Fimmtudagur 22.1.2009 - 10:23 - 6 ummæli

Geir sliti stjórnarsamstarfinu.

Hvernig stjórnmálaflokkur er Samfylking? Formaður flokksins segir eitt og gerir á meðan baklandið brennur og sendir frá sér yfirlýsingar sem eru úr allt annarri átt. Ráðherrar jafnvel heimta, að vísu undir rós sumir, stjórnarslit og kosningar.

Af hverju Geir tekur ekki af skarið og krefur flokkinn um eina afstöðu er mér fyrirmunað að skilja. Þetta er orðinn hreinn farsi þar sem Ingibjörgu Sólrúnu virðist hreinlega hafa verið steypt af stóli. Geri mér grein fyrir því að hún getur ekki tekið fullan þátt í atburðum en ekki finnst mér mikil reysn yfir því hvernig hennar eigið fólk umgengst hana.

Á meðan á þessu öllu gengur heldur Geir bara sínu striki. Jafnaðargeðið gríðarlegt og yfirvegunin. Eitt er víst að ekki myndi ég hafa nennu til að starfa í þessu umhverfi. Nógu erfitt hlytur að vera að vinna í því neikvæða ástandi sem ríkir þó samstarfsflokkurinn sé ekki allur upp í loft.

Nú á Geir að taka frumkvæðið og slíta samstarfinu sjálfur enda ekkert samstarf lengur í boði. Það er engin uppgjöf, heldur bara raunsætt mat á stöðunni. Samfylkingin er óstjórnhæf og vill út. Þá er ekki eftir neinu að bíða.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 22.1.2009 - 08:43 - 1 ummæli

Mótmælunum rænt.

Varla þarf það að koma nokkrum manni á óvart að ofbeldis og óróaseggir skuli hafa lagt hald á málsstað þeirra sem vilja kosningar og nýja ríkisstjórn. Af hverju söngvaskáldið góða og forystumenn stjórnandstöðunnar fordæma ekki framkomu og hegðun þess fólks er mér fyrirmunað að skilja.

Það sem verst er að líklega mun þetta fólk þakka sér ef nú verður boðað til kosninga með vorinu. Þannig er það ekki en ef ekkert gerist fljótlega mun þessum fámenna ofbeldishópi líklega takast að að eyðileggja mótmæla mómentið algerlega.

Auðvitað er það fólk sem vinnur við löggæslu orðið þreytt og því kannski ekki sanngjarnt að gagnrýna en af hverju enginn er handtekinn er furðulegt. Hver tekur ákvörðun um að gera það ekki?

Við getum ekki varið þessa hegðun jafnvel þó okkur sé heitt í hamsi eða að við höfum einhverja áunna óbeit á lögreglunni eins og mér virðist sumir hafa.

Margir benda á að svona nokkuð sé algengt erlendis og það þá væntanlega alveg eðlilegt og jafnvel fínt. Fordæmum þetta lið en höldum áfram að nýta okkur réttinn til að mótmæla, án ofbeldis þó einhverjum þykir bara smart að kenna börnum og unglingum að lögreglan sé skemmtilegt skotmark.

Núna erum við að takast á um pólitísk grundvallaratriði í okkar þjóðfélagi. En við skulum ekki gleyma öðrum góðum gildum í hita leiksins. Hnefarétturinn er handónýtt tæki til samskipta og tjáningar. Ég legg til að nú verði gerð heiðarleg tilraun til að frelsa mótmælin úr höndum þeirra sem halda að slagsmál við opinbera starfsmenn næturlangt séu þarft innlegg í umræðuna.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 21.1.2009 - 10:24 - 13 ummæli

Lögreglan er ekki vandamál.

Sit hér og velti því fyrir hvernig fólk getur komist að þeirri niðurstöðu eftir mótmæli síðasta sólarhrings að lögreglan sé vandamál. Það er gersamlega fáránlegt að tala þannig um störf lögreglunnar. Hvernig strúktúr vill þetta fólk hér?

Snúast mótmæli um að óhlýðnast tilmælum lögreglu? Um að slást við hana og sletta á hana skyri. Um að slást við þingverði sem ekki hafa neitt til saka unnið en að framfylgja einföldum reglum sem gilda jafnt fyrir alla, óháð skoðunum? Um að slást við starfsfólk hótels og sjónvarpsstöðvar?

Síðan hvenær varð þetta nauðsyn? Fulltrúar hvaða skoðana voru að brenna og eyðileggja í nótt? Alltaf er söngurinn eins. Umgjörðin sem við sem siðuð þjóð höfum sett okkur verður vandamál. Ég má vaða yfir reglurnar og jafnvel friðhelgi næsta manns ef mér er nóg boðið.

Eru það almenn viðmið að fara ekki að eðlilegum tilmælum lögreglu? Eru einhver dæmi um að lögreglan hafi veist að fólki sem hefur mótmælt friðsamlega? Ofbeldi eru ekki friðsöm mótmæli.

Hvaða einkunn hefði lögreglan fengið ef fólk hefði komist inn í þinghúsið í gær og hugsanlega beitt kjörna fulltrúa líkamlegu ofbeldi? Af hverju þarf að færa andófið á það plan?

Beinlinis barnalegt að halda því fram að menn eigi bara að sitja hjá garði og aðhafast ekki neitt. Hættum að veitast að því góða fólki sem vinnur í lögreglunni. það fólk er ekki óvinurinn. það fólk er ekki að abbast upp á skoðanir fólks.

það fólk er bara að sjá um að eðlilegum leikreglum sé fylgt og reyna að koma í veg fyrir ofbeldi. Það sýnist mér ekki muni takast án þess að beita óyndislegum meðölum á köflum. Tökum ekki upp hanskann fyrir fólk sem eyðir heilli nótt í slagsmál við lögregluna.

Gleymum ekki aðalatriðunum enn þau snúast í engu um lögregluna. Hvort fólk komist einu skrefi nær glerhúsi þingmanna til eða frá er algert aukaatriði fyrir mótmælendur en getur verið stórt atriði fyrir lögregluna.

Stöðvum ofbeldið strax og hugsum um það sem skiptir máli. Verjum málsstaðinn en fordæmum hegðun sem ekki getur leitt til annars en ofbeldis og óreglu.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 14.1.2009 - 18:40 - 22 ummæli

Ærandi þögn.

Hún er mun háværari dauðaþögnin bæði hjá fjölmiðlum og bloggurum en meira að segja ég átti von í kjölfar yfirlýsingar Ingibjargar Sólrúnar um hinar meintu hótanir. Sjaldan hafa jafn margir staðið eftir berrassaðir.

Skítt með það þó bloggarar og þeir sem gera athugasemdir við blogg séu orðlausir í vandræðum sínum en ekki veit ég af hverju fjölmiðlar misstu áhugan. Og þó, auðvitað veit ég það….

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 13.1.2009 - 18:17 - 11 ummæli

Heiðursmaðurinn Ingibjörg Sólrún.

Einmitt það.

Nú verður gaman að fylgjast með fólkinu sem var byrjað að steikja Guðlaug Þór yfir hægum eldi vegna meintra hótana í garð stjórnsýslufræðingsins sem ekki vildi upplýsa okkur um hver hótaði.

Nú kemur barasta í ljós að það sem hún segir hótanir eru sögð vinkonuráð úr munni ráðherra. Hverjum á maður að trúa? Þeir sem telja Sjálfstæðisflokkinn upphaf alls ills og ætluðu hér að slá keilur munu nú líklega túlka þetta sem vinarbragð Ingibjargar Sólrúnar. Það verður ekkert minna en óborganlegt að fylgjast með því þegar menn fara að snúa út úr eigin ásökunum á hendur Guðlaugi Þór.

Þetta kennir okkur að fara með gát og skjóta ekki alla niður án dóms og laga þó við séum reið og einhver segi eitthvað sem okkur finnst hentugt að heyra. Dómstóll götunnar fær hér á baukinn og það er ekki honum að þakka að Guðlaugur Þór þarf ekki að sitja undir ásökunum. Og ekki er það fræðingnum að þakka. Ingibjörg Sólrún á heiður skilinn fyrir kjarkinn og manndóminn sem vinkona hennar er svo laus við.

Það að stjórnsýslufræðingurinn skuli ekki vilja segja okkur að hér hafi verið um að ræða vinkonu hennar og samherja vekur aftur á móti upp spurningar….

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 13.1.2009 - 14:43 - 15 ummæli

Dylgjur sérfræðings.

Þeir eru margir fræðingarnir sem nú spretta fram. Sumir eru fræðigrein sinni til fulls sóma en aðrir minna. Allmargir eru hreinlega í pólitík eða bara á flótta undan því sem þeir sögðu eða héldu í fyrra. Nú er tími fræðinganna.

Og nú er líka tími til að slá menn af hægri vinstri. Sumar starfstéttir liggja betur við höggi en aðrar. Auðvelt að koma af stað óánægju með banka og stjórnmálamenn. Kaupahéðna og auðmenn. Jarðvegurinn er frjór núna og því er ábyrgð þeirra sem í fararbroddi eru mikil. Réttlát reiðin má þó ekki afvegaleiða okkur.

Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir er víst eitthvað sem heitir stjórnsýslufræðingur. Hún hélt ræðu á borgarafundi þar sem hún dylgjar um ráðherra sem hafi í hálfgerðum hótunum. Það hefur örugglega fallið vel í kramið enda, hver vill ekki hlusta á svoleiðis í dag?

Svona málflutningur er óþolandi enda ætti fræðingurinn að vita að ekki er með nokkru móti sanngjarnt að setja alla ráðherra undir þennan grun. Hún er komin út í ánna og nú viljum við að hún nái landi. Hér verður ekki aftur snúið.

Annars er hún bara enn einn sérfræðingurinn sem ekki er mark takandi á. það er ekki bara hennar réttur að segja okkur þetta, heldur ekki síður skylda.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 6.1.2009 - 10:54 - 5 ummæli

Nafnlaus komment.

Frelsið er vandmeðfarið eins og við vitum. Bráðum fer frelsi að verða skammaryrði í okkar máli og það yrði afleitt. Frelsi til tjáningar má aldrei skerða og nú virðist gæta misskilnings hjá mörgum vegna þess að stjórnendur Eyjunnar hafa af því áhyggjur að í kommentakerfi miðilsins þrífist hugsanlega allskonar óþverri.

Mér sýnist þetta vera vinsamleg tilmæli til að koma í veg fyrir að ekki þurfi að grípa til aðgerða sem takmarka aðgengi. Við sem látum okkur þetta varða eigum að sjálfsögðu að gera okkar til að losa Eyjuna við orðsóða sem halda að það sé innlegg í umræðu að svívirða fólk sem hefur það eitt til saka unnið að vera á annarri skoðun.

Þeir sem telja að sér vegið með þessum tilmælum ættu kannski að hugsa sinn gang. Eyjan og lýðræðisleg skoðanaskipti munu án alls vafa lifa af þó nafnlaus sóðaskapur þurfi að víkja.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 4.1.2009 - 11:54 - 12 ummæli

Lambúshettulýðræði.

Er að hugsa um fólk sem hefur svo slæma málefnastöðu að það getur hvorki komið fram á bloggsíðum undir nafni eða fylgt skoðunum sínum eftir nema á bak við lambúshettur.

Það er ekkert að óttast?? Stjórnarskráin okkar verndar allar skoðanir, meira að segja þær sem eru þannig að fólk geti helst ekki sett andlitið sitt á bak við þær. Það sem stjórnarskráin verndar hins vegar ekki er ofbeldi. Að einn beiti annan ofbeldi í viðleitni sinni til að fá fylgi við sínar skoðanir.

Mér er reyndar sagt að það að hylja andliti sitt sé lögbrot. Kanski væri rétt að stoppa þá sem ætla að gerast svo brotlegir við lög að þeir hylji andlit sitt áður en þeir hefja ofbeldið.

Lýðræðislega hugsandi fólk á allt sameiginlega hagsmuni í því að stoppa svona vitleysu. Lýðræðið er ekki falið á bakvið lambúshettur. Það er bara ofbeldið sem þarf þannig fatnað.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 1.1.2009 - 01:51 - 24 ummæli

Ég mótmæli mótmælum.

Nú virðist það vera að gerast að við erum að eignast fólk hér sem heldur sér upptekið við mótmæli. þetta er að verða eins og sagt er í fótboltanum, svona hálfatvinnumennska. Fyrir ekki löngu síðan var tekin tvenna og farið frá einum stað til annars og andæft með skókasti og alles. Tvö aðskilin mál reyndar en mótmæli eru jú alltaf mótmæli.

Eins og venjulega eru mótmæli af þessu tagi rekin í nafni réttlætis og þjóðarinnar. Þau eru sögð lýðræðisleg en eru það stundum alls ekki. Hvaða skoðanir eru svo merkilegar að nauðsynlegt er að ganga gegn rétti annarra til að sinna sínum störfum án þess að verða fórnarlömb ofbeldis?

Ofbeldi er að verða regla en ekki undantekning hjá tiltölulega litlum en háværum hópi hér. Er það lýðræðislegur réttur þessa fólks að reyna að ráðast til inngöngu á hótel þar sem fólk situr og framleiðir sjónvarpsþátt þar sem rætt er um þjóðmál?

það er akkúrat ekkert lýðræðislegt við svona hegðun. Skoðanir þessa hóps á stjórnmálamönnum eiga fullan rétt á sér en ofbeldið sem það kýs að nota til að troða þeim upp á aðra á ekki rétt á sér. Málsstaðurinn verður ekki merkilegri þó rúður brotni eða stöku þingvörður slasist að ég tali ekki um kinnbein lögreglunnar sem virðist eiga, ef ég skil fólkið rétt, að rétta bara fram hitt kinnbeinið.

Allir hafa rétt á sínum skoðunum og þar með talið fólkið sem situr í ríkisstjórninni. Rétturinn til að hafa skoðanir og halda þeim fram er heilagur. þeir sem vilja stöðva umræðu eða skoðanir annarra eru hreinlega að svívirða lýðræðið.

Svo er endurtekinn gamli söngurinn um ruddaskap lögreglu. Hver eru tæki lögreglunnar þegar kemur að því að halda fólki innan þeirra reglna sem við flest kjósum að kalla siðmenningu? Hin kinnin aftur kannski….

Á endanum tekst þessum fámenna hópi að skemma mómentið sem lagt var upp með. Þróunin er bara þannig. Sagan segir að flest fólk telur sig ekki þurfa að beita ofbeldi til að koma skoðunum sínum á framfæri. Slagsmál við lögreglu heilla fáa.

Ég mótmæli framkomu þessa fólks og tel hana ólýðræðislega með afbrigðum.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 29.12.2008 - 10:25 - Rita ummæli

Ekki mér að kenna…

Í grein í mogganum talar hann um skuldir og eignir. Hann talar um eigið fé. Prósentuhlutföll og pólitík. Vaxtaberandi skuldir eignarhaldsfélaga eða voru það fjárfestingafélög? Hagnað og tap og langtíma eða skammtíma hitt eða þetta.

Hann var að gera þetta allt fyrir okkur svo við hefðum vinnu. Selja sjálfum sér og sínum aftur og aftur á hækkandi verði sem engin innistæða var fyrir. Eigið fé hvað? Myndin sem hann dregur upp af sjálfum sér á heima í ævintýri H C Andersen.

Sakleysið er yfirþyrmandi. En reyndar sér hann mistök sín en þau snúa þá að því að HANN tapaði fé. það er kjarni málsins. Hvaða fé tapar hann? Mér sýnist hann aðallega hafa grætt og leyft öðrum að sjá um tapið.

Nú vill hann eins og félagar hans koma að því af fullum áhuga og harðdrægni að koma okkur á kjölinn aftur. Ég fyrir mína parta afþakka pent meiri harðdrægni úr þessari átt. Hún er svo dýru verði keypt harðdrægnin hans Jóns Ásgeirs.

Hann finnur ekki til ábyrgðar.

I rest my case…

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur