Fimmtudagur 14.10.2010 - 14:19 - FB ummæli ()

Fátt segir af einum

Nú er eitt ár síðan ég byrjaði að blogga á Eyjunni. Ég þakka Eyjunni fyrir að vera vera til og gefa mér þetta tækifæri. Það er gott að getað tjáð sig um þjóðfélagsmálin, ekki síst heilbrigðismál á tímum þegar verulega er skorið niður í velferðarsamfélaginu. Þvílík rússíbanareið enda stórtíðindi á hverjum degi og af mörgu að taka.

Gagnrýna umræðu hefur sárlega vantað um heilbrigðismálin þar sem fáir útvaldir leggja gjarnan línurnar og nefndir skipaðar pólitískt, án samráðs við fagfélög. Þar vantar gjarnan álit sérfræðinganna samsvarandi t.d. öllum hagfræðingunum sem nú tjá sig greiðlega um efnahagsmálin og niðurfellingu skulda heimilanna á opinberum vettvangi eins og ekkert sé. Afmælisbarnið hefur til að mynda unnið jöfnum höndum í frumheilsugæslunni og á hátæknisjúkrahúsi (LSH) og ætti þar af leiðandi að hafa einhverja yfirsýn á hvar skórinn kreppir.

Umræðan nú um niðurskurð í heilbrigðiskerfinu litast meira af upphlaupum og eiginhagsmunum en um hvaða þætti grunnþjónustunnar verði að verja. Þannig hefur það reyndar verið í mörg ár og er það ein skýringin á að Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu (HH) sat eftir í góðærinu. Síðan hefur hún tekið á sig meiri niðurskurð en aðrar heilbrigðisstofnanir, líka samanborðið við sambærilegar stofnanir úti á landi.

Varðandi hugmyndir nú um sameiningu heilusgæslustöðva eins og nefnd heilbrigðisráðuneytisins leggur til segir Halldór Jónsson, formaður Félags íslenskra heimilislækna m.a. í nýjasta hefti Læknablaðsins: “ Margvíslegar rannsóknir hafa sýnt fram á mikilvægi samfellu í þjónustu á fyrsta stigi heilbrigðiskerfisins og að erfiðara er að viðhalda henni í stofnunum, sem komnar eru yfir ákveðna stærð. Það kemur fram í skýrslu nefndarinnar (heilbrigðisráðuneytisins) að fagfélög á Norðurlöndum hafi talað um 12-15 lækna stöðvar en skv. okkar upplýsingum er ekkert fagfélag heimilislækna á Norðurlöndum sem styður slíkt, þvert á móti vara þau við slíkri þróun. Rekstur „ofurstöðva“ með miklum fjölda lækna hefur þegar verið reyndur á Norðurlöndum en olli vonbrigðum. Þar hefur því verið fallið frá slíkum risavöxnum  heilsustofnunum. Slíkar ofurstöðvar eru farnar að líkjast of mikið litlum sjúkrahúsum og stofnunum og hafa þar með tapað þeim persónulega blæ sem er svo mikilvægur í nærþjónustu heimilislækna þar sem komið er til móts við þarfir einstaklingsins, líka þeirra sem oft og tíðum er illa við slíkar stofnanir. Aukið samstarf milli fámennra heilsugæslustöðva gæti hæglega leyst mönnunarvanda og afleysingavanda ef þörf er á og hefur slíkt samstarf milli heilsugæslustöðva nú þegar reynst vel hér á landi og nær væri þá að auka það en alls ekki fækka heilsugæslustöðvum.”

Ekki var heldur brugðist við þegar heilsugæslan á Suðurnesjum var nánast lögð í rúst fyrir 7 árum síðan vegna þess eins að ekki var vilji til að semja við heilsugæslulækna m.a. við þá sem bjuggu á höfuðborgarsvæðinu og kröfðust þess að fá akstursstyrk. Síðan hefur ekki verið hægt að manna stöðurnar og heilsugæsluþjónustan á Suðurnesjum færðist aftur um marga áratugi. Á sama tíma var samt hægt að byggja þar upp hátæknisjúkrahús með skurðstofum sem kemur nú að engum notum.

Umræða um heildarskipulag heilbrigðisþjónustunnar er aldrei mikilvægari en nú.  Ég hvet fleiri heilbrigðisstarfsmenn til að taka þátt og byrja að blogga eða láta í sér heyra á öðrum vettvangi svo sem flest sjónarmið heyrist í umræðunni í þessum mikilvæga en kostnaðarsama málaflokki.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 12.10.2010 - 14:04 - Lokað fyrir ummæli

Góðu gæjarnir á móti þeim slæmu

Engin lýsing til

Algengasta íslenska þýðingin á bakteríum eru sýklar sem er slæmt orð enda valda ekki allir sýklar sýkingum heldur þvert á móti eru verndandi gegn öðrum slæmum bakteríum og sýkingum. Hann er vandrataður meðalvegurinn. Í mörgu sem þessu höfum við Íslendingar farið kolvitlausa leið og sennilega alltaf misskilið þýðingu „sýkla“. Ein slík er hvað við höfum verið gjörn á að meðhöndla vægar sýkingar barna með sýklalyfjum, sem er mikið inngrip fyrir alla sýklaflóruna. Við höfum talið okkur trú um að við gætum snúið á hana móður náttúru og alltaf haft betur. En á misjöfnu þrífast börnin best, það er löngu sannað. Aldrei má gleyma jafnvæginu sem er milli allra lífvera, ekki síst í okkur og milli okkar sjálfra. Og skítur er ekki alltaf til ógagns. Oftast eru sýklar til góðs í flórunni, sérstaklega þeir sem fá að þróast í jafnvægi með hverjum öðrum og góður mataræði. Grófu korni, hnetum, grænmeti, ávöxtum og yogurtgerlum svo það helsta sé neft. Góðu gæjarnir á móti þeim slæmu.

Ofnotkun sýklalyfja hér á landi um árabil hefur síðan valdið miklu sýklalyfjaónæmi meðal raunverulegra sýkingarvalda, miklu meira en þekkist í nágranalöndunum. En ekki er nóg með að við séum að skemma möguleikann á að geta meðhöndlað alvarlegar sýkingar á öruggan hátt þegar mikið liggur við vegna ofnotkunar lyfjanna, heldur eru ýmsar vísbendingar um að við séum oft að eyðileggja möguleika ungra barna að fást við sýkingar á eðlilegan máta og gerum þau þá um leið jafnvel viðkvæmari fyrir endurteknum sýkingum í framhaldinu. Það getur verið alvarlegur hlutur að ákveða sýklalyfjameðferð hjá ungu barni í dag.

Nýlega sat ég fyrirlestra á Ameríska heimilislæknaþinginu (AAFP) þar sem sérfræðingar frá Harvard Medical School (W. Allan Walker) og Yale University School of Medicine (Martin Floch) ásamt forstjóra International Scientific Association for Probiotics and Prebiotics  www.isapp.net (Mary Ellen Sanders) héldu fyrirlestra þar sem þessi og neðangreind sjónarmið um jafnvægi í flórunni komu sterklega fram. Aðal umræðan snerist þó um hvernig bæta mætti heilsuna með því að bæta þarmaflóruna, en breiðvirk sýklalyf sem svo mikið eru notuð hér á landi í dag gera einmitt það þveröfuga. Eins má ekki gleyma því að bólusetningar gegn algengum bakteríum í nefkoksflórunni eins og mikið er rætt um í dag, geta líkað raskað ákveðnu jafnvægi í nefkoksfórunni og á aðeins að nota að vel athuguðu máli og gegn þá ákveðnum vandamálum sem verulega ógna heilsu barna.

Í seinni tíð eru vísindamenn í auknum mæli að sjá hvað sýklaflóran í görnum er mikilvæg í þroska ónæmiskerfis barna. Bakteríur í görn eru 10 sinnum fleiri en frumur líkamans og til að ónæmiskerfið þroskist eðlilega þarf náið samspil milli þessara baktería og þarmaslímhúðarinnar. Rannsóknir sýna að börn sem fæðast t.d. með keisaraskurði eru viðkvæmari fyrir sýkingum og ónæmissjúkdómum hverskonar, eins og t.d. astma og barnaexcema, vegna þess eins að þá smitast ekki eðlileg flóra til þarma barnanna í sjálfri fæðingunni. Sama gildir einnig um aukna áhættu á bólgusjúkdómum í görnum hjá börnum sem fæðast með keisaraskurði. Ákveðinn hluti þarmaflórunnar eins og t.d. ákveðnir stofnar af Lactobacillus og Bifidobacteria sporna líka gegn yfirvexti á slæmum þarmabakteríum og er jafnvægið þarna á milli oft hárnákvæmt og viðkvæmt. Eins til að halda aðkomnum matareitrunarbakteríum í skefjum. Við breiðvirka sýklalyfjagjöf geta einmitt slæmu bakteríurnar fjölga sér mikið á kostnað þeirra góðu sem þurrkast þá jafnvel út.

Sýklalyfjameðferð snemma í barnæsku getur unnið gegn þroska ónæmiskerfisins tímabundið og jafnvel stuðlað að endurteknum sýkingum almennt talað í framhaldinu eins og vísbendingar eru um að hafi gerst einmitt hér á landi um árabil með hárri tíðni miðeyrnabólgu og vaxandi fjölda barna sem þurfa að fá rör í hljóðhimnur. Eins hafa erlendar rannsóknir sýnt að eftir sýklalyfjameðferð er nefkoksflóran oft eins og nýplægður akur þar sem nýjar framandi bakteríur úr umhverfinu eiga auðvelt með að fá bólfestu, ekki síst sýklalyfjaónæmar bakteríur. Líkurnar eru síðan margfaldar að ný baktería valdi sýkingu samanborið við eldri bakteríur sem fengið hafa verið í friði í nefkoksflórunni.

Talað er um PROBIOTICS (enskt orð í andstöðu við anti-biotics) þegar átt er við hagstæða þarmaflórustofna sem hægt er að gefa í inntöku í stöðluðu magni eftir ákveðnum fyrirmælum sem sannreynd hafa gert gagn með vísindalegum rannsóknum. Þar sem ekki er um lyf að ræða, frekar fæðubótarefni, lúta leiðbeiningarnar ekki beint lyfjaeftirliti. Margar jógúrtvörur eru víða á markaði sem probiotics fyrir ýmist fullorðna eða börn m.a. hér á landi. Þessar bakteríur eða gerlar eins og sumir vilja frekar kalla þær, hjálpa jafnframt meltingunni með gerjun fæðunnar í görn og með því að brjóta niður t.d. fitusýrur. Inntaka á probiotics getur þannig hjálpað að halda ýmsum sjúkdómum í skefjum svo sem tannskemmdum, ofnæmi, sveppasýkingum hverskonar, þarmabólgum, ristilkrömpum, húðsjúkdómum, öndunarfærasjúkdómum, vaxtartruflunum barna, offitu, sykursýki og þar með hjarta- og æðasjúkdómum. Mikilvægt er að átta sig á vel á innihaldslýsingu og velja vöruna (probiotics) með tilliti til hvað áhrifa er fyrst og fremst verið að leita eftir. Farið er að gefa probiotics á sjúkrahúsum víða erlendis í dag  strax við innlögn í því fyrirbyggjandi sjóarmiði að sporna gegn smiti og niðurgangssýkingum sjúklinga, með góðum árangri.

Sýkingar, ekki síst veirusýkingar og vægar bakteríusýkingar í kjölfarið er lífsins gangur sem líkaminn, ekki síst í annars hraustum börnum, ræður vel við. Ef ónæmiskerfið þroskast illa að þá gefur auga leið að einstaklingurinn verður gjarnari á sýkingar eins og t.d. öndunarfærasýkingar. Rannsóknir hafa einmitt sýnt fram á að svo sé og með því að gefa inn probiotics að þá má styrkja ónæmiskerfið og t.d. minnka líkur á  kvef- og flensueinkennum sem oft kalla jafnframt í kjölfarið á endurteknar sýklalyfjagjafir hjá börnum (Leyer GJ, Pediatrics 2009;124:e172-9). Eins hafa rannsóknir sýnt að sýklalyfjagjöf ein og sér eykur líkur á astma hjá börnum (Marra F, Pediatrics 2009;123:1003-10). Rannsóknir hafa jafnvel sýnt að með því að væntanlegar mæður með ofnæmisvanda taki inn probiotics fyrir fæðingu í ákveðnum skömmtum  að þá megi minnka líkur á excema hjá börnunum þar sem flóra barna er þá væntanlega betur örvuð fyrir verndandi þáttum (Kalliomaki M, Lancet 2001;357:1076-79)

Alvarlegast er þó þegar yfirvöxtur verður á slæmum bakteríum í görn eftir breiðvirkar sýklalyfjagjafir. Við venjulegar aðstæður finnast sýklar eins og  Clostridium difficile aðeins í litlu magni hjá okkur flestum, þó frekar hjá ungum börnum (allt að 20%) og sem geta fjölgað sér mikið eftir sýklalyfjagjöf og valdið þá alvarlegri og langvinnri sýkingu og eitrun í görn. Í Ástralíu í dag er verið að gera rannsóknir og meðhöndla mikið veika sjúklinga með slíkar sýkingar í görn með innhellingu saurs (saurgerla) frá heilbrigðum einstaklingum til þess einfaldlega að byggja upp eðlilega flóru að nýju. Þarf að segja meira?

Flokkar: Óflokkað · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll

Mánudagur 11.10.2010 - 10:43 - FB ummæli ()

Nauðsyn á inngripum til að bæta heilsu íslenskra barna.

Oft er það sjálfsagðasta í heimi sem fer forgörðum, ekki síst hjá okkur Íslendingum sem þrátt fyrri allt telst með betur stæðari þjóðum heims á alla almenna mælikvarða. Helstu heilsuógnirnar eru einmitt okkur sjálfum að kenna. Hjá ung- og leikskólabörnum er það meðal annars afleiðingar ofnotkunar sýklalyfja, nánar tiltekið alvarlegt sýklalyfjaónæmi helstu sýkingavalda og óþarflega há sýkingartíðni. Hjá skólabörnum er það hreyfingarleysið. Um mikilvægi hreyfingar ættu þó allir fullorðnir að minnsta kosti að vita. Hreyfing skiptir sennilega mestu máli til að tryggja líkamlega og andlega góða heilsu ásamt grunnþörfunum svo sem aðgangi að hollu fæði og húsnæði auk aðgangi nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu.

Börnin okkar vita oft ekki þessar staðreyndir og spurningar hafa vaknað hvort foreldrar og kennarar séu nógu meðvitaðir um að koma þessum mikilvægustu staðreyndum um lífsins til skila. Fer umræðan forgörðum í hita og þunga daglegs lífs, mikils stress á heimilum sem oft er forgangsraðað eftir hagsmunum fullorðinna? Eins vakna spurningar um rétta forgangsröðun í skólastarfinu sem sífellt er verið að skera meira og meira niður?

Á nýloknu Vísindaþingi íslenskra heimilislækna í Stykkishólmi 8-9. október kynnti Hannes Hrafnkelsson rannsóknir sínar og félaga á mikilvægi hreyfingu barna. Rannsóknin var verðlaunuð sem athyglisverðasta og besta rannsókn heimilislækna í ár. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna áhrif íhlutunaraðgerða á heilsufar, líkamsástand og lífstíl 7 ára barna í grunnskólum höfuðborgarsvæðisins og var rannsóknin framkvæmd í þremur áföngum í lok „góðæristímabilsins“ á  árunum 2006-2008. Börn voru valin úr sex grunnskólum, börn úr 3 skólum í hvorn hóp.

Niðurstöðurnar sýndu sterk tengsl á milli aukinnar hreyfingar barnanna með íhlutun kennara við aukið þrek og þol barnanna samhliða aukningu á beinmassa þeirra. Margar aðrar rannsóknir hafa sýnt að hámarks beinþéttni næst venjulega um kringum tvítugsaldurinn. Grunnurinn er því lagður til strax í barnæsku og mikil beinþéttni er verndandi gegn beinbrotum síðar á ævinni. Kalkneysla og D-vítamín inntaka ráða auðvitað líka miklu fyrir alla aldurshópa. Marktækar breytingar sáust einnig hvað varðaði lægri blóðþrýsting hjá börnum í íhlutunarhóp í lok tímabilsins. Smá aukaleg hreyfing á skólatíma sem samsvaraði einni kennslustund á dag var allt sem til þurfti.

Gott þol samanborið við slæmt er talinn mikilvægasti mælikvarðinn í forspá á góðri heilsu hjá fullorðnum og mikilvægari en allir aðrir mælanlegir áhættuþættir fyrir hjarta og æðasjúkdómum samanlagt. Sama ætti að gilda um börnin þótt ung séu og því er ánægjulegt að sjá með rannsókn eins og þessari hvað gott þol hefur ótrúlega mikið að segja upp á mikilvægustu áhættuþættina, ekki síst beinheilsuna sem er sjálft burðarvikið okkar.

Rannsókn Hannesar og félaga sýndi líka vísbendingar um að strax eftir að skóla lýkur á vorin versnaði þol og beinmassi barnanna aftur í íhlutunarhópnum sem sýnir betur en nokkuð annað hvað það er mikilvægt að foreldrar passi alltaf upp á hreyfinguna og komi börnum út til að leika frekar en hanga yfir sjónvarpi og tölvuleikjum. Eins benda niðurstöðurnar á mikilvægi þess að grunnskólarnir beri meiri ábyrgð en þeir gera í dag á hreyfingu barna á daginn yfir veturinn þegar þau eru vel upp lögð til að hreyfa sig, enda skóladagurinn oft langur og oft áliðið og dimmt þegar heim er komið.

Hreyfing barna er sérstaklega mikilvæg til að viðhalda góðri heilsu og rannsóknin sem kynnt var á vísindaþingi heimilislækna sýnir hvað bein íhlutun í skólum getur skipt miklu máli.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Íþróttir · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 8.10.2010 - 14:16 - FB ummæli ()

Ættum við ekki líka að bregðast við heilbrigðishruni?

Engin heilbrigðisógn er meiri í hinum vestræna heimi en offitan enda oft talað um offituna sem alvarlegasta heimsfaraldur 21. aldar. Offitunni tengjast margir algengustu sjúkdómarnir í dag sem sífellt verða algengari og alvarlegri. Ber helst að nefna æðakölkun, hjartasjúkdóma, háþrýsting, sykursýki, heilablóðföll, gigtsjúkdóma og krabbamein. Þunglyndi og kvíði ásamt skort á nauðsynlegri hreyfingu tengist offitunni sterkum böndum svo oft er erfitt að átta sig á orsök og afleiðingu. Allir þessir sjúkdómar eru á góðri leið með að sliga heilbrigðiskerfið í dag vegna mikils kostnaðar.

Alvarlegustu tíðindin fyrir okkur Íslendinga er að þjóðin hefur sífellt verið að þyngjast og er nú svo komið að nærri fjórði hver Íslendingur er orðin of feitur. Ísland sker sig úr meðal annarra norrænna þjóða og skipar hvorki meira né minna en 9. sætið á heimslista yfir feitustu þjóðir heims. Augljóst er að sú staða skapaðist af neyslu Íslendinga á algengustu matvælunum og hreyfingarleysi um árabil. En staðan var allt önnur fyrir ekki svo mörgum árum síðan. Við vorum öflug þjóð og öðrum þjóðum heilbrigðari. Þökkuðum við því óspilltri náttúru landsins, útivistarmöguleikum, góðum fiski og hollu fæði. Og sem betur fer fæddust börn óvíða heilbrigðari. En hvað fór úrskeiðis?

Íslendingar vöknuðu upp af góðum draum og þurftu allt í einu að horfast í ísköld augu raunveruleikans haustið 2008. Fáum grunaði hvernig gæti farið fyrir þjóð sem talin var meðal auðugustu þjóða heims. Sú sýn byggðist á falsspámennsku í fjármálalífinu um áabil og heilaþvotti á því hve frábærir við Íslendingar erum í einu og öllu. Staðreyndirnar blasa hins vegar við í dag. Augljóslega þarf nú að skera niður velferðarþjóðfélagið og spóla þarf til baka um nokkra áratugi til að getað byrjað upp á nýtt. En getur verið að önnur gildismöt en sem snertu fjármálalífið hafi farið forgörðum og að við höfum farið offarir í nútímavæðingunni í ýmsum öðrum sviðum meðal annars sem snúa að heilbrigðismálum? Svari hver fyrir sig í dag í nýju og víðara samhengi.

Offitan er eitt af þeim efnum sem er til umfjöllunar á Vísindaþingi Íslenskara heimilislækna í Stykkishólmi sem hófst í dag. Rúnar Helgi Haraldsson, mannfræðingur er aðalhöfundur rannsóknar á tengslum lífshátta og lífsreynslu offitusjúklinga hér á landi. Um er að ræða rannsókn á mjög feitu fólki því auðvitað má ekki heldur gleyma tilhneyingu til offitnunar sem bundið er í erfðum en sem væntanlega hefur ekki breyst svo mjög á síðustu árum þótt umhverfið hafi breytst mikið. Fyrstu niðurstöður sem Halldór Jónsson, heimilislæknir og meðhöfundur ásamt fleirum kynnti í morgun, benda til að auk ákveðins stjórnleysis að þá ráði persónulegir þættir mestu ekki síst neikvæð reynsla í æsku og mikil streita til lengri tíma, svo sem kynferðisleg misnotkun, áfengissýki í umhverfi og einelti í skóla sem síðan leiða til sjálfsímyndarskaða hjá stórum hóp sem á við mikla offitu að stríða . Margt annað má auðvitað nefna sem mikið er í umræðunni í dag svo sem óöryggi um sína eigin kynvitund sem leitt getur auðveldlega til þunglyndis. Margir virðast svo deyfa neikvæðar tilfinningar með fæðu. Frumniðurstöður rannsóknarinnar benda til að mikinn stuðning þarf við þennan sjúklingahóp í heilsugæslunni sem og annars staðar, einkum hvað varðar hina persónulegu þætti.

Ástandið í þjóðfélaginu er alvarlegt í dag. Kvíði og depurð getur meðal annars birst í mikilli reiði sem við sjáum svo víða og fer dagversnandi. Langvarandi vanlíðan barna í fjölskyldum sem óttast afkomu sína dag frá degi segir sína sögu og sem einmitt reyndist Finnum í kreppunni hjá þeim á áttunda áratug síðustu aldar dýrkeyptust þegar til langs tíma var lítið. Verri geðheilsa heillar kynslóðar var afleiðingin hjá þeim með öllum þeim fylgikvillum sem með fylgja og við sjáum svo augljóslega í dag ef við bara viljum. Lengi getur vont versnað hjá okkur en við getum spornað gegn þessari þróun ef vilji er fyrir hendi og allir taka þátt jafnframt því að minnka þá heilbrigðiskostnað stórkostlega í framtíðinni. Hreint land, fagurt land og fögur sál í heilbrigðum líkama eru einkunnarorð sem við ættum að taka okkur í munn að nýju til að öðlast sjálfsvirðingu og til að geta byggt upp land og þjóð.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Íþróttir · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 28.9.2010 - 14:10 - FB ummæli ()

Örlagastrengir og litla Ísland

10428spider_web Það eru myrkir dagar framundan. Og kvíðinn í þjóðfélaginu er þegar orðinn mikill. Hræðsla um það ókomna, reiði, ásakanir og leit að einhverju sem heitir réttlæti. Endalausar slæmar fréttir um að almenningur sé að gefast upp. Þetta kom meðal annars fram í Kastljósviðtali gærkvöldsins um skuldir heimilana. Kvíðaviðbrögð eru einnig algengari hjá skjólstæðingum heilsugæslunnar þessa daganna en áður. Það er þungt í mörgum og geðhræringar daglegt brauð. Þráðurinn oft ansi stuttur og margir reiðast af minnsta tilefni. Ævisparnaðurinn kannski uppurinn eða gjaldþrot. Flestir af eldri kynslóðinni finnst þó hlutskipti barnafólksins það dapurlegasta í þessu öllu saman. En allir verða að hjálpast að, enginn er eyland. Við sitjum öll í sama netinu.

Kvíðaviðbrögðin geta líka brotist út með þunglyndi og einangrun. Verkkvíðinn er algengastur og jafnvel það einfaldasta sem áður var svo einfalt verður flókið og vex manni í augum. Ofsakvíði og örvænting grípur suma. Oft eru þó þær kvíðaraskanir fyrir enda ótrúlega algengar meðal fólks í venjulegu árferði. Fobíur sem hátt í 20% af mannfólki þjáist af í einhverri mynd eru hluti af algengustu kvíðaröskununum sem lýsir sér í ofsakvíðaköstum við ákveðnar aðstæður. Eitthvað sem er svo nærtækt í undirmeðvitundinni en á ekki endilega við raunverulega fyrri slæma reynslu að styðjast heldur kvíðaviðbrögð og óstjórn sem hefur yfirfærst á ákveðnar aðstæður af einhverjum ástæðum. Þessi tegund kvíða er oft bundinn í erfðir eins og margir aðrir geðrænir sjúkdómar sem hrjá okkur einhvern tímann á lífsleiðinni. Innilokunarkennd og lofthræðsla eru algeng dæmi um fóbíur en ein algengasta fóbían er þó gagnvart saklausum kóngulóm.

lirfanMargir muna eflaust eftir þekktri íslenskri teiknimynd um litlu ljótu lirfuna (2002) sem var svo saklaus og grimmu kóngulónni. Mynd sem átti að gera það svo gott í útlöndun og sem sjálfsagt er að sýna öllum íslenskum börnum í dag til að læra af.

Þegar fólk fær ofsakvíðakast að þá missir það tökin á sér og hugsunin verður stjórnlaus. Nokkuð sem við sjáum fleiri og fleiri gera í umræðu dagsins. En við hverju er að búast þegar maður kemst að því að lífið var tálsýn. Og hvað um kreppufóbíur í framtíðinni? Slæmur draumur sem var þó ekki martröð eftir allt saman heldur ískaldur veruleikinn. Þjóðin þarf fyrst og fremst sálfræðihjálp til að skilja og til að geta fyrirgefið. Aðeins glæpamennina sjálfa sem leiddu þetta allt yfir okkur þarf að finna og refsa en við skulum láta nægja að skamma þá vammlausu sem fyrra sig hvort sem er ábyrgðinni sem við fólum þeim. Þeir hafa þegar fengið sinn dóm hjá þjóðinni.

En af hverju skyldu svona mörgum vera illa við köngulær? Sennileg skýring, sem auðvelt er að ímynda sér, eru aðstæður fórnarlambsins sem óvart festist í netinu og á sér ekki undankomuleið. Verður bitinn og síðan étinn eða geymdur. Örlagaþræðirnir sem við óttumst mest liggja nefnilega víða í lífinu og taka á sig ótrúlegustu myndir. Spunameistarar þess kerfis sem við höfum lifað í eru margir og áttu sér þó misjöfn markmið. Og bráðin var jafnvel heimurinn allur. Aðrir hugsuðu þó fyrst og fremst að maka krókinn fyrir sig og sína.

Kóngulær eru ótrúleg skordýr sem flestum finnst afskaplega ljótar. Löngum hefur maður dáðast að verkviti þeirra og áræðni við erfið skilyrði. Spunameistarar með verkfræðigáfur. Slíkur getur vefur þeirra verið, úthugsaður í krók og kima. Talning á böndum og þverböndum liggur við upp á millimeter og styrktarstrengir til að vefurinn þoli sem mest álag. Allt byggist þetta á því eina takmarki að veiða bráðina. Myndin hér að ofan sýnir kónguló spinna vefinn sinn með hekluböndum enda notar hún alla fæturna til verksins og hnýtir vel á milli. Nýlega uppgötvaði íslendingur nýja tegund af kóngulóm sem spinnur sterkari streng en nokkur önnur og er þráðurinn margfalt sterkari en nokkur annar þráður og efnasamsetningin vísindamönnum ráðgáta eins og reyndar íslenska fjármálahrunið er mörgum fræðimönnum ennþá daginn í dag. Þráðurinn nýi á að vera margfalt sterkari en stál og margfallt sterkari en nokkuð annað efni. Af hverju vorum við ekki búinn að fá þennan þráð í okkar öryggisnet sem er þrátt fyrir allt hálf íslensk uppfynning.

Margir eru fastir í neti skulda þessa daganna. Margir sjá ekki fram á að geta greitt úr skuldafeninu og sökkva í raun dýpra og dýpra með hverjum mánuðinum sem líður. Margir eru svektir og finnst þeir hafa verið lokkaðir í netið, grunlausir um afleiðingarnar. Fáir trúðu því að frumskógarlögmálið, að éta eða verða étin, ætti að gilda árið 2010. En auðvitað er ekki öll nótt úti og við erum okkar spunameistarar líka. Lítum jákvæðum augum til kóngulóarinnar. Hún getur kennt okkur margt þótt ekki væri nema að það að vera þolinmóð. Okkar tími mun koma aftur og við eigum að vera dugleg að spinna okkar örlagaþræði inn í framtíðina. Náttúran er alltaf söm við sig. Við lifum hins vegar í mennsku samfélagi þar sem við hjálpumst að en stöndum ekki ein að öllu eins og kóngulóin. Örlagavefurinn sem við erum í núna mun smá saman slitna upp og við verðum frjáls aftur. Spurningin er aðeins um hvaða leiðir við veljum og hvort við ætlum að rífa okkur upp úr þessu ein og óstudd sem þjóð eða hvort við fáum hjálp vinaþjóða okkar eins og svo oft áður í sögunni þegar harðnaði í dalnum. Kónguló, kónguló, vísaðu mér á berjamó.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 27.9.2010 - 12:06 - FB ummæli ()

Vísindin og heilbrigðisþjónustan á Íslandi

stykkisholmurVið ræktum garðana okkar. Við höldum húsunum okkar við og pössum upp á smyrja bílinn reglulega og fara með hann í skoðun á hverju ári. Allt slétt og fellt á yfirborðinu. Ekkert vantar síðan upp á heilbrigði og fegurð móður náttúru þar sem við búum eins og meðfylgjandi mynd frá Breiðafirði sýnir. Hreint land með nóga orku, tært vatn alls staðar og sjórinn fullur af sjávarfangi. En hvernig skyldi síðan ein feitasta þjóð veraldar passa upp á sína innri fegurð og heilsuna almennt talað. Þessari spurningu reyna íslenskir heimilislæknar meðal annars að svara þessa daganna ásamt mörgum öðrum. Leitað er ráða í fræðunum með öðrum starfsgreinum heilsugæslunnar með það að markmiði að bæta þjónustuna og auðvelda mönnum aðgang að ráðgjöf og þjónustu fyrir alla, hvar sem þeir búa á landinu. Greinin hefur þróast frá „gamla“ heimilislækninum eða héraðslækninum í 4 ára sérnám þar sem lögð er áhersla á að bestu þekkingu á flestum sviðum læknisfræðinnar sem getur komið almenningi að sem mestu gagni.

Í raun heitir greinin heilsugæslulækningar enda byggist hún á teymisvinnu fleiri heilbrigðisstétta en gamla heitið, heimilislækningar, skýrir starfsviðið engu að síður jafnvel endar höfðar það til kjarnans í þjóðfélaginu, sjálfrar fjölskyldunnar og samskipta meðlimanna þeirra á milli. Sérstök áhersla er lögð á algengustu sjúkdómana, smitsjúkdóma og sjúkdóma sem snúa að umhverfi og lífstíl. Hvert aldurskeið hefur sín vandamál, allt frá ungbörnum til öldunga. Ungbarnaheilsuverndin, skólaheilsugæslan, unglingavandamálin, mæðraverndin, slysa- og bráðaþjónustan, atvinnu- og umhverfissjúkdómar, lífstílssjúkdómar, geðsjúkdómar og öldrunarþjónusta. Forvarnir hverskonar eru ávalt í megin fókus, sérstaklega þær sem tengjast slæmum lífstíl, tóbaksreykingum og áengis- og vímuefnavandamálum. Fylgst er reglubundið með leyndum áhættuþáttum svo sem aukinni líkamsþyngd, hreyfingarleysi, háu kólesteróli, háum blóðsykri og háum blóðþrýstingi.

Framfarir eiga sér með vísindum, rannsóknum og þróunarstarfi m.a. í grasrótinni sjálfri. Ekki er síst mikilvægt að virkja vísindin inn í sérfræðinám heimilislækna og daglegu vinnu. Þessa daganna takast menn t.d. á um mikilvægi blindrar skimunar fyrir allar konur sem forvörn gegn brjóstakrabbameini. Gæðaþróun er einmitt langtíma vinnuferill sem reynir að svara slíkum spurningum. Vísindi heilsugæslulækna taka fyrst og fremst mið af gæðaþróun til langs tíma og sem á að vera íhaldssöm í eðli sínu. Sígandi lukka er best og margar nýjungar innan læknisfræðinnar reynast því miður ekki standast tímans tönn þegar betur er að gáð.

Vísindaþing Félags íslenskra heimilislækna (FÍH) hefur verið haldið annað hvert ár í 20 ár og er eins og hver önnur uppskeruhátíð á íslenskri heilbrigðisþekkingu. Þar hafa verið lögð drög að nýjum rannsóknum og verkefnum, eldri rannsóknir kynntar svo og lagt mat á þá gæðaþróunarvinnu sem stunduð hefur verið. Vísindasjóður FÍH hefur styrkt einstök verkefni og eins áhugasama einstaklinga. Árangur hefur í gegnum tíðina verið glæsilegur og mörg verkefni verið jafnvel erlendum starfsbræðrum til fyrirmyndar og greinar eftir íslenska höfunda birtast m.a. í víðlesnustu læknatímaritum erlendis. Lokatakmarkið er síðan að rannsókna- og þróunarvinnan leiði til betri vinnuferla sem tekið er tillit til í nýjum klínískum leiðbeiningum Landlæknisembættisins sem einmitt sá um að mennta fyrstu íslensku héraðslæknana fyrir tæplega 250 árum síðan.

8-9 október verður 10. vísindaþing FÍH haldið í Stykkishólmi. Fljótlega eftir þingið mun ég kynna á blogginu mínu áhugaverð efnin sem þar verða kynnt. Nú eru viðsjárverðir tímar og heilmilislækningar eiga undir högg að sækja, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu. Mikil undirmönnun hefur verið um árabil í starfstéttinni og meðalaldur heimilislækna orðin ískyggilega hár eða rúmlega 50 ár eins og kom fram nýrri skýrslu Samtaka verslunar og þjónustu um málið og greint var frá í Morgunblaðinu fyrir helgi. Útlit er fyrir að meirihluti þeirra lækna sem stafa í dag hætti störfum innan fárra ára. Þannig eru blikur á lofti hér á landi en alls staðar erlendis er þessi grein læknisfræðinnar í miklum blóma og vex hraðar en nokkur önnur sérgrein læknisfræðinnar.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag · útivist

Sunnudagur 26.9.2010 - 13:33 - FB ummæli ()

Íslensku fossarnir og bankarnir

fossar1Sala listaverka til að borga upp skuldir gömlu bankanna erlendis er dálítið táknrænt fyrir stöðuna í dag. Og sem betur fer er kreppan ekki allsstaðar. Í gær var seld á uppboði hjá Sotheby´s í New York ljósmyndasería af íslensku fossunum eftir Ólaf Elíasson sem var áður í eign Lehman Brothers fyrir tæpl. hálfa milljón dollara eða um 53 milljónir íslenskra króna eins og mogginn greindi frá í morgun.

Ef aðeins ljósmyndir seljast á slíkar upphæðir, sem reyndar eru einstök listaverk, að þá getur maður líka ímyndað sér hvert raunverulegt virði sjálft myndefnið er. Þarna ræður auðvitað samspil einstaks myndlistamanns og stórkostlegar náttúru Íslands. Þvílíkt lán er að við eigum hvortveggja og nú bíðum við bara eftir Hörpunni til að fá athygli heimsins á íslenskri menningu á nýjan leik og fyrir hvað íslensk menning getur staðið.

Fréttin rifjar upp gamlar fréttir af listaverkasöfnum gömlu íslensku bankanna sem óvart gleymdist að verðmeta og selja með öðrum eignum og lánasöfnum þegar gömlu bankarnir voru einkavæddir í hasti á sínum tíma og vonandi verður nú rannsakað eins og ný þingsályktunartillaga felur í sér. Listaverkasafn sem var í raun almennings í þá daga. Við skulum vona að með þjóðnýtingu bankanna og áður en þeir voru aftur seldir á dögunum hafi eignarhaldið verið tryggt hjá þjóðinni og að sömu mistök hafi ekki verið gerð aftur og þessi söfn látin fylgja með, nú til erlendra eigenda. Um miklar þjóðargersemar er að ræða, sem í versta falli má selja til að bjarga okkur úr eigin skuldafeni þessa daganna. Eins minnir frétt dagsins á þær gersemar sem sjálfir fossarnir eru og við verðum að varðveita og fórna ekki öllu fyrir svo sem fyrir ódýra raforku.

Flokkar: Óflokkað · Dægurmál · Lífstíll · Menning og listir · Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 25.9.2010 - 10:38 - FB ummæli ()

Þjóðarhjartað

healthcareAð íslenska þjóðin hafi aðeins eitt hjarta er kannski ekki alveg sannleikanum samkvæmt eins og stendur í auglýsingu dagsins á Hjartadeginum 26.9.2010, Öll þjóðin -eitt hjarta, þótt það sé auðvitað satt að þjóðin stefni sameiginlega að lifa hremmingarnar nú af. Þá má þá líka segja að þjóðin hafi fengið hjartaáfall haustið 2008 eða þjóðarhjartað hafi verið kramið og sé að jafna sig. Ekki sem betur fer af alvarlegri kransæðastíflu og hjartadrepi heldur slæmu hjartsláttarkasti með verkjum og vanlíðan. Sjúkdómurinn reyndist grafalvarlegur en er læknanlegur með endurhæfingu og eftirliti. Ekki hafði verið fylgst nægjanlega vel með blóðþrýstinginum og öðrum áhættuþáttum svo sem offitunni. En hvað hefði skeð ef sjúkdómurinn hefði náð að ganga lengra. Ekki er víst að þjóðin hefði lifað þær hremmingar af. Það má því segja að það hafi verið lán í óláni að sjúklingurinn greindist á læknanlegu stigi þrátt fyrir allt og að hægt sé að bjóða lækningu nú. Það þýðir að minnsta kosti ekki lengur að þrjóskast við og stinga hausnum í sandinn. Og sjúklingurinn verður að hafa mandóm til að taka á sínum málum.

Alvarlegustu hjartasjúkdómarnir sem er kransæðakölkun og afleiðingar hás blóðþrýstings til margra ára eru að mörgu leiti fyrirséður sjúkdómur. Fólk sem lifir illa, reykir og borðar of mikið, er of feitt og hreyfir sig lítið, er í mestri áhættu. Áhættuþættirnir mælast meðal annars í háum blóðþrýstingi og háu kólesteróli. Hlutverk heimilislækna og hjarta- og æðalækna er að fylgjast með þessum þáttum og reyna að hafa áhrif á lífsvenjur fólks. Eins að gefa lyf og fylgjast með þróun sjúkdómseinkenna. Í mörgum tilfellum er hægt að snúa þróuninni við og margir sjúklingar breyta algerlega um lífstíl og lifa gæfuríkara lífi á eftir. Þar komu forvarnir að gagni og hægt var að bregðast við.

Hættumerki mátti víða sjá þjóðlífinu sl. áratug og þeir fátæku urðu fátækari og þeir ríkari, ríkari. Falin verðbólga, kúlulán meðal útvalda sem og arður og ofurlaun í illa reknum fyrirtækjum og bönkum. Við kunnum ekki fótum okkar fjárráð og almenningur tók lán á lán ofan til að reyna að fylgja eftir ímyndaðri meðalmennsku m.a. í íbúðar- og bílakaupum. Í sjálfu sér var sjúkómurinn geðrænn í eðli sínu eins og þegar um einhverskonar fíkn er að ræða og menn hræðast timburmenn og að horfast í afleiðingar gjörða sinna. Sállíkamleg einkenni og afneitun eru algengust einkennin eða þar til menn verða hræddir um líf sitt og fá viðvörun með áfalli og taka þá á málum. Aðrir eru ekki svo heppnir og fá ekki viðvörun eða hunsa hana. Og þá fer sem fer.

Nýjustu upplýsingar í gær eru að Íslendingar séu meðal feitustu þjóða og verma 9 sætið á heimslista OECD ríkja. Miklu feitari en nágranaþjóðirnar. Vísbendingar eru að að offitan ná til barnanna okkar. Fyrstu einkenni offitu eru meðal annars fitubreytingar í kransæðum. Fitan veldur mörgum sjúkdómum sem eiga eftir að aukast í framtíðinni að óbreyttu. Fyrir utan hjarta- og æðasjúkdóma að þá má nefna sykursýki, krabbamein og gigtarsjúkdóma sem og þunglyndi. Það er ljóst að við hreyfum okkur of lítið og við borðum of mikið, sérstaklega sykur og feitmeti hverskonar. Þetta þarf að laga og við eigum að borða miklu meira af fiski. Þá líður okkur betur, við lifum lengur og spörum óhemju mikið í heilbrigðiskostnaði. Gangi okkur öllum vel og tökum þátt og til hamingju með Hjartadaginn.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Íþróttir · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 24.9.2010 - 11:08 - FB ummæli ()

Fagur fiskur

fagur fiskur„Fagur fiskur í sjó,
brettist upp á halanum
með rauða kúlu á maganum.
Vanda, banda,
gættu þinna handa.“

Í pólitíkinn og jafnvel innan stjórnsýslunar sjálfrar eru margir fagrir fiskar með rauða kúlu á maganum þótt sumir séu reyndar meira eins og fiskar á þurru landi sem þekkja ekki sitt nærumhverfi. Umræða síðustu misseri, ekki síst um heilbrigðismál minnir mig á ofangreinda vísu því hún endar með hörðum skell. T.d. það að byggja háskólasjúkrahús fyrir tugmilljarða en rífa á sama tíma niður sjálfa grunnþjónustuna, heilsugæsluna. Eins að tryggja ekki mannauðinn í heilbrigðiskerfinu sem skiptir miklu meira máli en byggja tóm hús. Eins og fram kemur í frétt moggans í gær er stétt heimilislækna hér á landi að deyja út! „Vanda, banda, gættu þinna handa“….

Sveinn Kjartansson matreiðslumaður, hefur hins vegar sýnt og sannað að hann er einn af okkar bestu kokkum. Áratuga reynsla viðskiptavina og nú síðast mjög vinsælir þættir hjá RÚV á sunnudagskvöldum sem Saga film hefur framleitt, Fagur fiskur í sjó, sýna afbragðs takta í eldamennsku sem kemur örgustu kjötætum og fiskhöturum til að svelgjast á. Jafnvel þorskhausarnir verða sem herramannsmatur. Nálgun og virðing fyrir viðfangsefninu er aðdáunarverð. Þvílík auðlegð sem við eigum annars í sjávarfanginu okkar sem hann kynnir svo vel. Ef einhverjir geta gert hlutskipti okkar auðveldara á þessum ögurtímum að þá eru það listakokkar á borð við Svein sem kennir okkur nýja hugsun í matarlist og um leið og hann gerir lífið okkar miku skemmtilegra. Geta aðrir ekki reynt að læra af honum og einbeitt sér að því sem þeir eru besti í, og látið aðra um hitt? Aðeins þannig verða þeir aðdáunarverðir og koma þjóðfélaginu að góðu gagni.

Allt er spennandi að smakka úr sjónum og hugmyndarflugið á sér engin takmörk, t.d. heilsteiktur roðhreinsaður karfi á grillið í kvöld með chilisósu. Hvað er hægt að hugsa sér betra? Þættirnir eru reyndar ný nálgun þar sem við fáum að kynnast hvaðan hráefnið er fengið úr fögrum sjónum. Ónýttir fiskar og nýir stofnar eins og makríll. Ef þetta er ekki til að fylla mann pínu bjartsýni varðandi framtíðina, að þá veit ég ekki hvað. En það besta af öllu er hollustan í fiskinum okkar, ekki síst í omega 3 fitusýrunum sem er sem yngingarmeðal fyrir þjóðina. Hún hefur m.a. sýnt sig draga úr æðabólgum, æðakölkun, gigtareinkennum, elliglöpum, krabbameinum, athyglisbresti og þunglyndi. Fisk á diskinn minn. Já takk.

Hvergi annars staðar á byggðu bóli eiga íbúar sennilega aðgang að öðru eins úrvals hráefni og við Íslendingar, þótt auðvitað grænmeti mætti vera aðgengilegra og ávextir ódýrari. Og hvergi fæðast börnin heilbrigðari. Við erum rétt að átta okkur á öllum herlegheitunum og möguleikunum, sérstaklega þegar við sjáum samanburðinn í aðstæðum erlendis í fjölmiðlunum, þurrkar eða flóð, eitur- og mengunaráhrif og skort á landi. Allt byggist þetta á samspili landsins okkar við náttúruöflin, veðurfarið og sjóinn, sem er okkar stærsta matarkista. Vatnið sem við höfum svo mikið af og passlegur kuldi í lofti en hiti í sjónum er okkar lukka. Til sjávar og sveita, útgerðar og landbúnaðar. Við sitjum á fjársjóð og óendanlegri auðlegð fyrir komandi kynslóðir, ef við förum vel með og reynum að vera skynsöm. Og aðeins þannig tryggjum við líka mannauðinn, heilsuna og velferðina að öðru leiti. Aðeins þess vegna viljum við búa hér á landi.

„Vingur, slingur, vara þína fingur.

Fetta, bretta, svo skal högg á hendi detta“.

Flokkar: Óflokkað · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 22.9.2010 - 19:49 - FB ummæli ()

Reykjavíkurborg vill taka heilsugæsluna yfir

Í ljósi síðustu frétta um sameiningu heilsugæslustöðva og áframhaldandi niðurskurð þjónustunnar við höfuðborgarbúa koma fréttir nú á óvart. Borgarstjórn hefur samþykkt tillögu borgarfulltrúa Besta flokksins og Samfylkingar um að óska eftir formlegum viðræðum við ríkisvaldið um framtíðarfyrirkomulag heilsugæslunnar í Reykjavík. Markmiðið með viðræðunum er að Reykjavíkurborg taki við heilsugæslunni eins og segir á fréttavef RÚV.  Spurning er hvort borgin vilji nú verja þjónustuna sem ríkið vill skera niður. Hingað til hefur lítið verið hlustað á óskir fagfólks. Heilsugæslustöðvarnar tvær í Hanfarfirði voru færðar nauðugar undir stjórnunarvænginn í Reykjavík fyrir 5 árum síðan. Starfsfólkið mótmælti kröftuglega þá og harmaði að gengið skyldi á nærþjónustuna, sjálfstæði og frumkvöðlastarf stöðvanna. Nokkrum árum áður hafði málefni heilsugæslustöðvanna færst úr hendi sveitastjórnanna til ríkisins að ósk sveitafélganna sjálfra þar sem þeim óx kostnaðurinn í augum. Nú er spurningin, hefur Reykjavíkurborg og nágranasveitafélögin efni á að reka heilsugæsluna án þess að skera niður þjónustuna?

Flokkar: Óflokkað · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn