Fimmtudagur 12.8.2010 - 13:35 - FB ummæli ()

Ofurbakteríurnar á Íslandi

Ofurbakteríur hafa verið til umfjöllunar í heimsfjölmiðlunum og hér heima á Vísi.is og Fréttablaðinu í morgun vegna nýs afbrigðis af sýklalyfjaónæmi sem er bundið við ákveðna ensímvirkni. Erfðaefnið sem ákveður slíka virkni getur borist á milli bakteríustofna, jafnvel stofna sem eru hvað algengastir að valda sýkingum í þjóðfélaginu og sem smitast auðveldlega á milli manna. Allir sjá hvað vandamálið er stórt ef ekki er hægt að meðhöndla algengustu sýkingarnar á áhrifaríkan hátt og hvaða ógn þjóðfélaginu stendur af slíkum „ofursýklum“, ekki síst hjá börnum og gamla fólkinu. En lítum okkur aðeins nær enda málið okkur mjög skylt eins og reyndar margt annað sem miður hefur farið í þjóðfélaginu á síðustu misserum og við erum að súpa afleiðingarnar af þessa daganna.

Á Íslandi hafa grasserað ofurbakteríur um árabil í miklu meira mæli en í nágranalöndunum og er mikilli og ómarkvissri notkun sýklalyfja helst um að kenna. Um er að ræða sýkla sem valda algengustu bakteríusýkingum hjá börnum, eyrnabólgum og lungnabólgum, svokallaðra pneumókokka. Mörg börn bera þessa sýkla og rannsóknir hér heima sýna að smit gerist helst eftir sýklalyfjameðferð eða í allt að helmingi tilfella. Það er vegna þess að þá drepast sýklalyfjanæmu bakteríurnar í nefkoksflórunni um leið og þeir ónæmu ná forskoti og fylla í skarðið. Um mjög alvarlegt ástand er að ræða hér á landi enda upp undir 40% af öllum sýkingum sem þessar bakteríur valda með ónæmi fyrir penicillíni og helstu varalyfjum. Í vaxandi mæli hefur enda þurft að leggja börn inn til sýklalyfjameðferðar í æð eða vöðva á sjúkrahús vegna sýkinga sem ekki tókst að ráða við með venjulegri inntöku. Hér á höfuðborgarsvæðinu er ástandið hvað verst og ef um alverlegri sýkingar er að ræða m.a. í heilsugæslunni verður strax að beita hæstu mögulegum skömmtum sem völ er á í þeirri von að árangur náist.

Það sem mestu máli skiptir hér á  landi í náinni framtíð er að nota sýklalyfin skynsamlega því smit á ónæmum sýklum gengur miklu hraðar fyrir sig ef fólk notar sýklalyf af litlu sem engu tilefni. Gildir einu þótt reynt sé að bólusetja fólk gegn þessum sýklum tímabundið og það eru alltaf að koma fram nýir stofnar sýkla sem kallast ofurbakteríur vegna þess eins að þær fá forskot á úrlausnir okkar mannanna.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 9.8.2010 - 18:28 - FB ummæli ()

Skeytin tekin

Allir þekkja sögu fjarskipta þar sem morsið gegndi veigamiklu hlutverki, ekki síst þegar koma þurfti nauðsynlegum upplýsingum hratt og örugglega til skila. SOS morsið er sennilega frægasta ákallið um hjálp sem þarf að berast tafarlaust.

Í sveitinni í gamla daga þurfti bóndinn alltaf að fylgjast með skeytunum nokkrum sinnum á dag, „taka skeytin“ og átti þá við að hlusta á veðurfréttirnar, eitthvað sem skipti hann og lífsafkomu fjölskyldunnar greinilega miklu máli. Um leið fékk hann sér í pípu og  gjarnan einn kaffisopa. Upphafið af orðatiltækinu var samt frá þeim tíma þegar skipsstjórnendur þurftu að fá allar sínar upplýsingar frá umheiminum með mors-skeytasendingum. Að hafa „tekið við“ skeytunum gerðu menn að vissu leiti líka ábyrga enda veður oft válynd, skipsskaðar tíðir og mörgum mátti bjarga með að leita í var. Þjóðfélaginu okkar hefur reyndar oft verið líkt við fleyg sem bjarga verður frá nýju strandi. Og veðrin í dag eru ekkert síður válynd þótt í annarri mynd sé. Við ættum líka að vera reynslunni ríkari að hafa ekki hlustað og tekið við skeytunum á sínum tíma.

En hvenær eru fréttir ákall um hjálp eða viðvörun og hvenær eru þær eitthvað allt annað. Bloggið nú eru skeytasendingar almennings í samfélaginu, þörf fyrir að miðla upplýsingum manna á millum, mis mikilvægt, stundum skýrt, stundum óskýrt. Stundum líka einmannaleg tjáning. Bloggið er samt almennur nútímamiðill, skrifað í bók eins og forðum. Einnig verkfæri til að leika sér með orð og hugtök.

Ég sakna þó ákveðins jafnvægis á milli netmiðlanna í dag, bloggsins, fréttablaðanna og ljósvakamiðlanna. Lítum aðeins nánar á tölvuvæðinguna og netmiðla sem gert hafa dagblöðin og hefðbundnar fréttaútsendingar ljósvakamiðla nánast gamaldags. Mogginn ekki lengur ómissandi og fréttablaðið heitir aðeins „Fréttablaðið“ eins og glöggur erlendur gestur nefndi nýlega í fréttaviðtali. Hlutirnir gerast svo hratt að frétt morgunsins er orðin gömul að kveldi og vart brúkleg lengur til flutnings. Aðhald og sparnaður hefðbundinna fréttamiðla hafa síðan takmarkað rannsóknafréttamennskuna, jafnvel þannig að ástandið hefur verið eins og þrúgandi þögn, eins og hefur sýnt sig endurtekið í sumar meðal annars á RÚV. Bloggið hefur hins vegar sýnt sig koma í veg fyrir algera þöggun, vera hið lifandi afl til skoðanamyndunar á öllum  tímum og sem fullkomnar fréttaflutninginn í einni hendingu.

Ókeypis netmiðlar hafa því miður verið sniðinn þröngur stakkur fjárhagslega og lítið geta lagt sig eftir hinni hefðbundnu  rannsóknablaðamennsku. Þeir treysta meira á að geta gripið upp fréttir og pistla sem birtast annars staðar, jafnvel hjá hinum hefðbundnu fréttamiðlum og virka þannig sem fréttatorg. En með blogginu er almenningur farinn að taka virkan þátt í túlkun fréttaefnis og í því fellst mikið frelsi á miðbæjartorginu. Duglegir bloggarar hafa eytt miklum tíma í upplýsingaöflun og eru margir hverjir hin óháða fréttavé og sem í raun sinnir rannsóknablaðamennskunni hvað best þessa daganna. En leikurinn er ójafn þegar kemur að því að umbuna fyrir erfiðið í launum enda um frjálst framtak einstaklinganna að ræða, sprottið upp af áhuga, leik og jafnvel frelsisþrá. Lífsbarátta einstaklingsins gengur alltaf fyrir og á einhverjum tímapunktum þarf að velja á milli frístundastarfsins og launastarfsins.

Netmiðlar eiga auðvitað að grípa tækifærið og fá hæfasta fólkið til liðs við sig. Það er ekki gripið upp af götunni og auðvitað best að fólk sem hefur sannað sig svo um munar, njóti. Eyjan hefur sýnt sig verða öflugur netmiðill og er það ekki síst Agli Helgasyni að þakka sem öflugum bloggara og pistlahöfundi. Á honum einum græðir Eyjan meira en á nokkurri annarri fréttastöð á torginu að mínu mati og skapar henni algera sérstöðu sem spegill þjóðarsálarinnar. Lára Hanna Einarsdóttir bloggari hefur einnig sannað sig að sama skapi að geta verið sjálfstæður netmiðill út af fyrir sig og væri skarð fyrir skildi ef hún sér sig knúna til að hætta vegna launaleysis fyrir störfin sín fyrir okkur öll hin. Og laun er jú aðeins þóknun fyrir veitta vinnu sem óskað er eftir. Aldrei hefur verið jafn mikil þörf á vinnu eins og hennar.

Fórnakostnaður hins almenna bloggara er alltaf tíminn sem flýgur hratt frá okkur fyrir framan skjáinn og í auknu mæli tölum við við sjálf okkur og ósýnilega fólkið. Það út af fyrir sig er áhyggjuefni og hefur löngum verið viðfangsefni geðlæknisfræðinnar. Takmörkun á mannlegum samskiptum er streituvaldandi til lengdar. Frétta- og netmiðlafíkn er handan við hornið sem náði nýjum hæðum eftir hrun þegar allir þurftu að fylgjast með öllum og hvað morgundagurinn bæri í för með sér. Þarna getur oft verið erfitt að skilja milli hófs og óhófs eins og gildir reyndar um alla góða siði.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 7.8.2010 - 17:16 - FB ummæli ()

Glugginn minn

glugginn minn

Mikið ósköp væri gaman að geta gert eitthvað svaka skemmtilegt og ævintýralegt, eins og t.d. skreppa í nokkra daga siglingu með skemmtiferðaskipi eins og hér sést og sem kom í heimsókn til okkar í Hafnarfjörðinn snemmsumars. Svona eins og einn hring kringum landið svo ég tali ekki um hnattsiglingu. Það vill svo skemmtilega til að glugginn á skrifstofunni minni snýr beint út að höfninni svo ég á auðvelt með að fylgjast með skipaferðum og stundum læt ég mig dreyma. Hvernigf er að vera ókunnugur á framandi slóðum og vita ekki hvar maður lendir. En því miður stendur ferð með þeim tuga skemmtiferðaskipa sem heimsækja landið á hverju sumri okkur ekki til boða í dag.

Bara nafnið „skemmtiferðaskip“ laðar að og hugsunin um gamla Gullfoss fær á sig nýja mynd í hugskotinu. Maður veltir jafnvel fyrir sér hvort væri nú skemmtilegra að að sigla með honum eins og hann var eða þessum tröllauknu nútímalegu fljótandi eylöndum. Og tíminn sjálfur er líka afstæður, sá gamli og sá nýi. Í dag þegar við ferðumst, virðist skipta mestu máli að komast sem fyrst á milli staða, á sem einfaldastan hátt. Það að njóta ferðalagsins og skynja hnöttinn okkar í raunverulegum fjarlægðum virðist skipta minna máli. Við viljum komast yfir sem mest á sem skemmstum tíma, sjá allt og skemmta okkur í einni kippu og einum pakka.

Við gerum oft allt til að sniðganga hversdagsleikann sem við höfum fengið svo nóg af. Það kallast þá að vissu leiti kulnun og sem virðist vera óhjákvæmileg afleiðing nútímavæðingar og langvarandi streitu. En við eigum samt svo marga leiki á borði sem við þurfum að læra að notfæra okkur.

Sigling höfðar þó til einhvers frelsis, víðáttu og þolinmæði, einhvers sem tekur tíma. Skemmtiferðaskip er sérstakt íslenskt heiti á skipi sem siglir með farþega um heimshöfin til að njóta og gleðjast. Erlend sambærileg heiti á skemmtiferðaskipi ná ekki þessum íslensku hughrifum á sama hátt. Bara það að geta notið eftirvæntingarinnar að koma sífellt á nýja staði og njóta síðan framandi umhverfisins í fylgd samferðarmanna, er í allt annarri vídd samanborið við að þjóta um loftin blá milli heimsborganna með stuttri viðdvöl í leiðinlegum fríhöfnum. Skemmtiferðaskipið er líka samfélag með sín eigin lög og reglur. En hægt er að sigla því í strand og sumir verða strandaglópar á viðkomustöðunum.

Ég hef fylgst með erlendu gestunum sem komið hafa í heimsókn í litla miðbæinn okkar í Hafnarfirði og virðast frelsinu svo fegnir. Eins að sjá skipin í öllu sínu veldi sigla eins og ekkert sé inn höfnina að hafnarbakkanum, hljóðlaust og nærfærnislega. Jafnvel með þúsundir gesta auk áhafnar. Stundum eins og þegar einhver kemur loks heim eftir langa fjarveru. Og allir verða hluti af miðbæjarsamfélaginu eina dagstund. Bærinn lifnar við og allt í einu tilheyrum miklu stærri heimi. Vinsemd og eftirvænting og við verðum þess öðruvísi vör að það hljóti að vera gott að eiga heima þar sem svo margir vilja koma og heimsækja. Og svo kveðja þeir með stuttu flauti og koma kannski aldrei aftur. Maður vill getað veifað til baka.

Það er mikill lúxus að hafa aðgang að góðu útsýni eins og ég hef í vinnunni minni. Fyrir þannan aðgang er ég Heilsugæslunni þakklátur. Skjólstæðingum mínum finnst oft líka gott að koma á heilsugæslustöððina þegar þeir koma til að leita sér lækningar og ráðgjafar. Ekki síst þar sem útsýnið út um gluggana skipta miklu máli. Eins að geta notið málverka á veggjunum sem Hafnafjarðarbær hefur lánað okkur og gengið síðan að gluggunum og notið draumkennds útsýnisins yfir hafnarbakkann. Horft jafnvel á öll skipin sem er starfsmönnunum ekkert síður en sjúklingum mikils virði.

Stundum eru gluggarnir líka eins og speglar af raunveruleikanum, eins og hann í raun gæti verið á annarri stund og öðrum stað í lífinu. Stundum ganga skjólstæðingarnir þannig beint að glugganum mínum eftir að hafa heilsað og taka eitt andkaf. Það er góð byrjun á viðtali. Og við erum reyndar öll á sömu siglingunni, aðeins á mismunandi klassa eins og gengur en útsýnið það sama. Ég hef oft óskað að allir læknar og skjólstæðingar þeirra hefðu aðgang að glugga eins og mínum. Og vonandi forðum við síðan sameiginlega okkar „skemmtiferðaskipi“ frá nýju strandi.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 4.8.2010 - 14:03 - FB ummæli ()

Heildarmyndin skýrari

Á síðustu dögum hefur heildarmyndin skýrst töluvert hvað varðar aðdraganda hrunsins og hvaða eðlishvatir í mannsskepnunni lágu þar á bak við. Kemur þar aðallega tvennt til þ.e.  græðgivæðing og einkavinavæðing. Í dag eru nefnilega tvær stærstu rætur vandans óðum að skýrast, annars vegar „skuldavandi stórskuldugra“ sem með hjálp bankanna og eftirlitsaðila settu ríkið á hausinn og hins vegar „þöggun og vöntun á upplýstri umræðu“ sem mikið var til umræðu hér á Eyjunni í gær og sem auðvitað var og er andsnúið klíkuskap innan fjármálageirans og stjórnsýslunnar sem ennþá eimir af. Það er nefnilega með ólíkindum að heyra, nú 2 árum eftir hrun, í fyrsta skipti í opinberri umræðu hvernig menn gátu selt bönkunum viðskiptavild og pappírsfyrirtæki sín, jafnvel á uppsprengdu verði sem staðgreiðslu í hlutabréfakaupum í bönkunum um leið og sem leið til að geta tekið einnig svokölluð kúlulán fyrir hundruð milljóna króna til kaupa á meira af hlutabréfum í bönkunum, og það með veði í skuldabréfunum sjálfum!!  Ég, um mig, frá mér, til mín. Jafnframt þegar nýskipaður umboðsmaður almennings viðurkennir að „hafa hrifist einfaldlega með í græðgivæðingunni“ eins og fyrrverandi umboðsmaður skuldara gerði svo vel grein fyrir í Kastljósþætti gærkvöldsins, þökk sé Sigmari. 

Nákvæmlega þannig urðu þessir frægu ósýnilegu peningar til um stundarsakir á pappírunum en sem auðvitað urðu samt að engu þegar upp var staðið, enda aldrei til!  Árlegan arð af hlutabréfunum sem greiddur var út var hins vegar auðvelt að reikna og nýta. Það alvarlegasta sem þó gleymist í þessari umræðu allri er hvaða afleiðingar þetta hafði fyrir hinn „venjulega skuldara“ , almenning, sem eingöngu hafði tekið gengistryggð lán til íbúða eða bílakaupa og sem bankarnir hvött óspart til eða einfaldlega til framfærslu þar sem jafnvel námslán voru af skornum skammti í góðærinu. Þeir skuldarar taka öðrum fremur á sig skellinn nú, gengistrygginguna og verðtrygginguna nú auk gjaldfalls íslensku krónunnar. Einnig atvinnumissi og missi eigna svo sem eigin húsnæðis. Þeir eiga ekkert skylt með nöfnum sínum þeim stórskuldugu. Þeir fyrrnefndu eru margir hverjir gjaldþrota í dag af völdum spunagjörningsins sem þeir stórskuldugu tóku þátt í að skapa og sem fá nú afskrifuð lán sín í bak og fyrir eftir allskonar krókaleiðum í bakherbergjum bankanna.

Það verður spennandi að fylgjast með fyrsta opinbera uppgjörinu hjá fyrrverandi umboðsmanni stórskuldara eins og hann hefur lofað. Hann vann sannarlega fyrir kaupinu sínu þennan eina dag sem hann var ráðinn, þökk sé félagsmálaráðherra. Þá er kannski hægt að fara að kalla fleiri til ábyrgðar og það sem mikilvægast er, stoppa í götin, hreinsa kerfið af kerfisfeilum og sortera út hagmuni stórskuldugara og almennings. Heildarmyndin er því óðum að skýrast og vonandi styttist í að við getum farið að endurræsa þjóðfélagið okkar.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

Mánudagur 2.8.2010 - 22:40 - FB ummæli ()

Afsakið hlé, gott fólk

hleÍ gærkvöldi fylgdist ég með gamalli margverðlaunaðri Hollywood mynd frá 1961, Morgunverður á Tiffany’s, Breakfast at Tiffany’s. Í besta artriðinu, í sjálfu partýinu, þar sem allir voru kominir í gott stuð og ég líka bilaði útsendingin sem svo oft áður hjá RÚV. Fyrst myndin,  svo hljóðið og siðast textinn. Myndin hafði reyndar rúllað góðan tíma áður en útsendingarstjórinn vaknaði. AFSAKIÐ HLÉ. Stemmningin var farin þegar allt komst í lag eftir ca. 10 mín. Þá velti ég fyrir mér af hverju þetta gerist aldrei á hinum stöðvunum. Algengast er þó að mistök séu gerð í beinni útsendingu eins og t.d. í fréttatímunum. Vitlaus frétt eða tal eða texta vantar.

Reyndar var stórt hlé á fréttatengdu efni í sumar. Sennilega heilir 3 mánuðir. AFSAKIÐ HLÉ. Og það á sjálfri ríkisfréttastöðinni sem ég borga tæplega 18.000 kr á ári til og konan mín og dóttir sem býr heima annað eins. Og það fáa sem ég sækist eftir að horfa á er einmitt fréttir og fréttatengt efni.

Ég ætlaði samt ekki að æsa mig mikið yfir þessu því auðvitað verðum við að hafa einn ríkisfjölmiðil sem ég reyndar er farin að setja spurningu við hvort ekki nægir að hafa sem útvarpsstöð með möguleika á langbylgjuútsendingu. En það sem rak mig til að taka þetta efni upp á blogginu er önnur firring og hroki í þjóðfélaginu sem kennd er við þá sem allt þykjast vita í pólítíkinni og vilja ráða öllu og ég var rækilega minntur á í morgun með skammaræðu til allra bloggara. Sá hinn sami virðist ekki þola opinbera umræðu í netheimum og þá gagnrýni sem þar kemur fram sem dæmin sanna endurtekið að svo mikil þörf er á að sé til staðar í endurreisninni í okkar litla en litríka klíkuþjóðfélagi. Söguna þekkja allir. Það virðist vera í þeirra þágu að takmörkun á málfrelsi í óritskoðuðum fjölmiðli sé sem mest til að þeir haldi sjó.

Í morgun birti Tryggvi Þór Herbertsson blogg hér á Eyjunni sem hann kallar, Góða fólkið. Þar hæðist hann að þeim sem voga sér að koma fram með sínar eigin skoðanir í pólitíkinni og sem gagnrýna menn og málefni, að hans mati ómálefnalega. Góða fólkið nefnir hann bloggara sem hafi „óeðlilegan aðgang“ að fjölmiðlafrelsi til að koma þessum skoðunum sínum á framfæri í bloggfærslum. Það sem ég vildi sagt hafa um þetta er að sumir eru kóngar í föllnu ríki án þess að gera sér grein fyrir staðreyndunum og lifa í gamalli mýtu flokkræðis. Vá sé þeim sem voga sér að hafa aðrar skoðanir en þeir. Allir vita líka að Mogginn hleypir aðeins ákveðnum skoðunum að, með einum eða öðrum hætti. Sumar fréttir birtast aldrei eins og nýleg dæmi sanna t.d. um gagnrýnina sem átt hefur sér stað í lyfjamálum og lyfsölu. Þessum fjölmiðli og ákveðnum mönnum hugnast best þögnin í ákveðnum sérhagsmunamálum en sem skipta þjóðina miklu máli og þurfa ekki að afsaka sig sem þó RÚV gerir þegar beinar útsendingar eiga í hlut og þögnin er alsráðandi.

Þökk sé bloggheimum að einhver umræða á sér stað í mikilvægum þjóðfélagsmálum og a.m.k. þakka ég fyrir mig og þær upplýsingar sem ég hef fengið til að glöggva mig þar aðeins á stöðu mála. Ég vil líka taka fram að ég er ekki einn af þessum vinsælum bloggurum og góða fólki sem Tryggvi nefnir enda fæ ég sjaldan athugasemdir og hef ekki séð ástæðu til að loka fyrir þær á blogginu mínu.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 2.8.2010 - 10:54 - FB ummæli ()

Ef allt væri með felldu

hjolhysi-5Bílar og umferðin skiptir okkur nútímamanninn miklu máli, ekki síst á Íslandi þar sem oft er ekki hægt að treysta á annan ferðamáta nú orðið. Áður var það hesturinn sem var þarfasti þjónninn og ferðalaganna var örugglega vel notið. Nú er það bíllinn okkar með jafnvel nokkur hundruð hestöfl og umferðaröryggið skiptir mestu máli, enda eyðum við drjúgum tíma í bílum og þurfum oft að komast skjótt á milli staða. Stressið og mikil vinna gerir það að verkum að við þurfum að flýta okkur jafnvel meir en æskilegt er. Þótt vegalengdirnar dags daglega séu ekki jafn miklar og víða erlendis að þá er umferðarþunginn oft mjög mikill á álagstímum og jafnvel meiri en umferðarmannvirkin okkar bera með góðu móti. Við sem vön erum keyrum eftir minni enda umferðarmerkingar af skornum skammti. En hvernig haldið þið að það sé að vera útlendingur í umferðinni hér á landi?

Almenningssamgöngur innan höfuðborgarsvæðisins eru aðeins með strætó þar sem ferðir eru oft strjálar eða þá með leigubílum í völdum tilvikum. En auðvitað gætum við notað strætó miklu meira og þannig létt á umferðinni „ef allt væri með felldu“, miðað við aðstæður. Bílaeign landans er engu að síður með því mesta sem gerist í Evrópu, þökk sé góðærinu hér áður. Nú eldist bílaflotinn hins vegar hratt enda ekkert góðæri lengur.

Hvað sem öllu öðru líður verðum við að geta treyst á bílinn okkar og sem betur fer eru sífellt gerðar meiri kröfur til öryggi bílsins og umferðarinnar. Bílinn í dag er reyndar tækniundur, yfirleitt vel hannaðir og endast vel miðað við aðra hluti sem við erum alltaf að kaupa og eru ekki jafn nauðsynlegir. Og svo er hann gleðigjafi á sinn sérstaka hátt sem nota má til að ferðast í um landið okkar góða.

Önnur farartæki hafa þó selst betur en bílar hér á landi á undanförnum árum og sem virðast ekki sami mælikvarðinn á kreppuástandið. Á síðasta áratug hefur orðið sprengja í sölu á farartækjum sem hengja má aftan í bílana okkar, svökölluðum hjólhýsum og fellihýsum. Bíllin er þannig enn og aftur búinn að taka við hlutverki hestsins og nú sem dráttartæki. Nær fjórði hver Íslendingur hefur orðið beinan aðgang að fellihúsunum eða hjólhúsunum samkvæmt nýjustu tölum svo ekki sé talað um alla húsbílanna og tjaldvagnana. Ferðamáti landans og samkomur er enda orðið miðaður við góðan bíl og þessi hús á hjólum sem vegakerfið og umferðin er samt engan veginn í stakk búið til að taka á móti, a.m.k. ekki yfir hásumarið. Ég gleymi aldrei þegar við hjónin mættum á pæjumótið á Siglufirði með yngsta barnið okkar um árið með gamla góða tjaldið okkar. Við vorum ekki í sama flokki.

Reyndar ef allir sýna mikla biðlund og þolinmæði sem auðvitað er hin fagra hugsun í sumarfríinu og ef hún nær til enda ferðalagsins að þá gengur þetta næstum upp með heppni. Eins, ef við hin sem ekki erum í fríi og þurfum að komast fljótt á milli gerum ráð fyrir öllum umferðartöfunum í upphafi ferðar. Það sem er þó verst er að stórir aftan-í-vagnar á nánast öðrum hvorum bíl á köflum eru stórhættulegir farartálmar, sérstaklega ef gert er á annað borð ráð fyrir einhverjum framúrakstri á leiðinni. Vagnarnir byrgja manni sýn og rása oft mikið á veginum. Oft verður maður samt að láta slag standa og treysta á guð og lukkuna, því miður. Leikur sem getur verið milli lífs og dauða.

En ef þetta er okkur nauðsynlegt, að þá verður svo að vera, ekki satt. Tvö hús og tvö heimili. Samt hefði ég haldið að þeir sem eiga peningana gætu ráðstafað þeim í eitthvað viturlegra en að kaupa annað heimil á hjólum, sér í lagi ef við líka reiknum með öllum sem hafa aðgang að sumarbústöðum. Eða þurfum við alltaf að leita langt yfir skammt ef við eigum frí og höldum við alltaf að grasið sé fallegra hinum megin á landinu. Ferðalögin eru til að njóta og best er að eyða tíma með jörðinni sinni á tveimur jafnfljótum. Fjórðungur heimila er samt tæknilega gjaldþrota samkvæmt uppgefnum tölum svo einhverjir hljóta að vera að reisa sér „hurðarás um öxl“. Eða eigum við nú að segja „hús á öxli“. Það eina góða nú í kreppunni er að þá virðast vöruskemmurnar sem nú standa auðar á borð við Bauhaus koma að góðu gagni til að geyma öll  herlegheitin, megnið af árinu.

Nú er langt gengið á eina mestu umferðarhelgi ársins og dimmt er orðið á nóttunni sem minnir okkur á það sem bíður okkar þegar við komum heim. Og því miður má reikna með að margir séu hálf daprir í bragði og þreyttir á heimleiðinni eftir annasama helgi. Umferðin er líka sérstaklega varasöm vegna þess að mörg umferðarmannvirki anna ekki álaginu eins og áður segir og sem nú reynir hvað mest á. Mikil umræða hefur átt sér stað um vegakerfið, ekki síst hér á suðvesturhorninu og sýnist sitt hverjum um þá forgangsröðun hjá því opinbera að kosta dýra jarðgangagerð á strjálbýlustu svæðum landsins á sama tíma og notast er við gamaldags sveitaveigi á þjóð- og hringvegi landsins á sjálfu höfuðborgarsvæðinu. T.d. er Vesturlandsvegurinn einbreiður með brekku og beygju og örstuttri fráreim á hægri hönd þegar keyrt er er eins og leið liggur í Mosfellsbæinn í norðurátt, rétt norðan við Úlfarsfellið inn í hverfið sem ég á heima. Þarna má engu muna að stórslys verði á degi, sér í lagi þegar bílar á leið inn í íbúðahverfið þurfa snögglega að hægja á sér til að komast inn á nokkra metra fráreimina. Og þetta er eina leiðin inn í hverfið. Ef um tvíbreiða akrein væri að ræða og „allt væri með felldu“ væri fráreimin samkvæmt lögum kolólögleg en þar sem um venjulega einbreiða akbraut er að ræða verður hver að passa sig sem hann best getur. Á sama hátt verður maður að vera fljótur að skjótast inn á þjóðveginn þegar einhver gefur séns á leið út úr hverfinu. Hvalfjarðargöngin er annað dæmi og næstmesta slysagildran á Vesturlandsveginum, sérstaklega þegar olíuflutningabílar og aðrir þungaflutningar streyma um göngin á þröngum akreinunum á móti hvor öðrum eða bílar með stórhýsi í afturdragi.

Daglega berast fréttir af ólöglegu athæfi ökuníðinga sem stefna lífi okkar hinna í umferðinni í stórhættu. Ölæði eða öðru æði er oft um að kenna. Það er önnur saga. Tillitleysi í umferðinni er hins vegar oft alsráðandi, því miður, sérstaklega í oft gráum og drungalegum hversdagsleikanum. Einnig þegar allir ættu að vera í góðu skapi eftir fríið sítt með fjölskyldunum sínum. Reynum samt að vera glöð, ökum varlega, sýnum hvort öðru sérstaka tillitsemi og fögnum því að komast heil heim.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · útivist

Fimmtudagur 29.7.2010 - 08:57 - FB ummæli ()

í mýrinni

Ein besta sakamálasaga sem komið hefur út á Íslandi og sem reyndar hefur verið gefin út víða erlendis er án efa Mýrin eftir Arnald Indriðason. Kvikmyndin (Jar city) sem var gerð eftir bókinni er ekki síður frábær og drungalegar senur sem gerðust í Reykjavík við undirsöng angurværa söngradda Lögreglukórsins líða manni seint úr minni. Í dag vöðum við mýrina í höfuðborginni í öðrum skilningi, ýmist í ökkla eða eyra svo eftir er tekið víða langt út fyrir landsteinanna og sem efni er í annan reifara. Umræða um lyfjamálin í dag er gleggsta dæmið þar sem við ofnotum eða misnotum lyf eins og Ritalin, Lyrica og sýklalyfin eða höfum jafnvel alls ekki aðgang að ýmsum nauðsynlegum og sjálfsögðum lyfjum þegar við þurfum mest á þeim að halda vegna þess að þau fást ekki lengur og eru of ódýr. Það sem skýtur skökku við hér á landi samaborið við umræðuna um lyfjamál í þróunarlöndunum er að oftast eru það ódýrustu lyfin sem ekki fást á Íslandi, öfugt við þróunarlöndin.

Heilbrigðiskerfið er líka ýmist ofnotað á ýmsum stöðum eða ákveðin grunnþjónusta fæst ekki. Starfsemi heilsugæslunnar hefur verið hálf lömuð í sumar en nóg framboð er á sérfræðiþjónustu og vaktþjónustu sem er margfalt dýrari og meiri en þekkist í nágranalöndunum. Nú er jafnvel svo komið að ekki er lengur hægt að fara eftir alþjóðlegum klínískum leiðbeiningum um lyfjanotkun sem miða við allt annað starfsumhverfi en heilbrigðisstarfsmönnum er boðið upp á, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Og þeir sem allra mest þurfa á grunnþjónustu heilbrigðiskerfisins að halda, ekki sést bráðri þjónustu á daginn, verða að bíða eða fá hana ekki eins og t.d. langveikir og gamalmenni.

Eins og allt annað er oft erfitt að vita hvað er satt og hvað er logið. Umræðan í þjóðfélaginu öllu er með slíkum eindæmum að maður veit oft ekki hverju maður á að trúa. Það er í raun sama hvar komið er niður og ábyrga fjölmiðlaumræðu vantar ekki síst hjá ríkisfjölmiðlunum. Umræða um einkavæðinguna er oft snúið á haus og siðlaust er orðið löglegt áður en maður veit af. Dómstólar eru kvaddir til til að úrskurða um mál sem hingað til hefðu átt að höfða til almennrar skynssemi í upphafi eins og nýkveðinn Salómonsdómur í gengistryggðu lánamálunum ber glöggt með sér. Sanngirnina vantar og harkan og vægðarleysið allsráðandi. Allt eru þetta teikn um stjórnleysi og það sem alvarlegast er, skort á eðlilegri dómgreind í þjóðfélaginu. Verst er að horfa upp á klíkuskapinn tengt stjórnmálunum. Maður hefði haldið að sá tími væri liðinn og á meðan missum við frá okkur hæfasta fólkið til mikilvægustu starfanna.

Landið okkar sem kallað hefur verið land elds og ísa ber nafn með rentu þessa daganna. Spurningin er hins vegar sú hvort við brennum eða frjósum að lokum. Sem stendur sökkvum við hins vegar dýpra og dýpra í mýrina á sjálfu höfuðborgarsvæðinu. Ef við kunnum ekki að fara með forræðið verðum við að leita aðstoðar. Rauðu ljósin blikka víða eins og gerði fyrir hrun og allir litu undan. Lyfjamálin og slæmt aðgengi að heilbrigðisþjónustunni blikka ekkert síður en t.d. vandi heimilanna. Og mörg önnur mikilvæg mál brenna á okkur þessa góðu sumardaga þótt morguninn sé drungarlegur og þegar annars allir ættu að vera í góðu skapi og hlakka til helgarinnar.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

Þriðjudagur 27.7.2010 - 13:30 - FB ummæli ()

Ábyrgir og góðir viðskiptahættir lyfjafyrirtækja

Enn og aftur erum við minnt á óeðlilegan lyfjaskort í landinu á ódýrum lyfjum sem framleiðendur annað hvort hætta framleiðslu á tímabundið til að koma dýrari lyfjum á markað eða einfaldlega vegna þess að framleiðslan skilar ekki nógu miklum arði. Skipir engu máli hvort lyfin teljist nauðsynleg á markaði eða ekki. Lyf í öllum lyfjaflokkum hafa þannig dottið út af markaði hér á landi á sl. misserum og oft engin önnur sambærileg fengist í staðin. Þetta á m.a. við um sýklalyf, hjartalyf, bólgueyðandi lyf, hormonalyf og augn- og eyrnalyf. Sum nauðsynleg lyf fást reyndar á undanþágu ef enginn vill hafa markaðsleyfið lengur t.d. augnsmyrslið Klóramphnicol sem er nauðsynlegt eftir öll augnslys, stór og smá að mati augnlækna. Sveinn Rúnar Hauksson heimilislæknir skrifar í dag grein um efnið í Féttablaðið undir heitinu Sinadráttur og gróðafíkn. Áður hef ég bloggað um svipað efni hér á blogginu mínu m.a. í desember sl. http://blog.eyjan.is/vilhjalmurari/2009/12/10/lyfjaskorturinn-i-landinu/ og sem ég hef reyndar minnst á aftur síðar í öðrum bloggfærslum.

Mikill skjálfti var kominn í lyfjaframleiðendur erlendis gagnvart íslenska markaðnum í vor. Haft var eftir framkvæmdastjóra lyfjarisans Roche að íslenski örmarkaðurinn væri það lítill að hann skipti fyrirtækið ekki máli og það íhugaði að hætta sölu lyfja til landsins vegna óstöðugs lyfjaverðs á algengustu lyfjum. Sama hljóð kom frá framkvæmdastjóra Frumtaka, samtaka framleiðenda íslenskra frumlyfja vegna hugsanlegra nýskráninga á  lyfjum hér á landi og sem benti á að stjórnvöld hér á landi væru ekki tilbúin til að borga sambærilegt verð og fengist fyrir lyfin á hinum Norðurlöndunum.

Vandamálið í hnotskurn í dag er engu að síður að innflytjendur og framleiðendur hafa ekki tryggt að nauðsynleg lyf séu til á markaði hverju sinni og því síður sem þau eru ódýrari. Augljóst er að hagnaðarsjónarmið eru ofar þörfinni sem er látin víkja ef því er að skipta. Lyfjastofnun Íslands hefur lítið látið þessi mál til sín taka og treyst á markaðslögmálin, þrátt fyrir ábendingar meðal annars frá Landlæknisembættinu um alvarlega stöðu mála.  Stungið hefur því verið upp á að ríkið sjálft annist innflutning beint og milliliðalaust og endurveki þannig upp Lyfjaverslun Ríkisins. Um atvinnuskapandi atvinnurekstur gæti verið að ræða auk framleiðslu eins og tíðkaðist áður. Aðal atriðið er auðvitað að nauðsynleg lyf séu til á öllum tímum, ekki síst þau sem eldri eru og ódýrari. Nauðsynleg lyf á markaði er hluti af góðu heilbrigðiskerfi en reynslan af lyfjamarkaðnum nú vekur upp spurningar um traust á einkavæðingu og markaðsvæðingu þess kerfis.

Flokkar: Óflokkað · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 26.7.2010 - 14:32 - FB ummæli ()

Vatnið og orkan okkar

Fátt er meira rætt um þessa daganna en Magma-málið. En einu sinni er hið opinbera að klúðra málum og ráðuneyti orkumála gjörsamlega sofandi yfir gjörningi sem bæði virðist hafa verið lögleysa í upphafi, strangt til tekið, og sem er að minnsta kosti siðlaus aðgerð gagnvart almenningi landsins. Sala á meirihluta auðlindar þjóðarinnar og blóði landsins á ákveðnum svæðum til langs tíma og þannig yfirráðum er forkastanleg aðgerð sem dæmir nú sig sjálf enda mikið um fjallað. Fordæmið átti aldrei að skapa og sagan átti að hafa kennt okkur hvernig standa mætti betur að nýtingu og varðveislu vatns og hita í framtíðinni. Þetta er okkar sérsvið. Án þessarar auðlindar til eigin neyslu og yfirráða verður heldur vart búið hér á köldu landinu, a.m.k. ekki sem sjálfstæð þjóð sem elur á og aflar á eigin forsendum og verðleikum. Þessi auðlind er í dag e.t.v. eitthvað vannýtt en framtíðin býður upp á óteljandi möguleika sem er sífellt að verða verðmætari og í raun gulls ígildi. Útflutningur og meiri verðmætasköpun er handan við hornið.

Suðurnesin og Reykjavíkursvæðið hlýtur að teljast ein heild þegar litið er til þessara mála. Hagsmunir höfuðborgarsvæðisins hljóta því að liggja undir. Sem almennur neytandi á svæðinu teldi ég algjörlega óásættanlegt að þurfa að kaupa rafmagn og hita frá erlendu stórfyrirtæki í framtíðinni. Saga annarra landa sýnir mikið vægðarleysi í þessum efnum og miskunnarlaust er lokað á nauðsynleg orkuaðföng ef fólk er ekki tilbúið til að borga uppsett verð sem væntanlega yrði nálægt heimsmarkaðsverði. Gassjálfsalar erlendra orkufyrirtækja í fátæktarhverfum þróunarríkja er t.d. glöggt dæmi um þetta. Og hvað skyldi þá verða um allan annan almennan aðgang að heitu og köldu vatni eins og t.d. í sundlaugunum okkar. Hver væri samkeppnisfær um að reka slíka staði ef miða á við heimsmarkaðsverð á vatni og orku. Á þessari orku þrífumst við nú og er okkur aldrei mikilvægari enda þrengt að okkur á flestum sviðum. Sundstaðirnir eru auk þess okkur mörgum eins og heilögustu vé og þangað leitum við huggunar og sækjum innri orku, ekki síst í skemmdeginu. Vatnið og orkan er líka það sem þjóðin öll á, hvar sem vatn og orku er að finna á og í landinu, hvað sem hver segir. Frekar sveltum við í nokkra daga en láta stinga upp í okkur dúsu og láta þessi fjöregg frá okkur fara.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 24.7.2010 - 22:04 - FB ummæli ()

Gamli góði Vesturbærinn

Mér hefur oft verið tíðrætt um sveitina mína þar sem ég bý nú og ekkert síður þá gömlu góðu í Hjaltadalnum í Skagafirði. En til er önnur veröld sem bauð upp á mikið frelsi og sem er ekki er í sveit sett en tilheyrir engu að síður ævintýralandi í huga barns sem þar ólst upp og mótaði huga þess og væntingar um alla framtíð, gamli Vesturbærinn í Reykjavík.

Reykjavík er önnur í dag en hún var fyrir nokkrum áratugum síðan. Afskaplega breytt eftir torgum og hverfum og miklu stærri. Nýlega höfum við síðan verið rækilega minnt á að skapa þurfi nýja og skemmtilegri  höfuðborg. En hvernig borg viljum við og ef til vill höfum við misst sjónar á mikilvægustu gildunum í sköpun heimsborgarinnar Reykjavík á síðustu áratugum. Höfum við sniðgengið gömlu góðu gildin sem sköpuðu hina gömlu góðu og öruggu Reykjavík sem gerðu hana líka svo sérstaka og skemmtilega að alast upp og búa í? Það er nefnilega ekki nóg að friða bara gömul hús, skipuleggja ný hverfi og reisa glæsilegar byggingar og hallir.

Breytingar sem hafa orðið á borginni gegnum árin eru manni hugleiknar í dag en fortíðarþráin er oft skammt undan. Auðvitað hljóta einhverjar breytingar að hafa verið til góðs. Þjóðfélög breytast mikið með árunum og sama hljóta borgirnar að gera, en samt helst í takt. Og markmiðið hlýtur alltaf að vera að gera góða borg betri en þar stendur hnífurinn einmitt í kúnni hvað Reykjavík varðar. Mín upplifun er, og sennilega flestra eldri Vesturbæinga að minnsta kosti, að það hljóti að vera miklu LEIÐINLEGRA að alast upp sem barn í gömlu hverfi í Reykjavík í dag en það var fyrir nokkrum áratugum síðan, þrátt fyrir perlur, ráðhús og nokkra leikskóla. Miðbærinn sem tengir gömlu hverfin hefur fyrst og fremst þróast fyrir næturlífið, frelsið og skemmtilegir útivistarmöguleikar fyrir börn farið. Umferðin hættulegri og bílafjöldinn að kaffæra hverfin.

Ákveðnar góðar minningar frá Vesturbænum í æsku standa upp úr í mínum huga og gaman er að rifja upp nú á þessum tímamótum í sögu Reykjavíkur þegar fólkið sjálft telur sig hafa tekið völdin af stjórnmálamönnunum. Fjaran við Grandaveg var fjársjóðaströnd, uppfull af gömlu dóti sem sumpart hafði skolast á landi og gaman var að skoða og alltaf var nóg af eldiviði í góðar fjörubrennur. Jafnvel fornminjar fundust í moldarbökkum og fjörusandinum eins og t.d. ryðgað víkingasverð sem komið var til skila með viðhöfn á Þjóðminjasafnið, auk ýmissa djásna og jafnvel gamalla peninga. Í fjörunni entist maður endalaust en viðkomustaðirnir á leiðinni til og frá heimili gátu verið margir. Dagurinn var alltaf of fljótur að líða og oft var komið myrkur áður en maður vissi af. Rambler umboðið hjá Jóni Loftsyni og jakkaklæddu vinirnir mínir í hvítu skyrtunum með lakkrísbindin buðu upp á plaköt og myndir af amerískum eðalvögnum sem maður lofaði að kaupa síðar. Það var að einhverju að stefna í lífinu, bítlatímabilið að hefjast og bjartsýnin allsráðandi. Gömlu bátarnir í Örfirisey og í Daníelsslipp voru heimsóttir í lengri ferðunum og kíkt í erlend blöð sem þar fundust, jafnvel þótt maður væri varla orðin læs eða byrjaður í skóla. Nokkur gömul tóm hús stóðu manni opin, a.m.k. var enginn til að banna manni að koma í heimsókn. Farið í Ellingsen niður á Vesturgötu og keypt garn og bambusstangir sem notaðar voru til annarra hluta en innflytjendur höfðu reiknað með og sem seldust alltaf upp. Okkur vantaði alltaf veiðistangir, boga, spjót og sverð.

Stríð voru haldin reglulega í görðunum kringum Bárugötuna og þá gjarna við Ránargötuna en góðir bandamenn fundust á Öldugötunni. Kjöraðstæður voru fyrir indíána- og kúrekaleiki enda nóg af gróðri í görðunum til að fela sig í og steinveggirnir voru sem kastalar, gáfu skjól, voru samgöngumannvirki og sköpuðu landamæri. Bakleiðir og leynistígar lágu víða og ekki allra að þekkja bestu leiðirnar. Þessar samgöngur gátu ráðið milli lífs og dauða. Manndómsvígslurnar voru margar, m.a. prófað að reykja njóla en reykurinn og aníslyktin líður manni aldrei úr minni. Brennibolti í götunni á kvöldin á vorin. Ævintýri og leikir á hverjum degi.

Menningin var líka allsráðandi, jafnvel fyrir lítil börn og litla hverfið í nágrenni miðbæjarins var eins og stórborg. Landakotskirkjan minnti á sjálft Rómarveldið og Landakotsspítalinn á sjálfa eilífðina. Þar við hliðina á Öldugötunni var gamli Stýrimannskólinn sem lagði fyrstu drög að skóalgöngunni og hvaða stefna væri tekin út í lífið. Háskólabíó var sem höll, jafngömul manni sjálfum og sem fullvissaði mann síðan endanlega um að Reykjavík væri heimsborg. Harpan sem taka á við Symfóníuhljómsveitinni bráðlega og gera borgina enn frægari en hún er, á Háskólabíói í raun allt að þakka. Aðrar merkar byggingar sem sóttar voru í göngufæri gerðu lífið ekki síður skemmtilegt á sunnudögum, Tjarnarbíó, Gamla bíó, Nýja bíó, Austurbæjarbíó, Hafnarbíó og síðar Stjörnubíó. Jafnvel Tívolí í Vatnsmýrinni um tíma. Og svo var farið á skauta á Tjörninni eða Melavellinum á veturnar, jafnvel á gönguskíði og ferðast um á skautasleða. En hvað gera börnin í dag sér til skemmtunar?

Í Vesturbænum var auðvelt að vinna sér inn vasapening, til einkaneyslu fyrir sjálfan sig auðvitað. Og oft átt maður nóg af þeim. Útburður blaða gaf mikið í aðra hönd og oft komust á aðrir viðskiptahættir en með peningum og kenndir eru við viðskiptavild og vöruskipti enda nóg af aukablöðum. Allir græddu. Einnig að annast viss viðskipti fyrir stórkaupmenn og sjá um að rukka þá sem þráuðust við að borga skuldirnar sínar. Hjólið góða var heldur aldrei langt undan svo fjarlægðir urðu afstæðar. Fáir vildu eiga yfir sér strákpjakk sem lét þá aldrei í friði og var kallaður því saklausa nafni sendisveinn.

Margir Reykvíkingar sem komnir eru yfir miðjan aldur muna líka vel eftir braggahverfinu í Skjólunum og sem reyndar var þá á fleiri stöðum í borginni. Gegnum þetta hverfi þar sem nú liggur Kaplaskjólsvegur þurfti maður oft að ganga ef stytta átti sér leið að Vesturbæjarsundlauginni góðu sem þá var nýbygging í heimsklassa og stakk verulega í stúf við braggana sem maður var nýbúinn að ganga fram hjá. Tákn nýrra tíma í Reykjavík og fiskabúrið góða sem nú er búið að endurnýja nýlega, minnti á framandi heima og eilífðartengsl við sjóinn og allt vatnið okkar. Í Vesturbæjarlaugina voru börn ávallt velkomin, jafnvel ein síns liðs og það þurfti ekki mikla hvatningu til sundkennslu í þá daga. En á leiðinni hafði maður þó séð vesöld og fátækt sem nokkrum árum síðar var eins og hefði verið sópað út af yfirborði jarðar en sem hafði verið merki um vaxtarbrodd borgarinnar aðeins rúmum áratug áður. Þá flykktist fólkið til höfuðborgarinnar úr sveitum landsins í von um betri tíð með blóm í haga.

Rúmum tveimur áratugu síðar gerðum við hjónin ásamt nágrönnum okkar upp hús á Bárugötunni. Fallegu húsin og litaglöðu húsþökin, hvert með sínu sniði og garðana frægu hafði sitt að segja þegar búsetan var valin. En nú var öldin önnur og vandamálin virtust hafa hrannast upp og hafa reyndar gert enn meir síðan þá. Mög húsin illa farin og illa viðhaldið. Göturnar orðnar hættulega þröngar vegna bílamergðar. Og nú var farið að leggja jafnvel þversöm til að hægt væri að leggja fleiri bílum við gangstéttarnar og jafnvel stöðumælar næst miðbænum. Fáa krakka að sjá í görðunum sem margir voru að kafna úr órækt. Gamla fjaran farin og ekki hægt að ganga sandfjörur, aðeins brimgarður og fuglalífið orðið fátæklegt við ströndina. Bátarnir í Örfirisey farnir og Daníelslippur óaðgengilegur með öllu fyrir börn. Enginn brennibolti á kvöldin. Göngutúrarnir um göturnar minntu mann síðan oft meira á jarðaför með yfirþyrmandi góðum endurminningum en algjörri stöðnun og í raun afturför. Gömlu húsin eins og gamlingjar sem vildu segja sögu en gátu það ekki, samt virðuleg og falleg. Þeirra tími virtist liðinn. Þegar umhverfið var svo farið að verða íþyngjandi, elliglöp hverfisins allsráðandi og frelsistilfinningin farin var rétt að huga að flutningi og leita á önnur mið. En svona þarf þetta ekki að vera og gömul hús geta átt sér nýja lífdaga ef hverfið sjálft er öflugur lífgjafi. En Vesturbærinn gamli virtist aðeins hafa verið  barn síns tíma eða hvað. Hann var þó góður gististaður á langri leið og hver veit hvað gerist í framtíðinni.

Vesturbæjarnostalgían lifir þannig alltaf í manni og stutt er í gamlar góðar endurminningar úr Vesturbænum. Og það skiptir auðvitað alltaf miklu máli hvar maður býr hverju sinni. Hver borg og hvert hverfi hefur sinn sjarma, kosti og galla. Og sagan er aldrei eins. Í dag hentar þetta og annað á morgun. Í dag vel ég frekar náttúruna, frelsið og sveitina mína. En vekja þarf samt Þyrnirós upp af svefninum langa í gamla góða Vesturbænum og gera bæinn aftur SKEMMTILEGAN í það minnsta, og eins og reyndar Besti flokkurinn benti réttilega á fyrir kosningar. Húsin verða að fá meira af ungu fólk með börn til að leika í görðunum og jafnvel á götunum. Gera þarf húsin upp og taka þarf til í görðunum. Reisa bílaskýli og takmarka þessa miklu bílaumferð um göturnar. Það ætti a.m.k að vera markmið nýju borgarstjórnarinnar eins og kosningaloforðin báru með sér. Miðbæjarrottugangur langtaðkominna og krármenning fram á rauða nótt hafa haft slæm áhrif á gamla Vesturbæinn og sogað úr honum lífið. Nú er þar oft vart svefnfriður á nóttunni fyrir hávaða, látum og óeðlilegri umgengni. Íbúarnir hér áður vildu menningarlíf, ekki næturlíf. Við þurfum heldur ekki að leggja svona mikla áherslu á að skemmta útlendingum í miðbænum um helgar og á nóttunni eins og  flugfélögin og kráareigendurnir vilja nú, m.a. undir einkunnarorðunum „Inspired by Iceland“. Gamli bærinn allur er ein heild sem á að fá að lifa.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn