Föstudagur 30.03.2018 - 10:02 - 3 ummæli

Davíð Þór og fagnaðarerindið

Að vera prestur

2. gr.

Samkvæmt köllun, vígsluheiti og vígslubréfi skal sérhver prestur hennar:

  • boða Guðs orð í anda evangelisk lúterskrar kirkju
  • hafa sakramentin um hönd
  • veita sálgæslu og hlýða skriftum og veita leiðsögn í andlegum efnum og trúarlífi
  • vera málsvari fátækra, boðberi réttlætis og kærleika Guðs
  • fræða unga sem eldri í sannindum fagnaðarerindisins
  • ferma, gifta, vitja sjúkra og nauðstaddra, jarðsyngja látna, styðja syrgjendur til huggunar
  • leggja sitt af mörkum í lífi og starfi þjóðkirkjunnar
  • leitast við að breiða út Guðs ríki í samfélaginu, og með því að styðja kristniboð og hjálparstarf.

Fagurt er það en nokkuð í ráðist og vart við því að búast að alltaf takist vel til. Okkur bersyndugum verður af og til á í messunni og þá er gott að eiga fyrirgefningu Föðurins og kærleikserindið sem Jesús boðaði,

Kærleika og virðingu fyrir fólki, jafnvel, og ekki kannski síst, fólki sem við skiljum ekki eða líkar ekki vel við. Það krefst ekki mikils að eiga kærleika til viðhlægjenda og skoðanabræðra en hitt er raunverulegur mælikvarði hvernig við komum fram við  „hina“,

Hver hefur sinn stíl og formið ekki aðalatriði heldur skilyrðislausi kærleikurinn og umburðalyndi fagnaðarerindisins. Ég finn ekki forsendur til þess að gefa af þeirri kröfu afslátt,

Davíð Þór Jónsson er skemmtilegur fýr og flest leikur í höndum hans. Enginn frýr honum vits auk þess sem innan í honum lifir sterk og skapandi listamannstaug,

Hann er prestur,

Aðsópsmikill og laus við athyglisfælni. Skoðanasterkur og viðrar þær hiklítið í ræðu og riti og stíllinn feikn flottur, Gott og blessað,

Prestar munu ekki fullkomnari en aðrir en til þeirra er litið enda menntaðir til kærleika og góðra siða og ég stend ávallt í þeirri meiningu að þeir séu sekir um að trúa því sem þeir fá greitt fyrir að boða,

Davíð á nú í allmikilli opinberri deilu um eitthvað sem þessi grein fjallar ekki um….

Þar predikar sérann neikvæðan og niðrandi texta til fólks sem hann skilur ekki og er ósammála. Að eiga líf með fólki sem við erum ósammála heitir að lifa saman í almennilegu samfélagi,

Þar sem mannkærleikur, virðing og umburðalyndi eru meginstef eins og Jesús boðaði og boðar enn,

Nú þykjast margir sjá þjóðkirkjuna í vanda og álykta þannig að við giska venjulegir nútimamenn munum vera að gefast upp á Guði,

Ég trúi hinu frekar að við menn komum óorði á Guð þegar kirkjunnar fólk á öllum tímum fer fram með þeim hætti sem minnir harla lítið á Frelsarann sem Guð nýja testamentisins sannarlega er,

Þegar prestar eignast hroka og fyllast af sjálfum sér ætti engan að undra að kraftur fagnaðarerindisins verði ekki bara daufur heldur fjarlægur,

Jesús kunni ekki að fara i manngreinarálit en var óþreytandi að lifa fagnaðarerindið til fulls. Það var ekki auðvelt og það er ekki auðvelt en þar er verkefnið og þeir sem vilja lifa í betri heimi eiga einn möguleika öðrum betri til þess að hafa þar afgerandi úrslit,

Og það er að byrja á sjálfum sér,

Guð gefi að mér takist það

Amen 

 

 

 

 

Flokkar: Bloggar

«
»

Ummæli (3)

  • Ingi Gunnar Jóhannsson

    Takk fyrir að vera málsvari kristninnar í pistlum þínum, Röggi. Ekki veitir af.

  • Gunnar Waage

    Ég verð nú að gagnrýna þennan texta. Sú furðulega staðhæfing:

    „Þar predikar sérann neikvæðan og niðrandi texta til fólks sem hann skilur ekki,,,,“

    mm ef þú átt við gagnrýni hans á eiganda útvarpsstöðvar sem m.a. hefur verið til umfjöllunar fyrir hatursáróður í garð minnihlutahópa hjá nefnd á vegum Evrópuráðsins, þá tel ég þá gagnrýni nauðsynlega. Ég ætla að ganga lengra og ráðleggja prestum sem ekki gagnrýna útvarpsstöðina að finna sér annan starfa.

    Það er engin ástæða til að skilja mannvonsku en það er aftur á móti full ástæða til að veita háttalagi þeirra sem reka áróður fyrir mannréttindabrotum harða mótspyrnu. Ef að það er þín skoðun að allar skoðanir séu virðingarverðar og að þær skuli teknar til greina, jafnvel þótt þær byggist á útbreiðslu falskra frétta og hatursáróðurs, þá ert þú sem betur fer ansi einangraður með það viðhorf.

    Að síðustu þá kemur það engum við hvað prestur gerir í sínum frítíma.

  • Heimir L Fjeldsted

    Þakka góðan pstil.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og sex? Svar:

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur