Fimmtudagur 7.2.2008 - 23:09 - Rita ummæli

Kúnninn borgar sektina.

Þá hefur hæstiréttur komist að því olíufélögunum beri að greiða skaðabætur vegna samráðs. 70 milljónir eða svo. Er það ekki bara gott myndu flestir segja. Ég veit það ekki.

Olíufélögin hafa áður greitt háar sektir vegna sama brots. Ég hef efasemdir um þá ákvörðun. Hvaða tilgangi þjónar það að leggja févíti á þessi fyrirtæki? Hvert halda menn að félögin sæki féð? Nú til viðskiptavina sinna auðvitað, hvert annað. Niðurstaðan er þá sú að kúnnarnir eru látnir borga fyrir svindl forstjóranna.

Virkar undarlega á mig. Hvaða réttlæti er í því að refsa kennitölunni og því fólki sem nú vinnur hjá olíufélögunum? Hefur þetta einhver fælingaráhrif. Kristinn Björnsson og félagar hafa án efa nákvæmlega engar áhyggjur af þessu.

Hér þarf að breyta löggjöfinni svo hægt sé að refsa þeim mönnum sem taka ákvarðanir um að hafa rangt við. Þá kannski hugsa menn sig um tvisvar. Mér vitanlega hafa þeir sem reka olíufélögin í dag ekki gert neitt af sér. Og ekki viðskiptavinir þeirra heldur.

Samt þurfum við að borga.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 7.2.2008 - 11:07 - 3 ummæli

Græðgi og ónýtir stjórnmálamenn.

Flott frétt hjá Helga Sejan í kastljósi gærdagsins um REI ruglið. Var næstum búinn að skrifa skemmtileg uppryfjun en þetta er auðvitað ekki skemmtilegt. Sorglegt kemst nærri því.

Stjórnmálamenn gera skýrslu um sjálfa sig og komast að þeirri niðurstöðu að vondir kaupsýslumenn hafi í raun platað allt og alla. Enginn hafi gætt hagsmuna OR í málinu. Hagsmuna borgarbúa, skattgreiðendanna, kjósendanna.

Til þess að þessi tilgáta geti gengið upp þarf tvennt. Gráðuga og víðáttu óheiðarlega businessmenn. Og svo hitt. Handónýta stjórnmálamenn.

Í þessu tilfelli voru bæði þessi skilyrði uppfyllt rækilega.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 6.2.2008 - 15:01 - 8 ummæli

Myndbirtingar.

DV hælir sér af því í dag að hafa gómað barnaníðing. Ekki fjarri lagi að myndbirting þeirra hafi hjálpað til, í þessu tilfelli. Og þess vegna eru myndbirting alltaf í lagi er það ekki?

Ég efast stórlega um það. Almennt er ég á móti því að ritstjórar nýti sér upplýsingar sem þeir kunna að hafa um glæpamenn með því að birta myndir af þeim í stað þess að koma upplýsingunum til yfirvalda. Besta leiðin til þess að stöðva slíka aðila er að yfirvöld grípi inní.

Þarf ekki að hugsa um þau skipti sem myndir birtast af fólki sem haft er fyrir rangri sök? það gerist og skaðinn af því oft óbætanlegur. Man eftir nafntoguðum manni sem var á forsíðu þessa blaðs sagður raðnauðgari og flennistór mynd og nafn blasti við hverjum sem er.

Í því tilfelli hafði nafnlaus aðili sakað viðkomandi um þetta á spjallsíðu. Það dugði ritstjóranum þá. Ég er líka á móti dauðarefsingum. Mannorðsmorð eru mér einnig á móti skapi. Dómstólar og lögregla eiga að sjá um að handtaka menn og dæma.

Ég veit að svona forsíður selja blöð. En þetta er vandmeðfarið í meira lagi og skaðinn of mikill þegar ritstjórinn hefur ekki réttar upplýsingar eða nægar. Hvort menn vilja svo birta myndir af dæmdum mönnum er svo önnur umræða.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 5.2.2008 - 14:16 - 1 ummæli

Sjónvarp Árni Johnsen.

Árni Johnsen er frá mínum bæjardyrum séð bjáni. Í besta falli. Duglegur bjáni en siðblindur. Kann þó galdurinn við að koma sér í mjúkinn hjá fólki fyrir austan fjall og kemst þannig á þing, ítrekað. Sá kjósendahópur hefur séð okkur fyrir hverjum furðufuglinum á fætur öðrum. Nefni engin nöfn.

það er bara i einu sem mér finnst hann góður. Hann hefur skrifar margar fallegustu minningargreinar sem ég hef lesið. Skrifar mun betur en hann talar enda þá meira svigrúm til þess að hugsa áður en ýtt er á enter. Hann veit ekkert hvar enter takkinn er fyrir talandann.

Hann er varla fyrsti stjórnmálamaðurinn sem lætur alvitra fjölmiðlamenn og álitsgjafa fara í taugarnar á sér. Pólitísk hlutdrægni er hér landlæg í fjölmiðlum. Sumir sjá hana reyndar bara hjá mogganum sem er stórfurðulegt.

En hann er líklega fyrsti maðurinn sem þorir að hafa þessa fáránlegu afstöðu opinbera. Hugsunin allt að því barnaleg. Hreinlega út í hött. Rétthugsun og ritskoðun renna þarna saman í eitt. Held að hann fatti það ekki.

Hann er merkileg samsuða þessi maður. Verkamaður duglegur eins og allir vita. Ætti auðvitað ekki undir neinum kringumstæðum að vinna með hluti sem hann á ekki sjálfur því hann fer alltaf að líta á alla hluti sem hann vinnur með sem sína eigin. Þetta held ég að eigi við um skratti marga sem vinna lengi hjá ríkinu.

Hann er hörmungarlygari, við sáum það öll. Bara getur það ekki. það ætti að vera kostur þannig séð. Engin þörf á gæsluvarðhaldi þar. Þess vegna hefur hann tamið sér það, líklega að góða manna ráði, að tala sem minnst í þinginu. Hann tók þetta meira að segja miklu lengra því hann er nánast ekki þar. Þá er skaðinn minni.

Hann hefur þá eiginleika að jafnvel þegar hann vill koma með sáraeinfaldar athugasemdir þá gerir hann ríflega í buxurnar og allt fer í handaskolum. Stundum er sagt að kjósendur séu ekki fífl. Hvernig geta menn þá skýrt kjörþokka þessa manns?

Hugsunin um að kjósa menn frekar en lista verður alltaf svo freistandi þegar ég hugsa um Árna.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 4.2.2008 - 23:42 - Rita ummæli

Kjaraviðræður.

Kristján verkalýðsleiðtogi af suðurnesjum var í viðtali í fréttum í kvöld, einhversstaðar. Hann er í fararbroddi í samningaviðræðunum sem nú standa yfir. Þær fara furðuhljótt. Enginn slagkraftur. Menn skella ekki einu sinni hurðum. Öðruvísi mér áður brá.

Hann er orðinn þreyttur á snakki um hluti sem hann segir ekki koma málinu við. Pælingar um gjaldmiðil og vexti og húsnæðisvanda og hvað þetta heitir allt saman. Þetta finnast honum vera aukaatriði og nú vill minn maður tala um beinharða peninga. Eitthvað sem fólk skilur. Þarna talar hann líklega fyrir munn margra.

Kannski er vinnuveitendum að takast að þreyta menn til samninga með röfli um hluti sem menn hvorki skilja né nenna að tala um. Það er langt síðan kjaraþras snérist eingöngu um krónur á launaseðli. Ég er ekki viss um að hægt sé að stytta sér leið þó þreytandi sé að standa í þessu.

Viðsemjandi Kristjáns er kannski heppinn með tímasetningar og ástand í þjóðmálum núna. Allt ískalt og neikvæðni í lofti. Þá er eins og allt loft fari úr fólki. Það er hugsanlega til marks um það hversu allir eru orðnir meðvitaðir. Kannski eru hlutir eins og vaxtahækkanir og verðbólga farin að hræða. Nú bara ætlar ekkert að verða úr neinum slag. Menn meira og minna allir á sömu blaðsíðunni. Ekki alveg á sama stað á blaðsíðunni en …

Kannski lognið á undan storminum.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 4.2.2008 - 12:25 - Rita ummæli

Aðförin að Ólafi.

Ég er sennilega með sömu þráhyggjuna varðandi umræðuna um Ólaf F og Egill Helgason, í öfuga átt við hann þó. Ég veit ekki með hvaða augum menn lesa blöð og fylgjast með fjölmiðlum. En það er nánast frábært að halda því fram að fjölmiðlamenn hafi ekki haldið því að fólki að Ólafur hafi ekki aðeins verið veikur, heldur allt að því geðveikur og óhæfur af þeim sökum.

þó er ég viss um að fólk almennt er ekki tilbúið að kalla taugaáfall vegna missis geðveiki þó meðöndlun vegna þess fari af praktískum ástæðum fram á geðdeildum. DV heldur áfram að reyna að klína á hann með því að tuða um meinta flughræðslu hans. Hvurslags er það? Er kannski von á úttekt á flughræðslu helstu stórlaxa í opinberri stjórnsýslu?

Hitt er rétt hjá Agli að fáir hafa haft nennu í sér til þess að fjalla um pólitík Ólafs. Helst að einhverjir hafi þá skoðun á því að maður með lítið fylgi sé borgarstjóri. Því er svo ekki fylgt eftir með neinum haldbærum rökum. Í mínum huga mælir fleira með því en færra að áhrif minni aðilans í svona samstarfi séu tryggð með þeim hætti en ekki. Málefni hafa helst ekki borið á góma enda voru þau ekki á dagskrá síðasta meirihluta.

Jú reyndar hafa sumir talað um að hann hafi fengið öllu sínu framgegnt gangvart sjálfstæðisflokknum en á sama tíma hafa þessar raddir ekki talið neina ástæðu til þess fyrir hann að skipta um pólitíska samstarfsmenn. Svona skipta málefnin miklu máli þegar menn vilja vera málefnalegir í tali.

Þarf ekki að taka það fram að ég gæti aldrei látið mér detta í hug að kjósa Ólaf. Þá skoðun hef ég haft allan tímann og aldrei látið mér detta í hug að skrifa um heilsufar hans hvorki þegar hann var talinn nýtilegur fyrri meirihluta né nú.

Mér sýnist tvær grímur vera að renna á æ fleiri. Það er ekki öllu fórnandi fyrir stjórnmál.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 4.2.2008 - 09:45 - Rita ummæli

Kuldakast hjá Eiði Smára.

Þá er Eiður Smári dottinn aftar á merina en undanfarið. Góður dagur í hans fótboltalífi þýða 10 leikmínútur. Ef hann fær þá að klæða sig. Og það þrátt fyrir að stórstjörnur sú fjarverandi við skyldustörf í Afríku.

Mín kenning er að Barcelona hafi ákveðið að reyna að stilla honum út í janúar gluggann og því notað hann óhóflega mikið frá miðjum desember og út janúar. Hafa hann til sýnis ef ské kynni að einhverjum dytti í hug að bjóða í gripinn.

Hann sýndi að mínu mati akkúrat ekkert á þessum tíma sem gerir hann að eftirsóknarverðri söluvöru. Reyndar tárast fréttamenn hér yfir hverri sendingu sem hann á en betur má ef duga skal.

Hann getur þetta allt saman. En bara gerir það ekki.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 3.2.2008 - 17:23 - Rita ummæli

Flottur Björn.

Ég fæ sennilega að heyra það að ekki sé mark takandi á því að mér þotti Björn Bjarnason jaðra við að vera glerfínn í silfrinu í dag. Skítt með það, kallinn var fínn.

Lét sér hvergi bregða og svaraði því sem hann var spurður að, að mestu. Var nánast í stuði og með sitt á hreinu. Egill hefur áður sýnt það að hann hefur eitthvert lag á kallinum.

Leiðrétti allskonar þvælu sem krampakenndir andstæðingar hans hafa haft um hin ýmsu mál er snúa að lögreglu og öryggismálum. Talaði um mál sem allir vita að eru erfið í samskiptum flokkanna sem skipa ríkisstjórnina af skynsemi og yfirvegun. Var kannski helst að hann tafsaði þegar rætt var um skipan Þorsteins Davíðssonar. Eðlilega.

Einn af hans betri dögum. Virkar yfirleitt skraufþurr en ekki þarna.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 2.2.2008 - 18:46 - 5 ummæli

Óli Tynes.

Ég hef nú undanfarið velt því fyrir mér fyrir hvað 365 borgar Óla Tynes laun. Hvað gerir hann eiginlega? Jú hann dundar sér við lestur frétta á bylgjunni á klukkutíma fresti endrum og eins. Slappari og daufari lestur er hvergi annarsstaðar hægt að heyra.

Hann er kannski skemmtilegur á vinnustað. Kannski snilldarfréttir eins og ekki fréttin um þingflokksformann sjálfstæðisflokksins sé ástæða fyrir því að hann er fréttamaður en ekki eitthvað allt annað. Hann las hana í kvöld eins og hann væri að lesa ævintýri fyrir börn á leikskóla.

Getur verið gott að hafa svona mann þegar snarvantar að fylla fréttatímann. Klassískt atriði. Svona spaugstofu atriði eiginlega. Snilld. Samt sorglegt eitthvað….

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 31.1.2008 - 22:17 - 2 ummæli

Hvað eru eðlileg laun?

Það væri synd að segja að forstjórar Glitnis væru vanhaldnir í launum og bónusum. Græðgi og spilling kemur upp í hugann. En ég veit ekki við hvern er að sakast beinlínis. Er einhver að svindla?

VG mun halda því fram að þetta sé afleiðing einkavæðingar bankanna. Þar á bæ er söknuður eftir ríkisreknu spillingunni sár. Hún þótti betri. Einkavæðing bankanna var nauðsyn þó mér finnist þeim ganga hægt að verða fullorðnir.

Varla ákveða þessir menn kjör sín sjálfir. Og ekki veit ég akkúrat við hvað á að miða. Sjötugföld laun verkamanna eða kannski hundraðföld. Þekki það ekki. Sumir munu alltaf bera meira úr býtum en aðrir. Þannig á það að vera.

Hvar mörkin eiga að vera hlýtur alltaf að vera umdeilt. Þessi kjör verða það pottþétt. Það er ekki þar með sagt að þau séu óeðlileg. Ég þekki engan sem ekki vill meira óháð því hvað aðrir fá.

Sama fólkið og fagnar því að Eiður Smári fái margar milljónir á viku fyrir það að spila fótbolta skilur ekki af hverju Kári Stefánsson fær talsvert færri milljónir útborgaðar og er hann þó með margt hálauna fólk í vinnu. Gildin eru stundum skrýtin.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur