Mánudagur 11.4.2011 - 13:47 - 4 ummæli

Svíar hafa „Nei“ boltann

Svo virðist sem sænska ríkisstjórnin ráði nú örlögum Íslands hvað varðar aðgang og kjör að erlendum fjármálamörkuðum.  Matsfyrirtækin benda á AGS, sem aftur bendir á hin Norðurlöndin sem síðan bíða eftir Svíum.

Það má því með sanni segja að til skemmri tíma litið sé fjárhagslegt sjálfstæði Íslands meir í höndum Rigsdagen en Alþingis.  Það þarf víst að fara ansi langt aftur í sögun til að finna tíma þegar Svíar höfðu slík áhrif hér á landi.

Hins vegar er alveg sama hvað Svíar gera, Íslendingar munu túlka það sem fyrirskipanir frá Brussel.  Það varpar hins vegar upp þeirri spurningu hvort þá sé ekki betra að vera fullgildur meðlimur í klúbbnum, heldur en að standa fyrir utan með hendina útrétta?

„Nei-ið“ færir okkur smátt og smátt nær ESB.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 10.4.2011 - 07:53 - 9 ummæli

Noregur er sigurvegarinn

Hinn raunverulegi sigurvegari í þessari Icesave kosningu er ekki Ísland heldur Noregur.  Eftir þessar kosningar mun akkurat ekkert gerast.  Ungt og athafnamikið fólk getur ekki beðið lengur eftir spennandi tækifærum sem gefur þeim dýrmæta starfsreynslu og möguleika á að byggja upp sparnað í alvörugjaldmiðli.  Ungt fólk hefur ekki sömu þolinmæði og staðnað miðaldra fólk.  Nei, með Icesave aftur á byrjunarreit eftir 2.5 ár,  eru möguleikarnir í Noregi farnir að lokka, þó ekki væri nema að skreppa í 2-3 mánuði og vinna á launatöxtum sem geta auðveldlega fjármagnað langþráða Spánarferð í haust fjarri öllu Icesaveþrasi.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 8.4.2011 - 08:07 - 8 ummæli

Hverfur Icesave við „Nei“?

Margir  virðast halda að ef við aðeins segjum „Nei“ þá muni Icesave skuldbindingin hverfa.  Er það skynsamleg ályktun? Varla.

Hér er um alþjóðlega deilu að ræða sem ekki verður leyst einhliða af öðrum aðilanum.  Það er því hæpið að álykta að skuldbinding íslenska ríkisins hverfi ef sagt er „Nei“ og að aðgangur að fjármagni batni og að við losnum við höftin fyrr.  Menn einblína allt of mikið á höfuðstólinn en gleyma vöxtunum.  Japanska ríkið skuldar tvisvar sinnum meira en íslenska ríkið sem hlutfall af landsframleiðslu, um 200%, en Japanir eru ekki í sömu peningalegu vandræðum og Íslendingar.  Hvers vegna?  Jú, meðal annars, vegna þess að þeir borga aðeins um 1% vexti af sínum lánum.  Vaxtakjörin skipta öllu máli og það er þess vegna sem AGS og lánsmatsfyrirtækin eru hlynnt samþykki á Icesave.  Þar með er óvissu eytt, samið er um skuldbindinguna og umfram allt hún fjármögnuð á vöxtum (um 3%) sem eru líklega meir en helmingi lægri en íslenska ríkið gæti fengið á opnum markaði. 

Ef sagt er „Nei“ hverfur skuldin ekki.  Þá heldur óvissan áfram.  Við vitum ekki hver endanlegur höfðustóll á skuldbindingunni verður, hann gæti orðið lægri, sami eða hærri, allt fer eftir endurheimtum úr búi gamla Landsbankans og svo hvort og hvernig framtíðar dómsmál endar.  Það verður því að gefa sér ákveðnar forsendur um líkindadreifingu á  höfuðstól skuldbindingarinnar sama hvort sagt er „Já“ eða „Nei“.  Það hefur engum tekist að koma fram með sannfærandi rök að væntanlegt gildi úr slíkri líkindadreifingu sé lægra við „Nei“ en „Já“.   Það sama á ekki við um vaxtakjörin.

Ef sagt er „Já“ eru vaxtakjörin þekkt, 3% og 3.3%, sem er langt fyrir neðan áhættumetan markaðsvexti miðað við lánshæfismat og skuldatryggingarálag íslenska ríkisins.  Ef sagt er, „Nei“ eru vaxtakjörin óþekkt.  Þau munu þá líklega ráðast af markaðsvöxtum á þeim tíma sem endanlega verður gengið frá Icesave.  Nú eru vexir á alþjóðamarkaði að hækka, Evrópski Seðlabankinn hækkaði vexti í gær og fastlega er búist við að Englandsbanki hækki vexti seinna á þessu ári.  Það er því hæpið að gera ráð fyrir að þeir vextir sem samið hefur verið um muni halda í framtíðinni.  Núverandi samningur er gerður þegar vextir í evrum og pundum eru í sögulegu lágmarki, og það skiptir máli.

Þegar litið er á málið frá þessu sjónarhorni er auðvelt að gera sér grein fyrir hvers vegna Moody´s og önnur lánsmatsfyrirtæki hafa áhyggur af „Nei“.  Með „Nei“ hverfur ekki höfuðstóllinn en vextir hækka.  Ef við gefum okkur að hinn endanlegi höfuðstóll sé hinn sami hvort sem sagt er „Nei“ eða „Já“ (miðað við óvissuna í dag er þetta skynsamleg ályktun) þá eru yfirgnæfandi líkur á að greiðslubyrði ríkisins verið hærri með „Nei“ en „Já“, vegna hækkandi vaxta. 

Kaldhæðni örlaganna er að ef sagt er „Nei“ verða vextir líklega nær hinum upprunalegum vöxtum upp á 6.7% sem Árni Matt og Baldur Guðlaugsson kvittuðu upp á, á frægu minnisblaði þegar fyrst var ákveðið að ganga til samninga.  Eitt er víst, að ef sagt er „Nei“ verða matsfyrirtækin að setja markaðsvexti á þessa skuldbindingu þar til um annað er samið.  Þar með hækka reiknaðar skuldbindingar ríkisins meir við „Nei“ en „Já“.  Og það er hin væntanlega greiðslugeta ríkisins í framtíðinni sem skiptir máli þegar ákveða á ný lán ekki aðeins fyrir opinbera aðila heldur einnig innlenda aðila sem ekki hafa veðhæfar eignir og starfsemi erlendis.  Áhyggjur Landsvirkjunar af „Nei“ eru því vel skiljanlegar.

Nei, það er engin tilviljun að bæði Moody´s og AGS eru fylgjandi samþykki á Icesave.  Og í raun eru það allir sem láta tölurnar tala.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 4.4.2011 - 10:23 - 21 ummæli

Nei Icesave = Já ESB

Nei við Icesave flýtir fyrir Já við ESB.  Hvers vegna?  Jú, því að með Nei við Icesave mun ekkert gerast, hagvöxtur, atvinnuleysi, höft og laun standa bara í stað.  Það er ekki víst að Bretar og Hollendingar vilji fara í mál, þeir munu einfaldlega segja að „Nei“ sé íslenskt vandamál sem Íslendingar verði að leysa sjálfir.

Ein ástæða þess að ESB og Icesave eiga lítið fylgi nú á Íslandi er að prógram AGS hefur tekist vonum framar.  AGS hefur vafið okkur inn í bómull og verndað okkur frá hinum grimma heimi erlendrar fjáröflunar sem flestar aðrar þjóðir þurfa að glíma við.  Þetta er lúxusástand sem ekki mun vara að eilífu og blikur eru á lofti að hin Norðurlöndin séu ekki öll samstíga í að halda tékkheftinu opnu til Íslands ef Icesave verður fellt.

Nú mun hagkerfi Íslands auðvita ekki hrynja ef Icesave verður fellt, en það mun staðna.  Ef ein af ríkisstjórnum hinna Norðurlandanna fer að draga fæturnar í frekari fjármagnsveitingum til Íslands mun hinn grimmi fjámálamarkaður fylgja eftir.  Aðgengi mun versna og verðið á erlendum lánum mun rjúka upp, þetta byggist jú á framboði og efirspurn.  Öll áhersla hins erlenda markaðar verður að halda hlutunum gangandi hér á landi til að Íslendingar geti haldið áfram að borga af gömlum lánunum, en ný lán til nýrra fjárfestinga verða alfarið á skilmálum erlendra aðila og líklega verða þau aðeins veitt ef AGS heldur sínu eftirlitshlutverki áfram.  Það er jú sú stofnun sem erlendir bankamenn treysta.

Í þessari stöðu er vart hægt að segja að Ísland sé fjárhagslega sjálfstætt.  Land sem þarf á fjárhaldsmanni að halda og verður að reiða sig á velvilja nágranna sinna hefur ekki fullt sjálfstæði.  Þetta skildu forfeður okkar sem börðust fyrir sjálfstæði Íslands á nítjándu öld, þeir vissu að aðeins með efnahagslegu sjálfstæði væri pólitískt sjálfstæði tryggt.  Í dag eru Íslendingar að snúa þessu við, en 19. aldar menn myndu hins vegar snúa sér við í gröfinni yfir vitleysisganginum í afkomendum þeirra.

Nei við Icesave mun setja Ísland á svipaðan kúrs og Nýfundnaland eftir heimskreppuna miklu.  Eftir rúma 14 ára stöðnun þar, var endanlega samþykkt með litum meirihluta að sameinast Kanada.  Unga fólkið var að miklum hluta þá þegar farið þangað.  Þetta var ekki bara efnahagslegt spursmál lengur, helur snérist málið orðið um að „sameina“ fjölskyldur.

Það sem á endanum mun koma Íslendingum inn í ESB er áframhaldandi stöðnun og höft.

Nei, það er ekki bæði haldið og sleppt!

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 29.3.2011 - 16:43 - 17 ummæli

„Fjármál OR í rúst“

Hér er færsla um OR sem ég skrifaði 21. ágúst 2009.

————

Það verðu ekki annað sagt en að fjármál OR séu ein rjúkandi rúst.

Rekstrartekjur fyrri hluta árs námu 11.925 milljónum króna, EBITDA var 5.692 milljónir króna en fjármagnsliðir voru neikvæðir um 14.132 milljónir króna á tímabilinu.  Heildarskuldir fyrirtækisins þann 30. júní 2009 voru 227.094 milljónir kr.

Að fjármagnsliðir séu neikvæðir um hærri upphæð en rekstrartekjur gengur auðvita ekki upp til lengdar.  Á 5% vöxtum er vaxtakostnaður 11.350 m kr. á ári á móti EBITDA af svipaðri upphæð.

Hvernig gat þetta gerst?  Hvernig 7% veiking krónunnar veldur þessu öllu er heldur ekki ljóst!

Það verður ekki annað séð en að OR sé tæknilega gjaldþrota.

———

Ef tekið hefði verið á vandanum strax 2009 í stað þess að koma fram með „barnalegar“ útskýringar á vandamálinu, væri OR kannski í aðeins skárri stöðu og umfram allt, reikningurinn sem nú er á leiðinni til viðskiptavina OR væri lægri.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 28.3.2011 - 11:43 - 36 ummæli

Icesave vinklar

Ég hef ekki bloggað um nokkurt skeið vegna anna.  En nú gefst staður og stund til að hripa niður nokkra punkta um vinkla sem vert er að viðra í þessari dæmalausu Icesave umræðu.

1.  Erlend fjármögnun

Mikið er rætt um hvort niðurstaðan úr Icesave kosningunum muni hafa áhrif á aðgang Íslendinga að erlendum fjármagnsmörkuðum.  Íslenskir stjórnmálamenn og embættismenn hafa fæstir  mikla reynslu af atvinnurekstri og fjármögnun hans.  Slagorð eins og “peningar fara ekki í fýlu” minna margt á umræðuna um bankana fyrir hrun, þeir gátu ekki hrunið en svo hrundu þeir.  Það er hins vegar einn aðili sem þekkir fjármál Íslands vel og nýtur trausts og trúverðugleika á erlendum fjámálamörkuðum.  Aðili sem allir bankamenn hlusta á og taka mark á.  Þessi aðili skrifar sínar skýrslur á ensku og þær eru öllum aðgengilegar.  Þetta er auðvita AGS.  Menn geta haft sínar skoðanir á þessari stofnun, og hún er alls ekki yfir gagnrýni hafin, en þegar kemur að fjármálum ber AGS höfuð og herðar yfir allar íslenskar stofnanir.

Í fjórðu endurskoðun AGS málsgrein 47, er athyglisverð yfirlýsing sem hljóðar svo:

Staff welcomes the agreement on Icesave. The agreement marks a milestone in Iceland’s emergence from crisis. Under the new terms, Iceland’s public finances will remain on a sustainable footing, and public debt should continue to decline rapidly. The agreement should also help unlock remaining program bilateral financing and bolster market confidence in Iceland.”

Síðasta setningin er sérstaklega umhugsunarverð.  Hvað er AGS að segja hér og hvernig túlka erlendir bankar þessa setningu?  Það er líklegt að menn álykti sem svo að það sé a.m.k. ein ríkisstjórn á hinum Norðurlöndunum sem setur samþykki Icesave samningsins sem skilyrði fyrir frekari lánafyrirgreiðslu.  Nú segja menn hér á landi að það skipti ekki máli, því við þurfum ekki á þessum peningum að halda, en þá eru menn að misskilja hlutina.  Það er óvissan sem er mesti óvinur fjámálamarkaðsins.  Á meðan Icesave er óleyst ríkir óvissa bæði um endanlega fjármagnsþörf íslenska ríkisins og aðgang að mörkuðum til að brúa hana.  Afleiðingarnar sjáum við á forsíðu Morgunblaðsins í dag, Reykjanesbær þarf að borga 7% vexti af lánum sem þeir gátu ekki staðið skil á og þurftu að framlengja.  Þetta eru hærri vextir en Írar þurfa að borga en eru á svipuðu róli og vextir í Portúgal svo varla erum við að koma betur út en jaðarlönd evrusvæðisins hvað varðar raunveruleg vaxtakjör.

Ef Icesave verður fellt má búast við að vaxtakrafan á erlend lán (ný, framlengd og endurfjármögnuð) til íslenskra aðila muni hækka enn frekar.  Til að mæta slíkri hækkun þarf að hækka skatta og gjöld (t.d. gjaldskrá OR), skera niður og takmarka launahækkanir (eða flytja úr landi eins og Össur).  Þá þarf að styrkja gjaldeyrisforðann og það verður varla gert nema með enn meiri höftum.  Innflutningshöft munu verða rædd, sérstaklega á lúxusvörur.  En ef það dugar ekki til og höft, skattar og niðurskurður eru orðin of sársaukafull er til leið sem verður næstum ómótstæðileg og það er að “þjóðnýta” erlendar eignir lífeyrissjóðanna.  Ef mönnum finnst hræðsluáróðurinn kominn út í öfgar, bendi ég á að Argentína fór svona leið 2008.  Washington Post lýsti þessu á eftirfarandi hátt:

The proposal by President Cristina Fernández de Kirchner last month to nationalize about $25 billion in private pension funds provoked an outburst of criticism that the government was seizing retirement savings for cash to shore up its finances. But after 12 hours of deliberation Thursday, Fernández de Kirchner’s plan was approved 46 to 18 by senators who argued that the private pension system never served the country well.”

2.  Skuldir einkafyrirtækja

Hornsteinn þeirra sem eru á móti Icesave samningnum er að ríkinu beri ekki að tryggja skuldir einkaaðila.  Flestir geta verið sammála þessari staðhæfingu, en hún á illa við um Icesave og íslensku bankana, sérstaklega í ljósi neyðarlaga Geirs Haarde.

í hruninu tryggði íslenska ríkið innlendar skuldir hinna föllnu einkabanka en ekki erlendar skuldir.  Þetta þótti útlendingum mismunun.  Þeir hefðu getað sætt sig við orðinn hlut aðeins ef ríkið hefði ekki tryggt innlendar skuldir bankanna.

Það má ekki gleymast að sparifé í bönkum er flokkað sem skuldir á efnahagsreikningi þeirra.

Þá segja margir erlendir aðilar að rök Íslendinga, um að Icesave komi ríkinu ekki við, veik.  Bankar í flestum löndum starfa ekki eins og hverjar aðrar einkasjoppur.  Þeir starfa með leyfi og undir eftirliti ríkisins.

Það er sérstaklega athyglisvert að þeir sem berjast harðast á þessum nótum stóðu einmitt í brúnni þegar innlendar skuldir einkabankanna voru ríkistryggðar.  Þetta myndi nú einhverntíma hafa vera kallað: tvískinnungur.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 1.1.2011 - 11:53 - 16 ummæli

2011: Íbúðaverð hækkar

Búast má við að verð á 60-120 fm íbúðum á höfuðborgarsvæðinu þar sem almenningssamgöngur eru góðar muni hækka talsvert á næstu árum.  Minni kaupmáttur og gjaldeyrishöftin munu sjá til þess, hversu öfugsnúið sem það hljómar.

Vegna gjaldeyrishaftanna og skuldavanda atvinnulífsins eru ríkistryggð bréf í raun eini fjárfestingarkosturinn hér á landi.  Ávöxtunarkrafan er þegar komin langt undir áhættumetna vexti miðað við lánshæfni ríkisins.  Það ríkir eins konar einokunarástand á fjárfestingamarkaði og þar með getur ríkið og bankarnir fjármagnað sig á innlendum markaði  á kostakjörum.  Þetta gerir fjármögnunarkostnað þessara aðila mun lægri en ella og hjálpar við að ráðast á ríkishallann.  Þetta er önnur ástæða þess að höftin verða hér svo lengi sem krónan er okkar gjaldmiðill.

Smátt og smátt mun þetta lága vaxtastig síast út í hagkerfið og íbúðalánavextir munu fyrr en seinna lækka.  Þar með mun fólk ráða við hærri lán sem fer beint út í íbúðaverðið enda verða þar margir um hituna, ekki aðeins unga fólkið sem er að kaupa sína fyrstu íbúð heldur hópur fjárfesta sem er að leita sér að betri ávöxtun.

Hættan er að þetta „falska“ vaxtastig og höftin muni leiða til til þess að það verði mun erfiðara fyrir næstu kynslóð að eignast sína fyrstu íbúð.  Fjárfestar munu sprengja verðið upp, enda munu þeir hafa aðgang að ódýrari fjármagni en almennir launamenn vegna betri trygginga og sterkari fjárhagsstöðu.  Þá munu þeir reikna út arðsemiskröfu á leigu út frá vaxtakröfu á ríkisskuldabréf sem er óeðlilega lág sem aftur leiðir til óeðlilega hás fasteignaverðs.  Eins og fasteignaverð hækkaði þegar erlendu lánin flæddu inn þannig mun fasteignaverð hækka þegar sparifjáreigendur verða látinir niðurgreiða krónuvexti í skjóli hafta.  Aðalmunurinn er að hækkunin verður staðbundnari og takmörkuð við minnstu og auðseljanlegustu eignirnar.  Stærri, dýrari og illa staðsettar eignir munu halda áfram að lækka.

Sem sagt, unga fólkið þarf líklega að leigja lengur en annars væri og borga háa leigu þrátt fyrir lækkandi vaxtastig vegna þess að það er að borga fyrir hækkandi eiginfjárhlutfall þeirra sem eiga fjármagnið og eiga ekki annarra kosta völ en að setja sína peninga í raunverulegar eignir – steypu og stál.

2011 verður rétta árið til að kaupa litlar og vel staðsettar íbúðir.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 30.12.2010 - 10:48 - 13 ummæli

Neysla leyfð – sparnaður bannaður!

Það eru ekki miklar umræður á Íslandi um sparnað einstaklinga enda snýst allt um skuldir og afskriftir.  Það vill oft gleymast að krónan með sínum höftum mun verða næstu kynslóð ótrúlega dýr þegar kemur að sparnaði, sérstaklega lífeyrissparnaði.  Íslendingar hafa ekki sömu möguleika að dreifa áhættu og leita betri ávöxtunar, og þjóðir sem búa við alvöru gjaldmiðla.  Þó ástandið sé ekki beysið á Írlandi, sem virðist orðið samnefnari fyrir lönd í nýrri heimssýn Íslendinga, þurfa Írar ekki að setja sinn sparnað í evrur.  Þeir hafa val.  Þeir geta farið með sinn sparnað til Asíu, Brasilíu eða Svíþjóðar þar sem hagvöxtur og hagstjórn er með ágætum.

Launþegar í evrulöndunum þar sem hagstjórn hefur brugðist þurfa nefnilega ekki að hafa öll eggin í sömu körfunni.  Þeir geta farið með sinn sparnað út fyrir sitt hagkerfi og þannig tryggt sér að innanlandsvandamál brenni ekki upp sparifé þeirra.  Nei, hvað sem menn segja, þá er evran alvöru gjaldmiðill ólíkt krónunni.

Goldman Sachs spáir að hlutabréfavísitölur í bestu hagkerfum heims muni hækka um tæp 30% 2011.  Þetta er ofaná þá gríðarlegu hækkun sem hefur orðið á hutabréfavísitölum á þessu ári.  Allir helstu markaðir eru núna hærri en fyrir hrun.  Þótt fleiri bankar hafi hrunið í Bandaríkjunum en á Íslandi hafa bandarískar hlutabréfavísitölur náð sér á strik ólíkt þeirri íslensku, sem einfaldlega gufaði upp – stærð skiptir máli, sérstaklega þegar kemur að fjárfestingum.

Ef verðbólga verður hér um 2% í náinni framtíð geta menn varla búist við meiri nafnávöxtun á sitt sparifé en um 4-5% í þröngu og einsleitu eignasafni.  Munurinn á ávöxtunarmöguleikum á Íslandi og erlendis er því alltaf að aukast, sem mun gera það ómögulegt að aflétta gjaldeyrishöftunum, þau verða hér ásamt verðtryggingu næstu áratugina, enda litlar líkur á að ESB aðild verði samþykkt.

Fyrir metnaðarfulla unga einstaklinga sem vilja byggja upp góðan lífeyrissparnað næstu 20-30 árin og tryggja sér áhyggjulaust ævikvöld, er um að gera að koma sér út úr íslensku haftasvæði, og það sem fyrst.

Að leyfa óhefta erlenda neyslu en banna allan erlendan sparnað er ekki heilbrigður grunnur undir efnahagsstefnu Íslands og er einhver versta fjármálaarfleifð sem foreldrar geta fært börnum sínum.

—–

Gleðilegt ár.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 28.12.2010 - 08:16 - 16 ummæli

Krónan og hagvöxtur 2011

Það er athyglisvert að lesa hagvaxtaspá bandaríska fjárfestingabankans, Goldman Sachs, sem birtist nýlega.  Þar er spáð hagvexti í heiminum á næsta ári upp á 4.6%.  Mest af þessum hagvexti mun koma frá Asíu, Rússlandi og Suður-Ameríku, en í flestum þróuðum hagkerfum er spáð hagvexti yfir 2%, með fáeinum undantekningum.  Þar er auðvita að finna Japan og jaðarsvæði Evrópu sem ekki geta leiðrétt mistök í hagstjórn með gengisfellingum vegna evrunnar.  Stóru hagkerfin í Evrópu, Þýskaland, Bretland og Frakkland munu öll standa sig vel með vöx um og yfir 2.5%. 

En hvað með Ísland sem hefur sveigjanlegan gjaldmiðil sem hefur verið gengisfelldur svo um munar til að „leiðrétta“ samkeppnisstöðu þjóðarbúsins?  Við teljum okkur, jú, standa mun betur en jaðarríki evrulandanna, enda felldum við gengið, settum á höft, felldum bankana og réðumst á ríkishallann – allt eftir formúlu mikilla hagfræðispekinga?  Hvers vegna er þá ekki bullandi hagvöxtur hér?  Af hverju er hagkerfið að dragast saman 2010 og aðeins er spáð 1.9% hagvexti 2011 sem sumir telja bjartsýnisspá enda byggð á uppgangi í einkaneyslu?  Af hverju er Ísland enn í hópi þeirra landa þar sem hagvöxtur er hvað hægastur eftir rúm 2 ár frá risagengisfellingu?  Nei, það er ekki nóg að róma hina sveigjanlegu krónu, við megum ekki gleyma skuggahlið krónunnar sem viðheldur fölskum raunveruleika.  En gjaldmiðilinn er aðeins nauðsynlegt tól, án öflugs skipstjóra sem fylgir skynsamlegri og vel markaðri stefnu mun okkur miða hægt áfram eins og tölurnar sýna.

En aftur að skýrslu Goldman Sachs.  Þar er spáð að olíuverð hækki um 20% 2011 en á móti komi að dollarinn lækki um 13% gagnvart evrunni.  Það má búast við töluverðri hækkun á hrávörum 2011 mælt í dollurum.  En hvernig mun Seðlabankinn „stýra“ genginu 2011.  Ætlar bankinn að fylgja óformlegu evru-viðmiði í kringum 15o krónur evran eða á að tengja krónuna við breiðari myntkörfu?  Getur íslenska hagkerfið tekið á sig yfir 10% lækkun á gengi dollarans niður í 100 krónur?  Hvað ef krónan fylgir dollarnum 2011 og evran hækkar upp í 170 krónur evran?  Hvernig mun þá fara með verðbólgumarkmið bankans?  20% hækkun á bensíni og öðrum hrávörum mun skila sér strax inn í verðlag hér?  Nei, það verður ekki auðvelt að handstýra hagkerfinu 2011 svo vel eigi að fara.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 24.12.2010 - 08:18 - 1 ummæli

Gleðileg jól

Ég óska lesendum gleðilegra jóla og farsæls komandi árs.  Kærar þakkir fyrir góðar athugasemdir og umræður á árinu sem er að líða.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur