Þriðjudagur 2.12.2008 - 14:03 - 6 ummæli

Vá fyrir fjölmiðladyrunum.

Nú er þetta að vera smart. Hundtryggur lögmaðurinn Hreinn Loftsson er nú kannski að eignast skuldir Moggans og þar með eignir. Þá er þetta þægilegt. Fjölmiðlar eru þá á tveimur höndum hér. Því hlýtur að vera fagnað allt frá Bessastöðum til höfuðstöðva Baugs.

Í því þjóðfélagi sem við byggjum erum fjölmiðlar eiginlega ekki fjórða valdið. Miklu nær að kalla þá þriðja ef ekki hreinlega annað valdið enda spörum við okkur valdastigana hér með því að hafa engin skil á milli löggjafans og framkvæmdavaldsins. Sumir segja svo að framkvæmdavaldið ráði yfir dómstólum! Þá eru stigin enn færri.

Hér þurfum við að skera upp eða öllu heldur að hverfa til þess sem stjórnarskráin segir um þrískiptingu valds. Og gera svo aðra tilraun til að koma lögum um eignarhald á fjölmiðlum í gegnum Bessastaði.

Sjá ekki allir að þetta er orðið hlægilegt? Og þó varla því málið er alvarlegt. Ekkert þjóðfélag getur sætt sig við svona fjölmiðla umhverfi. Mogginn hefur reyndar staðið sig vel undir núverandi ritstjóra en ég get ekki séð að ef Hreinn Loftsson kaupir hann fyrir vin sinn Jón Ásgeir að Ólafur verði langlífur í sínu starfi.

Til þess er Ólafur of mikill fagmaður og virðist ekki láta múlbinda sig við eigendur eins og alsiða virðist hér.

Þetta má ekki ganga eftir.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 2.12.2008 - 10:18 - 4 ummæli

Reiðin á rúv.

Nú berast fréttir af uppsögnum nánast daglega. Kreppan verður varla meiri hjá einstaklingum en þegar uppsagnarbréfið berst. Sultarólin herðist og fáir finna ekki fyrir því. þannig er ástandið.

Fólki hefur verið sagt upp hjá 365 eða hvað það fyrirtæki heitir í dag, eða ætti ég kannski að segja , hét í gær svo ört er skipt um kennitölu þar. Skjár 1 er í dauðateygjunum og allir þar hafa fengið bréfið. Mogginn berst fyrir lífi sínu og mikil óvissa hjá þeim sem þar vinna.

Allt er þetta dapurt mjög en það er ekki fyrr en gamla ríkisfyrirtækið rúv þarf að reka sig á sömu forsendum og önnur fyrirtæki að allt fer á annan endann. Rúv er eins og önnur fyrirtæki í eigu ríkisins. Starfsfólkið telur sig eiga fyrirtækið. Þegar þeir sem bara ábyrgð á rekstrinum þurfa að gera breytingar á rekstrinum þá verður starfsfólkið reitt og vill beita neitunarvaldi.

Þetta sáum við þegar fréttamenn rúv komu í veg fyrir ráðningu fréttastjóra á sínum tíma. Þetta sjáum við í menntakerfinu okkar og heilbrigðis líka. Þessar greinar virðast hreinlega í eigu starfsfólksins. Engu má breyta sama hvað tautar og raular. Þetta er veikleiki opinbers reksturs.

Vissulega er sorglegt að rúv geti ekki haldið áfram að sólunda opinberu fé og reka sig með bullandi tapi ár eftir ár þrátt fyrir ríflegan heimamund frá skattgreiðendum. Starfsfólkið vill kannski að það haldi bara áfram?

Söngurinn er alltaf sá sami. Rifist yfir launakjörum forstjórans og bent á að sumir fái meira útborgað en aðrir. þannig mun það alltaf verða og þannig á það jafnvel að vera. Og ég spyr, hvernig getur það verið öðruvísi? Er starfsfólk stöðvar 2 að skammast yfir því að Logi Bergmann er betur launaður en margir aðrir þar inni?

Fjölmiðlar eru uppfullir af sögum að öðru fjölmiðlafólki sem nú er brjálað yfir þvi að það vinnur hjá fyrirtæki sem þarf að lúta eðlilegum lögmálum í rekstri. Ekki man ég til þess að aðrar starfsstéttir láti eins og þetta fólk gerir. Allavega hefur það ekki jafn greiðan aðgang að fjölmiðlum…

það er persónulegur harmur að fólk missi vinnu sína, enginn vafi. En fyrir mig eru það gleðitíðindi að nú eigi að fara að reka þetta apparat að einhverju leiti eins og önnur fyrirtæki. Reksturinn gengur ekki upp og þvi er skorið niður.

Eins og eðlilegt er í öllum rekstri. Nema hjá ríkisstarfsmönnum. þeir eru stundum eins og heilagar kýr. Hvenær sjáum við svona viðbrögð í einkarekstri sem hefur þó mátt þola ofbeldi og yfirgang þesarar stofnunar mjög lengi á auglýsingamarkaði?

Niðurskurður er óhjákvæmilegur. Dugar kannski að lækka laun forstjórans?? Reyndar væri nær að láta hann hreinlega fara svo hraustlega hefur þessi stofnun farið illa með fé undir hans stjórn.

Nú verður að draga úr kostnaði. Engin önnur leið er fær núna. Enda hef ég ekki seð neitt uppbyggilegt í málfutningi starfsfólksins um það hvernig á að mæta þessu tapi. Bara reiði.

Hún er að einhverju leiti skiljanleg en ekki er mikill sparnaður í henni.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 28.11.2008 - 09:59 - 1 ummæli

Grein Jóns Steinssonar um viðskipti.

Jón Steinsson skrifar reglubundið frábærar greinar um Íslenskt viðskiptalíf í moggann. Í gær varaði hann okkur við því að láta menn komast upp með þær æfingar sem hafa átt stóran þátt í að koma okkur í þá skuldastöðu sem við erum í.

Þá er hann að tala um brellur tengdra aðila sem selja sjálfum sér fyrirtæki fram og til baka á sífellt hækkuðu verði. Nefnir í því sambandi Sterling og 10/11. það fannst mér áhugavert. Af hverju 10/11?

Voru viðskiptin með 10/11 ekki dæmd lögleg í hæstaretti? Kannski eru svona taktar löglegir hér. Frá mínum bæjardyrum séð voru viðskiptin sem áttu sér stað með 10/11 á sínum tíma skólabókardæmi um hvernig hægt er að þverbrjóta lög um hlutafélög og komast upp með það. Mér er enn hulin ráðgáta hvernig hægt var að koma þeim í gegnum dómskerfið.

Kannski verður æra þessa manns troðin ofan í skítinn eins og sumra annarra sem hafa reynt árum saman að benda á hvernig þessir menn stunda sín viðskipti. Öllu var til fórnað. Kannski sér til lands í þessu núna.

Hugsanlega rumskar þjóðin og sér það sem alltaf var augljóst. Þau viðskipti sem eiga sér stað með 365 og voru reynd við TM eru sú tegund viðskipta sem við eigum ekki að líða. Slugsarnir búnir að skuldsetja fyrirtækin upp í topp og fá svo bara niðurfellingu og meiri peninga að láni. Og hafa í leiðinni grætt verulega sjálfir.

Þetta þarf að stoppa og þó fyrr hefði verið því reikningurinn endar alltaf hjá okkur.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 28.11.2008 - 09:04 - 6 ummæli

Málfrelsi Katrínar.

Katrín Oddsdóttir varð hetja á svipstundu um síðustu helgi þegar hún hélt þrumandi ræðu yfir reiðum Íslendingum á Austurvelli. Þar fullyrti lögfræðineminn að stjórnvöld hefði brotið lög á borgurnum en þessi málflutningur var hrakin eftirminnilega í mogganum í fyrradag. Fólkið var aftur á móti ánægt með messuna.

katrín þessi er víst að læra lögfræði en á margt ólært greinilega. Sagðist í útvarpi standa við hvert orð og mun hiklaust hvetja fólk til þess að beita ofbeldi gegn valdhöfum ef þurfa þykir. Þeim skal koma frá með illu frekar en góðu.

Merkilegur málflutingur hjá verðandi lögmanninum. Hvenær skipta lög máli og hvenær ekki? Makalaust hvað pólitísk blinda getur afvegaleitt. Ekkert er að því að vilja stjórnina burt en verra að hvetja til hluta eins og valdaráns. Fyrst er ráðist á lögregluna og næst kannski alþingi…

Orðum fylgja ábyrgð. Katrín telur að þetta snúist um málfrelsið. Vissulega er henni eins og öðrum frjálst að tjá sig á hvaða þann hátt sem henni sýnist. Engum dettur í hug að draga þann rétt í efa.

Né heldur rétt okkar hinna til að krefjast þess að viðkomandi axli ábyrgð á orðum sínum. Það ætti verðandi lögmaðurinn að vita.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 25.11.2008 - 19:20 - Rita ummæli

Dylgjur um samning borgarinnar við Val.

Nú berast fréttir af óánægju íþróttafélaga í Reykjavík með það sem kallað er óeðlileg sérkjör sem Valsmenn fá hjá Reykjavíkurborg. Þessi óánægja virðist þó að mestu nafnlaus enda efnisatriði máls þannig að varla mun nokkur leggja nafn sitt við.

Því fer víðs fjarri að Valsmenn séu að fá sérmeðferð hjá borginni. Mér er nær að halda að þeir sem eru að blása þetta út viti hreinlega ekki mikið um þann samning sem borgin gerði við Valsmenn á sínum tíma. Reyndar er það þannig að fæstir í íþróttahreyfingunni trúðu því að Valur væri með söluvöru í höndunum í félagssvæði sínu. Það er önnur saga, og þó.

Valsmenn hf sem keyptu svæðið af félaginu tóku lán til að standa við sitt og ætlaði að ná sínu til baka með sölu á lóðum sem var búið að skipuleggja. Kannski rétt að minna á það að á þessum tíma var lóðaverð í Reykjavík skýjum ofar.

Svo gerist það að borgin biður um frest til að breyta skipulagi og var sá frestur veittur. Svo gerist það aftur og enn var sá frestur veittur og ég veit ekki betur en að enn sé skipulag á svæðinu óráðið.

Þeir sem ekki sjá að hér er borginni skylt að tryggja að Valsmenn hf beri ekki kostnað af láninu sem þeir tóku til að standa við sitt eru blindir. Í samningi Valsmanna hf var klausa um styrk til unglingastarfs sem ekki hefur, eðli máls samkvæmt verið hægt að standa við.

Borgin leggur nú út fyrir þessum styrk og kannski rétt að árétta að þar er verið að leggja út peninga sem á að endurgreiða þegar skipulag verður loks komið á og hægt að selja lóðir.

Borgin er sem sagt að hjálpa Valsmönnum hf til að lágmarka það tap sem þeir verða alveg augljóslega fyrir vegna þess að borgin hefur ekki getað staðið við sitt. Þó er klárt mál að Valsmenn hf munu ekki fá það verð fyrir lóðirnar og þeim stóð til boða þegar beiðnir Reykjavíkurborgar um frestun á fullnustu samnings tóku að berast.

Staðreyndir þessa máls liggja allar fyrir og því er furðulegt að ónefndir forráðamenn einhverra félaga skulu komast upp með dylgjur sem þessar. Valsmenn fengu ekkert gefins en bera samt talsvert tap sem klárlega verður ekki að fullu bætt.

það að borgin reyni að bjarga því sem bjargað verður gagnvart félaginu er í hæsta máta eðlilegt og sanngjarnt.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 25.11.2008 - 18:47 - 2 ummæli

NRK lýgur upp á Jón Ásgeir!

Nú er það svart. NRK í Noregi er nú farið að ljúga upp á Jón Ásgeir. Hann á fullt í fangi með að leiðrétta vitleysuna í þeim. Þetta hlýtur að vera mjög pirrandi fyrir Jón enda á hann því ekki að venjast að fjölmiðlar fjalli um annað en hann segir þeim að fjalla um.

Merkileg þessi rógsherferð gegn þessum mesta fjárglæframanni landsins. Hún er bara orðin alþjóðleg. Nú er að útvega sér lánsfé og kaupa bara upp félagið. Hlýtur að fást keypt þó um ríkisfyrirtæki sé að ræða.

Og þó. Ætli sé til löggjöf um eignarhald á fjölmiðlum í Noregi? Þá stofna menn bara margar kennitölur og eignarhaldsfélög….

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 25.11.2008 - 10:48 - 3 ummæli

Flottur Jón Baldvin.

Ég fékk aðkenningu að gæsahúð þegar ég las grein Jóns Baldvins í mogganum í morgun. Þar var naglinn sleginn á höfuðið á snilldarlegan hátt á köflum.

Hvernig hann talaði um forseta vorn og fjölmiðla. Og viðskipti bankanna við eigendur sína. Allt þetta ætti að blasa við okkur þó margir geti ekki séð neina vankannta á forseta vorum af því að það hentar ekki pólitískt. Hann ber einn ábyrgð á því í hverri stöðu fjölmiðlar á Íslandi eru.

það sem gladdi mig mest var samt að Jón Baldvin skuli nú svo löngu eftir að Vilmundur klauf sig frá Alþýðuflokknum til að fylgja sannfæringu sinni sjá að Vimmi var með málið. Því eins og maðurinn orðaði það, það er kerfislæg villa hjá okkur.

Við erum ekki með aðskilnað milli löggjafans og framkvæmdavalds. Höfum aldrei verið með það. Hér er löggjafinn í vinnu hjá framkvæmdavaldinu. Þetta er í grundvallaratriðum þvæla og stórhættulegt. Menn voru ekki að grínast þegar talað var um þrískiptingu valds.

Hef sagt þetta þrjú hundruð sinnum og munar ekki um eitt skipti enn. Þingmenn eru ekki ráðherrar. Kjósum forsætisráðherra beint og hann velur sér stjórn. Þetta sá Vimmi fyrir löngu síðan að er rétta leiðin og vonandi munu fleiri sjá þetta nú.

Ég er sammála Jóni Baldvin með að nú er rétti tíminn til að koma með alvöru hugmyndir um uppstokkun á kerfinu. Ekki er nóg að skipta um andlit ef systemið er ónýtt. Geri mér grein fyrir þvi að mjög stór hópur hreinlega virðist ekki fatta að þetta er algert lykilatriði.

Þingið er löggjarsamkoma. Þjóðin kýs fólk til þings til að setja okkur lög. Ekki til að vera framkvæmdavald. Er það ekki augljóst? Þess vegna verðum við að kjósa forsætisráðherra beint og hann kemur svo málum framkvæmdavaldsins í gegnum löggjafarsamkunduna sem við völdum.

Jón Baldvin veit hvað hann syngur í þessu og þekkir spillingu þegar hann sér hana og veit kannski betur en margir hvar hún er uppalin og hvernig hún komst á legg. Gallað kerfi eykur líkur á slíku og því skulum við nú drífa okkur í því að koma þessu í lag.

Þetta er ekkert flókið. Þetta er lýðræðislegri leið til að velja sér forystu en sú sem nú er notuð. Í dag er alls ekki tryggt að „sigurvegarar“ í kosningum komist að landsstjórn. Í kerfinu hans Vilmundar var það geirnelgt. Þjóðin kýs sér leiðtoga.

Það verður varla betra en það……

Röggi.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 24.11.2008 - 15:13 - 2 ummæli

Jón Ásgeir hótar málssókn.

það er þetta með Jón Ásgeir.

Hann er ekki feiminn við hlutina. Ég bara man ekki lengur hversu oft hann hótar málssókn. Nú er það umfjöllun um vafasöm viðskipti sem tengjast honum enda á hann ekki að venjast því að fjölmiðlar séu að fetta fingur út í hans bisness.

Nær væri að lögsækja þá menn sem hafa ekki fjallað um viðskipti hans í gegnum tíðina. Baugsmálið er hreint smámál þegar farið er ofan í saumana á því hvernig hann hefur mjólkað peninga út úr fyrirtækum sínum. En við erum bara sátt.

Horfum upp á ruglið og segjum fátt. Nú nýverið fór pilturinn í enn eitt trixið með fjölmiðlana sína. Þar afskrifaði hann ca 5 000 milljónir skulda. Þeim milljónum tapar einhver. Þær duttu ekki af himnum ofan frekar en allir hinir milljarðarnir sem hann skuldar en við borgum.

Þessu er fagnað enda verið að tryggja starfsfólkinu vinnu! Fyrst starfaði hann í pólitísku skjóli og svo þegar honum tókst að tryggja sér fjölmiðla landsins þá hefur hann starfað í skjóli þess sem ræður því hvað er til umræðu hér. Enda leggur hann allt upp úr því að eiga fjölmiðlana þó þeir tapi peningum hvert ár. Enda borgar hann hvort eð er ekki tapreksturinn eins og við vitum.

Árum saman hafa örfáir reynt að stympast við og skrifað um manninn. Þeir aðilar hafa mátt þola ótrúlegar svívirðingar frá fólki sem trúir öllu sem það sér skrifað í fjölmiðla. Eins og í Baugsmálinu var ráðist að persónu viðkomandi en alls ekki reynt að svara fyrir sig. það virkaði vel þar og verður reynt áfram.

Í stað þess að reyna nú að reka af sér slyðruorðið er reynt að sparka í menn. Það er aðferðin enda auðmýkt ekki til. Af hverju svarar hann ekki fyrir sig heldur hefur í hótunum sífellt?

Skilur hann ekki að nú hefur hann ekki sömu spil á hendi og áður? Fleiri og fleiri eru að vakna þó langflestir sofi enn vært. Og á meðan tekur hann eins og einn snúning til viðbótar á þjóðinni fyrir litlar 5 000 milljónir. það er reyndar vel sloppið í þetta skiptið. Hinir snúningarnir eru allir á gjalddaga með mig og þig sem greiðendur.

Kannski tekst honum svo að klína tapinu á Stoðum/Fl group á einhvern Hannes. Eða kannski Davíð sem væri mjög nærtækt. Umgengi hans í Íslensku viðskiptalífi er orðinn hreinn farsi og aðganseyrinn að farsanum hækkar stöðugt.

En þjóðin borgar sig samt enn inn. Hvernig á því stendur er bara eitthvað sem ég skil ekki og hef aldrei gert.

Og mun ekki skilja…

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 24.11.2008 - 14:17 - Rita ummæli

Óskastjórn Steingríms.

Hvernig dettur Steingrími J í hug að Samfylkingin fari í stjórn með VG eftir kosningar? Eða að einhver fari yfirleitt í stjórn með VG. VG virðist helst vilja vera í andstöðu.

Í því ástandi sem nú er vill Steingrímur ekkert gera. Hann vill ekki taka erlend lán enda nýlega kominn á þá skoðun að skuldir ríkissins séu vont mál. Hann hefði betur haft þá skoðun þegar hann var sjálfur við kjötkatlana.

Ef þessari fáránlegu tillögu fylgdu einhverjar aðrar hugmyndir væri hægt að taka þetta alvarlega. En svo er ekki enda lausnin ekki auðfundin og allra síst ef ekki á að fá peninga að láni.

Auk þess telur VG að við séum ein í heiminum og þurfum ekki að axla ábyrgð á reikningum erlendis. Þar vill hann bara lemja höfðinu við steininn og verða bara harður. Gömul þjóðremba sem hljómar örugglega vel í einhverjum eyrum en skilar okkur engu. Nema kannski alþjóðlegri einagrun.

Ég held að hvorki þjóðin né Samfylking þurfi á slíku samstarfi að halda. VG ætlar sér ekki inn í ESB en þangað stefnir Samfylking hraðbyri með stuðningi þjóðarinnar. Þar mun ekki verða gefinn neinn afsláttur við næstu stjórnarmyndun.

Af þessum ástæðum og mörgum öðrum er langlíklegast að VG sitji um langa tíð á bekknum jafnvel þó fylgið færi í 30%. Ég held að málflutningur VG sé í raun lím þessarar ríkisstjórnar.

það er ekki í nein önnur hús að vernda…..

Röggi.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 24.11.2008 - 09:18 - 10 ummæli

Álfheiður Ingadóttir ruglar.

Borgaraleg óhlýðni varð á þessu ári tískufyrirbrigði. Vörubílstjórar ruddust á göturnar og sköpuðu umferðaröngþveiti sem vatt svo upp á sig þannig að þeir sem voru óánægðir með bara eitthvað bættust í hópinn og öllu var mótmælt. Við vitum hvernig það fór. Eitt allsherjar rugl sem snérist undir það síðasta um að lemja á lögreglunni.

Nú er tími mótmæla og óánægju. Ekkert nema gott um það að segja ef fólk vill koma saman og mótmæla. Og líklega verður seint hægt að koma í veg fyrir eggjakast og fánahyllingar í kringum svoleiðis. Sumum finnst það tilheyra og vera sniðugt. Mér ekki…

Þeir sem standa fyrir mótmælum og fundum á torgum þurfa að muna að sýna ábyrgð í tali. Annars er hætta á stigmögnun sem enginn veit hvar endar. Svo eru auðvitað þeir til sem vilja bara að svona magnist og endi helst í allsherjar óreglu.

Álfheiður Ingadóttir er nálægt því. Hún hafði ágætan skilning á því að hópur fóks reyndi með hreinu ofbeldi að ráðast inn á lögreglustöð. þeirri árás var hrundið sem betur fer. það er grafalvarlegt að ýta undir svona hegðun þó henni þyki þessi borgaralega óhlýðni kannski smart.

Hvurslags þjóðfélag vill konan að við eigum hér? Eigum við að safna saman hópi af reiðum vinum okkar og ráðast til inngöngu hjá skattinum ef við teljum menn þar ósanngjarna? Ættum við að ráðast inn í þingið og taka það í gíslingu?

Undir engum kringumstæðum er hægt að mæla með svona hegðun. þeir sem ekki sjá að með því er vegið að grunnstoðum samfélagsins og allsherjarreglu eru frá mínum dyrum séð blindir eða eitthvað þaðan af verra.

Kannski gott að ryfja það upp að Álfheiður situr á löggjafarþingi okkar Íslendinga. Þar er hún fulltrúi löggjafans…….

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur