Miðvikudagur 7.12.2011 - 20:36 - Rita ummæli

Eitt af því sem blasir svo við þegar maður les bókina um Icesave skandal Steingríms og Svavars og er í raun gegnumgangandi er vesældómur fjölmiðla í málinu.Þeir voru upp til hópa alveg liðónýtir allan þann tíma sem það mál tók.

Mér varð hugsað til þess þegar ég heyrði Jóhönnu Vigdísi þingfréttakonu taka viðtal við Steingrím J kvöld. Viðtalið var tekið vegna umræðna um fjárlög ríkissins. Fréttamaðurinn hafði jafnvel enn minni áhuga en Steingrímur á því að ræða efnisatriði frumvarpsins og því var talinu beint frá frumvarpinu og að ráðherraskiptum fyrirhuguðum.

Jóhanna Vigdís er greinilega hin mætasta kona en ef hún hefur ekki tíma eða nennu til þess að spyrja gagnrýnna spurninga er kannski best að hún geri eitthvað annað en að vera fréttamaður með starfsstöð á alþingi.

Refur eins og Steingrímur J snæðir svona fréttamennsku eins og ekkert sé. Þannig hagaði hann sér líka í kringum allt Icesave hneykslið sitt og fjölmiðlar brugðust algerlega skyldu sinni og virðast ætla að halda áfram að gera það þegar Steingrímur J Sigfússon á í hlut.

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 7.12.2011 - 17:12 - 4 ummæli

Danskt bankahrun?

Getur verið að Danmörk sé að fara að ganga í gegnum bankahrun? Sérfræðingarnir sem hafa siglt keikir yfir hafið og messað yfir okkur molbúum hér í norðrinu og sagst hafa vitað allt en við skellt skollaeyrum.

Á Íslandi er það þekkt staðreynd meðal léttadrengja í leit að skjótfengnum pólitískum ágóða að heimshrun bankakerfis hefðu hérlendir menn, líklega tveir að tölu, átt að sjá fyrir. Og ekki einungis það. Þeir hefðu átt að koma í veg fyrir óskundann.

Danir hljóta að íhuga framsal…

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 6.12.2011 - 12:46 - Rita ummæli

Ég er nefnilega sammála Halli Magnússyni þegar hann sér Árna Pál styrkja sig í sessi innan Samfylkingarinnar. Mér sjálfum finnst hann löngum stundum algerlega óskiljanlegur jafnvel þó hann komi óbrjáluðum setningum frá sér en hann er samt mjög líklegur.

Kannski mest vegna þess að hann langar svo mikið að verða formaður Samfylkingar. Það hefur hann umfram aðra sem í þeim flokki eru. Jóhanna situr af því að ekki hefur tekist friður um næsta mann og ekki af annarri ástæðu.

Samfylkingu er mikið í mun að láta allt líta út fyrir að vera slétt og fellt. Að styrkurinn felist í því að engin umræða eða átök séu innan flokksins. Allir í einni sæng að róa af krafti í eina átt. Þannig er staðan ekki og að mínu viti ekkert betra að bíða með það að finna flokknum nýjan leiðtoga.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 5.12.2011 - 10:12 - Rita ummæli

Ég var að hugsa um skrifa eitthvað neikvætt um Gillz því þá ætti ég talsverða möguleika á því að fá pláss á DV.is. Grafa jafnvel eitthvað upp einhver ummæli gömul sem hægt er að setja í óhagstætt samhengi fyrir manninn á þessum tímapunkti. Ekki er þorandi að fjalla um hann á jákvæðan hátt. Þá kallar maður yfir sig reiði guðanna…..

DV hefur komist að niðurstöðu í málinu. Rannsakað og dæmt og hamast á málinu enda söluvænt. Gillz liggur vel við höggi

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 3.12.2011 - 10:33 - Rita ummæli

Ég sit hikandi og velti því fyrir hvort ég eigi að fjalla um ýmsar hliðar ákærunnar á hendur Gillz. Ég geri mér grein fyrir því að vegna stöðu hans er málið til öðruvísi umfjöllunnar en annarra en er hugsi yfir sumu af því sem ég hef lesið nú þegar.

Drífa Snædal tjáir sig og hefur nú þegar rannsakað málið og dæmt í því. Það er reyndar þannig að Drífa þessi myndi fyrir öðrum dómstólum en götunnar teljast vanhæf vegna fyrri samskipta við ákærða í málinu.

Það sem skiptir máli hér er að fólk sýni stillingu og taki ekki of fljótt í gikkinn eins og Drífa gerir. Ég þekki ekki til svona mála en treysti mér þó til þess að vera sammála því að það þarf kjark til þess að ganga þann veg sem þessi stúlka gerir.

Og það þarf líka kjark til þess að dæma menn eins og Drífa gerir án þess að vita mikið annað um málið en að kærur ganga á milli. Og það þarf líka nokkurt skilningsleysi á því góða prinsippi að allir eru saklausir uns sekt er sönnuð.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 2.12.2011 - 13:13 - Rita ummæli

Pólitík er þannig tík að þar tekst fólk á um hugmyndir og aðferðir. Þessi átök eru oftast hreinn og beinn slagur þó við sem fylgjumst með verðum helst vör við atið þegar fætingurinn verður persónulegur eða þegar rennur í skap alþingismanna í ræðustóli.

Galdurinn hlýtur að vera sá að vera sammála um að vera ósammála. Stundum falla orð sem eru ómöguleg og jafnvel meiðandi og svo gerist það að fyrrum samherjar verða á augabragði andstæðingar með tilheyrandi særindum og gusugangi pólitískum.

Þá getur það gerst og gerist nú um stundir að virðing fyrir stofnuninni fellur niður undir frostmark. Við erum flest meðvituð um að það er afleit staða því ef við þurfum einhvern tíma á þvi að halda að virðing fyrir stofnunum samfélagsins haldi er það við þær aðstæður sem nú eru. Stjórnarandstaða gengur úr sal við undir atkvæðagreiðslu um fjárlög í mótmælaskyni.

Sumir alþingismenn hafa engan skilning á mikilvægi slíkra hluta og telja sig búa í eigin heimi þar sem hefðir og reglur eru til brúks fyrir aðra. Álfheiður Ingadóttir er slíkur þingmaður. Hún situr á þingi en hefur þó hvatt fólk til að ráðst gegn lögreglunni telji borgararnir það nauðsynlegt.

Hún þolir ekki lengur Ólaf Ragnar og telur því að á þeim forsendum geti hún og megi bara láta eins og embætti forseta sé ekki til. Hún geti bara viðurkennt embætti forseta þegar sá sem þar situr gerir það sem henni finnst best.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 30.11.2011 - 15:52 - 3 ummæli

DV nauðgar fjölmiðli

Öllum getur orðið á. Gert mistök sem ekki þarf endilega að rekja til mannvonsku eða vilja til að meiða. Af einhverjum ástæðum eiga fjölmiðlar og fjölmiðlamenn erfitt með að játa mistök. Það er mannlegt og jafnvel eðlilegt að reyna að komast hjá slíkum óþægindum.

DV gerir auðvitað mistök annað veifið enda er blaðið skrifað af fólki og við erum öll manneskjur og gerum mistök. Slíkt er að sjálfsögðu hægt að fyrirgefa. En þá þarf að biðjast afsökunar.

Við þurfum ekki að vera sérmenntuð í fjölmiðlafræði til að sjá að svona vinnubrögð DV eru fyrir neðan allar hellur og eru auðvitað ömurleg mistök. Fall í fjölmiðlafræði 101 og tilraun til að sverta fólk sem hefur í engu unnið til þess.

Hef samt á tilfinningunni að eitthvað verði snúið fyrir blaðið að finna hvöt til að biðjast afsökunar þó að í þessu tilfelli sjái auðvitað allir menn að um ótrúlegan fantaskap er að ræða.

Það þarf heilmikinn orðhengilshátt og óskammfeilni í bland við útúrsnúningaáráttu til að biðjast hreinlega ekki bara afsökunar.

Við sjáum til…..

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 30.11.2011 - 12:12 - 3 ummæli

Jón Bjarnason er leiðtoginn

Jón Bjarnason er magnaður maður. Hann hefur stýrt skóla og nú stýrir hann stórum og mikilvægum ráðuneytum og enginn veit beinlínis af hverju. Tilsvör mannsins þegar hann er undir smá ágjöf gefa annað tveggja eindregið til kynna.

Annað hvort er hann óhemjuskemmtilegur maður og fyndinn eða algerlega óhæfur til þeirra starfa sem hann hefur tekið að sér. Hvergi í heiminum kæmist ráðherra upp með að svara algerlega út í hött þegar hann er spurður nema menn reikni hreinlega ekki með svari. Sé það þannig segir það meira en mörg orð…..

Hitt er svo aftur morgunljóst að Jón Bjarnason er auðvitað glæstur fulltrúi skoðana VG þó hann eigi ekkert erindi með þær inni í þeirri ríkisstjórn, og reyndar engri ríkisstjórn, sem nú rær í allt aðra átt en VG.

Jón Bjarnason hefur því ekki gert annað en að fylgja sannfæringu sinni og stefnumálum VG af einurð og festu. Það er formaður VG og þeir sem fengið hafa ráðherrastóla og sporslur aðrar sem hafa villst af leið sælir af setunni við kjötkatlana.

Jón Bjarnason er í mínum helsti leiðtogi hugmyndafræði VG og baráttumaður. Steingrím hefur aftur á móti borið af leið og hefur við illan leik tekist að forða klofningi hinum seinni. Sá mun vera óhjákvæmilegur með öllu hvort sem það verður fyrr eða seinna.

Þá munu Jón Bjarnason og fylgismenn hans hugmynda losna við Steingrím sem hefur fengið ráðherraveiki sem birtist þannig að hann man ekki lengur fyrir hvað hann stendur, eða stóð öllu heldur. Það eina sem skiptir hann máli er að vera ráðherra.

Þegar þetta gerist fer fylgi VG fara niður í það sem það á auðvitað að vera……

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 28.11.2011 - 10:17 - 10 ummæli

Einangrunarþrá og fjárfestingaróttinn

Það er kannski ekki að furða að ástandið hjá okkur sé skrýtið. Við erum rétt að reyna að ná áttum eftir hrunið og landinu stýrir einhversskonar ríkisstjórnarlíki. Því er haldið að okkur að allt sem heitir frelsi, einka og markaðsbúskapur sé vont en ríkiseign og ríkisrekstur sé góður.

Gamlir ráðstjórnarríkiskommar ráða för og eins og stundum áður er þar hver höndin upp á móti annarri. Slíkir hafa ekki bara óbeit á atvinnulífi öðru en ríkisreknu heldur eru einnig haldnir krónískri einagrunarþrá sem birtist helst í hræðslu við allt sem er útlenskt.

Í gær sá ég þannig mann tala í silfri Egils. Arkitektinn Jón Þórisson hélt því fram að iðnaður hvort sem hann heitir stór eða ferða skilaði þjóðinni litlu ef nokkru þegar upp er staðið. Þetta hafði maðurinn eftir Indriða H og virtist sannfærður.

Sjaldan hefur Agli Helgasyni tekist að draga annan eins niðurrifsmann í salinn til sín. En menn sem tala svona virðast eiga greiðan aðgang að umræðunni og kannski verður það á endanum þannig að við bönnum eiginlega allt sem kemur frá útlöndum.

Sér í lagi ef það heitir fjárfesting. Útlendingar með þannig hugmyndir eru dæmdir á Íslandi. Þeir eru hættulegt fólk vegna þess að þeir vilja fjárfesta og hagnast í leiðinni. Hrunið kom óorði á fjárfestingarbransann vissulega og þeir sem aðhyllast ríkisvæðingu hlutanna eru að gernýta sér ástandið.

Ef VG réði yrðum við norður Kórea. Einangruð og hrædd við allt sem er útlenskt. Myndum hokra hér í öruggu skjóli ríkissins að selja hvort öðru rækilega niðurgreitt lambakjet óhult fyrir erlendu fjármagni og fjárfestingum vondra manna sem vilja hagnast. Í ríki VG græðir enginn nema ríkið.

Eina fjármagnið sem má koma hingað er erlent lánsfé til að fjármagna rekstur alríkissins þegar ekki er lengur hægt að kreista meira úr vösum þjóðar sem á ekki möguleika.

Við viljum vera ein í heiminum. Öldungis alein og áháð og ekki í þeirri bráðahættu að hingað horfi menn sem sjá möguleika á að byggja upp atvinnulíf og hagnast í leiðinni. Við skulum banna slíku fólki að koma hingað.

Við skulum bara vera undir forsjá stjórnmálamanna eins og þeirra sem ráða ríkjum núna. Þeir passa upp á enginn missi sig í góðar tekjur og vernda okkur fyrir velsældinni.

Þeir sem mest mega sín í umræðunni er fólk sem trúir því að stjórnmálamenn/ríkið muni með galdraaðferðinni koma og redda okkur. Allt sem þurfi sé bara góður vilji og engin stjórnarandstaða.

Stjórnmálamenn munu ekki bjarga hlutunum með því að taka okkur hlýlega öll undir sinn verndarvæng. En þeir geta svo sannarlega komið í veg fyrir að þjóðin geti verið sjálfbjarga.

Að því vinna gömlu kommarnir daglega í umboði búsáhaldabyltingar sem hefur fyrir löngu étið öll börnin sín.

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 27.11.2011 - 15:34 - 4 ummæli

Samfylking er hækja VG

Það var vissulega fyrirséð að ekki yrði auðvelt að halda úti ríkisstjórn eftir hrunið. Ég spáði því að hér yrði kosið tvisvar til þrisvar næstu árin. Þá tók ég mið af heimssögunni og fræðum tengdum stjórnmálum.

Sumir segja að ekkert sé nýtt undir sólinni en þegar kemur að ríkisstjórn VG og Samfylkingar kemur í ljós að þau sannindi ná ekki til Íslands.

Ég veit að í samstarfi flokka gengur oft mikið á þótt oftast takist að halda andliti út á við. Flokkar geta verið ólíkir um svo margt þó þeim takist í bjarmanum af ráðherrastólum að lemja saman samstarfsamningi.

En það sem VG og Samfylking bjóða upp á er nýlunda. Látum vera þó kúrsinn sem tekinn í björgunarleiðangrinum sé í átt að eyðileggingu. Stjórnmálamenn mega vera grjótvitlausir enda starfa þeir í umboði þeirra sem þá kusu og trúðu á boðskapinn.

En að bjóða upp á þann farsa sem blasir við okkur nær daglega er hreinlega móðgun við alla skynsemi. Flokkarnir tveir hafa bókstaflega hvergi sameiginlega nálgun eða snertifleti. Samfylking reynir án afláts að sverja allt af sér sem flokkurinn á sömu stundu skrifar upp á við ríkisstjórnarborðið og svo þumbast fulltrúar flokksins mismikið undir nafni í kyngimögnuðu baktali í allra eyru.

Það er leitun að Samfylkingarmanni sem getur lagt þingflokki VG til gott orð. Frá upphafi hefur verið ljóst öllum sem vilja sjá að VG hefur haft hreðjatak á Samfylkingu. Slíkur er kostnaður Samfylkingar við ESB umsóknina. VG hefur leikið lausum hala og farið um efnahagslíf okkar með boðum og bönnum og skattaæði.

Sumir segja að mesta afrek Jóhönnu sé að hafa ekki misst flokkinn upp í allsherjar uppreisn gegn þessu leikhúsi fáránleikans sem samstarfið við VG er og hefur verið frá fyrsta degi. Kannski er heilmikið til í því.

Núna loksins virðist sem þolinmæðin sé endanlega á þrotum. Ég held að það mál sé í raun og vera þannig að Samfylkingin er að sjá að Steingrímur J Sigfússon, Jón Bjarnason, Ögmundur Jónasson og Indriði H séu í raun og vera með liðónýtar lífsskoðanir í pólitík og efnahagsmálum…..

…og ekki sé lengur verjandi að leggja heilann stjórnmálaflokk undir með þeim kostnaði sem klárlega mun verða umtalsverður í kjörklefanum.

En, Samfylkingin hefur áður farið á límingum vegna ekki bara framkomu ráðherra VG heldur þeirra grundvallarprinsippa sem sá flokkur vinnur eftir og kokgleypt allt.

Hversu lengi og hversu mikið er hægt að standa í slíku? Er öllu til fórnandi?

Það er á ábyrgð Samfylkingarinnar að halda ríkisstjórn VG lifandi. Samfylkingin er ekkert annað en hækja VG og lætur hvað sem er yfir sig ganga.

Það mun verða kostnaðarsamt og getur ekki haft góð áhrif á stóra málið sem Samfylking vill koma á koppinn…..

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur