkomlega sammála brottrekstrinum. Sífellt röfl og tuð í sumum leikmönnum yfir nánast öllum dómum er hreinlega óþolandi. Það virðist hins vegar taka tímann sinn að venja þá af þessu.Sjá líka þessa frétt: http://www.visir.is/article/20080324/IDROTTIR0102/80324024

  • Bestu dómararnir að mínu mati eru þeir sem telja sig ekki yfir leikmennina hafna. Það má ræða við þá dómarana, spyrja afhverju þeir dæmdu eitthvað og fá svör. Það er allt í lagi að manni liggji hátt rómur (enda er adrenalínið í stuði) en það er ekki í lagi að vega að persónu dómaranna eða segja ljót orð við þá. Þeir dómarar sem eru þessu kostum gæddir fá virðingu leikmanna.

  • Anonymous

    Dómarar öðlast í það minnsta ekki virðingu með að vilja vera miðdepill athyglinnar. Í þessum leik sáu allir sem vildu að besti leikmaður Liverpool var sparkaður niður og lamið á honum við hvert tækifæri hvort sem var þegar boltinn var við fætur hans eða ekki. Þegar hann síðan fékk nóg eftir að hafa reynt eftir besta megni að standa af sér árásir 4 eða 5 leikmenn unitedog spurði hverju sætti þá mátti hann líta gula spjaldið. Mascherano aftur á móti hefði betur látið það ógert að tala við dómarann en er það samt ekki óþarfa viðkvæmni að gefa gult spjald fyrir spurninguna what for? Maður spyr sig. Dómarar eiga ekki að vera í fílabeinsturni og þarna fékk hann fullt tækifæri til að taka Mashcerano að sér og segja ef þú hættir ekki þessu röfli þá ferðu útaf. Það hafði hann eki gert áður í leiknum þó flestir hafi séð í hvað stefndi. Leikmenn united aftur á móti höfðu enga ástæðu til að vera æstir enda fékk Ronaldo að láta sig detta og heimta brot og gul spjöld trekk í trekk án þess að brotið væri á honum enda sást það að hann vildi fá aukaspyrnu á sama stað og hann hafði fengi í síðasta leik. Hann var líka eini maðurinn sem heimtaði mark þegar boltinn var einn metra frá línunni. Dómarinn sá enga ástæðu til að ræða þessa óíþróttamannslegu hegðun eða spjalda fyrir hana frekar en brotin sem framin voru á Torres. Á sama tíma fengu Liverpool menn 4 eða 5 gul spjöld þrátt fyrir eingöngu 11 brot ef ég man tölfræðina rétt.

  • Umræðan eftir þennan leik er í stíl við aðra umfjöllun um dómara.Staðreyndin er að Mascerano gerði sér 30 metra ferð frá miðjunni til að mótmæla. Síðan bakkaði Bennet 5-10 metra frá og enn elti argentínumaðurinn. Þetta kom til viðbótar hinum skiptunum sem Mascherano var búinn að mótmæla.Bennett átti ekki annarra kosta völ og það var ekki hann heldur Mascerano sem eyðilagði leikinn fyrir okkur áhorfendum.Hins vegar hefur margt verra hefur sést í enska boltanum hvað þeta varðar (nóg að skoða hvaða leik sem er með chelsea) og velta má fyrir sér hvort rétt sé að taka upp „ný“ viðmið í lok mars.

  • Mín skoðun er sú að einn mikilvægasti þátturinn í starfi dómarans sé hæfni til samskipta. Þeir sem ætla sér að dæma alltaf og eingöngu eftir bókinni geta lennt í vandræðum. En samskiptahæfnin kemur að litlum notum ef aðrir þáttakendur leiksins vilja ekki vinna með þér. Á 37. mín þessa leiks bendir Heimir Guðjónsson sem lýsti leiknum í sjónvarpi á að þessi tiltekni leikmaður yrði að fara að hætta að nöldra yfir öllu sem dómari leiksins gerði.það gæti bara endað á einn veg sagði hann orðrétt. Innsæi Heimis er viðbrugðið. Hann var með því alls ekki að leggja mat á frammistöðu dómarans enda er hún nánast aukaatriði þegar kemur að því að framkvæmdastjóri Liverpool spyr leikmanninn að því af hverju hann hafi látið reka sig út af.Það er nefnilega þannig að ekki er hægt að krefja dómara um hæfni til samskipta en undanskilja leikmenn. Endurtekin mótmæli leikmanns með gult spjald hvort sem hann átti hlut að máli eður ei er einfaldlega ekki fagmannlegt og sýnir hvorki skynsemi af hans hálfu né vilja til samstarfs.Pælingar um það hvort dómarinn dæmdi meira á annað liðið eða hitt eiga ekki heima í þessari rökræðu.

  • Anonymous

    Laukrétt Röggi.MbkGulli

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og þremur? Svar:

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur