Mánudagur 5.9.2011 - 09:39 - Rita ummæli

Forsetinn hennar Álfheiðar Ingadóttur

Ég sé það í snöggri yfirferð minni að hver einasti skrifandi vinstri maður hefur látið það eftir sér að fjargviðrast út í forsetann sinn vegna ummæla hans um Icesave málið. Krampakennd viðbrögð og órökrétt sé litið til sögunnar.

Nú er það bara þannig alveg sama hvað Álfheiði Ingadóttur og félögum hennar kann að finnast að orð forsetans um Icesave deiluna eru dágóð greining á því sem gerðist. Reyndar er rétt að halda því skilmerkilega til haga að fulltrúar andstöðuhóps forsetans hafa ekki reynt að andæfa innihaldi þess sem forsetinn er að ræða og er þar um vissa framför að ræða….

Ég hef hreint enga samúð með Álfheiði Ingadóttur og hennar klíku sem réði sér ekki fyrir kæti þegar forsetinn gerðist stjórnmálamaðurinn á Bessastöðum. Það var þegar hann gékk erinda vinstri manna á alþingi til að koma í veg fyrir innleiðingu fjölmiðlalaganna hafi einhver gleymt því.

Það verk átti ekki lítinn þátt í því að eigendur bankanna sem voru fyrir undarlega tilviljun einnig eigendur fjölmiðlanna gátu stýrt almenningsálitinu á meðan þeir unnu sitt verk. Og það gerðu þeir og fulltrúar forsetans á þingi horfðu á með velþóknun og héldu að málið snérist um Davíð Oddsson.

Þessari atburðarás var miðstýrt frá Bessastöðum þar sem forsetinn hennar Álfheiðar sat makindalega og þótti vera að vinna þjóðþrifaverk okkur til heilla. Sagan hefur kennt þeim sem eitthvað geta séð að þar hefði betra verið heima setið en af stað farið.

Og sagan er enn að kenna þeim sem eitthvað geta lært. Sagan hefur nefnilega kennt okkur að ef ekki hefði komið til stjórnarandstaða á þingi og svo forsetinn hennnar Álfheiðar værum við pikkföst í skuldasúpunni sem Jóhanna og Steingrímur voru að sjóða með Gordon Brown og Hollenskum stjórnvöldum. Um þetta deilir enginn sem vill vera láta taka sig alvarlega…

Nú er full ástæða til þess að ræða hlutverk forseta Íslands til framtíðar og ekki síst hvernig við viljum sjá málskotsréttinum beitt. Þar verður hlutur Álfheiðar Ingadóttur enginn enda hefur hún sýnt það að hún getur ekki haft prinsippafstöðu til málsins.

Forsetinn hennar Álfheiðar er nefnilega bara forsetinn hennar þegar hann er að gera það sem Álheiður telur rétt og gott óháð grundvallarreglum. Slíkur er hennar styrkur…

Og svo mér sýnist að við Álfheiður verðum seint sammála um það hvenær hann er að gera gott mót og hvenær ekki.

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 2.9.2011 - 11:38 - 2 ummæli

Límið

Við vitum að það er stundum erfitt að vera í ríkisstjórn og líklega aldrei eins ferlega og að sitja í þeirri sem nú ræður. Óhemjuvandi fyrir höndum og hver höndin upp á móti annarri. Að vísu ríkir þar afar merkilegt ógnarjafnvægi.

Annar flokkurinn fær að reyna allt hvað af tekur að koma okkur inn í ESB á meðan hinn er því algerlega mótafallinn. Hinn flokkurinn fær svo sjálfdæmi í efnahagsmálum á meðan og er smátt og smátt að breyta okkur í lítið sovét þar sem allt er bannað og þjóðin er ekki marktæk.

Ástandið á stjórnarheimilinu er orðið þannig að óþol Samfylkingar til VG er ekki lengur top secret heldur blasir við öllum sem vilja sjá og hinum líka.

Nú þegar fylgið fer að hrynja af VG naglfestir það flokkana endanlega saman á hræðslunni við dóm kjósenda. Þeir geta ekki unnið saman um nokkurn skapaðan hlut en geta af hápólitískum ástæðum ekki hætt. Þetta liðónýta „samstarf“ heldur því líklega áfram þangað til leikreglurnar neyða flokkana til að mæta kjósendum sínum á kjördegi sem kemur alltof seint.

Við þessar fáránlegu aðstæður reyna svo flokkarnir að finna einhverja leið til þess að geta tekið sér frí frá því að úthúða hvor öðrum. Þá er oft sniðugt að benda á aðra og finna kröftum sínum loks sameiginlegan farveg

Og trixið í dag er að ráðast á stjórnarandstöðuna sem hefur það helst til saka unnið að vera á móti boðum, bönnum og skattaofbeldi ríkisstjórnar og lagðist svo af óskammfælni gegn Icesave sigri Steingríms Sigfússonar ofan á allt.

Úrræðaleysi og innanhússharmleikir ríkisstjórnar sem stefnir af festu og einurð gegn framförum og vexti atvinnulífs skrifast ekki á stjórnarandstöðuna.

Blindir menn eins og Björn Valur telja það afrek í sjálfu sér að ekki hefur tekist að knésetja allt hér og ég tek undir það með honum og öðrum að því ber að fagna og það sýnir okkur að sem betur fer þarf meira en eina afleita ríkisstjórn til að steypa öllu í glötun.

Í þröngri stöðu með tapað tafl er ekki úr vegi að reyna að grugga vatni og benda á stjórnarandstöðuna þegar bornar eru á ríkisstjórnina staðreyndirnar. Það kann að virka vel til heimabrúks en gerir ekkert gagn til lengri tíma.

VG veit að það er bara þessi eini séns næstu ótalin ár því ekki dettur nokkrum í hug að vinna með þeim á ný. Og Samfylking horfir fram að vera allt í einu ekki viss um að vera í næstu ríkisstjórn.

Þetta er límið gott fólk. Þetta heldur flokkunum saman og ekkert annað. Flokkarnir eru ekki sammála í neinum aðalatriðum og eru hættir að reyna að fela það. Nema um að vera ríkisstjórn sem ekki kann að vera til og getur ekki hætt.

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 1.9.2011 - 12:11 - 2 ummæli

dv.is fellur á fjölmiðlafræðiprófi

Þær eru margar aðferðirnar við matreiðslu frétta. Oft er erfitt að sjá annað samhengi milli fyrirsagna og raunverulegs innihalds frétta en að reyna að afvegaleiða lesendur eða hreinlega vona að þeir láti sér fyrirsögina nægja.

Í dag skrifar dv.is frétt um afkomu Morgunblaðsins. Ekkert er athugavert við það en fyrirsögnin er að Mogginn tapar allt að 800 000 á dag. Það er grefilli mikið finnst mér og ég bíð í ofvæni eftir samsvarandi upplýsingum varðandi rekstrarafkomu DV.

En raunverulega fréttin í þessu er að Mogginn er að ná sér nokkuð vel á strik og er með verulega mikið betri afkomu en á síðasta ári. Tapar sem sagt mun minna en árið á undan. Það er það sem tölurnar sem dv.is hefur undir höndum sýna.

Þessi framsetning dv.is á „fréttinni“ ætti að vera kennsluefni í fjölmiðlafræði 101 um það hvernig fagmennska við úrvinnsla upplýsinga víkur fyrir öðrum hagsmunum sem ég læt ykkur hvert og eitt um að meta hverjir gætu verið.

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 31.8.2011 - 20:25 - Rita ummæli

Eftir að hafa séð félaga Ögmund Jónasson í kastljósi er morgunljóst að á brattann er að sækja fyrir Kínverjann eins og kommarnir kalla hann. Helst vildi Ögmundur kaupa allar jarðir handa ríkinu fyrir lánsfé sem seljendurnir borga svo sjálfir í gegnum geggjaða skatta á bæði tekjur sínar, eignir og svo að sjálfsögðu söluhagnaðinn.

Kannski pínu kaldhæðni í því að afsprengi Kínverska kommunistaflokksins þurfi nú að komast í gegnum Ögmund Jónasson

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 31.8.2011 - 14:57 - Rita ummæli

Kvikmyndagerðarmenn og reyndar fleiri hafa farið mikinn vegna vandræða kvikmyndaskóla Íslands. Skólahald allt í upplausn og hver bendir á annan. Nemendur skólans eiga engan kost betri en að vera óánægðir með ráðherra og stjórnvöld því ekkert stoðar að vera óáængð með yfirvöld skólans þó þar liggi nú kannski vandinn líka.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 31.8.2011 - 09:38 - 6 ummæli

Jón Bjarnason þekkir ekki Kínverjann

Einþáttungur gærdagsins í boði leikhúss fáránleikans.

Jón Bjarnason er spurður út í fjárfestingar og landakaup Kínverjans Huang Nubo sem er að valda óskiljanlegum titringi. Jón setur þarna upp ógleymanlegt bros og mælir þessi orð;

„Ég þekki nú þennan „Kínverja“ ekkert. Menn tala um hann eins og hann sé eini Kínverjinn. Ég held að þeir séu nú allmargir til!!….“

Jón Bjarnason er áhrifamesti ráðherrann í ríkisstjórn VG og Samfylkingar

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 30.8.2011 - 10:21 - Rita ummæli

Neikvæður Össur

Ekki ætla ég að deila um það við félaga Össur Skarphéðinsson að neikvæðni hjálpar ekki og jákvæðni og bros á vör er betra veganesti ekki síst þegar á móti blæs. Hann er að fjargviðrast út í stjórnarandstöðuna núna fyrir bölmóð og neikvæðni sem hann telur sérstakan vanda.

Það er ekki tekið út með sitjandi sældinni að vera fastur í samstarfi við VG. Össur sem er einn alskemmtilegasti maður þingsins er augljóslega í verulegum vandræðum með að halda góða skapinu og jákvæðu hugarfari til þess samstarfs og getur ekki skilið að við hin sem þurfum að þola afleiðingar samstarfsins getum ekki komið auga á jákvæðar hliðar þess.

Össur telur það marka tímamót að AGS hefur útskrifað okkur með ágætiseinkunn þó þjóðin skilji hvorki upp né niður í þeirri útskrift. AGS gefur AGS fína einkun fyrir áætlun sem stofnunin gerði við fyrri ríkisstjórn. Þessu ber kannski að fagna….

En fagnaðarlætin ná ekki til þeirrar ríkisstjórnar sem tók við og hefur frá fyrsta degi verið ósamstíga og keyrt eftir gömlu módeli sem stýrt er af mönnum sem fundu lífssannleikann í austur Evrópu snemma á síðustu öld.

Lengi lét Össur þetta allt vera aukaatriði og hélt góða skapinu með því að hafa ekki opinberar skoðanir á því hvað ríkisstjórn Samfylkingar og VG var að bauka. Hann fékk að gera það sem honum var hugleikið að mestu á ferðalögum erlendis og þó þjóð og samstarfsflokkur hefðu ekki góðan hug til þeirra verka lét hann engan bilbug á sér finna.

Össur er búinn að tapa góða skapinu og ástæðan er ekki erfið stjórnarandstaða enda er það eiginlega út úr karakter hjá Össuri að væla undan ágjöf frá andstæðingum verandi svo veðraður sem hann sjálfur er í þeim bransanum.

Ástæðan er neikvæðnin og dellugangurinn á samstarfsflokknum í stóru sem smáu. VG ályktar eins og stjórnarandstöðuflokkur á verk Samfylkingar og vill stofna rannsóknarrétt, væntanlega undir landsdómsáhrifum, á verk Össurar og Katrínar í ríkisstjórn. Þannig er nú ástandið þar á bæ og vissulega ástæða til að hafa jákvæða sýn á þannig samstarf…..

Ríkisstjórnin er því miður ekki bara ósamstíga heldur fylgir hún stefnu sem eyðileggur og tefur fyrir bata þó vissulega sé augljóst að ekki var önnur leið en upp á við af botninum. Þrátt fyrir VG og samstarfið við Samfylkingu. Það má kannski með mikilli seiglu reyna að halda þvi fram að það sé jákvætt.

Neikvæðustu fréttir sem okkur berast eru því miður ekki bara frá stjórnarandstöðunni. Hver og einn einasti hagsmunaaðili á vinnumarkaði hefur gefið afrekum Össurar og félaga í efnahagsmálum falleinkunn. Tillögur um breytingar á fiskveiðikerfinu okkar eru aðhlátursefni sem ríkisstjórnin vonar svo heitt að komi ekki til afgreiðslu í þinginu.

Ráðherrar opna ekki svo munninn að ekki hrökkvi út úr þeim frumleg hugmynd að nýjum sköttum á deyjandi heimili og atvinnulíf. Seðlabankinn undir forystu Más Guðmundssonar höfundar peningamálastefnu bankans til áratuga rær svo af krafti gegn allri skynsemi með vaxtahækkunum.

Hún er ekki falleg myndin sem ég dreg upp og neikvæðnin lekur af hverju orði. En svona er nú staðan bara þó einhverkir geti látið framsetningu mína á staðreyndunum fara í taugar sínar. Ég er af grundvallarástæðum á móti þeirri stefnu skattahækkana og ríkisvæðingar sem þessi stjórn aðhyllist af sannfæringu.

Málflutningur þeirra sem eru andstæðingar þeirrar stefnu getur vissulega orðið neikvæður jafnvel þó vel væri að takast til. En þegar jafn hörmulega er að takast til og núna er ekki hægt að ætlast til þess að gleðirík jákvæðni heyrist úr horni stjórnarandstöðu.

Neikvæðustu viðbrögð sem heyrast þessa dagana kona innan úr ríkisstjórninni sjálfri og það er það sem er að plaga Össur Skarphéðinsson.

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 29.8.2011 - 12:15 - Rita ummæli

Girðingar og frelsi

Ögmundur Jónasson er mesta afturhald og íhald sögunnar ef frá er talinn Jón Bjarnason en hann lítur sér lögmálum. Um Ögmund geta menn mögulega deilt en það gerir enginn sem vill láta taka sig alvarlega að deila um eðliseinkenni stjórnmálmannsins Jóns Bjarnasonar.

Þeir eru sömu náttúru og á þeim er ekki eðlismunur heldur stigs. Þessi menn hafa sértakt óþol gagnvart frelsi og einkaframtaki. Ef þeir réðu, og þeir eru býsna nálægt því, þá værum við öll og launin okkar líka þinglýst ríkiseign og til ráðstöfunar sem slík.

Við myndum loka landamærunum fyrir öllu sem erlent er nema þegar við þurfum erlend lán. Þau eru góð en erlend fjárfesting er vond. Hver vill leyfa útlendingum að græða hér og skila tekjum og sköttum inn í hagkerfið á meðan við getum eytt skatttekjum okkar í greiðslur af erlendum lánum? Útflutningur er svo æði en innflutningur bölvaður kapitalismi.

Þessi menn hafa eftir bankahrun heimsins fundið sér stuðningsmenn sem telja að við getum fundið farveginn með höftum og bönnum í stað einstaklingsfrelsis og frumkvæðis. Til reyndist fólk sem trúir því að frelsi sé vandamál og okkar mál séu best meðhöndluð af misvitrum stjórnmálamönnum eða æviráðnum embættismönnum.

Kannski er það mátuleg refsing fyrir okkur að fá fjögur ár af þessum mönnum við stjórn og vonandi finnum við eftir það jafnvægið milli óhefts frelsis og öfga vinstriríkisrekstrar. Einhversstaðar þar á milli er leiðin en eitt er víst að þeir kumpánar Ögmundur og Jón munu aldrei þekkja þá leið.

Ég geng ekki gruflandi að því að í kringum frelsið þarf girðingar. En þeir sem nú ráða ríkjum í stjórnarráðinu vilja bara girðingar og ekkert frelsi.

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 29.8.2011 - 11:10 - Rita ummæli

Úlfur Úlfur. Ögmundur Jónasson er risaeðla og ef hann réði værum við öll ríkisrekin. „Við“ öll ættum allt en reyndar væri það þannig að hann og félagar hans í VG myndu svo hafa umboð til að véla um öll okkar mál. Stjórnmálamenn myndu passa upp á okkur og taka góðar og skynsamar ákvarðanir handa okkur.

Við myndum ekkert vera að tala við útlendinga. Sérstaklega ekki útlendinga sem eiga peninga og langar að fjárfesta. Slíkt fólk er vont og slíkir peningar miklu verri peningar en Ögmundur getur fengið að láni með miklum tílkostnaði. Það lán borgar Ögmundur svo niður með laununum þínum…

Tími fólks eins og Ögmundar kemur alltaf af og til. Þegar eitthvað fer úrskeiðis er öruggt að Ögmundur getur glaðhlakkalegur sagt að þetta hafi hann alltaf vitað. Hann hefur verið á móti velflestu allan sinn feril og það er stundum hentugt.

Heimskrísan hefur því miður haft þær hliðarafleiðingar að grjótharðir kommar hafa komsit upp með að gjaldfella allt sem heitir einkarekstur og frelsi. Á Íslandi fórum við heilan hring og sitjum pikkföst í hugmyndafræði gamals tíma og hugmynda.

Íhald og afturhald hefur fengið andlit í þeim Jóni Bjarnsyni og Ögmundi. Við erum þjóðin sem vill fá að fara sínu fram í samstarfi við aðrar þjóðir og einstaklinga en hafa svo frið með okkar. Tvíhliða samningar eru þannig að við gerum tvíhliða samkomulag um að einhliða hagsmunir okkar ráði. Þessu öllu er svo stýrt með uppblásinni þjóðrembu…

Nýjasti óvinur Ögmundar er kínverji nokkur sem vill fjárfesta hér á landi. Sjálfvirkur viðvörunarbúnaður Ögumundar fer af stað og hann finnur til þess að þetta þurfi helst að stöðva. Og týnir til sögulegar ástæður um vonsku manna sem sem vilja græða.

Fátt er algott eða alvont og ég geri mér grein fyrir því að við þurfum girðingar utan um frelsið. En félagi Ögmundur vill bara girðingar og ekkert frelsi nema ríkisfrelsið sem veitir mjög misgáfulegum stjórnmálamönnum leyfi til að ráða öllu.

Ef Ögmundur réði alveg öllu stæðum við ein í heiminum. Engir vondir menn að kaupa neitt hér eða að fjárfesta. Við myndum bara selja hvort öðru hundraðkallinn sem seðlabankinn okkar býr til aftur og aftur með verðtryggingu og okurvöxtum.

Við værum óháð og ríkið ætti okkur öll.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 27.8.2011 - 14:02 - 25 ummæli

Skyldulesning; Jón Steinsson í fréttablaðinu í dag

Ég legg það til við ritstjórn eyjunnar að benda fólki á að lesa grein Jóns Steinssonar hagfræðings í Fréttablaðinu í dag sem fjallar um þá ákvörðun Geirs Haarde að setja neyðarlög og láta bankana fara á hausinn fremur en að reyna að bjarga þeim.

Í þessari grein lýsir Jón því mjög vel við hvaða kjör Geir Haarde bjó þegar hann tók þessu stóru og hugrökku ákvörðun þvert á ráðleggingar alltof margra., ákvörðun sem hefur í raun gert okkur kleift að halda áfram. Jón setur hlutina í nauðsynlegt samhengi sem hvorki huglausum né skammthugsandi stjórnmálamönnum og fjölmiðlafólki sumu hefur tekist að gera vegna pólitískrar fötlunar.

Kannski má reikna með því að nú verði tekið til við að níða niður fræðimennsku og jafnvel persónu Jóns slíkt hefur ofstækið verið á löngum köflum þegar hrunið er rætt. Slíkar æfingar munu þó ekki koma í veg fyrir að sannleikurinn í þessu máli sem og öðrum leitar alltaf upp á yfirborðið.

Þess má svo geta að Geir Haarde situr og bíður þess að landsdómur taki mál sem Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur Sigfússon höfða gegn honum. Sú ákvörðun er lægsti punktur í okkar pólitísku sögu og sú ákvörðun var ekki tekin undir neinum öðrum formerkjum en pólitík stundarhagsmuna.

Sem betur fer höfðum við ekki slíkan mann í forsætisráðuneytinu dagana örlagaríku. Geir Haarde er ekki fullkomnari en aðrir menn og ríkisstjórn hans gékk ekki minna grunlaus að því en aðrar að bankarnir voru í vandræðum. Heimurinn var að hrynja framan í öll heimsins fjármálaeftirlit og ríkisstjórnir en hér á landi telja pólitískir andstæðingar að einn maður hefði bæði getað og átt að sjá þetta og redda svo málinu. Þessi skoðun verður æ fáránlegri eftir því sem lærum meira.

Um þetta fjallar grein Jóns meðal annars og margt fleira sem mjög margir hefðu gott af því að lesa. Ég set reyndar ekki allan lífeyrsissparnaðinn minn á að ritstjórn eyjunnar telji þessa grein merkilega….

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur