Fimmtudagur 15.3.2018 - 23:08 - FB ummæli ()

Þróttmiklir á Ströndum

    Skíðaganga Strandamanna um síðustu helgi

Lífsgæði er afstætt hugtak. Heilsa og atvinnutækifæri skipa þar a.m.k. stóran sess. Í mesta þéttbýlinu er vissulega mikið meira um atvinnutækifæri og menntunarmöguleika. Ókostirnir eru hins vegar stressið, mengunin og jafnvel félagsleg einangrun í öllu fjölmenninu.

Lækna- og heilbrigðisvísindin leita nú allra ráða að fá almenning til að stunda heilbrigðari lífstíl vegna lífstílsvandamálanna sem eru að sliga heilbrigðiskerfið. Að margra mati er heilbrigðiskerfið langt í frá að koma á móts við þarfirnar og sem þar að auki er farið að molna. Erfiðara er að fá þjónustu, jafnvel í heilsugæslunni og sjúklingar sem hafa efni á, kaupa sér einkarekna heilbrigðisþjónustu. Gamla fólkið víða á vergangi í kerfinu, með ótal skammtímalausnir og heimsóknir á bráðamóttökur á bakinu.

Samt er það svo að fólk leitar alltaf meira og meira í þéttbýlið. Oft á kostnað almenns heilbrigðis og bestu nærþjónustunnar. Það er a.m.k. mín reynsla á Ströndum. Þar sem samfélagið er samheldið og stress yfirleitt víðsfjarri. Gott aðgengi samdægurs að grunnheilbrigðisþjónustu og öldrunarvistunarmál nær eingin. Greitt aðgengi að hvíldarinnlögnum og heimaþjónustan til fyrirmyndar, ólíkt því sem er í höfðborginni. Stabíl þjónusta alla daga ársins eins og ég hef best kynnst sl. áratugi.

Umhverfið er ægifagurt og stórbrotið á Ströndum. Við sjóinn og fjöllin, svo vítt sem augað eygir. Hreint loft og gott veðurfar í öllum almennum skilningi. Útivistarmöguleikar óteljandi til sjós og lands. Góð nýtískuleg sundlaug og stórt íþróttahús og félagsmiðstöð. Golfvöllur og mjög virkt Skíðagöngufélag Strandamanna. Varla hægt að biðja um mikið meira.

Gamli snjótroðarinn Fúsi, skírður eftir Sigfúsi Ólafssyni lækni.

Forveri minn, Sigfús heitinn Ólafsson, læknir var frumkvöðull í heilsurækt seint á síðustu öld á Hólmavík og beitti sér fyrir henni hvar sem við var komið. Stofnaði gönguhópa og stóð fyrir gerð göngustíga. Fyrir eru allar gönguvörðurnar á heiðunum. Hann stóð fyrir gerð golfvallar við Skeljavík og stofnaði Golffélag Strandamanna. Áður hafði hann stofnað skíðafélagið. Keypti sjálfur snjótroðara. Farandsbikar gönguskíðafélagsins sem heilbrigðisstofnunin gaf upphaflega, Sigfúsarbikarinn, var veittur sigurvegara Strandagöngunnar 2018 um síðustu helgi. Þar sem um hundrað manns á öllum aldri tóku þátt inn í Selárdal. Til hamingju allir Strandamenn og með ykkar góða samfélag.

 

 

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Íþróttir · Lífstíll · Menning og listir · Stjórnmál og samfélag · útivist

Þriðjudagur 13.3.2018 - 21:38 - FB ummæli ()

Stórkostlegar Strandir og hátt til lofts

Vaxtarhyrna, Kambur, Kaldbakur og Lambatindur lengst til hægri í síðustu viku.

Náttúran á Ströndum lætur ekki að sér hæða og sem leiðir hugan að mannanna verkum og stærstu byggingaframkvæmdunum. Á þjóðargjöfinni stærstu, sjálfu nýju þjóðarsjúkrahúsi en þar sem vinstri höndin virðist ekki vita hvað sú hægri gerir. Óháð stað og sund og síðustu pistlar greina frá. Allt komið í stóran rembihnút, en sem engu að síður telst minn framtíðarvinnustaður ef mér endist aldur.

Á leið minni til Norðurfjarðar frá Hólmavík í allt öðrum lækniserindum í vetur tók ég nokkrar myndir. Stórum gimsteinn íslenskrar stórhuga náttúru sem ræður sér sjálf, ólíkt oft þjóðarviljanum í sínum mikilvægustu málum! Heppinn ég að fá að hvíla hugan og getað séð hluti í allt öðru ljósi. Líka þegar læknar fagna 100 ára afmæli Læknafélag Íslands, fjarri menningalegri dagskrá félagsins þessa daganna í mesta þéttbýlinu.

Kambur og Kaldbakur við Veiðileysufjörð og Lambatindur

 

Reykjaneshyrna og Örkin

 

Drangaskörð og Ófeigsfjörður á leið minni til Norðurfjarðar á snjósleða í byrjun febrúar.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag · útivist

Mánudagur 5.3.2018 - 16:11 - FB ummæli ()

Með RÚV í rassvasanum í þokkabót

Sennilega eru fá mál merki um meiri þöggun í íslenskri stjórnmálasögu en áætlanir um byggingu Nýs þjóðarspítala sem átti þó að vera þjóðargjöfin okkar stærsta á þessari öld. Þar sem gagnrýni og ábendingar um brostnar forsendur upphaflegs staðarvals frá síðustu öld eru hundsaðar, ekki síst nú sl. 3-4 ár og fréttabann hefur ríkt hjá ríkisfjölmiðlinum okkar allra, eða sem átti að heita svo, RÚV. Sennilega skýrist þetta af þverpólitísku flækjustigi og þar sem sjálft Alþingi lét heilaþvo sig 2014. Allir voru sammála um nauðsyn nýs þjóðarspítala, bara ekki um staðsetningu á þröngri Hringbrautarlóðinni, endurgerð hálfónýtra húsa, framtíðar þróunarmöguleika. Ekki síður stórkostlega skertu aðgengi fyrir sjúklinga og aðstandendur þeirra, sjúkraflutninga hverskonar og starfsmenn sem flestir búa á höfuðborgarsvæðinu öllu. Eins var reiknað út af Samtökum um betri spítala á betri stað (SBSBS) að miklu hagkvæmara og fljótar var að klára nauðsynlega uppbyggingu með fullkláraðan spítala á opinni og góðri lóð og þar sem ekki væri truflun á framkvæmdatíma á fyrirliggjandi starfsemi. Eins mikill sparnaður í rakstrarhagræði í góðri byggingu undir sem mest einu þaki, en ekki í tugum húsa með milligöngum.  Þegar allt er lagt til gæti sparnaður á framkvæmdinni munað um helming (um 100 milljarða króna) miðað við fyrirliggjandi Hringbrautarframkvæmdir næsta áratuginn. Þá eru ekki reiknaðar 100 milljarða króna nauðsynlegar samgöngubætur eftir á, til að geta skapað lágmarks aðgengi að framtíðarspítalanum á Hringbraut.

Alvarlegasti hlutinn að mínu mati og sem snýr að almannaöryggi eru stórhættulegar áætlanir um þyrlulendingar á fyrirhuguðum palli á 5 hæð rannsóknarhúss við hlið Meðferðarkjarnans sjálfs og sem fyrirliggjandi áætlanir gera ráð fyrir. Þar sem áætlanir eru nú um þétta byggð allt í kringum spítalann og sem þegar eru hafnar t.d. á Valslóðinni, er þannig ekki gert ráð fyrir neinum opnum öryggissvæðum við spítalann. Áætlanir SPITAL hópsins 2011 og sem lét hanna pallinn gerðu ráð fyrir að hann yrði aðeins notaður 4-10 sinnum á ári og þá aðeins í neyð!!  Vegna aðstöðuleysis var auk þess gerð krafa um 2-3 mótora þyrlur sem geta haldið hæð ef vélarbilun verður í einum mótor og komið sér til næsta lendingarstaðar. Allt að 20 tonna þyrlur og sem auðvitað geta bilað alvarlega við lendingu vegna annarra hluta eða bruna. Allir sjá hvaða stórslysahættu verið er að bjóða upp á. Upphaflega var þó gert ráð fyrir hugsanlegu aðflugi yfir neyðarbrautina svokölluðu og Valslóð sem nú er lokuð. Áætlanir í dag gera hins vegar ráð fyrir þörf á allt að daglegu sjúkraflugi til spítalans og þar sem hver mínúta getur oft skipt máli. Sjálfskaparvíti myndu margir segja og sem væri algjörlega óþarft ef spítalanum væri valinn betri staður. Það sem merkilegast er að ekkert nýtt áhættumat hefur verið gert eftir að neyðarbrautinni var lokað og byggingaframkvæmdir hafnar á Valslóðinni eftir 2012!!

Skoðanakönnun Fréttablaðsins í síðustu viku sýndi að 55% borgarbúa sem afstöðu tóku, vilja annan stað en Hringbraut fyrir nýjan þjóðarspítalann. https://www.frettabladid.is/frettir/join-klofin-i-afstoeu-til-nja-spitalans

Ég vil vísa í fyrri pistla og fésbókarsíðu SBSBS sem tæplega 10.000 manns styðja vegna þessa máls alls saman og sem aldrei hefur mátt ræða opinberlega með ábyrgum aðilum, ef undan er skilinn fundur SBSBS fyrir síðustu kosningar í Norrænahúsinu og fulltrúi Nýs spítala hélt gamla tölu um gömlu áformin eingöngu. Hins vegar hafa verið endurteknar grófar athugasemdir um persónur okkar í SBSBS frá stjórnarmanni Spítalans okkar sem eru áhugamannasamtök um Hringbrautarverkefnið og sem fram kom í síðasta pistli. Dauðaþögn annars á þeim bænum þótt skoðanakönnun í síðustu viku í Fréttablaðinu sýndi að meirihluti borgarbúa styðja, í raun nýja staðarvalsathugun strax og þannig þingsályktunartillögu Miðflokksins sem nú liggur fyrir Alþingi. Til að koma megi í veg fyrir skipulagsmistök aldarinnar og stórtjóni, okkar allra vegna. Mál sem ekki hefur mátt ræða sl. ár hjá RÚV, nema þegar tekin eru viðtöl við stjórnmálamenn eða fulltrúa verkefnisins sem keyra vilja verkið áfram, hvað sem tautar eða raular. Kvartaði reyndar í fyrra við stjórnarmann RÚV sem sagði að stjórnin hefði ekkert með ritstjórn fréttastofunnar að gera! RÚV ohf. er reyndar opinbert hlutafélag með pólitískri stjórn svipað og Nýr Landspítali ohf. Tvö af níu slíkum fyrirtækjum og sem ekki er ólíklegt að gæti hagsmuna hvors annars. Hafði reyndar þegar fengið bréf ritstjóra Kastljóss fyrir tæpum 3 árum sem staðfesti að það væri svo litið á innan stofnunarinnar RÚV ohf að ekki ætti að rugga Hringbrautarverkefninu meira!!

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 27.2.2018 - 10:36 - FB ummæli ()

Brostnar meginforsendur þjóðarsjúkrahússins nýja á Hringbraut!

Töluvert hefur verið fjallað um staðsetningu nýs þjóðarspítala á Hringbraut, sérstaklega eftir þingsályktunartillögu Miðflokksins um endurmat á fyrri staðarvalsákvörðun á Hringbraut og sem Alþingi samþykkti 2014. Mál sem stjórnvöld hafa viljað þagga algjörlega niður sl. 3 ár og sem lagt hefur verið jafnvel fréttbann á, á ríkisfjölmiðlinum RÚV ohf. Verkefnið hefur reyndar tekið langan tíma að þróast frá síðustu öld, en sem að lokum er komið í algera sjálfsheldu og flestar fyrri forsendur brostnar. Þrjóska og stolt þeirra sem unnið hafa hvað mest að verkefninu hjá Nýjum Landspítala ohf. er sennilega um að kenna, í upphafi sjálfsagt með eitt gott í huga.

Frá byrjun voru það hagsmunir HÍ að hafa flaggskipið sem næst Vatnsmýrinni, og áður en við síðan gengum inn í tölvuöld. Nú hafa hins vegar aðalhagsmunir almennings verið látnir víkja, aðgangur og gott spítalaumhverfi, með ófyrirséðum alvarlegum afleiðingum. Alvarlegasti hlutinn snýr að aðgengi sjúkraflutninga, bæði af landi sem og úr lofti. Ekkert nýtt áhættumat einu sinni á þyrluflugi til spítalans eftir að þyrlupallur var hannaður á 5 hæð sjúkrahússins og sem gerði ráð fyrir aðeins 4-10 lendingum á ári!!. Hér erum við líka að tala um eina dýrustu ríkisframkvæmd Íslandssögunnar sem reyndar þegar hefur kostað hátt í 5 milljarða króna í undirbúningi og með byggingu „sjúkrahótels“!!. Í og með stóraukinn kostnaður vegna þess að ráðamenn hafa ekki viljað hlusta á þjóðina og starfsmenn og allar skoðanakannanir styðja. Óskir þjóðarinnar á þjóðargjöfinni okkar allra á 21 öldinni virtar að vettugi.

Óháðir fréttamiðlar, sérstaklega fésbókin (SBSBS) og aðsendar greinar í blöðum sem gjarnan eru þar líka birtar, hafa haldið málefnalegri gagnrýni á lofti. Varaformaður Spítalans okkar (Nýs Landspítala á Hringbraut) og formaður allsherjar- og menntamálanefndar Sjálfsstæðisflokksins, Þorkell Sigurlaugsson, kallar þessar síðu mestu falsfréttamiðil landsins og að það séu samantekin ráð ráðamanna að svara ekki gangrýni okkar, nú eftir að Alþingi hefur lagt blessun sína á gjörninginn. Stuðningshópur SBSBS eru samt menn og konur sem hafa engra sérhagsmuna að gæta, heldur vilja aðeins gæta hagsmuna almennings. Þar á meðal eru læknar, hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar skipulagsfræðingar, arkitektar, viðskiptafræðingar. Þessa aðila hefur Þorkell eining kallað „lygara og fólk með athyglissýki (populista)“.

Ítarleg rök hafa samt verið lögð fram um óhagkvæmni þess að byggja þjóðarspítalann eina á Hringbraut (sem margir stuðningsmenn Hringbrautarverkefnisins eru farnir að kalla millileik!). Eins varðandi augljósu skertu aðgengi á alla vegu, sem og framtíðarþróunar spítalans. Til að hann geti verið í fremstu röð jafninga nýrra spítala sem verið er að reisa nú á Norðurlöndunum, t.d. í Danmörku. Kostnaður á lagfæringum á mygluðum eldri húsum á Landspítalalóð er síðan stórkostlega vanáætlaður í fyrri útreikningum til að fegra dæmið. Eins fyrirsjáanlegt rekstararóhagræði í óteljandi húsum sem tengd eru saman með göngum á alla vegu. Sparnaður með staðsetningu á besta stað undir einu þaki ef svo má segja, gæti hins vegar farið langt með að borga upp lántökukostnað slíkra framkvæmda á hálfri öld miðað við áframhaldandi framkvæmdir nú á Hringbraut og reiknaður hefur verið út.

Fullyrðingar um falsfréttirnar sem Þorkell getur um í sinni gagnrýni m.a. á fésbók SBSBS , er þó ástæða skrifanna nú og eins til að benda á hvernig megin forsendur/skilyrði fyrir framkvæmdum á Hringbraut voru sniðgengnar, með leyfi Alþingis. Enn ein upprifjunin á málinu stóra og sem sekkur dýpra og dýpra og sem stefnir nú í að jafnast á við Icesave skuldina frægu um árið, að lokum. Til upprifjunar vil ég bara benda á síðustu stjórnsýsluúttekt á staðarvali á Hringbraut sem sem gerð var fyrir heilbrigðisráðherra í febrúar 2008. Nefnd um fasteignir, nýbyggingar og aðstöðu heilbrigðisstofnana (sem byggðist að miklu leiti á fyrri staðarvalsskýrslum). þar segir m.a.;

„Á undanförnum árum hafa oft heyrst raddir um að staðsetning nýs háskólasjúkrahúss við Hringbraut væri ekki ákjósanleg, einkanlega með tilliti til umferðarflæðis. Nefndin ákvað því að skoða sérstaklega þennan þátt í undirbúningi verksins og kanna hvort einhverjar þær aðstæður hefðu breyst þannig að ástæða væri til breyta frá því sem áður hafði verið ákveðið“

Síðan segir í ályktunum;

„Tryggja þarf öruggar samgöngur úr suðri með því að flýta lagningu leiðar um Hliðarfót við Öskjuhlíð eins og Aðalskipulag Reykjavíkur og Svæðisskipulag höfuðborgarinnar gerir ráð fyrir. Sá vegur þarf að vera tilbúinn þegar stafsemi spítalanas flyst úr Fossvogi.“

Eins segir;

„Gert verði ráð fyrir lendingarstað fyrir þyrlu við nýja samgöngumiðstöð og farið rækilega yfir hvort hægt verði að komast hjá því að staðsetja þyrlupall ofan á spítalabyggingunum“

Nýtt aðalskipulag Reykjavíkurborgar AR 2011-2030 gerðu þessar áætlanir að engu og sem reiknuðu með að einkabíllinn væri nánast útdauður. Tóku auk þess af framtíðarsvæði SV spítalalóðarinnar (neðan nýju Miklubrautarinnar) við enda gömlu neyðarbrautarinnar og sem hugsanlega hefði getað orðið ásættanlegur staður til þyrlulendinga (sem í dag eru áætlað að geti verið þörf á nánast daglega). Þriðja aðalforsenda fyrir upphaflegu staðarvali var svo Reykjavíkurflugvöllur og sem sennilega er á förum um svipað leiti og Nýr landspítali á Hringbraut verður tilbúinn.

Megin grunnforsendur fyrir síðasta faglega staðarmatinu á þjóðarsjúkrahúsinu voru bara strikaðar út með pennastriki, aðgengismál sett í sjálfsheldu og spítalaumhverfinu sjálfu jafnvel sköpuð stórslysahætta. Forsendur sem liggja til grunnmats staðarvali þjóðarspítala eiga auðvitað að vera tilbúnar og klárar áður en verk er hafið, ekki „hugsanlega“ löngu eftir á. Um þetta fjallar þingsályktunartillaga Miðflokksins m.a. nú. Skoðum því allt málið að nýju og fáum stjórnvöld til að hætta að berja hausnum í steininn. Og að Alþingi, aflétti a.m.k. einni alvarlegustu þöggun stjórnvalda í seinni tíð á opinberri nauðsynlegri umræðu í ríkisfjölmiðlum.

http://betrispitali.is/wp-content/uploads/2015/06/Skýrsla_LSH_Febrúar2008.pdf

 

 

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 8.2.2018 - 12:31 - FB ummæli ()

Björgum óbyggðum þjóðarspítala STRAX frá Hringbraut

Megin forsendur fyrir upphaflegu staðarvali nýja þjóðarsjúkrahússins á Hringbraut sem ráðamenn kappkostað að lofa, hrynja nú eins og spilaborgir. Umferðarsamgöngubætur vestur í bæ á nú að redda langt eftir á með ærnum tilkostnaði m.a. nýjum stokk undir Hlíðarhverfið við Miklubraut til að koma fólki í vinnuna á morgnana og heim aftur á kvöldin ásamt Borgarlínu fyrir yfir 100 milljarða króna, en ekki fyrr en 5-10 árum eftir að fyrirhuguð framkvæmdum á að vara lokið við meðferðarkjarna LSH, 2023. Kosningaloforð vel að merkja og þá enn frekari aðgangshindranir næstu 10-15 árin.

Nú stefnir sömuleiðis í að Reykjavíkurflugvöllur fari á sama tímabili, jafnvel fyrr. Fyrirhugaðir þyrlusjúkraflutningar á pallinn á nýja spítalann á Hringbraut eru hins vegar þegar í algjöru uppnámi af fyrirséðum öryggisaðstæðum. Það eru ófá sjúkraflugin (með flugvélum eða þyrlum) á mínum starfsferli sem hver mínúta skippti öllu máli. Meira en helmings aukning hefur orið á slíkum flugum sl. 5 ár og samtals telja sjúkraflugin yfir 1000 á ári hér á landi.

Hvað á þessi Hringbrautarvitleysa eiginlega að ganga langt hjá ríki og borg og þar sem ennþá má endurmeta stöðuna og ræða?  Hættuleg umræða að sumra mati en þar sem hægri höndin virðist aldrei vita hvað sú vinstri gerir. Afleiðingarnar heimskulegar úr því sem komið er og stefna í að verða jafnvel skelfilegar. Óheyrilegur sokkinn fjárfestingarkostnaður sem meðal annars er líka vegna framkvæmdaóhagræðis á nýjum og ónýtum húsum á þröngri lóðinni.

Alþingi hefur nú sent Samtökum betri spítala á betri stað (SBSBS) beðni um umsögn á þingsályktunarfrumvarpi hvort ekki eigi að endurmeta staðarvalið á þjóðarsjúkrahúsinu ásamt fleiri samtökum sem láta sér málið mikið varða (Þingmál no. 88). Vonandi þannig samtök sjúkraflutningsmanna og heilbrigðisstarfsfólks líka. Nú er lag að bjarga málum áður en allt verður um seinan.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 31.1.2018 - 09:18 - FB ummæli ()

Nauðlendingarleyfi fyrir Flug 101- Hringbraut

Samgöngustofa samþykkti varanlega lokun Neyðarbrautarinnar (rauða brautin) 2017 og byggingaframkvæmdir eru þegar hafnar við NA endann á gömlu Valslóðinni við Vatnsmýrina

Þau voru ófá tilfellin þar sem þyrlur Landhelgisgæslunnar (LHG) björguð öllu eins og sagt er og sem kom fram í fyrsta uppgjörinu á árinu 1991 í grein í Læknablaðinu 1994, 5 árum eftir að þyrlusjúkraflug hófst hjá Landhelgisgæslunni (LHG) 1986. Á sama tíma var góð aðstaða sköpuð við hlið Borgarspítalans til lendinga með opnum svæðum úr þremur megin áttum. Flugið þjónaði miðunum út af landinu og ekki síst alvarlegustu slysunum af landsbyggðinni. Niðurstaða rannsóknarinnar var að um 40% sjúkraflutninga með þyrlunum voru taldir mjög mikilvægir, m.t.t. alvarleika og tíma í flutningi áður en sjúklingur komst á sjúkrahús til að fá viðeigandi meðferð (oftast skurðaðgerðir og gjörgæslu). Neyðarútköll þyrlusveitar LHF hefur síðan þetta var nær þrefaldast og eru nú tæplega 300 á ári, þar af yfir helmingur vegna slasaðra eða sjúkra. Aukning á útköllum eru greinilega tengd erlendum ferðamönnum og þar sem aukningin mælist um 66% á aðeins 5 árum. Þau þyrftu að margra mati og sem best þekkja til, að vera töluvert fleiri ef vel ætti að vera. Um ágæti og öryggi sjúkraflutninganna efast held ég enginn um í dag og enn má bæta með annarri þyrlubakvakt sem er til umræðu og jafnvel léttari sjúkraþyrlum fyrir styttri flutninga. Þyrluaðflug mun hins vegar alltaf verða mjög varhugavert yfir lágreista spítalaþorpinu í Þingholtunum. Þar verður engin aðstaða til nauðalendinga á opnum svæðum og í raun hrikaleg þróun hvað varðar öryggi heimkomunnar á bráðaspítalann og ólíku saman að jafna við aðstæður í Fossvoginum í dag.

Hugsanlegar aðflugsbrautir fyrir sjúkraþyrlur að þyrlupalli á Nýjum Landspítala á Hringbraut.

Í byggingaáformunum við Hringbraut þar sem megin markmiðið er að flytja alla bráðaþjónustu sjúkrahúsa Reykjavíkur undir eitt og sama þakið eftir 5 ár, er nú ráðgerður þylupallur (helipad) á þaki sjálfs rannsóknarhússins og sem er einn viðkvæmasti hluti spítlastarfseminnar, næst meðferðarkjarnanum (áætlun frá 2011). Flugmálayfirvöld gera kröfu um að notaðar verði þyrlur af afkastagetu 1 vegna lélegra aðflugsskilyrða við spítalann (2- 3 mótora þyrlur) og sem geta haldið hæð ef vélabilun verður í einum mótor. Þegar upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir aðeins um 10 lendingum á ári í neyð! Allir geta hins vegar séð fyrir sér hvað gerist ef slík þyrla hlekkist á einhverja hluta vegna í sem næst daglegum sjúkraflutningum í allskonar veðrum og þar sem hver þyrla getur jafnast á við á þyngd fullhlaðins grjótflutningabíls (15-20 tonn). Alltaf þyrfti hins vegar að tryggja plan B – öryggisplan- við aðstæður sem reglubundið sjúkraþyrluflug krefst og krafa ætti að vera varðandi byggingaframkvæmdir við nýjan þjóðarspítala. Þar sem kostur er á opnum svæðum til nauðlendinga, í að- og fráflugsstefnum pallsins.

Árið 2012 var hins vegar ákveðið að loka neyðarbrautinni svokölluðu og sem þjónað gat samkvæmt hugmyndum í hönnun þyrlupallsins, sem ein aðflugsbraut fyrir sjúkraþyrlurnar. Byggingaframkvæmdir hófust eins á Valslóðinni við NA enda gömlu brautarinnar eins og nýtt deiliskipulag Reykjavíkurborgar gerir ráð fyrir og hindrunarhringnum þannig endanlega lokað umhverfis spítalann. Ekkert nýtt áhættumat hefur heldur verið gert síðan, eftir því sem ég best veit. Þannig afskaplega heimskulegt og hættulegt aðeins plan A yfir Þingholtin og nágrenni nú verð ég að segja.

Öryggi bráðastarfseminnar og aðgengið að henni á nýju þjóðarsjúkrahúsi, skiptir auðvitað miklu máli fyrir þjóðaröryggið í framtíðinni. Málið nú snýst þannig ekki aðeins um vanda bráðaflutninga með sjúkrabílum vegna umferðarþunga/aðgangshindrana næsta áratuginn, heldur einnig að öruggum lendingaraðstæðum fyrir sjúkraþyrlur við sjúkrahúsið. Eins mætti nefna nálægð flugvallar við spítalann fyrir venjulegt sjúkraflug en sem er líklega á förum. Allt voru þetta meginforsendur fyrir upphaflegu staðarvali við Hringbraut fyrir 15-20 árum en sem breyttust með nýju AR 2010-2030. Sjúkraflug í dag er nú um 1000 á ári og þar af tæplega 200 með þyrlum LHG. Þörf fyrir þyrlusjúkraflug á síðan eftir að stóraukast hér á landi ef að líkum lætur.

Já ráðherra, þú verður að gefa leyfi til nauðlendingar á Hringbrautarmálinu öllu, eða ætlar þú að taka áhættuna á hamfaraslysi, þrátt fyrir vitneskjuna í dag og að öll rauð viðvörunarljósin blikka látlaust?

Í grein sem Jakob Ólafsson flugstjóri LHG skrifaði á Vísir 2012 segir m.a. Í skýrslu nefndar um uppbyggingu Landspítala – háskólasjúkrahúss (LSH) við Hringbraut frá apríl 2004 er í 10. kafla fjallað um samgöngur við LSH og þar segir m.a.: „Mikilvæg forsenda fyrir staðarvali við Hringbraut var að sýnt þótti, að þar væri hægt að tryggja gott aðgengi ökutækja og sjúkraflugs“  Þetta sama ár 2012 var forsenda sjúkraflugsins skyndilega felld úr gildi og Jakob skrifar skrifar „Síðan verða blikur á lofti, ný stjórnvöld taka við og skipt er út nefnd um Landspítalaverkefnið. Áherslur þessara nýju stjórnarherra eru að að losa sig við Reykjavíkurflugvöll með öllum ráðum og láta sem öryggi og hagsmunir landsbyggðarinnar séu þeim óviðkomandi.“.. „Ef þyrlupallar eru settir á nýjar spítalabyggingar er gert ráð fyrir rúmum öryggissvæðum til nauðlendinga við aðflug og brottflug þyrlna að pallinum því ef bilun verður í gírkössum eða stélskrúfu þyrlu við aðflug eða brottflug að þyrlupallinum hefur þyrluáhöfnin afar lítið svigrúm til að beina þyrlunni að heppilegum lendingarstað, aðeins það rými sem er nánast beint fyrir neðan þyrluna er í boði til nauðlendingar og því gæti skapast almannahætta við brotlendingu þyrlu á sjúkrahússvæðinu, í nálægri byggð eða á umferðargötu. Miðað við framtíðarskipulag Landspítalasvæðisins er gert ráð fyrir þéttri byggð og umferðaræðum í nágrenni spítalans og því slík öryggissvæði ekki í boði.“ Fyrir áhugasama þá er tenging á hönnunarskýrslu þyrlupallsins á Nýjum Landspítala við Hringbraut hér fyrir neðan sem gaman væri að fá skoðun á frá flugmönnum/fagmönnum sem og sérfræðingum í umhverfisaðstæðum.

Venjuleg sýn á Nýjum Landspítala á Hringbraut eftir 5-10n ár.

 

https://drive.google.com/open?id=0B91EwWZv2AGmb3JOcEZBRTdLUmc http://www.hirsla.lsh.is/lsh/bitstream/2336/75933/1/L1994-02-80-F5.pdf

 

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 17.1.2018 - 10:25 - FB ummæli ()

Eins og pökkuð síld í púðurtunnu.

Tæp öld er síðan gamli Landspítalinn var tekinn í notkun og í ár er aldarafmæli Læknafélag Íslands sem læknar halda hátíðlega upp á. Gamli spítalinn er löngu orðinn of lítill og úr sér genginn eins og við öll vitum. Fyrir löngu var tímabært að huga að nýjum spítala á sem bestum stað og sem gæti sameinað alla bráðastafsemi sameinaðs spítala á einum stað. Eins til að tryggja sem best aðgengi fyrir sjúklinga, bráðaflutninga og sjúkraþyrluflug sem hefur aukist um 66% á sl. 5 árum. Aðflæðis og fráflæðisvandi spítalastarfseminnar hefur aldrei verið jafn mikill og stöðugt yfirflæði á bráðamóttökur, á sama tíma og árlegur niðurskurður hefur verið á fjárveitingum þess opinbera til heilbrigðisþjónustunnar og byggingu hjúkrunarrýma miðað við þörf.

Loks á að fara að hefja framkvæmdir síðar á árinu við byggingu Nýs Landspítala eftir tæplega tveggja ártuga undirbúning sem mjög hefur verið gagnrýndur m.t.t. undirbúningsvinnu og staðarvals. Öllum ætti þó í dag að vera ljóst að Nýja þjóðarspítalanum var valinn kolvitlaus staður á gömlu Hringbrautarlóðinni og sem fyrirséð er að gagnast muni bæði stutt og illa. Hvergi á tregðulögmálið betur við í stjórnsýslunni en hér, enda sjálft Alþingi heilaþvegið þegar það lagði endanlega blessun sína á þennan gamla og úrhelta pólitíska kreppugjörning 2015, og sem var í raun ákveðinn hrunárið 2008.

Þegar við flest kaupum hús eða íbúð, sem við gerum kannski einu sinni á ævinni, viljum við ekki um leið kaupa köttinn í sekknum. Við gerum það a.m.k. ekki vel upplýst. Sama á auðvitað við um hús okkar allra, nýjan þjóðarspítala. Við (þjóðin) ættum auðvitað að vanda vel valið. Ekki aðeins að hluta nýtt hús sem hentar illa, með síðan óheyrilegum kostnaði vegna endurbóta eldra húsnæðis og hættulegu skipulagi m.t.t. umhverfis og aðgengis. Mikill meirihluti starfsmanna og heilbrigðisstarfsfólks veit þetta og vildi því annan og betri kost. Reyndar þjóðin öll og fyrri skoðanakannanir sýna sl. ár. Samt skal „þvinga kaupin í gegn“, sama hvað hver segir og afsalið tilbúið til undirskirftar.

Nú ættum við því að hætta við kaupin. Spýta í lófana og nálgast málið allt með ferskri nútímalegri hugsun. Tafirnar hafa hins vegar kostað sitt og verða að skrifast á umbjóðendur. Nýr þjóðarspítali á nýjum góðum stað þarf hins vegar ekki að taka lengri tíma í byggingu en framkvæmdir sem fyrirhugaðar er í heild sinni nú á Hringbrautarlóðinni og ef hendur verða látnar standa fram úr ermum. Nágrannþjóðir okkar hafa leyst álíka vandamál á 7-10 árum. Huga þarf hins vegar strax að fjármögnun og nauðsynlegum bráðlausnum hvað varðar hjúkrunarrými sérstaklega. Eins að tryggja mönnun heilbrigðisstarfsstétta sem er mesti vandinn í dag og sumar spítaladeildir hálf lokaðar.

Það er löngu ljóst að aðal samgönguás höfuðborgarsvæðisins liggur mikið austar en við fyrirhugað byggingasvæði við Hringbrautina og þar sem auk þess miklu auðveldara og ódýrara er að koma við nauðsynlegum samgöngubótum vegna fyrirséðar aukinnar umferðar í framtíðinni. Mikilvægt er að létta hins vegar eins og kostur er umferðarþungann vestur í bæ. Yfir 90% höfuðborgabúa búa austan Hringbrautar, ekki í kringum eða vestar og ef frá eru taldir túristar og hótelgestir miðborgar Reykjavíkur. Raunverulegir íbúar, mikið austar, sunnar, norðar og í nágrannabyggðum. Af hverju í ósköpunum erum við þá að búa til þetta heimatilbúna vandamál með staðsetningu þjóðarspítalans og sem aðeins einstakar milljónahöfuðborgir heimsins standa frammi fyrir vegna mikils íbúafjölda og skorts á lóðum? Af öllum þjóðum, á Íslandi? Algjörlega fyrirséð stórvandamál í aðgengi sjúklinga og starfsfólks að stærsta vinnustað landsins og einni mikilvægustu heilbrigðisöryggisþjónustunni í framtíðinni. Þangað sem leiðir okkar þó flestra liggur á öllum tímabilum á ævinnar og örlagastundu.

Allt er þetta orðið til vegna vegna einkennilegrar hagsmunagæslu sem unnið hafa að verkefninu á Hringbraut og sem ekki hefur mátt ræða sl. ár opinberlega! Byggt á gjörólíkum plönum og forsendum frá því fyrir aldarmót sem eru löngu brostin og sem voru þó byggð á veikum grunni fyrir. Á síðustu árum ætti hinsvegar flestum að vera vandinn augljós. Skera verður t.d. niður bílaaðgengi að spítalanum um helming og verulegar aðgangshindranir einnig augljósar á sjúkraflutningum. Þrönga spítalalóðin í gamla miðbænum skerðir auk þess heilsusamlegt fallegt nærumhverfi fyrir sjúklinga og starfsfólk sem flestar þjóðir leggja orðið mikla áherslu á, í skipulagi nýrra nútímalegra spítala. Lagnakerfi og skólpmál (sem er okkur sérstaklega ofarlega í huga í dag) tengt spítalanum eru óleyst og dýr úrlausnarefni. Í lítilli miðborg þar sem umferðaöngþveiti veldur þegar miklu þjóðhagslegu tapi vegna umferðatafa og mikilli mengun, flesta daga ársins.

Hagkvæmasti og ódýrasti byggingarmátinn er auðvitað háar byggingar, frekar en ranghalar um allt. Á sem opnustum svæðum og sem truflar sem minnst umhverfið og fyrri starfsemi á byggingartíma. Eins að skapa sem bestu stækkunarmöguleika, rekstrarhagkvæmni og þróun síðar. Hagræði sem samtökin SBSBS hafa reiknað út með sölu eldri eigna, upp 100 milljarða króna og sem gæti jafnvel borgað niður byggingakostnað nýs þjóðarspítala á hálfri öld samanborið nú við útreikninga á framkvæmdakostnaði að lokum við Hringbraut.

Skipulagið á Hringbraut skapar að lokum mikla stórslysahættu við kjarnastarfsemina spítalans vegna staðsetningar á þyrlupalli á 5 hæð þaks rannsóknarhús, á milli allra bygginganna á lóðinni. Það ætti hvert mannsbarn að geta séð og þar sem gera má ráð fyrir þörf á sjúkraflugi nær daglega á 15-20 tonna stórum, a.m.k. 2 mótora þyrlum vegna krafa flugmálayfirvalda og skorts á opnum öryggissvæðum í kringum spítalann. Í öllum veðrum yfir Þingholtið og sem verður ennþá mikilvægara ef Reykjavíkurflugvöllur verður að lokum látinn víkja. Eins stóraukinn ferðamannafjöldi í landinu og slysatíðni a þjóðvegum landsins sl. ár. Algjört sjálfskaparvíti þannig allt saman vil ég segja og að lokum sokkinn kostnaður fyrir þjóðarbúið upp á hundruð milljarða króna og við neyðumst að lokum til að hugsa allt dæmið upp á nýtt. Mál sem virðist hafa verið algjörlega bannað að endurskoða í stjórnsýslunni og fréttabann jafnvel lagt á umfjöllun í ríkisfjölmiðlum sl. ár!!!

Gleðilegt ár kæru lesendur og „Guð blessi Ísland“.  Ættum við nú samt ekki frekar að leggja öll spilin á borðið. Við getum ennþá unnið „þennan leik“. Ræðum málið betur áður en allt verður um seinan og allar fyrri skoðanakannanir sýna yfirgnæfandi þjóðarvilja til. Sá leikur er a.m.k. aldrei tapaður.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 12.1.2018 - 21:23 - FB ummæli ()

Alpagangan í Albaníu sumarið 2017

Áð fyrir Arapi tindinn góða

Gönguferðir á fjöll erlendis í framandi og ólíku menningarumhverfi, er mikil upplifun og ævintýri. Ný viðmið í ólíkar áttir og sem aðeins næst með heimamönnum í fjöllunum, þorpunum og jafnvel stórborgunum. Með öruggri íslenskri og erlendri farastjórn nýtist tíminn best. Ferð sem síðan færir út okkar eigin landamæri ef svo má segja og skilning á ólíkri menningu og náttúruundrum heimsins. Öll viljum við getað samsvarað okkur aðeins meira með sögunni. Til hvatningar fyrir okkur sjálf og framtíðina.

Gamla myndin okkar af Albaníu

Ein slík ferð stóð upp úr minningum ársins, sumarið 2017. Ferð okkar hjóna með Íslenskum fjallaleiðsögumönnum og frábærum hópi íslenskra ferðafélaga um albönsku alpana. Menningarferð ekkert síður en göngu- og ökuferð þvert yfir landið með viðkomu á mögum stöðum, jafnvel alla leið til Kósóvó í Króatíu. Gegnum ólíkar borgir og fjallaþorp og að lokum með ríkmannlegri kynningu á höfuðborginni Tírana síðust tvo dagana. Þar kynntumst við einni áhrifaríkustu sögu Evrópu frá miðöldum og síðan sögu kúgunar í valdatíð einræðisstjórnar kommúnista eftir seinni heimstyrjöldina, allt til ársins 1984. Albanía var þá orðið fátækasta ríki Evrópu, en sem síðan er hægt og rólega er að rísa upp og þjóðin aftur orðin stolt af sér og reynslunni ríkari. Þjóð sem einu sinni var einskonar Norður-Kórea norðursins, vegna spillingar og kúgun valdhafanna gegn eigin þjóð og sem lagði allt í hræðsluáróður kjarnorku- og stríðsógnar. Þar sem tíminn stóð í stað varðaði innviðauppbyggingu í næstum hálfa öld, en reynir nú að endurbyggja til nútímakrafna. Nokkuð sem jafnvel mætti horfa til hér á landi, hjá einni ríkustu þjóð veraldar. Hraðbrautir lagðar þótt enn vanti mikið upp á bílakostinn og menning og menntun farin að blómstra. Á fáum stöðum í Evrópu eru ferðamenn jafn hjartanlega velkomnir.

Á leið niður í Valbone dalinn

Passlega krefjandi dagsgöngur um stórfengleg fjöll og fjallgarða norður-albönsku alpanna og þess á milli í djúpum dölum þjóðgarðanna, var frábær upplifun. Leiðsögnin var undir stjórn albanska vinar okkar Al-Ben sem var með okkur allan tímann. Uppfullur af fróðleik um allt sem sneri bæði að landi og þjóð og virtist innsti koppur í búri staðarmanna, hvar sem við komum. Næturgististaðirnir voru góðir, fullt fæði fylgdi með allan tímann og óteljandi heimsóknir farnar á albanska matsölustaði. Ég kemst ekki hjá því að nefna sjávarréttarstað sem við heimsóttum í Tírana næst síðasta daginn. Besta sjávarréttarstað sem ég hef komið á og þar sem úrvalið á mismuandni sjávarréttum var óteljandi. Rækjur, humar, krossfiskur og kolkrabbi eins og hver gat í sig látið. Ferskt og beint upp úr sjónum.

Erfiði-Björn unninn

Göngur í sumarhita og sól á þessum slóðum geta verið krefjandi fyrir kaldan landann. Þó ekki um of ef passað er að drekka nóg og gæta vel að saltbúskapnum. Nokkuð sem undirritaður fékk að reyna á eigin lærvöðvum í einni af lengri göngunum upp á fjallið Arabi í um 2.200 metra hæð. Reynsla sem hlaut að koma að fyrr eða síðar á göngum sem þessum og sem ég er í raun bara þakklátur að hafa fengið að kynnast. Göngurnar hentuðu reyndar allar sæmilega vönu göngufólki, vel útbúnu til gönguferða eins og við erum vön hér heima á sumrin. Ferðir sem gefa ekki heldur rétta upplifun fjallanna nema þú sért í þeirra innsta faðmi og sem reynir sæmilega á þitt eigið þrek og tilfinningar.

Hnetusmakk í Valbone

Fyrir utan fjöllin stórkostlegu og skógi vaxna djúpu dalina, var birtan einstök og blá. Smá hitamistur sem gaf fjöllunum í fjarska öll litbrigði blámans og sem við þykjumst þekkja betur en flestir aðrir. Hvítir vind- og vatnsrofnir sandsteinar  (lime stones) með hrikalegum klöppum í jafnvel öllum litbrigðum. Annars konar lágróðri og allskonar trjám og þar sem einhver möguleiki var á annað borð að festa rætur. Jafnvel beint út úr klöppunum. Vegirnir yfir suma fjallgarðanna voru heldur engu líkir og sem settu sveitavegina okkar í hálfgerðan lúxusflokk. Skemmtileg og spennandi upplifun líka að fá að prófa og finna á eigin skinni. Grjótið á veginum og stálið í harðgerðu gömlu fjallabílum albönsku jeppagarpanna sem keyrðu okkur.

Kvöldstund í Tírana

Tindarnir Arabi og Erfiði-Björn standa samt upp úr sem og gestrisnin í Albaníu og fegurð þjóðgarðanna í Thethi og Valbone. Takk fyrir mig, Íslenskir fjallaleiðsögumenn sem skipulögðu ferðina fyrir okkur Íslendingana, Al-Ben og Albanía öll. Ég er góðri reynslu ríkari og Gleðilegt ár.

 

Vináttuvottur frá Al-Ben, leiðsögumanninum okkar í Albaníu sem kom í heimsókn til Íslands í haust.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · Lífstíll · Menning og listir · útivist

Miðvikudagur 10.1.2018 - 12:58 - FB ummæli ()

Besta gull hafsins

Fyrir tæpum 7 árum skrifaði ég grein (hér fyrir neðan) um lýsið okkar og þegar ennþá var algengt að fleygja slóginu úr fisknum í hafið, þótt einstaka sjómaður hafi safnaði lifrinni í bala til sölu. Í dag er allt þorskalýsi frá LÝSI hf. nú unnið úr íslenskri fiskilifur (þorski og ufsa) sem brædd er í Þorlákshöfn og sem nægir innanlandsmarkaði og gott betur. Góður árangur það. En sennilega má gera betur og óvíst er hvað er enn hent mikið af slógi í sjóinn og sem ekki er til góðrar eftirbreitni er varðar sjálfbærnissjónarmiðin. D vítamínskorturinn hjá landanum er hins vegar aftur kominn til umræðu og sem best er að taka með ráðlögðum dagskömmtum af d vítamínbættu lýsi.

Sennilega líður helmingur þjóðarinnar D-vítamínskort miðað við fyrri rannsóknir og nýjar alþjóðlegar klínískar leiðbeiningar. Einhverstaðar hefur verið slakað á ráðleggingum og árvekni almennings í þessum efnum. Fiskiolían með sínum ríkulegu Ómega 3 fitusýrum, er eitt besta fæðuefni sem til er, ekki síst á tímum óhollustu í skyndibitafæðuvali, mikilli sykurneyslu og síðar offitusjúkdómunum (sykursýki og æðasjúkdómum) og hárri tíðni gigtarsjúkdóma hjá þjóðinni. Tími er því kominn að blása aftur í herlúðrana og þar sem heilsugæslan ætti að gegna lykil hlutverki í ráðleggingum og mælingum á D-vítamíni í blóði ef klíniskur grunur getur bent til skortseinkenna. Gott lýsi A, D og jafnvel E vítamínbætt daglega, getur svo sannarlega bætt okkur að einhverju leiti skaðann.

Seint verður sagt að hunangið drjúpi af hverju strái hér á landi um þessar mundir (2011). Þó má segja að annað hunang, gullið og fljótandi en sem við viljum ekki sjá, fari forgörðum í stórum stíl í hafið þaðan sem það spratt upp. Líka eitt af því nauðsynlegasta til að við gátum lifað heilbrigðu lífi um aldir við erfiðar aðstæður. D-vítamínið og sem er okkur jafn mikilvægt og sólin er nausynlegt öllu lífi á jörðinni. Nokkuð sem skýrt getur ýmislegt sem misfarist hefur í okkar heilbrigðismálum á undanförnum árum og kostar svo lítið.

Sólin er enda lítil hér norðurslóðum, ekki síst þar sem við búum og hún er oft varla lítið meira en smá sýnishorn og ljósgeisli. Nokkuð sem við bara litum framhjá eins og sumum öðrum einföldum staðreyndum lífsins. Líka fæðu sem unga fólkið fór að líta sem ógeðslega í samanburði við allan skyndimatinn sem við buðum þeim, innmat úr dýrum og fiski þar sem mesta D-vítamínið er að finna. Ekki síst í lifrinni. Sem við gátum líka bætt okkur upp upp í fljótandi formi með lýsi með öllum ómega fiskifitusýrunum sem er okkur líka nauðsynlegt til mótvægis við kólesterólið sem stundum storknar nánast í æðum okkar. Við sváfum heldur betur á verðinum. ..Vanda branda nú skal högg á hendi detta.

Í dag vantar helming Íslendinga D-vítamínið tilfinnalega, eins og umræður síðastliðna daga bera vel með sér. Vítamín sem er ekkert síður hormón en bætiefni fyrir okkur sem ekki höfum sólina. Lífsnauðsynlegt fyrir alla starfemi líkamans. Ekki bara fyrir beinin svo þau endist okkur til gamals aldurs, heldur líka til að þau bogni ekki hjá börnum og brotni ekki af minnsta tilefni hjá fullorðnum. Líka til að við fáum síður vöðva- og taugahrörnunarsjúkdóma, alvarlegar sýkingar og sjúkdóma í ónæmiskerfið. Gegn sleni og slappleika, jafnvel þunglyndi og kranbbameinum. Vítamín sem hjálpar okkur líka að halda blóðþrýstingnum og blóðsykrinum niðri. Allt hlutir sem nú loks fá athygli sem ber.

Nú verða vonandi kaflaskil í heilsuverndinni. Látum umræðuna okkur að kenningu verða. Hættum að henda lifrinni og slóginu úr fiskinum okkar í sjóinn. Dýrmætri afurð sem við eigum að vera stolt af að hafa nóg af. Förum að nýta hana betur sem íslenskt lýsi. Okkar dýrmætu afurð með öllum ómega fitusýrunum og A og D-vítamíninu. Vítamínbætum síðan lýsið eins og við þörfnumst. Pössum alltaf upp á D-vítamínið í framtíðinni, ekki síst fyrir unga fólkið.“

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll

Föstudagur 8.12.2017 - 14:35 - FB ummæli ()

Jólasteikin á næsta ári?

Mikil umræða hefur verið um matvælaóöryggi tengt nýföllnum dómi EFTA og að flytja megi inn ferskt kjöt til landsins. Mál sem Samtök verslunar- og þjónustu (SVÞ) hefur t.d. barist fyrir og endurtekið er í fréttum 365 miðla. Ekki var í dómnum sérstakt tillit tekið til sérstöðu Íslands vegna smitsjúkdómavarnarsjónarmiða og sem hefur verið laust við marga dýrasmitsjúkdóma sem eru landlægir í Evrópu. Eins miklu fátíðari sýkingar á borð við kamphýlóbaktersýkingar og salmonellusýkingar. Ekki heldur nýjum sýklalyfjaónæmum stofnum í sameiginlegri sýklaflóru manna og dýra (E.coli og klasakokkum) víða erlendis sem valdið geta síðan tilfallandi sýkingum, innvortis í okkur og í sárum. Fryst kjöt í ákveðinn tíma heftir vöxt allra þessara baktería og drepur jafnvel að einhverju marki (sérstklega kamphýlóbakter). Aðalmálið er þó að fryst kjöt smitar minna frá sér í flutningi frosið, samanborið við ferskt og blóðugar umbúðir t.d leka. Mestar áhyggjur manna í dag er samt smithætta á kamphýlóbaktersýkingum með kjúklingum erlendis frá. Svipað má reyndar segja um hugsanlegt salmonellu-smit með erlendum eggjum sem ekki þekkist hér á landi. Varðandi framtíðarlýðheilsu skiptir eins miklu máli að halda sýklalyfjaþolnum bakterístofnum í flóru erlendra sláturdýra sem mest frá okkar íslensku normalflóru (ESBL E. coli og klasakokkunum MÓSA (MRSA)) og gert hefur verið grein fyrir í fyrri pistlum. Um allar þessar hættur þarf enginn að efast þótt stjórnvöld kjósi e.t.v. að meta hagsmuni SVÞ og svokallaða neytendahagsmuni mt.t. valfrelsis meiri en lýðheilsuna. Með nýjum lögum og reglugerðum sem sniðin eru þá að evrópskum neytendalögum og nú er boðað.

Dæmi um markaðssvindl með hrossakjöt í nautahakk. Comigel hneykslið sem skók Evrópu 2013.

Annað og sem hefur fengið minni umræðu, er gæði kjötsins og framleiðsluaðferðir sem breytist reyndar ekki hvort sem kjötið er slet ferskt eða frosið. Í mörgum og vonandi flestum tilvikum (>60%) er hægt að treysta upprunamerkingu kjötsins. Útflutningslandið er þannig oft aðeins skráð (og við treystum misvel), en þar sem varan getur hafa farið gegnum marga milliliði frá fjarlægari löndum. Þannig hafa komið upp mörg hneykslismál í Evrópu á sl. árum. Flestir muna eftir „hrossakjötsfárinu“ fyrir 4 árum og þar sem upplýst var að hrossakjöti var blandað við nautakjötshakk og selt sem slíkt. En meiri spurningar vöknuðu við hvaða aðstæður hrossakjötið kom upprunalega. Í sumum tilvikum reyndist um sjálfdauðar skepnur (jafnvel asnar og dráttarhestar) og í einu tilviki komst upp að hrossakjötið var upprunnið úr hrossum í Frakklandi sem höfðu verið slátruð eftir not í lyfjatilraunum og til framleiðslu bóluefna. Eftirlitið í Evrópu brást m.t.t. neytendahagsmuna. Dýrin höfðu stundum fengið allskonar lyfjameðferðir og jafnvel útsett fyrir eiturefni t.d. skordýraeitur og þungmálma í fóðri og umhverfi. Hættuleg efni sem alls ekki eru ætluð í dýraeldi og þaðan af síður til manneldis. Hormónar og sýklalyf eru hins vegar viðurkennd vaxtar/þyngdaraukandi meðferð í eldi alidýra víða og sem finnst að lokum í kjötinu auðvitað einnig.

Það er því ekki að furða að maður spyrji sig um gæði erlendrar matvöru sem getur litið fjarska girnilega út á yfirborðinu í kjötborðinu og kostað jafnvel minna en það íslenska og við treystum vel upprunanum. Getum við ekki sætt okkur við að kaupa kjötið a.m.k. frosið? Það er reyndar rétt að svokallað gæðaeftirlit með matvöru er víða í Evrópu miklu betra en hér heima. Aðallega vegna fjársveltis eftirlitsstofnana og skorts á mannafla. Traustið á íslenskum framleiðendum og eftirlit með sjálfri framleiðslunni hefur verið látið nægja og sem á síðustu árum hefur skilað góðum árangri er varðar sýklalyfjanotkun í dýraeldi, salmonellusmit og kamphýlóbaktersmit. Síðan er jafnvel aðeins hárfín lína eftir, að dýrasmitvarnir á lifandi dýrum verði aflagðar hér á landi að kröfu annarra Evrópuþjóða og að eigendur geti þá bara ferðast með gæludýrin sín og hross að vild yfir öll landamæri. Það er því furðulegt af öllu þessu sögðu, að Evrópureglugerðir skulu einar vera látnar ráða ferðinni. Í sennilega mikilvægasta neyslu- og lýðheilsumáli okkar, smitvörnunum, og þegar sýnt er að við höfum svo miklu að tapa.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn