Laugardagur 18.7.2015 - 12:43 - Lokað fyrir ummæli

Að bjarga Landsspítalanum

Staða Landsspítalans er ekki viðunandi. Það þarf að leysa það vandamál með nýrri nálgun. Fyrsta flokks sjúkrahús verður aldrei rekið á sómasamlegan hátt af stjórnmálamönnum og allra síst dómstólum, enda er það ekki þeirra sérfræðisvið. Menn verða að átta sig á að á sjúkrahúsrekstur á nýrri öld verður ekki byggður á rómantískri hugmyndafræði um yfirburði ríkisrekstrar frá síðustu öld.

Ein skilvirkasta aðgerðin til að færa rekstur Landsspítalans í fyrsta flokk er að gera hann að sjálfseignarstofnun með eigin efnahagsreikning og sjálfstæða stjórn. Þar með færist rekstur spítalans af fjárlögum og úr höndum stjórnmálamanna yfir á herðar fagstjórnar sem ber ábyrgð á skipulagi og mönnun spítalans. Með eigin efnahagsreikning getur spítalinn fjármagnað sig sjálfur og þar með tryggt að tækjabúnaður og húsnæði séu viðunandi. Þá mun sjálfstæður spítali veita þjónustu á markaðsverði og greiða starfsfólki markaðslaun. Með þessari aðgerð er fjármagnsvandanum velt af spítalanum yfir á sjúkratryggingarhlutann, en af tvennu illu er betra að eiga við vandann þar en að fórna gæðum spítalaþjónustunnar.

Vanda sjúkratrygginga má leysa á margan hátt, en þegar þáttur sjúklinga er kominn nálægt 20% verður ekki hjá því komist að bjóða fólki upp á auka prívattryggingar eins og þekkist í nágrannalöndunum. Það er skömminni skárra að sjúklingar geti tryggt sig fyrir áföllum en að þurfa að borga sinn hlut úr eigin vasa eins og í dag. Viðbótar prívattryggingar munu einnig geta veitt sjúklingum aðgang að meðferðum og lyfjum sem ríkiskerfið býður ekki upp á eða skammtar í dag.

Þá þarf nýja nálgun á fjármögnun spítalans. Eigið fé ætti að vera blanda af framlagi hins opinbera og svo stofnfé frá almenningi og lífeyrisjóðum. Nýtt sjúkrahús má svo fjármagna að hluta til eins og hringvegurinn var fjármagnaður með happdrættisskuldabréfum og láta hluta vaxtagjalda renna í tækjakaupasjóð. Það eru nær ótakmarkaðir möguleikar á að leysa vandan Landsspítalans bara ef menn koma sér upp úr skotgröfum síðustu aldar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 16.7.2015 - 07:12 - Lokað fyrir ummæli

Hver stjórnar Landsbankanum?

Umræðan um ákvörðun ríkisbankans um nýjar höfuðstöðvar á hæla Borgunarákvörðuninni sem bankaráðsformaður viðurkennir að hafi verið mistök, vekja upp áleitnar spurningar um hver sé arkitektinn að þessum ákvörðunum? Hver stjórnar bankanum eiginlega?

Bankasýslan virðist opinberlega ekki heilshugar styðja umdeildar ákvarðanir stjórnar bankans, en endurskaus þó alla stjórnarmenn bankans eftir Borgunarmistökin og þar með gafa stjórninni syndaaflausn.

Þó ákvarðanir séru teknar samkvæmt hlutafélagslögum er þar með ekki sagt að þær séu réttar. Það ætti sagan að kenna Íslendingum. Vandamálið hér er að yfirstjórn Landsbankans og Bankasýslan hafa rýrt viðskiptalegt orðspor Landsbankans með þessu framferði. Ef vafi leikur á að bankinn taki eigin ákvarðanir á viðskiptalegum forsendum, hvernig geta viðskiptamenn treyst því að bankinn vinni á viðskiptalegum forsendum í þeirra þágu? Þar sem Landsbankinn starfar á samkeppnisgrundvelli, styrkir þetta hina bankana og þar með dregur úr verðgildi Landsbankans. Ætli eigandinn sé ánægður með þá niðurstöðu?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 15.7.2015 - 07:16 - Lokað fyrir ummæli

Hinn gríski lánasjóður

Til er sjóður sem kallar sig lánasjóð. Þessi sjóður lánar út fé sem hann fær aldrei tilbaka og því meira sem hann lánar því minni verða endurheimturnar. Nei þetta er ekki sjóður á vegum ESB og Þjóðverja sem lánar til Grikklands. Þessi sjóður er alíslenskur og nefnist LÍN.

Það er réttara að kalla LÍN styrktarsjóð sem stundar lánafyrirgreiðslu sem hliðarstarfsemi. Meirihluti þess fjár sem sjóðurinn greiðir út kemur aldrei tilbaka, þetta er fjárhæð sem nemur yfir 100 ma kr sem er umtalsvert hærri en Leiðréttingin fræga. Þetta er því ekki nein smáupphæð og um 40 einstaklingar fá 1% af þessari upphæð til sín eða um 1 ma kr.

Í nýrri skýrslu LÍN og í viðtölum við menntamálaráðherra koma fram ýmsar skýringar á þessari vinsælu íslensku leið að kalla styrki lán. Menn fara seint í dýrt nám og eru lengi að klára. En það er ekki öll sagan. Stór þáttur í slæmum endurheimtum er hin aggressíva láglaunastefna sem rekin er á Íslandi í garð háskólamenntaðra stétta í skjóli frumstæðra og einhæfra atvinnugreina. Að veita stærstu námslánin í mesta láglaunalandi Norðurlandanna gengur aldrei upp. Þá setur svona kerfi slæmt fordæmi til ungu kynslóðarinnar. Menn læra að það þarf ekki alltaf að borga lán tilbaka og því meira sem menn fá lánað því minna þarf að borga. Er furða að aðrar séttir vilji hið sama?

Það þarf að taka myndarlega til í LÍN og þó fyrr hefði verið. Bandarískar rannsóknir sýna að stúdentar þar í landi sem taka námslán sem eru hærri en $35,000 eru mun líklegri en aðrir til að lenda í vandræðum með sín námslán. Þess vegna er stúdentum ráðlagt að halda námslánum innan þessara marka. Nú eru tækifærin til að fá vel borguð störf eftir nám mun fleiri í Bandaríkjunum en á Íslandi og því þarf að þetta hámarka að vera lægra á Íslandi, líklega á bilinu 3 til 3.5 m kr. Mismunin þurfa námsmenn að brúa með styrkjum og vinnu. Það er engum gerður greiði með lánveitingum þar sem vitað er að endurgreiðslur eru ómögulegar. Betra er að kalla hlutina sínum réttu nöfnum og skipta greiðslum LÍN upp í styrki og lán.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 12.7.2015 - 07:38 - Lokað fyrir ummæli

Bankahöll er tímaskekkja

Á meðan bankar á Wall Street eru að færa starfsemi sína frá miðborg New York til að auka samkeppnishæfni er íslenski ríkisbankinn á tímaflakki til fortíðar. Enginn alvöru banki sem þjónar almenningi á samkeppnismarkaði myndi detta í hug að sameina starfsemi sína á dýrasta stað. Útskýringar bankans um að húsið muni ekki skyggja á Hörpuna og að kostnaður muni lækka frá núverandi fyrirkomulagi eru útskýringar einokunarfyrirtækis. Fyrirtæki sem starfa á alvöru samkeppnismarkaði geta ekki hagað sér svona. Þessi ákvörðun sýnir vel að íslenskur bankamarkaður býr við bjagað samkeppnisumhverfi sem ekki þjónar almenningi.

Tímasetningin er líka athyglisverð. Húsnæðisvandamál Landsbankans hafa verið vel þekkt um langan tíma. Besti tíminn til að koma Landsbankanum í látlaust og hagkvæmt húsnæði var fyrir 4-5 árum? Hvers vegna var það ekki gert? Hvað stóð í vegi fyrir því?

Maður fær stundum á tilfinninguna að Landsbankinn sé rekinn að „grískri“ fyrirmynd. Arðsemi af reglulegum rekstri bankans er óviðunandi og undir ávöxtunarkröfu 10 ára ríkisskuldabréfa, en það kemur ekki í veg fyrir nýja miðbæjarhöll, eða eins og formaður bankaráðs sagði á síðasta aðalfundi:

Þegar stórum einskiptisliðum sleppir þá var arðsemin á liðnu ári um 5-6% sem er of lágt. Bankasýslan sem fer með eignarhlut ríkisins í bankanum hefur lagt að bankaráðinu að bæta reglubundinn rekstur með lækkun kostnaðar og aukningu þjónustutekna. Við erum sammála þeirri kröfu og einmitt þess vegna höfum við mótað nýja stefnu fyrir bankann sem miðar að því að ná arðsemi af reglubundnum rekstri yfir 10% á næstu fjórum árum.

Hvernig nýjar aðalstöðvar sem geta rúmað um 900 starfsmenn á dýrustu lóð landsins færir bankann nær þessu markmiði Bankasýslunnar en aðrir valkostir, er nokkuð sem formaður bankaráðs þarf að rökstyðja, ef ekki nú, þá á næsta aðalfundi. Vonandi fá hluthafar betri skýringar þá en fengust á síðasta aðalfundi varðandi söluna á Borgun!

Svona á banki ekki að vera og þetta er ekki banki allra landsmanna, þetta er banki í 101 fyrir 101 rekinn af 101.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 7.7.2015 - 05:47 - Lokað fyrir ummæli

Grikkland og Ísland

Vaxtagjöld Grikklands eru 2.6% af landsframleiðslu en 4.5% á Íslandi. Grikkir eru að kikna undan skuldum en hvað með Ísland?  Munurinn er að skuldir Grikkja eru hjá vondum útlendingum en ekki innlendum aðilum eins og t.d. lífeyrissjóðum. Það skiptir máli hvort lánadrottnar hafi kosningarétt þar sem þeir lána. Það er ein lexían af gríska dramanu.

Þjóðverjar vita mæta vel að Grikkir munu aldrei borga þessi lán tilbaka. Og þar liggur vandinn. Þetta snýst ekki um afskriftir, þær munu koma. Þetta snýst um að láta þýska skattgreiðendur fjármagna kosningaloforð grískra stjórnmálamanna. Grikkir vilja nefnilega fá bæði niðurfellingu á gömlum lánum og ný lán til að fjármagna nýju loforðin. Hin 18 evrulöndin vilja hins vegar að Grikkir taki til hjá sér og sýni að þeir geti farið vel með nýtt fjármagn áður en lengra er haldið, en Grikkir vilja sem minnstu lofa í þeim efnum.

Grikkir þurfa ný lán til að örva hagkerfið hjá sér en gríska ríkisstjórnin virðist ekki hafa nein trúverðug plön í þeim efnum. Það er nefnilega ekki nóg að stoppa niðurskurð, það þarf að fjárfesta í verkefnum sem standa undir lánum. Endalausar yfirlýsingar og hroki í garð lánadrottna er engin lausn. Og það er heldur engin lausn að taka upp drökmu, hver á þá að fjármagna loforð grískra stjórnmálamanna? Þetta er ein ástæða þess að Grikkir hanga á evrunni, þannig fá þeir aðgang að „niðurgreiddu“ fjármagni sem lönd eins og Ísland geta aðeins látið sig dreyma um.

Gríska deilan snýst um hver á að borga brúsann. Þjóðaratkvæðisgreiðslan er engin lausn í sjálfu sér, bankar munu ekki opna í Grikklandi í dag eins og lofað var. Menn þurfa að semja, hjá því verður ekki komist. Þjóðaratkvæðisgreiðslan mun hins vegar hafa afleiðingar. Hún hefur veikt evrulöndin og ekki síst Grikkland sem nú mun þurfa um helmingi hærri lán til að rétta úr kútnum en hefði þurft fyrir sex mánuðum. Þessi töf mun kosta meiri lífskjaraskerðingu en ella. Þá mun verða mun erfiðara og dýrara fyrir lítil og óstöðug hagkerfi að fá erlend lán í framtíðinni. Lánadrottnar verða nú að fara að verðleggja þessi lán eins og áhættufjárfestingu. Það verður lítill munur á hlutafé og skuldafé í veikustu hagkerfunum. Það má því búast við að það verði meiri fylgni á milli lífskjara og aga í ríkisfjármálum í framtíðinni. Þannig mun þjóðaratkvæðisgreiðslan í Grikklandi styðja við þýsku leiðina þegar allt kemur til alls.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 30.6.2015 - 07:02 - Lokað fyrir ummæli

Hvers vegna lokar Actavis?

Af hverju lokar Actavis verksmiðju sinni hér á landi? Nú er Ísland á margan hátt kjörið land til lyfjaframleiðslu, hér er hreint vatn og loft, græn orka og menntað starfsfólk á lágum launum. Vandamálið er hins vegar íslenskur óstöðugleiki, hátt vaxtastig og frumstæður fjármálamarkaður íslensku krónunnar.

Er samband á milli þess að Ísland dregur ESB umsókn sina tilbaka og lokunar hjá Actavis? Hver veit? Þessi lokun virðist líka koma stjórnmálamönnum á óvart sem sýnir hversu lítil sambönd þeir hafa við atvinnulífið. Hvers vegna er verksmiðjan á Íslandi ekki stækkuð? Er Ísland ekki samkeppnishæft? Menn virðast vera feimnir við að spyrja svona.

Þessi lokun sýnir vel hversu erfitt það er að auka fjölbreytni í atvinnulífinu án ESB aðildar. Menn eru fastir í auðlindageiranum. Ísland er ferðamennska, orkuiðnaður og sjávarútvegur. Afleiðingin er útstreymi af háskólamenntuðum Íslendingum og innstreymi af grunnskólamenntuðum útlendingum frá ESB löndunum. Þetta telur meirihluti landsmanna að sé mun heillavænni langtíma stefna fyrir þjóðina en ESB aðild. Gott og vel, en fyrir hverja?  Einhvern vegin læðist að manni sá grunur það á endanum munu afkomendur Ingólfs Arnarsonar tapa.  Hversu lengi verður íslenskan aðaltungumál þeirra sem byggja Ísland?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 29.6.2015 - 09:45 - Lokað fyrir ummæli

Grikkir áfram í evrunni

Bandaríkjamenn vilja að Grikkir verði áfram í evrunni og þeir munu líklega ná að sannfæra Þjóðverja um að semja við Grikki. Stífni Þjóðverja og popúlismi Grikkja hefur gert þessa deilu allt of erfiða og langdregna. Það er kominn tími til að menn semji á viðskiptalegum forsendum.

Það er athyglisvert að bera saman Grikkland og Puerto Rico. Bæði ríkin eru tæknilega gjaldþrota, hafa tekið allt of mikið af lánum sem ekki er hægt að borga tilbaka. En það er himinn og haf á milli hvernig menn reyna að leysa vandann í þessum tveimur löndum.

Í Puerto Rico segir ríkisstjórinn einfaldlega að það sé ekki hægt að borga skuldir tilbaka og að allir kröfuhafar verið að setjast niður og semja. Ekki sé hægt að leggja meiri byrðar á íbúa Puerto Rico, það sé ekki í þeirra þágu né kröfuhafa. Ríkisstjórinn hefur frumkvæðið og tekur heilstætt á málum á skynsaman hátt – hann notar aðferðir viðskiptamannsins en ekki popúlistans. Enginn talar um að Puerto Rico yfirgefi dollarann. Það er einfaldlega ekki inn í myndinni.

Á endanum munu Evrópusambandið sjá að það verður að fara svipaða leið með Grikkland eins og Bandaríkin með Puerto Rico. Og þá verður það ekki í fyrsta sinn sem Bandaríkjamenn draga Evrópubúa að landi.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 25.6.2015 - 08:55 - Lokað fyrir ummæli

„Another one bites the dust“

Titilinn gæti verið nafn á stefnu stjórnvalda þegar kemur að sparisjóðum landsins. Nú er sparisjóðskerfið endanlega hrunið eins og svo margt sem fyrri kynslóðir byggðu upp af eljusemi. Svona fer þegar stjórmálamenn láta innihaldslausar yfirlýsingar taka við af faglegri stefnumótun. Þetta er nefnilega hætt að reddast.

Afleiðingin af hruni sparisjóðanna er að líklega eru yfir 95% af öllum bankainnistæðum landsmanna geymdar hjá innlánsstofnunum sem stunda fjárfestingabankastarfsemi. Fá OECD lönd hafa hærra hlutfall. Hvað varð um alla umræðuna um að aðskilja fjárfestingabankastarfsemi frá viðskiptabankastarfsemi? Það öfuga hefur gerst.

Val sparifjáreigenda hefur minnkað á sama tíma og kerfisáhættan hefur aukist. Ofaná þetta bætist svo að tryggingasjóður innistæðueigenda getur aldrei staðið undir EES lögboðnum tryggingum fyrir alla, ef einn af stóru bönkunum fellur. En AGS leggur hart að stjórnvöldum að afnema ríkisábyrgð á innistæðum. Hvað gera menn þá?

Lexía hrunsins er að hafa innistæður sínar í löndum sem búa við vel fjármagnaða tryggingasjóði og öruggt bankakerfi. Því færri og stærri sem innlánsstofnanir verða hér á landi því veikari verður kerfið fyrir sparifjáreigendur. Hvatinn til að fara með fjármagn í öruggara skjól vex að sama skapi. Þannig mun fall sparisjóðskerfins gera afnám hafta erfiðara og auka á óstöðugleika, þvert á markmið stjórnvalda.

Þetta dæmi sýnir vel hvað gerist þegar enginn hefur heildarsýn yfir málin, allir vinna í sínum fílabeinsturni. “Ekki ég”, segja menn.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 24.6.2015 - 06:03 - Lokað fyrir ummæli

EES gerir afnám hafta erfitt

Það eru ekki kröfuhafar sem verða þeir erfiðustu þegar kemur að afnámi hafta, það hlutverk hefur ESB. Nú þegar Ísland hefur gefið út yfirlýsingu um að afnám hafa standi yfir er eðlilegt að álykta sem svo að EES undanþágan sem Ísland hefur haft frá hruni um frjálst fjármagnsflæði sé á endastöð. ESB gefur ekki afslátt af fjórfrelsinu sem er hornsteinn ESB og EES samstarfsins. Það hafa bæði Svisslendingar og Bretar fengið að heyra og Íslendingar fá líklega sömu meðferð reyni þeir að fá varanlega undanþágu frá frjálsu fjármagnsflæði. En hvað felst í frjálsu fjármagnsflæði.

Samkvæmt skilgreiningu ESB þýðir frjálst fjármagnsflæði frelsi einstaklingsins og fyrirtækja til að ráðstafa fjármagni sínu jafnt innanlands sem utan. Þetta þýðir t.d. að einstaklingar eiga að geta opnað bankareikninga erlendis, keypt erlendar fasteignir, hlutabréf og skuldabréf án leyfis eða takmarkana frá stjórnvöldum. Tal íslenskra ráðamanna og hagfræðinga um að það sé nauðsynlegt að stjórna fjármagnsflæði til og frá landinu eftir afnám til að tryggja stöðugleika, stríðir gegn skilgreiningunni um frjálst fjármagnsflæði. Það verður því athyglisvert að sjá hvernig Ísland, með minnsta gjaldmiðil heims, ætlar að stjórna krónunni með varúðarreglum sem ekki skerða frelsi einstaklingsins sem EES samningurinn á að tryggja. Það verður ekki bæði haldið og sleppt.

Erfitt er að sjá að Ísland geti uppfyllt ákvæði EES með gjaldmiðil sem á að stjórna en fær ekki um frjálst höfuð strokið. Ef Ísland ætlar að halda í krónuna um ókominn tíma eru dagar Íslands innan EES líklega taldir. Menn þurfa því að fara að leita að nýrri utanríkisstefnu.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 20.6.2015 - 07:21 - Lokað fyrir ummæli

Kanadískan banka, takk!

Ef Íslendingar geta ekki fengið kanadíska dollarann sem gjaldmiðil ættu þeir að reyna að fá kanadískan banka til landsins.

Það varð ekkert bankahrun í Kanada, því þar kunna menn að reka banka. Í Kanada er mikil reynsla af því að reka banka sómasamlega í 20 ár samfellt. Engin slík reynsla er á Íslandi og því fylgir því mikil áhætta að láta alla bankana aftur í hendi Íslendinga. Hvað kunna menn á Íslandi fyrir sér í bankarekstri? Það eru auðvitað til einstaka menn sem hafa góða reynslu erlendis frá, en það er ekki nóg, það vantar nútíma 21. aldar bankakúltúr á Íslandi. Hann fæst frá Kanada.

En það er ekki aðeins að Kanadamenn hafi reynslu af rekstri banka í Kanada, fáir bankar hafa jafnmikla reynslu af bankarekstri á litlum eyjum með einhæft atvinnulíf, óstöðugan gjaldmiðil, háa verðbólgu og krónískan gjaldeyrisskort en kanadískir bankar. Þessa reynslu hafa þeir af bankarekstri úr Karabíska hafinu og suður-Ameríku.

Sérstaklega er reynsla kanadískra banka í Perú athyglisverð. Þar nota menn tvöfalt gjaldmiðilskerfi – sol og dollara. Tæpur helmingur fasteignalána í Perú er í dollurum hinn í gjaldmiðli Perú, sol. Þetta er reynsla sem hentar vel hér á landi, enda er ljóst að ef höftin hverfa þá mun stór hópur launamanna kasta krónunni eins og stærstu fyrirtæki landsins hafa þegar gert. Menn munu vilja fá laun greidd í evrum og hafa lán sín í evrum. Fordæmið kemur frá Perú og kanadískir bankar hafa reynsluna.

Þá skemmir það ekki fyrir að fjöldi vestur-Íslendinga vinnur í kanadískum bönkum svo þeir ættu að smjúga í gegnum þjóðrembufilter Íslendinga.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur