Þriðjudagur 9.9.2008 - 22:55 - 3 ummæli

Einkakreddur VG.

Datt fyrir tilviljun inn í umræður um heilbrigðismál í þinginu á kvöld. Held að málið hafi verið umræða um sjúkratryggingamálefni en þegar ég kem að er rifist um grundvallaratriði í heilbrigðismálum, hvort einkarekstur er hollur eður ei.

Alveg er fullkomlega geggjað að heyra hvernig VG lætur ef einhver segir „einka“ um nokkurn skapaðan hlut. Minnir um margt á fólkið sem fær grænar bólur ef einhver minnist á iðnað að ég tali nú ekki um ál..

Allt skal vera ríkisrekið þó leitun sé að einhverjum rekstri sem ríkið stendur betur að en einkaaðilar. Hér á landi er stór hluti okkar kerfis einkarekinn og enginn kvartar enda þjónustan ekki verri og þar ekki litið á sjúklinginn sem sjúkling eingöngu heldur viðskiptavin sem þarf að þjónusta og hafa ánægðan.

Brúsann borgum við svo öll eins og áður en í þessu tilfelli er ramminn þrengri og peningakraninn sem læknar hafa aðgang að hjá ríkinu fær bara ákveðinn skammt. Kostnaðarvitundin önnur enda ekki hægt að stóla sífellt á auknar fjárheimildir. VG telur slæmt að menn vilji reka fyrirtækið með hagnaði. Það get ég bara alls ekki skilið. Hvað er unnið með taprekstri? Er endilega samasemmerki milli hagnaðar og lélegrar þjónustu??

Birgir jakobsson yfirlæknir á Karólinska sjúkrahúsinu í Sviðjóð hefur reynsluna af því að vinna hjá ríki og einka. Hann var til vinstri síðast þegar ég vissi. Hvernig væri að VG og fleiri reyndar fengju hann til að koma hingað og flytja fagnaðarerindið og gera samanburð.

Ég hef lesið viðtöl við hann og kysi hann sem ráðherra heilbrigðis fram yfir hvern einasta annan mann. Hann getur kennt kreddu liðinu hérna að það er ekkert að óttast þó einhver annar en ríkið sjái um að reka heilbrigðisþjónustu.

það vill nefnilega þannig til að þeir sem starfa í einkageiranum eru bara fólk eins og ég og þú sem vill gera vel og ná árangri.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 6.9.2008 - 13:09 - Rita ummæli

Stigið varið.

það hlaut að koma að því. Ólafur landsliðsþjálfari er búinn að taka sóttina. Finnur þrýstinginn og pressuna og verður einhvern veginn hálf vanmáttugur. Hann er smátt og smátt að tapa sínum áður sjarmerandi einkennum og hljómar nú nánast eins og langþreyttur landsliðsþjálfari.

Nú skal stigið varið. það er að segja stigið sem hann telur að við höfum í hendi áður en flautað er til leiks. Þessi málflutningur hefur aldrei heillað mig. Svona tala þeir sem ekki ætla að ná árangri, þeir sem eru hræddir og í vörn.

Við höfum að sjálfsögðu ekkert stig þegar flautað er til leiks til að verja. Stigið sem Óli girnist er stig sem við þurfum að sækja. Á þessu tvennu er reginmunur.

Við tölum okkur stundum niður fyrir leiki. Tölum mikið um að verjast og gera ekki mistök og ekki fá á okkur mörk og sérstaklega ekki snemma. Við erum allt að því komin í nauðvörn áður en til leiks kemur.

Hvenær fáum við þjálfara sem þorir að nefna það að hann vilji skora mörk og jafnvel sigra. Okkar menn eru orðnir svo lafhræddir við að fá á sig mark að stundum þegar það gerist, og það gerist yfirleitt, þá hrynur planið í heilu lagi.

Legg til að við sækjum að lágmarki eitt stig í leiknum í dag.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 5.9.2008 - 23:34 - 1 ummæli

Ekkifréttirnar um FL Group braskið.

Dögg Pálsdóttir kom sér í fréttirnar vegna bloggs um FL Group myndböndin. Merkilegt að hún skuli komast í fréttirnar fyrir það að blogga um fáránlega þögn fjölmiðla um viðskipti þessara manna.

Við sem höfum allan tímann reynt að benda á framkomu þessara manna höfum almennt verið talin með þessa menn á heilanum. Líklega persónulega í nöp við þá og gott ef ekki öfundsjúk. Auk þess trúlega sjálfstæðismenn og þá sjálfkrafa vanhæf.

Erfitt er að verjast þeirri hugsun að engu máli skipti að umræddir aðilar eiga fjölmiðla. kannski er bara heppilegra að trúa því að annað hvort metnaðarleysi eða leti ráði því fjölmiðlamenn fjalla ekki um hlutina..

Og svo hitt. það er kannski ekki sérlega viðfelldin hugsun að fá yfir sig hálaunaða lögfræðinga árum saman sem hafa það meginverkefni að sverta embættismennina og aðra sem um þessi mál véla heldur en að verjast ásökununum.

Auðvitað er víðáttusorglegt ef þessir viðskiptahættir eru eðlilegir og ekki er það minna dapurlegt ef hvorki fjölmiðlar eða lögregla og dómstólar leggja í slaginn.

Ég og þú erum nefnilega fólkið sem á endanum borgum brúsann…

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 1.9.2008 - 20:29 - 5 ummæli

Fúsk hjá rúv.

Sit hér og horfi á fótboltaleik í kassanum. Spenna í undanúrslitum á fínum velli í flottu veðri. Allt gott og blessað þannig séð.

Eitt finnst mér þó undarlegt. Valtýr Björn hefur sér til fulltingis gæðapiltinn Kristján Guðmundsson. Hann hefur að sönnu mikið vit á fótbolta og sér margt sem við leikmenn sjáum ekki. Akkúrat þannig eiga lýsendur að vera…

Spurning er þó hvort þeir eiga að vera starfandi þjálfarar í efstu deild. Þarna situr hann og talar um vinnu starfsbræður sínna og keppinauta og störf dómara. Gefur leikmönnum einkunnir og heimtar á þá spjöld og hvað eina.

Þetta finnst mér fúsk og ófaglegt bæði hjá rúv og Kristjáni. Mikið óskaplega búum við illa að geta ekki fengð aðra en starfandi þjálfara til að lýsa leikjum hjá liðum sem þeir eru að jafnaði í keppni við.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 1.9.2008 - 12:37 - 1 ummæli

Viðskiptavit Gunnars Smára.

Það kom ekki alveg eins og þruma úr heiðskýru lofti að Nyhedsavisen fór á hausinn. Ja. nema kannski Gunnari Smára og félögum. Eins og þegar Gunnar Smári reiknaði það í botn að NFS gæti ekki klikkað á sínum tíma þá brást honum reiknisnillin aftur hér. Reyndar tókst að finna fjárfesti til að koma að rekstrinum nýverið. Hvernig það hafðist er mér hulin ráðgáta en eigendur þessa blaðs eru að vísu miklir sjónhverfingamenn.

Gunnar Smári er hugmyndaríkur maður og hefur á undrastuttum tíma tekist að tapa óhemjumiklu fé. Efast ekki um burði hans sem blaðamanns en eitthvað eru honum mislagðar hendur þegar kemur að rekstri fjölmiðla. Fréttablaðið reyndar virkar ennþá en ég man samt eftir fyrstu útgáfu blaðsins áður en Jón Ásgeir kom að…

Núna vinnur Gunnar Smári fyrir borgina á sviði sem ætti að henta honum vel. kannski er þetta eins og það á að vera. Menn sem ekki ná árangri á einkamarkaði enda hjá opinberum aðilum.

Þar skiptir hvort sem er ekki alltaf máli hvað vitleysan heitir eða hvað hún kostar…

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 1.9.2008 - 09:37 - 17 ummæli

Hver er hræsnari?

Andri Snær Magnason ritar grein í Moggann í dag. Þar býsnast hann yfir því að blaðið vogar sér að minnast á hræsni Bjarkar sem Andri telur vera eina af bestu systrum okkar lands og þess vegna eigi skoðanir hennar líklega að hafa meira væri en okkar óbreyttra sem hvorki skrifum bækur né stundum söng.

Andri kemst að þeirri flottu niðurstöðu að við framleiðum nú þegar nægilega mikið af áli fyrir okkur sjálf og því sé eðlilegt að láta staðar numið. Mergjuð röksemdafærsla verð ég að segja. Við ættum kannski líka að veiða eingöngu þann fisk sem við látum ofan í okkur sjálf. Prenta eingöngu það magn sem við Íslendingar viljum lesa af bókum eftir Andra Snæ. Við vitum hversu mjög er gengið á regnskógana þegar pappírinn í bækurnar hans Andra er framleiddur. Kannski ættu stál og álframleiðendur í hverju landi eingöngu að hugsa um innanlandsmarkað en ekki vera að velta því fyrir sér Andra Snæ langar að kaupa sér bíl eða að fá sér kók í áldós.

Andri tilheyrir hópi fólks sem heldur að hlutirnir verði til af sjálfu sér. Að þau lífsgæði sem hann býr við hafi bara sprottið upp úr jörðinni af því að fluggáfaðir forfeður okkar tóku að lesa bækur og skrifa. Steinum hafi hvorki verið velt né sprænur virkjaðar…..

Kannski er best að við séum algerlega sjálfbær. Og auðvitað væri æði ef við þyrftum hvorki að veiða fisk né að hrófla við náttúrunni. Allt væri ósnert við lifðum praktuglega í állausum heimi að lesa bækur og drekka kaffi. Því miður er sá raunveruleiki aðeins til í bókum sem framleiddar eru úr pappír sem hugsanlega er frá landi þar sem orkan sem knýr verksmiðjurnar er örugglega ekki eins vistvæn og sú sem við notum……

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 28.8.2008 - 10:48 - 3 ummæli

Biskupinn.

Ég hef áður skrifað um Sigurbjörn biskup og skammast mín hreint ekki fyrir að gera það aftur nú þegar hann er genginn. Hann var einhvern veginn Biskupinn með stóru béi.

Yfir honum var alltaf einhver augljós viska. Yfirvegun og festa en samt mildi. Í mínum huga alger yfirburðamaður alla tíð. Aldrei yfirborðskenndur sem hefur loðað við suma biskupa. Þeir hafa allir verið að reyna svo mikið að vera biskupar, leiðtogar. Sigurbjörn hafði ekkert fyrir því. Hann var biskup.

Auðvelt og áreynslulaust að hlusta á hann. Laus við helgislepju og talaði mannamál. Fræðimaður af guðs náð og tókst að vera áhugaverður og lifandi en ekki skraufþurr eins og títt er um fulltrúa Guðs hér á jörð.

Ég fattaði fyrst hvað lifandi trú er þegar ég fór að taka eftir Sigurbirni. Enda mun hann lifa með þjóðinni um ókomna tíð.

Blessuð sé minning hans.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 26.8.2008 - 11:20 - 3 ummæli

Lúðvík rukkar OR.

það er í sjálfu sér ekki flókið mál að þegar ég sel þér bílinn minn og þú borgar hann ekki að þá hef ég rétt til að grípa til allra ráðstafana til að innheimta skuldina. Kristaltært…

Hafnarfjarðarbær seldi OR hlut sinn í orkuveitu Suðurnesja. Allir kátir með það en svo kom babb í bátinn. OR mátti samkvæmt lögum ekki kaupa þennan hlut. Ekki vel gott en þannig fór um sjóferð þá. Eða hvað…

Ekki aldeilis því Lúlli bæjó tekur ekkert mark á svona úrskurðum og vill fá borgað. Er ekki lögfræðimenntaður en skil þetta ekki. Hafi menn gert þau mistök að setja ekki inn í samninginn fyrirvara um lögmæti þá stórefast ég um sú skylda hvíli meira á kaupanda en seljanda. Þessi viðskipti eru dæmd ólögleg og því ekki um nein viðskipti að ræða.

Komi í ljós að ég keypti bíl af þér sem þú áttir ekki eða gast ekki selt mér þá ætti, ef allt er eðlilegt að vera fjári harðsótt hjá þér að krefja mig um greiðslu fyrir ökutækið.

Ef niðurstaðan er önnur þá er eitthvað að.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 25.8.2008 - 23:04 - Rita ummæli

Guðmundur bætir sig.

Verð að skrifa um handbolta. Dauður maður sem ekki hreifst með þó ég hafi ekki séð handbolta með berum augum í óratíma. Gef mig auðvitað út fyrir að vera mikill sérfræðingur samt..

Hef ekki verið aðdáandi Guðmundar þjálfara. Fundist hans hugmyndafræði vera fyrirséð og gamaldags. Fjöldi æfinga meira mál en gæði. Trúr sínum Pólskættaða handboltauppruna og hefur böðlast á byrjunarliðinu í hverri stórkeppninni á fætur annarri og keyrt menn út enda innáskiptingar óþarfar.

Þetta hefur breyst að einhverju marki. Samt fannst mér örla á þessu í undirbúningi liðsins fyrir forkeppni ÓL í Póllandi. Þá var liðið saman í hálfan mánuð minnir mig erlendis við æfingar. Ferðalög og hótelbúskapur er að mínu viti fyrst og fremst þreytandi enda kom það á daginn að þó við höfum náð að koma okkur á ÓL var liðið uppgefið og andlaust gegn slöku liði Makedóniu. Handboltann svíður enn undan því…

Mesta gæfusporið held ég að hafi verið að fá Óskar Bjarna með Guðmundi. Ólíkir menn um flest bæði hvað varðar karakter og hugmyndafræði. Óskar hreyfir sín lið ótt og títt á meðan Guðmundur hefur verið á hinum enda kvarðans. Guðmundur frekar lokaður á meðan Óskar er kátari og opnari.

Allt annað var að sjá Guðmund í þessari keppni en áður fyrr. Virtist höndla pressuna vel og njóta hennar. Var manneskjulegri en oft áður og persónulegri. Kom út úr skelinni.

Og það sem skipti að mínu máli miklu, hafði tileinkað sér ný vinnubrögð. Nú var liðið hreyft miklu meira en áður hjá honum enda sluppu menn almennt við meiðsl og augljósa þreytu vegna álags. Reyndar mátti sjá leifar af þessu á Guðjóni Val sem spilaði of mikið enda tók hann upp á því að brenna af í færum sem hann brennir aldrei af þegar á mótið leið. Og var svo orðinn þreyttur og fékk sína einu hvíld í úrslitaleiknum sjálfum þegar hann hefði alls ekki átt að fá hvíld. En þetta var undantekning…

Guðmundur stendur frammi fyrir því hvort hann á að halda áfram eða ekki. Get vel unnt honum að rifa seglin núna þegar hann er á toppi handboltans. Handboltans vegna á að hann eðlilega að halda áfram því hann hefur sagt að hann sé að bæta sig og breyta og það er flottur grundvöllur.

Alþekkt er að vinnusamari mann er ekki hægt að fá né skipulagðari. Og þegar hann ákveður að taka inn nýja nálgun sem ég er sannfærður að sé til bóta þá mun hann væntanlega gera það af sömu fagmennskunni og annað sem hann tekur sér fyrir hendur.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 24.8.2008 - 14:15 - 9 ummæli

Subbulegur jonas.is

Ég hef svo sem skrifað um það áður hvernig gamli DV ritsjórinn kýs að haga orðum sínum á bloggsíðu sinni jonas.is. En sjaldan er góð vísa of oft kveðin.

Skoðanir hans koma mér ekki sérstaklega við en framsetning þeirra og sóðaskapurinn í orðavali ryfjar aftur upp fyrir mér hvernig síðustu ár þessa manns á ritstjórastóli DV voru. Hann hefur engu gleymt heldur bætt aðeins við sig ef eitthvað er…

Telur líklega að skoðanir hans fái meiri vigt ef hann fer nógu neðarlega í drulluna….

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur