Miðvikudagur 19.08.2015 - 13:49 - FB ummæli ()

Að kasta krónunni, en spara síðan aurinn í heilbrigðiþjónustunni?

krónan

Heilbrigðisástand þjóðar hlýtur alltaf að vera afstætt hugtak og þar sem við sjáum t.d. í dag víða hörmulegt ástand erlendis og sem stendur fortíðinni hér heima miklu nær en nútíðinni. Af sögunni má best sjá hvað hefur áunnist á síðustu öldum, og vissulega eru sumar heilsuhagtölur í dag góðar miðað við önnur lönd, eins og fæðingardánartíðni og meðalaldur. En mikill vill oft meira og víða förum við nú offarir, gerum jafnvel meira ógagn en gagn. Grunnheilsugæslan og forvarnir sem áður gegndu þýðingarmesta hlutverkinu er nú að víkja í skuggann og sem hlýtur að vera líka umhugsunarvert.

Kostnaður ríkisins í heilbrigðiskerfinu er vissulega hár. Hlutdeild hvers þáttar þar eru flóknir, en þar svokallaðar hátæknilækningar, dýrar rannsóknir og dýr lyf skipa orðið háan sess. Mörg stjórnmálaöfl telja nú að ásættanlegu hámarki hvað varðar ríkisútgjöldin hafi þegar verið náð, jafnvel þótt töluvert vanti enn upp á að greiðslur til kerfisins alls sem hlutfall af þjóðartekjum jafnist á við það sem best þekkist í löndunum í kringum okkur. Ef að hið opinbera heilbrigðiskerfi sé orðið of dýrt, verðum við sjálf þá ekki að fara að taka á okkur aukna ábyrgð og fjárskuldbindingar, þar á meðal í læknishjálp og lyfjakostnaði? En verða ekki þá einkavæddar úrlausnir og dýrustu lyfin jafnframt aðeins í boði fyrir þá efnamestu?

Sóknarfæri geta hins vegar skapast með því að nýta fjármagnið betur sem þegar fer í heilbrigðiskerfið í dag, m.a. í betri forgangsröðun verkefna og stjórnun. Fjármagn til heilsugæslu og forvarna nemur t.d. aðeins tæpum 4% af heildarútgjöldum til heilbrigðisþjónustunnar allrar í dag (um 3.5 milljarðar króna), að undanskildum lyfjakostnaði (Guðmundur Löve, Stóra myndin í heilbrigðismálum , SÍBS blaðið febrúar 2015). Þjónusta sem stöðugt er undir niðurskurðarhnífnum og sálfræði- og félagsráðgjafahjálp oftast ekki í boði. Almenningur getur auðvitað í gegnum stjórnmálaöflin og kosningar krafist hærri og sambærilegra greiðsla til heilbrigðiskerfisins (sem hluta af þjóðartekjum) og sem aðrar þjóðir gera sem við berum okkur gjarnan saman við. Eins í ljósi smæðar þjóðarinnar og þar sem menntun og rekstur heilbrigðiskerfis hlýtur að vera óhagstæðari en hjá mikið fjölmennari þjóðum.

Öldrunarmálin eru víða í dag í ólestri og einföld vandamál oft leyst með skyndiúrræðum eins og stöðugt er í fréttum. Algengustu heilsufarsvandamál ungbarna einnig og sem tengjast loftvegasýkingum sem oftast eru leyst á vaktþjónustum úti í bæ og þar sem ekki er hægt að fara eftir alþjóðlegum leiðbeiningum varðandi fræðslu og eftirfylgd algengustu meina barna. Kostnaður vegna lyfja er mikill en sem má víða minnka með markvissari notkun. Eins þá til að forðast hugsanlegum heilsuspillandi áhrifum sumra lyfja og jafnvel óafturkræfra breytinga eins og t.d. í sýklaflórunni okkar þar sem sýklalyfin koma oft við sögu meðal manna og dýra. Þar sem ég þekki best til og fær sífellt meira vægi í skilningi á allri innri stjórnun mannslíkamans. Mál sem Alþjóðlega heilbrigðisstofnunin (WHO) telur líka eina mestu heilbrigðisógn jarðabúa í dag og þegar sýklalyfin hætta að virka.

Mikil áhersla er nú lögð á að byggja nýtt hátæknisjúkrahús við Hringbraut, meðal annars með enduruppbyggingu gömlu húsanna á aðþrengdu Landspítalalóðinni. Reiknað hefur verið út að þær framkvæmdir geti kostað tugi og jafnvel 100 milljarða króna meira en að byggja nýjan spítala frá grunni á betri stað, meira miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu. Erfðavísindin er af sumum hér á landi talin helsta von mannkyns til bætts heilbrigðis, en því miður nú á sama tíma og grunngildum mannlegs íslensks samfélags er ekki sinnt sem skyldi (takk samt Kári fyrir jáeindaskannann). Heilbrigðisstjórnun hvað góð manneldissjónarmið varðar er að síðustu kapítuli út af fyrir sig og þar sem markaðslögmálin virðast ráða mestu, þar á meðal í stórmörkuðunum og hjá gosdrykkjarframleiðendum. Staðreyndir sem sjást best í gífurlegri sykurneyslu landans, einni algengustu ástæðu offituvandans í dag, tannskemdum meðal barna, sykursýki meðal fullorðinna og hækkandi dánartíðni í framtíðinni.

Hér hefur aðeins verið minnst á nokkra þætti í heilbrigðiskerfinu sem leiða til mikils óþarfa kostnaðar fyrir íslenskt þjóðfélag síðar meir og sem má koma í veg fyrir. Ástand sem má bæta fyrst og fremst með skýrari hugsun og markmiðum. Með skynsamlegri heilbrigðisstjórnun og forgangsröðun fjármuna til heilbrigðismála öllum til heilla, ekki síst heilsugæslu, með byggingu skynsamlegra sjúkrastofnana og meiri forvarna á breiðum grundvelli. Að við spörum ekki alltaf aurinn en köstum síðan krónunni.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn