Þá rumskuðu raddir búsáhaldabyltingarinnar. Nú loks kom að því að þolinmæði þess fólks brast aftur. Hvað ætli hafi raskað ró þess fólks?Ekki að ríkisstjórnin gerir ekkert fyrir heimilin og atvinnulífið. Ekki að upplýsingar um aðgerðir ríkisstjórnar eru ekki gerðar opinberar. Ekki að vextir seðlabanka hafa ekki lækkað. Ekki að vanhæfir ráðherrar fyrri stjórnar sitja enn sem fastast sumir. Ekki að bankarnir eru lamaðir. Þetta eru smámunir.
Minnihlutastjórn ætlar sér að kröfu Framsóknar að traðka í gegnum þingið breytingum á stjórnarskrá í fullkominni ósátt við Sjálfstæðisflokkinn rétt fyrri kosningar þar sem kjörið tækifæri gefst til að spyrja kjósendur. þannig eru breytingar á grundvallarplaggi okkar samfélags ekki gerðar og þannig hefur það aldrei verið. Sjálfstæðisflokkurinn setur sig upp á móti þessari vinnutilhögun en vill styðja þann hluta sem auðveldar breytingar á stjórnarskrá í framtíðinni. Breytingum skal svo skotið til þjóðarinnar í atkvæðagreiðslu. það virðist bæði skynsamlegt og lýðræðislegt.
Núna 6 mínútum fyrir kosningar er þetta gert að aðalmáli á meðan heimili og atvinnulíf brenna. Þetta mál er nú notað til þess að þurfa ekki að koma með neinar tillögur enda virðast þær ekki til. Þetta má ekki bíða nýs umboðs frá kjósendum. þetta getur ekki beðið í nokkrar vikur. Allt annað skal víkja.
Sjálfstæðisflokkurinn tekur sér tima til að ræða þetta út í hörgul og því vilja raddir búsáhaldanna mótmæla. Sjálfur get ég ekki séð hvað er ólýðræðislegt við að Sjálfstæðisflokkurinn hafi afstöðu í þessu máli. 50 ára hefð skal nú rofin til að þóknast Framsóknarflokki rétt fyrir kosningar.
Forráðamenn mótmælenda segjast eins og venjulega mótmæla í þágu þjóðarinnar sem vilji stjórnlagaþing. Merkilegt að þjóðin sem vill þetta þing svona ákaft geti alls ekki hugsað sér að styðja þann eina flokk sem leggur sig af metnaði eftir því að þetta þing komist á dagskrá.
Þau eru og voru flokkspólitísk mótmælin í byrjun árs og þau munu halda áfram að vera það. Litlu skiptir hvort Sjálfstæðisflokkurinn er í stjórn eða ekki. Það sannast daglega með skerandi þögninni sem ekki virðist rofna nema þegar Sjálfstæðisflokkurinn hefur skoðanir.
Ekkert í afstöðu Sjálfstæðisflokksins mun stoppa stjórnlagaþing og eða aðrar þær breytingar sem þjóðin mun vilja gera á stjórnarskrá. Allt tal um það er bara enn ein sjónhverfing ríkisstjórnar sem grípur hvert það hálmstrá sem hún getur til að dreyfa huga þjóðarinnar og leiða athyglina frá því sem skiptir máli akkúrat núna.
Hér er stormur í tómu vatnsglasi aðgerðaleysisríkisstjórnar.
Röggi.