Í gær fór fram stórleikur í enska boltanum. Mikið undir og tilfinningar stórar. þar gerðist það að dómaranum varð það á að reka leikmann af velli undir lok fyrri hálfleiks. Eða mætti kannski segja að leikmanninum hafi orðið á sú reginskyssa að láta reka sig útaf?
Umfjöllun um þetta atvik hér á landi er öll á einn veg. Dómarinn eyðilagði leikinn enda húmorslaus og ekki með neina tilfinningu fyrir leiknum, líklega almennt. Gott ef ekki heimskur og hörundsár ofan í kaupið. En er ekki eitthvað meira inn í þessari mynd?
Hvað er það í okkar þjóðfélagsgerð sem fær okkur til að hafa megnustu ímugust á aga og öllum þeim sem þurfa að halda honum uppi? Er til að mynda eitthvað sérstakt sem bendir til þess að þessi tiltekni dómari hafi haldið með öðru liðinu og beinlínis langað til þess að gera þetta?
Getur verið að leikmaðurinn hafi verið búinn að ganga þvert gegn því sem dómarinn var búinn að biðja hann um? Mótmælti þessi maður ekki nánast öllu sem hann mögulega komst yfir í þessum leik? Er það sérstaklega fagmannlegt hjá honum?
Umfjöllun um starf dómara er oftar en ekki byggð á fullkominni vanþekkingu. Þeir sem að leiknum koma, þjálfarar, leikmenn, stjórnarmenn og áhorfendur vilja að dómarar haldi upp röð og reglu, aga. Þeir skulu vera sanngjarnir og réttsýnir og ekki gera mistök. Og þeir skulu ekki vera hræddir við stórar ákvarðanir, þó sérstaklega þegar þær ákvarðanir snerta hitt liðið. Enginn vill dómara sem ekki þorir.
Þeir skulu vera harðir á sínu og ekki bogna undan pressunni sem fylgir oft. Þetta gengur auðvitað misvel hjá mönnum og jafnvel þeir sem njóta mestrar virðingar geta lennt í slæmum dögum. Skárra væri það nú.
Hvernig komast dómarar í þá stöðu að njóta virðingar og geta haldið upp röð og reglu jafnvel í mjög erfiðum leikjum? Væntanlega ekki með því að láta vaða yfir sig. Þeir dómarar sem lengst ná eru þekktir fyrir það að láta menn ekki komast upp með að fara ekki eftir því sem þeir eru beðnir um. Trúi menn því ekki að aðvörunum verði fylgt eftir þá missa þær gildi sitt. Legg til að þeir sem áhuga hafa á þessu lesi sér til um Collina þann fræga ítalska dómara sem komst glæsilega á toppinn. Það gerði hann ekki með því að láta menn komast upp hvað sem er.
Hér á landi er viðkvæðið oft að dómarinn sé að missa tökin á sjálfum sér og leiknum ef hann þarf að beita agaviðurlögum í leikjum. Þetta þekkist líka í skólum þar sem kennarinn verður oft vandamálið þegar hann vill fá nemendur til að gangast undir aga.
Enginn vafi er í mínum huga að þjálfari Liverpool mun lesa sínum manni pistilinn fyrir það að hafa látið reka sig útaf og með því farið illa með möguleika liðsins til sigurs. Reglan hlýtur að vera þessi;
Engu máli skiptir hversu mikið þér þykir viðkomandi dómari vera að gera í buxurnar og hve litla virðingu þú berð fyrir persónunni, þér ber að bera virðingu fyrir hans starfi. Og þeim fyrirmælum sem hann kann að leggja fyrir er varða agahegðun á velli. Allt annað en það er ófagmannlegt.
Dómarar gera mistök og þeim mun alltaf verða mótmælt. Ekkert er að því upp að því marki sem talið er eðlilegt. Geti leikmaður ekki fengið sig til þess að fara eftir þeim reglum sem settar eru verður hann í það minnsta að axla hluta ábyrgðarinnar.
Ekki verður séð af umfjöllun hérlendis að sá skilningur sé fyrir hendi.
Röggi.