Fimmtudagur 3.4.2008 - 13:01 - 8 ummæli

Einkaþotutuð.

það er eins og við manninn mælt, allt ætlar um koll að keyra vegna þess að ráðherrar tóku þann kostinn að leigja sér einkaþotu til að komast á fund erlendis. Smásálin í okkur ryðst upp á yfirborðið. Einungis viðskiptagúrúin okkar hafa leyfi til þess að ferðast með einkaþotum sem þeir fengu sér eftir sérdeilis velheppnuð viðskipti.

Af hverju er svo verið að skammast? Er það vegna þess að kostnaðurinn er of mikill? Hugsanlega en samt veit enginn hver kosnaðurinn er. Eitthvað er þetta hagstæðara í tíma sem þessa dagana er óvenju dýrkeyptur hjá þessum ráðherrum. Þá sparast dagpeningar hugsanlega…

Nei, hér finnst mér afdalamennskan ráða ríkjum. Gagnrýnendur þessarar ferðar vilja líklega líka að við byggjum allt á einni hæð, ekki uppúr jörðinni að ég tali nú um upp í loftið. Stór hluti gangrýnenda höfðu til að mynda ekkert við það að athuga að forseti lýðveldisins margnýtti sér einkaþotur nýríku businessvina sinna sér til handa og konu sinnar.

Þras um aukaatriði er sérgrein heilu hópanna hér. Dægurtuð sem ristir grunnt. Veit einhver hvað er til umræðu á fundinum?

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 2.4.2008 - 19:33 - 2 ummæli

Mótmælaofbeldi.

Jæja, þá er nýjasta afbrigðið af mótmælaofbeldi í algeymingi. Nú eru það atvinnubílstjórar sem sáu sér leik á borði þegar þeir vildu mótmæla skerðingu á ýmsum sérkjörum er snúa að þeim og hófu að andæfa háu bensínverði og slepptu hinu. Stórsnjallt, þannig séð.

Hver vill ekki borga minna fyrir bensíndropann? Málstaðurinn almennt talinn góður og þess vegna sættir meginþorrinn sig við að lög séu sniðgengin. Lögreglan allt í einu hætt að sekta fólk fyrir umferðalagabrot. Hver ákveður það og á hvaða forsendum væri gaman að vita.

Hér skiptir að sjálfsögðu engu hvort málstaðurinn sem barist er fyrir er góður eða slæmur. Lögbrot eins og að stöðva umferð skipulega er ofbeldi og á ekkert skylt við mótmæli. Mótmæli þurfa alls ekki að innihalda ofbeldi gagnvart þriðja aðila til að telast marktæk og sterk.

Þetta gætu allt eins verið Pólverjar að andæfa hugsanlegum fordómum í sinn garð. Yrði það látið viðgangast? Svarið er nei og það er ekki vegna þess að Pólverjar geti ekki haft eitthvað til síns máls. Það er vegna grundvallaratriða í okkar stjórnskipan.

Lýðskrumarar á þingi og víðar skríða nú út úr skúmaskotum sínum og vilja ná sér í hræódýrar vinsældir. Engin stýrivaxtahækkun getur bjargað hruni þess liðs. Mótmælum ef við teljum ástæðu til en ekki með ofbeldi. Íslenska ríkið tekur minna af bensíndropanum en víða annarsstaðar og það vita þingmenn og margir fleiri sem hafa ekki haft nokkurn áhuga á að hreyfa við fyrirkomulagi.

Ég mótmæli þessari aðferð og hef heyrt af því að hópur óánægðra smábíla eigenda hyggist leggja bílum sínum þannig einhvern næstu morgna að helstu talsmenn þessara aðgerða komist ekki til vinnu sínnar og lögbrota fyrr en smábílaeigendum finnst nóg komið.

Ég er ekki meðmæltur því heldur en sýnist þó að meginþorri þjóðarinnar vilji hreint endilega koma upp þannig alsherjarreglu hér að nauðsyn brjóti hiklaust lög bara ef málstaðurinn hefur nógu marga meðmælendur.

Og hver á að ákveða hvað er góður málsstaður?

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 28.3.2008 - 21:20 - 2 ummæli

Heimanám.

Það er þetta með heimanámið. Hef hugsað mikið um það. Vonandi bæði kosti og galla en líklega hef ég þó frekar séð gallana en kostina. Ég sé auðvitað gildi þess að foreldrar komi að og taki ábyrgð á námi barna sinna. Sé það líka í hendi mér að þær verða varla mikið dýrmætari stundirnar sem maður á með börnum sínum en þær sem fara í lærdóm og námsbækur.

En er ekki innbyggð mismunun sem fellst í heimanámi? Hvað með þau börn sem koma frá heimilum sem annað hvort geta ekki eða vilja ekki stunda námið með börnum sínum? þau börn eyða fyrstu árum sínum í kvíða og námserfiðleika auk samviskubits yfir því að skila ekki sínu og dragast aftur úr. Göngutúrinn í skólann erfiður því von er á athugasemdum. Meira að segja litlar sálir finna fyrir slíku þó fagmannlega og vel sé farið með.

það er staðreynd að mjög er mismunandi hvernig börn eru sett. Efast ekki um að allt er reynt til þess að brúa þetta í skólunum en efast ekki heldur um að það tekst ekki alltaf og líklega sjaldnast.

Getur verið að þarna hefjist ferli sem á endanum leiðir til einangrunar og jafnvel eineltis í skólum sem endar þá kannski með brottfalli og áhugamissi síðar meir?

Auðvitað er eðlilegt að hvetja foreldra til að lesa fyrir börn sín og síðar með þeim. Og ég veit líka mætavel að aldrei verða öll börn á sömu ferðinni í námi.

Ég hallast bara að því að betra sé að brúa það bil í skólum en utan þeirra. Þess vegna hef ég efasemdir um heimanám hjá yngstu bekkjunum. Áskil mér þó fullan rétt til að skipta um skoðun.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 28.3.2008 - 13:05 - 1 ummæli

Ólund Árna.

Það er nú bara þannig að hér á landi höfum við búið okkur til þjóðfélag sem byggist upp á ákveðnum gildum og grundvallaratriðum. Löggjafinn setur okkur umferðarreglur og við undurgöngumst samkomulag um að fara að þeim reglum. Svo getum við reglulega skipt út löggjafanum. Þá höfum við framkvæmdavald sem sér um reksturinn. Þetta hefur virkað bærilega þó mjög megi auðvitað bæta systemið.

Mörgum finnst framkvæmdavaldið raunar fá að valsa hér um tiltölulega eftirlitslaust. Ekki mikið verið að fetta fingur eða tuða. Víða í kringum okkur eru allskyns nefndir og ráð sem hafa eftirlit með bæði löggjafanum og framkvæmdavaldi. Því var ákveðið að sýna lit í þessum efnum og stofnað var embætti umboðsmanns alþingis. Frábær hugmynd og þangað geta háir og eitthvað minna háir skotið málum.

Ekki verður séð að sá aðili sem sinnir þessu starfi sé eða eigi að vera einhverjum háður. Ekkert sérstakt sem bendir til neins annars en að viðkomandi hafi neina aðra hagsmuni að leiðarljósi en að standa sína plikt.

Nú bregður svo við að einn fulltrúi framkvæmdavaldsins, Árni fjármálaráðherra, þarf að standa reikningsskil gerða sinna gangvart þessu embætti. það gerir hann með eftirtektarverði ólund. það er í besta falli óþolandi ef ekki hreinlega siðlaust.

Árni lætur það fara í taugarnar á sér að spurningarnar liggja allar að því að eitthvað misjafnt kunni að hafa átt sér stað í hans embættisfærslu. Liggur það ekki í eðli málsins að umboðsmaður telur að eitthvað orki tvímælis þegar hann ákveður að taka mál til umfjöllunar?

Ég hirði ekki um það hér að hafa skoðun á röksemdafærslu Árna en er óánægður með hvernig hann talar embættið niður sér til hagsbóta. Stjórnmálamenn sem láta eftirlit með verkum sínum fara í taugarnar á sér með þessum hætti hljóta að skoða það alvarlega hvort þeir séu ekki á rangri hillu. Lýðræðið má aldrei fara í taugarnar á fólki.

Ekki er hægt að þola að menn vegi að stofunum eins og hér gert þegar þær eru einungis að sinna hlutverki sínu. Þetta er reyndar þekkt aðferð. Feðgarnir Jón Ásgeir og Jóhannes hafa að jafnaði beitt þessu. Jón Ásgeir sagðist ekki treysta hæstarétti til þess að komast að eðlilegri niðurstöðu á sínum tíma.

Ætli þetta virki?

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 27.3.2008 - 10:10 - 1 ummæli

Ekki eru öll vísindin eins.

Heyrði fyrir skemmtilega tilviljun rismikið viðtal á rás 2 við mann sem ég held að heiti Serafím. Alíslenskur maður sem tók sér þetta nafn erlendis. Þessi aðili gerir sig úr fyrir að hafa sérþekkingu á yoga og tantra með áherslu á kynlíf. Sérþekking þessi öll ættuð frá Asíu með viðkomu í Rúmensku rétttrúnaðarkirkjunni.

Hann vill kenna okkur strákunum að fá fullnægingu án sáðláts, aftur og aftur. Upplýsti um könnun sem sýnir að meðalmaðurinn endist að jafnaði í 10 mínútur og snýr sér að því búnu á hliðina og og sofnar þá með hrotum eins og hann orðaði þetta sjálfur. Ekki er það gott og ég get að sjálfsögðu ekki sagst kannast við þessa frásögn.

Það er ekki bara af þessum orsökum sem maðurinn vill kenna okkur að fá ekki sáðlát við fullnægingu, ó nei. það sem hér skiptir miklu er orkutapið sem við verðum fyrir við sáðlátið. Það finnast mér sérlega hagnýt vísindi.

Hér er kannski komin skýring á því maður eigrar um þreyttur og lúinn dögum saman. Ég get játað það hér að ég hef ekki leitt hugann að þessu máli og látið eftir mér allskyns orkufreka hegðun í þessum efnum. Er fremur einfaldur maður en hélt að sáðlátið væri oftar en ekki heldur ánægjulegur lokahnykkur í þessum samskiptum.

En þar sem ég er meðvitaður maður og vill fylgjast með helstu nýjungum og framförum á sem flestum sviðum verð ég auðvitað að kynna mér þetta í þaula nú á tímum þar sem orkusparnaður er stóra málið. Enda vill ég ekki sitja eftir þegar meðbræður mínir verða búnir að afleggja sáðlátið og ég í gamla farinu.

Ókeypis mun á þetta námskeið.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 25.3.2008 - 15:12 - 1 ummæli

Bananalýðveldið.

Menn þurfa að vera meira en lítið tilbúnir til þess að leggja neikvætt út hlutunum ef þeir skilja ekki svör eins og að menn kannist ekki við frásögn af áburði sem á þá eru bornir. Hvurslags þvæla er það orðið þegar menn geta í nafnleysi borið á aðra menn sakir og svo neita smjörklipu mennirnir bara að taka mark á svörunum.

Og niðurstaðan eins og Sigurjón Egilsson segir er þá aðeins ein; mennirnir eru sekir. Er Mc Carty enn á lífi? Hvað ætli Stefáni Benediktssyni finnist um svona vinnubrögð? Þurfa menn að verja sig frekar í svona málum spyr ég.

Er ekki hér öllu snúið á haus? Hvers vegna koma þeir sem vita að ritstjórarnir eru að segja ósatt ekki með staðreyndir málsins upp á yfirborðið undir nafni? Hér skiptir alls engu með hverjum menn halda í stríðinu. Það er ekki öllu til fórnandi.

Þetta snýst um grundvallaratriði. Í venjulegri lögfræði þarf ákærandinn að sanna sektina en hér er það öfugt! Hvenær var þessu breytt? það er ekki nóg að halda og ekki einu sinni nóg að vita.

Ef þú teystir þér ekki til þess að koma fram með óyggjandi sannanir þá verða neitanirnar að vera sannleikurinn, ekki ásakanirnar. þannig eru reglurnar.

Hitt er bananalýðveldis.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 25.3.2008 - 09:39 - 1 ummæli

Nafnlaus sannleikur.

Karl Th. Birgisson ritstjóri Herðubreiðar birtist á síðum fréttablaðsins í dag. Fetar þar í fótspor Hallgríms Helgasonar sem herjar nú á Þorstein Pálsson fyrir að vilja ekki játa sig sekan um það sem borið er á hann nafnlaust á síðum Herðubreiðar.

Orðhengilsháttur og evrópumet í útúrsnúngum einkenna pistil Karls. Læt mér þannig séð í léttu rúmi liggja hverju Karl trúir og líklega trúir hver því sem honum hentar í þessu máli enda sannleikurinn ekki fyrirliggjandi.

En ritstjórinn tekur ekki mark á neitun hinna ákærðu og fullyrðir að ferð hans sé farin í nafni sannleikans sem hann hefur óumdeildan frá manni sem hefur klárlega hag af því að sagan líti út eins og hann segir.

Fæ alltaf léttan hroll þegar menn segjast kyndilberar sannleikans og sannleikans eina. þá þarf ekki sannanir til. Þar duga ásakanirnar einar, nafnlausar. Látum þessa andskota neita og látum þá neita meira þegar okkur sýnist neitunin ekki afgerandi.

Hvar endar svona?

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 24.3.2008 - 16:50 - 6 ummæli

Agalegir dómarar.

Í gær fór fram stórleikur í enska boltanum. Mikið undir og tilfinningar stórar. þar gerðist það að dómaranum varð það á að reka leikmann af velli undir lok fyrri hálfleiks. Eða mætti kannski segja að leikmanninum hafi orðið á sú reginskyssa að láta reka sig útaf?

Umfjöllun um þetta atvik hér á landi er öll á einn veg. Dómarinn eyðilagði leikinn enda húmorslaus og ekki með neina tilfinningu fyrir leiknum, líklega almennt. Gott ef ekki heimskur og hörundsár ofan í kaupið. En er ekki eitthvað meira inn í þessari mynd?

Hvað er það í okkar þjóðfélagsgerð sem fær okkur til að hafa megnustu ímugust á aga og öllum þeim sem þurfa að halda honum uppi? Er til að mynda eitthvað sérstakt sem bendir til þess að þessi tiltekni dómari hafi haldið með öðru liðinu og beinlínis langað til þess að gera þetta?

Getur verið að leikmaðurinn hafi verið búinn að ganga þvert gegn því sem dómarinn var búinn að biðja hann um? Mótmælti þessi maður ekki nánast öllu sem hann mögulega komst yfir í þessum leik? Er það sérstaklega fagmannlegt hjá honum?

Umfjöllun um starf dómara er oftar en ekki byggð á fullkominni vanþekkingu. Þeir sem að leiknum koma, þjálfarar, leikmenn, stjórnarmenn og áhorfendur vilja að dómarar haldi upp röð og reglu, aga. Þeir skulu vera sanngjarnir og réttsýnir og ekki gera mistök. Og þeir skulu ekki vera hræddir við stórar ákvarðanir, þó sérstaklega þegar þær ákvarðanir snerta hitt liðið. Enginn vill dómara sem ekki þorir.

Þeir skulu vera harðir á sínu og ekki bogna undan pressunni sem fylgir oft. Þetta gengur auðvitað misvel hjá mönnum og jafnvel þeir sem njóta mestrar virðingar geta lennt í slæmum dögum. Skárra væri það nú.

Hvernig komast dómarar í þá stöðu að njóta virðingar og geta haldið upp röð og reglu jafnvel í mjög erfiðum leikjum? Væntanlega ekki með því að láta vaða yfir sig. Þeir dómarar sem lengst ná eru þekktir fyrir það að láta menn ekki komast upp með að fara ekki eftir því sem þeir eru beðnir um. Trúi menn því ekki að aðvörunum verði fylgt eftir þá missa þær gildi sitt. Legg til að þeir sem áhuga hafa á þessu lesi sér til um Collina þann fræga ítalska dómara sem komst glæsilega á toppinn. Það gerði hann ekki með því að láta menn komast upp hvað sem er.

Hér á landi er viðkvæðið oft að dómarinn sé að missa tökin á sjálfum sér og leiknum ef hann þarf að beita agaviðurlögum í leikjum. Þetta þekkist líka í skólum þar sem kennarinn verður oft vandamálið þegar hann vill fá nemendur til að gangast undir aga.

Enginn vafi er í mínum huga að þjálfari Liverpool mun lesa sínum manni pistilinn fyrir það að hafa látið reka sig útaf og með því farið illa með möguleika liðsins til sigurs. Reglan hlýtur að vera þessi;

Engu máli skiptir hversu mikið þér þykir viðkomandi dómari vera að gera í buxurnar og hve litla virðingu þú berð fyrir persónunni, þér ber að bera virðingu fyrir hans starfi. Og þeim fyrirmælum sem hann kann að leggja fyrir er varða agahegðun á velli. Allt annað en það er ófagmannlegt.

Dómarar gera mistök og þeim mun alltaf verða mótmælt. Ekkert er að því upp að því marki sem talið er eðlilegt. Geti leikmaður ekki fengið sig til þess að fara eftir þeim reglum sem settar eru verður hann í það minnsta að axla hluta ábyrgðarinnar.

Ekki verður séð af umfjöllun hérlendis að sá skilningur sé fyrir hendi.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 24.3.2008 - 11:21 - Rita ummæli

Heilagar skyldur Hallgríms.

Hallgrímur Helgason er merkilegur fýr. Hann skrifar stórmerka grein í fréttablaðið í sl laugardag. Allt vegna þess að einhverjum datt í hug að kasta því fram að Styrmir moggaritstjóri hafi vitað af húsleit hjá baugi forðum, daginn áður en hún átti sér stað. Þorsteinn Pálsson og Kristinn Björnsson eru hinir aðalleikararnir í kjaftasögunni.

Hallgrímur hefur margsýnt okkur það að hann trúir helst því sem hann heyrir sjálfan sig segja ef hann bara segir það nógu oft. Hér gerist það enn og aftur. Þrátt fyrir að söguhetjurnar allar kannist ekki við áburðinn ákveður Hallgrímur að það dugi ekki. Hann einfaldlega veit betur. kannski óþarfi að nefna það að þessi söguskýring er nafnlaus.

Hann auðvitað ræður því hvort hann leggur trúnað á svörin sem hann fær. Það er eins með alla menn. En þeir sem vilja láta taka sig alvarlega geta ekki eytt ævinni í að elta ólar við allar kjaftasögur sem þeim þykir henta þeirra eigin sannfæringu.

Hann talar um heilaga skyldu sína sem rithöfundar að benda í misnotkun valds! Hafa skáld og rithöfundar ríkari skyldur í þessum efnum en aðrir menn? Hann velur að trúa því sem Jón Ásgeir segir um samtöl sín við Jón Gerald. Hann velur að trúa kjaftasögunni nafnlausu frekar en framburði þeirra sem þar voru til umfjöllunar. Allt í góðu með það en þetta hefur bara ekkert vægi. Enginn veit hvað er rétt og hvað ekki en samt fer Hallgrímur enn einu sinni fram og reynir að blása lífi í kjaftasögur sem snúast um æru manna og engin leið er að afsanna enda krefur hann menn um staðfestingu.

Þessi aðferð er löngu þekkt. Látum þá neita því aðferðin. Ég held að þetta sé ekki meðvitað hjá Hallgrími heldur virðist hann algerlega trúa því sem hann vill trúa og lætur ekki ómerkilega hluti eins og sönnunarbyrði trufla sig. Hann taldi það varða þjóðaröryggi að segja okkur hvað Davíð sagði við hann undir fjögur augu. Og upp frá þeim fundi hefur hann verið með Davíð á heilanum og lækning ekki í sjónmáli.

Þeir eru svipaðir hvað þetta varðar Hannes Hólmsteinn og Hallgrímur þó á sitthvorum endanum á kvarðanum. Annar telur Davíð upphaf og endi alls lífs en fullyrðir að maðurinn sé glæpamaður. Báðir eru þessir menn orðnir þreytandi fyrir löngu.

Það eru menn eins og Hallgrímur sem eru smátt og smátt að koma hér upp svipuðum pólitískum móral og hann getur orðið skítugastur í Ameríku. Þessar endalausu tilraunir hans til að klína á menn sem honum er illa við snúast hreint ekkert um heilagar skyldur hans heldur pólitík.

Hitt er svo annað að fjölmiðlamenn komast á snoðir um ýmislegt sem þeir eiga ekki að vita án þess að Davíð Oddsson komi þar við sögu. Jafnvel mætti segja að það gerist daglega. Ég sjálfur get vel trúað því að stundum geti það gerst fyrir tilstuðlan misvandaðra stjórnmálamanna sem sjá sér ýmsan hag af því.

En ég læt þar við sitja þangað til ég veit eitthvað meira en ég eg held. það ætti Hallgrímur líka að gera því fátt er ógeðfelldara en að klína á menn einhverju sem þeir ekki geta af sér svarið. það er gullvæg regla ef ekki hreinlega heilög.

Flottar kjaftasögur geta aldrei komið í staðinn fyrir sannleikann alveg sama hversu oft kjaftasagan er sögð.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 19.3.2008 - 11:30 - Rita ummæli

Stólaverð.

Ég er einn af þeim sem stunda verslun og viðskpti. Hef líklega fremur frumstæðar skoðanir á svoleiðis. Reyni eftir fremsta megni að fylgja þeim reglum sem um slíka starfsemi hafa verið settar. Og svo líka óskráðum reglum líka. Er að velta því fyrir mér hvaða reglur gilda um verslun með matvæli.

Hver fann upp hluti eins og hilluverð og kassaverð? Get ég komist upp með það hér á minni rakarastofu að hafa stólaverð og kassaverð? Hvernig getur verið löglegt að rukka fólk um annað en uppsett verð? Og hitt.

Af hverju er ekki bannað að breyta verðum innan hvers dags. Ég hélt í barnaskap mínum að ein af grundvallareglum í viðskiptum væri sú að fólk hefði upplýsingar um verðin sem um væri að ræða. Verðin breytast ótt og títt innan hvers dags. Verðið á kexinu sem ég setti í körfuna getur hæglega breyst á leiðinni að kassanum! Það þjónar ekki hagsmunum neytandans.

Verðlagseftirlit verslananna er merkilegt fyrirbrigði. Frá mínum bæjardyrum séð er það ekki síður nothæft til þess að hækka verð en lækka. Algerlega augljóst að það er notað í þá áttina ekki síður en hina.

Gerum skurk í því að koma verslun með matvæli hér í eðlilegt horf út frá sjónarmiðum neytenda. Bönnum verðbreytingar innan dags. Það hlýtur að vera skýlaus krafa okkar að við vitum á hvaða verðum við erum að versla.

Í dag höfum við ekki grænan grun. Það þjónar ekki neinum góðum hagsmunum. Og getur ekki samrýmst eðlilegum viðskiptaháttum. Það vitum við öll enda látum við ekki bjóða okkur upp á stólaverð og kassaverð.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur