Þriðjudagur 31.8.2010 - 10:46 - Rita ummæli

Baugsfjölskyldan og bankarnir

Auðvitað er geggjað að þurfa að borga Jóhannesi Jónssyni til að „gefa“ bónuskeðjuna eftir. Hann og hans fólk hefur „gefið“ okkur öllum meira af skuldum en nokkurt annað fólk sögunnar.

Jóhannes og sonur hans hafa klifað á blankheitum sínum eftir að „þeir“ þ.e. þjóðin tók þá niður svo vitnað sé í soninn. Samt hefur fjölskyldan nurlað saman ófáum þúsundum milljóna til að kaupa sér fjölmiðla, skútur, flugvélar, milljarða íbúðir og eitt og annað smálegt sem þau hefur langað í.

Og nú dúkkar pabbinn upp með vel á annað þúsund milljónir og handvelur sér fyrirtæki í góðu samstarfi við Arion banka og lofar að reyna að kaupa allt dótið aftur við fyrsta hentugleika, væntanlega staðgreitt. Þetta er gullfallegt ævintýri fyrir alla nema okkur hin sem borgum afskriftir og niðurfellingar fyrir þetta fólk.

Samt verð ég að segja að þessar litlu 90 millur sem Arion banki ákveður að millifæra á gamla manninn er vel varið, þannig séð. En hugmyndafræðin á bak við þetta allt er í raun brandari fyrir okkur almúgan sem sitjum eftir og skiljum hvorki upp né niður í því hvernig skuldugasta fólk sögunnar valsar út og inn í bönkunum og ákveður að því er virðist sjálft hvaða skuldir það borgar og hverjar ekki.

Og velur sér svo einn og einn mola úr safninu…staðgreitt.

Við erum höfð að fíflum…

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 30.8.2010 - 10:22 - 2 ummæli

Aukin Ríkisforsjá?

Egill Helgason skrifar pistil um stjórnmálamenn í braski í dag. Þetta finnst mér áhugaverður punktur nú þegar alltof margir telja að lausn allra mála sé að færa aukin völd á hendur stjórnmálamönnum.

Ríkisforsjárflokkur númer eitt, VG, rær að því öllum árum að koma okkur öllum undir forsjá ríkisins og hefur til þess stuðning Samfylkingar sem er föst í netinu þó þar inni viti ýmsir að þessu stefna er handónýt.

Vissulega munu einhverjir hrópa núna og benda á heimskreppuna og ekki reyni ég að þræta fyrir hana né heldur að halda því fram að einkaaðilar geri ekki mistök og þar þrífist ekki eitt og annað misfagurt.

Staðreyndin er samt sú þar sem völd hafa verið færð um of til stjórnmálamanna og þeim ætlað að véla um öll okkar mál hefur tekist hörmulega til. Við þekkjum þau dæmi og ég hirði ekki um að nefna þau.

það þarf að skapa umgjörð um einkarekstur og reglugerðir sem halda og þar vorum við og aðrir úti að aka og því fór sem fór. En grunnhugmyndin stendur eftir rétt enda munu fáar þjóðir hverfa til ofstækisríkisforsjár eins og við stefnum í ef ekki tekst að skipta um ríkisstjórn hið fyrsta.

Ríkið er ekki einhver góð mamma. Ríkið eru þeir stjórnmálamenn sem við kjósum okkur hverju sinni…..

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 28.8.2010 - 13:55 - Rita ummæli

Stjórn knattspyrnudeildar Vals hefur sagt af sér meira og minna öll ef ég skil þetta rétt. Það kemur mér ekki á óvart enda hver furðuákvörðun þessrar stjórnar undanfarin ár rekið aðra. Góð gildi eins og traust og trúverðugleiki hafa verið látin lönd og leið í leit að skyndiárangri.

Nú átti einn ganginn enn að finna hamingjuna með þjálaraskiptum. Ekki lítið sem haft var fyrir því að ná í núverandi þjálfara sem skildi fá nýtt lið og nægan tíma endi veitti ekki af því, hann er alger nýgræðingur í bransanum!

Engin framtíðarsýn eða tími til uppbyggingar. Það er ekki gamla félagið mitt sem ég hef haldið með

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 28.8.2010 - 13:33 - Rita ummæli

Stjórn knattspyrnudeildar Vals hefur nú sagt af sér. Eitthvað mikið virðist hafa verið að síðuistu misseri hjá knattspyrnudeildinni og þetta því kannski eðlilegt. Ég gæti týnt til eitt og annað en farsinn í kringum ráðningu Gunnlaugs þjálfara á síðasta ári var toppurinn á vitleysunni, hélt ég.

Ég er ekki innanbúðarmaður og veit svo sem ekki allt en veit þó að árangur næst ekki með óstöðugleika og vandræðagangi utan vallar. Mér hefur fundist fráfarandi stjórn ætla að gleypa heiminn í einum bita og það dugar bara ekki. Jafnvel þó menn hafi efni á að kaupa það sem hugurinn girnist dugar það ekki ef grunnurinn er ekki til og sýnin aðeins sú að vera bestir á sem stystum tíma mögulega.

Þegar það svo spyrst út núna að menn séu að ráða Guðjón Þórðarson og gefa núverandi þjálfara kost á að fara strax eða eftir tímabilið er ekki óeðlilegt að aðalstjórn félagsins segi stopp. Hvurslags félagi vildu fráfarandi stjórnarmenn tilheyra?

Þessir menn réðu Gunnlaug með ærnum vandræðum og látum langt umfram það sem nauðsynlegt var. Þá var talað um uppbyggingu og nýja tíma, nýtt lið, þolinmæði. Gunnlaugur er óreyndur maður og hefur ekki náð fullum tökum finnst mér en ég spyr. Vissu þessir menn ekki af þessu? Hvar er framtíðarsýnin?

Ég fagna því ef tekist hefur að koma í veg fyrir þetta ráðabrugg. Ekki vegna þess að mér finnist Gunnlaugur vera rétti maðurinn eða Guðjón rangur. Ég vill bara ekki svona vinnubrögð. Ég nenni ekki að halda með svona liði. Ég vill reysn og að góð gildi séu höfð að leiðarljósi. Traust og trúverðugleiki.

Í yfirlýsingu fráfarandi stjórnarmanna er svo öllum sem hugsast getur þakkað samstarfið nema Gunnlaugi þjálfara. Það er örugglega vegna þess að Gunnlaugur hefur leikið í íþróttadeild RÚV

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 25.8.2010 - 21:16 - 11 ummæli

Hver skilur Jón Bjarnason?

Er eðlilegt að ráðherrann Jón Bjarnason berjist fyrir þeim prýðilega málsstað að við göngum ekki inn í ESB úr stóli ráðherra? Ögmundur Jónasson virðist telja að svo sé og þar greinir okkur gróflega á.

Þegar anganin af ráðherrastólum bar fyrir vit VG skrifaði Jón Bjarnason undir sáttmála um stefnu. Eitt veigamesta atriðið í sáttmálanum var að ganga til viðræðna við ESB um mögulega aðild. Mér er stórlega til efs að þetta hafa farið fram hjá karlinum.

Ráðherrar berjast ekki gegn eigin sáttmála og stefnu. Sé mönnum þannig innanbrjósts er eina leiðin fyrir þá að hverfa úr stjórninni. Það kallast staðfesta og styrkur og þá geta menn haldið áfram baráttunni.

Fyrir mér er þetta barnalega einfalt mál enda hefði ég sjálfur hvorki geð eða nennu til að vinna með mönnum sem berjast gegn því sem þeir hafa nýlega fallist á að sé stefnan. Og enn síður hefði ég þrek til að sitja í stjórn sem ynni að málum sem ég væri eins afgerandi á móti eins og ráðherrann Jón Bjarnason.

Hver skilur Jón Bjarnason?

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 25.8.2010 - 20:52 - Rita ummæli

Ögmundur Jónasson stígur fram félaga sínum í VG til varnar. Jón Bjarnason heyr baráttu sína gegn inngöngu í ESB úr stóli ráðherra. Það finnst Ögmundi eðlilegur framgangsmáti. Þar greinir okkur á.

Ögmundur bendir réttilega á að ekki er hægt að hafa þann rétt af Jóni að berjast fyrir sínum skoðunum líkt og andstæðingar hans gera. Það sem hér er á skjön er að Jón Bjarnason situr í ríkisstjórn sem hefur á stefnuskrá sinni að sækja um aðild að þessu bévítans ESB.

VG skrifaði undir þetta allt þegar ilminn af ráðherrastólum bar fyrir vit. Ef Jón væri staðfastur maður með sterk prinsipp tæki hann hatt sin og staf og færi úr þessari ESB ríkisstjórn sem vinnur eftir plaggi sem formaðurinn hans seldi flokksmönnum þegar vinstra vorið var og hét.

En Jón Bjarnason vill vera ráðherra alveg óháð því hvort hann fylgir stefnunni eða ekki. Ríkisstjórn er framkvæmdavald. Ríkisstjórn er hópur fólks sem gerir með sér samkomulag um það hvert skal stefnt. Jón Bjarnason og VG vissu allan tímann hvert förinni var heitið.

Telji Jón Bjarnason, Ögmundur Jónasson eða VG að Samfylkingin sé að svindla á stjórnarasáttmálanum er ekki eftir neinu að bíða með að hætta samstarfi. Ráðherrar geta ekki slegist við eigin stjórnarsáttmála eins og Jón Bjarnason gerir. Þannig eru reglurnar bara ekki og Ögmundur fattar það ekki.

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 25.8.2010 - 18:59 - 1 ummæli

Kirkjan

Kirkjan er í vanda og öllum er ljóst að hún kann ekki að vinna úr stöðunni. Kirkjan er eins og stjórnmálamennirnir okkar eftir hrun. Allir sjá stórfellt klúðrið í málefnum Ólafs Skúlason en hver á fætur öðrum hlaupa kirkjunnar munn undan og halda að málið snúist um að vernda þeirra eigið skinn. En hér er meira undir……

Biskupinn okkar tafsar og muldrar þegar málið er við hann rætt. Karl Sigurbjörnssson telur sig ekki þess umkominn að dæma látinn manninn, það muni aðeins einn geta og muni gera og á þar við almættið sjálft á dómsdegi. Orðhengilsháttur segi ég og er sannfærður um að almættið muni veita honum undanþágu til að fara inn á verksviðið og hafa skoðun á málinu verði eftir því leitað.

Karl Sigurbjörnsson og kirkjunnar menn mega ekki komast upp með svona undanbrögð. Það virðist liggja afgerandi fyrir að kirkjan vissi en hafði ekki verkreglur sem réðu við málið og því var það þaggað niður. Sú skömm er ekki auðveldlega hreinsuð af en tilraunir til þess að komast undan því mun að líkindum verða bæði persónum og kirkjunni dýrkeypt og loða lengi við.

Og hollt fyrir Karl og félaga að muna að þeir þurfa svo líka að standa skapara sínum reikningsskil gerða sinna….

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 25.8.2010 - 18:52 - Rita ummæli

Kirkjan

Kirkjan er í vanda og öllum hlýtur að vera ljóst að kirkjan kann ekki að taka á málinu. Kirkjan er dálítið eins og stjórnmálamenn eftir hrunið. Allir vita að mistök áttu sér stað í máli Ólafs Skúlasonar en samt er ekki nokkur leið að játa þau og reyna að finna leiðina áfram þaðan.

Biskupinn yfir Íslandi tafsar og muldrar þegar hann er beðinn um að tjá sig um mál Ólafs Skúlasonar og talar um að það sé ekki hans að dæma. Ólafur muni dæmdur verða af æðri máttarvöldum eins og við öll á endanum. Ég sé ekki að Karl Sigurbjörnsson þurfi að hafa neinar áhyggjur af því að hin ærði máttarvöld muni telja hann vera að fara inn á sitt verksvið þó hann taki afstöðu í málinu.

Karl Sigurbjörnsson virkar á mig eins og hræddur embættismaður en ekki trúarleiðtogi. Í þessu tiltekna máli er bara ekki hægt að hafa almennar skoðanir ef ég er spurður þó ég beri fulla vrirðingu fyrir því að dæma ekki og spyrja svo.

Kirkjan virðist hafa haft vitneskju um hegðun Ólafs Skúlasonar ótrúlega lengi án þess að bregðast við. Það er að koma upp á yfirborðið endanlega núna og ef Karl Sigurbjörrnsson og kirkjunnar menn ætla aftur að láta Ólaf Skúlason njóta vafans er ég hræddur um að æðri máttarvöld mumi ekki fagna því á dómsdeginum eina.

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 20.8.2010 - 17:55 - 1 ummæli

Bófaslagur

Nú er allt að gerast. Björgólfur Thor og Robert Wessmann farnir að slást opinberlega og sumir birta skjöl. Það besta sem gæti gerst er að bófarnir fari að stíga hressilega á tær hvor annars í spunavörninni…..

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 18.8.2010 - 14:55 - Rita ummæli

Eyþór Gunnarsson var í viðtali á bylgjunni í morgun. Tilefnið var réttarhald yfir níumenningunum og meint harðræði lögreglunnar. Heimir Karlsson tók viðtalið og sleppti við alveg að skiptast á skoðunum við Eyþór en full ástæða var þó til þess.

Eyþór talar um að þetta allt sé knúið áfram af pólitískum ástæðum. Það er órökstutt algerlega finnst mér og ósannfærandi.

Umræðan um fyrir hvað er ákært og refsirammann á fullan rétt á sér en við verðum að treysta dómstólum til að skera úr um málið. Hvað annað er í boði? Því þarf Eyþór að svara.

Venjulega gerist þetta þannig að fólk sem er ákært og er boðað til réttarhalds til að bera hönd fyrir höfuð sér og svara til saka. Um þetta fyrirkomulag er að ég held ekki mikill ágreiningur enda er þetta system í gildi hvavetna í hinum siðaða heimi.

Af hverju á annað að gilda um þetta fólk? Af hverju má ekki koma i veg fyrir að fólk geti troðfyllt dómssali með háreysti og yfirýstan tilgang að koma í veg fyrir þinghald? Myndum við sætta okkur við að glæpaklíkur reyndu slíkt? Þessu þarf að svara…

Borgarar þessa lands geta leitað til dómstóla með sín mál ef þeir telja á rétt sinn gengið. Og það er líka þeirra skylda að svara til saka og leita réttar sín þeim megin frá þegar þeir eru bornir ákærum.

Þess vegna á að hætta upphlaupum í kringum þetta mál og flytja það í spekt eins og allt venjulegt fólk gerir. Séu níumenningarnir saklausir verða þeir sýknaðir og öfugt. þannig er gangurinn í þessu.

Og á því eru því miður ekki undantekningar og á því eiga ekki að vera undantekningar.

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur