Fimmtudagur 7.6.2012 - 20:52 - 1 ummæli

Að vera þjóðkjörinn

Það þykir sérlega smart að vera þjóðkjörinn. Forsetar eru þannig og það gefur styrk. Og stjórnmálamenn eru það að jafnaði líka. Og þeir sækja sér einnig styrk í þessa staðreynd.


Af því að þjóðin hefur talað. Hún talaði þegar hún mætti á kjörstað og lýsti því yfir síðast þegar mælt var hvernig viðkomandi mældist á vinsældaskalanum. Þetta er gott system. 


Svo fundu menn upp allskonar. Í dag er það stórmerkileg fræðigrein og útpæld hvernig á að hringja í fólk og mæla vinsældir þessa þjóðkjörna fólks á milli mála. Stjórnmálamenn og konur nota svo niðurstöður úr þessum könnunum eftir behag….


Reyndar er rétt að gera þann fyrirvara að þingmenn sem verða ráðherrar eru ekki þjóðkjörnir til ráðherraembættis og öðru nær. Þjóðin kýs fólk til að sitja löggjafarsamkomu sem á að vera aðskilin frá framkvæmdavaldi. 


En svo háttar til hér hjá okkur að sumir úr þessum hópi verða hvoru tveggja og ákveða svo lika hverjir verða dómsvald til að taka vitleysuna alla leið og gefa fullan skít í þriskiptingu valdsins. 


Ég nefnilega hjó eftir því í grein eftir forsætisráðherra að hún taldi sig þurfa aukinn styrk á bak við orð sín með því að tala um að hún væri þjóðkjörin.


Það er hún ekki heldur var makkað um málið á bakherbergjum eins og alltaf þegar ný þjóðkjörnir þingmenn eru að dunda sér við að taka sér framkvæmdavaldið til handargagns.


Jóhanna var aldrei kjörin til þess að verða ráðherra þó vinsældir hennar hafi  mælst miklar í aðdraganda og kjölfar síðustu kosninga. En varla er Jóhanna að vísa í slíkt enda mælingin nú um stundir langt fyrir neðan frostmarki og sígandi.


En það er önnur saga er það ekki


Röggi

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 7.6.2012 - 16:54 - 1 ummæli

Baráttan um kvótakerfið

Það verður að breyta kvótalögunum. Þessa setningu heyri ég tíðum og oft fylgja í kjölfarið gildishlaðnar yfirlýsingar um vonsku LÍÚ og þeirra manna, og kvenna, sem standa í útgerð. 


Lengi hefur þessi málflutningur hljómað sem tónlist í eyrum sumra en fékk þó ekki almennilegan hljómgrunn fyrr en hagstæðar rekstrartölur fóru að koma til. Tapið af útgerðinni vildu víst fáir. 


Ég man svo vel hvernig bransi útgerðarbransinn var fyrir kvótakerfi. Þeir hétu sægreifar í þá daga mennirnir sem sáu um að reka útgerðir með tapi og allir voru beint eða óbeint háðir ákvörðunum stjórnmálamanna sem felddu gengið eftir smekk svo allt gæti þetta nú „lifað“ áfram og byggðarsjónarmiðin ráðið þegar menn réru eftir því sem heitir í dag auðlindin okkar allra.


Ég veit ekki hvernig best er að haga því að útgerðir greiði gjald fyrir veiðiréttinn en finnst gott að allt í kringum borðið viðurkenna menn að það þurfi að útgerðin að gera. 


En finnst bjagað að stjórnmálamenn telji sig þess umkomna að mega einir hafa skoðun á málinu og fylgja henni eftir að vild á þeirri forsendu helstri að þeir séu þjóðkjörnir. 


Ljótt er ef hagsmunaaðilar mega ekki lengur taka sér stöðu gegn stjórnmálamönnum sem sitja í ráðherrastólum. 


Jóhanna Sigurðardóttir er af gamla skólanum og það þarf svo sannarlega ekki að vera til vandræða. Enda er það ekki þannig alltaf en þó of oft. Fyrir henni er slagurinn um kvótakerfið hápólitískt mál fyrst og fremst en langsíðast viðskiptalegt og hagfræðilegt úrlausnarefni.


Steingrímur er einnig af þessum sama skóla. Hann álítur að hagnaður sé þjófnaður sem ber að skila til ríkissins svo stjórnmálamenn geti sullað með peningana. 


Þau tvö eru að mér virðist í einkastríði í þessu máli og hafa ekki áhuga á að taka þátt í umræðunni. Gömul slagorð eru týnd til og þau verða svo ekkert gáfulegri þó ungir þingmenn taki þau sér í munn. 


Útgerðarmenn eru vont fólk sem vill ekki greiða til samfélagsins. Þetta er 
útgangspunkturinn. Þaðan er baráttan háð. Og haldið áfram að kifa á þessu seint og snemma til að viðhalda stöðunni um vondu útgerðarmennina og góðu stjórnmálamennina.


Nú er það þannig að ekki er unnt að finna neina hagsmunaaðila hverju nafni sem þeir kunna að nefnast sem styðja þá útfærslu sem ríkisstjórnin hefur valið og kann ekki að bakka út úr. 


Fræðimenn hafa ítrekað skoðað og ályktað, verkalýðshreyfingin hefur talað, samtök sjómanna………..listinn nær alla leið….


….að þingflokksherbergjum Samfylkingar og VG. 


Þar sitja handhafar sannleikans í turninum góða og þurfa ekki að hlusta. Og klaga svo í þjóðina þegar fólk kýs að vera á öndverðum meiði og berjast fyrir þeirri skoðun.


Ég fíla ekki svona stjórnmálamenn


Röggi









Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 20.5.2012 - 22:10 - Rita ummæli

Kosningabaráttan er hafin. Ríkisstjórnin fékk draghalta Hreyfingu með sér við smíði kosningaloforða. Hreyfingin hefur engu að tapa þegar þar er ákveðið að hlaupa undir bagga með farlama ríkisstjórn. Þarna leiðir haltur blindan. 


Stefið er gamalkunnugt og loforð Jóhönnu um svo og svo mörg þúsund ný störf gamall söngur. 



Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 17.5.2012 - 07:24 - 5 ummæli

Að þola ekki Ólaf Ragnar

Mikið virðist það vera gefandi að þola Ólaf Ragnar alls ekki. Hann hefur áratugum saman haft þau áhrif á andstæðinga sína að fara yfirgengilega í þeirra fínustu taugar.


Maðurinn er enda allt að því óþolandi á löngum köflum. Enginn frýr honum þó vits og góðu dagarrnir hans eru helvíti góðir. 


Ólafur lýtur engum lögmálum öðrum en þeim sem hentar honum. Þannig hefur það alltaf verið og stuðningsmenn hans hafa komið og farið eftir því hvernig hagsmunir hans henta fólki hverju sinni.


Þeir sem gagnrýna hann harðast núna eru flestir marklausir eftir skilyrðislausa fylgispekt við Ólaf Ragnar í gengum þykkt og þunnt alveg þangað til hann gleymdi „línunni“.


Hvar var allt þetta fólk þegar Ólafur Ragnar gerðist það sem nú er kallað klappstýra útrásarinnar? Hvar var liðið sem nú ryðst fram á ritvöllinn knúið heilagri vandlætingu þegar forsetinn þeirra breytti embættinu í pólitík fyrsta sinni? 


Þá var ýmist þagað þunnu hljóði eða fagnað allt eftir hentugleika og enn eru menn við það sama heygarðshorn….


Þetta fólk ætlar svo ekki að una Ólafi að heyja baráttu fyrir endurkjöri. það er hreinlega hlægilegt og krampakennd umræðan sem fylgir dapurleg. 


Ólafur Ragnar hefur valið að beina spjótum sínum að Þóru Arnórsdóttur enda hún líklegust til að velgja honum undir uggum. Af einhverjum ástæðum virðast fylgismenn hennar telja það hina mestu ósvinnu. 


Það er þannig að flestum ætti að þykkja mjög mikilvægt að allt sé uppi á borðum varðandi frambjóðendur til embættis forseta og ekki verður annað sagt en að andstæðingar Ólafs leggi sig mjög fram um að halda öllu því í umræðunni sem þeir telja honum til lasts. 


Ég held að sú aðferð stuðningsmanna Þóru að reyna að láta baráttuna snúast um ókosti Ólafs Ragnars frekar en kosti Þóru sé misráðin. Og sú taktík að neita því að Þóra hafi „óhentugar“ skoðanir í nútíð eða fortíð er beinlínis skaðlegt fyrir hana og eykur tortryggni. 


Nauðsynlegar vangaveltur um embættið komast ekki að fyrir leðjuslag þar sem menn keppast við að hæla þeim sem sniðugastur er að smíða fyrirsagnir um Ólaf Ragnar.


Frambjóðendur til embættis forseta eiga og verða að hafa upplýstar skoðanir en mér sýnist taktik Þóru vera að hafa þær helst ekki og reyna að segja töfraorðið sameiningartákn eins oft og mögulegt er án þess að gera nokkra tilraun að útskýra hvað þar er átt við eða hvernig þessi tákn munu birtast okkur kjósendum.


En vonandi hressist Eyjólfur og kosningabaráttan fer að snúast um eitthvað annað en pólitísk særindi og langækni andstæðinga Ólafs Ragnars. 


Ég reyndar legg ekki mikið undir þar….


Röggi

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 14.5.2012 - 22:28 - Rita ummæli

Hreyfingin fékk sér kaffisopa í ráðherrabústað. Það þykir sumum merkilegt og sjá í þessum molasopa allskonar plott. 


Slíku neita þingmenn Hreyfingarinnar eindregið og upplýsa að þau hafi þegið sopann til þess að segja vanmáttugri ríkisstjórn að þau muni greiða atkvæði með þeim málum sem þeim lýst vel á.

Þarf að boða til hátíðarfunda til að koma þessum boðskap til skila? Af hverju getur Hreyfingin ekki viðurkennt að hún hyggst tryggja áframhaldandi líf þessarar vesalings stjórnar komi til þess að að henni verði sótt vantraust.

Ég geri ekki athugasemdir vilji Hreyfingin gerast stuðningshjól Jóhönnu og Steingríms. Það er heilmikil yfirlýsing en hin að flokkurinn hyggist styðja góð mál úr eigin smiðju eru engin tíðindi. 

Óttinn við kosningar hefur mörg andlit. 

Röggi


Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 14.5.2012 - 22:18 - Rita ummæli

Alveg stórmerkilegt að Hreyfingin þurfi a

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 14.5.2012 - 22:16 - Rita ummæli

Í persónu Ólafs Ragnars Grímssonar kristallast íslensk drullumallspólitík. Hann hefur á sínum 16 árum á Bessastöðum sveiflast til og frá á hinum pólitíska mælikvarða með stefnumarkandi ákvörðunum út og suður án nokkurs umboðs. 


Hann hefur þjónað hagsmunum stjórnmálamanna á báðar áttir á sinum tíma í embætti. Og það er skemmtilegur taktur í því þegar hin prínsippslausu stjórnmál kunna ekki að hafa eina rökstudda skoðun á embættinu sem Ólafur Ragnar gegnir.


Þeir sem komu honum í embættið og ólu hann þar upp eiga ekkert erindi með það í dag að þykjast vera í fýlu vegna þess að Ólafur Ragnar stundar stjórnmál frá Bessastöðum.


Í dag snýst allt um að koma honum frá og planta rétthugsandi og „ópólitískum“ frambjóðanda í embættið. Glæpurinn er framinn og héðan í frá verður enginn forseti ópólitískur. 




Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 14.5.2012 - 21:32 - 3 ummæli

Ögmundur og pólitískar ráðningar

Félagi Ögmundur hefur það umfram svo marga aðra stjórnmálamenn að segja oftar en ekki það sem hann meinar eða hugsar. Þetta er auðvitað til merkilegrar eftirbreytni en athyglisvert að karlinn nýtur þessara eðliskosta sinna takmarkað til vinsælda eða virðingar.


Það stafar ef mér skjöplast ekki af því að fólk metur þessa hreinskilni hans minna en þær skoðanir sem hann viðrar reglubundið án ritskoðunar eða hentugleikakönnunar þegar hugsað er um pólitískan skyndigróða.


Ögmundur er samviska VG. Hann rígheldur í flokkinn og þau gildi sem hann á að standa fyrir en formaðurinn hefur týnt í ráðherrastólnum. Enda reynist það svo að hann rekst illa og er með óþægindi. 


Ég kann hins vegar að meta hreinskilni hans og hann minnir mig á það ítrekað af hverju ég er hægri maður en ekki vinstri. 


Nú er það þannig að nöldrandi andstæðingar á þingi og stöku fjölmiðlamenn hafa verið að hafa skoðun á því að Guðbjartur Hannesson skipaði gamlan flokksbróðir og þingmann stjórnarformann íbúðarlánasjóðs. 


Staurblindir sjá að þessi ráðning er pólitík. Venjubundin viðbrögð þegar á slíkt er bent er að neita án afláts að málið sé þannig vaxið og til vara að aðrir hafi og séu ekki betri. 


Það er hinn hefðbundi skollaleikur sem okkur er boðið upp á og klassísk loforð úr gleymdum kosningabaráttum um gagnsæi og nýja tíma horfin í rykmekki. 


Þá kemur félagi Ögmundur til keppni strangheiðarlegur og lýsir því yfir kokhraustur mjög að svona eigi þetta að vera. Hann er trúr lífsskoðunum sínum og veit að allt er best þegar stjórnmálamenn eins og hann sjálfur fær að ráða án afskipta almennings sem veit svo fátt.


Auk þess trúir Ömmi okkur fyrir því að þessi tiltekni maður sé sérstakt valmenni og eigi því allt gott skilið og ívið meira en það jafnvel. Dreg ég það ekki í efa en það kemur umræðunni nákvæmlega ekkert við.


Það er eitthvað stórlega bogið við þessa nálgun Ögmundar. Þá hugsun að þó menn hafi skolast í gegnum kosningar og inn á þing eða lengra að þá séu skoðanir viðkomandi svo mikilvægar og sterkar að almenn viðmið um ráðningar eins og þessa séu í raun óþarfar.


Þetta er hættuleg hugsun og þó alltof margir nenni ekki að hafa skoðanir á því hver situr við borðendann á fundum í einhverjum sjóði er mikilvægt að reyna að átta sig á að það er einmitt þessi árátta sem við þurfum að losna við. 


Við þurfum ekki að úthluta stjórnmálamönnum meiri völd ef ég er spurður. Og við eigum að vera hvumsa þegar öndvegismenn eins og félagi Ögmundur hefur engan kinnroða þegar hann játar glæpinn…..


Röggi



Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 7.5.2012 - 21:41 - 4 ummæli

Forsjár og eftirlitsbransinn

Hvar værum við stödd ef ekki væri fyrir ábyrga stjórnmálamenn sem gæta þess að við förum okkur ekki að voða? Ég er að tala um þá tegund slíkra sem telja fyrir einhvern stórmerkilegan misskilning að þeir sjálfir séu best til þess fallnir  að hafa vit fyrir okkur í stóru og smáu. Forsjárhyggjustjórnmálamanninn…

Þessi áhugaverða tegund þjóðkjörinna einstaklinga finnast eiginlega eingöngu í vinstri flokkum og þegar þeir komast til valda einir og sér er voðinn næsta vís. 

Í aðalatriðum verður allt meira og minna bannað og til vara ekki heimilt nema með leyfi opinberra aðila. Ef við, þjóðin, hyggjumst hreyfa okkur eitthvað þarf að þræða ótrúlegan frumskóg stofnana sem nærast á því að láta okkur borga fyrir leyfi til þess að fá leyfi til að spyrja næstu stofnun hvort hið fyrra leyfi sé í lagi. 

Sleppi þetta í gegn þarf svo að fá umsóknir frá ýmsum stofnunum þar sem sitja sérfræðingar sem eru til í að segja hvað þeim finnst gegn gjaldi. Þessi skemmtilega hringrás lifir sjálfstæðu lífi og hvatinn til að krefja okkur um fleiri heimsóknir er viðblasandi.

Þessi mergjaða saga er klassískt dæmi um svona. Þarna blasir við okkur eftirlitsiðnaðurinn. það er merkilegur iðnaður sem vex af sjálfu sér eins og lúpínan og því fleiri kröfur sem þar er hægt að gera á okkur því merkilegri verður bransinn. 

En það er eins með þetta og ýmislegt annað að fátt gerst af sjálfu sér. Það er bara þannig að nú ræður fólk sem trúir því inn að beini að öllu sé best fyrir komið hjá ríkinu og stofnunum þess. 

Þetta ágæta fólk unir sér svo vart hvíldar þegar kemur að forsjárhyggjuáráttu sinni og framleiðir stofnanir og leyfisnefndir vopnaðar reglugerðum sem hafa í raun ekki annan tilgang en að hafa eftirlit með hvor annarri. 

Og láta mig og þig borga brúsann um leið og allt frumkvæði einstaklinga er drepið niður á þeim tímum þegar við þurfum örugglega meira af frumkvæði einstaklinga og eftirspurn eftir samsvarandi frá forsjárhyggjuliðinu lítil eða engin.

Er ekki hægt að koma á fót stofnun þar sem fer af stað flókið ferli í hvert sinn sem fólk reynir að koma á fót vinstri stjórn? 

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 24.4.2012 - 22:33 - 3 ummæli

Að gengnum dómi

Þá vitum við það, Geir Haarde var óduglegur að halda ráðherrafundi. Mig minnir reyndar að Samfylking hafi á þessum tíma átt í umfangsmiklu basli með að fá ráðherra sína til að halda trúnað um nokkurn skapaðan hlut og því kannski ekki fundafært um mál sem ekki mátti komast í umræðuna þá.


Ég veit það eins og þeir sem þetta lesa að þó að við verðum að bera virðingu fyrir reglum og lögum að það sem Geir Haarde var fundið til foráttu fyrir þessum dómi hefur fram til þessa ekki truflað nokkrun mann og var klárlega ekki það sem knúði þingheim kvöldið sem hann var ákærður. 


Það er í raun alveg sér móðgun að Steingrímur Sigfússon skuli hafa heilsufar í að nefna það nú að lög um landsdóm þurfi að endurskoða. Ekki mikill manndómur hjá honum blessuðum og að manni læðast allskyns hugsanir um að karlinn finni undarlegan hita þegar hann setur sjálfan sig inn í mengið. 


Léttadrengir og stúlkur í umræðunni sem ekki kunna að skammast sín fyrir stuðninginn við ósómann ætla að nýta sér ræðu sem Geir hélt eftir dómsuppkvaðningu af nokkurri vanstillingu til þess að næra pólitíska óvild sína til bæði Geirs og flokksins hans. 


Þetta sama fólk hafur sumt skrifað af ótrúlegum barnaskap um það hversu bráðhollt það væri Geir að fá hreinsa mannorð sitt fyrir landsdómi. það væri í raun hans lán. Ég kemst ekki hjá því að hugsa um viðbrögðin verði einn úr „rétta“ liðinu ákærður og leiddur fyrir þennan landsdóm sem nú er skyndilega tímaskekkja. 


Umboðsmenn þeirrar ákvörðunar að ákæra Geir fóru sneypuför og það er hreinlega gaman að fylgjast með fólki gera þann ákærulið sem sakfellt var fyrir að landráðum. 


Ekkert af þvi sem var til umræðu þegar smáir stjórnmálamenn ákváðu að forða sínum en ákæra einn var nothæft fyrir landsdómi. 


Hvernig er hægt að gleyma umræðunni? Hitanum og fullvissunni um  sektina. Stóryrðum gildishlöðnum um að bara ef Geir hefði ekki verið þetta eða hitt þá hefði ekkert hrunið. Hvernig líður fólkinu sem ætlaði að ná sér í snöggsoðinn pólitískann skyndibita með þessu? 


Min skoðun á landsdómi hefur ekki breyst og mun ekki gera það. Ég er á móti pólitískun réttarhöldum. En ég er voða hræddur um að þeir sem berjast veikum mætti við að lesa gríðarlegt mikilvægi út úr þessum skrípaleik muni fyrr en seinna kynnast því að byltingin étur stundum börnin sín.


Fólkið sem fagnaði því hvernig forsetinn þeirra virkjaði málskotsréttinn snarsérist svo algerlega þegar þessi sami forseti fór að nota þann rétt á „rangan“ hátt fyrir „rangan“ málsstað.


Þetta er sama fólkið og sér allan sigur í þessu ömurlega máli en er þó nú þegar farið að daðra við hugmyndina um að aftengja landsdóm. Sagan endurtekur sig stundum og hentistefnupólitíkin nær alltaf á endanum í skottið á fólki.


Röggi

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur