Fimmtudagur 2.4.2009 - 19:25 - 8 ummæli

Flokkspólitísk búsáhöld.

Þá rumskuðu raddir búsáhaldabyltingarinnar. Nú loks kom að því að þolinmæði þess fólks brast aftur. Hvað ætli hafi raskað ró þess fólks?Ekki að ríkisstjórnin gerir ekkert fyrir heimilin og atvinnulífið. Ekki að upplýsingar um aðgerðir ríkisstjórnar eru ekki gerðar opinberar. Ekki að vextir seðlabanka hafa ekki lækkað. Ekki að vanhæfir ráðherrar fyrri stjórnar sitja enn sem fastast sumir. Ekki að bankarnir eru lamaðir. Þetta eru smámunir.

Minnihlutastjórn ætlar sér að kröfu Framsóknar að traðka í gegnum þingið breytingum á stjórnarskrá í fullkominni ósátt við Sjálfstæðisflokkinn rétt fyrri kosningar þar sem kjörið tækifæri gefst til að spyrja kjósendur. þannig eru breytingar á grundvallarplaggi okkar samfélags ekki gerðar og þannig hefur það aldrei verið. Sjálfstæðisflokkurinn setur sig upp á móti þessari vinnutilhögun en vill styðja þann hluta sem auðveldar breytingar á stjórnarskrá í framtíðinni. Breytingum skal svo skotið til þjóðarinnar í atkvæðagreiðslu. það virðist bæði skynsamlegt og lýðræðislegt.

Núna 6 mínútum fyrir kosningar er þetta gert að aðalmáli á meðan heimili og atvinnulíf brenna. Þetta mál er nú notað til þess að þurfa ekki að koma með neinar tillögur enda virðast þær ekki til. Þetta má ekki bíða nýs umboðs frá kjósendum. þetta getur ekki beðið í nokkrar vikur. Allt annað skal víkja.

Sjálfstæðisflokkurinn tekur sér tima til að ræða þetta út í hörgul og því vilja raddir búsáhaldanna mótmæla. Sjálfur get ég ekki séð hvað er ólýðræðislegt við að Sjálfstæðisflokkurinn hafi afstöðu í þessu máli. 50 ára hefð skal nú rofin til að þóknast Framsóknarflokki rétt fyrir kosningar.

Forráðamenn mótmælenda segjast eins og venjulega mótmæla í þágu þjóðarinnar sem vilji stjórnlagaþing. Merkilegt að þjóðin sem vill þetta þing svona ákaft geti alls ekki hugsað sér að styðja þann eina flokk sem leggur sig af metnaði eftir því að þetta þing komist á dagskrá.

Þau eru og voru flokkspólitísk mótmælin í byrjun árs og þau munu halda áfram að vera það. Litlu skiptir hvort Sjálfstæðisflokkurinn er í stjórn eða ekki. Það sannast daglega með skerandi þögninni sem ekki virðist rofna nema þegar Sjálfstæðisflokkurinn hefur skoðanir.

Ekkert í afstöðu Sjálfstæðisflokksins mun stoppa stjórnlagaþing og eða aðrar þær breytingar sem þjóðin mun vilja gera á stjórnarskrá. Allt tal um það er bara enn ein sjónhverfing ríkisstjórnar sem grípur hvert það hálmstrá sem hún getur til að dreyfa huga þjóðarinnar og leiða athyglina frá því sem skiptir máli akkúrat núna.

Hér er stormur í tómu vatnsglasi aðgerðaleysisríkisstjórnar.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 2.4.2009 - 09:28 - 19 ummæli

Snúist til varnar Borgarnesræðum.

þær stöllur Rannveig Guðmundssdóttir og Kristrún Heimisdóttir birta grein í Mogganum í morgun. Þessari grein er ætlað að vera varnarræða fyrir Borgarnesræður Ingibjargar Sólrúnar forðum. Litlu skiptir þó þær lesi djúpa heimspeki út úr guðspjallinu. Ferðalög Ingibjargar í Borgarfjörð mörkuðu upphaf varðstöðu stjórnmálaflokks með fólki og fyrirtækjum sem reyndust dýru verði keypt.

Á þeirri vegferð var öllu til kostað. Ráðist var á stofnanir og starfsfólk stofnana sem voguðu sér að reyna að spyrna við fótum. Ekki bara ríkislögreglustjóra eða samkeppnisstofnana heldur líka dómstóla. Allt var gert tortryggilegt og pólitískt. það hefði ekki tekist nema með fullri þátttöku Samfylkingar. Í þessu skítuga stríði voru ekki teknir fangar. Tekið var undir hvert orð þrjótanna og hagsmunir flokks og fyrirtækja fóru svo þægilega saman að með eindæmum var, og er.

Þrjótarnir voru í vandræðum með ráðamenn og svo heppilega vildi til að flokkurinn var einmitt í vanda með þessa sömu menn. Þessi saga er öllum ljós þó hún sé að sjálfsögðu ekki að fullu sögð en þess mun ekki langt að bíða.

Grein þeirra í blaðinu í morgun gerir ekkert annað en að staðfesta það sem lengi hefur verið vitað. Það sem þær eru að segja er efnislega að tilgangurinn hafi helgað meðalið. Í því er engin vörn hvorki til langs né skamms tíma.

Söguna flýr enginn en kannski er að renna upp fyrir flokknum að nú þarf að fara að bretta upp ermar og sverja af sér byltinguna og eitrað ástarsambandið við útrásarliðið. Væntanlega með fulltingi fjölmiðla i eigu víkinganna.

Vonandi dansar auðtrúa þjóðin ekki lengur með heldur opnar augun og sér það sem blasir við.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 31.3.2009 - 12:50 - 17 ummæli

Sjálfstæðismenn kjósi XD.

Ég heyri marga góða og gegna Sjálfstæðismenn lýsa því yfir að þeir ætli ekki að kjósa flokkinn í kosningum núna. Vegna atburða sem gerðust hinu megin við gærdaginn. Linnulaus áróður ónýtra fjölmiðla í garð flokksins og forystumanna hans virðist hafa náð til eyrna ótrúlega margra. Sjálfstæðisflokknum er um að kenna er messað yfir okkur ótt og títt þó við fáum fréttir af því daglega að heimsbyggðin öll sé undirlögð og engin fái rönd við reyst og það þrátt fyrir að fall okkar hafi allsstaðar kveikt á loftvarnaflautum. Mikill er máttur flokksins segi ég.

Hver erlendi sérfræðingurinn á fætur öðrum er fluttur til landsins til að segja okkur að glæpirnir séu bankanna en það heyrist lítt enda eru fjölmiðlar ekki að básúna svoleiðis. Við munum trúlega rífast um þetta út í hið óendanlega og skekkjan í umræðunni verður í rökréttum takti við það hvaða hagsmunir eigenda fjölmiðlana henta best hverju sinni.

það sem skiptir máli í næstu kosningum er þó ekki þetta. Nú þarf að velja leiðir til að komast út úr vandanum. þar erum við að tala um grundvallarspurningar í stjórnmálum. Hvaða sjónarmið liggja að baki þegar við merkjum við. Þeir Sjálfstæðismenn sem ekki merkja við D eru þá væntanlega sáttir við vinstri stefnuna.

Við vitum út á hvað hún gengur. Skattahækkanir á allar hendur umfram allt svo ríkið megi nú stækka sem hraðast og mest. Allt sem heitir niðurskurður og hagræðing bannað. Vinstri stjórnir síðustu aldar brúuðu bilið jafnan með lántökum erlendum en nú er sá möguleiki ekki til staðar. Hvernig á þá að koma ríkiskassanum á rétt ról aftur?

Um þetta snýst málið næsta kjördag. Sjálfstæðisflokkurinn gerir sér grein fyrir því að niðurskurður hjá hinu opinbera er óhjákvæmilegar og nauðsynlegur, má líka gjarnan kalla það hagræðingu. það verður ekki sársaukalaust og krefst kjarks sem vinstri menn hafa ekki. Æfingar ríkisstjórnarinnar núna 5 mínútum fyrir kosningar í þá veru að hætta við heilbrigðar áætlanir um hagræðingu hjá hinu opinbera eru sjónhverfingar. Af þeim verður látið fljótlega eftir kosningar.

Nú þegar allt atvinnulífið fer um með blóðugan niðurskurðarhnífinn á lofti ætla ríkisforsjárflokkarnir tveir að berja höfðinu við steininn. Hvaða lógík er í því að ríkið geti ekki hagrætt og sparað? Er ríkisrekstur þeirrar gerðar að þar sest ekki fita utan á? Fólk og atvinnulíf sem berst nú í bökkum frá einum mánuði til þessa næsta mun ekki að óbreyttu þola miklar skattahækkanir. Þannig er það bara.

Skerum niður kostnað ríkissins og hagræðum. Hóflegar skattahækkanir eru óhjákvæmilegar og eðlilegar en ég mun aldrei kjósa yfir mig fólk sem telur það einu lausnina. Nú ríður á sem aldrei fyrr að grunnstefin í stefnu Sjálfstæðisflokksins haldi. Nú þegar yrti skilyrði eru afleit megum við ekki búa til heimatilbúnar álögur á skraufaþurrt atvinnulíf og heimili með skattaofbeldi.

Ríkisstjórn sem segist ætla að gera allt fyrir ekkert er á alvarlegum villigötum. Við hækkum ekki vaxtabætur án þess að einhver borgi það. Hátekjuskattur skilar okkur því að háar tekjur hverfa af yfirborðinu og skatttekjur ríkissins lækka. Hagfræðin og sagan leyna engu í þessum efnum.

Ég hvet Sjálfstæðismenn til að kjósa flokkinn vegna þess sem hann stendur fyrir. Þær grundvallarhugmyndir að frelsi einstaklingsins skili okkur mest og best fram á veginn. Látum ekki litinn hóp glæpamanna og pólitískt fatlaða fjölmiðlamenn selja okkur það að frelsið sé skammaryrði og vandamál.

Höft, bönn og ríkisforsjá eru ekki okkar tebolli. þeir Sjálfstæðismenn sem hafa skipt um skoðun kjósa auðvitað vinstri flokkana. Þeir hinir sem ekki hafa horfið frá grundvallarhugmyndum mæta auðvitað á kjörstað upplitsdjarfir og veita nýrri forystu flokksins brautargengi.

Flóknara er það nú ekki. Ég geng ekki um alla daga harðánægður með allt sem minn flokkur gerir í öllum málum. Mín afstaða mótast af grundvallarsjónarmiðum og þar á ég alla samleið með Sjálfstæðisflokknum.

þess vegna kýs ég hann og hvet alla Sjálfstæðismenn til þess að skoða hug sinn vel áður en þeir kjósa yfir sig vinstri stjórn þann 25. apríl fyrir tóman misskilning.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 30.3.2009 - 18:43 - 2 ummæli

Jóhanna og launakjörin.

Jóhanna Sigurðardóttir er merkilegur stjórnmálamaður. Gerir út á að hún vilji gagnsæi og ábyrgð. Talar hátt um siðferði þó hún telji hvorki að siðferði né ábyrgð eigi við hana sjálfa eins og viðbrögð hennar við nýgengum dómi yfir hennar embættisfærslum sannar.

Hún virðist hafa smitast all hraustlega af popúlisma pólitík félaga Össurar. Tími ofurlauna er liðinn messar hún yfir landsfundi Samfylkingar um helgina og söfnuðurinn ætlar að ærast af fögnuði. Alltaf gott að geta sagt það sem lýðurinn vill heyra.

Þegar bent er á að hin Norsk Franska Eva fá frábær laun fyrir ráðgjöf til handa okkur vegna rannsókna á bankahruninu þá fer Jóhanna að tala um að nú verði að skoða laun skilanefnda. Núna þegar mjög ríður á að skilanefndirnar skipi okkar hæfasta fólk þá vill Jóhanna lækka laun þeirra vegna þess að Eva er svona dýr. Líklega væri rökréttara að hækka laun skilanefnda en hitt.

Þetta er dæmigert fyrir stefnuleysi og eftirsókn eftir vindi sem einkennir forystu Samfylkingar. Nú þarf þetta blessaða fólk sem hefur tögl og hagldir í stórn landsins að standa í fæturna og hlaupa ekki upp til handa og fóta í hvert sinn sem vindur stýkur kinn.

Rökstuðningrinn fyrir launum Evu er svo sér mál. Jóhanna er sannfærð um að hún sé hverrar krónu virði! það dugar henni en er ekki mjög gagnsætt fyrir okkur hin. Hún var nefnilega sannfærð um að embætismaðurinn sem hún braut stjórnsyslulögin á um daginn væri að reyna að hafa af okkur fé með kröfum sínum. þar sagðist Jóhanna hafa sparað ríkiskassanum peninga. Bara kalt mat hjá henni og þá eru hlutir eins og dómstólar léttvægir fundnir.

Hver skilur svona stjórnmálamenn? Hentistefna og popúlismi og ekkert annað ef ég er spurður. Vonandi stendur Jóhanna ekki við hótanir sínar um að sitja lengi í ráðuneyti forsætis ef þetta er það sem á að bjóða upp á.

Kjarkleysi og popúlismi eru afleitt vegnanesti til þeirra sem þurfa óhjákvæmilega að taka erfiðar ákvarðanir næstu misseri.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 27.3.2009 - 12:11 - 1 ummæli

Jarðsamband Skúla Helgasonar.

Skúli Helgason er upprennandi stjarna í Samfylkingunni. Hann er skilgetið afkvæmi klækjastjórnmálaskóla flokksins. Í framkvæmdastjóra tíð hans molnaði flokkurinn niður og stakk undan formanni sínum svo að aldrei gleymist.

Samræðustjórnmál Samfylkingar hafa ekki verið merkilegri en það að hefja samræður við flokka um myndun vinstri stjórnar á meðan Ingibjörg Sólrún notaði alla sína takmörkuðu orku í að vinna með samstarfsflokknum að lausn þeirra vandamála sem upp komu. Sú vinna er í dag vegvísirinn sem unnið er eftir. þessi Skúli setur ofan í við okkur Sjálfstæðismenn í dag.

Þar sakar hann okkur um að hafa tafið fyrir Samfylkingu í viðleitni hennar til að bjarga heimilum og atvinnulífi. Stórmerkileg söguskýring enda hefur ekkert borið á þessum bjargráðum þó Sjálfstæðisflokkur sé ekki lengur í veginum. Samfylking mun líklega kenna Framsókn um það. þannig flokkur er bara flokkurinn hans Skúla.

Skúli gagnrýnir hugmyndir okkar Sjálfststæðismanna í ESB málum. Við höfum farið í mjög metnaðarfulla skoðun á öllum hliðum þess máls og mikil vinna margra aðila og opinská að baki. Samfylkingin hefur ekki staðið í slíku enda eiga samræðustjórnmálin ekki alltaf við.

Til dæmis þegar flokksforystan hefur komist að niðurstöðu. Þá þarf ekkert að ræða málið frekar. Skúli kemst að þeirri niðurstöðu að Sjálfstæðisflokkurinn sé að tefja málið með því að vilja setja það í þjóðaratkvæði. Gott að vita að Skúli telur þjóðaratkvæðagreiðslur tefja fyrir því sem flokkarnir hafa bara ákveðið.

Skoðanakannanir segja okkur að meirihluti þjóðarinnar vill ekki fara í aðildarviðræður á þessu stigi. Slíkir smámunir þvælast ekki mjög fyrir Samfylkingunni og Skúla Helgasyni. Við vitum betur syndromið birtist þarna sprelllifandi. Þið eruð ekki þjóðin lifir góðu lífi í hugum þessa flokks og nýstirnin fljót að tileinka sér vísindin.

Þjóðin er ekki Samfylkingin og Samfylkingin ekki þjóðin. Þetta vefst fyrir Skúla sem telur að óþarfi sé að spyrja þjóðina af því að hann hefur fundið sannleikann eina þó þjóðin sé ekki að fullu sammála. Helvítis lýðræðið getur verið of svifaseint fyrir riddara sannleikans.

Mælingar Skúla Helgasonar á jarðsambandi verð seint löggildar. Í málefnum ESB er þjóðin klofin og meirihlutinn fellur öfugu megin víglínunar séð úr horninu hans Skúla. Allar tafir sem verða á því að minnihlutinn fái sínu framgengt falla Samfylkingunni þungt.

Við Sjálfstæðismenn þurfum ekki að skammast okkar fyrir að vilja fara lýðsræðsleiðina í því að leiða málið til lykta. Samfylkingin verður bara að gera stundarhlé á bakherbergja og baktjaldamakks aðferðum sínum á meðan þjóðin fær að gefa sitt álit.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 25.3.2009 - 10:30 - 2 ummæli

Lestur minnisblaðs.

Merkileg umræðan um minnisblaðið hans Davíðs. Stjórnmálamenn láta eins og það skipti engu máli og vinstri menn rembast eins og áður við að gera allt grunsamlegt sem frá Davíð kemur. Þessi pólitíski stífkrampi vinstri manna gagnvart Davíð er fyrir löngu orðin skaðlegur svo um munar.

það er kunnara en frá þurfi að segja að nú er bankakreppa um allan heim. Stöndugar stofnanir riða til falls vegna þess sama og plagar okkar samfélag. Peningakerfi stærstu landa heims með þróað eftirlitskerfi og þrautreynt fólk í öllum stöðum stendur á gati og getur vart rönd við reyst. Vandinn er ótrúlegur og hann er nánast allra og sameignlegur í minnkandi heimi sem vinnur meira og minna eftir sama regluverkinu enda krafan um stöðlun og miðstýringu æpandi.

Hér á litla á litla Íslandi höfum við fundið einn mann öðrum fremur sem hægt að að skrifa fyrir hruninu. Þetta hefur öðrum þjóðum ekki tekist enda eru ekki allar þjóðir í fjötrum pólitískrar lömunur eins og við.

Bankahrunið snérist um viðskipti og siðferði þeirra sem áttu og ráku bankana. Alþjóðlegt lagaumhverfi sá ekki við svívirðunni og fáir komu auga á glæpina fyrr en of seint. það er hinn bitri sannleikur sem við eins og aðrir búum við. Þennan sannleika virðast margir hreinlega ekki vilja horfast í augu við.

Þess vegna tekst fólki að lesa minnisblað Davíðs á þann hátt að stílbragð og uppsetning bréfsins sé aðalatriði máls. Innihaldið og kjarninn auka. Hversu mikil þarf hin pólitíska blinda að verða? Kannski er ekki óeðlilegt að stjórnmálamenn reyni að koma sér undan sannleikanum að ég tali nú ekki um fyrri eigendur bankanna.

En hörmulegt að er að sjá málsmetandi menn bæði bloggara og aðra reyna að bjaga það sem er augljóst við lestur minnisblaðsins. Mér er fyrirmunað að sjá hvaða hagsmunir liggja þar að baki aðrir en pólitísk fötlun og hanaslagur í aðdraganda kosninga.

Davíð hefur verið einn fárra sem reynt hefur að benda á þvæluna og hlotið bágt fyrir. það er ekki hann sem reyndi að koma í veg fyrir að sérstakur saksóknari fengi fullt frelsi. Hann aftur á móti fór fram á fulla rannsókn í eigin málum í bankanum.

Bankarnir voru ýmist seldir vafasömum mönnum eða enduðu í eigu slíkra aðila. Pólitísk öfl tryggðu þeim svo yfirburðastöðu hér á öllum sviðum og þar var ekki svigrúm fyrir gagnrýni og er varla enn. það mun breytast.

Vonandi verður hulunni svipt af fleiri minnismiðum í framtíðinni. Líklega er þó best að þeir tengist ekki nafni Davíðs því ótrúlega ætlar að lifa lengi í þeim sem finna honum allt til foráttu. Upp úr þeim hjólförum verðum við að komast svo finna megi hina raunverulega sökudólga.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 21.3.2009 - 18:40 - 1 ummæli

Össur fabúlerar um Sjálfstæðisflokkinn.

það er uppi á Össuri typpið eins og stundum áður og nú hefur klækjameistarinn sjálfur komið auga á plott hjá okkur Sjálfstæðismönnum. Hann trúir auðvitað á að allt sé hannað og plottað eins og gjarnan gerist í hans flokki. Karlgarmurinn nauðaþekkir slík vinnubrögð enda hefur ekkert gerst í leiðtogamálum Samfylkingar hvort heldur er í Reykjavík eða á landsvísu öðruvísi en að um það sé vélað í fjölskylduboðum rétthugsandi klíkumeðlima.

Svo fer spunadoktorinn að rýna í framtíð Sjálfstæðisflokksins og hvert hann ætli sér að leita eftir kosningar. Mælitækið sem hann notar á okkur er tækið sem hann beitir að jafnaði á sinn eigin flokk. Á þeirri mælistiku glidir eitt og aðeins eitt. Hvaða málefni þarf ég að setja á oddinn þennan daginn til að ég geti nú örugglega verið ráðherra.

Hann telur auðvitað að formannsefni Sjálfstæðisflokksins ætti að skoða málefnaskrár annarra til að komast að því hvað skoðun er heppileg. Það er aðferð sem passar bara ekki öllum. Bjarni Ben vaknar ekki kjarklaus alla daga heldur þorir að hafa skoðanir og afstöðu. Jafnvel þó þær henti ekki fullkomlega taktískt í augnablikinu. Slíkur þankagangur er félaga Össur ókunnur.

Þeir stjórnmálamenn sem ekki þora út fyrir rammann sem smíðaður er utan um ráðherrastóla og hvaðhentarbest stjórnmál eru léttvægir fundnir eins og kjósendur í prófkjöri Samfylkingar hafa nýverið hnykkt á í tilfelli Össurar sem sér þó ekki merkin sjálfur heldur hnýtir í menn eins og Bjarna Ben af engu tilefni.

Hvort Sjálfstæðisflokkurinn hentar félaga Össur eftir kosningar snýst auðvitað ekkert um málefni enda eru þau að jafnaði talsvert á reiki hjá Samfylkingunni. Össur mun koma blaðskellandi í fangið á hvaða þeim formanni sem Sjálfstæðisflokkurinn velur eftir kosningar ef hann telur það henta sér.

Við Sjálfstæðismenn erum að fara að takast á við stór mál og það verður varla þrautalaust með öllu. Á meðan félagi Össur og hans fólk bannar einkadans eru aðrir flokkar sumir að ræða alvöru stjórnmál. Þar verður vonandi svigrúm fyrir nýja vinkla og nýjar nálganir hvort sem það er herfræðilega sniðugt út frá ráðherrastólum dagsins eður ei.

Sorpritið DV hefur nú verið virkjað til þess að reyna að selja fólki að Bjarni sé vafasamur valkostur af því að hann tilheyrir fjölskyldu sinni. Össur kýs að ganga til liðs við svoleiðis aðferðafræði og það mun bara verða honum til minnkunar og minnir okkur á hversu mjög ríður á að losna við þessa tegund stjórnmálaumræðu hvaðan sem hún kemur.

það er eiginlega synd að maður með alla þá kosti sem félagi Össur er búinn geti með engu móti búið sér til almennilega trúverðuga ímynd eða sýnt stefnufestu. Seglum skal alltaf haga eftir vindi.

Núna blása vindarnir til vinstri og þá snýr Össur þangað. Hvert hann snýr eftir kosningar veit enginn eða hvaða málefni munu ráða afstöðu hans. Ef eitthvað er að marka grein hans í dag tekur hann helst afstöðu út frá því hvernig hægt er að smyrja saman ríkisstjórn og hæðist svo að þeim sem eru að láta málefni þvælast fyrir sér.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 18.3.2009 - 16:30 - 1 ummæli

Niðurstöður PISA könnunar.

Við Íslendingar erum ekki að skora nógu vel þegar námsárangur í grunnskólum er mældur. Það er viðvarandi vandamál og við höfum kosið að láta eins og ekkert sé að marka þær rannsóknir og þann samanburð sem aðrar þjóðir notast við. Það er hinn séríslenski útúrsnúningur sem við skýlum okkur svo gjarna á bak við þegar eitthvað er ekki nógu þægilegt.

Þarna er ég að vísa í PISA könnunina sem gerð er á námsárangri með reglubundnum hætti og öðrum þjóðum þykir góður mælikvarði. Niðurstöður þessarar könnunar staðfesta aftur og aftur að eitthvað er að í okkar kerfi. það gerist þrátt fyrir að fáar þjóðir ef nokkrar setji meira peninga í málaflokkinn.

Í dag skrifar Lára Dögg Alfreðsdóttir sem er formaður aðgerðarhóps PISA, hvað svo sem það nú er, grein í Moggann. Þar segir hún að nemendur og kennarar hér hafi greinlega ekki nógu mikinn áhuga á könnuninni og það skýri útkomuna. Þetta les hún út úr því að við skorum svo vel í samræmdum prófum.

Ég er pínu efins um þessa afstöðu. Af hverju tökum við ekki fullt mark á niðurstöðunum í stað þess að leita að ódýrum svörum? Hvort við getum ekki þjálfað okkar börn til að þau mælist betur í þessu. Mér finnst þetta tilraun til að sjá ekki það sem við eigum að sjá.

Og það er að eitthvað erum við ekki að gera rétt í grunnskólunum. Það er lærdómurinn en ekki hvernig við getum snúið á þessa ansans könnun. Könnunin er ekki vandamálið.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 18.3.2009 - 11:10 - 2 ummæli

Skítblönk ríkisstjórn.

Það má með sanni segja að ríkisstjórnin sé að vinna okkur gagn þessi dægrin. Hún er kynjuð að verða og hún ætlar að segja okkur hvað ráðherrar eiga af verðbréfum. Jóhanna fer fyrir umræðum um siðbót nýdæmd fyrir brot á stjórnsýslulögum! Allt horfir nú til betri vegar og Grímsi segir skuldir okkur mun minni en hann fullyrti að þær áður en hann settist í stólinn hans Árna Matt.

Nú skal því haldið að okkur að allt sé hér í öruggum höndum og fleyinu sylgt til af styrk til hafnar. Staðreyndin er samt sú að þessi hundlata ríkisstjórn er ekki að gera neitt fyrir þá sem hún lofaði að hjálpa. Hver blaðamannafundurinn á fætur öðrum er bara froðusnakk um eitthvert léttmetið og prívat áhugamál ráðherra og þó margt af því sé öndvegis þá er það bara ekki það sem við erum að bíða eftir.

Vissulega getur ríkisstjórnin notast við pakkann sem gamla stjórnin útbjó og kom á koppinn og líklega mun það plan koma okkur á réttan kjöl á endanum. Rétt er þó að halda því rækilega til haga að þessi stjórn á ekki staf í þeim efnahagsaðgerðum sem unnið er að. Okkur er haldið uppteknum við að hlusta á forsjárhyggju raus um bann við einkadansi. Mikið hljóta skuldsettur fjölskyldurnar að fagna þessu banni, eftir því höfum við beðið!

Væntanlega sitja ráðherrar nú daglangt við að útbúa gullbryddaða kosningapakka handa lýðnum. þá verður allt hægt og lausnir handhægar en bara ekki fyrr en eftir kosningar. Menn eins og Steingrím munar auðvitað ekkert um snæða kosningaloforð í öll mál eftir kosningar, annað eins hefur hann nú þurft að sporðrenna af yfirlýsingum undanfarið.

Hafi fyrri ríkisstjórn verið stjórn aðgerðaleysis þá verðum við að finna ný viðmið til handa þessari sem nú gerir ekki neitt fyrir pottalemjandi umbjóðendur sína né okkur hin. Helstu vinna þeirra í efnahagsmálum er að hafna öllum hugmyndum sem upp koma og keyra bara áfram á kúrsinum sem Geir setti með gjaldreysissjóðnum.

Blankheitin eru alger og öllum ljós.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 18.3.2009 - 09:23 - 3 ummæli

Útúrsnúningar LOGOS.

Ég er að reyna að staulast í gegnum yfirlýsingu frá LOGOS lögmannsstofu í Mogganum mínum. Þar útlistar Gunnar Sturluson fræðin á bak við skiptastjóra djobbið allvel. Fer yfir helstu prinsipp og upplýsir okkur um að skiptastjóri skuli gæta hagsmuna kröfuhafa en ekki fyrrverandi eigenda. þetta er allt gott og fínt og ber að fagna því að lögmannsstofan skilur hlutverk skiptastjóra til fullnustu.

Hitt er verra að LOGOS skilur alls ekki að menn skuli efast um hlutleysi starfsmanna LOGOS til að skipta upp búi fyrrverandi eða jafnvel núverandi viðskiptavinar stofunnar. Hvort Baugur var „fastur“ viðskiptavinur Gunnars Sturlusona eða ekki fastur er bara eitthvað tækniþvaður sem okkur flestum er nákvæmlega sama um. LOGOS hefur unnið fyrir Baug og tengd fyrirtæki.

það er viðurkennt og upplýst og því einboðið að stofan komi ekki að uppgjöri Baugs. Nóg er komið af sukki og svínaríi í kringum Baug og tengd fyrirtæki eins og það heitir. Nú má alls ekki kasta til hendinni og ekki má leika minnsti vafi um uppgjör Baugs.

það er krafa almennings og réttur og mjög er dapurlegt að þessir sjálfsögðu hagsmunir almennings skuli ekki fara saman við hagsmuni LOGOS. Ég fæ ekki betur séð en að útúrsnúningar Gunnars Sturlusonar í Mogganum í morgun ali frekar á tortryggni í garð LOGOS en hitt.

Legg eindregið til að þeir sem um þessi mál véla kippi þessu í liðinn svo ekki þurfi að leika vafi um að eðlilega verði staðið að uppgjöri Baugs. Það eru einu hagsmunirnir sem skipta máli núna.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur