Miðvikudagur 02.01.2013 - 01:19 - 20 ummæli

Of seint fyrir hvern?

Ég veit ekki nema ég sé orðinn of seinn með þetta, en það verður þá bara svo að vera. Mér finnst þó eiginlega alls ekki orðið of seint að hafa rökstuddar skoðanir í tillögum stjórnlagaráðs. Af hverju er það orðið of seint? Of seint fyrir hvern? Lýðræðið kannski…..?

Ég skil ekki svona. Hvaða vald hefur Þorvaldur Gylfason til að tala svona? Í hvers umboði hefur hann ákveðið þetta?

Standi hugur þings eða ríkisstjórnar til þess að setja ólög, hvenær telur prófessorinn „of seint“ að grípa til þess ráðs að skoða gagnrýni á slíkar fyrirætlanir? 

En það er ekki bara forsetinn sem fær þessar móttökur núna, en eins og margir vita hefur hann rætt þessar tillögur áður.

Ég sé ekki betur en að fræðimannasamfélagið fái hreinlega yfir sig gusur frá þingmönnum sannfærðum, og það jafnvel þó þær rökstuddu áhyggjur kæmu inn í umræðuna áður en prófessorinn taldi síðasta dag liðinn. 

Þetta er ekki alveg eins og það á að vera. 

Er það nokkuð?

Röggi

 


Flokkar: Bloggar

«
»

Ummæli (20)

  • Páll Heiðar

    Í hverju felst lýðræði.Er það ekki að meirihluti í kosningum ráði.Nú hefur þjóðin kosið um stjórnarskrármálið og má þá ekki líta svo á að forsetinn sé að vinna gegn lýðræðinu með að vinna gegn málinu.Sama má segja um fræðimannasamfélagið því ferlið var ekki að fræðimannasamfélagið ákveddi nýja stjórnarskrá,þjóðin átti að gera það.Þorvaldur Gylfason talar í umboði allra þeirra sem kusu hann með flest atkvæði til að leiða þetta ferli.Þetta er ekki flóknara en það

  • Ég hef reyndar látið við það sitja að gagnrýni fram undir þetta hafi komið „seint“ en ekki „of seint“ en fyrst Röggi spyr má svara því til að gagnrýni forseta – sem að þessu sinni er rökstudd – komi nú a.m.k.

    1) of seint fyrir þjóðina sem samþykkti tillögu stjórnlagaráðs fyrir rúmum tveimur mánuðum og

    2) of seint fyrir lykilmann í stjórnmálum í 40 ár og doktor í fræðunum.

    Ekkert er hins vegar of seint ef það er málefnalegt og „konkret“ – en svo er því miður um minnst af gagnrýni á tillögu stjornlagaráðs.

    Ég fjalla nánar um stöðu forsetans gagnvart nýju stjórnarskránni í bloggpistli á morgun.

  • Steinarr Kr.

    Veit ekki til þess að Þjóðin hafi samþykkt eitthvað varðandi stjórnarskrármálið. Skoðanakönnunin í október var ekkert meira en það, skoðanakönnun og fáir tóku þátt og spurningar óskýrar.

    Þorvaldur heldur kanski að þessi c.a. 2% sem kusu hann í ólöglegum kosningum séu þjóðin.

    Síðasta orðið í þessu máli, sama hvað kosið er og gert er hjá Alþingi, svo aftur hjá nýju Alþingi og þá loks hjá Forseta. Þjóðin getur haft eitthvað um þetta að segja í næstu Alþingiskosningum.

  • Rögnvaldur Hreiðarsson

    Páll Heiðar,

    Er eðlilegt að setja þá sem vilja ræða þessar ráðgefandi tillögur, þú ert vonandi ekki búinn að gleyma að þær eru ráðgefandi, í þá stöðu að þeir vinni gegn málinu?

    Myndir þú segja að þeir fræðimenn sem fengnir eru til þess að vinna í málinu og kvarta undan tímaskorti séu með því að vinna gegn málinu?

    Ég ætla ekki að ræða það sérstaklega hvort mér finnist ÞG kosinn af því sem þú kallar þjóðin með þeim atkvæðum sem hann fékk en bendi þó aftur á það að þessar tillögur eru ráðgefandi en ekki fullbúin stjórnarskrá. Það var í skipunarbréfinu og hvorki ÞG né aðrir geta breytt því. Löggjafinn fjallar svo um málið og fullvinnur. Um þetta geta menn varla deilt af neinu rökrænu viti er það?

    Vilt þú kannski halda því fram að þegar fyrsta útgáfan af Icesave var stöðvuð af minnihluta þings og á endanum af þjóðinni sjálfri (98%) að það hafi í raun verið ólýðræðislegt vegna þess að það ferli fór seint af stað og beindist gegn réttkjörinni ríkisstjórn?

    Þetta er ekki flókin spurning

    Kær kv
    Röggi

  • Skattgreiðandi

    Röggi góður að venju………….höldum áfram að berjast á móti réttrúnaðinum

    Kveðja skattpíndur

  • Jón Einarsson

    Sæll Röggi,
    Sporin hræða í þessu sambandi. Stjórnarskráin hefur alltaf verið endurskoðuð með þeim hætti að hagsmunum gæludýra flokkana skuli fyrst tryggðir og málin þvæld, teygð og toguð áratugum saman, þannig að þúsundir Íslendeinga hafa látist og fæðst meðan flokkunum hefur þóknast að „endurskoða“ stjórnarskránna. Nú liggur lífið á að breyta stjórnarskránni áður en hagsmunagæsluflokkur nr. 1 kemst til valda aftur, því sá flokkur mun eins og ávallt tryggja fyrst hagsmuni vinanna og segja svo vitleysingunum sem kjósa hann að það sé einkaframtakið og brauðmylsnan sem almenningur má sleikja af gólfinu muni hætta að sáldrast niður þurfi eitthvert gæludýranna að láta af hendi hluta gróðans til samfélagsins. Forsetinn er einn af hagsmunagæsluliðinu, en minnið hjá meðal Íslendingi er eins og hjá útjöskuðum dópista og fólk er meira og minna búið að gleyma klappstýru útrásarinnar.

  • Rögnvaldur Hreiðarsson

    Sælir Jón og gleðilegt ár,

    Ég veit ekki hvernig ég að taka þetta innslag þitt inn í umræðuna sem ég er að reyna að koma hér af stað.

    Ég geri ekki neinar athugasemdir við skoðun þína í pólitík en veit ekki hvaða erindi hún á í þessu samhengi.

    Röggi

  • Jón Einarsson

    Já sömuleiðis gleðilegt árið. Varstu ekki að ræða ummæli Þorvaldar vegna athugasemda forsetans við stjórnarskrárbreytingarnar? Þessar athugasemdir hefðu betur komið frá forsetanum meðan málið var í vinnslu hjá stjórnlagaráði, rétt eins og almenningi var gefinn kostur á, en auðvitað hentar það hinum eðalborna ekki að tjá sig eftir sömu leiðum og pöpullinn. Nú er þetta orðið of seint, því málið þarf að klárast áður en eyðandi hönd Sjálfstæðisflokksins leggst yfir það. Hvað var það sem þú ekki skildir í fyrri athugasemd frá mér?

    Kv. Jón

  • Afsakið – fræðimannasamfélagið – hvað er það? Er það sama og „við íslenskir menntamenn“ eins og ungum menntamanni með lið í ljósu hári var svo tíðrætt um á sínum skólaárum? Nei ég bara spyr.

  • Rögnvaldur Hreiðarsson

    Sæll aftur,

    Ertu alveg viss um að þetta sé í fyrsta sinn sem forsetinn tjáir sig um þetta mál? Af hverju hefðu þær átt að koma fram þá? Ertu viss um að sumum hefði þótt það viðeigandi?

    Segðu mér af hverju þetta er orðið of seint. Fyrir því hef ég ekki heyrt nein haldbær rök og þín eru það ekki heldur.

    Óháð þessu, en af gefnu tilefni, þá nefni ég það að hugsanlega verður fylgið við Sjálfstæðisflokkinn meira en samanlögð þátttaka í hinum ólöglega kosningum til stjórnlagaráðs, eftir nokkra mánuði.

    Samt talar þú látlaust niður til þess stóra hóps sem kýs þann flokk og virðist ganga út frá því að skoðanir þess fólks séu mark og verðlausar. Og það gerir þú út frá þínum forsendum eins og þær séu staðreyndir sem við Sjálfstæðismenn þurfum að svara fyrir.

    Það á lítið erindi í þá umræðu hvenær orðið er of seint að rökræða mál sem eru til umfjöllunar hjá löggjafanum. Það mál er sameiginlegt öllum enda ekki víst að þeir sem ráða þar núna verði sömu skoðunar eftir kosningar.

    Alþingi er að fjalla um þessar tillögur og það er því rökleysa að halda því fram að umræður um málið séu ekki viðeigandi á þessum tímapunkti.

    Kv R

  • Jón Einarsson

    Það er alveg spurning hvort það sé viðeigandi að forsetinn tjái sig um þetta mál, þar sem það snýr m.a. að hans eigin valdmörkum og þar er það einmitt sem hann gerir helst athugasemdir. Varðandi að þetta sé of seint, þá var lagt upp með ákveðið ferli, mótun hugmyndanna fór fram og öllum gefinn kostur á að gera athugasemdir á því stigi og svo kosið um þær (almennt og sértækt). Ég og margir aðrir höfum ekki lyst á að alþingismenn krukki í stjórnarskránna þó formlega sé þeirra valdið og því hefur þú formlega á réttu að standa.

    Sjálfur hef ég kosið Sjálfstæðisflokkinn og dauðskammast mín fyrir það. Hinsvegar mun ég ekki gera það aftur fyrr en sá flokkur horfist í augu við verk sín og lærir af mistökunum, rétt eins og sérhver einstaklingur þarf að gera á lífsleiðinni ætli hann sér frekari þroska. En hrokinn og afneitunin er algjör. Að auki finnst mér grímulaus sérhagsmunagæslan sífellt á kostnað almennings afar ógeðfelld og janvel ógeðsleg svo notuð séu orð Styrmis sjálfstæðismanns.

    Kv. JE

  • Rögnvaldur Hreiðarsson

    En Jón, alþingi er löggjafinn og atkvæðagreiðslan átti að vera ráðgefandi. Hvernig viltu hafa þetta öðruvísi?

    Mér finnst afstaða sumra þeirra sem sátu í ráðinu vera komin út á tún. Öllu er hent út af borðinu.

    Lögfræðingahópurinn sem skipaður var kom með 75 athugasemdir. Þeim var öllum hent af hinum rétttrúuðu. Þú manst kannski að það varð vegna þess að þessi sérfæðingahópur þótti ekki hafa „umboð“. Sem er hreinlega út í hött.

    Hlutlausir fræðimenn sem eiga að vinna úttektir á málinu kvarta undan tímaskorti. Og tala um hættu á óvönduðum vinnubrögðum og mistökum. Þeir eru án frekari umsvifa skotinir í kaf og sakaðir um annarleg sjónarmið.

    Þetta mál er því miður orðið pikkfast í gamla farinu sem ég trúi svo vel að þú viljir að við komumst upp úr. Þeir sem eru fylgjendur eru það út yfir gröf og dauða og moka drullu yfir hvern þann sem ekki hefur sömu skoðun.

    Og allt byggir þetta á gömlu Íslensku skítapólitíkinni sem þú segist vilja losna við.

    Þar getum við orðið vopnabræður Jón en mér finnst ekki góð byrjun á þeirri baráttu að fórna svona stóru máli á þessu gamla altari.

    Þetta mál er ekki hægri/vinstri mál.

    Kær kv
    RH

  • Jón Einarsson

    Sæll aftur,
    Vissulega get ég fallist á flest sem þú setur hér fram. Það sem ég óttast er að komi hér ný ríkisstjórn, sem flest bendir til, þá munum við e.t.v. fá breytingar á stjórnarskránni en svo útvatnaðar að þær verða ekki neitt, vegna þeirrar breiðu sáttar sem þarf að ríkja um stjórnarskránna (lesist gælur við hagsmunaaðila og trygging valds). Semsagt sú stjórnarskrá verður aldrei sá skjöldur almennings sem lagt var upp með. Að almenningur geti krafist þjóðaratkvæðis (lesist Alþingi þarf að haga sér óháð því hver situr á Bessastöðum), þá þarf ný stjórnarskrá þarf að vera ákveðin hrunvörn og tryggja þarf að almenningur njóti arðs af auðlindum sínum með beinum hætti (ekki bara brauðmylsnan eða þetta málamyndaveiðigjald sem setta var á) og það má þá annaðhvort fara í að lækka skatta, greiða niður skuldir eða styrkja velferðarkerfið. Ég sé ekki fyrir mér að Sjálfstæðisflokkurinn muni nokkru sinni taka hagsmuni þjóðarinnar fram yfir hagsmuni LÍÚ, nógu aumlega hefur núverandi stjórn staðið sig gagnvart þeim en hitt væri búið spil.
    Nei auðvitað á þetta ekki að vera hægri eða vinstri mál, en okkur finnst báðum sem verið sé að fórna málinu á altari skítapólítíkur, þér ef málið er ekki kælt og skoðað vandalega og ég lít á þetta sem búið spil ef það dregst fram yfir kosningar.

  • Páll Heiðar

    Ég skil úrslit kosninga þannig að meirihluti ráði.Þar gildir einu hvort við erum að tala um þá kosningu sem sannarlega fól Þorvaldi að leiða starfið,eðaþá kosningu sem gaf m.a. þá niðurstöðu að haldið áfram á sömu braut.Mér persónulega fannst Icesave kosningin röng þó ég sé í grunninn fylgjandi þjóðaratkvæðagreiðslum þá finnst mér hún ekki eiga að snúast um að borga eða borga ekki.Enda gerði sú atkvæðagreiðsla ekkert annað en reka okkur í réttarsalinn þar sem enginn veit hvernig endirinn verður.Það reyndar vantaði ekki að lýðskrumarar samtímis vitandi betur töldu okkur trú um að það yrði aldrei.Ekkert er að því að hafa málefnalega umræðu,en á það skortir töluvert hjá minnihluta þings og forsetafígúrunni

  • Rögnvaldur Hreiðarsson

    Það er ein hugsun hvernig stjórnarskrá við viljum hafa og svo allt önnur hvernig við viljum vinna að því að breyta henni. Ég get haft ýmsar skoðanir í þeim efnum en dettur ekki i hug að ég fái allt mitt.

    Núna hef ég einlægan áhuga á því hvernig umræðan um þær breytingar sem fyrirhugaðar eru er að þróast. Þar er sama og ekkert svigrúm til athugasemda. Og þá gildir eiginlega einu hvaðan þær athugasemdir koma.

    Rétttrúnaðarhugsunin er að verða of ráðandi á mörgum sviðum og ég er viss um að enginn græðir á þvi til lengdar þó gaman sé á meðan „réttir“ aðilar stjórna.

    Kv Röggi

  • Sammála þessu, þessi rétttrúnaður er að verða óþolandi.

    Auðvitað aldrei of steint að koma með breytingatillögur , það er ekkert búið að breyta stjórnarskránni.

    Það er algert lykilatriði að vinna þessar breytingar í sátt og samlyndi, annars verða þær aldrei að veruleika og EF þær ná í gegn þá verður þeim bara breytt aftur við fyrsta tækifæri.

    Að öðruleiti er ég alveg sammála þér með þennan bölvaða rétttrúnað.. sem betur fer erum við ekki með múlimskar rætur.. annars er pottþétt að hér væri búið að setja sharia lög í stjórnarskránna.

  • Þorvaldur telur sig vera handhafa sannleikans þegar kemur að stjórnarskrá Íslands. Svoleiðis fólk getur verið stórhættulegt.

    Það er aldrei of seint að koma fram með vel rökstudda gagnrýni eins og forsetinn kom með. Staðreyndin er sú að hér er hávaðasamur minnihluti að reyna að troða ofan í kokið á fólki stjórnskipan sem stenst enga skoðun, einnig er auðlindaákvæðið eina dæmið um augljósan sósíalisma í stjórnarskrá vestræns ríkis.

    Það er gríðarlegur stuðningur við „sameign þjóðarinnar á auðlindum“ en fólk virðist ekki átta sig á þeim efnahagslegu hörmungum sem fylgja því að setja svona miklar takmarkanir á eignaréttinn. Sameignarstefnan var stunduð í Sovétríkjunum og er einnig viðvarandi stefna í Norður Kóreu. Báðar þessar þjóðir gengu og ganga í gegnum reglulegar hungasneyðar vegna þess að allar auðlindir voru og eru sameign þessara þjóða. Það er algjört glapræði að leita fyrirmynda hjá þessum ríkjum í samningu stjórnarskrá fyrir Ísland.

  • Páll Heiðar

    Mín afstaða er skýr:fólkið á að ráða.Þar gildir einu þó ég hafi lent í minnihluta í einni spurningunni(þjóðkirkjan),ég á ekki að ráða því heldur meirihlutinn. Ef fólk kýs að kalla það „rétttrúnaðarhugsun“ þá verður að hafa það

  • Rögnvaldur Hreiðarsson

    Páll Heiðar. Þú ert að misskilja hvað verið er að ræða. Hér er ekki verið að taka afstöðu til þess hvernig fór og enn síður hversu margir mættu.

    Rétttrúnaðurinn sem um ræðir er sá að ekki er svigrúm fyrir andstæðar skoðanir en þær sem sumir stórnlagaráðsfulltrúar hafa.

    Nú er það sett í þann búning að umræðan komi of seint. Hefði forsetinn til að mynda opnað þessa umræðu mikið fyrr er líklegt að það hefði verið of snemma.

    Pistillinn snérist um þessi prinsipp. Það er ekki hlutverk þeirra sem sátu í hinum sérskipaða ráðgefandi ráði að segja alþingi hvenær umræður um lögin sjálf er of seint á ferðinni.

    Enginn getur bent á að það sé þeirra hlutverk.
    Bara alls enginn…

    Kv Röggi

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og einum? Svar:

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur