Þriðjudagur 8.7.2008 - 09:12 - 12 ummæli

Baugspabbi stefnir ríkinu.

Jóhannes Jónsson matarokrari og orðhákur ætlar að stefna ríkinu í haust. Hef ekki minnsta grun um á hvaða forsendum en hann hlýtur að finna þær ásamt hálaunuðum súper lögfræðingum sínum.

Hann er auðvitað stórmóðgaður blessaður karlinn að þurfa að standa reikningsskil gerða sinna eins og aðrir þegnar þessa lands. það eru líka allir búnir að segja honum að spilling og pólitík hafi ráðið, eða sagði hann það kannski sjálfur? það telst líklega full sönnun og því ekki annað að gera en að stefna.

Og þá dugar ekkert minna en að stefna ríkinu og krefjast í leiðinni afsagnar helstu manna. Lítillæti er ekki að þvælast fyrir auðkýfingnum. Ég mun fylgjast spenntur með enda verður gaman að sjá á hverju stefnan mun byggjast.

Kannski þetta verði venjan í framtíðinni hjá venjulegum Jónum þessa lands þegar þeir verða ákærðir. Verði þeir ekki sakfelldir fyrir öll ákæruatriði þá er stefnt enda augljóst að um ofsóknir mun vera að ræða.

Jóhannes hefur birst okkur undanfarna mánuði grátbólginn af þreytu og kvartað undan því að þessi mál hafi tekið frá honum 6 ár ævi sinnar. Stóryrtur að vanda og óheflaður. Nú bregður svo við að hann vill endilega meira af málaferlum.

Að þessu sinni hreinlega hlægilegum málaferlum. Varla getur nokkrum einasta manni dottið í hug að milljarðamæringuinn móðgaði muni fá neitt út úr þessu brölti. Hann vissulega hefur efni á þessu og líklegt að þetta ýti undir bólgið egóið auk þess sem hann mun finna nokkuð til sín.

Annað bitastætt verður ekki í boði.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 7.7.2008 - 12:07 - 3 ummæli

Ruglið í Johnsen.

Ég hef áður skrifað um Árna Johnsen. Ég hef ekki minnsta grun um hvernig honum hefur ítrekað tekist að syngja sig inná kjósendur í sínu kjördæmi. Eitthvað hlýtur hann að hafa til brunns að bera því kjósendur geta ekki haft svona herfilega rangt fyrir sér, eða hvað?

Með góðum vilja má þó greina að honum er ekki alls varnað. Er greinilega ástríðumaður í þvi sem hann tekur sér fyrir hendur. Það gengur víst vel undan karlinum. Óheflaður alþýðumaður og það selur alltaf eitthvað. Skrifar oft magnaðar minningargreinar, Sérlundaður tappi með skemmtilegan orðaforða og ömurlega söngrödd.

Kannski þurfum við eitt svona eintak á þing. Kann að vera þó mér finnst það ekki. Hann er líka stundum blaðamaður þó mér sýnist reyndar að hann sé eiginlega hvorki blaðamaður né þingmaður. Hann er samt allsstaðar og hvergi. Skiptir eiginlega bara engu máli blessaður.

Hef sjálfur ekki hugmynd um fyrir hvað hann stendur pólitískt. Hann veit það væntanlega ekki sjálfur. Hentistefna og sérhagsmunapot kemst næst því eins og ég sé þetta. Hann blæs upp af og til ef honum mislíkar eitthvað en annars virðist hann ekki hafa neitt fram að færa. Hver einasti dagur sem hann opnar ekki munninn er gæfudagur fyrir okkur sjálfstæðismenn.

Þessi helgi var einmitt ein af þessu ógæfuhelgum þar sem hann Árni opnaði munninn. Þar lét hann vaða á súðum í órökstuddum þvælukenndum fullyrðingum um Baugsmálið. Hann er svo sem ekki einn um þann söng en hann Árni er þingmaður og þar liggur munrinn.

það er grafalvarlegt þegar fulltrúi á löggjafarsamkomu okkar gengur fram með svona fullyrðingar. Dylgjur um óeðlilegan framgang málsins og hugsanlega annarleg afskipti utanaðkomandi eru ekkert léttmeti komandi frá þingmanni, jafnvel þó hann heiti Árni og sé Johnsen og hafi svigrúm vegna þess að allur almenningur lítur á hann sem trúð, í besta falli.

Lýðræðið er skemmtilegt og það skilaði okkur Árna á þing. Við því er ekkert að gera en það verður að gera lágmarks kröfur til hans eins og annarra og því finnst mér að hann skuldi okkur skýringar og upplýsi að fullu hvað hann hefur fyrir sér.

En þá þarf hann að opna ginið aftur og eins og áður er getið þá endar slíkt að líkindum með hörmungum. Kannski sleppur þetta bara því fáir vilja kannast við að vera í liði með manninum.

Maðurinn er á undanþágu…

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 7.7.2008 - 11:41 - 4 ummæli

Til hvers eru reglur?

Sorglegt mál þetta með Kenýja manninn sem ekki fær að vera hjá konu sinni og barni. Hann var hér ólöglega ef ég hef skilið þetta rétt og gott ef ekki konan líka. Allt frekar snúið.

Þar til bær yfirvöld komust svo að því að maðurinn skyldi úr landi. Væntanlega ekki af mannvonsku einni saman. Hér hlýtur að vera unnið eftir reglum um mál af þessu tagi. það er best enda tryggir það að allir fái sömu afgreiðslu en ekki tilviljanakenndar.

Stundum gerist það að alsherjarreglan hittir suma verr en aðra. Þá vilja margir grípa til undantekninga. Og í þessu tilfelli að ráðherrar skipti sér af, grípi inn í. Þekki þetta mál ekki út í hörgul en hef skoðanir á prinsippinu.

Almennt finnst mér að stjórnmálamenn sem hafa sett stofnunum reglur eigi ekki að vesenast í því að fara á svig við þær eftir hentugleika. Það býður upp á misnotkun og spillingu.

Skipti Björn Bjarnason sér af rannsókn á Baugi? Var Jónína Bjartmars að vinna í umsókn tengdadóttur sinnar? Vonandi ekki. Enda treystum við fagfólki til þess að komast að eðlilegri niðurstöðu að vandlega íhuguðu máli og eftir þeim reglum sem starfseminni eru settar.

Ekki gengur að skammast í ráðherrum einn daginn fyrir að vera með nefið sitt ofan í málefnum stofnana sem undir þá heyra og ætlast svo til þess að þessir sömu ráðherrar séu einmitt með fingurna í vinnu stofnana sem undir þá heyra, allt eftir hentugleika hverju sinni.

það er handónýt stefna og hættuleg.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 2.7.2008 - 14:13 - Rita ummæli

Freistingar vinstri manna…

Menn hafa verið að lesa erlend blöð hér. Financial Times í þessu tilfelli. Og það er eins og við manninn mælt. Enn einu sinni sjá margir vinstri menn hvernig best er að stytta sér leið á toppinn. Breski hagfræðingurinn bendir á að best sé að sprengja ríkisstjórnina fyrir Samfylkinguna helst nú þegar.

Klofiningar og upphlaup hefur verið helsti vandi vinstri manna hér á landi. Skortur á framsýni og þrautsegju í bland við óþolinmæði hafa gert það að verkum að vinstri menn hafa hér verið sundraðir lengi og þeim hefur ekki verið treyst. Frekar spretthlauparar en lang. Ótrúverðugir.

Hvernig verða menn trúverðugir í stjórnmálum? Hvenær verður til innri strúktúr hjá flokkum? Er það þegar fólk tekst á hendur ábyrgð og vinnur í þeim verkefnum sem það hefur tekist á hendur jafnvel þó á móti blási eða er það þegar fólk hleypur eftir stundargleði eins og FT bendir á að gæti verið í spilum?

Hundóánægðir samfylkingarmenn virðast hér sjá flotta leið út úr því vandasama verkefni sem er að vera í ríkisstjórn í mótbyr. það er vegna þess að þetta fólk trúir því að samstarfsaðilinn liggi heldur vel við höggi nú um stundir. Þessi sami hópur sér þessa fínu leið reyndar líka þegar staðan er akkúrat á hinn veginn!

Mjög margir sjá samfylkinguna nú hlaupa undan loforðum sínum flesta daga. Bullandi óánægja. Allt þetta gleymist þegar gott er að trúa því að nú sé hægt að gleypa heiminn í einum bita. Stytta sér leið og verða stór og sterkur.

Langtímaáhrifin af svona löguðu eru þekkt. Upphlaupsstjórnmál vinstri manna hér á landi hafa skilað þeim eyðimerkurgöngu áratugum saman. Nú er, í það minnsta tímabundið, allsæmilegur friður innandyra og þá er best að reyna að koma á upphlaupi í samstarfi sem Samfylkingin og eða vinstri menn hafa svo sannarlega þurft að komast í lengi til þess að búa sér til trúverðugleika og verða alvöru.

Kannski verður glýjan svo mikil að Solla rýkur til. það myndi gleðja fótgönguliðana. Stundarsigrar augnabliksins eru svo sætir. Litlu sigrarnir sem vinstri menn kalla gjarnan söguleg.

það að verða fullorðinn í stjórnmálum er langhlaup og oft blæs á móti. Og sagan segir okkur að oft er lag að reyna að eignast allan heiminn. Sjálfstæðisflokkurinn hefði getað losað sig við Framsókn nánast mánaðarlega í 16 ár ef eitthvað var að marka skoðanakannanir eða vitringa af ýmsum toga.

Kom aldrei til álita. Enda staðfesta og styrkur það sem skilar árangri til lengri tíma. Ekki lýgur sagan að okkur.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 2.7.2008 - 10:07 - 1 ummæli

Bullar Hafró?

Þá er sjávarútvegsráðherra búinn að ákveða sig. Kjarkmikill sem fyrr þrátt fyrir uppruna sin fyrir vestan ákveður hann að fara að mestu að ráðgjöf færustu vísindamanna. Úthrópaður og bannfærður.

Og ekki að spyrja að því. Blaðið mitt var í morgun sneisafullt af viðtölum við menn sem lýstu hneykslan sinni. Reyndar lítillega misjafnar ástæður en í grunninn þær sömu. það vilja auðvitað allir veiða meira.

Það liggur einfaldlega í hlutarins eðli að útgerðarmenn og sjómenn geta aldrei verið ánægðir með að fá ekki að veiða þegar þeim hentar og eins mikið og þeim helst dettur í hug.

Núna telja menn að skynsamlegt sé að veiða meira vegna þess að efnahagsástandið sé slæmt. Vilja þá líklega draga úr veiðum þegar verðbréf seljast betur. það er í þessu eins og svo mörgu öðru hjá okkur. Skammtímahugsunin ræður ríkjum, og sérhagsmuna.

Sjómenn segja sjóinn fullan af fiski. Eina fólkið sem ekkert veit um það eru vísndamennirnir. Allir aðrir algerlega hlutlausir aðilar vita það. Sjórinn var líka fullur af síld í den. Alveg þangað til sú síðasta var veidd. Þá var viðkvæðið líka það sama. Vísindamennirnir bjánar sem sitja bara og reikna í stað þess að drífa sig á sjó og fara að veiða!

Auðvitað er eðlilegt að sjónarmið þeirra sem vilja veiða og græða og þeirra sem vilja draga úr veiðum skarist. Sér í lagi í því árferði sem nú er. Harðindatímar að renna upp í efnahagslegu tilliti og vísindin segja okkur að fiskinum fari fækkandi.

Eftir stendur spurningin. Hvernig á að ákveða hversu mikið má veiða? Er kannski bara best að láta útgerðina um það, nú eða sjómenn sjálfa? Málflutningur sumra hagsmunaaðila málsins er fyrir neðan allar hellur. Hálfgerð afdalamennska sem mótast af þröngum sérhagsmunum.

Hafró hefur engra hagsmuna að gæta nema vísndalegra. Við eigum ekkert val annað en að taka fullt mark á þeirra ráðgjöf. Við höfum ekkert annað að styðjast við en þeirra gögn.

Gífuryrði sumra í garð Hafró breyta engu þar um.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 2.7.2008 - 09:39 - 1 ummæli

Meiri forgjöf til Rúv takk.

það er erfitt að reka fjölmiðlafyrirtæki. Við búum í litlu samfélagi og slagurinn um auglýsendur harður. Samt freistast menn til að standa í þessu basli. Rekstrarumhverfi þeirra sem reyna er út í hött hér. Hvernig á að vera hægt að standa í eðlilegri samkeppni við ríkið?

Forstjóri 365 birtist í gær þungur á brún. Útlitið ekki bjart og engu líkara en að eigandi samsteypunnar ætli sér helst úr landi með þetta fyrirtæki eins og önnur í hans eigu. Þetta af business ástæðum en hin af því að honum leiðist að þurfa að standa reikninsskil gerða sinna eins og aðrir þegnar þessa lands.

Ég hef fullan skilning á þreytu þeirra sem eru að reka 365 í samkepnni við Rúv. Forgjöf samkeppnisaðilans er óþolandi og hefur verið alla tíð. Ríkið rembist við að halda úti rekstri sem einkaaðilar eru að gera vel. Til hvers er rás 2? Hvaða stórkostlega menningarhlutverki sinnir hún sem aðrir gera ekki?

Þess vegna var gaman að sjá að Páll forstjóri Rúv birtist beyðgur í gær og tilkynnti um uppsagnir starfsmanna. Ástæðan? Jú, hann vantar meiri forgjöf. Hærri afnotagjöld! Hann er greinilega búinn að steingleyma árunum þegar hann var hinu megin við borðið. Hann vill bara fá meira núna til að geta haldið áfram að reka fyrirtækið af myndarskap með tapi.

Ég gæti hugsanlega umborið þessa stofnun ef hún hætti að herja á auglýsendur. Ef við endilega viljum halda úti ríkisfjölmiðli þá eigum við að splæsa því á okkur en ekki reyna af öllum mætti að koma einkaaðilum fyrir kattarnef í leiðinni með því að slást um auglýsingar og rukka alla landsmenn í leiðinni um afnotagjöld.

Slíka samkeppni þolir enginn til lengdar.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 1.7.2008 - 10:11 - Rita ummæli

Skaginn.

Nú syrtir verulega í álinn hjá Skagamönnum í fótboltanum. Oft hefur gefið á bátinn en samt hefur þeim yfirleitt tekist að að ná vopnum sínum og snúið við blaðinu. Skaginn er jú alltaf Skaginn…

það hefur alltaf verið mögnuð ára yfir fótboltanum uppi á Akranesi. Hnarreystir menn með kassann út í loftið. Munnurinn fyrir neðan nefið og ekkert andskotans væl. Þeir hafa fjöldaframleitt flotta fótboltamenn í gegnum tíðina. Við höfum öll borið mikla virðingu fyrir hefðina.

Auðvitað geta þeir enn snúið blaðinu við og unnið leiki. En þeir munu ekki vinna nokkurn skapaðan hlut þetta tímabilið. Þetta verður titlalaust og þeir munu ekki einu sinni vera í baráttunni að óbreyttu. Öðruvísi mér áður brá.

Ég held að ástæðan sé þjálfarinn. Trúi því mjög vel að hann sé frábær fagmaður enda oft náð afburða árangri. Ég er meira að hugsa um karakterinn sem slíkan. það eru alltaf allsstaðar þar sem hann vinnur einhver fjandans læti.

Auðmýkt og yfirvegun þekkir hann varla. Umburðarlyndi enn síður. Grjótharður mórallinn og harkan er kannski bara hætt að virka. Kannski var upphafið að endinum svarti bletturinn sem féll á Skagamenn í fyrra. Til skamms tíma fór það atriði illa í Keflvíkinga en kannski verða langtíma áhrifin verri hjá Skagamönnum.

Vandinn liggur ekki hjá mér, það er viðkvæðið. Þegar illa gengur þá vilja leikmennirnir ekki vinna, þeir leggja sig ekki fram. Guðjón er reyndar ekki eini Skagaþjálfarinn sem talar svona um leikmenn sína í mótbyr. Svona tal grefur bara undan þjálfarnum með tímanum. Auðvitað vilja allir vinna og hver leggur sig ekki fram.

Svo þegar sigrarnir detta inn þá er það vegna kænsku þjálfarans sem lagði leikinn glimrandi vel upp. Guðjón tekur hrósið en yfirgefur leikmenn sína þegar á móti blæs. Fjölmiðlamenn eiga hér stórann þátt. Þeir hafa kokgleypt þetta bull árum saman opinmynntir yfir öllu sem Guðjón hefur sagt.

Á þessu tímabili hafa aðrir þættir þó verið til að spilla gleðinni. Nefnilega dómarar og gott ef KSÍ líka. Mistök dómara verða alltaf hluti af leiknum og engir fara varhluta af þeim. Þeir sem sökkva í það fen að trúa því að þessi sannindi séu einelti og árásir ef ekki samantekin ráð munu ekki ná árangri. Þetta er ekki hugarfar sigurvegarans.

Mér sýnist neikvætt og þungt tal Guðjóns vera farið að ná til liðsins. Gleðin víðs fjarri enda hafa leikmennirnir fína fjarvistarsönnun fyrir genginu slaka. Þetta er ekki eingöngu þeim að kenna. Þeir eru í stríði við allt og alla.

Ég vona að Skagamenn nái sér á strik. Þeir eru stór partur af okkar bolta. En mig grunar að þá verði að verða alger hugarfarsbreyting og hún þarf að hefjast hjá Guðjóni. Í dag lítur helst út fyrir að þjálfun sé það leiðinlegasta sem Guðjón hefur gert um ævina.

Jákvætt hugarfar og gleði en ekki endalaus hávaði og spörk í allar áttir. Alltaf allir vondir við mig. Logi Ólafsson er frá náttúrunar hendi skemmtilegur maður og glaðsinna. Er pottþéttur á því að hann hefur ekki þá þekkingu og kunnáttu á fræðunum sem Guðjón hefur.

En hann hefur, með jákvæðu hgarfari og yfirvegðri nálgun tekist að snúa hlutunum á betri veg hjá KR. Eyðir ekki tíma sínum í að eltast við dómara og aðra jafnvel þó stundum gæti verið ærin ástæða til. Grunnafstaðan er rétt. Karaktereinkenni þjálfarans eru farin að sjást hjá KR. Og hjá Skagamönnum líka.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 27.6.2008 - 09:22 - 5 ummæli

Álvers og virkjanafóbían.

Nú eru undarlegir tímar. það dimmir yfir og lágskýjað sem aldrei fyrr. Smátt og smátt sogast allir inn í myrkrið. Húsnæði fæst hvorki selt né keypt og bensínið hækkar og hækkar, alveg nákvæmlega eins hjá öllum, ekkert samráð þar.

Okkur er sagt að ástæðan sé í raun og veru spákaupmennska. Skil ekki bransann en finnst endilega að menn ættu að snúa sér að því að laga þetta. Hvenær verða spákaupmenn búnir að fá nóg?

Ég er ekki hagfræðingur en finnst þó að á tímum sem þessum ætti ríkisvaldið að koma sterkt inn með framkvæmdir. Skuldlaus ríkissjóðurinn eftir áratuga stjórn skynsamra manna stendur vel að vígi. Verð seint talsmaður ríkisumsvifa en nú er lag.

Álver er í hugum margra nánast viðbjóður. Stórhættulegur vírus. Ýmsir hafa þroskað með sér áunna andúð á þessum atvinnurekstri. Nálgast að mínu viti trúarofstæki. Fólk sér fyrir sér skítuga kolanámumenn í baneitruðu vinnuumhverfi. Ætli helvítis malbikunarstöðin í Hafnarfirði mengi ekki bara meira en álverið sem ekki mátti stækka?

Hvernig business er álver? Vita það margir? Sennilega ekki. Næsta fáir hafa kynnt sér um hvernig vinnustað er um að ræða. Er þörfin fyrir ál ekki stöðugt að aukast? Þurfum við ekki að sætta okkur við að ál verður að framleiða hvað sem tautar og raular. Af hverju má ekki framleiða það hér á landi?

Umhverfisverndarsinnar segjast hugsa glóbalt. Fá gæsahúð af því einu að segja það og tauta svo um Kyoto. Vilja svo ekki gufuaflsvirkjanir heima í túninu sínu. Finnst líklega betra að álver rísi í Kenýja eða Angóla. Þau verða klárlega knúin með olíu. það er svo bráðhollt, glóbalt séð.

Krampakennt ofstækið gegn stóryðju er fyrir löngu orðið hlægilegt. Algerlega er eðlilegt að skoða hvert tilvik fyrir sig en að hafna öllu slíku bara til þess að hafna því er í besta falli barnalegt. Við getum ekki öll lifað á þvi að lesa bækur og hlusta á Sigurrós og Björk.

Eða versla með bréf af hvort öðru fyrir fé sem við fengum lánað hjá bönkum sem sjálfir fengu það að láni hjá öðrum bönkum. það er ekki tilraun til þjóðarmorðs að hugleiða það að hefja rekstur álvers. Hugsanlega væri best að við lifðum í fullkomnu tómarúmi þar sem við þyrftum aldrei að snerta á neinu í kringum okkur.

Veiddum hvorki fisk né kjöt. Þyrftum ekki að leggja vegi um landið til að spilla nú ekki einhverju. Notuðum hvorki ál né aðra málma. Þyrftum ekki vinnu handa okkur. Gætum bara lifað af hvort öðru. Værum algerlega sjálfbær bara.

Hættum þessu ofstæki. Tökum ekki sjálfkrafa afstöðu gegn álverum af þvi bara, eða með þeim. Álver og virkjanir eru ekki töfralausnir en ekki heldur heimsendir. Kannski geta önnur sjónarmið en bara níðþröng umhverfis stundum haft eitthvað vægi.

Hvet svo Sigurrós og Björk til að notast ekki við ál. Hvorki í sviðsmyndinni sinni eða bílnum sínum, ekki í steikarpönnunni sinni, ekki…..

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 25.6.2008 - 14:38 - Rita ummæli

Dómarar.

Fékk til mín mann í stólinn, fótboltamann. Engin sérstök tíðindi en við fórum að tala um mál málanna í íþróttum; dómara.

Hann sagðist hafa rekist á einn slíkan nánast á förnum vegi þar sem hann var á tali við annað fólk. þar heyrði hann manninn, dómarann, ryðja út úr sér hverjum dónabrandaranum á fætur öðrum. Trúði vart sínum eigin eyrum.

Dómarar eru ekki fólk. Þeir eru dómarar! Þurfa ekki á klósett og ekki fara þeir í bíó. Eiga líklega ekki fjölskyldur. Þeir segja ekki brandara og þeir hlægja örugglega ekki að þeim.

Fór að hugsa um það hvernig fólk hugsar um dómarana sjálfa, manneskjurnar. Kannski gengur stóri meirihlutinn með gríðarlegar ranghugmyndir um þessa tegund manna eða kvenna. Stundum er sagt að dómarar séu mjög sérstök starfsstétt. Þeir séu hitt eða þetta. Þoli ekki gangrýni og standi þétt saman og svo er stundum talað um klíkur.

þeir leggi menn og jafnvel félög í einelti. Oft sjái þeir lítið en heyri allan fjandann. Stundum þykja þeir kjarklausir og svo kemur það fyrir að kjarkaðir dómarar virðast öllum óþolandi af því að þá er stutt í hrokann sem þó er talinn nauðsynlegur upp að vissu marki, stundum.

Dómarar skulu vera fullkomnir frá fyrsta verkefni og bæta sig svo jafnt og þétt upp frá því. Mistök eða yfirsjónir eru ekki til umræðu. Samt eru íþróttir sneisafullar af mistökum allra sem að leiknum koma. Leikmenn sem æfa vilt og galið allt árið um kring gera stundum mistök sem eru allt að því barnaleg.

Engum dettur í hug að á bak við þau mistök liggi illur hugur af neinu tagi eða sérstakt getuleysi. Það munu vera heiðarleg mistök. Dómarar gera bara heiðarleg mistök fullyrði ég. Engin munur er á störfum dómara og annarra sem starfa við íþróttir. Og reyndar á þetta við um öll störf. Hver vill ekki vera bestur í sínu fagi?

Dómgæsla er erfitt djobb. Það endist ekki hver sem er í því starfi. Athyglin sem sú starfstétt fær er nánast eingöngu neikvæð. Hver nennir að tala um dómara sem stendur sig vel? Var ekki ætlast til þess að viðkomandi réði við starfann? Engin frétt þó það takist.

Dómarar eru íþróttamenn. Engin eðlismunur eru á dómurum og íþróttamönnum. Hvorki á manneskjunum sjálfum eða störfunum. Ekki eru allir dagar góðir þrátt fyrir mikinn vilja og góða undirstöðu og kunnáttu. Það er nú bara þannig.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 25.6.2008 - 13:54 - Rita ummæli

Uppsagnir og eigendavandi.

Icelandair er að láta fólk fara í stórum stíl. kemur engum á óvart enda gerist þetta árlega þó þessi skammtur sé stærri en áður og horfur á endurráðningum ekki eins góðar og yfirleitt. Þetta eru hörmungar.

Stórhækkað olíuverð og fækkun farþega vega hér þyngst. Ég efast að sjálfsögðu ekki um það en velti því fyrir mér hvort þetta fyrirtæki stæði ekki betur að vígi í kreppunni ef það hefði verið heppið með eigendur undanfarið.

Þær eru ekki litlar upphæðirnar sem Hannes og Jón Ásgeir blóðmjólkuðu út úr félaginu. Hvað voru þeir margir milljarðanir sem runnu í hyldjúpa vasa þessara snillinga þegar þeir keyptu sterling af sjálfum sér? Arfleið þessara manna er græðgi og óhóf. Flugfélagið var gernýtt til að sölsa undir sig eignir, skuldsett að sjálfsögðu. Þá er öllu skipt upp og verðmætin hétu allt í einu FL group en skuldirnar hétu áfram Icelandair. Seinna át svo byltingin börnin sín..

Af hverju fannst fjármáleftirlitinu ekkert óeðlilegt við það á sínum tíma þegar heil stjórn sagði af sér með þeim orðum að ekki væri hægt að vinna með þessum aðilum?

Ég get ekki gert lítið úr því að ástandið almennt í fluginu er ekki gott en bendi fólki á að gleyma því ekki hvernig þessir menn fóru með félagið.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur