Miðvikudagur 18.8.2010 - 13:06 - 23 ummæli

Vælið í kringum Egil

Þetta er skemmtilegt. Hirðin í kringum Egil Helgason hefur sett af stað væluherferð og talar um einelti í hans garð og ritstjóra Eyjunnar finnst þetta merkilegt allt saman og gerir mikið úr.

Af hverju má ekki gagnrýna Egil? Egill er ekki óskeikull frekar en aðrir menn er það?. Hver eru efnisatriðin? Er það sérstakur glæpur í sjálfu sér að vera ósammála Agli og benda á hvernig hann snarsnýst í skoðunum af ástæðum sem ekki eru alltaf ljósar?

Egill er opinber starfsmaður og þiggur laun frá okkur öllum til að halda úti sjónvarpsþætti sem fjallar um þjóðmál og pólitík í víðum skilningi í hinu hlutlausa ruv.is. Hann heldur úti gríðarvinsælu bloggi og hefur skoðanir á flestu. Til eru þeir sem voga sér að benda á að hann dregur taum ákveðinna skoðana og stjórnmálaflokka. Af hverju má ekki ræða það?

Stuðningslið Egils er með gagnrýnendur hans á heilanum og eyða engu púðri í málefnalega afstöðu og umræður. Hvernig væri að taka þátt í pælingunum i stað þess að fá sífelld krampaköst yfir þvi hver setur gagnrýnina fram og hversu oft eða hvar.

Þetta væl er óþarft og ómálefnalegt.

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 18.8.2010 - 09:33 - Rita ummæli

Eyþór og níumenningarnir

Eyþór Gunnarsson var í viðtali á bylgjunni í morgun. Tilefnið var réttarhald yfir níumenningunum og meint harðræði lögreglu sem vann sér það til saka að sinna skyldum sínum í og við dómshúsið. Því miður hafði Heimir Karlsson ekki þrek til að skiptast á skoðunum við Eyþór en fullt tilefni er þó til þess og þess vegna skrifa ég hér.

Eyþór telur allan máltilbúnað pólitískann en rökstyður það þó í engu enda ríkisstjórn sú sem nú situr hreinlega komin til valda að stórum hluta fyrir tilstuðlan þess fólks sem nú þarf að svara til saka. Hvaða pólitík á Eyþór við? Er það forseti þings sem hér er átt við. Einhver tiltekinn hjá saksóknara?

Finndist Eyþóri eðlilegt ef hópur manna sem tengdust meintum glæpahring hér á landi vildu fylla dómssal og rúmlega það til að vera með háreysti í viðleitni sinni til að koma í veg fyrir að hægt væri að rétta yfir þeirra mönnum. Þetta er tilbúið dæmi auðvitað en algerlega sambærilegt í prinsippinu við það sem nú er að gerast…

…..hópur fólks hefur ákveðið að málatilbúnaður á hendur níumenningunum sé ekki í lagi og þess vegna sé eðlilegt að reyna að koma í veg fyrir þinghald fyrir dómi. Lögreglunni er falið að koma í veg fyrir slikt enda afar óeðlilegt að einhver tiltekinn hópur fólks eigi að geta stöðvað réttarhald.

Þetta er grundvallarregla og gildir um alla menn. Vel má vera að Eyþór hafi svo rétt fyrir sér með sakarefnin og fólkið verði sýknað enda er víst allur gangur á því hvernig saksóknara gengur að fá sekt sannaða fyrir dómi almennt.

Við eigum að styðja og styrkja undirstöður samfélagsins en ekki reyna að veikja þær. Það er réttur borgaranna að verjast ákærum og það er líka SKYLDA en ekki gengur að borgararnir sjálfir ákveði hvenær ákærur eru í lagi og hvenær ekki.

Flóknara er þetta ekki.

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 18.8.2010 - 09:24 - Rita ummæli

Ritstjóri Eyjunnar

Stórmerkileg frétt ratar inn á Eyjuna nú í dag. Þar er einhver á hinu virta dagblaði DV að fabúlera um að líklega sé Hannes Hólmsteinn að leggja samflokksmann ritstjóra Eyjunnar Egil Helgason í einelti í gegnum vefinn amx.is.

Þessi stórskemmtilega ekkifrétt verður alvöru frétt í meðförum Þorfinns Ómarssonar. Er hægt að ætlast til þess að þessi ritstjóri sé tekinn alvarlega?

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 17.8.2010 - 14:24 - 12 ummæli

DV

DV breytist lítið. Grundvallaratriðið saklaus uns sekt er sönnuð telur ekki á ritstjórn Reynis Traustasonar frekar en fyrri daginn. Maður nokkur situr í yfirheyrslum vegna morðs og ritdónarnir á DV eru með mynd af honum öllum til sýnis.

Ég þekki ekki marga sem ekki skilja hversu tært dæmi svona „blaðamennska“ er um siðleysi. Einhverjir hafa þóst sjá breytingar á blaðinu hans Reynis en hér fellur DV gersamlega á prófinu.

DV vinnur eftir prinsippi sem dómstóll götunnar nærist á. Ritstjórn DV telur sig þess umkomin að dæma þennan mann. Hvað hefur þetta fólk lært af Geirfinnsmálinu? Meira að segja játningar eru engin ávísun á ákæru og það geta virtustu réttarmeinafræðingar og sagan kennt okkur.

Sekur uns sakleysi er sannað er eitthvert ömurlegasta prinsipp sem blaðamaður getur burðast með.

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 17.8.2010 - 13:51 - Rita ummæli

Hvað fær Reyni Traustason og félaga á DV til að birta „frétt“ um manninn sem yfirheyrður er vegna morðs í Hafnarfirði um helgina? „Fréttin“ er með mynd. Hvenær ætli Reynir telji að botninum séð náð í sinni „blaðamennsku“?

Ekkert réttlætir þessa frétt, engin rök bakka hana upp. Sorpblaðamenn hafa gjarnan talað um að almenningur eigi heimtingu á að fá vita alla hluti þegar þeir þurfa að reyna að réttlæta skítlegt og siðlaust blaðamannseðlið. Kannski verður það reynt hér.

Þessi maður er saklaus á þessu stigi máls. Hann er ekki ákærður. Og fyrir mér dygði ekki einu sinni að DV teldi sig hafa heimildir fyrir játningu. Sagan er full af tilfellum þar sem játning reynist ekki vera játning þegar upp er staðið.

það er barningur að gefa út blöð og sölutölur eru allt. Kannski reynist þessi piltur vera maðurinn og þá munu blaðmennirnir á DV hrósa happi. Um það er ekki fjallað á þessu stigi málsins.

Nú er fjallað um eðlileg og sjálfsögð viðurkennd gildi hvort heldur sem er í fjölmiðlun eða almennt í samfélagi siðaðra manna.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 15.8.2010 - 18:00 - Rita ummæli

RÚV klúðrar bikarútsendingu

Nú er nýlokið bikarúrslitaleik kvenna í fótbolta.Stærsti viðburður hvers tímabils í öllum greinum. Í gær léku strákarnir og þetta er stór helgi fyrir þá íþróttamenn sem spila þessa leiki. Auðvitað er þetta sjónvarpsviðburður….

Og gamla RÚV hefur réttinn til sýninga á kvennaleiknum. Nú brá svo við í dag að ekki reyndist tími til að klára að sýna verðlaunaafhendingu sem hafn var. Í gær var útsendingin teygð svo lengi sem einhver fékkst til að ræða við fréttamenn eftir afhendinguna og stemningin komst glæsilega til skila í sófann minn.

Hver tekur svona ákvörðun? Fyrir mig er þetta virðingarleysi við stelpurnar og áhorfendur. Hvernig hefði verið tekið á framlengingu að ég tali nú ekki um tímafreka vítaspyrnukeppni?

RÚV skuldar skýringu á þessari furðuákvörðun.

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 15.8.2010 - 13:06 - Rita ummæli

Ég horfði á bikarúrslitaleikinn í fótbolta í gær. Og það er eins og áður að ég horfi alltaf mest á dómarann. Og það gerðu fleiri því KR virðist í fljótu bragði ætla að skrifa úrslitin á dómarann. Hann dæmdi nefnilega tvö víti á KR.

Og til þess þarf kjark og óttaleysi en þessi kjarkur brást dómaranum í seinni hálfleik þegar hann sleppti þriðja vítinu á KR. Nýr þjálfari KR kemur gríðarvel fyrir og hefur verið afar smekklegur, sanngjarn og faglegur í hvívetna frá því að hann tók.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 13.8.2010 - 14:21 - 5 ummæli

Gylfa verður fórnað

það er ekki tekið út með sitjandi sældinni að vera Gylfi Magnússon núna. Hann er ekki stjórnmálamaður í sinni tærustu mynd og nú þegar hann liggur vel við höggi hefur hann því ekkert bakland. Fátt mun því verða honum til bjargar enda ekkert kjördæmi í hættu þó honum sé fórnað.

Gylfi var auðvitað ekki í góðri aðstöðu til þess að básúna þetta lögfræðiálit á sínum tíma. Um málið ríkti réttaróvissa og allt hefði farið á hvolf hefði hann talað. Og hvað ef niðurstaða dómstóla hefði orðið á hinn veginn…?

Hann hefur hins vegar komið sér í afleita stöðu núna með þvi að reyna að bulla sig út úr málinu og hinir hefðbundnu stjórnmálamenn og flokkar munu ekki reyna að verja hann. Í því er bæði fegurð og ljótleiki.

Við sjáum alveg bráðónýta ráðherra njóta verndar langt umfram það sem nokkur maður skilur. Gylfi Magnússon verður því afar hentug fórn fyrir þessa afleitu ríkisstjórn að færa þjóðinni á þessum tímapunkti.

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 13.8.2010 - 13:24 - Rita ummæli

Eiður Smári

Íþróttafréttamenn er í fýlu út í Eið Smára. Hann vill ekki vera almennilegur og tala við þá. Auðvitað er það verra enda hefur hann skyldum að gegna í þessum efnum. Ekki gott að sniðganga fjölmiðla og ef hann þarf andrými væri skynsamlegt hjá honum að biðja um það.

Við viljum öll að honum gangi vel enda okkar besti maður en hann getur ekki skorast þegjandi og hljóðalaust undan því að tala við okkur þegar honum hentar. Kannski vill Eiður að helstu fréttir sem við fáum af honum séu djammsögur og viðtöl tekin í gríngolfmótum. Eða sprell með Audda og Sveppa….

Eiður Smári er greinilega með vindinn í fangið núna. Hann ætti frekar að sækja sér styrk hingað heim heldur en hitt.

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 12.8.2010 - 09:56 - Rita ummæli

Íslands besti fótboltasonur er í vandræðum. Eiður Smári lítur út eins og gamall, leiður útbruninn íþróttamaður rétt rúmlega þrítugur maðurinn. Hann veit ekki hvar hann mun vinna í vetur en veit þó að hann vill ekki vera þar sem hann réði sig til starfa fyrir ári síðan. En þar er hann þó núna…

Fréttir berast af veseni með peninga og sífelldar sögur af djammi og leikaraskap. Það er eins og ekki sé lengur gaman að vera Eiður Smári. Í gær spilaði hann landsleik og andleisið og leiðindin voru augljós.

Og það má. Af hverju getur ekki blásið á móti hjá fólki eins og Eið Smára? Hann hefur ákveðið að hvíla sig á viðtölum við fjölmiðla og fýlan lekur af fjölmiðlafólki. Ég hef vissan skilning á þeim viðbrögðum en langar lika að skilja af hverju Eiður þarf frið núna.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur