Miðvikudagur 12.9.2012 - 23:16 - Rita ummæli

Hvernig ætli standi á því að fólk sem leiðist út í stjórnmál hefur helst ekki neinn sans fyrir gildi íþrótta. Íþróttir eiga engan fulltrúa á þingi og enginn flokkur meinar neitt með stuðningi við íþróttir.

Samt er það þannig að enginn samtök eru fjölmennari en ÍSÍ. Einnig er leitun að þeim sem viðurkenna ekki gildi þess að stunda íþróttir. Ódýrasta forvörnin segja stjórnmálamenn þegar það hentar…

..og meina þá væntanlega hvað hún er ódýr fyrir ríkið. Það er skammarlegt hversu lítið er lagt af mörkum til íþrótta á Íslandi. 

Stundum vilja menn bera saman það sem sett er í menningu og listir og það þykir listamönnum ekki fínt. Af hverju er það ekki ágætur samanburður? Ég efast hreint ekki um gildi lista og menningu þó ég vilji bera saman framlög til þessara greina. 

Er kannski sanngjarnt að bera saman það sem aðrar þjóðir nátengdar okkur gera? Þar erum við langt á eftir…

Ég held að stjórnmálamenn ættu að hætta að mæta út á flugvöll til að taka á móti þeim hluta íþróttamanna sem eru afreksmenn. Stilla sér upp til myndatöku og gera sér upp þjóðarstolt.

Stjórnmálamenn sem væru stoltir af því ótrúlega starfi sem þúsundir vinna í sjálfboðaliðavinnu til þess að skapa ekki bara afreksfólki heldur tugþúsundum barna og unglinga aðstöðu til þess að stunda sína íþrótt kæmu ekki fram með það sem fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar gerir nú.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 12.9.2012 - 11:38 - Rita ummæli

Mótmælendur þrasa um heiður

Öðruvísi mér áður brá. 

þrasa mótmælendur, sem virðist vera lögverndað starfsheiti, yfir því hver á höfundarréttinn af því að hafa stöðvað ofbeldið sem byrjaði með beinu andófi gegn ríkisstjórn en endaði sem götuslagsmál við alsaklausa lögreglumenn.

Ég ber mikla virðingu fyrir þeim sem gengu þarna fram fyrir skjöldu og get sagt að mig langar að skilja þennan pilt þegar hann segist vilja fá kredit fyrir. 

Margt má örugglega læra af þessum mögnuðu dögum þarna og ég vona að þeir sem ætla sér að hasla sér völl í mótmælabransanum reyni að draga þann lærdóm af að ofbeldi er og verður aldrei málið.

Ofbeldi gagnvart lögreglunni sem aldrei gerði annað en henni bar gat aldrei annað en stigmagnast. Það mun varla bæta neinn málsstað eða gera honum gott að gera hlut þeirra sem vilja brjóta og brenna í andófi stóran.

Þetta er eitt af því sem þeir sem ekki vissu lærðu þó ég sé ekki sannfærður um að allir vilji meðtaka það opinskátt.

Mér fyndist mannsbragur að því að þessi piltur og fleiri hefðu áhuga á því að kryfja það af hreinskilni af hverju „baráttan“ varð svo fljótt yfirtekin af þeim sem vildu lemja á lögreglunni og öðrum þeim sem höfðu ekkert til saka unnið annað en að sinna þeim störfum sem þjóðfélagið ætlast til af þeim.

Það er nefnilega ekki síður áhugavert hver kastar fyrsta steininum og af hverju heldur en það hver stöðvaði steinakastið.

Röggi




Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 9.9.2012 - 23:57 - 9 ummæli

Falleinkun Inga Freys

Fréttastjóri DV skrifaði pistil í blaðið sitt um daginn. Þar skrifar Ingi Freyr eins og hann sé hlutlaus fagmaður um mál er tengjast Gunnari Andersen ákærðum fyrrverandi forstjóri FME. 

Getur Ingi Freyr fréttastjóri DV sem leikur hlutverk í þessari sögu litið á sig sem áreiðanlegt vitni í þessu máli eða hlutlaust? Slíkir smámunir þvælast ekki fyrir blaðinu eins og stundum fyrr.

Fréttastjórinn ákveður að taka órökstuddar fabúleringar Gunnars um leka til kastljóss í gegnum Guðlaug þór sem sannleikann og byggir þennan afleita pisltil á sögunni sem hinn ákærði forstjóri talar um. 

Svo er þvælt um sölu eignar Guðlaugs Þórs eins og þar hafi átt sér stað stórglæpur sem skilað hafi miklum og þá væntanlega óeðlilegum hagnaði. Hvorutveggja er frétt um ekki neitt og hagnaðar hluti sögunnar fjarri sannleikanum.

Fréttastjóri DV hefur tekið sér ákveðna stöðu gegn manni og með öðrum og ætlar sér hvað sem hver segir að reyna að koma glæp sem nú er verið að fjalla um á hendur „hans“ manni yfir á þann sem saksóknari telur með nokkuð vel rökstuddum grun fórnarlamb í málinu.

Ingi Freyr fær falleinkunn fyrir þetta og enn einu sinni hendir það að blaðið sem borgar honum laun gerist bert að því að kunna ekki að taka menn af aftökulistanum hafi þeir á annað borð verið settir á þann lista.

Hér gékk maður undir manns hönd þegar stjórn FME ákvað að leysa Gunnar frá störfum og framleiddu mergjaðar samsæriskenningar um mann og annan. Þeir eru flestir þögulir mjög núna þegar þetta mál ber á góma og vottar jafnvel fyrir skömm hjá sumum.

En þó ekki öllum…

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 6.9.2012 - 21:08 - Rita ummæli

Launafarsi ríkisstjórnarinnar

Nú er það svart. Velferðarráðherra hækkaði laun forstjóra landspítala all duglega án þess að spyrja kóng eða prest. Ekki er að spyrja að viðbrögðum þeirra sem vilja helst að allir hafi jafn léleg laun.

Launastefna norrænu velferðarstjórnarinnar hefur tekið á sig ýmsar furðumyndir. Höfundur peningamálastefnunnar Már Guðmundsson stendur í málaferlum við ríkið í makalausri viðleitni til þess að fá þau laun sem forsætisráðherra lofaði þegar hann var munstraður í seðlabankadjobbið.

Þetta er allt einn stór farsi vegna þess að ríkisstjórnin festist klaufalega í misheppnaðasta populisma seinni tíma þegar lagt var blátt bann við hærri launum en þeim smánarlegu sem Jóhanna fær.

Ég skora á jafnláglaunastefnu fólk að stofna til undirskrifta svo afturkalla megi þessa ákvörðun velferðarráðherra og losna við forstjóra landspítalans úr landi og ráða til starfa einhvern sem uppfyllir fyrst af öllu þær kröfur að fara ekki fram á markaðslaun.

Annað er aukaatriði….

Röggi



Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 6.9.2012 - 16:11 - Rita ummæli

Nú er það svart lagsmaður. Forstjóri landspítala fékk launahækkun rétt sísvona. Það var einhliða ákvörðun ráðherra velferðarmála sem vildi ekki missa manninn til annarra vinnuveitenda. 

Ég hef á þessu mikinn skilning og fagna því að ráðherra skuli vilja hafa hæfa menn í vinnu. Í þessu tilfelli hefur forstjórinn verið afar farsæll í starfi sem fáir öfunduðu hann af þegar hann tók við á tímum niðurskurðar og vandræða.

Nú er viðbúið að hljóð heyrist úr horni því velferðarstjórnin hefur haft þá fáránlegu stefnu allavega í orði að línan sé dregin við alltof lág laun forsætisráðherra. 

Sú ákvörðun var heimsmet í populisma nema takmarkið hafi verið að ríkið hefði ekki möguleika á að hafa hæfasta fólkið í vinnu. Slíkur sparnaður skilar ekki miklu og er forstjórinn sem hér um ræðir prýðilegt dæmi um slíkt.

Annar ríkissforstjóri, nefnilega seðlabankstjóri, stendur svo í málaferlum við ríkið til að fá þau laun sem forsætisráðherra lofaði honum þegar hann brást við klæðskerasaumuðu auglýsingunni hér um árið.

Ég veit að mörgum ofbýður þau laun sem forstjórinn fær og finnst samanburðurinn við eigin laun heldur óhagstæður. Veit líka að margir telja að þeirra eigin hagur hljóti að velta á því að lækka hæstu laun frekar en að hækka þau lægri.

Ég skora á þá sem geta ekki unað við þessa ákvörðun að þrýsta á ráðherra um að draga hana til baka. Þá getum við fundið einhvern annan í starfið og þá auðvitað einhvern sem hefur það helst til brunns að bera að fara ekki fram á markaðslaun fyrir vinnu sína. 





Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 5.9.2012 - 22:57 - Rita ummæli

Meiðyrðin

Margir áhugaverðir vinklar eru á meiðyrðamáli Gunnlaugs Sigmundssonar á hendur bloggaranum Teit Atlasyni. Allskonar hefur verið sagt og ritað um þetta mál.


Sumir þola Gunnlaug alls ekki af ástæðum sem skipta hreint engu máli þegar rætt er um það hvort menn eigi rétt til þess að verja mannorð sitt með tilvísan í meiðyrðalöggjöfina.

Meira að segja bullandi ósympatískir menn hafa að sjálfsögðu ekki minni rétt en þeir“góðu“. Við verðum að standa klár á því.

Lögfræðingur Teits beitti þeirri snörpu vörn hafi ég skilið rétt að úr því að mál Gunnlaugs hafi verið til umræðu lengi þá sé af þeim ástæðum ekki mögulegt að fremja meiðyrði. 

Vonandi verða þetta ekki rökin sem sýkna Teit því ekki vildi ég máta þessi rök við öll sakamál. Ekki dugir að benda á að aðrir séu líka þetta eða hitt.

Allir eiga að hafa sama rétt fyrir lögum og þegar mér finnist einhver alveg glataður hef ég auðvitað fullan rétt til þess að halda þvi fram og velja mér til þess þau orð sem henta mér.

Ég þarf bara að vera með það á hreinu að fara ekki í fýlu ef viðkomandi telur orðin mín standa nærri mannorði sínu.

Þannig eru leikreglurnar og ég veit ekki hvernig þær geta verið öðruvísi.

Röggi





Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 5.9.2012 - 22:29 - Rita ummæli

Meiðyrðamál er dálítið sérstök mál alltaf. Hver og einn einasti maður getur höfðað mál gegn hverjum þeim sem ákveður að tjá sig opinberlega um viðkomandi. Það er sálfsagður réttur hvers og eins.

Meiðyrðamál er fátíð sem betur fer en það er án efa ekki vegna þess að þeir sem hafa sig í frammi í umræðunni séu alltaf til fyrirmyndar. Miklu frekar vegna þess að þetta eru leiðindi sem gera kannski ekki annað en að endurtaka ummælin sem meiddu í upphafi. 

Svo gerist það nú reyndar oft að þeir sem viðhafa hin mögulega meiðandi ummæli biðjast afsökunar og draga til baka og þá er í prinsippinu ekki lengur ástæða til þess að fá menn dæmda til þess einmitt að gera ummælin ómerk. 

Nú er bloggarinn Teitur Atlason ákærður fyrir meiðandi ummæli í garð Gunnlaugs Sigmundssonar. Sá sem ákærir hefur fullan rétt til þess eins og hver annar. Sumir leggja þó mikið á sig til að reyna að komast að þeirri niðurstöðu að svo sé ekki og vilja blanda inn í þær pælingar fjárhagslegri stöðu þessara manna. Þær pælingar halda auðvitað ekki vatni…..

Lögfræðingur Teits reynir eðlilega að halda fram sakleysi skjólstæðings síns og telur að ummæli Teits geti vart talist meiðandi því aðrir menn hafi talað um Gunnlaug lengi og óvarlega að hennar mati.

Áhugaverð röksemdafærsla en bragðdauf. Ákærði er ekki kærður fyrir ummæli sem aðrir kunna að hafa viðhaft. Einnig finnst mér áhugaverð hugsun að einhver geti verið saklaus vegna þess að hann hafi í raun verið að gera það sem margir aðrir hafi hugsanlega líka verið að gera. Ekki vildi ég sauma þá röksemd inn í öll sakamál…..

Mörgum finnst þessi löggjöf heimskuleg og óþörf og víst er að ég öfunda dómara ekki af því að vinna niðurstöður í þessum málum. 

En við verðum fjandakornið að hafa möguleika til þess hvert og eitt að verja mannorð okkar teljum við einhvern gera að því atlögu opinberlega. 

Stuðningsmenn Teits mega vitaskuld hafa allskonar skoðanir á málinu og halda fram sakleysi síns manns. En ekki er nokkurt gagn af umræðu sem gengur út á það að Gunnlaugur hafi ekkert upp á dekk með þessa ákæru.

Röggi


Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 2.9.2012 - 22:23 - Rita ummæli

Hvernig er málið alvarlegt Steingrímur?

Það er þannig að ráðherrar hér eru undanþegnir almennum ákvæðum er varðar löggjöf okkar. Ráðherrar eru þeir hinir sömu og setja lögin sem þeir hafa svo sjálfsvald um hvort þeir taka mark á þegar á bátinn gefur.

Þegar Ögmundur brýtur lög og er dæmdur fyrir hefur hann ekki sömu áhyggjur af slíku og þú og ég. Hann hafnar bara niðurstöðunni eindregið og kemur með sitt eigið mat og sýknar sjálfan sig í raun sem er kannski rökrétt niðurstaða manns sem alinn er upp í systemi þar sem þingmenn eru í senn löggjafi og framkvæmdavald og velur einnig dómara.

Einu áhyggjurnar sem Ögmundur hefur eru af því hvernig pólitískur styrkur hans stendur nú þegar hann situr dæmdur ráðherra. Hvort formaðurinn hans hefur heilsu og pólitíska hagsmuni af því að þvínga hann til afsagnar. 

Þetta er í raun hlægilegt en mun að líkindum ekki breytast fyrr en við komum okkur upp þeim eldveggjum sem þrískipting valdsins á að tryggja okkur.

Hið raunverulega dómsvald er í höndum Steingríms J. Hann einn getur fullnustað dóminn sem upp hefur verið kveðinn. 

Steingrímur leikur kunnuglegt stef og segir málið alvarlegt. Hvað þýða slík ummæli? Og hvaða afleiðingar hefur þessi tiltekni alvarleiki málsins fyrir Ögmund? 

Engan auðvitað og lífið heldur sinn vanagang og þjóðin annað hvort lætur sér fátt um finnast eða fer í skotgrafirnar þar sem við ýmist verjum „okkar“ fólk út yfir gröf og dauða eða bendum á dæmi um að aðrir hafi nú gert þetta áður. 

Og bíðum svo eftir því að eitthvað eða einhver muni innleiða fyrir okkur gagnlegt siðferði í pólitík. 

Að líkindum fer eins um þetta mál og önnur sömu tegundar áður og fyrr. Þau verða mögulega innanhúsvandamál hjá viðkomandi flokki og annað ekki. 

Þegar Steingrímur sér málið alvarlegt er hann einungis að hugsa pólitískt fyrir flokkinn sinn og ríkisstjórn. Hann er ekki að hugsa um önnur mun léttvægari prinsipp sem snúa að þjóðinni eða virðingu fyrir þeim lögum sem hér eru sett.

Þannig alvarleiki máls er fyrir okkur hin…

Röggi






Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 1.9.2012 - 23:31 - Rita ummæli

Við erum með allskonar system. System sem löggjafinn hefur smíðað handa okkur eftir að mig langar að halda nokkra yfirlegu. Þingmennirnir okkar semja reglur fyrir þjóðina og búa í leiðinni til hinar og þessar stofnanir sem þeir ætla að fylgjast með því hvort borgararnir fari eftir reglunum.

Svo höfum við apparat sem rekur sjoppuna, ríkisstjórn, eftir þeim lögum sem þingið setur og þar á milli er eldveggur eins og allir vita! enda valdinu þrískipt hér á landi til þess að tryggja að aðilar sitji ekki hringinn í kringum borðið. 

Svo þegar við þurfum að fá úr því skorið með afgerandi hætti hvort einhverjum verður á í messunni gagnvart lögum höfum við dómsvald sem einnig er alveg sjálfstætt fyrirbrigði óháð hinum tveimur. 

Einn hængur er þó hér á því löggjafi og framkvæmdavald eru sami hlutur í þessu elsta lýðræðisríki heims og þetta vald skipar svo dómara eftir pólitískum smekk hverju sinni. 

Svo höfum við umboðsmenn skuldara og alþingis. Ríkisendurskoðun höfum við og hinar og þessar úrskurðarnefndir þar sem sitja vinir og vandamenn þeirra sem settu leikreglurnar. Eftirlitsbransinn á Íslandi er alvöru bransi sem kostar nokkrar þúsundir milljóna á hverju ári að reka.

Þegar ráðherrar gerast brotlegir við lög í þessu landi þurfa þeir ekki að hafa af því neinar áhyggjur. Vissulega þurfa þeir að verja sig fyrir dómi en niðurstaðan skiptir í raun engu máli. Hér verður enginn þrýstingur….

Það eina sem Ögmundur þarf að hafa áhyggjur af dæmdur ráðherrann er það hvort hann hafi nægilegan pólitískan styrk til þess að formaðurinn hans hafi ekki efni á því að láta hann fjúka. 

Ögmundur hefði ekki nokkrar áhyggjur af því þó heil löggjafarsamkoma færi á hliðna vegna málsins. Formaðurinn hans ræður öllu þar. 

Umræðan um þetta brot Ögmundar snýst á fáránlegan hátt um það hvort hans eigin formaður sem er bæði löggjafi og framkvæmdavald vill að hann fari. Hvurslags system er það?

Ríkisstjórnin er þingið og þingið ríkisstjórnin. 

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 25.8.2012 - 18:25 - Rita ummæli

Sjálfseyðing VG heldur áfram

Það meiga þau í VG eiga að þegar þau hittast yfir spjalli að þá er ekki töluð tæpitungan. Flokksráðsfundir eru án efa martröð pr sérfræðinga flokksins.

Kjarninn í flokknum er í andstöðu við meginstefnu ríkisstjórnar og ekki bara kjarninn heldur einstakir ráðherrar eins og alkunna er. Freistandi er að reyna að halda því fram að hér sé um að ræða alltaf á móti heilkennið sem VG hefur byggt tilveru sína að stórum hluta á.

En ég er ekki sannfærður. Þótt formaðurinn ferðist til útlanda til að hreykja sjálfum sér af verkum annarra er það þannig að kjarninn man að formaður og flokkur var og er á móti bjargráðunum sem Steingrímur skreytir sig nú með.

Það er auðvitað strangheiðarlegt að kannast við sjálfan sig og gefast ekki upp á því. En það er bara svo íþyngjandi þegar maður er ráðherra að burðast með slík prinsipp.

Það er varla áhlaupaverk að stýra flokki úr ráðherrastóli þegar flokksmenn hafa upp hugmyndir eins og sumar þeirra sem flokksráðsmeðlimir ganga með og vilja leiða yfir þjóðina.

Að þjóðnýta fjármálastofnanir og reka þær ekki í hagnaðarskyni heldur til þess að tryggja jöfnuð. Að banna einkarekstur í heilbrigðiskerfinu eins og tannlækingar og þess háttar.

Í sem stystu máli að færa allt og alla undir ríkið til ráðstöfunar. Að ríkisvæða allt og banna einka og hagnað. Þetta er ekki brandari úr nýjustu þáttaröð Steinda. Og það er ekki einhver Jói á hjólinu sem er að tala fyrir þessu. 

Þetta tvennt súmmerar hryggjarstykkið í stefnu VG og er vegarnestið sem formaðurinn hefur úr að spila. Svona er baklandið og grunnurinn. Ekki öfunda ég formanninn að þessum heimamundi.

Steingrímur hefur auðvitað eins og viðtalið við FT sýnir áttað sig á að  andstaðan við lausnir fyrri ríkisstjórnar var í besta falli misskilningur. En flokksráðið og kjarninn veit ekkert um þetta og heldur bara áfram að vera VG á meðan formaðurinn reynir að gera alla ánægða í fyrirfram vonlausri tilraun til þess að halda bæði flokki og ríkisstjórn á floti.

Nú fer þetta að verða áhugavert. Kosningavetur og brátt líður að því að flokkarnir sem skipa stjórnina taka til við að lúskra á hver öðrum. Líður að því að ekki verður lengur hægt með pólitísku handafli að halda niðri skíðlogandi eldunum sem allir vita að brennur milli flokkanna. Að ég tali nú ekki um átökin og óvildina sem fólk ber til hvors annars innandyra….

Þá verður spennandi að sjá á hvaða bás Steingrímur mun setjast. Mun hann hverfa aftur til þess að verða formaður Álfheiðar Ingadóttur eða halda áfram að vera formaður Katrínar Jakobsdóttur sem er að átta sig á því að flokkurinn hennar er kominn í hendurnar á mönnum eins og Birni Val sem fer að jafnaði aldrei í boltann heldur eingöngu manninn?

Þótt Steingrímur hafi nánast komist upp með það hingað til að vera hvoru tveggja er ólíklegt að hann komist upp með þegar tjaldið fellur og VG verður aftur VG í aðdraganda kosninga. 

Kosninga sem allir vita að senda VG í langa og verðskuldaða útlegð frá ríkisstjórnarsamstarfi. 

Röggi




Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur