Ég hef ekki bloggað um nokkurt skeið vegna anna. En nú gefst staður og stund til að hripa niður nokkra punkta um vinkla sem vert er að viðra í þessari dæmalausu Icesave umræðu.
1. Erlend fjármögnun
Mikið er rætt um hvort niðurstaðan úr Icesave kosningunum muni hafa áhrif á aðgang Íslendinga að erlendum fjármagnsmörkuðum. Íslenskir stjórnmálamenn og embættismenn hafa fæstir mikla reynslu af atvinnurekstri og fjármögnun hans. Slagorð eins og “peningar fara ekki í fýlu” minna margt á umræðuna um bankana fyrir hrun, þeir gátu ekki hrunið en svo hrundu þeir. Það er hins vegar einn aðili sem þekkir fjármál Íslands vel og nýtur trausts og trúverðugleika á erlendum fjámálamörkuðum. Aðili sem allir bankamenn hlusta á og taka mark á. Þessi aðili skrifar sínar skýrslur á ensku og þær eru öllum aðgengilegar. Þetta er auðvita AGS. Menn geta haft sínar skoðanir á þessari stofnun, og hún er alls ekki yfir gagnrýni hafin, en þegar kemur að fjármálum ber AGS höfuð og herðar yfir allar íslenskar stofnanir.
Í fjórðu endurskoðun AGS málsgrein 47, er athyglisverð yfirlýsing sem hljóðar svo:
“Staff welcomes the agreement on Icesave. The agreement marks a milestone in Iceland’s emergence from crisis. Under the new terms, Iceland’s public finances will remain on a sustainable footing, and public debt should continue to decline rapidly. The agreement should also help unlock remaining program bilateral financing and bolster market confidence in Iceland.”
Síðasta setningin er sérstaklega umhugsunarverð. Hvað er AGS að segja hér og hvernig túlka erlendir bankar þessa setningu? Það er líklegt að menn álykti sem svo að það sé a.m.k. ein ríkisstjórn á hinum Norðurlöndunum sem setur samþykki Icesave samningsins sem skilyrði fyrir frekari lánafyrirgreiðslu. Nú segja menn hér á landi að það skipti ekki máli, því við þurfum ekki á þessum peningum að halda, en þá eru menn að misskilja hlutina. Það er óvissan sem er mesti óvinur fjámálamarkaðsins. Á meðan Icesave er óleyst ríkir óvissa bæði um endanlega fjármagnsþörf íslenska ríkisins og aðgang að mörkuðum til að brúa hana. Afleiðingarnar sjáum við á forsíðu Morgunblaðsins í dag, Reykjanesbær þarf að borga 7% vexti af lánum sem þeir gátu ekki staðið skil á og þurftu að framlengja. Þetta eru hærri vextir en Írar þurfa að borga en eru á svipuðu róli og vextir í Portúgal svo varla erum við að koma betur út en jaðarlönd evrusvæðisins hvað varðar raunveruleg vaxtakjör.
Ef Icesave verður fellt má búast við að vaxtakrafan á erlend lán (ný, framlengd og endurfjármögnuð) til íslenskra aðila muni hækka enn frekar. Til að mæta slíkri hækkun þarf að hækka skatta og gjöld (t.d. gjaldskrá OR), skera niður og takmarka launahækkanir (eða flytja úr landi eins og Össur). Þá þarf að styrkja gjaldeyrisforðann og það verður varla gert nema með enn meiri höftum. Innflutningshöft munu verða rædd, sérstaklega á lúxusvörur. En ef það dugar ekki til og höft, skattar og niðurskurður eru orðin of sársaukafull er til leið sem verður næstum ómótstæðileg og það er að “þjóðnýta” erlendar eignir lífeyrissjóðanna. Ef mönnum finnst hræðsluáróðurinn kominn út í öfgar, bendi ég á að Argentína fór svona leið 2008. Washington Post lýsti þessu á eftirfarandi hátt:
“The proposal by President Cristina Fernández de Kirchner last month to nationalize about $25 billion in private pension funds provoked an outburst of criticism that the government was seizing retirement savings for cash to shore up its finances. But after 12 hours of deliberation Thursday, Fernández de Kirchner’s plan was approved 46 to 18 by senators who argued that the private pension system never served the country well.”
2. Skuldir einkafyrirtækja
Hornsteinn þeirra sem eru á móti Icesave samningnum er að ríkinu beri ekki að tryggja skuldir einkaaðila. Flestir geta verið sammála þessari staðhæfingu, en hún á illa við um Icesave og íslensku bankana, sérstaklega í ljósi neyðarlaga Geirs Haarde.
í hruninu tryggði íslenska ríkið innlendar skuldir hinna föllnu einkabanka en ekki erlendar skuldir. Þetta þótti útlendingum mismunun. Þeir hefðu getað sætt sig við orðinn hlut aðeins ef ríkið hefði ekki tryggt innlendar skuldir bankanna.
Það má ekki gleymast að sparifé í bönkum er flokkað sem skuldir á efnahagsreikningi þeirra.
Þá segja margir erlendir aðilar að rök Íslendinga, um að Icesave komi ríkinu ekki við, veik. Bankar í flestum löndum starfa ekki eins og hverjar aðrar einkasjoppur. Þeir starfa með leyfi og undir eftirliti ríkisins.
Það er sérstaklega athyglisvert að þeir sem berjast harðast á þessum nótum stóðu einmitt í brúnni þegar innlendar skuldir einkabankanna voru ríkistryggðar. Þetta myndi nú einhverntíma hafa vera kallað: tvískinnungur.