Það var vissulega fyrirséð að ekki yrði auðvelt að halda úti ríkisstjórn eftir hrunið. Ég spáði því að hér yrði kosið tvisvar til þrisvar næstu árin. Þá tók ég mið af heimssögunni og fræðum tengdum stjórnmálum.
Sumir segja að ekkert sé nýtt undir sólinni en þegar kemur að ríkisstjórn VG og Samfylkingar kemur í ljós að þau sannindi ná ekki til Íslands.
Ég veit að í samstarfi flokka gengur oft mikið á þótt oftast takist að halda andliti út á við. Flokkar geta verið ólíkir um svo margt þó þeim takist í bjarmanum af ráðherrastólum að lemja saman samstarfsamningi.
En það sem VG og Samfylking bjóða upp á er nýlunda. Látum vera þó kúrsinn sem tekinn í björgunarleiðangrinum sé í átt að eyðileggingu. Stjórnmálamenn mega vera grjótvitlausir enda starfa þeir í umboði þeirra sem þá kusu og trúðu á boðskapinn.
En að bjóða upp á þann farsa sem blasir við okkur nær daglega er hreinlega móðgun við alla skynsemi. Flokkarnir tveir hafa bókstaflega hvergi sameiginlega nálgun eða snertifleti. Samfylking reynir án afláts að sverja allt af sér sem flokkurinn á sömu stundu skrifar upp á við ríkisstjórnarborðið og svo þumbast fulltrúar flokksins mismikið undir nafni í kyngimögnuðu baktali í allra eyru.
Það er leitun að Samfylkingarmanni sem getur lagt þingflokki VG til gott orð. Frá upphafi hefur verið ljóst öllum sem vilja sjá að VG hefur haft hreðjatak á Samfylkingu. Slíkur er kostnaður Samfylkingar við ESB umsóknina. VG hefur leikið lausum hala og farið um efnahagslíf okkar með boðum og bönnum og skattaæði.
Sumir segja að mesta afrek Jóhönnu sé að hafa ekki misst flokkinn upp í allsherjar uppreisn gegn þessu leikhúsi fáránleikans sem samstarfið við VG er og hefur verið frá fyrsta degi. Kannski er heilmikið til í því.
Núna loksins virðist sem þolinmæðin sé endanlega á þrotum. Ég held að það mál sé í raun og vera þannig að Samfylkingin er að sjá að Steingrímur J Sigfússon, Jón Bjarnason, Ögmundur Jónasson og Indriði H séu í raun og vera með liðónýtar lífsskoðanir í pólitík og efnahagsmálum…..
…og ekki sé lengur verjandi að leggja heilann stjórnmálaflokk undir með þeim kostnaði sem klárlega mun verða umtalsverður í kjörklefanum.
En, Samfylkingin hefur áður farið á límingum vegna ekki bara framkomu ráðherra VG heldur þeirra grundvallarprinsippa sem sá flokkur vinnur eftir og kokgleypt allt.
Hversu lengi og hversu mikið er hægt að standa í slíku? Er öllu til fórnandi?
Það er á ábyrgð Samfylkingarinnar að halda ríkisstjórn VG lifandi. Samfylkingin er ekkert annað en hækja VG og lætur hvað sem er yfir sig ganga.
Það mun verða kostnaðarsamt og getur ekki haft góð áhrif á stóra málið sem Samfylking vill koma á koppinn…..
Röggi