Ég var að enda við að hlusta á Jóhönnu Sigurðardóttur í útvarpi allra Samfylkingarmanna, speglinum á rás 2, Þar fór hún á kostum og hélt áfram rausi sínu um markleysu þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Ég spái því að hegðun stjórnarflokkanna í þessu máli nú síðustu daga muni fá algera falleinkunn þegar sagan verður skrifuð og í raun er óskiljanlegt hvað hvetur Steingrím og Jóhönnu áfram í viðleitni sinni til að spilla fyrir.
Jóhanna hélt fína tölu um hversu mjög tafir í þessu máli væru að kosta okkur. Hún sá ekkert annað en svartnætti og endalok mannlífs. Ég hvet fólk stuðningsfólk ríkisstjórnarinnar til að hlusta á þessa messu því þarna tókst henni býsna vel að upplýsa hversu mjög Icesave klúður hennar eigin stjórnar er að kosta okkur.
Þessi liðónýta ríkisstjórn hefur frá fyrsta degi verið með þetta mál í tómu rugli og engin sérstök furða að Steingrímur hafi reynt að snuða bæði þjóð og þing um að sjá samninginn á sínum tíma. það er þessi ríkisstjórn sem skipaði samninganefndina og tók þá afstöðu að verja okkur ekki. Það var engin önnur ríkisstjórn sem ákvað að hafa Indriða í sinni þjónustu.
Nú þegar við sendum alvöru samninganefnd er hægt að fá talsvert betri samning en Steingrímur taldi algerlega fullreynt með Svavarsklúðrinu á örfáum dögum. Ábyrgðin á þessum samningi liggur hjá þessu fólki sem tókst hvorki að sannfæra þing né þjóð.
Þess vegna er eiginlega sorglegt að hlusta á Jóhönnu og Steingrím tala niður til lýðræðis og þjóðar sinnar eins og þau gera i dag. Fólkið sem hefur haldið svona illa á okkar málum ætti að sjá sóma sinn í því að vera með henni í að reyna að bæta skaðann í stað þess að bæta við skömmina.
Röggi