Föstudagur 1.5.2015 - 08:50 - Lokað fyrir ummæli

Laun í krónum er þversögn

Lágmarkslaun á Íslandi verða aldrei stöðugri en krónan.  Í dag eru lágmarkslaun um 210,00 kr. á mánuði sem eru ein lægstu laun í Norður-Evrópu. Krafan um 300,000 kr. er eðlileg en hætt er við að erfitt verið að ná varanlegri launahækkun með verkföllum einum saman. Meira þarf til.

Það eru aðeins 4 lönd í Evrópu sem hafa náð því marki að viðhalda lágmarkslaunum yfir 300,000 kr. markinu (2,050 evrur). Það eru Svíþjóð, Danmörk, Noregur og Sviss.  Næst kemur Lúxemborg með 285,000 kr.  Evrulönd á við Frakkland, Þýskaland, Holland, Finnland og Belgíu setja lágmarkslaun við 1,500 evrur eða 220,00 kr.  Af Norðurlöndunum rekur Ísland því lestina rétt á eftir Finnlandi en bæði löndin hafa álíka þjóðarframleiðslu á mann.  Fyrir þá sem segja að 500,000 kr. séu lágmarkslaun til framfærslu á Íslandi er aðeins eitt land í heiminum sem uppfyllir þá kröfu, Sviss.

En hvað einkennir þau lönd sem geta boðið upp á 300,000 kr. lágmarkslaun.  Jú, þessi 4 lönd eru sterk velferðarlönd, með trausta efnahagsstjórnun, háa landsframleiðslu, alþjóðlega viðurkennda gjaldmiðla, búa við hátt lánstraust og lága vexti. Þau njóta trausts og virðingar í heiminum og ekki síst á hinum alþjóðlega fjármálamarkaði.   Þá vita allir sem hafa heimsótt þessi lönd að þjónusta er dýr og húsnæðiskostnaður hár.  Það eru margir sem vinna í Danmörku og Sviss en versla í Þýskalandi.

Ef lágmarkslaun eru hækkuð um 30-50% á Íslandi þá mun öll þjónusta hækka í verði, það er óhjákvæmilegt.  Auðvitað veldur það tímabundinni verðbólgu og ferðaþjónustan verður fyrir erfiðu höggi, en skynsamlegast er að menn vinni saman um að komast yfir þann hjalla.  300,000 kr. lágmarkslaun verða nefnilega aldrei að veruleika nema með samvinnu – sundrung og verkföll leysa engan vanda. Eitt fyrsta skrefið er að leysa gjaldmiðlavanda landsins.   Með krónunni verða lágmarkslaun aldrei varanleg, verðtryggingin sér til þess, en hún er eitt helsta einkenni annars flokks gjaldmiðils. Og fyrsta flokks velmegun verður aldrei tryggð með annars flokks gjaldmiðli.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 30.4.2015 - 08:08 - Lokað fyrir ummæli

Laun sliga sveitarfélögin

Nýleg ársuppgjör sveitarfélaganna sýna vel hvernig ófjármagnaðir kjarasamningar á síðasta ári eru að sliga rekstur þeirra.

Hjá Reykjavíkurborg var hagnaður á A-hluta upp á 3.1 ma kr. 2013 en ári síðar er A-hlutinn kominn í 2.8 ma kr. taprekstur.  Stærsti hluti útgjalda sveitarfélaga eru laun og launatengd göld.  Sem hlutfall af heildartekjum Reykjavíkurborgar var þessi útgjaldaliður 50.5% árið 2013 en er orðinn 57.5% fyrir árið 2014.  Þetta er þrátt fyrir að tekjur Reykjavíkur á A-hluta hækkuðu um 3.5% á sama tímabili.  Skýringuna er að mestu að finna í hækkun á launum og launatengdum gjöldum.  Meðalmánaðarlaun (án launatengdra gjalda) per stöugildi fyrir árið 2013 voru kr. 480,000 en hækka um 10% á milli ára og eru orðin kr. 527,000 í síðasta ársreikningi.  Á sama tíma fjöldar stöðugildum um 98 upp í 6,826.

Svona ófjármagnaðar launahækkanir, sem snúa hagnaði í tap og ógna stöðugleika, munu koma niður á annarri starfsemi sveitarfélaganna.  Ekki eru til peningar í allt.  Það er augljóst að skera þarf þjónustu niður og enn þarf að halda viðhaldi gatna og mannvirkja í lágmarki.  Mikilvægt er að forgangsraða verkefnum gaumgæfilega þegar fjármagn í aðra þætti en laun dragast svona saman. Þrenging á íbúðargötum mun seint laga rekstur Reykjavíkurborgar.  Betur má ef duga skal.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 29.4.2015 - 14:02 - Lokað fyrir ummæli

Borgun malar gull

Borgunarmenn sýna hvernig snúa á á ríkið og fá eignir á spottprís.  Tölurnar sem hafa verið birtar um hagnað og arðgreiðslur eru hreint ótrúlegar.

Svo virðist sem Borgun hafi verið seld á hressilegu undirverði af ríkisbankanum.  Látum tölurnar tala.

Landsbankinn selur 31.2% í Borgun á 2.2 ma kr.  Þetta þýðir að bankinn metur Borgun á 7.05 ma kr. Hagnaður Borgunar á síðasta ári var víst 1.4 ma kr., þannig að V/H hlutfallið (P/E ratio) er 5.  Meðaltal fyrir V/H hlutfall fyrirtækja í Kauphöllinni er um 20 og bæði Mastercard og Visa í Bandaríkjunum eru með V/H hlutfall yfir 25.  Þá gefur 800 m kr. arðgreiðsla nýjum hluthöfum ávöxtun upp á 11.3% sem er meir en frábært, sama hvaða mælikvarða miðað er við.

Það er auðvitað stjórn Landsbankans sem ber endanlega ábyrgð á þessari sölu og flest bendir til að hún hafi verið plötuð upp úr skónum.  Hins vegar er ekki að sjá að Bankasýslan sé óánægð með söluna.  Alla vega voru allir stjórnarmenn Landsbankans endurkosnir af Bankasýslunni á nýlegum aðalfundi.

Þessi Borgunaraðferð er einmitt uppskriftin af þeim aðferðum sem verða notaðar til að ná í uppsafnaðan hagnað stóru bankanna eins og ég skrifaði um í síðustu færslu.  Því miður bendir fátt til að stjórnmálastéttin geti stoppað svona “gjafagjörninga”.

Að lokum er rétt að minna á að gagnrök Landsbankans eru eflaust þau að hagnaður Borgunar muni dala á komandi árum þar sem Landsbankinn fari með kortaviðskipti sín annað.  En jafnvel þó hagnaður Borgunar helmingist er dílinn fanta góður!

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 27.4.2015 - 08:55 - Lokað fyrir ummæli

Viðvörun Seðlabankans

Í nýju riti Seðlabankans um fjármálastöðuleika er að finna þríhliða viðvörun til viðskiptabankanna og FME. Seðlabankinn hefur áhyggur að áhættan í íslensku bankarekstri gæti aukist og stöðuleiki minnkað vegna:-

– Viðvarandi lélegs grunnreksturs viðskiptabankanna
– Hárra arðgreiðslna
– Innleiðingu innramatsaðferðar við útreikning á eiginfjárkröfu

Það sem er athyglisvert er að þessi þrjú atriði eru innbyrðis tengd. Með því að innleiða innramatsaðferðina er hægt að lækka eiginfjárkröfuna og þar með hækka arðgreiðslur og auðveldara verður að láta grunnreksturinn líta betur út í glærukynningum. Það skyldi því engan undra að bankamenn séu áfjáðir í að fá heimild FME til að nota innramatsaðferðina, sem leyfir bönkunum að meta eigin áhættu sjálfir!  Líklega er hér um tugi milljarða kr. að ræða sem hægt verður að losa um í stóru bönkunum og tímasetningin er auðvita líka athyglisverð. Nú liggur mikið á að ljúka uppgjöri við kröfuhafa svo hægt sé að koma bönkunum í hendur “réttra” aðila áður en kjörtímabilið rennur út.

Með bankana í “réttum” höndum og leyfi frá FME til að innleiða innramatsaðferðina, sem er ekkert nema umdeildur staðall, þá er allt í einu hægt að dæla tugum milljarða í arðgreiðslur til hinna nýju eigenda. Þetta hafa fjármálapekúlantar komið auga á, og þeir dangla auðvitað þeirri gulrót að stjórnmálastéttinni að hún fái sinn hlut í arðgreiðsluveislunni sem hún geti nota til atkvæðaveiða.  Sem sagt allir eru vinningshafar, eða hvað?

Ætli FME sé sammála Seðlabankanum um þessar áhyggjur bankans varðandi innleiðingu á innramatsaðferðinni við íslenskar aðstæður?  Varla færi Seðlabankinn að setja þessa viðvörun inn í rit um fjármálastöðuleika nema menn þar á bæ hafi eitthvað fyrir sér?  Svo gæti líka verið að þetta væri síðasti sjans fyrir Seðlabankann að tala umbúðarlaust áður en hann fær 3 stjóra yfir sig?

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 25.4.2015 - 10:20 - Lokað fyrir ummæli

Veikasti hlekkur Landsvirkjunar

Landsvirkjun er flott fyrirtæki sem er 50 ára í ár eins og forstjórinn rekur í grein í Morgunblaðinu í dag.  Þar er farið yfir víðan völl eins og við er að búast á stórafmæli.  Það sem er einna athyglisverðast við greinina er stuttur kafli sem nefnist “Viðskiptaforsendur ráða”. Þar kemur sú skoðun forstjórns skýrt fram, að hann lítur á sæstrengsverkefnið eins og hvert annað viðskiptalegt tækifæri sem ber að höndla sem slíkt. Og þar rekst hann á veikasta hlekk fyrirtækisins – stjórnina.

Stjórn Landsvirkjunar er ekki valin með viðskiptalegar forsendur í huga, hún er pólitísk þar sem fjórflokkurinn hefur sína varðhunda. Það situr t.d. enginn verkfræðingur eða tæknimenntaður maður í stjórninni og er það einsdæmi í Norður-Evrópu að stjórn jafn mikilvægs orkufyrirtækis skuldi ekki hafa yfirgripsmikla tækniþekkingu innan sinna raða. Það sama má segja um fjámála- og fjármögnunar þekkingu og reynslu.  Og hvað með alla þá frábæru orkusérfræðinga sem Ísland á og miðla af þekkingu sinni um allan heim, enginn þeirra situr í stjórn Landsvirkjunar eða Orkuveitunnar? Hvers vegan?

Hvernig á pólitísk skipuð stjórn að geta metið þær flóknu viðskiptalegu og tæknilegu forsendur sem liggja á bak við verkefni eins og sæstrenginn?  Hér verður stjórnin annað hvort að treysta á framkvæmdastjórnina eða utanaðkomandi sérfræðinga.  En það skapar vandamál. Hættan er að framkvæmdastjórnin verði þá of valdamikil og að stjórnin geti ekki veitt henni eðlilegt aðhald og eftirlit eða að aðkeyptir sérfræðingar fái of mikil völd og fari að stýra verkefninu í sína þágu.

Í slíkri stöðu er auðveldast fyrir stjórnina að líta á verkefnið sem pólitískt og þar með endar það í þrasi og rifrildi stjórnmálamanna sem aldrei munu geta komið sér saman um neitt skynsamlegt.  Ef verkefnið fer af stað þá verður það á pólitískum forsendum og líkur eru á að það fari sömu leið og Vaðlaheiðargöngin eða Landeyjahöfn?

Er ekki komin nóg reynsla af pólitískri stjórn opinberra orkufyrirtækja á Íslandi?  Er ekki kominn tími til að læra af Norðmönnum og Svíum hvernig best er að stjórna slíkum fyrirtækjum?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 22.4.2015 - 09:33 - Lokað fyrir ummæli

Salan á FIH og tap Seðlabankans

Nokkrar umræður hafa spunnist um söluna á FIH sem Seðlabankinn tók allsherjar veð í fyrir hrun. Þetta er nokkuð flókið og margslungið mál. Danskir fjölmiðlar gerðu þessu góð skil 2010 og þá ritaði ég eftirfarandi færslu:

“Danir hafa þvingað fram brunaútsölu á FIH bankanum sem Seðlabankinn lánaði nær 80 ma kr. rétt áður en Kaupþing hrundi. Eftir að hafa selt Íslendingum bankann á yfirverði (um 160 ma kr.) fá Danir hann nú aftur tilbaka á slikk. Sá hlær best sem síðast hlær.

Kaupverðið hefur ekki verið uppgefið og dönskum heimildum ber ekki saman um verðið. Samkvæmt TV2 er talað um verð í kringum 40 ma kr. Ef þetta er rétt mun Seðlabankinn þurfa að afskrifa um helming af láni sínu til Kaupþings, en fyrir þá upphæð væri hægt að reka Landspítalann í rúmt ár. Samkvæmt Berlinske Tidende er verðið hærra, allt að 80 ma kr. sem nægði til að dekka skuldina, en þetta er ekki staðgreiðsluverð heldur mun verðið vera háð afkomu bankans á næstu árum.

Hvert sem hið endanlega verð verður eru Danir að gera reyfarakaup. Sölunni verður að vera lokið fyrir 30. september svo kaupendur sitja bara sallarólegir og bíða. Þeir vita sem er, að með Icesave í klemmu eru flestar leiðir lokaðar Íslendingum og því er hægt að eignast bankann á miklu undirverði.

Icesave deilan verður líklega talsverð búbót fyrir danska lífeyrissjóði.”

FIH salan er gott dæmi um hvernig Danir notuðu Icesave deiluna til að snúa á Íslendinga. Þegar menn loka sig frá hinum alþjóðlega fjármálamarkaði opnast tækifæri fyrir aðra. Hinn óbeini kostnaður af Icesave og töpuð tækifæri sem fylgdu í kjölfarið verða líklega ekki gerð upp af núverandi kynslóð.  Þetta verður hins vegar spennandi rannsóknarefni eftir um það bil 50 ár.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 18.4.2015 - 12:45 - Lokað fyrir ummæli

Sparisjóðskerfið hrynur

Sparisjóðskerfið er í dauðateygjunum.  Fall Sparisjóðs Vestmannaeyja hefur vakið FME og stjórnir hinna sjóðanna upp af þyrnirósasvefni og nú þeysast menn um landið til að kíkja í lánasöfnin og ekki er allt sem sýnist í þeim málum.  Reynt er að redda, hlutafélagavæða og selja áður en allt fellur.  Allt eru þetta týpísk íslensk vinnubrögð og sorgleg.

Veik staða sparisjóðskerfisins var þekkt þegar 2010 og þá var líklega síðasta tækifærið til að bjarga kerfinu með skýrri stefnu.  Sameina hefði þurft alla sparisjóði landsins undir eina stjórn og áhættustýringu.  Það lág alltaf fyrir að sundraðir og litlir sjóðir gætu aldrei keppt við endurreista banka sem fengu risa afsláttasjóði sem leyfði þeim að dæla hagnaði inn á rekstrarreikninga hjá sér og þar með skekkja samkeppnisstöðuna á fjármálamarkaði.  Þetta átti FME, Seðlabankinn, Bankasýslan, stjórnmálastéttin og stjórnarmenn sjóðanna að vita.  Allt þetta fólk hefur brugðist stofnfjárfestum og þeim viðskiptavinum sem sjóðirnir þjóna.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 17.4.2015 - 16:31 - Lokað fyrir ummæli

Mistök HB Granda

Laun stjórnar HB Granda er algjört klúður.  Launin eftir 33% hækkun eru enn undir meðaltali launa stjórnarmanna í skráðum fyrirtækjum í Kauphöllinni. Vandamálið byrjaði í skráningarferlinu.

HB Grandi hefur aðeins verið á markaði í tæpt ár.  Félagið var tekið inn í kauphöllina í apríl 2014 með stjórnarlaun sem voru langt frá því að vera samkeppnishæf.  Það hefði átt að hringja viðvörunarbjöllum hjá bæði fjárfestum og Kauphöllinni.  Hvernig er tryggt að besta fólkið veljist inn í stjórn félags sem ekki borgar markaðslaun?  Á hvaða forsendum er stjórnin þá valin?

Þetta dæmi sýnir vel að íslenski markaðurinn á enn langt í land við innleiðingu á faglegum stjórnarháttum.  Lágmarkskrafa er að velja einstaklinga í stjórnir sem hafa eitthvað fram að færa, hafa bein í nefinu og setja fram eðlilegar kröfur um ásættanleg laun og vinnuumhverfi.

Í nágrannalöndunum tíðkast það að stjórnir hafi tilnefningarnefndir sem vinna faglega með óháðum ráðgjöfum við val á nýjum stjórnarmönnum.  Grunnurinn í þeirri vinnu eru skýrar starfslýsingar fyrir hvern og einn stjórnarmann þannig að tryggt sé að félagsstjórn hafi alltaf á að skipa breiðan hóp einstaklinga með nægilega þekkingu og reynslu af helstu rekstrarsviðum félagsins.  Svona vinnuaðferðir eru hvergi mikilvægari en í litlum kunningjasamfélögum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 17.4.2015 - 10:27 - Lokað fyrir ummæli

Stoltenberg og Ólafur Ragnar

Eins og vanalega er Forseti Íslands víðsfjarri þegar framkvæmdastjóri NATO heimsækir Ísland.  Varnarmál landsins eru ekki hátt skrifuð hjá forseta vorum og líklega eru fá lönd innan SÞ þar sem þjóðhöfðinginn sýnir varnarmálum þjóðar sinnar jafn mikið skeytingarleysi og á Ísland.

Fyrir stofnríki NATO er þessi staða mjög vandræðaleg, sérstaklega í ljósi þess að Norðurlöndin hafa nýlega sent frá sér yfirlýsingu um að þétta raðirnar þegar kemur að vörnum landanna gegn helstu ógninni á norðurslóðum, nefnilega Rússlandi Pútins.

En lengi getur vont versnað.  Á sama tíma og Stoltenberg er á Íslandi berast fréttir þess efnis að Ólafur Ragnar muni hafa boðað komu sína til Rússlands í maí til að taka þátt í hátiðarhöldum til að minnast hernaðarsigra Rússlands með vini sínum Pútín.  Ef Ólafur Ragnar fer til Rússlands og hittir Pútin í maí en neitar að hitta Stoltenberg á íslenskri grund er hann að sýna vörnum Rússlands meiri virðingu en vörnum eigin lands.  Þetta getur því ekki verið satt, hér hljóta menn að fara með rangt mál.  Vonandi mun forsetaskrifstofan leiðrétta þessa rangtúlkun sem fyrst?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 13.4.2015 - 08:52 - Lokað fyrir ummæli

Bónusar ekki vandamálið

Bónusar í sjálfu sér er ekki vandamálið á íslenskum fjármálamarkaði.  Sparisjóður Vestmannaeyja borgaði ekki bónusa og þar var engin fjárfestingabankastarfsemi, samt féll hann.  Það er nokkuð sem stjórnmálastéttin mætti íhuga.

Þegar menn banna bónusa í einni atvinnugrein en ekki öðrum er samkeppnisstaða um starfsfólk skekkt.  Allar atvinnugreinar keppa um besta starfsfólkið og þar er samkeppnin um bestu og hæfustu stjórnendurnar og fjámálasérfræðinga sérstaklega hörð, enda sýndi hrunið að þessir hópar eru miklu fámennari en menn gerður sér grein fyrir og hafa lítið stækkað á síðustu árum.

Ef bankar geta ekki borgað bónusa og vilja keppa um besta fólkið þurfa þeir að bjóða hærri föst laun.  Þetta eykur fastan kostnað bankanna, gerir rekstur þeirra ósveigjanlegri og eykur áhættu og kostnað.  Þessu verður öllu velt yfir á viðskiptavini.

Þannig mun bann við bankabónusum hafa þveröfug áhrif en ætlunin var.  Svona mega menn passa sig að fikta ekki um of í eðlilegri markaðsstarfsemi.  En því miður halda margir íslenskir stjórnmálamenn að þeir viti manna best í Evrópu.

Það sem menn eiga hins vegar að ræða er þau markmið sem sett eru innan bankanna sem ná þarf til að bónusar séu borgaðir og þá hvernig og yfir hvaða tíma sú greiðsla er innt af hendi. Þetta er sú umræða sem fer fram í nágrannalöndunum.  Lausin er sjaldnast að banna hlutina.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur