Föstudagur 20.6.2025 - 19:54 - FB ummæli ()

Innviðaöryggi og sjúkraflutningar á landsbyggðinni – staðan í dag.

Gæti verið mynd af van, ambulance og textiVegna umræðu um sjúkraflutninga á Suðurlandi í dag og viðbragðsmöguleika björgunaraðila vegna slysa og skyndilegra veikinda er rétt að árétta að víðar er pottur brotinn í þessum málum hér á landi. Þrátt fyrir margfaldan umferðarþunga og mikils fjölda ferðamanna hefur lítið verið byggt upp til að styrkja þessa þjónustu og á mörgum stöðum hefur þjónustunni úti á landi hrakað mikið sl. áratugi miðað við þörf og álag. Sjúkrabílaþjónustan hefur víða staðið í stað, vegir víða verri og oft lengri vegalengdir að fara til sjúkrastofnana sem tekið geta á móti bráðsjúkum og slösuðum. Þótt íbúafjöldinn hafi ekki aukist á mörgum afskekktari stöðum á landinu, hefur almenn þjónusta sérstaklega veitingaþjónusta og gisting fyrir ferðafólk stóraukist. Þetta á ekki síst við í svokölluðum „brothættum byggðum“ sem stjórnvöld skilgreina sem svo og þar sem í auknum mæli er treyst á nýsköpun tengt ferðamennsku. Erlendir ferðamenn ganga auðvitað út frá lágmarks innviðaþjónustumöguleikum á ferðalögum sínum um landið þegar þeir huga að heimsókn. Heilbrigðisþjónustu, björgun í vanda og löggæslu. Hundruð milljarða króna árleg innkoma í íslenska hagkerfið hefur áunnist með að hafa gert Ísland að vinsælum ferðamannastað á heimsvísu og þar sem íslensk nátttúra er  í aðalhlutverki í öllum auglýsingum. Það skýtur því skökku við að innviðaruppbygging er varðar almenna öryggisþætti haldist ekki í hendur við þessa þróun. Sumir myndu vilja segja vörusvik og hvers eiga síðan íbúarnir að gjalda sem frekar fá minni þjónustu fyrir sig og sína en meiri miðað við það sem áður var!

Sl. ár hefur umræða skapast á vettvangi NATO þjóða að hluti af stórauknum útgjöldum til varnarmála sem Íslandi verður skilt að taka þátt í verði merktur auknu innviðaröryggi á landinu, m.a. með samgöngubótum (rætt þessa daganna um allt að 1.5% af þjóðarframleiðslu sem samsvarar um 63 milljörðum króna á ári). Auk þess er í dag nýstofnað „Innviðafélag Íslands með allt að 23 milljarða fjárfestingagetu til lána ríkinu gegnum lífeyrissjóðina til stofnframkvæmta og fjárfestinga á mannvirkjum. Auknir möguleikar á björgunarviðbrögðum auk nauðsynlegs eftirlits á þjóðaröryggi ætti auðvitað að skipa hæstan sess í öllu tali um innviðaruppbyggingu. Auknum möguleikum á bráðaþjónustu heilbrigðisstarfsfólks, sérmenntaðra sjúkraflutningsmanna og flutningsmöguleika með sjúkrabifreiðum og flugi. Fjölga þarf því flugvöllum fyrir sjúkraflug og bæta aðgengi að sjúkraþyrluflugi, f.o.f með þátttöku LHG. Bæta þarf tækjabúnaði björgunarsveita , m.a. með sjúkrabílum og mönnun þeirra á vöktum eins og lagt hefur verið nú til á Suðurlandi. Mönnun heilsugæslustöðva hefði fyrir löngu þurft að vera búið að styrkja og eins rekstur sjúkraskýla og minni sjúkrahúsa (ekki síst ef hópslysa verða) sem víða hafa verið lögð niður eða þeim breytt í öldrunarstofnanir. Endurbirti hér því úr blogginu mínu frá í vetur og sem ætti að gefa glöggari mynd af ástandinu víða út á landi til viðbótar umræðu dagsins á ástandinu á Suðurlandi og nýútkominni rannsóknarskýrslu Rannsóknanefndar samgönguslysa.Gæti verið mynd af map, arctic og Texti þar sem stendur "Horn HORNSTRANDIR NATURE NATURERESERVE RESERVE 2N .Drangsnes .Reykhólar"

„Víða um landið er sjúkrahúsþjónusta ekki lengur til staðar og sem kallar á enn fleiri sjúkraflutninga landshorna á milli, ekki síst til Reykjavíkur og nágrennis. Einn sjúkraflutningur af Ströndum getur hiklaust t.d. tekið 8 klst. 250 km hvor leið frá og til Hólmavíkur. Ekkert sjúkraflug er í boði og flugvöllurinn löngu ónýtur. Vegirnir síðan eins og þeir eru og sem takmarkar öruggan akstur, sérstaklega forgangsakstur.

Stundum þarf að fara lengri leið -Suður-Strandaveg- og síðan yfir Holtavörðuheiði og sem lengir þá leiðina suður um 80 km. Þá leið fara þungaflutningarnir í dag frá Ísafirði og Suðurfjörðum Vestfjarða vegna stórskemmdra vega á Vesturlandi og aðeins tímaspursmál hvenær sá vegur eyðileggst einnig. Stundum þarf að fara í slysaútkall inn í Djúp enda Ísafjörður í 250 km. fjarlægð frá Hólmavík. Eins stundum norður í Árneshrepp, 100 km frá Hólmavík, ekki ósjaldan tengt ferðafólki. Reyndar er sjúkraflugvöllur á Gjögri. Samkvæmt almannavá er eins viðbragð frá Hólmavík í Reykhólahrepp ásamt Búðardal sem og um alla Austur-Barðastrandasýslu. Aðeins einn sjúkrabíll í héraðinu öllu og einn læknir, en enginn hjúkrunarfræðingur. Sjúkrahúsið sem áður var starfrækt á Hólmavík er í dag aðeins öldrunarstofnun og þar sem ekki er lengur hægt að leggja inn sjúklinga, jafnvel yfir blánóttina.

Þegar ég byrjaði læknisstörf á Hólmavík í afleysingum fyrir rúmum aldarfjórðungi var íbúatalan áþekk og hún er í dag, en umferðin hins vegar nú margföld miðað við sem þá var um héraðið og þungaflutningar með fisk suður sömuleiðis. Fyrstu árin var starfrækt sjúkrahús á Hólmavík og eins var þar föst viðvera hjúkrunarfræðings og jafnvel meinatæknis. Þjónusta í almennri móttöku á heilsugælustöðunni hefur þó alla tíð verið stöðug með viðveru eins sjúkraliða. Sjúkraflugvöllur var nothæfur allra fyrstu árin mín á Hólmavík. Þyrlur Landhelgisgæslunnar, 2-3, vissulega en til staðar og þegar veður og aðstæður/ísing leyfa. Þær hafa oft bjargað miklu. Sjúkraflutningar með sjúkrabílnum suður hafa hins vegar verið vel yfir 100 á ári – allt að þriðja hvern dag. Þá enginn sjúkrabíll í héraði á meðan og stundum enginn læknir – í allt að 6-8 tíma (reyndar stundum reynt að fá sjúkrabíl á móti sunnan frá). Ekki má heldur gleyma mikilvægu hlutverki björgunarsveitarinnar Dagrenningar á Hólmavík og Bjargar á Drangsnesi.

Um árið var mikið talað um að styrkja “brothættar byggðir” til að tryggja að land héldist í byggð. Í því fellst mikil menningarleg verðmæti og þar sem saga okkar allra á oft rætur. Þrátt fyrir miklu meiri umferð tengt ferðamönnum og þungaflutningum gegnum héruð, hefur víða hallað stöðugt undan fæti og þótt íbúar geri sitt besta til atvinnusköpunar og í frumkvöðlastarfi í heimabyggð. Öryggisleysi tengt skertri heilbrigðisþjónustu og möguleikanum á öruggum sjúkraflutningum er hins vegar víða mjög ábótavant og sem samfélagsumræða þessa daganna ber með sér. Skertar flugsamgöngur og lélegir eða jafnvel stórskemmdir vegir lýsa augljósu hættuástandi, ekki síst þegar mest á reynir í lífi okkar og við þurfum hjálp til að komast í öruggt var, t.d. vegna bráðra veikinda eða slysa.“

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 31.5.2025 - 20:26 - FB ummæli ()

Að geta gert mikið úr litlu

Sagan á sér alltaf margar hliðar. Saga okkar sjálfra og Íslandssagan. Mín saga tengist m.a. læknisfræðinni sterkum böndum. Sögunni í nútíð og þátíð sl. tæpa hálfa öld. Eins með tilliti til forfeðra minna. Þar er ef til vill best að byrja þessa sögu. Ari Arason (1763-1840), var læknir í Skagafirði á Flugumýri og einn fyrst lærði læknirinn í Skagafirði (1795). Síðar skipaður fjórðungslæknir í Norðlendingafjórðungi, 1801. Hann var í hópi fyrstu læknanemanna sem útskrifuðust frá Læknaskólanum í Nesi hjá Jóni Sveinssyni, landlækni. Sonur hans og alnafni, Ari Arason yngri (1813-1881), fetaði í fótspor föðursins en lærði í Kaupmannahöfn. Hann kláraði samt ekki lokapróf í læknisfræði, en stundaði engu að síður lækningar í Skagafirði launalaust eftir að heim kom á Flugumýri. Margt annað var á hans könnu sem kansellíráð, fulltrúi konungsstjónarinnar og stundaði stórbúskap. Hann kom færandi hendi með margar forskriftarbækur til lyfjagerðar. Ég og systkini mín komum þeim og mörgum skjölum, auk lækningaáhalda, lyfjamorteli, skurðhnífasetti og skurðkertastjaka til minnjasafnsins á Sauðárkrók fyrir næstum áratug. Var það alltaf von okkar og haldin yrði sýning á þessum minjum og skjölum til að minnast upphafi læknisfræðinnar í Skagafirði fyrir rúmum tveimur öldum.

Merkilegast fannst mér vera litlar leirkrúsir undir kúabóluefnið sem flutt var til landsins um 1803 með staðfestu og innsigluðu konungsbréfi um innihaldið. Ísland var þannig meðal fyrstu þjóða að byrja bólusetningu gegn stóru-bólu með kúabóluefninu og áttu undangengnar hörmungar með mannfalli og kreppum í landinu þátt í þeim vilja konungs (Kristjáni VII) að koma bólefninu sem fyrst til þjóðarinnar. Á þeim tíma var gjarnan bólusett (sett bóla) þegar fólk mætti til kirkju og merkt við í kirkjubókunum. Spurning hvort prestarnir hafi ekki hjálpað læknunum. Sennilega er fátt sem hefur skipt jafn miklum sköpum í lifun þjóðar og þannig lýðheilsusögunni og þetta átak sem síðan stóð yfir allt til okkar daga. Sjálfur fékk ég „setta bólu“ sennilega 8 ára gamall. Stóru-bólunni hefur nú verið útrýmt í heiminum, eða svo teljum við vera og því ekki lengur bólusett við henni. Allavega má segja að mikið hafi verið gert úr litlu hjá forfeðrum mínum um aldamótin átjánhundruð, auk þess sem ný þekking á mikilvægi hreinlætis skipti sköpum í sýkingavörnum, ekki síst tengt fæðingum og til að draga úr ungbarnadauða. Síðar var komið á fót skóla fyrir yfirsetukonur sem þá voru kallaðar, síðar ljósmæður og þannig langt á undan menntun hjúkrunarfræðinga. Sjálfur fór ég hins vegar á mínum fyrstu sérfræðingsárum að stunda rannsóknir á afleiðingum oflækninga vegna ofnotkun sýklalyfja, tengt þróun sýklalyfjaónæmi meðal algengustu sýkingarvalda mannsins (bakteríusýkingum) og sem er nú talin ein stærsta heilbrigðisógn samtímans að mati Alþjóða heilbrigðisstofnunni (WHO). Þegar við gerum oft allt of lítið gagn úr miklu og skipulagsleysi ræður ríkjum í heilbrigðiskerfinu. Skilgreining á heimilislæknisfræði nánast gjaldfallin fyrir skyndilausnum og skrifræðinu.

Læknahúsið Lundur á Sauðárkróki sem Sigurður Pálsson læknir lét byggja 1901. (upphafleg staðsetning í miðbænum við Sauðá)

Önnur tenging sögunnar er læknahúsið gamla, Lundur á Sauðárkróki sem afi minn Steingrímur Arason, afabarn Ara yngri, hafði keypt eftir að hann fluttri frá Víðimýri í Seyluhreppi og þar sem hann rak um árabil húsgagnaverslun og bólstrunarverkstæði. Hann var eins formaður hestamannafélagsins Léttfeta um árabil og mikill hestamaður. Oft kom ég þangað sem ungur strákur, stundum í heimsókn og stundum á leið í sveitina mína á sumrin i Hjaltadal og skrapp stundum með honum í hesthúsið. Minnistæðust eru mér samt húsakynnin á besta stað í miðbænum, nálægt kirkjunni og þar sem áður rann Sauðáin. Nokkrar myndir á veggjum sem sennilega voru frá læknum sem þar höfðu búið áður. Í þessu húsi kom fyrsta vatnsveitan og fyrsta vatnssalernið. Minnistæð er mér sérstaklega gömul hauskúpumynd sem hékk á veggnum í stofunni. Eins stóri aldingarðurinn sem stóð við húsið í Suðurgötunni og sem átti sér engan líkan á sinni tíð. Garðurinn hennar Hansínu Benediktsdóttur, eiginkonu Jónasar Kristjánssonar læknis. Þau bjuggu þarna í húsinu ásamt börnum sínum í rúma tvo áratugi, 1911-1938. Þar var þá líka læknamóttaka (heilsugæsla í nútímaskilningi), skurðstofa og sjúkrarúm. Nýlega las ég bók Pálma Jónassonar um ævi afa hans Jónasar Kristjánssonar, Að deyja frá betri heimi.

Óhætt er að segja að stórbrotnari ævisaga er vandfundin, a.m.k. hvað sögu læknisfræðinnar varðar. Þvílíkt brautriðjandastarf sem Jónas áorkaði, bæði fyrir austan á Fljótsdalshéraði þar sem hann stundaði fyrst lækningar í meira en áratug áður en hann fluttist á Krókinn og þar sem hann m.a. lét reisa sjúkrahús á Brekku í Fljótsdal um aldamótin 1900. Læknir úrræðagóður og með afbrigðum, viljugur til verka og til langra vitjana, oft einn á hesti, enda afbragðs hestamaður. Skurðlæknir hinn besti sem gerði ótal skurðaðgerðir, jafnvel í heimahúsum og sem í dag væru alltaf gerðar eingöngu á hátæknisjúkrahúsum. Síðustu 20 æviárin eftir sjötugt og eftir að hann flutti suður, helgaði hann sig starfsemi Nátttúrlækningafélags Íslands og helsti hvatamaðurinn að byggingu Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði. Reyndar umdeildur stjórnmálamaður líka, en afar víðlesinn í fræðum sem við nú köllum lífstílsfræði og forvarnir gegn lífstílssjúkdómunum. Eins hvað varðar endurhæfingu og fór fjölda ferða til að kynna sér fræðin til virtustu stofnana í Ameríku og Evrópu. Læknir sem í flestu var langt á undan sinni samtíð.

Sjálfur hef ég tengst heilsugæslufræðum og bráðalæknisfræði mest, auk aldarfjórðungs viðkomu með reglulegu millibili á Ströndum, á Hólmavík. Dreifbýlislækningar köllum við þetta í dag. Hef skrifað um hugartengslin við söguna og mannlífið í mörgum pistlum á blogginu mínu. Með hverju árinu fær maður meiri og meiri tengingu við mikilvægi sögunnar. Upplifun jafnvel til forvera minna í spönsku veikinni 1918-19 hér á Ströndum, í Covid-19 heimsfaraldri. Þegar stjórnvöld vildu ekki hlusta á héraðslækninn og sem m.a. leiddi til minnar afsagnar úr Sóttvarnaráði Íslands og sem hafði verið tilnefndur í af Læknafélagi Íslands, skipaður af ráðherra í samtals átta ár. Læknisfræðin er enda ekki bara smitsjúkdómafræði og sem við sjáum í dag eftir Covid heimsfarladurinn. Þegar fagfólk mátti ekki einu sinni mæta á fjölmiðlafundi þríeykisins svokallaða og þar sem slagorð stjórnvalda var engu að síður „gerum þetta saman“. Falsfréttanefnd ríkisstjórnarinnar stofnsett og sem m.a. hélt fagumræðu niðri.

Húsið hans afa og sem ég náði að upplifa viðveru í á sinum upphaflega stað á sínum tíma, hefur haft mikil áhrif á mig alla tíð og ekki síður nú eftir lestur ævisögu Jónasar og hans lífssýnar hvernig við getum viðhalda betri heilsu. Segja má að ásamt fjölskyldulækningum og félagslæknisfræði sé hornsteinn góðra heimilislækninga í dag eins og hún er skilgreind í fræðum nútímans en sem hefur verið að fjarlægst í íslenskum veruleika. Viðvera Jónasar Kristjánssonar í húsinu og vitneskja um forfeður mína, læknanna á Flugumýri ekki síður. Mín læknisreynsla í hálf öld og minnugur þess að stundum er betra að geta gert mikið úr litlu, en lítið úr miklu.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag · Vinir og fjölskylda

Föstudagur 18.4.2025 - 12:08 - FB ummæli ()

Baskar á Ströndum – hluti Íslandssögunnar okkar

Söguskáldsagan Ariasman eftir Tapio Koivukari (2012) um samskipti Íslendinga og Baska, hvalveiðarnar á Ströndum og síðar Spánverjavígin svokölluðu 1615, er vel skrifuð bók og áhrifamikil lesning. Bókin er líka skemmtileg lýsing á mannlífinu á Ströndum í upphafi 17. aldar og tíðarandanum þegar tveir ókunnugir menningarheimar mætast. Áður höfðu Íslendingar kynnst harðneskju einokunarverslunarinnar Dana og ólöglegri verslun við Englendinga. Nú komu stærri skip og sjómenn frá Baskahéruðum Spánar sem veiddu hvali, ekki fisk og sem ekki hafði verið á færi Íslendinga eða annarra þjóða að gera við Íslandsstrendur. Einokun Danakonungs og fégræðgi fulltrúa hans hér á landi er grundvöllur framvindu sögunnar um afdrif Baskana og sem upphaflega  vildu aðeins veiða það sem sjórinn gaf, án hagsmunaárekstra við landsmenn. Hval til lýsisbræðslu og til ljósgjafanotkunar um alla Evrópu. Jafnframt hagstæð vöruviðskipti við Strandamenn og sem veitt þeim nauðsynlega þjónustu. Stóru hafskipi þeirra þrjú fórust hins vegar í ofsaveðri og strandi Í Reykjarfirði seint að hausti 1616 og um 80 skipsbrotsmenn voru skyndilega upp landsmenn komnir meðala björg. Kenna má landstjórninni í umboði Danakonungs og sérhagsmunagæslu sýslumannsins Ara Magnússonar í Ögri um hvernig fór og sem enn í dag er eitt ljótasta óhæfuverk Íslandssögunnar.

Á gönguferð minni um Strákatanga (Skarfatanga) við Hveravík í Steingrímsfirði 2015 (sem oftar síðar) mátti sjá glögg merki minja hvalaútgerðar og gólf hvallýsisbræðslu (bræðslukatlastæði). Fyrstu tvö sumrin 1614-1615 starfrækt af Böskum en síðan sennilega aðallega Hollendingum, allt fram til upphafs 18. aldar. Auðvelt var að sjá fyrir sér Baskana sem kíktu eftir hval á Steingrímsfirði og veiddu hann síðan á nokkrum smábátum á firðinum sem þeir lönduðu síðan í víkunum. Hugrenningar vöknuðu um sambærilegar aðstæður á Grænlandi og víðar sem ég hef skrifað um áður á blogginu mínu. Myndina að ofan tók ég á Strákatanga 400 árum eftir að Baskarnir stunduðu sína nýsköpun hér á landi, en sem var landanum svo framandi að þeir hálf sturluðust! Myndin er samsett með annarri mynd af gömlum hafskipum frá 18 öld sem ég tók í hjólaferð um Kantabríu, nánar tiltekið í Santander sl. vor og sem er rétt við mörk Baskahéraðanna á Spáni. Var þá sterklega hugsað til Baskana forðum. Stóðst ekki mátið að sameina þær hér á einni mynd.

Ég hvet alla sem áhuga hafa á söguskáldskap og þar sem tveir ólíkir menningarheimar mætast, að lesa Ariasman (Baskar kölluðu Ara Magnússon því nafni). Eins í tilefni stofnun Baskavinafélags Strandamanna (2012) og sem nú er að koma upp söguminjasafni um Baskana í Djúpavík í Reykjarfirði til að minnast atburða sem ekki mega gleymast. Nýjasta skáldsaga Jón Kalmans Stefánssonar, Himintungl yfir heimsins ystu brún, fjallar um sömu atburði frá ólíku sjónarhorni þar sem áherslan er lögð á ábyrgðarkennd, samvisku og réttsýni Íslendingsins gagnvart framandi heimi og sem við viljum stundum útiloka eða ekki vita af. Ekki síður oft grimmd þjóða gagnvart annarri, jafnvel nágrannaríki, vegna sérhagsmunagæslu sinnar.

Gleðilega páska!

Gamalt akkeri sem ég gekkk fram á, á Strákatanga um árið

 

HVALFANGARABÆN-Á EFTIR SÆRĐUM HVAL

Meira en oss er þér að þakka, Herra,

að þungur skutull stakkst i hvalsins bak.

Drottinn vor Guð, lát dýrsins krafta þverra,

við dauðastríðinu hvalsins yfir oss þú vak

svo vér ei hljótum meiðsl og mundir sárar,

þú mildi herra, vef oss líknarhjúp,

svo hvorki brotni byrðingur né árar

og bátnum verði ei sökkt i hafsins djúp.

Forða þú oss frá bráðum bægslagangi,

lát bát vorn hvíla í þínu náðarfangi,

Veiðin er stór, þótt viða háskinn grandi,

veit oss að prísa þig á þurru landi.

FADIX TOANES DE FTCREVERRI. 1627

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · Menning og listir · Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 11.4.2025 - 13:18 - FB ummæli ()

Trjóuhestar dagsins -hættulegu gerviefnin og sýklalyfjaónæmu bakteríurnar

Engin lýsing til

Fyrir utan öll kemísku efnin PFSA (PFC) (per-and polyfluoroalkyl substances), þalötin (bísfenól) og þungmálmana sem sannarlega geta haft mikil áhrif á heilsu okkar og þroska barna og minnkaða frósemi manna og dýra, að þá er breytt nærflóra sýklslyfjaþolinna baktería sú ógn sem WHO hefur hvað mestar áhyggjur af í dag. T.d er því spáð að næstu áratugi muni fleiri deyja af völdum sýklalyfjaónæmra baktería en vegna krabbameina og þegar ekki er ráðið við algengustu  bakteríusýkingar mannsins (t.d. E.coli sýkingar hverskonar). https://blog.dv.is/…/hin-ognvekjandi-nyja-islenska…/ 

Vissulega skilur maður freistingar almenns neytandanda og þegar nútímavarningur hverskonar er haldið að fólki með auglýsingum um „gæði og kostnaði. Jafnvel með daglegum kauptilboðum á netinu. Plastefnin með mýkri áferð og eiginleika, teflonhúðuð eldhúsáhöld og pakningar hverskonar m.a. fyrir örbylgjuofna. Í matvöruverslunum eru það svo erlendu landbúnaðarvörurnar með oft sínar sýklalyfjaónæmu bakteríum í pakkningunum og sem eru oft ódýrari en þær sambærilegu íslensku. 

Í dag hleypum við nánast óhindrað sýklalyfjaónæmum súnum (sameiginlegum bakteríum manna og dýra) eins og ESBL, CPO og MRSA með erlendum landbúnaðarvörum frá sumum löndum. Allt að þriðjungur innflutts kjöts getur borið með sér þessar flórubakteríur, á síðan hendur okkar, hjá kjötkaupmanninum og ímargnota innkaupapokanum og að lokum í eldhúsinu heima.
Ótrúlegur sofandaháttur virðist vera hjá heilbrigðisyfirvöldum að leyfa slíkan innflutning í bakgarðanna okkar og eigin nærflóru, nánast án eftirlits. Vakning er hins vegar á kemísku efnunum í fjölmiðlum en síður því miður á því lífræna og sem stefnir í stórhættulega þróun. Að lokum berast ónæmu bakteríurnar sem fengið hafa að þróast með mikilli sýklalyfjanotkun víða í erlendum landbúnaði sl. áratugi líka til þess íslenska, á silfurfati markaðshyggjunnar. Á sama tíma reyna læknar að takmarka óþarfa sýklalyfjanokun manna eins og kostur er.
Skrifaði grein um þessar miklu lýðheilsuógnir og hvað sé til varnar fyrir 12 árum, 2013 (endurbirt að hluta á blogginu mínu 2020). Þá eins um ljósefnin góðu og góðgerlana sem verndað getur okkur að vissu marki. Að forðast samt eitrið og hættulegar landbúnaðarafurðir er mikið undir okkur sjálfum komið og auðvitað stjórnvalda hvað innflutning varðar, gagnvart góðum lýðheilsumarkmiðum.

Flestir líta á gott fæði fyrst og fremst út frá næringargildi og ferskleika. Það væri svo sem í lagi ef passað væri líka upp á fjölbreytileikann. Vítamín og alls konar lífræn bætiefni í grænmeti, ávöxtum og jurtum, sem líkaminn þarf til daglegrar viðgerða og enduruppbyggingar, í samspili við ónæmiskerfið. Eins gegn árásum óæskilegra örveira og mengunarefna sem við vitum ekki alltaf hvaðan eru upprunnin. Við getum að vissu leyti reyst okkar eigin eldveggi í nánari tengslum við næringuna og umhverfið en við gerum í dag.

Við þurfum að hafa áhyggjur af ýmsum tilbúnum efnum og sem við sjálf framleiðum í iðnaði, en sem safnast geta fyrir í okkur og umhverfinu. T.d. þrávirk lífræn efni eins og  PFC (PFSA) efnin og hormónalíku plastefnin (hormónahermar). Eins allskonar rykefni og örefnin (nano products) sem eru svo lítil að þau ná að smygla sér inn í frumurnar eins og Trójuhestar. Sama á við um skordýraeitur, sýklalyf, rotvarnarefni og ýmsa vaxtarhvetjandi hormóna í matvælum. Efni sem berast m.a. í okkur með kjöti, af  misvel þekktum uppruna erlendis frá. Þriðjungur krabbameina er auk þess talin tengjast slæmu fæðuvali eingöngu, of miklum hvítri sykri og fitu.

Uppsöfnun á ýmsum þrávirkum lífrænum efnum í náttúrunni er stöðugt að aukast. PFC (PFSA) efnin hafa verið til umræðu sl tvo áratugi. Þau eru mikið notuð innan á skyndibitapakkningar allskonar og sem teflonhúð á eldhúsáhöldum vegna vatns- og fitufælinna eiginleika. Efni sem líklega geta bælt ónæmiskerfi barna og okkar sjálfra. Eins er um að ræða öll hormónalíku plastefnin (þalöt) sem líkt geta eftir hormónum í verkun (hormónahermar). Efni sem notuð eru sem mýkingarefni í allskonar leikföngum, plastumbúðum og áhöldum tengt matargerð, en borist geta auðveldlega í okkur gegnum húð, mat og drykk. Efni sem m.a. draga úr frjósemi dýra og manna, og flýtir kynþroska unglingsstúlkna. Verst hvað öll þessi þrávirku efni eru mörg og að þeim skuli alltaf vera að fjölga.

Fæði sem í daglegu tali hefur verið kallað erlendis „functional food“ inniheldur hins vegar meira af allskonar lífrænum efnum til verndar. Efni sem virka gegn oxun og þránun próteina í frumunum okkar og á erfðaefninu sem öllu stjórnar. Oxunin er nefnilega stöðugt að verki og óumflýjanleg, ekkert ólíkt og þegar fita þránar og járn ryðgar. Eins á heildrænt fæði að tryggja hagstæðari gerla fyrir flóruna okkar sem hafa skaddast einhverja hluta vegna, eins og t.d. við sýklalyfjainntöku. Gerla sem hægt er að taka inn sem „probiotics“ í stöðluðu magni. Allt til að bæta það sem á vantar í fæðunni okkar.

Ljósefni sem ég vil svo kalla (phytochemicals), eru sérstök náttúruefni úr jurtaríkinu og sem ekki eru skilgreind sem vítamín eða næringarefni til brennslu eða próteinuppbyggingar, en jafn mikilvæg fyrir okkur á allt annan hátt. Efni sem gefa jurtum sína einstöku eiginleika, tengt lit og lykt. Fyrir utan oft afoxandi eiginleika eru þau talin hafa hvert um sig sína sérstöku eiginleika m.a. til verndar skemmdum á erfðaefninu.

Vítamín, önnur afoxunarefni, steinefni og flóknir efnaferlar með ljósefnunum vernda okkur þannig gegn oxun, hrörnun og öldrun. Þegar alvarleg veikindi herja eða við höfum borðað skemmdan mat. T.d. brenndan/grillaðan og sem eykur þá myndun frírra stakeinda (radíkala) og oxun frumna. Sambærilegt og þegar járn ryðgar.

Íslensku tómatarnir eru hlaðnir æskilegum ljósefnum. Eins mætti telja gullinrót (curcumin öðru nafni turmeric), chilli pipar, engiferrót, hvítlauk, sojabaunir, brokkolí, jafnvel kál, vínber, hunang, grænt te og kaffi. Listinn er í raun miklu lengri. Einna mest vitum við um áhrif gullinrótarinnar. Hugsanlega sem vernd gegn elliglöpum og Alzheimer´s sjúkdómnum. Jafnvel sem hluta krabbameinsmeðferðar og þegar hvað mikilvægast er að byggja hratt upp, það sem rifið hefur verið niður.

Ljósefnin í breiðari skilningi gætu þannig verið svar til að styrkja ónæmiskerfið sem mest gegn sýkingum, hrörnun, krabbameinum og ófrjósemi. Gegn þá Trjóuhestunum nútímans, ásamt auðvitað almennt heilbrigðum lífstíl.

 https://blog.dv.is/…/brunavarnir-okkar-og-ljosefnin-godu/  https://blog.dv.is/vilhjalmurari/2013/09/15/grindhvalir-og-haettuleg-spilliefni/

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 27.3.2025 - 17:19 - FB ummæli ()

Mótefnaaðgerð gegn RS veirunni – ekki bólusetning.

Fréttir undanfarið ekki síst hjá fréttastofu RÚV https://www.ruv.is/…/2025-03-27-4500-ungborn-fai… um væntanlegar bólusetningar hjá ungbörnum gegn RS veirunni er mjög svo misvísandi enda ekki um eiginlega bólusetningu að ræða. Sennilega er Falsfréttanefnd ríkisstjórnarinnar sem stofnað var til í heimsfaraldri Covid 19 (mtt réttrúnaðar stjórnvalda og gegn upplýsingaóreiðu), sofandi.
Í væntanlegum aðgerðum heilbrigðisyfirvalda og sóttvarnalæknis er hins vegar fyrirhuguð mótefnameðferð fyrir ungbörn, sem flokka mætti helst undir blóðlækningar hér áður fyrr. Gefin eru mótefni til tímabundinnar varnar, en ónæmi ekki komið á til lengdar eins og alltaf er stefnt að með bólusetningum (vaccination) eða með náttúrulegu smiti. Því fæst aldrei varanleg vörn með gefnum tilbúnum mótefnum eingöngu og þegar hvorki frumubundið ónæmi eða myndun eigin mótefna gegn veirum, er ekki virkjað. Mótefnagjöf getur hins vegar hjálpað yngstu börnunum gegn alvarlegustu afleiðingum RS veirunnar tímabundið og því til mikils að vinna. Allar ónæmisaðgerðir hvor heldur er með tímabundnum mótefnum eða bólusetningu (vacciantion) eru kallaðar ónæmisaðgerðir (immunization). Tímabundin meðferð með mótefnum eingöngu getur því aldrei talist bólusetning.
Mikilvægt er að útþynna ekki hugtakið -bólusetningar- sem er ein mikilvægasta heilbrigðisaðgerð okkar almennt séð í dag, ekki síst fyrir börn. Forðast ætti upplýsingaóreiðu eftir fremsta megni um okkar mikilvægustu sóttvarnaraðgerðir, bólusetningarnar og þar sem óreiða er nóg fyrir (meðal annars með slæmri þátttöku í mislingabólusetningum barna, MMR).
Skrifað áður um mótefnalækningar sem gengur undir skilgreiningu á blóðlækningum hér áður fyrr.
 „Blóðvatn nær aðeins til takmarkaðrar tímabundnar meðferðar og er byggð á grunnfræðum ónæmisfræðinnar eins og við skiljum hana í dag, með tímabundinni virkni mótefna (monoklónal) í blóðvatni (sermi) sem annar sýktur hefur framleitt sjálfum sér til varnar (maður eða dýr, t.d. apar eða hestar)), en sem skapar ekkert ónæmisminni hjá þeim sem fær. Blóðvatnslækningar voru reyndar í lækningu á Barnaveikinni (Diptheria), þeim skelfilega smitsjúkdómi, fyrir meira en öld síðan, en sem flest börn eru nú bólusett gegn með varanlegri vörn (bólusetningu með sjálfu smitefninu (veirur og bakteríur) og sem stuðlar síðan að mótefnaframleiðslu sem eitilfrumur líkamans framleiða sjálfar).“

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 19.2.2025 - 17:46 - FB ummæli ()

Hver gaf skotveiðileyfi á innviðaöryggið í dreifðari byggðum landsins?

Gæti verið mynd af van, ambulance og texti Um árið var mikið talað um að styrkja “brothættar byggðir” til að tryggja að land héldist í byggð. Í því fellst mikil menningarleg verðmæti og þar sem saga okkar allra á oft rætur. Þrátt fyrir miklu meiri umferð tengt ferðamönnum og þungaflutningum gegnum héruð, hefur víða hallað stöðugt undan fæti og þótt íbúar geri sitt besta til atvinnusköpunar og í frumkvöðlastarfi í heimabyggð. Öryggisleysi tengt skertri heilbrigðisþjónustu og möguleikanum á öruggum sjúkraflutningum er víða mjög ábótavant og sem samfélagsumræða þessa daganna ber með sér. Skertar flugsamgöngur og lélegir eða jafnvel stórskemmdir vegir lýsa augljósu hættuástandi, ekki síst þegar mest á reynir í lífi okkar og við þurfum hjálp til að komast í öruggt var t.d. vegna bráðra veikinda eða slysa.

Víða um landið er sjúkrahúsþjónusta ekki lengur til staðar og sem kallar á enn fleiri sjúkraflutninga landshorna á milli, ekki síst til Reykjavíkur og nágrennis. Einn sjúkraflutningur af Ströndum getur hiklaust t.d. tekið 8 klst. 250 km hvor leið frá og til Hólmavíkur. Ekkert sjúkraflug er í boði og flugvöllurinn löngu ónýtur. Vegirnir síðan eins og þeir eru og sem takmarkar öruggan akstur, sérstaklega forgangsakstur.

Stundum þarf að fara lengri leið -Suður-Strandaveg- og síðan yfir Holtavörðuheiði og sem lengir þá leiðina suður um 80 km. Þá leið fara þungaflutningarnir í dag frá Ísafirði og Suðurfjörðum Vestfjarða vegna stórskemmdra vega á Vesturlandi og aðeins tímaspursmál hvenær sá vegur eyðileggst einnig. Stundum þarf  að fara í slysaútkall inn í Djúp enda Ísafjörður í 250 km. fjarlægð frá Hólmavík. Eins stundum norður í Árneshrepp, 100 km frá Hólmavík, ekki ósjaldan tengt ferðafólki. Reyndar er sjúkraflugvöllur á Gjögri. Samkvæmt almannavá er eins viðbragð frá Hólmavík í Reykhólahrepp ásamt með Búðardal og um alla Austur-Barðastrandasýslu. Aðeins einn sjúkrabíll í héraðinu öllu og einn læknir, en enginn hjúkrunarfræðingur. Sjúkrahúsið sem áður var starfrækt á Hólmavík er í dag aðeins öldrunarstofnun og þar sem ekki er lengur hægt að leggja inn sjúklinga, jafnvel yfir blánóttina.

Þegar ég byrjaði læknisstörf á Hólmavík í afleysingum fyrir rúmum aldarfjórðungi var íbúatalan áþekk og hún er í dag, en umferðin hins vegar nú margföld um héraðið og þungaflutningar með fisk suður sömuleiðis. Fyrstu árin var starfrækt sjúkrahúsaþjónusta og eins var föst viðvera hjúkrunarfræðings og jafnvel meinatæknis. Þjónusta í almennri móttöku á heilsugælustöðunni hefur þó alla tíð verið stöðug og eins föst viðvera sjúkraliða. Sjúkraflugvöllur var nothæfur allra fyrstu árin mín á Hólmavík. Þyrlur Landhelgisgæslunnar, 2-3, vissulega en til staðar og þegar veður og aðstæður/ísing leyfa. Þær hafa oft bjargað miklu. Sjúkraflutningar með sjúkrabílnum suður hafa hins vegar verið vel yfir 100 á ári – allt að þriðja hvern dag. Þá enginn sjúkrabíll í héraði á meðan og stundum enginn læknir – í allt að 6-8 tíma (reyndar stundum reynt að fá sjúkrabíl á móti sunnan frá). Ekki má heldur gleyma mikilvægu hlutverki björgunarsveitarinnar Dagrenningar á Hólmavík og Bjargar á Drangsnesi.

Hvers eiga brothættar byggðir eins og Strandir að gjalda og þegar nú jafnvel eina flutningsleiðin með sjúklinga suður er um sundurbrotna vegi og sem er þungaflutningum og lélegu viðhaldi fyrst og fremst um að kenna? Hvað má síðan ganga langt í að skera niður sjálfa heilbrigðisþjónustuna og þegar jafnvel líf okkar er í veði?

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Menning og listir

Laugardagur 1.2.2025 - 20:05 - FB ummæli ()

Hin ógnvekjandi nýja „íslenska flóra“ – ESBL

 

Undanfarin misseri hefur verið mikið fjallað um þá ógn sem samfélaginu öllu stafar af vaxandi sýklalyfjaónæmi helstu sýkingavalda mannsins og sem oft eru sameiginlegar bakteríur í flóru manna og dýra (svokallaðar súnur). Colibakteríur og klasakokkar eru nærtækastar. Vandamálið er víða úti í heimi orðið ískyggilegt og víða orðið erfitt og kostnaðarsamt að meðhöndla venjulegar sýkingar eins og t.d. þvagfærasýkingar og sárasýkingar sem þessar hættulegu flórubakteríur geta valdið. Sett hefur verið í gang mikil og kostnaðarsöm áætlun hjá embætti sóttvarna- og landlæknis vegna þessarar lýðheilsuógnar næstu 5 árin (kostnaðaráætlun samtals um 1.7 milljarður króna). Markmiðið er að fylgjast náið með þróuninni og hvetja um leið til skynsamlegrar sýklalyfjanotkunar meðal manna og dýra. Eins með tilliti til hreinlætis og alm. nánara eftirliti með landbúnaðarvörum. Hvetja til góðra hreinlætisvenja tengt erlendum ferðamönnum (þar með talið WC hreinlæti og aðgát varðandi ófullnægjandi fráveita skolps). Sama á við með ráðleggingar fyrir Íslendinga sem dvalist hafa í löndum þar sem sýklalyfjaónæmar sýkingar eru landlægar. Veruleg áhætta er að þeir geti borið með sér heim sýklalyfjaónæmar colibakteríur. Sú ógn sem sýklalyfjaónæmi veldur í dag var til umfjöllunar á nýlegum Læknadögum í Hörpu einn formiðdaginn. Þar kom fram að áætlað er að heildarkostnaður vegna sýklalyfjaónæmis næsta áratuginn í flestum löndum fari vel yfir kostnað vegna krabbameinsmeðferða og fleiri dauðsföll megi þá rekja til slíkra sýkinga en vegna krabbameina. Áætlað er í dag að allt að 5 milljónir sjúklinga deyi árlega vegna ófullnægjandi sýklalyfjameðferðar tengt sýklalyfjaónæmi. Fleiri en dóu t.d. í heimsfarldri Covid19. Því er til mikils að vinna.

Íslendingar hafa áður kynnst faraldri sýklalyfjaónæmra pneumokokka sem eru algengustu bakteríurnar sem valda hættulegum öndunarfærasýkingum og jafnvel blóðeitrunum. Slíkur fjölónæmur stofn var landlægur hér á landi um aldarmótin síðustu, sennilega upprunin frá Spáni og mikið átak gert til að sporna gegn dreifingu þessara sýkla meðal barna sérsstaklega. Stærsti áhættuþátturinn á að fá þessar bakteríur voru nýlegir sýklalyfjakúrar (antimicrobial pressure og selection á flórunni okkar). Síðar komu bóluefnin okkur til hjálpar og flest börn fá í dag ungbarnabólusetningunum. Eins var mikil hvatning að draga úr ónauðsynlegri sýklalyfjanotkun. Sýklalyfjakúrar geta stokkað upp í flórunni okkar og greiða þá um leið aðstæður fyrir sýklalyfjaónæma stofnum að dafna. Taka sér þannig bólfestu ef hún er á annað borð í umhverfinu, t.d. matvælum með snertismiti. Þetta á sérstklega við um þarmabakteríurnar- colibakteríurnar. Þær sem eru fyrir (okkar flóra) verja okkur þannig á vissan hátt gegn nýrri flóru. Nýir óþekktir stofnar valda einning oft meiri ursla eins og við þekkjum tengt svokölluðum ferðamannaniðurgangi. Varðandi sýklalyfjaónæmið að þá erum við hins vegar að tala oft um erfiðar tilfallandi sýkingar löngu seinna. Eins geta genabútar frá þessum sýklalyfjaónæmu stofnum fluttst til annarra colibakteria og sem þá verða líka sýklalyfjaþolnar (horizonal gene transfer). Afskaplega erfitt getur verið að losna við þessar bakteríur alveg úr líkamanum/görninni ef þær á annað borð berast þangað og þar sem þær geta legið í dvala, mánuðum og árum saman og þótt góða flóran okkar nái að dafna aftur að mestu leiti.

Sömu grunnlögmál gilda með dreifingu flestra sýklalyfjaþolinni baktería og ef þær hafa á annað borð hafa myndast með genabreytiningum einhversstaðar í heiminum. Mest þar sem sýklalyfjanotkuni er mest. Ekki er séð fram á að ný sýklalyf komi á markað sem breytt getur stöðunni ferkar en sl. áratugi. Sl. ár hefur sýklalyfjaónæmum colibakteríum fjölgað mjög, ár frá ári víðast hvar. Líkur eru á að vandinn sé að hluta til a.m.k. tilkominn hér á landi vegna innflutnings á erlendum landbúnaðarvörum, einkum kjöti, en líka grænmeti og þar sem jarðvegur er víða sýktur af þessum ónæmu colibakteríum. Uppsprettuna má að öllum líkindum f.o.f. rekja til landbúnaðar þar sem sýklalyf hafa verið mikið notuð til dýraeldis gegnum tíðina. Óhjákvæmilega smitast þessar sýklalyfjaþolnu coligerlar alltaf eitthvað í sláturkjöt þegar dýrinu er slátrað og jafnvel þótt hreinlætis sé vel gætt við slátrun. Sumir áætla að allt að helmingur sláturkjöts innihaldi eitthvað af súnubakteríum og þá einkum colibakteríum. Þessar bakteríur lifa vel flutninga landa á milli og jafnvel þótt frosið sé. Óhjákvæmilega smitast þessar bakteríur síðan alltaf eitthvað í nærliggjandi kjötvörur, í flutningi og í verslunum. Síðan á hendur okkar og barna t.d. í eldhúsinu heima eða jafnvel úr margnota innkaupapokanum vegna lekra umbúða gegnum tíðina. Hingað til hafa upprunavottorð og eftirlit hjá MAST því miður einskorðast að mestu við matareitrunarbakteríur (kamphylobakter og salmonellu) og sem líka geta verið fjölónæmar fyrir sýklalyfjum.

Þar sem flestar colibakteriur eru ekki matareitrunarbakteríur valda þær oftast ekki sýkingum byrjun eins og áður sagði nema þá etv. tímabundnum ferðamannaniðurgangi og ef colibakteríurnar eru mjög ólíkar okkar eigin. Þær blandast flórunni okkar í görnum. Liggja jafnvel þöglar ásamt öðrum colibakteríum mánuðum og jafnvel árum saman. Einn góðan veðurdag geta þær náð sér á strik og eru þá oft valdandi að algengum þvagfæra eða iðrasýkingum hverskonar. ESBL – (extended spectrum beta-lactamase) er þannig fjölónæm colibakteria, þ.e. ónæm fyrir a.m.k. þremur sýklalyfjaflokkum, sem stöðugt er á uppleið í íslensku samfélagi og veldur miklum aukakostnaði. M.a. endurteknum, erfiðum og dýrum sýklalyfjameðferðum (í allt að 10% blóðsýkinga á Íslandi í dag og sem var mjög sjaldgæfar fyrir áratug). Enn sem komið er hafa ESBL bakteríur lítið smitast í íslensk sláturdýr sem betur fer samkvæmt úttekt MAST 2024 eða um 1.4% (væntanlega frá mönnum eða með fóðri). Stundum geta þessar bakteríur verið nær alónæmar, t.d. svokallaðar CPO colibakteríur/ ESBL-CARBA (carbapenemase producing organisms). Slíkar sýkingar eru jafnvel orðnar þær algengustu í erfiðum blóðsýkingum manna í sumum löndum og sem rekja má upphaflega til landbúnaðar í viðkomandi landi. Sýklalyfjaónæmi fyrir hinum ýmsu einstaka sýklalyfjaflokki er annað vaxandi vandamál og sem tengist sennilega meira okkar eigin sýklalyfjanotkun almennt séð.

Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Íslendingar hafa verið það lánsamir að hafa getað notað mjög lítið af sýklalyfjum í landbúnaði alla tíð og meðal þess sem nú best gerist í heiminum. Veðurfar, hreint vatna og önnur skilyrði hafa gefið þessi skilyrði auk þess að við höfum ekki notað sýklalyf til að auka sláturþyngd dýra sem víða er gert erlendis (oft í fóður). Það er því virkilega dapurlegt til þess að hugsa að við flytjum nú inn þetta vandamáli nánast tilbúið og óheft bakdyraleiðina til landsins  með innflutningi á oft vafasömum erlendum landbúnaðarvörum. A.m.k. án nægjanlegs eftirlits á landamærunum. Þannig í bakgarðana okkar að lokum, garnirnar, og þar sem þessar sýklalyfjaónæmu colibakteríur fá að blómstra og bíða síns tækifæris að valda sýkingum. Samlíkingin er stundum góð við lúpínufaraldurinn um land allt eftir að hafa fengið að berast í skrautgarðana okkar í byrjun, fyrst í þéttbýlinu. Vissulega er lúpínan sem slík ekki „ónæm“ fyrir sýklalyfjum, en samsvörunin er hvernig húr getur rutt öðrum flórugróðri úr vegi. Miklu hættulegra er auðvitað þegar um er að ræða okkar eigin nærflóru. Klasakokkar, MÓSAR geta líka smitast með hráu kjöti og mörg dæmi eru um, m.a. með erlendu svínakjöri. Sú klasakokkabaktería fær stundum kjölfestu í nefinu okkar. Sárasýkingar af þeirra völdum getur verið mjög alvarleg og stunum illmeðhöndlanlegar. Að láta sér síðan detta í hug byggja risa kjötvinnslu inn í miðri íbúðabyggð er óskiljanleg ákvörun skipulagsyfirvalda. Mengunarþættir geta verið mýmargir í nærumhverfinu fyrir utan sálræna heilsuspillingu og vöntunar á fallegu umhverfi og sólarbirtu sem umræðan hefur að mestu snúist um.

Vonandi verður í náinni framtíð miklu meira eftirlit á íslensku landamærunum gagnvart þessum innflutningi á dýra-manna súnum með matvælum. Samtök verslunar og þjónustu hefur samt haft hvað minnstar áhyggjur af þessari lýðheilsuógn sem engu að síður beinist nú að okkur eins og flestum þjóðum. Sérfræðingar sem best þekkja til telja að eigi að verjast eins og hverri annarri náttúruvá. Umræðan hefur varla komist að heldur hjá t.d. RÚV ohf. og sem hefur mestar tekjur af auglýsingum frá samtökum verslunarinnar. Endurtekið þannig blásið á eina mestu lýðheilsuvá samtímans að mati flestra alþjóðlegra heilbrigðisstofna og látið markaðslögmálin ein ráða för. Lítil pólitísk mótstaða var eins t.d. þegar EFTA löggjöfin/dómstólinn var látin ráða á Íslandi 2017 samkvæmt ESB ákvörðunum og venjum. Sameiginlegur markaður landa á milli í Evrópu, án hafta, og í engu litið til sérstöðu Íslands og sem átti svo mikið að verja. vegna legu sinnar og góðs íslensks landbúnaðar. Að fá að halda íslensku nærflórunni sem mest í friði.

https://blog.dv.is/vilhjalmurari/2024/02/24/vaxandi-syklalyfjaonaemi-bakteria-i-sameiginlegri-floru-manna-og-slaturdyra-a-islandi/

https://blog.dv.is/vilhjalmurari/2023/03/11/thu-uppsker-eins-og-thu-sair/

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 13.1.2025 - 19:29 - FB ummæli ()

Fuglaflensan og Vatnsmýrin í dag

Engin lýsing tilVið segjum stundum börnum ævintýri og hvernig konungssonurinn leystist úr álögum þegar prinsessan kyssti dauða svaninn í sögunni um Dimmalimm. Ekki það að í dag væru sennilega aldrei skrifuð ævintýri eins og Muggur gerði þegar hann skrifaði eitt frægasta ævintýri nokkurs Íslendings, Dimmalimm (1921). Sagan segir að hann hafi hugsað sér svaninn sem tákngerving íslensku þjóðarinnar sem var undir álögum Dana og kossinn hafi verið sjálfstæðisbarátta okkar Íslendinga og sigur til fullveldis, þótt opinbera sagan hafi átt sér einfaldari skýringar enda Muggur búsettur í Danmörku. Enginn myndi heldur þora að kissa dauðan fugl í dag af hræðslu við að smitast af fuglaflensu.

H3N2 stofninn (vetrarinflúensan sem nú er í gangi) er mjög smitnæmur sjúkdómur milli manna, og inflúensan almennt eins meðal anarra dýra. Erfitt er að fullyrða um smitmöguleika milli þessara lífvera sín á milli. Frá mönnum í dýr eða öfugt, frá t.d. fuglum og köttum í menn. Oft þarf aðeins litla genabreytingu/stökkbreytingu (antigen drift or shift) svo það verði. Oftast er manneskjan lokahlekkurinn meðal spendýra. Svínainflúensan 2009 (N1H1 – sami grunnstofn og olli spænskuveikinni 2018) er talin mögulega  kominn frá svínum – áður etv. frá fuglum og í svínin. Út braust heimsfaraldur þannig þegar svínainflúensustofninn hafði undirgengist „antigen drift“ og fór þá að vera mjög smitnæmur milli manna. Nýir stofnar geta eins alltaf komið upp og sagan sannar.

Fuglaflensustofninn nú er að stofni H5N5 og sem ekki hefur greinst í köttum áður í heiminum, fyrr en nú á Íslandi fyrir jól og aftur nú nýlega. Sá stofn hefur heldur enn sem komið er ekki orðið smitnæmur milli manna. Það gæti gerst með meiri breytinu antingen shift- þ.e. stökkbreytingu væntanlega -eða með samblandi erfðaefnis veira sem sýkt hefur einstakling á sama tíma, þ.e. vetrarflensunni (H3N2) og fuglaflensusmiti (H5N5)
Fólk getur orðið mjög alvarlega veikt ef smitast beint frá fugli eða ketti sem er alltaf möguleiki þótt ólíklegt sé að það smit dreifist milli manna í byrjun. Dánarhlutfall er þá allt að 50%!

Engin lýsing tilNú bíðum við eftir endanlegri stofngreiningu á inflúensunni sem drepur gæsirnar í Vatnsmýrinni – Væntanlega H5N5 og hefur fyrir verið að greinast hér á landi einkum í gæsum og álftum í vetur og því vonandi sami stofninn. Sá stofn er hinsvegar einnig farinn að smita ketti hér á landi sem er einstakt á heimsvísu og því mögulegt að fari að styttast í mannainflúensu og þar með nýjum heimsfarldri (ólíkt verður samt að teljast að það gerist á litla Íslandi, en maður veit ekki!) Og eins og áður sagði hefur H5N5 stofninn ekki greinst í köttum annar staðar í heiminum, sem nánr tiltekið er með mótefnavakan N5 og sem er mjög sérstakt.

Engin lýsing tilRáðlegg því fólki sem er með veikan kött á heimilinu og sem haft hefur áður frjálsa útigöngu, en sem fær síðan ILI (inflúenslík einkenni) að það láti taka PCR póf (svipað og gert var í Covid19 faraldrinum). Svar gæti verið komið degi síðar. Eins er auðvitað skynsamlegar að hefta frjálsa útigöngu katta tímabundið strax eins og reyndar yfirvöld mæla með í dag.

https://www.cdc.gov/flu-in-animals/index.html

Fuglaflensur og uppruni kjötsins

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · útivist

Mánudagur 16.12.2024 - 18:09 - FB ummæli ()

„Heilsugæslan“ líka í apótekið!!

Engin lýsing til

 

Fáfræði almennings þegar kemur að vitneskju um rétta lyfjanotkun er mikil hér á landi og krafan á bráðalausnir er meiri en í nágranalöndunum. Skortur á heilsugæsluþjónustu á daginn, en áhersla á skyndiþjónustu og lausnir í apótekunum á kvöldin ræður þar miklu um. Allskyns kúrar þrífast sem og pýramídasölukerfi þar sem maður er settur á mann og sem skýrir ágengnina í sölumennskunni. Sem oft eru í besta falli peningaplokk, en í versta falli hættulegt kukl. Skrifað grein fyrir áratug um sölu lausasölulyfja apótekanna og þar sem allt stendur við það sama í dag.   https://blog.dv.is/vilhjalmurari/2014/01/24/virusar-i-apotekinu/   Mitt doktorsnám var gæðaþróunarverkefni í skynsamlegri notkun lyfja og voru sýklalyf sérstaklega fyrir valinu og þar sem mátti meta samfélagslegar afleiðingar ofnotkunar. Mikilvægast var að ræða kosti og galla lyfjameðferðar áður en hún hæfist miðað við sjúkdómsástand og einkenni. Fræðsla um eigið heilbrigði og forvarnir var mikilvægt. Standa átti vörð um of mikil áhrif auglýsinga á lyfjamarkaði og í fjölmiðlum.

Lyfjafræðingar sækjast nú í vaxandi mæli að leysa af hólmi heilsugæslulækna og afgreiða lyfin án aðkomu lækna. Þekking í sjúkdómafræði hins vegar lítil sem engin á þeim bæ. Söluhagnaðarvon ræður mestu og þar sem þeir vilja ávísa lyfjum um leið og þeir selja. Ýmislegt getur fylgt með í kaupunum að ósk viðskiptavinarins. Nýlega birti heilbrigðisráðuneytið á síðu sinni innan stjórnarráðsins, skýrslu starfshóps á vegum heilbrigðisráðuneytis sem er ætlað að vera stöðumat á lyfjafræðilegri þjónustu íslenskra apóteka, svokölluð „hvítbók“. https://samradapi.island.is/api/Documents/43ff6389-3db6-ef11-9bc8-005056bcce7e

Þar er rætt m.a að það skuli stefnt að meiri samvinnu og ráðgjöf við lækna og um skerpingu á mikilvægi fræðslu um lausasölulyf sem er gott. Eins nú með innleiðingu miðlægs lyfjakorts og þar sem skráning á lyfjum er sú sama í heilsufarssjúkraská einstaklings og á lyfjalista apótekanna. Lyf eru þar flokkuð sem föst lyf og sem má endurnýja eftir þörfum, en helst með aðkomu læknis álega eða sem lyfjakúrar sem ekki eru endurnýjanleg nema eftir nýtt læknisfræðilegt mat. Eins svokölluð PN lyf og sem má leysa út aftur og aftur við ákveðnar skilgreindar aðstæður.

Lyfjafræðingar fá heimild til að ávísa ákveðnum lyfjum og apótek verða fyrsti viðkomustaður í veikindum samkvæmt tillögunum. Formaður Lyfjafræðingafélagsins segir lyfjafræðinga í apótekum lengi hafa beðið eftir þessu. Í fyrsta áfanga sem getur hafist strax eru lagðar til ýmsar breytingar sem sagðar eru myndu stuðla að meiri skilvirkni í heilbrigðiskerfinu, til að mynda með því að veita lyfjafræðingum heimild til að ávísa ákveðnum lyfjum fyrir minniháttar heilsufarsvandamál og endurnýja lyfjaávísanir. Í öðrum áfanga, sem á að hefjast innan þriggja ára, er lagt til að lyfjafræðingum verði heimilt að endurnýja lyfjaávísanir og að þeim verði veitt heimild til útgáfu lyfjaávísunar í neyðartilfellum. Í þriðja fasa eiga apótek til dæmis að verða fyrsti viðkomustaður, til að létta álag á heilsugæslu og bráðadeildum.

Margir læknar misstu hökuna í gólfið eins og Már Egilsson heilsulæknir lýsir í grein sinni á Vísi um helgina. Sér í lagi við lestur svokallaðs „þriðja áfanga“ í skýrslunnar. Ekki er einungis tekið skref aftur á bak þegar kemur að hagsmunaárekstrum, heldur einnig gert lítið úr kröfum á menntun og reynslu sem þarf til að greina og meðhöndla sjúkdóma. https://www.visir.is/g/20242663608d/lyfsalar-og-heilbrigdisraduneyti-i-bergmalshelli-

Enginn læknir var hafður með í starfshópi heilbrigðisráðuneytisins við gerð hvítbókarinnar svokölluðu..!!

Með hvítbókinni svokölluðu á að notfæra sér helbrennt heilbrigðiskerfi og “moka öskunni í eldinn”, í stað þess að slökkva elda. Ofnotkun margra lyfja, ekki síst lausasölulyfja hefur verið stór hluti oflækninga í dag. Nú á síðan að bæta í og gefa lyfjafræðingum möguleika á að reka eigin heilsugæslu innan apótekanna, skrifa út lyfseðla og selja síðan lyfin sjálfir. Söluhagnaðardrifinn markaður sem kann ekki góðri lukku að stýra fyrir lýðheilsuna og þar sem söluaðilinn, apótekarinn, er beggja vegna borðs. Gjaldfelling læknisfræðinnar á Íslandi að mínu mati, sér í lagi hvað lyflæknisfræðina varðar. Kannski eitthvað í ætt við grasalækningarnar forðum og þegar hver var oft sjálfum sér næstur með lyfjablöndur hverskonar.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál

Föstudagur 29.11.2024 - 09:53 - FB ummæli ()

Kreppur í þjóðarkroppnum

Engin lýsing til

Langafjara – Sólmundarhöfði, Akranesi á aðventu

Sennilega má líkja heilbrigðiskerfinu okkar í dag við aldraðan sjúkling sem endurtekið hefur þurft að leita á Bráðamóttöku háskólasjúkrahússins (BMT LSH) til lækninga og hjúkrunar vegna úræðaleysis annars staðar. Án þá heildrænna lausna og möguleika á samfelldri þjónustu. Háþrýstingur, verkir, svimi og mæði eru meðal helstu líkamlegu einkenna sjúklingsins.

Löngu fyrr hefði mátt bregðast við vandanum og ef tímar fengjust fengjust í heilsugæslunni eða heimaaðhlynningu. Streita og vöðvabólgueinkenni ásamt kvíða og þunglyndi eru annars meðal algengustu ástæðna þeirra sem leita til heilsugæslunnar, ásamt öllum lýðheilsusjúkdómunum. Flest allt einkenni sem oft eru í bland við þjóðfélagsleg vandræði og kapphlaup um tímann. Við þurfum að geta meðhöndlað sjúklingana okkar eins og við best getum.
Mörg úrræði eru til boða. Eitt að því algengasta gegnum árin hefur verið að kenna sjúklingum mikilvægi teygjuæfinga til að losna við vöðvahnúta og festumein. Sál-líkamlegu einkennin og hvernig hugur og hönd tala saman. Það þarf oft að teygja á þjóðarkroppnum með allar sínar kreppur. Láta handleggina dingla í allar áttir og finna með fingurgómum hinnar handarinnar hvar þá hnútarnir og strengirnir liggja. Öruggasta ráðið gegn spennuhöfuðverknum. Að kunna að spila á fiðluna sína, sjálfum sér til heilunar. Lengja í vöðvunum og slaka á spennunni í festingunum.
Nú þarf að velja vinstri eða hægri hönd fyrir komandi alþingiskosningar. Best að finna nákvæmlega hvar strengirnir liggja. Hagsmunir heilbrigðiskerfisins eru í húfi og við öll læknirinn. Mörg okkar líka orðin gömul og þar sem spennuhöfuðverkurinn er augljós og alltaf að versna. Samfylkingin nálgast að mínu mati þjóðareinkennin best með sinni stefnumótun í heilbrigðismálum til framtíðar. Eins í flestum öðrum málaflokkum sem snerta félagslegt heilbrigði og lýðheilsu almennt. Missum ekki af þeirri lækningu.
Sent 3m ago

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn