Þriðjudagur 14.8.2012 - 13:29 - Lokað fyrir ummæli

Nei ESB, en hvað um EES?

Umræðan á Íslandi nær yfirleitt ekki lengra en til næstu kosninga.  Það hefur verið lengi ljóst að pólitískur stuðningur við ESB umsóknina er takmarkaður og lítt fallinn til atkvæðaveiða.  Það eru yfirgnæfandi líkur á að aðildarumsóknin endi í besta falli í langtímafrosti ef hún verður ekki send út á Sorpu eftir næstu kosningar.  En hvað þá?

Hver er afstaða þjóðarinnar til EES samningsins sem gerði útrásina, Icesave og hrunið mögulegt?  Því án EES eru litlar líkur á að Ísland hefði lent í þeim hremmingum sem enn er verið að glíma við.  Og ekki nóg með það, EES áskrift er og verður alltaf ólýðræðislegri en full ESB aðild, og líklega hafa Íslendingar ekki afsalað sér meira fullveldi með samningum við erlendar þjóðir síðan 1262.

Það er því ótrúlegt að EES samningurinn skuli ekki fá meiri umræðu.  Hver er framtíð hans eftir að ESB aðildarviðræðum verður slitið?  Flestir virðast halda að EES muni vara að eilífu og að ekki þurfi að hafa áhyggur af honum.  En er það örugg ályktun?  Varla.  Íslendingar ráða ekki einir för með EES.

Eins og flestir andstæðingar ESB benda réttilega á, er ESB í krísu og mikilla breytinga að vænta í framtíðinni á þeim bæ.  Ljóst er að þær breytingar mun ná til EES eins og annara hluta innan ESB.  Líklegt er að menn munu beina augum sínum að lýðræðishalla og kostnaði samfylgjandi samningnum.

Þeim spurningum sem verður varpað fram munu snúast um hvort ESB eigi að eiga aðila að samningum sem innihalda mikinn lýðræðishalla og hvort EES löndin séu að borga “eðlilegt” verð fyrir EES aðild?

Líklegt er að menn líti til tvíhliða samnings ESB við Sviss en eftir því sem ég kemst næst er kostnaður Sviss við tvíhliða samninginn mun hærri en sambærilegur EES kostnaður.  Þær raddir munu gerast háværari í Brussel sem spyrja hvers vegna EES löndin eigi að fá “afslátt” af aðgangi að ESB mörkuðum, sérstaklega á tímum þegar kostnaður við björgunaraðgerðir ESB hækkar og hækkar.

Það ætti því að vera nokkuð ljóst að ESB mun kalla á breytingar á meðlimsgjaldi EES áskriftar þegar Ísland slítur aðildarviðræðum.  Innan ESB munu menn draga þá ályktun, ef Ísland slítur aðildarviðræðum en vill halda í EES, að hækka megi gjaldið á EES ákskriftinni enda þurfi að tryggja að full ESB aðild sé alltaf mun fjárhagslega hagkvæmari en aukaaðild í gegnum tvíhliða samninga eða EES.

Að slíta ESB viðræðum verður því varla kostnaðarlaust fyrir Ísland.  En það er ekki bara áskriftargjaldið sem mun að öllum líkindum hækka, samningsstaða Íslands mun að sama skapi veikjast enda mun Brussel halda á góðum spilum á meðan Ísland segir nei við ESB en já við EES.  Nei, það verður ekki bæði haldið og sleppt í þessu mikilvæga máli.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 16.7.2012 - 13:18 - Lokað fyrir ummæli

20 ára froða, eða hvað?

Nokkrar umræður hafa spunnist um þróun lífskjara á Íslandi síðustu 20 árin og sýnist sitt hverjum enda flókið að reikna “lífskjör”.  Tölfræðin getur verið hættuleg hér enda geta “vísitölur” verið mjög misvísandi.

Þegar Þorsteinn Pálsson talar um að á síðust 20 árum hafi lífskjarabatinn verið froða er hann ekki endilega í mótsögn við tölur Hagstofunnar um að kaupmáttur launavísitölu 2012 sé á sama stað og um 2004 enda segir kaupmáttur launa ekki alla söguna.   Hvar ætli „kaupmáttur“ vísitölu samneyslu sé?  Ætli t.d., ellilífeyrisþegum finnist þeir vera á sama stað 2012 og 2004 hvað varðar kaupmátt og þjónustu frá hinu opinbera.  Er aðgangur að heilbrigðisþjónustu, atvinnu, húsnæði og menntun sá sami nú og fyrir 8 árum?  Nei, málið er flóknara en að hægt sé að afgreiða það með tilvísun í eina talnaröð, þó mikilvæg sé.

Ef við förum 20 ár aftur í tímann, hver var staða Íslands þá?  Þessu geta þeir sem komnir eru á miðjan aldur svarað fyrir sig, en ég mun hér styðjast við talnaraðir frá Alþjóðagjaldeyrissjóðinum um landsframleiðslu á mann til að skýra ákveðna mynd.  Þessi samanburður kemur auðvita með sömu viðvörun og hér að ofan en talnaraðir geta verið upplýsandi í umræðunni ef menn þekkja takmarkanir þeirra.

Mynd 1.

Ef við byrjum að skoða mynd 1 um landsframleiðslu á mann í dollurum á Norðurlöndunum síðan 1990 kemur í ljós að í upphafi tímabilsins voru öll Norðurlöndin á svipuðum stað með landsframleiðslu á mann um $25,000.  Rétt þar á eftir fer Finnland í gegnum alvarlega kreppu og rekur lestina í landsframleiðslu í 18 ár þar til Ísland tekur það sæti 2008.  Öll Norðurlöndin taka mikinn hagvaxtakipp eftir aldamótin og það er athyglisvert að þótt Ísland rísi hátt 2007 fer Noregur enn hærra og Danmörk er ekki langt á eftir.  Það sem síðan aðskilur Ísland frá hinum Norðurlöndunum er hrunið.  Þar fer Ísland úr öðru sæti í það síðasta á innan við tveimur árum.  Sérstaklega er athyglisvert hvað hin Norðurlöndin ná sér vel á strik strax eftir kreppuna.  Noregur og Svíþjóð ná nýjum landsframleiðslutoppi 2011 sem er hærri en 2007 og Danmörk og Finnland eru nálægt sínum 2007 toppi.  Aðeins Ísland er langt frá því að ná fyrri hæðum og hverfandi líkur eru á að það markmið náist í bráð.  Hins vegar ættu Íslendingar að huga að því hvernig þeir ætla að loka þeirri gjá sem hefur myndast á milli Íslands og hinna Norðurlandanna.  Hornsteinn norræns velferðarkerfis er einmitt há landsframleiðsla og mikil velmegun. Eða eins og Danir segja: „ingen velfærd uden velstand“

Það er rétt að taka fram að kaupmáttarbilið á milli Íslands og hinna Norðurlandanna er minna en þessar landsframleiðslutölur gefa tilefni til, en það er m.a. vegna þess að eignaverð og launataxtar eru lægri hér á landi.  Þetta byggir á sama prinsíppi sem ferðamenn þekkja, að 100 dollarar hafa meiri kaupmátt í Tyrklandi en í Danmörku.

Þó tölurnar í mynd 1 sýni að landsframleiðsla á mann sé hærri nú en 1990 birtist önnur mynd þegar þær hafa verið leiðréttar fyrir verðbólgu.  Mynd 2 sýnir landsframleiðslu á mann fyrir Ísland, Danmörk og Írland á föstu gengi dollara með viðmiðunarár 1990.

Mynd 2.

Þetta er í raun sú mynd sem styður tilgátu Þorsteins Pálssonar um froðumyndun.  Hér sést að raunlandsframleiðsla á mann á  Íslandi er sú sama 1990 og 2011 eða tæplega $25,000 mælt í verðgildi dollarans 1990.  Danir hafa hins vegar séð rúmlega 30% raunhækkun á sinni landsframleiðslu á sama tímabili og Írar, þrátt fyrir sína erfiðu kreppu, hafa tvöfaldað raunlandsframleiðslu hjá sér á síðustu 20 árum.

Þessi mynd segir aðeins brot af sögunni en er engu að síður mikilvæg og það er  nauðsynlegt að  geta horft á hana af yfirvegun og notað sem lærdómstækifæri fyrir framtíðina.  Hvað þurfum við að gera til að þessi saga endurtaki sig ekki næstu 20 árin er hin mikla spurning?

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 8.4.2012 - 09:36 - Lokað fyrir ummæli

Hrunið – norrænn samanburður

Landsframleiðsla á mann á Norðurlöndunum 2011 og 2004 í USD:

Ár                            2011            2004        breyting

Noregur  –           $96,000        $56,000    +71%
Danmörk  –         $63,000        $45,000    +40%
Svíþjóð  –            $61,000        $40,000    +52%
Finnland  –          $50,000        $36,000    +39%
Ísland  –              $43,000        $45,000       -4%

Þessar tölur frá AGS tala sínu máli, sérstaklega í litlu hagkerfi sem er mjög háð innflutningi á nauðsynjavörum.

Þá má spyrja, ætlar Ísland að ná fyrri landsframleiðslu-stöðu á meðal Norðurlandanna, ef svo, hvernig og á hvað löngum tíma? Getur lítið og strjálbýlt land haldið úti norrænu velferðarkerfi á landsframleiðslu sem nemur 2/3 af meðaltali hinna Norðurlandanna?

 

Ps.  AGS reiknar landsframleiðslu Íslands 2011 á meðalgengi, 118 kr. dollarinn.

Heimildir: IMF, Gross domestic product per capita, current prices (USD) 2004, 2011 (est.), Hagstofa Íslands

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 20.9.2011 - 11:20 - Rita ummæli

„Tout va très bien“

Í Brussel munu gárungar hafa stungið upp á að gera hið sígilda lag eftir Ray Ventura frá 1935 „Tout va très bien, Madame la Marquise“ að þjóðsöng Evrópu.

Það er merkilegt hvað þetta 76 ára gamla lag hittir í mark í dag.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 5.6.2011 - 13:51 - 12 ummæli

Þar sem bensínverð er stöðugt

Ég var að tala við kunningjakonu mína um daginn og spurði hana hvort henni þætti bensínverð ekki vera orðið dýrt.  Ekki svo, svaraði hún, það hefur hækkað lítillega en er bara nokkuð stöðugt.  En ef þú lítur yfir síðustu 8 ár, spurði ég?  Jú, bensínið hefur líklega hækkað um 15% á því tímabili en kaupið hjá mér hefur hækkað um 20% á sama tíma, þannig að ég vinn mér inn fyrir svipuðu magni núna og fyrir 8 árum.

Og hvað vinnur þú þér inn fyrir mörgum lítrum af bensíni fyrir hverja unna klukkustund, spurði ég.  Í dagvinnu er tímakaupið sem samsvarar 16 lítrum af bensíni, en fyrir 8 árum gerði þetta 15.3 lítra.  Þannig að í raun hefur bensínverð verið að falla miðað við kaupmátt á síðustu 8 árum?  Jú aðeins, sagði hún, en þetta skiptir nú litlu máli.  Það skal tekið fram að þessi kunningjakona mín vinnur við ræstingar í sveitarfélaginu sem hún býr í.  Það þarf líklega ekki að taka fram að þetta samtal átti sér ekki stað á Íslandi.

En hvað með nágranna þína, er staðan svipuð hjá þeim?  Hún er betri hjá þeim, enda er ég ófaglærð, sagði hún.  T.d. garðyrkjufræðingurinn sem býr á móti mér er með 29 lítra af bensíni á klst og lögfræðingurinn í bænum 94 lítra á klst.   Þannig að hlutfallið á milli þín og lögfræðingsins er 5.9.   Finnst þér það réttlátt hlutfall?  Já, það er dýrt að reka lögfræðistofu, ég er ekki með svoleiðis kostnað.

Að lokum spurði ég, ertu með húsnæðislán og hvað kostar það?  Það er eins og bensínverðið, ansi stöðugt og frekar sanngjarnt.  Ég borga 2.8% í vexti árlega, sagði hún.

Og þá spyr ég lesendur – í hvaða Evrópulandi fer þetta samtal fram?

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 3.6.2011 - 17:44 - 38 ummæli

Kanadíska leiðin

Það er margt vitlausara en að taka upp kanadíska dalinn.  En slík aðgerð verður ekki gerð einhliða.  Sterkir og traustir gjaldmiðlar eru vandmeðfarnir, eins og sagan kennir okkur.

Það væri ábyrgðarlaust að fara að flytja inn bíla til lands sem enn notaðist við hestvagna án þess að kenna landsmönnum meðferð og notkun ökutækja.  Bílar í höndum óvita eru hættulegir – það sama á við sterka gjaldmiðla.  Það er röng nálgun að kenna bílum eingöngu um umferðarslysin og kalla á hestvagna sem lausn á þeim vanda.  Slíkt þætti hlægilegt, en er ekki umræðan um sterka gjaldmiðla einmitt á þessum nótum hér á landi?  En aftur að Kanada.

Eins og Kanada er Ísland norðurslóðaland og á meiri samleið með Kanada en mörgum suður-Evrópuríkjum.  Að því leyti er Kanadaleiðin betri en evruleiðin, að við losnum við vandamál suður-Evrópu og öll þau flækjustig sem fylgja stórum bandalögum.  Á hinn bóginn fer mest af okkar utanríkisviðskiptum í gegnum ESB og með ESB aðild stöndum við jafnfætis öðrum ríkjum í bandalaginu sem við gerum ekki í gjaldmiðlasamvinnu við Kanada nema við gerum eins og Nýfundnaland og göngum í ríkjabandalag Kanada.  Það er hins vegar ansi stór biti að kyngja fyrir flesta Íslendinga, enda ekki allra smekkur að fá Bretadrottningu sem þjóðhöfðingja!

En sama hvort við tökum upp evru eða Kanadadal – við verðum að læra á nýjan gjaldmiðil alveg eins og við værum að fara úr hestvögnum yfir í bifreiðar.  Allt kallar þetta á mikla erlenda hjálp og þjálfun, annars er hætt á slysum.

Þannig verður krónunni ekki kastað fyrir dal nema að Ísland taki upp viðamikla samvinnu við stjórnvöld í Ottawa á flestum sviðum efnahagsmála.  Slík samvinna myndi hafa góð áhrif á atvinnusköpun enda má búast við auknum erlendum fjárfestingum, sérstaklega frá kanadískum aðilum, þegar gjaldmiðlaóvissunni er eytt.

Fyrir Kanada eru aukin áhrif á Íslandi auðvita jákvæð og í fullu samræmi við norðurslóða strategíu þeirra (varnarsamvinna myndi sennilega fylgja í svona pakka fyrr en seinna).

Þessa leið væri því auðvelt að selja í báðum löndunum, enda má færa fyrir því nokkur rök að Kanadadalur sé „hálf-íslenskur“ enda hefur hann verið gjaldmiðill tugþúsunda Íslendinga – Vestur-Íslendinga.  Þannig ætti dalurinn frá Kanada ekki síður að standast þjóðernisprófið en krónan ættuð frá Danmörku!

Ps.  Það er hefð fyrir því í breska samveldinu að eyjur sem nota gjaldmiðla stærri landa fái að prenta „eigin“ seðla og slá mynt.  Þetta gera t.d. Falklandseyjamenn.  Jón Sigurðsson og Kjarval þyrftu því ekki að hverfa úr peningakössum landsins við upptöku á Kanadadal.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 22.5.2011 - 22:17 - 17 ummæli

Eignarétturinn og mannréttindi

Á mbl.is er frétt um að innanríkisráðherra Íslands telji að mannréttindi séu ofar eignaréttinum, þar sem hann segir: „Ég tek heilshugar undir þessi sjónarmið og hef sjálfur lengi bent á að þegar að valið stendur á milli einkaeignaréttar annars vegar og mannréttinda hins vegar að þá ber að forgangsraða í þágu mannréttinda.“

Þetta er mjög athyglisverð skoðun, sérstaklega í ljósi þess að eignarétturinn er friðhelgur samkvæmt stjórnarskrá Íslands og eru grunnurinn í bæði mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu Þjóðanna og mannréttindasáttmála Evrópu sem Ísland er aðili að.

Það er rökvilla að valið geti staðið á milli mannréttinda og eignaréttar.  Eignarétturinn er hluti af mannréttindum alveg eins og rétturinn til lífskjara.  Það er ekki hægt að setja eina grein mannréttindasáttmála ofar annarri eftir geðþótta, slíkt er mismunun og er í andstöðu við almenn mannréttindi.

Það hlýtur að vera krafa að æðsti maður dómsmála innan framkvæmdavaldsins skýri þessa afstöðu sína og sýni fram á að hún stangist ekki á við stjórnarskrá landsins.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 22.5.2011 - 08:51 - 9 ummæli

Christine Lagarde óskakandídat fyrir Ísland

Allt bendir til að fjármálaráðherra Frakka, Christine Lagarde verði næsti yfirmaður AGS.  Þar með verður Christine líklega sú kona sem mun ráða mest um efnahagslega framtíð Íslands næstu árin.

Það sem Ísland mun skorta mest á komandi árum er gjaldeyrir til fjárfestinga, allur gjaldeyrir sem við öflum og gott betur mun fara í neyslu og að borga skuldir.  Við verðum háð velvilja erlendra aðila um fjármagn til fjárfestinga, og þar mun AGS  spila stórt hlutverk.  Þrátt fyrir að AGS njóti lítils álits á Íslandi, ber AGS samt sem áður herðar og höfuð yfir allar íslenskar stofnanir og stjórnmálamenn á erlendri grund.

Efnahagslegar aðgerðir íslenskra stjórnvalda verða að fá gæðastimpil AGS til að njóta trausts og trúverðugleika hjá erlendum aðilum.  Þetta var ófrávíkjanlega krafa hinna Norðurlandanna fyrir fjárhagsaðstoð eftir hrun og það er fátt sem bendir til að Ísland sé að losna undan pilsfaldi AGS á allra næstu misserum, þó svo að formlegu prógrammi ljúki á þessu ári.

Viðhorf og reynsluheimur nýs yfirmanns hjá AGS skiptir því miklu máli fyrir efnahagslega framtíð Íslands.

Christine Lagarde er í raun óskakandídat fyrir Íslendinga.  Margir Frakkar hneyksluðust á henni þegar hún sagði að Frakkar ættu að hugsa minna og framkvæma meira.  Þessi orð eru auðvita á ekta íslenskum nótum og líklegt er að Christine eigi eftir að ná vel til Íslendinga verði hún næsti yfirmaður AGS.  Hún er líkleg til að setja meiri áherslu á að þjóðir sem fái aðstoð AGS lifi ekki um efni fram.  Meiri áhersla verður á atvinnusköpun og niðurskurð í ríkisútgjöldum.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 17.5.2011 - 09:21 - 1 ummæli

DSK

Dominique Strauss-Kahn, eða DSK eins og franskir fjölmiðlar kalla hann, er um margt einstakur yfirmaður AGS.  Sem franskur kampavínssósíalisti hefur hann meiri skilning og reynslu af þörfum hins flókna velferðarþjóðfélags Evrópu en flestir aðrir.  Aðstoð AGS til evrópskra ríkja ber þess merki enda hefur sjóðurinn farið mun mildari höndum um rík ríki Evrópu nú, en Asíuríki á seinni hluta síðustu aldar. Evrópskir sósíalistar gátu ekki óskað sér betri yfirmann hjá AGS en DKS.  En nú eru dagar hans líklega taldir og hvað tekur þá við?

Ekki er líklegt að um meiriháttar stefnubreytingu verði að ræða með nýjum manni en áherslurnar munu breytast.  Nýr yfirmaður mun sennilega taka meir á málum út frá viðskiptalegum sjónarmiðum, Evrópupólitík mun ráða minna.  Þá má búast við, að ef í stólinn sest maður frá Bandaríkjunum eða Asíu, að minna fari fyrir reynslu og skilningi á að halda upp stóru ríkisbákni hjá þjóðum sem biðja um aðstoð.  Það má því búast við meiri áherslum á niðurskurð en skattahækkanir.

Fyrir Ísland mun þessi hugsanlega mannabreyting hjá AGS þýða tímabundna aukna óvissu.  Eftir Icesavekosninguna erum við háðari AGS um framtíðarfjármögnun en ella.  Þó að formlegri AGS aðstoð við okkur ljúki líklega á þessu ári verðum við enn háð AGS um erlenda fjámögnun um einhvern tíma eða þangað til við höfum öðlast viðunandi lánstraust.  Það gæti tekið nokkur ár í viðbót.

Það sem erlendir fjárfestar velta fyrir sér er hvort AGS muni setja ný skilyrði fyrir áframhaldandi fjármögnunaraðstoð með nýjum yfirmanni, þegar prógramminu líkur.  Ekki er ólíklegt að meiri pressa verði sett á Ísland að aflétta gjaldeyrishöftunum fyrr en seinna.

Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 9.5.2011 - 09:11 - 14 ummæli

Tölur til umhugsunar

Árið 2009 var rekstrarkostnaður  stóru bankanna þriggja 24.7% hærri en Landsspítalans.  Ári seinna eða 2010 var þetta hlutfall komið upp í 51.5%.  Ansi umhugsunarvert.

Á milli áranna 2009 og 2010 lækkuðu heildar rekstrargjöld Landspítalans úr 38.8 ma niður í 36.5 ma eða um 6.1%.  Á sama tíma hækkaði rekstrarkostnaður bankanna þriggja um 14.2% eða úr 48.4 ma í 55.3 ma.

Það er nokkuð ljóst að íslenska bankakerfið er of stórt og dýrt.

Það þarf nýja nálgun á rekstri bankaþjónustu á Íslandi.

Heimild:  Ársreikningar 2010

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur