Laugardagur 6.9.2014 - 10:30 - Lokað fyrir ummæli

AGS: Þraskúltúr Íslendinga

Í nýlegri skýrslu AGS um starfsemi FME eru nokkrir gullmolar um samskiptakúltúr Íslendinga.

Hér er einn um þras og smámunaskap:

„Banks comply with FME’s requests, but in practice the current situation is quite extraordinary – all major banks have been restructured and have to comply with additional requirements, and all boards are professional rather than appointed by more profit maximizing shareholders. This situation may change in the future. In the past experience, banks feel emboldened by the tradition that all the authorities’ actions need to be strictly based in law and regulations/rules, and given the culture of argument and contestation in the country, banks would argue to the letter of the legal text instead of the spirit and objective.” [feitletrun höfundar]

Og svo annar um formfestu og ópersónulegan samskiptamáta:

„Additionally, the process of providing feedback tends to be mainly through correspondence and does not include recurring meetings with the full Board and senior management…“

Glöggt er gests augað.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 4.9.2014 - 10:26 - Lokað fyrir ummæli

Aðeins pláss fyrir 2 banka

Ein stærsta áskorun sem íslenska bankakerfið stendur frammi fyrir liggur á tekjuhliðinni.

Það sem staðið hefur undir arðsemi stóru bankanna frá hruni eru hruneignir og lán sem þeir fengu á afslætti frá kröfuhöfum. Með því að færa upp virði lána og selja eignir í óskyldum rekstri hafa bankarnir myndað hagnað sem villir mönnum sýn á framtíðarstyrk þeirra og skekkir samkeppnisstöðuna. Það er nær útilokað að keppa við banka sem fengu hrunforgjöf frá ríkinu og kröfuhöfum. Það skal engan undra að sparisjóðskerfið er að lognast út af og rekstur MP banka er erfiður.

En sá tími kemur að hruntekjustofnar bankanna hverfa. Hvað þá? Hvernig ætla bankarnir að brúa það tekjutap sem fyrirsjáanlegt er í framtíðinni? Þeir geta ekki fundið nýja markaði erlendis eins og önnur íslensk fyrirtæki, enda vandséð að erlendir aðilar séu spenntir að fá íslenska banka aftur inn á sinn heimamarkað. Þeir geta ekki stolið markaðshlutdeild frá öðrum bönkun þar sem þeir eru líklega með um 90% af markaðinum nú þegar. Þeir geta hins vegar valið að velta þessu yfir á viðskiptavini, lækkað kostnað eða fórnað arðseminni og lagst á spena skattgreiðenda. En hversu stórt verður þetta tekjutap?

Til að svara þeirri spurningu er best að líta á reglulegar tekjur (hreinar vaxtatekjur og þjónustutekjur) sem hlutfall af heildarrekstrartekjum. Hjá viðskiptabönkum á hinum Norðurlöndunum er þetta hlutfall yfirleitt á bilinu 80-90%. Samkvæmt nýju hálfsársuppgjöri íslensku bankanna reiknast þetta hlutfall: Landsbankinn 55%, Arion banki 67% og Íslandsbanki 71%. Hjá MP banka er þetta hlutfall um 90% samkvæmt uppgjöri síðasta árs en þá var bankinn rekinn með tapi.  Það er ljóst að í framtíðinni mun þetta hlutfall hækka upp í 80-90% hjá stóru bönkunum. Það þýðir að bankarnir þurfa að “finna” um 30 ma kr. á ári í nýjar tekjur samanlagt. Ef heimilin og fyrirtæki landsins skipta þessu á milli sín hækkar bankakostnaður heimilanna um 200,000 kr á ári.

Það er auðvitað til önnur leið og það er að sníða bankakerfinu stakk eftir vexti.  Minna kerfi verður ódýrara og skamkeppnishæfara. Það kann að hljóma sem öfugmæli en 2 eru betri en 3 í þessu sambandi – „less is more“. Það er ekki pláss á litla íslenska markaðinu nema fyrir 2 stóra banka. Veikasta bankann verður að brjóta upp og sameina öðrum bönkum og/eða sparisjóðum.  Það mun skapa mikil hagræðingartækifæri sem á endanum mun færa viðskiptavinum ódýrari þjónustu og fjárfestum góðan hagnað.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 27.8.2014 - 08:11 - Lokað fyrir ummæli

Hollendingar gefast upp

Þá hafa Hollendingar ákveðið að betra sé að treysta á hrægamma en íslensk stjórnvöld. Alvöru peningar á afslætti í dag frá hrægömmum eru betri en loforð íslenskra stjórnvalda um krónur, kannski á morgun.

Stöðumat Hollendinga er rétt. Eftir að Ísland ákvað að hætta við ESB umsókn hafa Íslendingar engin tól eða tæki til að leysa mál kröfuhafa á farsælan hátt. Til þess að það sé hægt þarf erlendan stuðning sem Ísland vill ekki sjá. Því er raunveruleg hætta á að það geti tekið áratugi að leysa að fullu úr kröfuhafamálum Íslendinga. Eitt feilskref og Ísland fer sömu leið og Argentína. Þetta telja Hollendingar of áhættusamt og selja því kröfur sínar á afslætti til hrægamma.

Þessi sala styrkir stöðu hrægamma og sendir skýr skilaboð til alþjóðasamfélagsins að Ísland er í klóm hrægamma. Íslensk stjórnvöld geta ekki hreyft sig nema að hugsa fyrst um þau áhrif sem það gæti haft á stöðu hrægamma. Ef bresk stjórnvöld fara sömu leið og Hollendingar munu hrægammar halda á öllum trompunum.

Þessi ákvörðun Hollendinga er ekki trausyfirlýsing fyrir Ísland.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 26.8.2014 - 08:02 - Lokað fyrir ummæli

Bankabruðl

Það var kostulegt að fylgjast með hálfsársuppgjöri ríkisbankans sem allir virðast bara vera mjög sáttir við. Aðeins um helmingur tekna Landsbankans virðist koma frá viðskiptavinum. Hinn helmingurinn kemur frá virðisbreytingum, sölu eigna og verðbréfum. Það er nú alveg á mörkunum hvort hægt sé að kalla Landsbankann venjulegan viðskiptabanka með svona lágt hlutfall af traustum reglulegum tekjum. Sem dæmi má nefna að hjá Svenska Handelsbanken, sem Bankasýslan tekur sem norræna fyrirmynd af traustum viðskiptabanka í nýlegri ársskýrslu, er þetta hlutfall yfir 90%.

Þá var athyglisvert að sjá hversu stoltur Landsbankinn var yfir því að lenda í 1. sæti í fjármagnsstyrk í vestur-Evrópu. Það er ekki amaleg staða, en það hefði nú mátt minnast á hvað þetta 1. sæti kostar skattgreiðendur. Það er enginn smápeningur. Heilar 7,000,000,000 kr. á ári, sem bankinn færir sér til tekna. Það gæti nú einhver spurt hvort þessum peningum væri ekki betur varið í heilbrigðiskerfinu eða menntakerfinu. Er virkilega nauðsynlegt að skera endalaust niður í grunnstoðum velferðarkerfisins til þess að reka banka innan gjaldeyrishafta sem hefur eiginfjárstyrk sem önnur lönd láta sig dreyma um? Er þetta rétt forgangsröðun?

Nú munu sumir segja á móti, að ríkið fái þetta tilbaka í arðgreiðslum frá bankanum. Og vissulega fær ríkið hluta tilbaka sem arðgreiðslur, en þær eru ekki öruggar og eru á valdi stjórnar bankans. Vextir af skuldabréfum ríkisins sem bankanum voru færð sem stofnfjármagn og SpKef björgun (um 140 ma kr.) bera samningsvexti (5% í dag) og bréfin eru ríkistryggð. Þá er það hálfkómískt að þegar ríkið fær peningana sína “tilbaka” sem arðgreiðslu fá nær allir starfsmenn bankans “sína þóknun” í gegnum hlutabréf sem þeir fengu “gefins”.  Ætli það sé mikill hvati innan bankans til að leggja svona kerfi af?

Að lokum er vert að minnast á lið í uppgörinu sem glöggir lesendur hafa eflaust hnotið um og það er fjárfesting bankans í fasteignum og tækjabúnaði. Landsbankinn bókfærir 1,170,000,000 kr. á fyrstu 6 mánuðum ársins undir þessum lið og er hér væntanleg verið að færa til bókar kaup bankans á einni dýrustu lóð landsins undir nýjar og glæsilegar höfuðstöðvar. Það er nú frekar undarlegt að svona stór fjárfesting sé ekki kynnt hluthöfum formlega. En yfirstjórn bankans virðist eitthvað feimin í þessu máli. Það er kannski skiljanlegt enda hálfvandræðalegt að vera á spena skattgreiðenda og nota svo peningana til að spreða á lúxuslóð á meðan ekki er til króna í nýjan spítala. Það eru nú ekki margar ríkisstofnanir sem geta leyft sér svona fjárfestingu án þess að stjórnmálamenn fetti fingur út í. En það er nú heldur ekki sama Jón og séra Jón innan ríkisapparatsins.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 20.8.2014 - 08:07 - Lokað fyrir ummæli

Vextir hækka

Fjármagnseigendur hafa fengið 100% raunhækkun á síðastliðnum 12 mánuðum.  Geri aðrir betur.

Þetta kemur fram í nýjustu útgáfu af markaðsupplýsingum frá Lánamálum ríkisins.  Ávöxtunarkrafa á meðallöng verðtryggð ríkisbréf hefur tvöfaldast frá ágúst 2013 úr 1.6% yfir í 3.2% í dag.  Og ávöxtunarkrafan á óverðtryggð bréf er enn hærri.  Í raun hefur allur vaxtaferillinn hliðrast upp á þessu ári.  Þetta gerist á sama tima og Seðlabankinn heldur „stýrivöxtum“ stöðugum.  Hver heldur þá um stýrið?

Í alvöru hagkerfum myndi svona mikil og skörp hliðrun hafa mjög dempandi áhrif á hagkerfið og þá sérstaklega á áhættusamar fjárfestingar, en erfiðara er að átta sig á hugsanlegum áhrifunum hér innan gjaldeyrishafta, þar sem áhættumat er orðið ansi bjagað. T.d. virðist þessi hækkun á ávöxtunarkröfu, enn sem komið er, hafa haft lítil áhrif á verðlagningu bankanna.  Ódýrustu húsnæðislánin eru enn á 3.5% verðtryggðum vöxtum og óverðtryggðir útláns- og innlánsvextir hafa lítið breyst.  Eitt er þó víst, það verður erfitt að auka hagnað bankanna í svona umhverfi og spennandi verður að sjá hálfsársuppgjör þeirra og þá sérstaklega niðurstöður úr reglulegum rekstri.

Þá ættu þessar sveiflur að fá menn til umhugsunar um hversu skynsamlegt það er að taka upp danska húsnæðislánakerfið.  Í slíku kerfi eru lántakendur berskjaldaðir fyrir svona vaxtasveiflum.  Hætt er við að húsnæðislánakjör verði eitt lotterí þar sem væntingar og hegðun fjárfesta ráði öllu.

Þessi mikla raunhækkun á ávöxtunarkröfu eru auðvita slæmar fréttir fyrir alla sem skulda og eru ekki með langtíma fjármögnun á föstum vöxtum.  Vaxtakostnaður á eftir að hækka hjá mörgum sem á endanum mun éta upp launahækkanir og skuldaniðurfellingar.  Þá þarf ríkissjóður að endurfjármagna stór lán 2015 og 2016.  Fórnarkostnaður ríkisins af skuldaniðurfellingunni hefur hækkað mikið á þessu ári, betra hefði verið að nota peningana til að greiða niður lán sem nú þarf að endurfjármagna á hærri vöxtum.

Mun þessi hliðrun ganga til baka?  Varla, ef ríkisstjórnin ætlar að aflétta höftunum.  Háir vextir er eina leiðin til að fá fjármagnseigendur til að halda í krónuna.  Og hér er munurinn þegar orðinn mikill.  Fjárfestar heimta 4.8% raunvexti til að halda á 10 ára óverðtryggðum ríkisbréfum í krónum en láta sér nægja 0.6% raunvexti til að halda á 10 ára þýskum ríkisbréfum.  Jafnvel á Írlandi sem fyrir stuttu síðan var með lánshæfismat í ruslaflokki, en hefur nú siglt fram úr Íslandi yfir í A flokk, er hliðstæð ávöxtunarkrafan rétt um 1.6% á 10 ára ríkisbréf.

Já, krónan er „verðmætur“ gjaldmiðill, en aðeins fyrir þá sem ekkert skulda.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 14.8.2014 - 13:59 - Lokað fyrir ummæli

„Allt of áhættusamir“ bankar?

Þegar stjórnmálamenn segja að það sé “allt of áhættusamt” fyrir skattgreiðendur að innleiða tilskipun ESB um innistæðutryggingu þá hlýtur það að vera jafn áhættusamt fyrir sparifjáreigendur að geyma fé sitt í íslenska bankakerfinu?  Þegar litið er til þess að bankakerfið í dag er að stærstum hluta fjármagnað með kvikum innlánum er svona yfirlýsing ekki traustvekjandi og veltur upp mikilvægum spurningum um stefnu stjórnvalda í afnámi hafta.

Það er grunnskilyrði í afnámi hafta að bankar á Íslandi séu samkeppnishæfir á EES markaði. Í ljósi sögunnar er öryggið stærsti þátturinn. Ef íslensku bankarnir eru einu bankarnir innan EES sem ekki veita sömu neytendavernd á fjármálamarkaði og aðrir bankar þá gefur það auga leið að margir munu vilja koma sparnaði sínum í öruggari höfn.  Hér er því verið að búa til nýja og stærri snjóhengju.

Því virðast stjórnvöld vera að vinna gegn markmiði sínu um afnám hafta með svona yfirlýsingum. Það verður ekki bæði haldið og sleppt.

Hin hliðin á málinu snýr svo að markaðsverði íslensku bankanna.  Ef rýra á samkeppnisstöðu íslensku bankanna mun verðmiðinn falla og fáir fagfjárfestar munu hafa áhuga að koma nálægt slíkum stofnunum hvorki sem eigendur né lánveitendur.

Eitt er víst að það verður sífellt erfiðara og dýrara fyrir lítil lönd að halda úti eigin mynt og bankakerfi.  Samstarf við önnur lönd verður til lengri tíma ekki umflúið.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 3.8.2014 - 09:37 - Lokað fyrir ummæli

Hagsmunir hverra?

Það eru gríðarlegir hagsmunir fólgnir í því að setja bú kröfuhafa í þrot. En hagsmunir hverra?

Mál kröfuhafa er ólíkt Icesave málinu að því leyti að Icesave var skuldamál en kröfuhafar eiga eignir. Með eignir er hægt að braska. Þetta verða menn að hafa í huga.

Ef bú kröfuhafa verða sett í þrot verður samtímis slegið upp stærstu brunaútsölu Íslandssögunnar. Þar mun gefast einstakt tækifæri til auðsöfnunar sem varla verður endurtekið á þessari öld. Þar mun öllu máli skipta að vera á réttum stað og hafa rétt sambönd.

En það er áhætta fólgin í gjaldþrotaleiðinni, eins og AGS bendir á, og sú áhætta mun að mestu leyti lenda á herðum almennings á meðan vildarvinir stjórnmálamannanna reyna að fleyta rjómann af eignum kröfuhafa.

Lexía Argentínu er að standa faglega að samningum við kröfuhafa og þar hefur fjármálaráðherra gert rétt í því að ráða Lee Buchheit til að leiða þá vinnu.

Samningaleiðin er leið fagmannsins, en gjaldþrotaleiðin er leið braskarans.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 13.7.2014 - 07:44 - Lokað fyrir ummæli

AGS: Afnám hafta byrjar 2017

Í nýrri úttekt frá AGS koma fram athyglisverðar forsendur um losun hafta. Þar er talað um að losun kvikra aflandskróna verði lokið 2016 og að afnám á almennum höftum geti því byrjað 2017.

… staff assumes a gradual release of all offshore liquid krona holdings by end-2016. Beginning 2017, the authorities begin a gradual easing of controls on residents and the old bank estates.

Þá telur AGS að útborgun á erlendum gjaldeyri í eigu kröfuhafa geti hafist á sama tíma. Til að þessar forsendur haldi þarf að ná samningum við kröfuhafa á þessu kjörtímabili og leggur AGS mikla áherslu á að sú vinna byggist á fyrirfram ákvörðuðu ferli sem sé gagnsætt, heilstætt og unnið í samvinnu við alla hagsmunaaðila.

Þá varar AGS sérstaklega við einhliða aðgerðum, svo sem gjaldþrotaleiðinni þar sem henni fylgi lagaleg áhætta og orðsporsáhætta sem geti haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar.  Taka verður þessa viðvörun frá AGS alvarlega, sérstakleg í ljósi nýlegs dóms hæstaréttar Bandaríkjanna þar sem Argentína tapaði mikilvægu máli gegn kröfuhöfum, enda telur AGS að sá dómur geti haft fordæmisgildi.

Það er því varla tilviljun að allt fer á fleygiferð í máli kröfuhafa strax og þessi dómur í Bandaríkjunum fellur. Liklegt verður að telja að AGS hafi tekist að sannfæra fjármálaráðherra að eina færa leiðin væri samningaleiðin með erlendan fagmann við stýrið.

Forsendur AGS gera hins vegar ráð fyrir að það verði tæplega þessi ríkisstjórn sem aflétti höftunum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 10.7.2014 - 06:46 - Lokað fyrir ummæli

Lee Buchheit snýr aftur

Aðalsamningamaður Jóhönnu og Steingríms í Icesave málinu er aftur kominn á laun hjá íslenska ríkinu.  Nú í boði Sigmundar og Bjarna. Það er varla hægt annað en að brosa yfir þessari uppákomu.

Kröfuhafar munu hins vegar fagna þessum fréttum enda fá þeir nú erlendan fagmann til að semja við í staðinn fyrir íslenskt tómarúm.

Það er engin tilviljun að frétt um að her erlendra sérfræðinga hafi verið ráðinn til að koma Íslandi á þurrt land með sín erlendu fjármál berist á sama tíma og ríkissjóður fær bætt kjör á erlendum skuldabréfamarkaði.

Brennt barn forðast eldinn. Íslenskar heimatilbúnar fjármálalausnir eru ekki hátt verðlagðar fyrir utan landsteinana.  Bætt kjör tengjast, að hluta til, ráðningu erlendra sérfræðinga.  Lexía hrunsins fyrir erlenda fjárfesta er að hafa “sína menn” innanbúðar á Íslandi til að fylgjast með landanum.

Nú er bara að sjá hvort landsmenn fái að kjósa um nýjan Buchheit samning eða ekki?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 22.5.2014 - 13:09 - Lokað fyrir ummæli

Hagnaður bankanna?

Nú þegar stóru bankarnir 3 hafa birt uppgjör fyrir fyrsta ársfjórðung er vert að bera rekstur þeirra saman.

Íslandsbanki setur rekstrarreikning upp miðað við íslenskar aðstæður eftir hrun. Lykilstærðin er hagnaður fyrir virðisrýrnun og virðisbreytingu útlána.  Þar með reynir bankinn að aðgreina venjulegan rekstur frá hagnaði sem myndast vegna hrunsins.  Þetta er mikilvægt þar sem stór hluti hagnaðar bankanna frá hruni er vegna umsýslu með hruneignir og þessi uppsetning sýnir hvernig bönkunum miðar á leið þeirra frá hruninu.

Á þennan mælikvarða var hagnaður fyrstu 3 mánuði 2014 hjá: Íslandsbanka 4.4 ma kr., Arion Banka 2.1 ma kr og Landsbankanum 1.1. ma kr. Þessi uppsetning sýnir vel yfirburði Íslandsbanka. Það er sá banki sem virðist kominn lengst í að endurskipuleggja starfsemi sína frá hruni.  Staða Landsbankans er hins vegar áhyggjuefni.  Ef litið er á arðsemi eiginfjár er hún lægst hjá Landsbankanum eða um 2% á móti 5.9% hjá Arion Banka og 10.2% hjá Íslandsbanka, miðað við ofangreinda hagnaðarskilgreiningu.

En þar með er ekki öll sagan sögð.  Ef skyggnst er nánar í virðisbreytingu útlána Landsbankans sést að bankinn bókfærir hagnað upp á 6.7 ma kr. undir þessum lið á fyrsta ársfjórðungi.  Þetta er hagnaður vegna lána sem keypt voru af kröfuhöfum á miklum afslætti.  Ef bankinn hefði ekki þennan sjóð að ganga í nú um fimm og hálfu ári frá hruni hefði bankinn sýnt rekstrartap miðað við þetta nýjasta uppgjör.

Það er löngu orðið tímabært að eigendur Landsbankans fari að krefja yfirstjórn bankans svara um hvernig rétta eigi þenna rekstur við og ná viðunandi og sjálfbærri arðsemi á fjárfestingu skattgreiðenda.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur