Miðvikudagur 5.3.2014 - 11:39 - Lokað fyrir ummæli

Hagnaður bankanna

Mikið er talað um hagnað bankanna og litið á hann sem skattlagningartækifæri eða tækifæri til að lækka útlánsvexti. En hvaðan kemur þessi hagnaður?

Margir átta sig ekki á að stór hluti af þessum hagnaði kemur frá innlánseigendum. Innan hafta er auðvelt fyrir bankana að nota og stýra innlánsvöxtum til að ná arðsemiskröfu eigenda.  Innlánseigendur eiga sér fáa málsvara og yfir 90% af umræðunni eru um lántakendur og þeirra kjör. Það hefur aldrei þótt “cool” að spara á Ísland, það gera bara kverúlantar og ellilífeyrisþegar. Toppurinn er að slá lán.

Menn verða að gera sér grein fyrir að ef lækka á útlánsvexti niður á sama stig og í nágrannalöndunum með óbreytt bankakerfi þurfa innlánsvextir að vera núll eða negatífir. Og þótt íslenskir sparifjáreigendur séu þolinmóðir þá er varla hægt að búast við að þeir geymi fé sitt á núll vöxtum inni í bönkum í BB flokki.

Og hér er komið að vanda málsins. Höftin brengla allt áhættumat. Viðskiptabankarnir og Seðlabankinn versla ekki mikið við BB banka erlendis. Það væri talið allt of áhættusamt. En þegar kemur að eigin viðskiptavinum er talið að fjárfestingatækifæri í B flokki séu spennandi og henti öllum. En það gera þau alls ekki.

B flokkur er flokkur vogunarsjóða, þar líður þeim best og þar græða þeir mest. Því er Ísland eins og sérsniðið að þeim. Besta leiðin til að losna við vogunarsjóði og raunverulega lækka vexti á fjármálagjörningum er að hækka lánshæfiseinkunnina upp í A flokk. Þá fara vogunarsjóðirnir og þolinmóðir erlendir lífeyrissjóðir koma í staðinn. Og það er auðvitað grundvöllur þess að hægt sé að aflétta höftunum.

Stórt og vanmetið vandamál við afnám hafta á meðan Ísland er í B flokki er að innlendir fjárfestar og þá sérstaklega áhættufælnir fjárfestar vilja komast í fjárfestingartækifæri í A flokki. Og á meðan sá flokkur er ekki til á Íslandi mun þetta fé leita úr landi.

Vaxtastefna Seðlabankans er einfaldlega birtingarmynd þeirrar áhættu og óvissu sem felst í íslenska hagkerfinu. Það er mikil fylgni á milli lágvaxtastefnu nágrannalandanna og lánshæfiseinkunna þeirra. Að reyna að handstýra vöxtum niður með pólitískum aðgerðum án þess að vinna á áhættuþáttum hagkerfisins mun aðeins viðhalda höftum, ekki auðvelda afnám þeirra.

Afnám hafta mun aldrei takast vel nema í samvinnu við erlenda markaðsaðila, matsfyrirtækin og AGS. Því meir sem íslendingar reyna að gera þetta upp á eigin spýtur eftir íslenskri séruppskrift því meiri líkur eru á að afnám hafta klúðrist.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 3.3.2014 - 16:05 - Lokað fyrir ummæli

Pínlegt Pútíndaður

Norðurslóðastefna ÓRG með St. Pétursborg og Rússland sem þungamiðju hefur strandað á Krímskaganum.

Það hefur alltaf verið ljóst að lýðræðisþjóðir á norðurhveli jarðar eru skeptískar á norðurslóðastefnu sem byggir á Pútíndaðri.   Íslendingar héldu hins vegar að í þessu fælist lausn á ESB vandræðum þjóðarinnar.  Annað kemur núna í ljós.

Í dag standa Íslendingar uppi stefnulausir.  Þeir vilja ekki ESB og norðurslóðastefnan er lítið annað en hégómi og óskhyggja.

Þjóðaratkvæði um framhald ESB viðræðna hefur aldrei verið mikilvægari en einmitt nú.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 2.3.2014 - 11:28 - Lokað fyrir ummæli

„Is Iceland still a mess?“

Í vikunni sem er að líða hafa birst myndir af mótmælum fyrir utan Alþingishúsið í heimspressunni, t.d. CNN og FT.  Þar er minnst á að eftir rúmlega 5 ár er Ísland enn að kljást við hrikalegar afleiðingarnar hrunsins og enn er þjóðin að mótmæla fyrir utan þinghúsið.

Þessar fréttir minna menn á erlendis að enn er langt í land að Ísland sé komið á þurrt land.  Málefni Seðlabankans, ESB, kröfuhafa og gjaldeyrishafta eru öll upp í lofti.  Íslendingar virðast eina ferðina enn ekki geta komið sé saman um framtíðarstefnu og sett saman heilstætt plan eins og aðrar þjóðir.

Allt logar í kjánalegu sandkassarifrildi hjá stjórnmálastéttinni sem á ekkert sameiginlegt með þeim faglegu og yfirveguðu vinnubrögðum sem einkenna hin Norðurlöndin.

Eða eins of kunningi minn spurði mig eftir að hafa horft á CNN:  “Is Iceland still a mess?”

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 28.2.2014 - 09:14 - Lokað fyrir ummæli

Hóphugsun ríkisstjórnar

Nýjasta skoðanakönnun Fréttablaðsins þar sem rúmlega 80% vilja þjóðaratkvæðisgreiðslu sýnir að ný gjá hefur myndast á milli þjóðar og þings.

Hvernig gat þetta gerst?  Þetta eru jú sömu mennirnir sem voru svo í takt við þjóðarviljann í Icesave málinu?  Hluti af svarinu má finna í rannsóknarskýrslu Alþingis.  Þar er talað um hættuna af einsleitum hópum sem komast til valda og verða hóphugsun að bráð.  Í litlu pólariseruðu samfélagi eins og á Íslandi er mikil hætta á að ákvarðanataka litist af hóphugsun.  Þeir sem eru við völd safna í kringum sig fámennum hópi sérfræðinga  sem hafa sömu skoðanir og bakgrunn.  Öll vinna verður einföld og létt þar sem allir eru sammála forystunni og ef einhver mótmælir er hann stimplaður óþægilegur og ósamvinnuþýður – “not a team player”.

Svo rótgróið er hóphugsunareðlið í Íslendingum að það mun taka meira en eitt hrun til að snúa því við.  Eini stjórnmálaflokkurinn sem virðist þokkalega meðvitaður um þetta vandamál er VG.  Verst er hins vegar ástandið í Framsókn.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 27.2.2014 - 16:46 - Lokað fyrir ummæli

Úr ESB ösku í EES eldinn

Það er stundum sagt “be careful what you wish for”.   Þetta mættu bæði ESB aðildarsinnar og andstæðingar íhuga.

Taktískt séð er tillaga VG um að setja málið tímabundið á ís skynsamlegasta lausnin eins og í pottinn er búið.  Það ríkir enn ákveðin óvissa um hvernig Ísland og Evrópa muni þróast í náinni framtíð og þá halda menn öllum möguleikum opnum þar til hlutirnir fara að skýrast.

EES er ekki sjálfstæð eining óháð ESB.  Það er ekki hægt að gagnrýna ESB án þess að skuggi falli á EES.  Það sem aðskilur þessar skammstafanir er aðeins einn bóksatafur og það mættu menn stundum muna.

Svo er alltaf til sá möguleiki að ESB telji að ESS sé ekki nógu lýðræðislegur samstarfsvettfangur og eigi sjálft frumkvæði að segja honum upp og endurskoða allt samstarf ESB og EES ríkjanna.  Þá er Ísland í veikari stöðu að hafa afturkallað umsóknina.

Stefna ríkisstjórnarinnar að afturkalla ESB umsóknina en efla EES samstarfið gengur einfaldlega ekki upp hvorki út frá taktískum né strategískum vinkli.   Það er vert að muna að Svisslendingar höfnuðu EES en afturkölluðu ekki ESB umsóknina.  Hvers vegna?  Nú ætlar Ísland að fara öfuga stefnu sem mun eingöngu senda veik og óskýr skilaboð til alþjóðasamfélagsins sem á erfitt með að sjá á hvaða leið Ísland er?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 26.2.2014 - 07:19 - Lokað fyrir ummæli

Pútin og ÓRG gegn ESB

Ríkisstjórninni berast nú stuðningskveðjur frá fyrirheitna landinu þar sem Forseti vor hamast á ESB.

Það er ekki amalegt fyrir Pútin að fá heimsmann eins og ÓRG í lið með sér.

Stefna og bandalag meginþorra lýðræðisríkja Evrópu hentar ekki vestast og austast í álfunni, um það eru Pútin og ÓRG sammála.

Maður er nú farinn að skilja betur hvers vegna taka verður þetta ESB mál föstum tökum og alls ekki gefa þjóðinni tækifæri á að kjósa sjálf.  Slíkar aðferðir eru víst veikleikamerki í fyrirheitna landinu.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 25.2.2014 - 08:48 - Lokað fyrir ummæli

ESB: Allt í plati

Íslensk umræða um Evrópusambandið virðist í litlu samhengi við evrópskan raunveruleika og byggir frekar á íslenskri óskhyggju.

Þingsályktunartillagan um afturköllun á aðildarumsókn sýnir vel það haf sem er á milli Íslands og ESB.  Íslendingar eru að reyna að fara aftur í tímann og halda að þeir geti sagt við ESB, “þessi umsókn var allt í plati við viljum bara vera í EES eins og fyrir hrun”.

ESB hefur breyst mikið frá hruni og mikið umbótastarf er þar í gangi.  Það er útilokað að snúa klukkunni við og ef einhver þjóð ætti að vera meðvituð um galla og takmarknir á EES samstarfinu þá er það Ísland.

Það kom skýrt fram eftir þjóðaratkvæðisgreiðslu Svisslendinga nýlega að ESB er ekki til viðræðu um að leyfa evrópuþjóðum sem standa fyrir utan bandalagið að velja bestu bitana.  Ef Íslendingar draga ESB umsóknina tilbaka vegna þess að þeir telji EES betra, mun bandalagið endurskoða EES samstarfið.  ESB hefur þegar gefið út yfirlýsingu um að tvíhliða samningur við Sviss verði endurskoðaður og það er fullkomlega eðlilegt að það sama verði látið yfir EES ganga þegar Ísland dregur umsóknina til baka.

Markmið ESB er að evrópuríki verði fullgildir meðlimir í sambandinu.  Ef þjóðir fara að velja ólýðræðislega aukaaðild á miðri leið er komið upp vandamál sem þarf að leysa.  Í þeirri lausn er vafasamt að EES eigi langt líf eftir.

Sá óskalisti stjórnvalda um framtíð EES sem birtist í þingsályktunartillögunni virðist því fullkomlega óraunhæfur.  Með því að draga unsóknina tilbaka er verið að keyra út í óvissuna – það er ekkert fast í hendi með EES.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 24.2.2014 - 14:44 - Lokað fyrir ummæli

Engin tár í Osló

Norðmenn munu ekki fella nein tár við ákvörðun Íslendinga um að afturkalla ESB umsóknina og enn síður munu tár verða felld í Madrid.

Spánverjum gefst nú gullið tækifæri á að ná vopnum sínum á Norður-Atlantshafi eftir erfiða efnahagsörðuleika. Það verða þeir ásamt Frökkum og Portúgölum sem munu ráða því hvenær og á hvaða forsendum Ísland fær inngöngu í ESB muni Ísland einhvern tímann í framtíðinni sækja aftur um. Skriffinnar í Brussel hafa lítið um það að segja.

Þá munu Norðmenn geta sett Ísland í rassvasann svo lengi sem Ísland heldur dauðahaldi í EES. Það verður lítil stemning innan ESB að eyða miklum tíma í Íslendinga í náinni framtíð. Framtíð EES mun ráðast á norskum forsendum. ESB fer varla að verðlauna Ísland fyrir að afturkalla aðildarumsókn með því að veita sérlausnir og ívilnanir á EES. Það væru ekki réttu skilaboðin til aðildarríkja ESB, sérstaklega í ljósi þess að Ísland afturkallar umsóknina á þeim forsendum að engar sérlausnir séu í boði!

Utanríkisstefna Íslands innan EES verður lítið annað en aftanívagn hjá Norðmönnum. Stóra spurningin er: mun Ísland borga tugi milljarða fyrir að fá að hossast í norskum tengivagni með ónýta krónu. Eitt er víst að eftir að utanríkisráðherra Íslands sagði að ESB gæti ekki tekið við velmegandi ríki eins og Íslandi er hann að bjóða ESB að hækka verðmiðann á ESS. Þar með munu peningar sem hefðu getað farið í Landsspítalann fara beint til Brussel, þökk sé Framsókn.

Að afturkalla umsókn án þess að samningur liggi fyrir og án þess að ítarleg greining sé til staðar um hvað taki við er ekki skynsamlegt. ESB umsóknin og framtíð EES eru ekki aðskildir hlutir.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 22.2.2014 - 13:41 - Lokað fyrir ummæli

Dýrt ESB brölt

ESB umsóknarbrölt Íslendinga er með eindæmum.  Ísland fær á sig þann stimpil að geta ekki klárað það sem það byrjar á vegna óeiningar og stefnuleysis.

Þá mun þetta misheppnaða brölt auka á óvissu um getu Íslendinga til að marka sér sjálfbæra og trúverðuga efnahagsstefnu.   Um leið og ESB aðild lokast beinist kastljósið að EES.

Þjóð sem hafnar ESB aðild á sama tíma og hún vill halda dauðahaldi í EES afhendir stór tromp til Brussel.

Íslendingar uppfylla ekki EES samninginn um frjálst fjámagnsflæði.  Því verður Ísland í svipaðri stöðu og Sviss sem ekki uppfyllir sinn tvíhliða samning um frjála flutninga fólks.

ESB verður að gæta jafnræðis þegar kemur að löndum sem ekki uppfylla gerða samninga.

Því má búast við að um leið og Alþingi samþykki afturköllun á ESB umsókninni muni ESB lýsa yfir að endurskoða þurfi samskipti Íslands við ESB.   Þetta voru einmitt fyrstu viðbrögð ESB þegar Sviss samþykkti þjóðaratkvæði um innflutningskvóta á vinnuafli frá ESB.

EFTA löndin þurfa miklu meira á ESB að halda, en öfugt, og þetta vita menn í Brussel.

Menn mættu íhuga hvaða áhrif það kunni að hafa á íslenskt efnahagslíf að fara að bæta óvissu um framtíð EES ofan á allt annað?  Það er mikil skammsýni að hætta við ESB umsókn á meðan afnám hafta og samningar um makríl og við kröfuhafa eru ekki lengra komnir.  Það er aldrei að vita hvernig Brussel muni spila úr trompunum sem ríkisstjórnin lætur af hendi þegar umsóknarferlið hættir formlega.

Það er t.d. líklegt að ESB muni gefa Íslandi tímafrest til að uppfylla ákvæði EES um frjálst fjármagnsflæði.  Þar með er klukkan komin af stað um afnám hafta sem gæti endað með að Ísland hrökklaðis úr EES, enda er engin leið að sjá hvernig Ísland geti aflétt höftum í náinni framtíð án utanaðkomandi aðstoðar.  Þá munu margir innan ESB vilja auka verðmiðann á EES.  Bretar hafa sýnt áhuga að fara EES leiðina og besta leiðin til að stoppa það er að hækka verðið eða loka fyrir EES.  Á þeim tímapunkti er líklegt að aðeins Noregur og Sviss hafi efni á tvíhliða samningum við ESB.  Þá er Ísland komið í þrönga stöðu.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 22.2.2014 - 07:16 - Lokað fyrir ummæli

EES of ódýr!

Líklegt er að þegar Ísland formlega lokar á ESB viðræður munu menn í Brussel draga þá ályktun að EES samningurinn sé of ódýr.

Þetta er fullkomlega rökrétt í ljósi orða utanríkisráðherra Íslands sem sagði að ESB gæti ekki tekið á móti velmegandi ríki eins og Íslandi.

ESB hefur þegar gefið út yfirlýsingu um að öll samskipti við annað velmegandi ríki, Sviss, sé til endurskoðunar og því má búast við að EES samningurinn verði tekinn upp af hálfu ESB í náinni framtíð.

Þegar fátækasta ríkið í hópi hinna velmegandi velur EES í stað aðilar sýnir það að verðlagningin á aðgangi að innri markaði ESB í gegnum EES er of lág.

Noregur, Ísland, Lichtenstein og Sviss mega því búast við að þurfa að borga hærri upphæðir og meiri fullveldisskerðingu fyrir aðganga að innri markaði ESB í framtíðinni.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur