Miðvikudagur 25.6.2008 - 11:36 - 1 ummæli

Hollvinir grensás og sjóvá.

Af hverju vissi ég ekki að til væru hollvinir grensásdeildar? Samtök með stjórn og alles, og formann. Sem í dag skrifar grein í moggann. Og af því að mér er málið skylt fannst mér greinin frábær.

þar upplýsir hann að sjóvá lýsi sig reiðubúið að fjármagna og styrkja með beinum fjárframlögum byggingu viðbótarálmu við grensásdeild. Ríkið myndi svo leigja húsnæðið og taka það yfir að tilteknum tíma liðnum.

Svona á þetta að vera. Tryggingarfélögin hafa beinan hag af því að endurhæfing sjúklinga takist vel og gangi fljótt fyrir sig. Hér fer því hagur allra prýðilega saman. Enda minnir mig að eitthvert tryggingarfélagið hafi haft áhuga á að fjármagna tvöföldun vegar austur fyrir fjall af sömu grundvallarástæðum.

Geri mér grein fyrir því að VG og líklega fleiri fá hland fyrir ríkisrekna hjartað sitt að heyra minnst á að einkaaðilar komi að nokkrum sköpuðum hlutum og ekki síst því sem snýr að heilbrigðismálum.

En í þessu tilfelli getur varla verið að nokkur maður ætti að geti fundið meinbug. Þetta er einfaldlega skothelt í allar áttir og ekki eftir neinu að bíða. Enginn sem kynnir sér starfsemi grensásdeildar getur efast hversu frábært og nauðsynlegt starf þar er unnið. Eða hversu mörgum hefur tekist að ná fótfestu eftir vistina þar. Ekki fer heldur á milli mála að miklu betur þarf að búa að þessari starfsemi.

Kýla þetta góða mál í gegn takk. Þetta fellur þéttingsfast að grundvallarskoðunum núverandi heilbrigðisráðherra. Ég leyfir mér að vera bjartsýnn.

Er skapi næst að færa mín viðskipti öll til sjóvár…

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 20.6.2008 - 22:51 - 5 ummæli

Svanur um Hannes og háskólann.

Svanur Kristjánsson prófessor í stjórnmálafræði skrifar pistil í fréttablaðið í dag. Hægri menn hafa aldrei og munu aldrei þola hann. Hann hefur enda aldrei þolað að hægri maðurinn Hannes Hólmsteinn kenni við hákólann. Hann hefur ræktað með sér að mér hefur fundist bæði faglega og persónulega óbeit á Hannesi. Þannig hefur díllinn verið. Hann hefur fundið Hannesi allt til foráttu og flestir eru bara hættir að nenna að hlusta á það. Nema Helga Kress auðvitað.

Hef ekki sett mig mjög nákvæmlega inn í þá sögu en hefur fundist báðir aðlilar njóta þess hanaats til fullnustu. Veit fátt um Svan en hef af honum mynd fremur óspennandi manns sem líkist mun frekar þreyttum embættismanni en leiftrandi vísinda og fræðimanni. Mjög líklega alröng mynd og vonandi allra vegna.

Og nú ryðst hann fram og heggur á báðar hendur. Talar um grundvallaratriði og trúverðugleika háskólans. Er ekki heilmikið til í því sem hann segir?

Ég hef ekki þá skoðun að rétt sé að hálshöggva Hannes af því að hann er Hannes eins og margir virðast vilja gera. Mér finnst einfaldega að um hann eigi að gilda sömu reglur og um aðra. Hvorki meira né minna.

það er skylda rektors og deildarforseta að sannfæra alla aðila um að enginn vafi leiki á að Hannes fái eðlilega meðferð eftir dóminn sem hann hlaut. Enginn afsláttur sé veittur né að á rétti hans sé traðkað.

það hef ég á tilfinningunni að ekki hafi tekist og varla verið reynt. Fisléttar yfirlýsingar rektors og almennar hafa frá mínum bæjardyrum séð ekki gert annað en að koma því að hjá mér að henni þyki málið í besta falli óþægilegt og hentugast væri að reyna að svæfa það. Vanhæfisyfirlýsingar deildarforseta þekki ég ekki en varla má vera mikil leynd yfir ástæðum þess vanhæfis.

Heiður háskólans og reyndar Hannesar er hér að veði. það verður aldrei léttvægt fundið. Þar erum við Svanur sammála.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 14.6.2008 - 10:43 - 2 ummæli

EM

Einhvernvegin hélt maður að rúv myndi gera í íþróttabuxurnar í umsjóninni með útsendingum frá EM í fótbolta. það hefur ekki gerst þó ég skilji ekki hvernig hægt er að komast upp með að einoka dagskránna við fótbolta.

Spjall Þorsteins Joð við Auðunn og Pétur í kringum leikina er flott. Vegna tímasleysis tekst ekki að draga þær á langinn sem er ánægjuleg tilbreyting. Auk þess eru þeir reyndir leikmenn með annan og nýjan vinkil á hlutina en þjálfararnir sem yfirleitt hafa verið fengnir til sérfræðispjalls.

Flottur fótbolti hjálpar svo til. Hollendingar og Króatar fara á kostum ásamt Spánverjum. Gaman að því en mér segir svo hugur að ekkert þessara liða vinni mótið. Blússandi sóknarleikur vinnur sjaldan mót. Króatarnir þó líklegastir þessrar þjóða. Þeir hafa drápseðlið og eru töffarar. Hollendingar eru flottir í meðbyr ef enginn fer í fýlu og ofurviðkvæmt taugakerfi Spánskra er alþekkt. það vill virkjast þegar spennan magnast. Portúgal lítur vel út en mér finnst þeir vera næstum því frábærir…

Neibb. Líklegast að einhver taktísk lið vinni mótið. Og ekki endilega lið sem eru í besta standinu akkúrat núna. Vonandi hef ég rangt fyrir mér en ég hef margoft séð það að hreinir hæfileikar duga ekki alltaf til að vinna svona mót. Andlegi þátturinn ræður líklega jafn miklu ef ekki meiru.

Þá koma Ítalir og Þjóðverjar sterkir inn, og fleiri.

Hvað veit ég?

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 6.6.2008 - 23:20 - 4 ummæli

Spekúlasjónir um sakleysi.

Dómur er fallinn. Hef reyndar ekki lesið hann frekar en flestir aðrir sem þó vita allt um málið. Veit það þó að Jón Ásgeir slapp vel en þó ekki alveg. Skárra væri það nú eftir alla fyrirhöfnina. Ég kemst ekki hjá þeirri hugsun að það sé ekki bara O J Simpson sem hagnast á því að hafa hæfari og dýrari lögmenn í vinnu en hið opinbera.

Glimrandi fínir hálaunalögmenn sýnast mér hafa tekið ríkisstarfsmennina í bakaríið. Árum saman komust sakborningar hjá því að svara til um efnisatriðin. Þras um tækniatriði voru aðalmálið. Af hverju ætli það hafi verið taktíkin?

Nú og svo vita allir að Davíð og vondu kallarnir settu málið af stað og ráku það sennilega líka allan tímann. Reyndar veit það alls enginn en svo oft er búið að segja það að það er fyrir löngu orðin alkunn staðreynd að málið allt var í raun pólitískt. Það er ekki bara á Ítalíu sem auðmenn gírugir telja mikilvægt að ráða yfir helstu fjölmiðlum. Af hverju ætli það sé?

Menn hrópa á afsagnir. Eitthvað hlýtur að vera bogið við embætti saksóknara sem eftir gríðar vinnu og fjárútlát tekst ekki að uppskera betur en þetta. Getur verið að sekir menn sleppi hér vegna getuleysis saksóknara?

Frá mínum bæjardyrum tókst snilldarbragðið algerlega. Efnisatriði málsins urðu fljótlega algert aukaatriði og einnig tókst frábærlega að klína pólitík á málið þó enginn hafa að mínu viti getað bent á neitt sem tengdi málið við pólitík. Það bara hentaði verjendunum og svo hentaði það líka stjórrnmálmönnum sumum á sínum tíma. Gleymir einhver bíltúrum Ingibjargar til Borgarness?

Persónulegar árásir á starfsmenn lögreglu og dómstóla urðu siður og regla. Nýtt fyrir mér að það sé haldgóð vörn en hér tókst það vel. Allt vegna þess að stór hluti þjóðarinnar hélt að þetta snérist um stjórnmál. Sorglegt.

Ákæruvaldið ákvað svo eftir ótrúlegan þrýsting að ákæra aðalavitnið í málinu. Frábær skilaboð til þeirra sem gætu í framtíðinni hugsað sér að koma upp um svindl og svínarí sem þeir standa í með risafyrirtækjum. Loka endilega fyrir þann kanal..

Þeir eru saklausir þessir menn. Að vísu dæmdir en samt saklausir af því þeir voru sýknaðir af svo mörgu! Þeir eru líka saklausir af því sem þeir eru sekir um en verður ekki gerð refsing vegna þess að málið er fyrnt. það er vissulega ein tegund sakleysis.

Þeir eru líka saklausir af því að hafa brotið hlutafélagalög af því að allir eru að því. Jónatan þórmundsson seldi fræðimannsheiður sinn með þessari fullyrðingu í skýrslu sem hann gerði fyrir baug. Síðan þá er það orðin venja hér að telja það sanna sakleysi að geta bent á að aðrir séu líka sekir eða að lágmarki jafn lítið saklausir.

Ég er hundóánægður með þetta mál allt. Er eins og margir aðrir sannfærður um fullkomið getuleysi ákæruvaldsiins. Fleiri stór mál undanfarin ár styrkja mig í trúnni. Ég hef mun sterkari sannfæringu fyrir þvi en sakleysi sakborninga í málinu. Saklausir menn hefðu varla eytt fleiri hundruð milljónum í að reyna að komast undan þvi að sanna sakleysi sitt. Eða hvað?

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 4.6.2008 - 21:47 - 5 ummæli

Hvað er mannsal?

Jón Trausti Reynisson var dæmdur til greiðslu skaðabóta vegna ummæla um Geira á goldfinger. Jón Trausti var ritstjóri Ísafoldar. Hef ekki kynnt mér dóminn en sá vörn ritstjórans á stöð 2 í kvöld.

Mannsal og mafíustarfsemi eru orðin tvö sem hann er hankaður á ef ég skildi manninn rétt. Hann telur dóminn gamaldags og túlkun réttarins þrönga. Væntanlega notast hann sjálfur þá við víða túlkun orðsins mannsal. Hér reynir drengurinn sig við orðhengilshátt. Að saka einhvern um mannsal er bara að saka einhvern um mannsal. Vítt eða þröngt er aukaatriði, sér í lagi fyrir þann sem fyrir klípunni verður.

Engin ástæða er fyrir ritstjórann að tala af léttúð hvorki um orðið sjálft eða slíkan gjörning. það er grafalvarlegt að bera slíkt á menn. Treysti hann sér ekki til að rökstyðja það öðruvísi en honum hafi verið sagt það þá verður hann að eiga á hættu kröfu um ómerkingu og skaðabætur.

Margir verða mér ósammála núna. Aðallega vegna þess að þá langar að trúa þessu upp á Geira. Dugar það? Hvað ef einhver vill smyrja svona hlutum á einhvern sem ekki er auðvelt að trúa þessu upp á? Á að taka öðruvísi á því í þeim tilfellum.

Nei. Höfum þetta einfalt og alla jafna. Sættum okkur aldrei við að einhver geti veist að æru okkar án þess að geta bakkað það upp. Fjölmiðlar geta ekki fengið afslátt af þessari sjálfsögðu kröfu frekar en aðrir.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 2.6.2008 - 09:40 - 2 ummæli

Fúll með mína menn.

Þá vitum við það. Sjálfstæðisflokkurinn í borginni er í ferlegum málum. Skoðanakannanir segja það. Gísli Marteinn telur að nú verði menn að bretta upp ermar og sýna kjósendum fram á að meirihlutinn vinni vel og að góðum málum. Minnti mig óneitanlega á málflutning framsóknarmanna. Þeir telja sig ekki heldur njóta sannmælis. það er einföldun.

Allavega í tilfelli sjálfstæðismanna í borginni. Þeir lögðu í það að ná stjórn borgarinnar aftur til baka. það gerðu þeir eins og alltaf er gert þegar einn meirihluti hættir og nýr tekur við. Tóku saman við einn óánægjugemling úr gamla meirihlutanum,

þetta gerist mánaðarlega um land allt en þótti stórmál í höfuðborginni. Boðaföllin gengu yfir flokkinn úr öllum áttum. Fjölmiðlar sem ekki höfðu séð neitt að því að Dagur tæki höndum saman við spilltasta stjórnmálamann sögunnar, svo notuð séu hans eigin orð um Björn Inga, tóku nú að hamast á sjálfstæðisflokknum fyrir nákvæmlega það sama. Það er önnur saga..

Við erum svo sem ekki óvanir því að standa í stafni með vindinn blýstífann í smettið. það fylgir því að vera í forsvari. Menn með djúpa sannfæringu og málstað ættu að fara langt með að standa élið af sér. En það eitt dugir ekki. Ekki ef forystumennirnir ráða ekki við sitt.

Kjósendur eru nefnilegu stundum furðu naskir og þefvísir á pólitískan rolugang. Forysta flokksins hefur verið helaum alveg, grútmáttlaus. Mér er til efs að sá góði maður Vilhjálmur gæti varið nokkurn málsstað sama hversu pottþéttur hann væri. Samt virðist augljós ákvörðunin um að skipta um andlit flokksins standa í forystunni.

Ég fullyrði að lúsaleit er að þeim manni sem veit ekki að Hanna Birna verður næsti borgarstjóri. Almenn sátt virðist ríkja um það utan borgarstjórnarflokksins sem er eins eins og stjórnlaust rekald að sjá. Af hveru Gísli Marteinn og hinir vonlausu vonbiðlarnir taka ekki af skarið og styðja hana opinberlega er furðulegt og skaðlegt fyrir flokkinn.

Og ekki veit ég hvað þarf til að vekja Geir og Þorgerði. Hvað þarf að ganga á til þess að þau bretti upp ermar og sýni í eitt skipti fyrir öll að þau séu með pólitískt bein í nefinu.

Hvað er það sem veldur því að ekki er hægt að lina þjáningar okkar sjálfstæðismanna og ákveða að nú verði ekki lengur unað við að stjórnmálamenn sem eru komnir yfir síðasta neysludag fari fyrir?

Það er bara ekki öllum gefið að leiða og hafa forystu, jafnvel þó um öndvegis fólk sé að ræða eins og hér er tvímælalaust. Frá mínum bæjardyrum séð er þar enginn undanskilinn…..

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 2.6.2008 - 09:18 - Rita ummæli

Flottir Svíar.

Við erum kátir núna. Komnir á ólympíuleika í handbolta eftir frábæran sigur á Svíum. Allt gékk upp hjá okkur og tóm gleði. Sænski þjálfarinn er jafnvel enn verri en Íslenski þjálfarinn. Hann skiptir bara alls ekki inn á. það kom vel út fyrir okkur í gær.

Nú sé ég það að Svíaofnæmið er í algleymi hjá bloggurum mörgum. Menn pirrast yfir því að Svíarnir kvarti yfir því að hafa verið snuðaðir um eitt mark. Þetta kalla menn að sumir séu tapsárir. Margir geta orðið sárir yfir minna en þessu.

Hvernig ætli við myndum bregðast við svona ótrúlegum mistökum ef þau bitnuðu á okkur? Hér færi allt á annan endann eða jafnvel báða. Myndum líklega tala um alþjóðlegt samsæri gegn okkur. Hugsanlega kæra til allra stofnana sem þekktar eru. Og víðar…

Svíar taka á þessu af reisn sýnist mér. Hafa greinilega kynnt sér reglur og komist að því að mistök af þessu tagi verða ekki leiðrétt og því ákveðið að berja ekki grautfúlum hausnum við steininn heldur andæfa eingöngu. Það er stíll yfir þannig framgöngu.

Er ekki viss um að við búum yfir þannig stíl ef eitthvað er að marka suma alvitra bloggara landsins…

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 30.5.2008 - 17:34 - 2 ummæli

Guðmundur þreytir…

Af einhverjum undarlegum ástæðum sat ég fyrir framan kassann nú síðdegis og horfði á landsleik í handbolta. Við erum í einni af fjölmörgum forkeppnum fyrir eitt af fjölmörgum stórmótum í handbolta. Við spiuðum við Argentínu áðan. Þeir kunna ekki handbolta. Allir vita það og allir vissu að við myndum vinna leikinn.

Og sagan kennir okkur það að við þurfum ekki að tefla okkar bestu mönnum fram í nánast alla leiki. Hver mínúta sem lykilmenn fá í hvíld er þeim mikilvæg að ekki sé talað um mínúturnar sem hinir fá til að spila!Sagan hefur ítrekað reynt að kenna Guðmundi þjálfara að vera ekki að þreyta okkar bestu menn um of.

Guðmundur breytist sennilega aldrei með þetta. Innáskiptingar eru honum eitur í beinum. Leikmennirnir á bekknum eru menn sem gripið er til í neyð. Þeim er svo gjarnan hent inn á annað hvort þegar leikurinn er gjörtapaður eða gjörunninn. Hvað fá menn út úr því?

Hvað gæri hugsanlega gerst ef Ólafur eða Guðjón fengju að setjast niður í fyrri hálfleik til að dreifa álaginu og búa til breydd og auka á leikgleði allra? Er Einar Hólmgeirsson svona lélegur leikmaður? Getur verið að honum tækist að klúðra leik gegn Argentínu ef hann spilaði meira en 11 mínútur?

Guðmundur hefur brennt sig á því oftar en einu sinni að brenna okkar sterkustu menn upp í stórmótum. Brennt barn ætti að forðast eldinn en ekki gerist það hjá Guðmundi. Játa þó að ég bind nokkrar vonir við að Óskar Bjarni nái að hafa áhrif. Hann er algerlega hinu megin á kvarðanum. Vill skipta ört inn á. Þjálfari Dana líka. Þeir eru Evrópumeistarar.

það sem gætu hugsanlega bjargað okkur núna er að þessi forkeppni er bara þrír leikir. Það verður því að teljast frekar ólíklegt að Guðmundi takist hreinlega að þreyta liðið nógu mikið.

En hann er byrjaður að reyna…

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 26.5.2008 - 09:53 - Rita ummæli

Vændið.

Vændi hefur aukist. Atli Gíslason segir það og þetta veit hann af því að hann hefur talað við lögreglumenn. Mjög vísindalegt og stæðist örugglega fyrir dómi. Annars vill ég alls ekki að menn skilji mig þannig að mér finnist Atli slæmur maður eða illa úr garði gerður.

Mér finnst nefnilega allt annað en það. Augljóslega afburðagóður maður og vel gerður. Mannvinur og ekki síst kvennvinur. Lætur sig málefni kvenna í víðasta samhengi varða. Ekki veitir af. Feministi af Guðs náð og hefur ekkert fyrir því. Gott og blessað allt saman.

Hann er á móti vændi og var á móti því að það yrði lögleitt. Enn allt gott og blessað. Hann er VG og VG trúir á boð og bönn. Það sem er bannað er ekki til heimspekin. þar greinir okkur Atla á.

Vel má vera að fólki líði betur með það að banna hlutina. Þá finnst mörgum sem það hafi gert sitt til að uppræta syndina, í þessu tilfelli vændið. Í mínum huga vinnur bann ekki að hagsmunum þeirra sem það á að gera. Eftirspurn eftir vændi hefur alltaf verið til staðar og verður um ókomna tíð því miður. Og þar sem er eftirspurn verður framboð. Enginn vafi.

Þess vegna og aðeins þess vegna er óheppilegt að banna vændið. Það verður alltaf til en fer bara undir yfirborðið, hverfur sjónum okkar en hverfur alls ekki af yfirborði jarðar þó Atli og lögreglumennirnir sem hann talar við sjái það ekki.

Varla þjónar það hagsmunum stúlknanna að vinna undir yfirborðinu því þar þrífst oft allskyns óþverri eftirlitslaust. Mér finnst miklvægt að löggjöf ná markmiðum sínum. Ekki er nóg að hlutirnir líti vel út á pappír ef markmiðin nást ekki.

það að vændi sé núna sýnilegra er ekki til endilega marks um að það hafi aukist. kannski er það að koma upp á yfirborðið af því að það er ekki lengur bannað. Þá er tilgangnum náð er það ekki?

Þá getum við farið að vinna með raunverulega hluti. Hættum að banna fólki að stunda vændi eða að kaupa það. Það þjónar litlum tilgangi. Reynum ekki að sópa vandanum undir teppið. Það er skítaredding og kemur bara í bakið á okkur síðar.

Þó ég vilji ekki bera sama póker og vændi þá er notuð sama aðferðin á póker og vændi. Allir vita að bannið hefur engin áhrif, alls engin. Önnur en að ýta undir ólöglega glæpastarfsemi.

Viljum við það?

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 26.5.2008 - 09:01 - 2 ummæli

Guðjón fríkar út.

Það væri synd að segja að þeir fari með friði Skagamennirninr allir þessa dagana. Auðvitað getur fokið í þann þjóðflokk eins og aðra. Varla er hægt að svipta menn skapgerð sinni eða skerða tjáningarfrelsið?

Guðjón Þórðarsson er af þeirri tegund manna sem gernýtir sér rétt sinn til skoðana. Hann er gjarnan alveg við jaðarinn og mörgum finnst það gaman og fréttamönnum finnst það reyndar æði. Þeir mæta stundum með olíu til að bæta í eldinn. Þá verður fjandinn laus.

Og eldurinn logaði í gærkvöldi, hann skíðlogaði. Ástæðan, jú samantekin ráð allra gegn honum. Hversu ótrúlegt er það að KSÍ hafi ákveðið að herja nú á Guðjón og hans menn. Stofna til herferðar gegn skaganum á leynifundum í bakherbergjum. Þeir sem fylgst hafa með fótbolta eftir að Guðjón kom heim úr víking hafa ekki getað komist hjá því að sjá að karlinn hefur ítrekað komist upp með ótrúlegt kjaftæði órefsað.

Hann hefur ekki hikað við að saka dómara um svindl og í gær gerði hann það aftur. Ég fullyrði að hvergi á byggðu bóli sæjum við þjálfara láta eins og hann lét eftir leikinn í gær. En ef svo ótrúlega vildi til er alveg víst að viðkomandi hlyti refsingu.

Getur verið að menn séu hreinlega orðnir vanir þessari framkomu hans? Kæmist hinn mjög svo dagfarsprúði þjálfari HK upp með svona framkomu? Er KSÍ batteríið í heili lagi skíthrætt við að taka á manninum? Við vitum að líklega mun ekki draga úr hávaðanum þó hann hljóti refsingu en þá er að endurtaka hana þangað til að maðurinn lærir almenna mannasiði.

Vel má vera að Guðjón hafi eitthvað til síns máls. En framsetning hans og nálgun er langt út fyrir það sem við ætlumst til af mönnum í hans stöðu. Þjálfarar eru andlit fótboltans. Þeir eru fyrirmyndirnar, eða ættu að vera það. Ef litið er yfir feril Guðjóns þá sést að honum er skítsama um þetta. Skapillska og annað hvort áunninn eða ómeðvitaður ruddaskapur hefur ítrekað verið opinberaður.

Þjálfarar eiga að hafa skoðanir á öllum þáttum leiksins. Þeir eru fagmenn þegar vel tekst til og þeim kemur flest við. Leikurinn er ekki gerður fyrir dómara eða KSÍ. Gagnrýni sú sem Guðjón hafði upp í gær á ekkert erindi í sjónvarp eins og hún var framsett. Í fullkomnu ójafnvægi eftir tapleik. Stóryrtur og ærumeiðandi.

KSÍ getur alls ekki sleppt honum við leikbann og sekt. Það yrði heimsmet í aulaskap. Handboltinn tók af myndarskap á svipuðu í vetur og ef tekin yrði inn í jöfnuna stighækkandi refsing væri meistari Guðjón í klípu. Undanfarin tímabil hafa aðrir þjálfarar fengið refsingu fyrir mun minna. Það vita allir en fáir skilja.

Nú verður KSÍ að hætta að skjálfa á beinum þegar Guðjón talar og hysja upp um sig. Jafnvel þó það kosti hávaða. Annars veður hann áfram uppi og mun skaða ímynd fótboltans og KSÍ.

Ímynd hans sjálfs virðist honum léttvæg. KSÍ getur ekki leyft sér slíkan munað.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur