Mánudagur 23.7.2012 - 20:19 - Rita ummæli

Drottinn minn dýri!! Á nú að fara að halda brennivíni að gamla fólkinu? Hrafnista ætlar sér að vera með kaffihús þar sem verður hægt að kaupa sér vín. 


Auðvitað mátti búast við því að SÁÁ og þeir sem vinna að áfengisvörnum og meðferðum hefði heldur neikvæða afstöðu til þessa. Enda gerir norræna módelið ráð fyrir því að best sé að halda áfengi frá augum fólks…


…nema þegar við ætlum að skemmta okkur. Þá er fínt að þamba stórt og enginn segir neitt

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 22.7.2012 - 10:10 - 1 ummæli

Hvenær eru íþróttamenn meiddir?

Nú er komin upp staða varðandi Aron Pálmarsson landsliðsmann í handbolta. Hann er meiddur og stutt í ólympíuleika. Vísir gerir frétt um málið og finnur á því vinkla.


Þetta er afleitt mál fyrir alla og mest þó fyrir Aron. Mér sýnist úr þeirri fjarlægð sem ég er í að HSÍ sé að setja mjög mikla pressu á piltinn vopnaðir læknum sem geta búið svo um hnútana að hann finni ekki fyrir neinu fyrr en í fyrsta lagi eftir mótið.


Á svona löguðu eru margar hliðar. Við eigum frábæra íþróttalækna sem hafa margsannað sig sem heimsklassa. Hver man ekki eftir því þegar Guðjón Valur spilaði landsleik örfáum dögum eftir aðgerð á hné hér um árið?


Þá þótti hann vera ótrúlegur nagli og læknarnir okkar æði. Afleiðingin af þessari hetjudáð og öðrum í kjölfarið varð þó sú á endanum að Guðjón Valur missti úr heilt tímabil á meðan hnéð varð að fá að jafna sig. 


Ég tel að eins og málið er að vaxa sé það að veikja undirbúning liðsins fyrir mótið. Leikmaðurinn er meiddur og getur ekki tekið eðlilegan þátt í undirbúningi liðsins. 


Það er nú þannig að ólympíuleikar eru stærsti viðburður sem íþróttamenn taka þátt í og menn geta rétt ímyndað sér hvað þarf mikið af verkjum í hné atvinnumanns í íþróttum til þess að hann kvarti á þessum tímapunkti. 


Ég legg til að ekki sé reynt að tortryggja það að vinnuveitendur leikmannsins vilji fá að skoða þessi meiðsl líka og hafa skoðun á framvindunni. 


Og svo finnst mér að meiddir leikmenn eigi lítið erindi á stórmót hvort sem litið er til hagsmuna þeirra sjálfra eða liðsins.


Röggi







Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 18.7.2012 - 20:58 - Rita ummæli

Ráðning ráðuneytisstjóra

Nú þarf að finna ráðuneytisstjóra í atvinnuvega og nýsköpunarráðuneyti. Þetta fína embætti verður til við sameiningu þriggja ráðuneyta. Eflaust margir um hituna….


En nei. Ríkisstjórn gagnsæis og upplýsingaflæðis ætlar ekki að hleypa hverjum sem er að þessu. Steingrímur J. segist ætla að ná því sem hann kallar samkomulag um þessa ráðningu. Afburðasnjöll aðferð og miklu betri en hin sem gerir ráð fyrir því að allir eigi möguleika í opnu ferli. Lokaða pólitíska ferlið hans Steingríms er miklu betra….

Lög um ráðningar opinberra starfsmanna taka af öll tvímæli í þessu efni. Svona stöður skal auglýsa í lögbirtingarblaðinu. Reyndar er það svo að í þeirri sömu málsgrein og tekur af þessi tvímæli er tekið fram að þetta sé þó ekki nauðsynlegt.

Ég viðurkenni hér án undanbragða að ég þekki ekki lög þessi út í hörgul og veit því ekki hver hugsunin er með þessari snilld. Skil ekki bofs.

Og ég veit vel að sú ríkisstjórn sem nú situr fann ekki upp pólitískar ráðningar fram hjá auglýsingum en mig minnir endilega að hún hafi skreytt sig með faguryrðum um að slíkt heyrði sögunni til þegar vinstra vorið gengi yfir okkur.

En margt fer öðruvísi en ætlað er og hjá þessari stjórn er það fremur undantekning ef störf eru auglýst. 

Byltingin étur enn börnin sín sem sitja flest hjá þögul og reyna að benda á eitthvað annað…..

Röggi


Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 17.7.2012 - 22:02 - 7 ummæli

Stefán Ólafsson og hægri umræðan

Ég las viðtal við Stefán Ólafsson prófessor og stjórnmálamann í DV um helgina. Þar segist Stefán hafa hafið bloggskrif til að bjarga okkur frá umræðu sem vondir hægri menn gera út og þjóðin spili með. 


Að mati fræðimannsins eru slíkir menn þannig að þeir kæra sig ekki um staðreyndir. Stefán hins vegar er sérlegur sendiboði sannleikans og kann einn að túlka niðurstöður en hægri menn ekki.


Fræðimaðurinn er hlutlaus þegar kemur að pólitík að eigin sögn. Sem fyrr er það landlægt hér að okkar helstu fræðimenn harðneita að kannast við sig þegar kemur að pólitík. 


Það veikir þá frekar en hitt að mínu viti þó ég viti að fylgjendur hins hlutlausa fræðimanns í pólitík vopnaðir orðhengilshætti þykist ekkert skilja hvað ég er hér að fara. 


Mér þykir ekki mikill styrkur að því að afgreiða rökræður og þá sem ekki eru sammála túlkunum og nálgunum sem fræðimaðurinn hefur á takteinum sem raus í vondu fólki. 


Stefán hefur átt ýmsa sniðuga spretti í starfi sem sýna fram á að skilin milli fræða og stjórnmála geta verið óljós. 


Minnir að hann hafi skrifað lærðar greinar til að andmæla fullyrðingum forystumanna fyrri ríkisstjórna um að þeir hafi lækkað skatta. Svo þegar allt hrundi skrifaði hann þá ekki nýjar og komst að því að skattalækkanir fyrri ríksstjórna hafi verið ein kveikjan að hruninu?


Hagfræði er ekki alltaf bara hagfræði og stjórnmálafræði ekki alltaf stjórnmálafræði. Fræðimenn um allan heim takast á um fræðin hver svo sem þau eru og eru þá stundum þekktir að pólitískum skoðunum sínum. Það gerir þá ekki minni fræðimenn en heiðarlegri klárlega.


En hér hjá okkur situr Stefán Ólafsson vinstri maður og gefur sig út fyrir hlutleysi og þarf ekki rökræður frá þeim sem eru honum ósammála. Sem þýðir að hann þarf engar rökræður.


Enda með staðreyndir á hreinu og einkaleyfi á túlkunum þeirra.


Röggi



Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 14.7.2012 - 22:05 - Rita ummæli

Stefán Ólafsson stjórnamála og fræðimaður er handhafi sannleikans. Slíkir menn hafa í gegnum söguna reynst misjafnlega…. 


Í viðtali í DV talar hann eins og frelsandi messías sem ákvað loks að opna munninn til að frelsa okkur frá vondum hægri mönnum sem tala of mikið og hafa skoðanir sem Stefán tekur ekki mark á. Auk þessa klínir hann þöggunarstimpli á fólk eftir þörfum. 


Reyndar benda skoðanakannanir til þess að þjóðin vilji eindregið láta bjarga sér frá vinstri mönnum eins og honum sjálfum en það er annað mál. 

Þetta er góð aðferð. Að afgreiða rökræður um mikilvæga fræðigrein með þessum hætti er að mínu mati hin fullkomna uppgjöf og málefnalegt gjaldþrot. 

Bara að fleiri þjóðir ættu svona fræðimenn sem vita allt og ekki þarf að rökræða neitt um þeirra nálganir og eða aðferðafræði. 

Ég get í sjálfu sér ekki sett mig upp á móti því sérstaklega að fræðimaðurinn skuli afhjúpa sem með þessum hætti og gerast stjórnmálamaður enda er það alþekkt að fræðimenn hingað og þangað séu þekktir fyrir pólitíska stöðu.

Út frá þeirri stöðu taka þeir svo virkan þátt í gagnlegum rökræðum en Stefán Ólafsson er ekki þannig fræðimaður. Hann gerir sér enn upp hlutleysi fræðimannsins og er auk þess að tala um staðreyndir en þeir sem eru honum ósammála eru vondir menn sem kæra sig ekki um staðreyndir.

Ég held að Stefán ætti að skipta um rullu og fara að kannast við sjálfan sig.  Það styrkir hann en veikir ekki og svo ætti hann allra helst að reyna að halda styrk til þess að taka þátt í rökræðum um hans eigin verk en ekki afgreiða gagnrýni á hana eins og geðstirður áróðursmeistari.

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 14.7.2012 - 21:30 - 3 ummæli

Kjaftháttur þingmanns og fréttamat eyjunnar

Ritstjórn eyjunnar ákveður að gera kjafthátt Björns Vals Gíslasonar að frétt á síðunni einn ganginn enn í dag. Hvað fær þá sem stýra fjölmiðlum til að halda að þvi stærra sem menn taka upp í sig því merkilegra?


Áratuga löng minnimáttarkennd andstæðinga Davíðs Oddssonar er ekki lengur nokkur frétt. Reyndar er það nú þannig að þessi tiltekni þingmaður reynir sífellt að bæta sér upp skort á málefnastöðu með dónaskap eins og landsþekkt er og hann virðist vera á undanþágu frá því sem kallast mannasiðir í þinginu. Allir hættir að gera þá kröfu til hans….

Merkilegt er að fylgjast með krampanum sem fer um þá sem hvorki þola Davíð né moggann nú þegar blaðið virðist vera að ná vopnum sínum og reksturinn að skila hagnaði bankanum sem á skuldir hans til hagsbóta og þar með viðskiptavinum hans líka. 

Þingmaðurinn Björn Valur heimtar skýringar af hendi bankans og spyr hvort aðrir fái slíka þjónustu. Auðvitað veit hann ef það hentar honum að atvinnulífið hefur fengið afskrifað og þar með fjölmiðlar og sumir þeirra mun meira en mogginn.

Hann ætti að hafa heilsu til þess að fagna því að þeir sem eiga bankann virðast hafa veðjað á réttann hest þegar ákveðið var að selja þeim sem nú eiga blaðið. 

En það kann hann ekki eða skilur. Björn Valur telur nefnilega að bankinn eigi að taka pólitíska stöðu í málinu eins og hann sjálfur gerir. Þannig hugsa menn eins og Björn Valur sem sækir innblástur til hugmyndafræði sem gerir ráð fyrir því að misvitrir stjórnmálamenn, sumir jafnvel með eitt og annað í farteskinu, eigi öllu að ráða.

Það er svo sér stúdía hvers vegna eyjan.is gerir dellunni í þessum manni að frétt ítrekað sér í lagi ef hún er skreytt stóyrðum….

Röggi


Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 12.7.2012 - 16:02 - Rita ummæli

Eðli fjölmiðlaáhuga

Gaman að sjá að málsmetandi menn hafa skyndilega mikinn áhuga á því hvernig afkomutölur fjölmiðla eru. Einnig nýtist áunnin óbeit höfundar á útgerðarmönnum honum vel við skrifin og veitir innblástur án þess þó að það geri umræðunni nógu mikið gagn.


Í nýlegri sögu okkar hafa endutekið komið upp dæmi um gríðarlegar afskriftir og kennitöluæfingar með fjölmiðla og meira að segja falið eignarhald árum saman án þess að það raskaði ró sumra með áberandi hætti. 

Jú reyndar, þegar þeir sem áttu skuldir moggans afskrifuðu hluta þegar nýjir eigendur tóku við. Þá görguðu þeir á torgum sem áður höfðu þagað þunnu hljóði….

Og gera hvorutveggja enn eftir behag.

Röggi


Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 12.7.2012 - 14:51 - Rita ummæli

Grímur Atlason er skemmtilegur gaur og auk þess mikill Valsmaður og það er alltaf plús. Hann er skeleggur talsmaður skoðanna sinna og það getur líka verið plús.


Í dag fylltist Grímur heilagri vandlætingu vegna moggans og Davíðs Oddssonar. Það eru engin tíðindi svona almennt talað enda Grímur úr kreðsunni sem hefur aldrei jafnað sig á minnimáttarkenndinni gagnvart Davíð og þá mogganum auðvitað.

Það sem dregur Grím að tölvunni núna er annars vegar tap á rekstri moggans og hins vegar að Steingrímur J. er kallaður Júdas í blaðinu. 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 9.7.2012 - 19:35 - Rita ummæli

Rétttrúnaður fylgismanna fræðimanns

Eitt af því sem var fyrirséð þegar við fengum þessu hreinu vinstri stjórn til valda var að skilin á milli hægri og vinstri hlutu að skerpast. Nú dugur ekki lengur að nota gamla frasann um að sami rassinn sé undir öllum í pólitík. 


Þetta þóttu mörgum slæm tíðindi en ekki mér. Það er munur á milli og kostir og gallar hægri vinstri þvers og kruss sem við rífumst um okkur til dægradvalar með okkar innlendu aðferðum sem við köllum svo fyrir skemmtilegan misskilning rökræður.


Einn angi þessarar þróunar er að nú koma ýmsir úr felum sem hafa gert út á faglegt hlutleysi. Þetta er hvergi eins áberandi augjóst og í tilfelli fjölmiðla sem hirða sífellt minna um „hlutleysið“ og „óháið“ en áður og fyrr. 


En þetta sést víðar. Stefán Ólafsson stjórnmála og fræðimaður hefur fellt grímuna undanfarið. Það er vel og til eftirbreytni en lengi hefur það þótt fínt í okkar fræðimannasamfélaqi að gera út á hlutleysi en jagast fremur í þeim fræðimönnum sem hafa haft upplýstar pólitískar skoðanir. 


Sem er stórmerkileg nálgun á allan máta. Það er því full ástæða til þess að fagna þessu en eitthvað er meðgangan með þessari opinberum fræðmannsins kvalafull fylgismönnum hans sumum sem nú fara allnokkurn.


Það er í prinsippinu talsverð frétt þegar einn helsti fræðimaður okkar gerist skyndilega stórpólitískur í opinberri umræðu. Og það getur bara vel verið að það setji sumt af því sem hann hefur unnið að á undangegnum árum í nýtt samhengi. Af hverju ekki??


Þetta er ekki gamaldags hægri vinstri fætingur. Bévítans rétttrúnaðurinn ríður sem fyrr ekki við einteyming. 


Röggi


Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 5.7.2012 - 19:57 - Rita ummæli

Ég sá litla frétt áðan á stöð 2. Fréttin er um það hversu mikið mætti spara í pappírskostnaði með því að fá þingmönnum spjaldtölvur. 


Þetta hafa þjóðþing víða um lönd gert með góðum árangri og ódýrari. Fréttastofan bar þetta undir skrifstofustjóra alþingis sem sá á þessu meinbugi.


Og embættismaðurinn fullyrti að sumir þingmenn myndu aldrei fást til þess að nota þessa tækni. Merkilegt….


…og ég velti því fyrir mér hvernig slíkir þingmenn virka almennt talað. 


Alveg dæmigert hugsaði hann ég. Ríksiapparatið getur ekki hugsað út fyrir rammann og gamli skrifstofustjórinn ekki heldur. 

Ég er viss um að hér áður fyrr var hægt að finna þingmenn sem ekki vildu læra á tölvur almennt heldur nota bara bréfskriftir og síma. 


En þeir hafa væntanlega drattast með nútímanum og framförum á endanum, hvað annað.


Risaeðluáráttan lætur ek


Röggi

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur