Föstudagur 5.3.2010 - 18:33 - 2 ummæli

Jóhanna talar í Speglinum

Ég var að enda við að hlusta á Jóhönnu Sigurðardóttur í útvarpi allra Samfylkingarmanna, speglinum á rás 2, Þar fór hún á kostum og hélt áfram rausi sínu um markleysu þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Ég spái því að hegðun stjórnarflokkanna í þessu máli nú síðustu daga muni fá algera falleinkunn þegar sagan verður skrifuð og í raun er óskiljanlegt hvað hvetur Steingrím og Jóhönnu áfram í viðleitni sinni til að spilla fyrir.

Jóhanna hélt fína tölu um hversu mjög tafir í þessu máli væru að kosta okkur. Hún sá ekkert annað en svartnætti og endalok mannlífs. Ég hvet fólk stuðningsfólk ríkisstjórnarinnar til að hlusta á þessa messu því þarna tókst henni býsna vel að upplýsa hversu mjög Icesave klúður hennar eigin stjórnar er að kosta okkur.

Þessi liðónýta ríkisstjórn hefur frá fyrsta degi verið með þetta mál í tómu rugli og engin sérstök furða að Steingrímur hafi reynt að snuða bæði þjóð og þing um að sjá samninginn á sínum tíma. það er þessi ríkisstjórn sem skipaði samninganefndina og tók þá afstöðu að verja okkur ekki. Það var engin önnur ríkisstjórn sem ákvað að hafa Indriða í sinni þjónustu.

Nú þegar við sendum alvöru samninganefnd er hægt að fá talsvert betri samning en Steingrímur taldi algerlega fullreynt með Svavarsklúðrinu á örfáum dögum. Ábyrgðin á þessum samningi liggur hjá þessu fólki sem tókst hvorki að sannfæra þing né þjóð.

Þess vegna er eiginlega sorglegt að hlusta á Jóhönnu og Steingrím tala niður til lýðræðis og þjóðar sinnar eins og þau gera i dag. Fólkið sem hefur haldið svona illa á okkar málum ætti að sjá sóma sinn í því að vera með henni í að reyna að bæta skaðann í stað þess að bæta við skömmina.

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 5.3.2010 - 12:33 - 3 ummæli

Mannorðið hans Pálma

Þeir láta taka við sig viðtöl þessa dagana mennirnir sem höfðu af okkur í nafni útrásar. Allir vita hverjum Jóhannes vorkennir, nefnilega sjálfum sér og nú er röðin komin að Pálma Haraldssyni. Hann segist marinn á sálinni blessaður en sér sökina stærsta og mesta hjá þeim sem ekki gátu séð að hann var að stunda glæpi…

Þetta eiga þeir allir sammerkt útrásar víkingar. Þeir gera sér upp iðrun en í raun finna þeir enga sök hjá sér. Ég veit ekki hvað þetta heitir á fagmáli þeirra sem mennta sig í afbrotafræði en veit að fræðiheitið er til.

Þú mátt sem sagt allt sem þér er ekki beinlínis bannað. Slíkar yfirlýsingar lýsa engri iðrun heldur siðleysi sem er nauðsynlegt þegar menn leggjast í útrás eins og þá sem Pálmi og hans líkar lögðu í enda var hún fjármögnuð þessi útrás með innrás í framtíð hvers einasta Íslendings án upplýsts samþykkis.

Pálmi hefur auðvitað ekki áhyggjur af töpuðum peningum. Hann hefur áhyggjur af töpuðu mannorði. þetta er allt eðlilegt enda tapaði hann engum peningum, það erum við, Íslenska þjóðin sem borgum. Pálmi heldur sínu og lifir í heimi afskrifta….

Okkur gæti ekki verið meira sama um mannorð þessara manna en okkur er talsvert í mun að milljarðamæringarnir skili því til baka sem VIÐ töpuðum. Þannig væri kannski einhver möguleiki á að Pálmi endurheimti slitrurnar af ónýtu mannorði sínu.

Drottingaviðtöl í blöðum sínum duga þar skammt og eru létt í maga þjóðarinnar.

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 5.3.2010 - 11:20 - Rita ummæli

Jáin þeirrra Jöhönnu og Steingríms

það er auðvitað þannig að við skiptumst í fylkingar eftir því hvaða stjórnmálaflokki við fylgjum. Flestir reyna að halda í grunnprinsippin sín og styðja sinn flokk þó ekki gangi allt fram eins og maður vill helst.

Núna er sú staða að hér er vinstri stjórn og við hægri menn finnum henni flest til foráttu og svona gengur þetta í hina áttina líka. þetta er kannski ekki alltaf fullkomlega sanngjarnt en er nú svona samt og er meira og minna lögmál.

Ég get því skilið að þeir sem liggja til vinstri og kjósa VG og Samfylkingu styðji sitt fólk og hamist við það að réttlæta það fyrir Guði og mönnum. það stafar af fyrrnefndri trúarsannfæringu og menn skipta ekki svo glatt um Guð.

það er þó á þessum tímapunkti sögunnar sem fylgismenn VG og Samfylkingar hljóta að spyrja sig grundavallarspurninga. Hvernig má það vera að Jóhanna Sigurðardóttir ættlar að sniðganga atkvæðagreiðsluna á morgun? Af hverju getur Steingrímur ekki ekki gengið í lið með þjóð sinni og hætt stuðningi við Svavarsamninginn?

þau segja bæði já. Fjarvera þeirra er ekkert annað en yfirlýsing um það. Þeir sem merkja við þetta fólk í næstu kosningum ættu að hafa þetta í huga. Þetta er fólkið sem reyndi að koma í veg fyrir að þjóðin fái að greiða atkvæði og gékk í lið með andstæðingum okkar í þeirri viðleitni. Um það verður ekki deilt af neinni alvöru.

Á hvaða forsendum er hægt að segja já við þessu fólki í kjörklefanum? Þetta er ekki hægri vinstri spurning. Í þessu tilfelli er trúarsannfæringin ekki inni í myndinni. þetta er svo miklu stærra….

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 1.3.2010 - 10:01 - 5 ummæli

Sölvi Tryggvason og peningahyggjan

Sölvi Tryggvason skrifar grein á pressuna um gildismat og peningahyggju. Honum finnst fátt hafa breyst frá 2007 og við enn að hugsa um peninga umfram aðra hluti. Þessi grein finnst mér yfirborðskennd og grunn en reyndar full af skemmtilegum klysjum en liklega skrifuð af manni sem hefur engar peningaáhyggjur.

Auðvitað er rétt að við erum ekki að deyja úr hungri og hér hafa allir föt til skiptanna og við búum í upphituðum húsum með tvo bíla ef ekki fleiri. Við höfum likt og fleiri jarðarbúar lært að koma okkur upp þörfum sem Sölvi getur liklega skilgreint sem gerviþarfir. Heimspekilegar vangaveltur sem eiga rétt á sér, almennt séð

Heimspeki af þessu tagi er ágæt í pallborðsumræðum og kaffihúsum. Hún hjálpar ekki þeim sem þurfa að hafa áhyggjur af peningum alla daga og öll mánaðarmót. Hún hjálpar ekki þeim sem tapað hafa öllum sparnaði sínum vegna græðgi fárra.

Auðvitað höfum við áhuga á peningum. Peningar færa mönnum ekki hamingju en peningaleysi getur klárlega fært mönnum óhamingju sér í lagi þegar ástæðurnar eru þær sem þær eru núna.

Mér finnst inntakið í pistli Sölva vera það að í raun sé þetta okkur sjálfum að kenna og nánast gott á okkur. Mér finnst eins og hann endurtaki flatskjárkenningu Björgúlfs bankaræningja hér í nýrru útfærslu. Kannski fara menn að tala um reiði Guðs næst…

Samanburður við þjóðir sem eiga hvorki til hnífs og skeiðar er út í hött eða tal um að í raun séu engin vandamál hér vegna þess að fólki verði ekki hent á götuna með börn og bú.

það að tapa öllu sínu er andlegt og líkamlegt niðurbrot þó að kerfið tryggi öllum hita í hús sín. Peningar skipta máli hvað sem hver segir og akkúrat núna mjög miklu máli. Fyrir mér er augljóst að áhugi okkar á peningum nú er talsvert öðruvísi en 2007.

Ég sjálfur þarf ekki að kvarta ennþá að minnsta kosti og ég vona að Sölvi haldi sínu líka. það er léttvægt og þægilegt að skrifa eins og hann gerir um óþarfa lifsgæði. Hálfgerður hroki hins áhyggjulausa manns…

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 28.2.2010 - 13:52 - 7 ummæli

Þorsteinn Pálsson í silfrinu

Hrein unun er að hlusta á Þorstein Pálsson tjá sig í silfri Egils í dag. Ekki endilega bara vegna þess að ég sé sammála honum heldur er framsetning hans á málum skýr og rökstudd og stíllinn þannig að enginn ætti að móðgast eða meiðast.

Alger skylda að horfa á þetta viðtal ekki síst fyrir þá sem reyna enn að styðja núverandi ríkisstjórn sem ekki ræður við verkefni sín hverju nafni sem þau kunna að nefnast.

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 27.2.2010 - 20:48 - 9 ummæli

Ég segi nei

Auðvitað hlaut að koma að því já mennirnir létu á sér bera. þarna er ég að tala um fólkið sem ætlar að segja já við verri samning um Icesace en okkur býðst í dag. Ég er að reyna af öllum mætti að vera jákvæður í garð þeirrar ákvörðunar að segja já og fullur skilnings. það gengur treglega…

Venjulega eru tvær hliðar á málum og alltaf hollt að reyna að setja sig inni í hugarheim þeirra sem gagnstæðar skoðanir hafa. Í þessu máli er eiginlega vita vonlaust að finna aðra skýringu en einhversskonar pólitíska fötlun og blindu því miður.

kannski finnst einhverjum bara sniðugt að vera með skoðanir sem eru á skjön við alla hina og stundum er gaman að slíku fólki. Röksemdir þeirra sem ætla að segja já við verri samningum hafa hingað til ekki hrifið mig enda halda þær hvorki vatni né vindi.

Þeir sem vilja styðja andstæðinga okkar í þessu mál og gera samningamönnum okkar erfitt fyrir að ná sanngjörnum samningi ættu hiklaust að segja já. Þeir sem ekki vilja það segja auðvitað nei.

Þetta mál er ekki hægri vinstri mál. þetta snýst ekki um að halda með flokknum sínum eða uppáhalds stórnmálmanninum. þetta mál snýst um að halda með Íslandi. Ég er í því liði.

Og segi nei

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 26.2.2010 - 13:16 - 1 ummæli

Eineltið og Jóhannes stórkaupmaður

Jóhannes í bónus kemur sífellt á óvart og sjaldnast bregst hann þegar kemur þvi að reyna að bæta eigið Íslandsmet í siðleysi. Nú ku hann vera í enn einu viðtalinu í DV og fer á kostum.

þar gerir hann heiðarlega tilraun til að koma óorði á orðið einelti með því að telja sig og fjölskylduna verða fyrir slíku. Kaupmenn hér á landi í matvörubransanum þekkja einelti alltof vel og þar hefur þessi ágæti maður verið á aðalhlutverki geranda.

Jóhannes finnur til með börnum sínum og hver kannast ekki við slíkar tilfinningar. Börnin hans og hann sjálfur hafa sett hvert einasta fyrirtæki sem þau hafa komið höndum yfir og þar með talið gullkálfinn bónus svo rækilega á hausinn að aldrei verður hægt að gera betur, eða verr.

Reikningurinn er hjá þjóðinni ógreiddur og Jóhannes er við það að gefast upp. Ekkert verður afskrifað en þó verður allt afskrifað og Jóhannes er uppgefinn. Peningar sem hann og hans fólk hefur fengið lánað til að veðsetja ALLT sem það hefur fengið lánið fyrir eru horfnir og karlanginn er að gefast upp. Finnur þú ekki til með heilsulausum og þreyttum milljarðmæringnum?

Hvernig Jóhannesi dettur í hug að reyna enn einu sinni að spila á tilfinningar þjóðar sinnar með svona þvælutali er mér hulin ráðgáta en vonandi hefur hann ekki borgað einhverjum PR manni stórfé fyrir trikkið.

Hann ætti frekar að finna til með fólki sem blæðir nú með stórfelldu eignatapi og vinnumissi en syni sínum sem hann segir hafa tapað svo miklum peningum. Fólki sem ekki getur greitt af húsum sínum eða bíl lengur. Bankinn sem ætlar að gera það sem hægt er fyrir Jóhannes er á meðan í miklum vandræðum með litla fólkið í þessu landi. En Jón Ásgeir á fyrir diet coke og jeppaflotinn og stórhýsin um allan heim standa þessu fólki enn til boða.

Ég veit að Jóhannes er ekki einn valdur að þessu en hann og hans fjölskylda á mjög mikinn þátt í þessu ástandi.það er staðreyndin og eineltið sem þessi þjóð hefur mátt þola frá þessu fólki er okkur dýrkeypt. En það er eins með þetta einelti og það sem einstaklingar verða fyrir. Þolendurnir fást ekki til að ræða málið eða hreinlega skammast sin of mikið fyrir að hafa dansað með allan tímann.

það treystir Jóhannes á nú og ryðst nú fram fullur uppgerðariðrunar þegar hann er í raun orðinn smeykur um að þjóðin ætli ekki að láta hann komast upp með trikkið, aftur!

Látum martröðina hans Jóhannesar rættast. Við þurfum víst að taka við skuldunum hans en látum hvorki hann né hans fólk komast upp með að halda eignum sínum óskertum rétt á meðan.

þetta er í okkar höndum núna og það finnur Jóhannes.

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 25.2.2010 - 11:03 - 3 ummæli

Bensíngjaldið hans Steingríms

það er margt skrýtið í skattakýrhausnum. Fjármálaráðherra sem kann bara eina leið til stjórnar efnahagsmálum hvort heldur sem er í góðæri eða hallæri tjáði sig um hækkun bensíngjalds í gær.

Eins og alþekkt er þá hafa áhrif af hækkun bensínverðs haft ein og aðeins ein áhrif. Dregið hefur úr neyslu og þar með tekjum af skattinum. Kenningin sannar sig sífellt en samt er hamast í því að hækka skatta til að fylla upp í göt í fjármálum ríkissins. Höfðinu er lamið af festu við steininn og allir þjást.

En þetta er í raun aukaatriði sagði Steingrímur því þessar auknu álögur á þjakaða og stórskulduga þegna landsins voru settar í umhverfisskyni en ekki til að ná í aura í skröltandi tóman kassann. Hann hefur þvi engar áhyggjur þótt þetta skili minni tekjum en fyrr…

Hvað getur maður sagt?

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 24.2.2010 - 13:58 - 2 ummæli

Lausn á skuldavanda 101 hótel fundin

það fer furðulítið fyrir fréttinni sem fréttastofa stöðvar 2 hafði fyrsta í kvöldfréttum í gærkvöldi. þar sagði að þau heiðurshjón Jón Ásgeir og Ingibjörg Pálmadóttir hafi fært „eign“ sína 101 hótel á sínar persónulegu kenntölur en skilið skuldina, pínulitlar 13 þúsund milljónir eftir.

Nú munu þau „eiga“ sitthvor 50% í hótelinu skuldlaust trúlega. Þetta er fallegt ævintýr og gaman að sjá að þurfalingar þessa þjóðfélags skuli fá aðstoð á þessum harðindatímum.

þetta vesalings fólk skuldar reyndar ekki nema 1 000 milljarða eða svo og þvi eðlilegt að starfsmenn bankans sjái á því aumur enda getur Íslensk þjóð klárlega bætt þessu hóteli og skuldum þess á sitt skulduga bak.

Ég sé ekki betur en að hér sé fundin lausn á skuldavandræðum okkar og því er rétt að fagna þessum tíðindum. Ég legg til að sá maður sem kvittaði undir þetta í bankanum verði dreginn fram og hann fenginn til að líta sem snöggvast yfir heimilisbókhald venjulegs Íslendings með þessa lausn í huga.

Hver segir svo að bankarnir séu ekki að sinna þörfum viðskiptavina sinna þegar þeir lenda í kröggum?

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 23.2.2010 - 16:13 - 6 ummæli

Ha! Baugsmenn að ritstýra fjölmiðlum sínum??

Er það virkilega þannig að einhver hafi í raun trúað því að Hreinn Loftsson/Jón Ásgeir hafi ekki ritstýrt blöðum sínum og sjónvarpsstöðvum? það er staðreynd að sá hópur sem gékk í lið með þessum kónum gerði það af pólitískum ástæðum fyrst og síðast og í því skjóli tóku þessir menn til óspilltra málanna að misnota þau fyrirtæki sem hönd var hægt að festa á.

Ég hef margsagt það áður að snilld Jóns Ásgeirs eða jafnvel heppni var sú að Davíð Oddsson sá í gegnum hann fljótlega og Jóni tókst að fá heilan stjórnmálaflokk á uppleið til að berja á kallinum og flokknum hans og allir græddu. Nema þjóðin auðvitað eins og við vitum nú orðið öll.

Stundarhagsmunir viðskiptalegs eðlis og pólitískir voru notaðir til að sölsa undir sig heilt viðskiptasamfélag og þá var eignarhald á fjölmiðlum nauðsyn og aðrar viðskiptablokkir fylgdu svo í kjölfarið. Þarna smellpössuðu hagsmunir beggja svona líka prýðilega saman. Fjölmiðlarnir voru notaðir til þess að berja á vandræðamanni sem þvældist fyrir báðum.

Og enn hefur fátt breyst. Vinstri menn þessa lands halda áfram að hlaða undir þessa fjölskyldu sem veður nú yfir gjaldþrota þjóðina og heldur húsum sinum, fyrirtækjum og fjölmiðlum. Og reikningurinn í heimabankanum hjá þér kæri lesandi.

Þessa sögu hef ég og fleiri sagt árum saman en það fylgir því þó engin gleði að hafa haft fullkomlega rétt fyrir sér. Þeir hinir sem völdu að kóa með þessu fólki og lesa okkur hinum pistilinn hljóta nú að fara með veggjum.

Eða ættu að gera það…

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur