Það er athyglisvert að bera saman nýleg skuldabréfaútboð Íbúðarlánasjóðs og OR. Vegnir vextir hjá ÍLS voru 3.60% en OR birtir vaxtakjör upp á 4.65% verðtryggt (nú er þetta ekki alveg sambærilegt þar sem ég hef ekki ítarlegar upplýsingar úr uppboðunum). Ávöxtunarkrafa fjárfesta er líklega um 100 punktum hærri hjá OR en ÍLS? Það er erfitt að rökstyðja þennan mun með skárri fjárhagsstöðu ÍLS, bæði fyrirtækin eru í miklum fjárhagslegum vanda og glíma við hátt skuldahlutfall og lágt eigið fé.
Munurinn liggur í lánshæfismatinu. Þó munurinn hjá Moody´s sé aðeins einn flokkur er hér um reginmun að ræða. ÍLS nýtur ríkisábyrgðar og fylgir því ríkinu og er í lægsta fjárfestingarflokki. OR, hins vegar, er í hæsta ruslaflokki þar sem Moody´s telur vafa leika á að borgin (eða ríkið) geti komið OR til bjargar ef allt færi á versta veg, enda nýtur OR ekki formlegrar ríkisábyrgðar.
Spurningin fyrir fjárfesta er hins vegar, getur ríkið komið ÍLS til hjálpar ef allt færi á versta veg? Er ekki líklegt að fjárfestar hjá ÍLS verði að sætta sig við „hárklippingu“ á skuldabréfum? Líkurnar hafa minnkað, sérstaklega eftir afgreiðslu fjárlaga, að það sé traustur þingmeirihluti fyrir meiri niðurskurði eða skattahækkunum til að bjarga fjárfestum ÍLS.
Það er því margt sem bendir til að lánshæfismat ÍLS sé ofmetið og ætti að vera í flokki með OR. Þar með myndu húsnæðisvextir hækka upp í 6% miðað við núverandi vaxtaálag hjá ÍLS.