Miðvikudagur 16.6.2021 - 11:27 - FB ummæli ()

Gamli Hong Kong komplexinn í henni Reykjavík

Áætlanir Reykjavíkurborgar og ríkis nú, mörgum árum eftir upphaflega áætlun vegna þéttingu miðbæjarins, eru niðurgrafnar stofnbrautir meðal annars Miklubrautina og Sæbrautina í stokk og sem hluti Borgarlínuhugmynda og inngangi fyrirhugaðrar Sundabrautar inn í borgina. Allt svo sem skiljanlegar ástæður ef höfuðborgarsvæðið væri aðþrengt að uppbyggingarmöguleikum í úthverfum borgarinnar og nágrennis. Atburðarrás sl. áratug sem enn einu sinnu á að kynna á borgarafundi í dag, en sem minnir óneytanlega á borgaskipulög í aðþrengdum miðborgum stærstu milljónaborga heims og þar sem eini möguleikinn er þá að byggja á hæðina eða neðanjarðar til að anna eftirspurn eftir bygginga- eða samgöngumannvirkjalóðum og fyrirséðum samgöngutakmörkunum annars fyrir atvinnulífið. Í heimsborgum sem jafnframt glíma við mikla mengun, stórslysahættu í samgöngum og hættu á jafnvel kerfishruni mikilvægustu stjórnsýslustofnana. Eins til að bæta aðgengi ferðamanna til að sjá með eigin augum heimsborgarmenninguna og njóta veitingastaða og miðnæturlífs, sem reyndar Reykjavík er hvað frægust fyrir og telst oft ansi villt.
Íbúafjöldi Reykjavíkur aðeins um 200 þúsund hræður í strjálbýlu landi og þar sem íbúafjöldinn í heild nær rétt tæplega 400 þúsund. Íbúafjöldi í næstu nágrannasveitafélögum með feikimiklu byggingarlandi sem dugað getur til langrar framtíðar framtíðakynslóða, nálgast hins vegar um 100 þúsund. Byggingaþróunin jafnvel mest austan við fjall, á Suðurnesjunum, í Mosfellsbæ og á Akranesi.
Það er því í sjálfu sér óskiljanleg stefna borgaryfirvalda höfuðborgarinnar að einseta sér mestu atvinnuppbygginguna einmitt þar sem þrengslin eru mest fyrir og samgöngutakmarkanir eru mestar. Í gamla miðbænum og þar sem íbúafjöldinn er þegar orðinn hvað minnstur í borginni í stað þess að deila með öðrum úthverfum og janfvel nágrannasamfélögunum þegar það á við.
Þar skal meðal annars rísa nýtt þjóðarsjúkrahús gegn meirihlutavilja þjóðarinnar. Framkvæmt vel upp á annað hundrað milljarða króna á aðþrengdri Hringbrautarlóð og þar sem samgöngur til eru þegar mjög heftar að öllu leiti, nema fyrir gangandi eða á hjólum og eins og reyndar áætlanir stjórnenda spítalans gera ráð fyrir, fyrir meginþorra starfsmanna. Hótelbyggingar hafa einnig risið eins og risasveppir milli gamalla bygginga og sem þykir nauðsynlegt fyrir stemminguna og til að Reykjavíkurborg geti haldið sem fastast um túristanna og grætt sem mest á þeim. Miðnæturlífið þarf að ná enn nýjum hæðum.
Þjónusta við íbúanna sjálfa og heilbrigðisöryggi virðist skipta hér minna máli. Þjónusta almennings við helstu stofnanir og atvinnutækifærin skal helst sækja í miðborgina og aðeins þar á menningin að fá bestu möguleikana til að blómstra.
Öll samgöngumannvirkin og jafnvel áætlaður kostaður við að flytja flugvöllinn burt úr Vatnsmýrinni, hleypur á þúsundum milljarða króna. Kostnaður við bara framkvæmdir þjóðarspítalans verður helmingi dýrari en hann hefði þurft að vera ef byggt hefði verið á hagkvæmasta stað innan borgarmarkanna á Keldnalandinu. Auk þess að endast miklu lengur með tilliti til stækkunarmöguleika og heilsuvænlegra- og jafnvel græðandi umhverfis fyrir sjúklinga og starfsfólk. Eins miklu betra aðgengis fyrir allt stórhöfuðborgarsvæðið og öruggari aðkomu t.d. fyrir sjúkraþyrluflug af landsbyggðinni og miðunum kringum landið. Maður hlýtur að spyrja sig um forsendubrestina og afleiddan kostnað misráðins skipulags í borginni.
Nei, þetta skipulag í heild sinni er algjörlega óskiljanlegt, nema í samhengi við græðgivæðingu borgaryfirvalda til einnar nætur og sem þjóðin öll þarf að gjalda fyrir, með einum eða öðrum hætti. Af landi eigum við auðvitað nóg og eins af vistvænni orku til samgangna, hvort heldur með almenningssamgöngum eða með einkabílnum. Allar vegasamgöngur þarf að bæta á landinu öllu. Við Íslendingar viljum fá að njóta þess besta sem landið hefur upp á að bjóða. Ekki að vera nauðbeygð nú að sækja alla mikilvæga þjónustu og atvinnutækifærin en meira en orðið er í gömlu miðborgina í henni Reykjavík. Fallegu gömul miðborgina sem nú er verið að eyðileggja og kæfa með gríðarlegri uppbyggingu í allt of miklum þrengslum. Og síðan nú neðanjarðar eins verið er að kynna á opnum borgarafundi í dag með rándýrum samgöngumannvirkjagöngum sem aðeins velstæðustu milljónaborgir erlendis neyðast til að kosta vegna mannmergðar og landaskorts.
Það má vel vera að Kínverjar séu þarna í fararbroddi í byggingalistinni og arkitektúr, en þar sem allskonar mengun og heilsuspillandi umhverfi í miðborgunum mælist hvergi meiri og hættulegri. Og má þetta kosta hvað sem er og þegar önnur kerfi eins og heilbrigðis- og menntakerfin virðast þegar komin yfir þolmörk vegna fjárskorts frá því opinbera?

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 8.6.2021 - 12:46 - FB ummæli ()

Safndeild vandamála heilbrigðiskerfisins á höfuðborgarsvæðinu eða bráðamóttaka LSH?

mynd frá mbl.is

Ekki spurning, mikil krísa er í uppsiglingu í sumar á Slysa- og bráðamóttöku LSH og sem mikið hefur verið mikið í fréttum að undanförnu og þar sem vaktalínum sérfræðinga hefur nú fækkað úr 8 í 5. Fimm sérfræðilæknar eru hættir störfum frá áramótum eða um þriðjungur! Það vantar auk þess að mann yfir 400 vaktir hjúkrunarfræðinga í sumar.

Forgangur verður auðvitað áfram á bráðveika og óstabíla sjúklinga, sem jafnvel eru við dauðans dyr. En í stað tveggja sérfræðinga á neðri hæðinni verður nú aðeins einn til staðar á daginn og á kvöldin og þar sem sjúklingafjöldinn sem hann getur þurft að sinna á hverri vakt er um 50, auk sjúklinga sem liggja á göngum og bíða innlagnar á öðrum sérhæfðum deildum spítalans. Um mikilvægi sérmenntaðs bráðalæknis í fyrstu aðkomu að alvarlega veikum eða slösuðum þarf auðvitað ekkert að fjölyrða.
Hvert er annað hlutverk BMT LSH í dag en að bjarga mannslífum?
Vinna þarf þegar í stað að endurskilgreiningu á verksviði efri hæðarinnar, svokallaðrar göngudeildar G3 sem er hluti bráðadeildarinnar og margir koma líka illa haldnir með sjúkrabílum. Sjúklingafjöldi þar stundum líka yfir hundrað á hverjum sólarhring. Vandamál sem eru lítil og stór, bland í poka frá A-Ö. Allskonar áverkar eftir slys og líkamsárásir, bráð veikindi, lungnablóðtappar, blóðeitranir, alvarlegar sýkingar, hrörnunarsjúkdómar, liðsjúkdómar og heilsufarsvandamál tengt fíkni- og geðsjúkdómum svo dæmi séu nefnd. Frá nokkra vikna aldri til lífsloka gamalmenna. Sumum sem hægt væri undir “eðlilegum aðstæðum” að sinna hjá heilsugæslunni til að byrja með, en sem er til að mynda lokuð öllum aðgangi þriðjung sólarhringsins á höfuðborgarsvæðinu og nágrenni og landbyggðin gjarnan sinnir!!
Á sumrin snarfjölgar síðan slysum hverskonar tengt útivist og ferðalögum. Fjöldi erlendra ferðamanna leitar á deildina eftir þjónustu. Faraldur hjóla- og rafhlaupahjólaslysa er staðreynd og sem nálgast tuginn á hverjum sólarhring. Hópslys og rútuslys eru handan við hornið.
Bráð veikindi og áverkar eftir slys sem bráðalæknar sinna án aðkomu annarra sérgreinalækna þurfa eftirfylgd meðferðaraðilanna á BMT. Ekki þýðir að hefja hálfnað verk og sem við sérfræðingar á BMT höfum tekið að okkur, stundum reyndar með ráðgjöf annarra sérgreinalækna eins og t.d bæklunarlækna. Slík aðkoma bráðalækna er eins mjög mikilvæg í kennsluhlutverki deildarinnar gagnvart læknanemum/unglæknum og mönnun síðar á landsbyggðinni sem og kennslu lækna í heimilislækningum. Í sumar hefur nú verið ákveðið að bráðalæknir afleggi niður ráðgerðar endurkomur á deildina (20-30 sjúklinga á dag) og önnur úrræði með eftirfylgd slasaðra sjúklinga í brotameðferð ekki eins vel tryggð.
Grunnurinn, gamla góða slysó – gerum þetta saman.
Ég vil hinsvegar koma hér með smá sögutengt innlegg í umræðuna um starfið okkar og álagið, áður og nú. Fyrir 30 árum var ég ráðinn fyrst sem sérfræðingur á Slysa-og bráðamóttöku Borgarspítalans og þegar Tryggvi Þorsteinsson, bæklunarlæknir lét af störfum vegna aldurs. Á þeim tíma hafði forræði deildarinnar verið á höndum bæklunarlækna en var að breytast í nútíma almenna bráðadeild. Áður höfðu allar deildir hjálpast að á bráðamóttökunni og innlangavandi var óþekktur. Sjúklingar gjarnan lagðir jafnvel beint inn á deild án aðkomu bráðalækna. Allir sjúklingar með bráðan vanda skyldu nú metnir af bráðalæknum á deildinni og bíða þar innlagnar á aðrar deildir. Eins sameiginleg göngudeild annarra deilda fyrir sjúklinga með bráðan vanda eða vegna fylgikvilla meðferða og aðgerða. Í upphafi var meginhlutverk sérfræðings á gólfinu að líta yfir axlirnar á deildar- og aðstoðarlæknum og sinna faglegri ráðgjöf. Fyrst og fremst eftirlit með grunnvinnunni, en sem er nú orðið hlutverk sérfræðingsins sjálfs oft á tíðum.
Kaup og kjör, tengt álagi. Vinna meira , hlaupa hraðar og meiri ábyrgð.
Túlka hefur mátt orð æðstu stjórnenda svo að sérfræðingar á BMT séum “ofhaldnir” af sérkjörum og þá sérstaklega í tengslum við mönnunarvanda á vaktir vegna áunninna staðarvaktafría. Viðbótarálag vegna skyldumætingar á aukavaktir eru ekki í boði.
Sérfræðingur á BMT er almennt með 2 launaflokkum undir föstum launum heilsugæslulækna og sem var á sínum tíma réttlætt sem umbun fyrir undirmönnun í heilsugæslunni og fyrir mikilvægi kennslu læknanema. Hvortveggja er miklu sýnilegra og meiri skylda á BMT LSH og því þetta afar furðuleg staðreynd. Stjórnvöld hafa vitað af þessum mun og sem ég hef rætt við fyrri yfirlækna BMT og við launadeildina, án þess að leiðrétting fengist, enda þetta meðvituð ákvörðun spítalans sjálfs. Launamismunur er þarna upp á nokkra tugir þúsunda á mánuði!
Ég skrifa undir yfir 40-50 læknabréf eftir hverja vakt, meira en helmingi fleiri en ég gæti séð í vinnu á heilsugæslustöð. Ca 7000 -8000 sjúklinga á ári hverju í fullri vinnu. Hver og einn má reikna út líkur á einhverjum mistökum miðað við þann fjölda á ári hverju.
Að lokum
Skrifa þetta til upprifjunar á mínum 40 ára starfsferli ef gagnast getur umræðunni um þróun, álag og framtíðarsýn á starfsemi á BMT LSH. Starf sem í raun byrjaði 1981 á eldgömlu slysó (þar sem CT herbergið er nú) og hefur meira eða minna staðið allt til dagsins í dag. Nú er sennilega nóg komið, ég orðinn 65 ára og þótt ég haldi fullri og góðri heilsu. Starfsánægjan undir venjulegum kringumstæðum reyndar aldrei meiri. Allt vegna þróunar starfseminnar, yfirkeyrslu á álagi og fyrirséðri hættu á alvarlegum læknisfræðilegum mistökum því tengdu. Mest vegna þess að stjórnvöld hafa ekki viljað hlusta eða skilja. Kosið þöggun og afskiptaleysi, í stað ábyrgðar. Yfirflæði sjúklinga sem bíða innlagnar á yfirfullar sjúkradeildir og þar sem hjúkrunarrými sárlega vantar fyrir aldraða. Uppsafnaður vandi stjórnvalda, safndeild nu að hluta alls heilbrigðiskerfisins í stað bráðamóttökuhlutverks og upphaflegar áætlanir voru um. Tækifæri sem nú þá skapast fyrir þá sem kjósa einkarekstur á slysa- og bráðmóttöku víða um bæ, í stað opinbers reksturs og sem flestir hafa hingað til treyst á og sem eru einkunnarorð núverandi heilbrigðisráðherra1
Allt á sinn tíma og betra að kveðja heill og glaður sitt heimaland, en særður og reiður, sem á vígvelli væri, eftir tapaða orrustu! Deild sem ég hef oft skrifað um áður, Háaleitisbrautina mína og kirkju þann daginn sem ég tek vaktina mína. Lengi má samt vona að deildinni farnist betur í framtíðinni með sitt veigamikla hlutverk og gegni áfram einni þýðingamestu kennslu unglækna, ekki síst fyrir heilsugæsluna í landinu.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál

Fimmtudagur 13.5.2021 - 14:13 - FB ummæli ()

Indverska brekkan er eftir

Stærsta spurningin í dag er hversu vel okkur tekst að koma í veg fyrir hópsýkingar og jafnvel óheftan faraldur covid19 með öruggri skimun á landamærunum. Vaxandi fjöldi ferðamanna og takmörkuð geta LSH til PCR prófa er mesta áhyggjuefnið á sama tíma og stefnt er að afléttingu sóttvarnahafta og samkomutakmarkana í samfélaginu. Á sama tíma og ferðalög innanlands verða í hámarki og flestir Íslendingar bíða með óþreyju eftir góðu íslensku sumri.
Eitt mesta áhyggjuefnið á heimsvísu eru ný afbrigði veirunnar og sem í dag er kennt er við Indland. Bæði með tilliti til alvarleika veikinda og aukinnar smiteiginleika. Þegar hafa tvö slík tilfelli greinst á landamærunum sl. daga með PCR prófum og á sama tíma og tilfelli hafa greinst af eldri stofnum, aðallega breska afbrigðinu og sem sloppið hafa gegnum landamæraskimun.
Hætt er við að fleiri tilfelli sleppi í gegn ef tekin verða nú upp hraðpróf/skyndipróf á landamærum og sem ekki eru jafn áreiðanleg og PCR prófin og ef rannsóknastofurnar ná ekki að anna PCR prófum vegna mikils fjölda erlendra ferðamanna (>3000 á dag). Enn meiri áhætta er síðan tekin ef bóluefnin okkar duga ekki gegn nýjustu afbrigðum veirunnar og á sama tíma og meirihluti þjóðarinnar, yngra fólkið hefur ekki enn fengið bólusetningu eða tækifæri að mynda ónæmi gegn undangegnum stofnum og hætt við að margir geti veikist alvarlega.
Auðvitað hjálpar smitrakningin áfram og þar sem smitrakningaforrit getur leikið stórt hlutverk eins og sóttvarnayfirvöld hafa ítrekað. Slíkar aðgerðir geta þó í besta fallið aðeins takmarkað umfang hópsýkinga sem upp koma og sem geta náð til þúsunda. Nú með nýjum áætlunum stjórnvalda um slökun sóttvarnaaðgerða og þegar aðeins um 40% þjóðarinnar hefur verið bólusettur. Svipað og skjóta fyrst, en spyrja svo myndu sumir segja og ef illa fer.
Ekkert hefur heldur verið gert til að styrkja innviði heilbrigðisþjónustunnar sl. ár og sem eru afar veikir víða, ekki síst úti á landi og á BMT LSH. Því má segja að a.m.k. að afar djarft sé teflt af hálfu stjórnvalda í sumar með tilliti til bestu sóttvarna og sem reynslan hefur kennt okkur sl. ár að hafur dugað vel, ásamt góðum slatta af heppni. Fyrirséður stórhættulegur afleikur í endataflinu gætu sumir sagt, í nánast sigraðri stöðu og ef fulls þolgæðis væri gætt. Eins ef stjórnvöld hefðu a.m.k. sinnt skyldu sinni að leita einhvers samráðs við lögskipað ráð heilbrigiðisráðherra, Sóttvarnaráð Íslands og sem undirritaður hefur óskað eftir að vera sagður frá.
Þótt stjórnvöld séu bjartsýn og sem ráðast af sérhagsmunum ferðaþjónustunnar, er landsbyggðin og innviðirnir ekki tilbúin í fyrirséða nýja kóvidbrekku og þar sem Íslendingar sjálfir eiga mestra hagsmuna að gæta. Vegna heilsu sinna og barna og íþyngjandi nauðsynlegra sóttkvíarákvæða á miðju sumri. Mál sem heilbrigðisráðherra vill ekki frekar en fyrri daginn ræða við sitt skipaða fagráð samkvæmt gildandi íslenskum sóttvarnalögum.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 6.4.2021 - 09:56 - FB ummæli ()

Hlutverk Sóttvarnaráðs Íslands í heimsfaraldri !

Hvað sem hverjum finnst um mótvægisaðgerðir stjórnvalda vegna landamæranna nú gegn nýjum og jafnvel alvarlegri Covid19 smitum til landsins, að þá er rétt að árétta að þær eru ekki gerðar í neinu samráði við Sóttvarnaráð Íslands. Sú staðreynd ein og sér vekur upp spurningar um tilgang þess ráðs og hvort það sé meðvituð ákvörðun stjórnvalda að sniðganga skoðanir þess og álit.
Samkvæmt sóttvarnalögum á ráðið að vera stjórnvöldum til ráðgjafar í stefnumótun smitvarnaaðgerða Íslands. Þar sem segir í lögunum; “Ráðið mótar stefnu í sóttvörnum og skal vera heilbrigðisyfirvöldum til ráðgjafar um aðgerðir til varnar útbreiðslu smitsjúkdóma.” https://www.althingi.is/lagas/nuna/1997019.html
Sóttvarnaráð er skipað af heilbrigðisráðherra, fulltrúum úr röðum heilbrigðisstétta, 4 ár í senn. Fagfólki með sérþekkingu á smitsjúkdómum, faraldsfræði og smitvörnum til almannaheilla og með tilliti til innviða heilbrigðiskerfisins. Undirritaður þar á meðal eftir tilnefningu frá Læknafélagi Íslands og setið í ráðinu sl. 8 ár.
Ekki einu sinni frá því Covid19-heimsfaraldurinn byrjaði fyrir meira en ári síðan, hefur ráðherra eða ríkisstjórn Íslands, kallað eftir samráði við ráðið eða sérstöku áliti á sóttvarnaraðgerðum. Ekki heldur varðandi varnir á landamærum landsins eða bólusetningaáformum og forgangsröðun. Á sama tímabili hafa stjórnvöld hrósað sér við hvert tækifæri um mikilvægi viðtæks samráðs við alla hagsmunaaðila þjóðfélagsins!
Samráðsleysi stjórnvalda við Sóttvarnaráð Íslands í sóttvarnaðgerðum í heimsfaraldri Covid19 sl.ár og sem ætti að geta gefið ráðleggingum sóttvarnalæknis a.m.k. meira vægi, er stjórnsýslubrot að mínu mati og grefur undan ætluðum tilgangi ráðsins.
Ég hef tilkynnt ráðherra að ég vill segja mig frá Sóttvararáði Íslands og óskað eftir að verða ekki endurskipaður í  ráðið til næstu 4 ára. Vill þannig losna undan trúnaði við ráðherra í ráðinu og sem mér sýnist hvort sem er ekkert vilja með slíkt ráð hafa að gera. Fagráð sem aldrei ætti samt að vera mikilvægara og virkara og mörg ágreiningsefni liggja fyrir í sóttvarnaaðgerðum stjórnvalda. Ráð sem landslög hafa gert ráð fyrir að sé til staðar í mótun sóttvarnarstefnu/sóttvarnaráðstafana Íslands.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Íþróttir · Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 25.3.2021 - 11:32 - FB ummæli ()

Höfuðborgin eldrauð, ekki landsbyggðin

Setja ætti landsbyggðina strax í dag í varnarkví og banna ónauðsynleg ferðalög fólks, sérstaklega af höfuðborgarsvæðinu fram yfir páska og sem nú er að verða að öllum líkindum eldrautt smitsvæði. Veikir innviðir heilbrigðisþjónustunnar víða úti á landi, þola ekki fyrirséð áhlaup nýja breska afbrigðis Coronaveirunnar og sem getur haft mikil áhrif. Ekki síst nú á unga og óbólusetta.
Við sluppum rétt fyrir horn fyrir ári síðan, um páskana, með upphaflega stofninn og fyrstu bylgjurnar, en sem er nú miklu meira smitandi og alvarlegri. Sennilega mest smitandi meðal barna.
Aðgerðir sem kalla strax á samgöngubann/tilmæli stjórnvalda að mínu mati og þangað til að við sjáum a.m.k. fyrir enda fjórðu bylgju heimsfaraldursins og fáir bólusettir í þjóðfélaginu. Eins að mörgu leiti óvissa með endanleg bólusetningarplön ríkisstjórnarinnar og sem er að mörgu leiti án samráðs við sitt fagfólk (eins og t.d. Sóttvarnarráð Íslands).

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 11.3.2021 - 12:01 - FB ummæli ()

Jarðskjálftariðan og óttinn.

Jarðskjálftariða hefur verið tíð í umræðunni tengt jarðskjálftahrinunni sl. vikur á Reykjanesi. Mest jafnvel þar sem spennan og jarðskjálftarnir eru flestir. Sumir lærðir og best eiga að þekkja tala jafnvel um lífeðlisfræðil eðlilega skýringu á fyrirbærinu. Í svörun stjórnstöðvar jafnvægis líkamans, í bogagöngum og litla heila, undir yfirborði höfuðkúpunnar. Kvíði auki síðan á upplifunina. Ég myndi vilja leita annarra skýringa tengt riðutilfinningu sem ég verð áskynja í mínum daglegum störfum sem læknir og þarf jafnvel oft á dag að útskýra fyrir mínum skjólstæðingum. Á öllum tímum sl. áratugi og þegar engar jarðhræringar eru. Sjúklingar sem lýsa oft einkennum svipuðum og sjóriðutilfinningu og hafa af þeim áhyggjur. Þó vægari en eiginleg sjóriða en tilfinningu að þurfa að passa þurfi upp á jafnvægið og vanda sig jafnvel í göngu. Rekast t.d. ekki utan í dyrastafina heima. Væg ógleðistilfinning getur stundum fylgt með hjá sumum og sem eru verstir.
En hvað veldur þessum algenga “svima” og hverjar gætu verið eðlilegar útskýringar á fyrirbærinu?
Sjóriða á sér orsakir í hringhreyfingum vökva í bogagöngum innri eyrnanna þegar við erum til sjós og fylgjum öldum og veltingi skips. Ekki hins vegar öllu jafna með jarðskorpuhreyfingum og kvikunni þar undir, þótt vissulega geti mikill titringur og stórir skjálftar ruglað aðeins bogagöngin, svo þau skynji eins og við á sjó værum.
Stöðuskynið byggist nefnilega mest á hreyfingu sem bogagöngin skynja eða ekki og síðan sjálflærðu stöðuskyni augna, ganglima og höfuðs á barns aldri. Vegna gönguþrýstings á iljarna m.a. og tryggja okkur þannig sæmilega göngugetu í algjöru myrkri og sjónar nýtur ekki við. Eins skynjum við stöðu höfuðsins alltaf nákvæmlega í myrkri og með sjálflærðu skyni á vöðvaspennu og festingum þeirra í hnakka. Mjög algeng einkenni slæmrar vöðvabólgu og í eftirköstum tognunar á hálsi og í herðum, er spenna á festingunum, upp við beinhimnu höfuðkúpunnar í hnakka. Aukin vöðvaspenna vegna aukins álags og streitu, getur síðan valdið spennuhöfuðverk og sem er algengasta orsök allra höfuðverkja við og sem stundum talið vera jafnvel mígreni. Höfuðverkur sem aðeins er í eðli sínu saklaus leiðsluverkur frá festubólgum. Aðrar ástæður á upptökum spennuhöfuðverkja geta verið spenna og verkir í kjálkum og augnvöðvum af sömu ástæðu.
Til viðbótar spennuhöfuðverks og sem jafnvel er ekki alltaf til staðar, getur aukin spenna á þessari sjálflærðu þrýstiskynjun stöðuskyns höfuðs, valdið riðutilfinningu. Skynjun á breyttri stöðu eða hreyfingu, sem í raun ekki er og jafnóðum er leiðrétt í stjórnstöð alls jafnvægis, í litla heilanum. Væga sjóriðutilfinningu þannig eða sem sumir kalla í dag „jarðskjálftariðu“.  Þannig geta mjög margir og tíðir jarðskjálftar sem engum er sama um og sem valda flestum okkar óhug, valdið andlegri spennu og aukið á truflun jafnvægisskynjunar sem er fölsk í eðli sínu. Truflun sem er því meiri sem raunveruleiki jarðhræringa og óttinn er meiri.
Í stuttu máli má þannig seigja að almenn útskýring á jarðskjálftariðu sem sögð er oft viðvarandi, jafnvel dögum saman, tengist ekki í raun kröftum jarðskjálfta og titrings í jarðskorpunni, heldur mikið frekar ástands í höfuðbeinaskorpunni sjálfri. Mælingar jarðvísindamanna á jarðskjálftahrinum á Reykjanesi nú og að lokum í stjórnstöð almannavarna þannig algjörlega óskyld mælingum í stjórnstöð litlaheilans okkar, í innviðum höfuðkúpunnar. Sálarangistin er skyn, tengt tilfinningum og upplifun. Óskyld kerfi en sem hvortveggja tengist ótta og hugsanlega ógnvænlegum fyrirboðum. Náttúrulegum skýringum í spennu jarðskorpunnar og síðan hjá manneskjunni sjálfri.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll

Miðvikudagur 3.3.2021 - 15:11 - FB ummæli ()

Íslenskt matvælaöryggi og lífsnauðsynlegar smitvarnir

ESVAC report. Sales of veterinary antimicrobial agents in 31 European countries 2018

Nýtt frumvarp um matvælalög liggur nú fyrir alþingi og sem snýr að upplýsingum og smitvörnum almennings gegn hugsanlegum sýklalyfjaónæmum flórubakteríum sem smitast getur með erlendu kjöti og jafnvel öðrum landbúnaðarvörum. Að gerð sé a.m.k. krafa um merkingar á upprunalandi og sýklalyfjanotkun þess lands í landbúnaði. Helst ætti að bæta við í frumvarpið að mínu mati, aðskilnað erlendar kjötvöru (og jafnvel grænmetis einning) frá íslenskum landbúnaðarvörum í verslunum landsins.

Allt skref í rétta átt til verndar helstu lýðheilsumarkmiðum landsins og sem er að halda sýklaflórunni okkar sem mest næmri fyrir sýklalyfjum ef á þarf að halda. Um áramótin 2020 var engu að síður heimilaður nánast frjáls innflutningur á ófrosnu kjöti frá Evrópulöndunum og sem auðveldlega getur borið með sér sýklalyfjaónæmar flórubakteríur, t.d. colibakteríur og klasakokka (ESBL og MRSA) og sem eru orðnar algengar og jafnvel í meirihluta flóru sláturdýra víða erlendis. Mest þar sem sýklalyfjanotkun er mikil í landbúnaði. Ófrosið kjöt stóreykur síðan líkur á smiti þessarar sameiginlegu flóru dýra og manna, miðað við frosið. Flórusmit þá við okkar eigin flóru úr kjötkaupborði kaupmannsins og þar sem eftirlit í dag er nær eingöngu bundið við matareitrunarbakteríur (f.o.f. salmonellu og caphylobacter og sýklalyfjaónæmis meðal þeirra). Í frumvarpinu segir:

“Fyrirtæki sem hafa með höndum smásölu matvæla skulu tryggja með merkingum í sölurýmum að neytendur hafi greiðan aðgang að upplýsingum um upprunaland matvælanna og meðalnotkun sýklalyfja við framleiðslu matvæla í viðkomandi landi. Matvælastofnun skal árlega gefa út leiðbeiningar um miðlun upplýsinga um upprunaland og sýklalyfjanotkun við framleiðslu matvæla.” https://www.althingi.is/altext/151/s/0141.html

-Ekkert ætti að vera einfaldara og sjálfsagaðra en að samþykkja þetta frumvarp og sem er skref í áttina að lágmarka sjálfskipuðu áhættu sem ríkisstjórnin og heilbrigðisráðherra ákváðu fyrir rúmu ári síðan með leyfi á frjálsum innflutningi á ófrosnu kjöti. Ísland og Noregur eru í algjörri sérstöðu með mjög litla notkun sýklalyfja í landbúnaði og sýklalyfjaónæmi meðal þess sem lægst gerist, sérstaklega á Íslandi. Munurinn er allt að marghundraðfaldur miðað við sum önnur Evrópulönd eins og sjá má í síðust útgefinni skýrslu ESB.

Markmið WHO – Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar- er nær hvergi betur uppfyllt í þessum efnum en einmitt hér á landi er varðar sýklalyfjanotkun í landbúnaði, en landbúnaður í heiminum öllum notar yfir helming framleiðslu allra sýklalyfja!  Það ætti þannig alveg að vera óþarfi að flytja vandamálið beint og tilbúið til Íslands og sem hefur hingað til verið að mestu laust við óheft sýklalyfjaónæmi helstu sýkingavalda mannsins. Á hendur okkar og barnanna, eftir viðkomu í kjötborðinu og loks í landsflóru manna og jafnvel loks í íslenskan landbúnað eins og flórubaktería er eðlið.

ESBL – sýklalyfja/penicillin ónæmir enterokokkar eins og E.coli eru sum staðar við miðjarðarhafið sérstaklega í meirihluta allra þvagfærasýkinga mannfólks. Að meðaltali eru slíkar sýkingar orðnar um 14% á heimsvísu meðal ungra barna og nýbura samkv. rannsókn 2016. Á Íslandi eru þessar sýkingar sjaldgæfar < 1-2%.
Hvaðan halda menn að þessi þróun sé komin?
Jú, frá landbúnaði fyrst og fremst með flórusmiti í mannfólkið.

Látum þetta fyrirséða sameiginlega flórusmit dýra og manna nú ekki koma gjörsamlega í bakið á okkur með galopin landamæri. Allir ættu að hafa fræðst eitthvað um eðli smits sl. ár og þótt ekki sé alltaf um Covidsmit að ræða.

 

 

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 23.2.2021 - 15:56 - FB ummæli ()

Dagrenning á Ströndum


Hafernir eru með því tignarlegasta sem við sjáum í íslensku dýraríki. Á fáum stöðum sómir hann sér betur en í tignarlegu landslagi á Ströndum. Ég átti því láni að fagna að njóta hans tilsýndar í óðalinu hans þar síðastliðið vor. Fylgjast með egginu eina og síðan unganum þegar hann komast til flugs sl. haust. Nær hef ég ekki sennilega komist að njóta Strandanna, þrátt fyrir ótal ógleymanlegar ferðir um Strandir og Djúpið í störfum mínum þar sem læknir sl. rúma tvo áratugi.

Mannlífið á Ströndum er annar kapítuli út af fyrir sig og sem ég hef nokkrum sinnum skrifað um áður. Um Söguna líka aftur í aldir hvar sem maður kemur og mannlífið sem skírskotar beint til hennar endurtekið. Þrautseigja íbúanna og úrræðasemin. Manngæskan og hjálpsemin og þar sem “við gerum allt saman” og þótt ég sé bara reglulegur gestur úr höfuðborginni. Vinnandi undir öðrum kringumstæðum á einum erilsamasta vinnustað landsins, á BMT LSH og þar sem til hefur orðið nýtt slagorð í Covid-kóvinu nú “gerum það saman”, hvernig sem úti viðrar.

Á Ströndum hafa hins vegar alltaf allir tekið þátt þegar eitthvað alvarlegt bjátar á og samfélagið reyndar eins og ein stór ”fjölskyldukúla”. Mikilvægi brothættar byggðar á fáum stöðum sýnilegri og þar sem arfleifð sögunnar er alltaf að standa saman. Ég hef oft hugsað hvað ég sé heppinn að hafa fengið að kynnast og njóta Strandanna sem læknir, jafnhliða minni góðu fjölskyldu í höfuðborginni sem og erlendis. Hvernig allt getur speglast saman í nýrri reynslu og auknu innsæi, í þjóðarsálina ef því er að skipta og til vinnustaða minna góðu. Tækifæri að nálgast líka minn innri mann..

Í enn eitt skiptið, en nú á mjög ólíkan hátt. Að vera þiggjandi þjónustu við erfiðar aðstæður. Að vera sóttur brotinn og lemstraður eftir fall á ísbungu í Kálfanesborgum rétt ofan við Hólmavík. Fullkomlega vel útbúinn á broddum og fjallgönguskóm, en greinilega ekki gætt nógu vel að mér í ástiginu einu sanna í eina sekúndu. Í gönguferðinni minni í gær eftir stofumóttökuna um Borgirnar og sem gefur stórkostlegt útsýni yfir Steingrímsfjörðinn. Á göngustíg sem lagður hefur verið ofan byggðarinnar, meðal annars af grunnskólabörnunum í sumarvinnu sl. áratugi. Hvati til gönguferða íbúanna og sem forveri minn, Sigfús Ólafsson heitinn, lagði svo mikla áherslu á til heilsueflingar íbúanna. Jafnvel svo að hann hvatti til að menn kvittuðu fyrir ferðir sínar í kaupfélaginu.

Það eru auðvitað dýr ráð þegar eini læknirinn í héraði og sem passa á upp á aðra, slasast og þarf auk þess neyðarflutning með hjálp björgunarsveitar innar. Sóttur á börum utan alfaraleiðar á ísilögðum klöppum. Ekki liðu nema innan við 30 mínútur að 12 manna sveit úr björgunarsveitinni Dagrenningu var komin á slysstað. Sett spelku á lækninn og hann síðan borinn af 8 vöskum Strandamönnum niður að sjúkrabílnum. Þar sem kærkomnu sjúkraflutningsmennirnir biðu og keyrðu lækninn sinn suður á bráðamóttökuna í Reykjavík. Á minn gamla góða vinnustað.

Ég er afar þakklátur þessari frábæru hjálp og ekkert síður kærleikshlýjunni sem tók á móti mér hjá mínu samstarfsfólki öllu jafnan. Síðan auðvitað frábæra og þjónustu eins og við var að búast, en var auk þess svo heppinn að lenda ekki í einum af fjölmörgum álagstoppum sem þar ríkir allt of oft. Á eigin vinnustað öllu jafnan og þar sem ég sjálfur hef ekki alltaf haft jafn mikinn tíma til að veita jafn frábæra þjónustu. Þar sem hjartað mitt slær oft miklu hraðar en nú sem þiggjandi þjónustunnar í gær.

Hafernirnir, unginn þeirra sem hóf sig til flugs í byrjun ágúst sl. og reynslan af slysabyltunni minni nú á Ströndum í gær, með aðkomu þess öflugasta sem byggðin þar hefur upp á að bjóða, hefur lyft sýn minni í aðra og nýja vídd. Við verðum að gera þetta saman.

Styðjum nú að minnsta kosti við sjálfboðavinnu bjögunarsveitanna um land allt í fjáröflun þeirra þessa daganna og sem gerir veika innviðaþjónustuna hins opinbera í dreifbýlinu svo miklu sterkari og betri. Þar sem við leggjumst á eitt að gera hlutina saman.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 25.1.2021 - 09:26 - FB ummæli ()

Litla guðsgjöfin á bráðamóttökunni-ferðaþjónustan snýst enda ekki bara um flug og hótel.

Hvað segir það okkur um uppbyggingu innviða heilbrigðiskerfisins eins og t.d. Bráðamóttöku LSH sl. áratug, að túristaleysið í kóvinu bjargi nú því sem bjargað verður og að klíniska þjónustan leggist ekki algjörlega á hliðina! Allt að 10-15% komusjúklinga á BMT voru fyrir kóvið erlendir ferðamenn. Rútuslys nánast mánaðarlegur viðburður og þar að auki tíðar komur sjúklinga á BMT úr skemmtiferðaskipum sem hér lögðust að bryggju.

Gangainnlögnum fjölgar engu að síður aftur á bráðamóttökunni og sem skýrist af viðvarandi fráflæðisvanda spítalans og skorti á frammhaldsúrræðum á hjúkrunar- og dvalarrýmum fyrir aldraða. Gera þurfti skipulagsbreytingar vegna viðbúnar fyrir Covidsjúklinga á efri hæðinni og sem allar aðgerðir stjórnvalda miðuðust við í upphafi faraldursins og að heilbrigðis sjálft legðist ekki á hliðina. Aðgerðir sem engu að síður þrengdu mikið að fyrri aðstöðu í móttöku almennt slasaðra og veikra og margir koma í sjúkrabílum þótt sumir kalla deildin “göngudeild” M.a. með 9 sjúkrarúma opnum sal á neðri hæðinni og áður var skammverueining sjúklinga sem biðu innlagar. Alls ófullnægjandi aðstæður en áður varðandi öflun sjúkrasögu, skoðun og meðferð sjúklinga. Oft aðgerðir á sárum og brotum sem og öðrum læknisfræðilegum inngripum og ástungum.

Aðrir sjúklingar síðan oft langtímunum saman á göngunum og miklir álagstoppar reglulegir þar sem biðtími á biðstofu í anddyrinu skipta mörgum klukkustundum. Allt aðstæður sem alls ekki miðast við góðar smitvarnir og þaðan að síður kröfu um persónufriðhelgi sjúklinga. Litlu breytir sé búið er að covid-bólusetja starfsmennina sjálfa og sem engu að síður borið geta borið smit í og milli sjúklinga.

Túristaleysið, jafn mikið og þjóðfélagið tapar nú á því á Kóvíd-tímum, vil ég því segja sem starfsmaður BMT, að sé eins og lítil en þýðingarmikil guðsgjöf eins og ástandið er nú. Og hvað tekur svo við ef túristarnir síðan koma loks? Erlendu ferðamennirnir sem sköpuðu jú mestu gjaldeyristekjurnar fyrir þjóðarbúið allt fyrir Covid-faraldurinn. Hvað ætli að ríkisstjórnin skuldi LSH í raun mikið í uppbyggingu bráðastarfseminnar miðað við þörf dagsins og og havað þá í náinni framtíð. Í starfsemi deildar sem sinnir mestu neyð lífsins hjá okkur flestum og þar sem síðan krafist er nú jafnvel enn meira aðhalds?

Hvernig má vera að skynsamlegar sóttvarnir gegn Covid og sem stjórnvöld leggja til, standast í raun mikið betur úti í þjóðfélaginu, en á sjálfu þjóðarsjúkrahúsinu? Skýringa sem má finna í húsnæðisskortinum og skorti á innviðauppbyggingu til langs tíma og þangað sem allt að þriðja hundrað manns leita á degi hverjum, misvel á sig komnir, á öllum aldri, alls staðar að úr þjóðfélaginu. Löngu fyrirséðu ástandi og almennir sjúklingar aldrei jafn berskjaldað og nú á kóvid tímum.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 7.12.2020 - 20:25 - FB ummæli ()

Aldarspegillinn á Ströndum

Um helgina kom út ritið Strandir 1918. – Ferðalag til fortíðar sem Sauðfjársetrið og Rannsóknasetur HÍ á Ströndum -Þjóðfræðistofa stóðu að. Merkilegt rit og fróðlegur aldarspegill fyrir nútíðina. M.a. með tilliti til heilbrigðisþjónustunnar og viðbragða á tímum heimsfaraldurs.

Spænska-veikin barst til Reykjavíkur 19.október, viku eftir að Körlugos hófst, og varð útbreiðslan mjög hröð og náði hámarki þar á aðeins 3 vikum. Um svipað leiti voru settir verðir á Holtavörðuheiði og við Jökulsá á Sólheimasandi til að takmarka óþarfa ferðir í landshluta. Læknarnir í Reykjarfjarðarhéraði (nú Árneshreppur) og á Hólmavík þar sem sjúkrahúsið var, skrifuðu íbúunum umburðarskjal sem borið var til allra íbúa héraðanna 18-20. nóvember og þar lagt á samgöngubann úr héraði, jafnvel innan héraða og allt óþarfa samneyti við ókunnuga. Ekki fara neinar sögur af smiti Spænsku-veikinnar á Ströndum um veturinn og heldur ekki sumarið eftir og hún gerði loks vart við sig á Akureyri.

Spænska veikin 1918 náði aldrei norður á Strandir. Einn Standamaður féll þó fyrir sóttinni og þar sem hann var staddur í Reykjavík. Þegar fréttist af pestinni skæðu um haustið og mannfallinu fyrir sunnan voru fljótlega gerðar ráðstafanir til að hefta útbreiðsluna norður á Strandir. Frostaveturinn mikli var nýliðinn og sem hafði farið illa með tún sumarið eftir og erfiðlega hafði gengið að afla nauðsynlegra aðfanga framan af.

Ekkert Covid-smit hefur enn sem komið er komið nú upp á Ströndum og sem teljast verður sérstakt. Héraðið er reyndar miklu fámennara nú, eða ekki nema tæplega helmingur af íbúafjöldanum sem var 1918. Þéttbýliskjarnarnir þótt stærri í dag og aðeins einn læknir og engin hjúkrunarkona. Innviðirnir þannig mjög viðkvæmir og þótt vegasamgöngur séu auðvitað miklu betri. En samt langan veg oft að fara, ófærð til sveita á veturna og þar sem síðan þjóðleiðin norður til Ísafjarðar liggur gegnum héraðið yfir Steingrímsfjarðarheiði og niður í Innra-Djúp.

Árvekni íbúanna er sennilega mest að þakka hvað vel hefur tekist til, hingað til og ég hef skrifað um áður. Faraldurinn er enn í gangi fyrir sunnan og hefur náð nýjum hæðum víða um heim. Enn er verið að bíða eftir bóluefnum og sem menn óttuðust í byrjun að kæmu að litlu gagni gagnvart kórónaveirunni, en sem virðast síðan ætla að virka afbragðs vel með nýjum aðferðum við gerð bóluefna. Þó ekki fyrir samfélagið allt fyrr en hjarðónæmi hefur skapast eftir nokkra mánuði. Þegar þjóðarhjörðin sjálf heftir útbreiðsluna, líka norður á Ströndum og landið er ekki lengur eldrautt.

Aldarspegillinn sem m.a. hægt er að sjá vel í ritinu Strandir 1918, gefur einstaka sýn á breytt mannlíf til sjávar og sveita á einni öld. Líka á þeim þáttum sem einkenna enn mannlífið þar og helstu lífsgildi. Samstöðuna, náungakærleika og seigluna þegar mest á reynir, nú reyndar enn á alhvítum Ströndum.

https://blog.dv.is/vilhjalmurari/2020/11/28/akvordun-strax-i-dag-besta-jolagjofin-i-ar/

https://blog.dv.is/vilhjalmurari/2020/04/10/hus-laeknanna/

https://blog.dv.is/vilhjalmurari/2020/10/04/kortin-hans-fusa/

 

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn