Föstudagur 17.12.2010 - 11:16 - 3 ummæli

Húsnæðisvextir upp í 6%?

Það er athyglisvert að bera saman nýleg skuldabréfaútboð Íbúðarlánasjóðs og OR.  Vegnir vextir hjá ÍLS voru 3.60% en OR birtir vaxtakjör upp á 4.65% verðtryggt (nú er þetta ekki alveg sambærilegt þar sem ég hef ekki ítarlegar upplýsingar úr uppboðunum).  Ávöxtunarkrafa fjárfesta er líklega um 100 punktum hærri hjá OR en ÍLS?    Það er erfitt að rökstyðja þennan mun með skárri fjárhagsstöðu ÍLS, bæði fyrirtækin eru í miklum fjárhagslegum vanda og glíma við hátt skuldahlutfall og lágt eigið fé.

Munurinn liggur í lánshæfismatinu.  Þó munurinn hjá Moody´s sé aðeins einn flokkur er hér um reginmun að ræða.  ÍLS nýtur ríkisábyrgðar og fylgir því ríkinu og er í lægsta fjárfestingarflokki.  OR, hins vegar, er í hæsta ruslaflokki þar sem Moody´s telur vafa leika á að borgin (eða ríkið)  geti komið OR til bjargar ef allt færi á versta veg, enda nýtur OR ekki formlegrar ríkisábyrgðar.

Spurningin fyrir fjárfesta er hins vegar, getur ríkið komið ÍLS til hjálpar ef allt færi á versta veg?  Er ekki líklegt að fjárfestar hjá ÍLS verði að sætta sig við „hárklippingu“ á skuldabréfum?  Líkurnar hafa minnkað, sérstaklega eftir afgreiðslu fjárlaga, að það sé traustur þingmeirihluti fyrir meiri niðurskurði eða skattahækkunum til að bjarga fjárfestum ÍLS.

Það er því margt sem bendir til að lánshæfismat ÍLS sé ofmetið og ætti að vera í flokki með OR.  Þar með myndu húsnæðisvextir hækka upp í 6%  miðað við núverandi vaxtaálag hjá ÍLS.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 7.12.2010 - 10:14 - 12 ummæli

Wolfgang Schäuble

Það eru víst ekki margir sem kannast við Wolfgang Schäuble á Íslandi, en hann er líklega einn valdamesti maður í Evrópu í dag.  Wolfgang er fjármálaráðherra Þýskalands og var nýlega kosinn áhrifamesti fjármálaráðherra Evrópu, af breska dagblaðinu Financial Times.

Þýskaland stendur enn aftur á hátindi efnahagsstjórnunar í Evrópu, landsframleiðsla mun aukast um 4% á þessu ári sem er bestir árangur þar í tvo áratugi og atvinnuleysi er á hraðri niðurleið og er um 7%.  Áhrfi Þjóðverja í Evrópu hafa aldrei verið jafn mikil og nú, síðan í seinni heimsstyrjöldinni.  En í þetta sinn er það ekki herstyrkur sem Þjóðverjar byggja á heldur yfirburðir í hagstjórn.  Hinn prússneski stjórnunarstíll sem Friðrik hinn mikli og faðir hans innleiddu í prússneska herinn og er í dag notaður af Nato, á við á fleiri stöðum en í hernaði.  Þjóðverjar hafa sýnt að hinn prússneski agi og stíll hentar vel í hagstjórn, en af einhverjum ástæðum hafa þjóðir verið mun tregari að nota reynslu þjóðverja í hagstjórn en í hernaði.

Nú er það þekkt lögmál að efnahagslegum yfirburðum fylgja pólískir yfirburðir.  Evran hefur fært Þjóðverjum efnahagsleg völd og þar með pólitísk áhrif.  Framtíð ESB og evrunnar er nú í höndum Þjóðverja.  En hvernig sjá Þjóðverjar framtíðina í Evrópu?  Það er ekki gott að segja en í viðtali við FT segir Wolfgang, hinn  reyndi og valdamikli fjármálaráðherra:

„for Germans it is relatively easy to understand that national sovereignty alone is not the instrument for the 21st century.  It is more difficult for other countries.“

Já, og líklega hvergi erfiðara en á litla og einangraða Íslandi.

Spurningin er, hvar og hvernig ætlar Ísland að stilla sér upp í nýrri 21. aldar Evrópuskipan?

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 5.12.2010 - 08:38 - 20 ummæli

Verður Bjarni guðfaðir Icesave?

Eftir rúm tvö ár er Icesave enn að þvælast fyrir mönnum og enn hefur ekki tekist að koma málinu í höfn.  Ríkisstjórnin vill semja, stjórnarandstaðan vill málið fyrir dóm, Forsetinn vill nýja þjóðaratkvæðisgreiðslu en almenningur vill ekki sjá Icesave.  Sem sagt, algjör pattstaða eftir tvö ár.

Icesave er milliríkjadeila þannig að einhliða ákvarðanir Íslendinga duga ekki.  Mótaðilinn ætlar ekki að gefa þetta mál eftir.  Þeir hafa leyft Íslendingum að hafa frumkvæðið í tvö ár, látið Íslendinga spila sóknarleik, en brátt verður boltinn tekinn af Íslendingum og þeir þvingaðir í varnarleik.  Halda menn að við höfum meiri möguleika að skora í vörn en í sókn?

Hinn nýji Icesave samningur stendur og veltur á afstöðu Sjálfstæðismanna, aðeins með breiðri samstöðu innan þingsins verður þessu máli komið í farsæla höfn.  Þetta er eldskírn Bjarna.   Getur hann stýrt flokknum að ákvörðun þvert á vilja Davíðs?  Eða ætlar hann að verða eins og Ian Duncan Smith fyrrum formaður Íhaldsmanna á Bretlandi sem aldrei tókst að koma sér undan skugga Margrétar Thatchers og varð á endanum að segja af sér?

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 4.12.2010 - 16:00 - 26 ummæli

Yfirveðsett en hvers vegna?

Nú hefur ríkisstjórnin farið 110% leið bankanna, þar sem höfuðstóll húsnæðislána verður færður niður að 110% af verðmati eigna.  Þetta er að mörgu leyti skynsamleg leið svo fremi sem húsnæðismarkaðurinn er virkur.

En hér á landi er í raun enginn virkur markaður með húseignir.  Fáar eignir fara kaupum og sölum í beinhörðum peningum.   Þetta skapar ákveðið vandamál og er líklegt til að færa verðmæti til þeirra sem hafa byggt sem stærst og skuldsett sig sem mest, og ekki í fyrsta skiptið í Íslandssögunni.  Tökum dæmi úr fasteingaskrá.

Nýlegt 230 fm hús á höfuðborgarsvæðinu er metið á kr. 47.2m samkvæmt fasteignamati sem á að endurspegla markaðsvirði.  Það er erfitt að segja til um hvort einhver sé tilbúinn að staðgreiða svona hús fyrir þá upphæð.  Ef svarið er nei, þá er verðið of hátt.  En hvað með byggingarkostnaðinn?  Brunabótamat á þessu húsi er kr. 59.3 m og lóðarmat 8.5m, þannig að ef einhver ætlaði að byggja svona hús í dag yrði kostnaðurinn aldrei undir kr. 70m þegar fjármagnskostnaður á byggingarstigi er reiknaður með.

Ef eigandinn fær lán sitt niðurfellt í 52 m kr er fasteignin yfirveðsett miðað við fasteignamat (110%) en ekki miðað við byggingarkostnað (74%).  Með öðrum orðum, það væri ekki hægt að byggja svona hús nema að taka lán sem er næstum 50% hærra en markaðsvirði.  Það skyldi engann undra að eigið fé í íslenskum fasteignum sé lítið.

Ég veit ekki hvort tölur liggja frami um hversu margar fasteignir á landinu eru metnar undir byggingarkostnaði, það væri athyglisvert að vita.   Þetta er ekkert nýtt hér á landi, um 1990 var markaðsvirði á fasteignum yfirleitt langt undir byggingarkostnaði.  Úti á landsbyggðinni er þetta frekar regla en undantekning.  Aðeins minnstu íbúðirnar standa undir byggingarkostnaði.

Flestir sem byggja ný hús hér á landi eða gera upp gömul hús vita að þeir fá sjaldan það sem þeir leggja í húsin tilbaka.  Það er landlægt að menn byggi um efni fram og taki lán umfram markaðsvirði.  Að þessu leyti er íslenskur fasteignamarkður með nokkar sérstöðu.

Þessi íslenski byggingarháttur að eyða meir í hús en aðrir eru tilbúnir að borga fyrir magnar upp skuldavandann í dag og gerir úrlaunsnarverkefnið svo erfitt.

Það að byggja hús sem eru dýrari en markaðsvirði er lúxus sem ekkert land hefur efni á til lengdar.  Þetta er afleiðing frá verðbólgutímanu áður en verðtrygging var sett á.  Þetta gengur ekki upp nú frekar en þá, það þarf alltaf einhver að borga brúsann.

Næsta kynslóð verður að sætta sig við minna og látlausara húsnæði.  Flottræfilsháttur Íslendinga í húsnæðisbyggingum er kominn á endastöð.

———–

Heimild: Fasteignamat 2011

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 2.12.2010 - 09:53 - 14 ummæli

Einkavæðing að hætti Íslendinga

Sjalda hefur einni þjóð tekist að umbreyta stórkostlegum forfeðra arfi í eina allsherjar skuldasúpu sem síðan á að afhenda næstu kynslóð á uppdekkuðu silfurfati án skýringa.  Hér er Ísland í sérflokki eins og í svo mörgu öðru.

Íslensk einkavæðing er víti til varnaðar.  Hún mun skipa sér sess í sögubókunum og í fjármálafræðum sem dæmi um hvernig einkavæðing getur orðið að martröð.

En svona hefði ekki þurf að fara ef aðeins Íslendingar hefðu lært af reynslu annarra þjóða.  En einhvern veginn er þeim það ómögulegt.  Hitt er enn furðulegra að eftir aðra eins hörmung og íslensku einkavæðinguna, þá virðist lítil stemning fyrir að rannsaka hvað fór úrskeiðis og læra af mistökunum.

Það er bráðnauðsynlegt að læra af eigin mistökum og reynslu annarra til að fyrirbyggja að annað eins geti gerst aftur nú þegar stærsta fyrirtækjaútsala sem um getur, miðað við höfðatölu, byrjar í boði bankanna og ríkisins.

Það sem skiptir máli er ekki að það fáist „hæsta verðið“ í einhverju uppboði heldur að það veljist hæfasta fólkið sem fer með þessar eignir á ábyrgan og faglegan hátt.  Þá á ríkið að halda eftir einu hlutabréfi, svo kölluðu „golden share“ sem gefur því einn stjórnarmann og neytunarvald í öllum stærstu málum er varðar skuldsetningu, arðgreiðslu og yfirtökur.  Þetta á að gilda fyrir öll stærstu fyrirtæki sem seld verða og getur t.d. Bankasýslan farið með umboð ríkisins í þessum málum.  Þetta er leið sem Bretar fóru og reyndist vel, enda er þá betur tryggt að langtímahagsmunum skattgreiðenda sé borgið og að þeir fái ekki fyrirtækin aftur i fangið.   Þetta kerfi getur gilt í 5 ár eða þangað til nýir eigendur hafa sýnt fram á að þeir séu traustsins verðir.

Þessa leið á að fara þegar Sjóvá verður seld, enda eru gríðarlegir hagsmunir skattgreiðenda þar í húfi.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 1.12.2010 - 11:11 - 8 ummæli

Litlir hagræðingarmöguleikar í heilbrigðismálum

Skýrsla OECD um heilbrigðismál er athyglisverð.  Þar segir að íslenska kerfið sé vel rekið og að Íslendingar fái einna mest út úr sínu kerfi miðað við útgjöld.  Þetta eru góðar og slæmar fréttir.  Þær þýða að hér eru litlir auka hagræðingarmöguleikar í heilbrigðismálum, allur frekari niðurskurður verður að koma í formi minni og óöruggari þjónustu við sjúklinga.

Hins vegar er engin skýrsla til um svipaða stöðu í menntamálum, þar eru yfirgnæfandi líkur á miklum hagræðingarmöguleikum enda eyðum við allrar þjóða mest innan OECD í menntamál sem hlutfall af landsframleiðslu.

Það skýtur því ansi skökku við að mestur þungi í niðurskurði ríkisstjórnarinnar sé í heilbrigðismálum.  Sá niðurskurður sem dregið hefur verið í land með þar, má örugglega sækja að hluta til með meiri hagræðingu í menntamálum.

Betur má ef duga skal, og eins og svo oft áður þarf erlendar stofnanir til að benda á hið augljósa!

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 30.11.2010 - 10:43 - 8 ummæli

Um áratugamót

Þá er aðeins einn mánuður eftir af fyrsta áratug nýrrar aldar sem hefur einkennst af öfgafullum sveiflum og agaleysi.  Vonandi verður hann sá versti á öldinni.

Næsti áratugur verður áratugur uppgjörs og stefnumörkunar.  Þá verður þjóðin að svara aðkallandi spurningum um framtíðina og setja kúrsinn á eitthvað haldbærara markmið en ófarir annarra.

Meðal þess sem þarf að taka afstöðu til er:

  1. Hverjir eru framtíðaratvinnuvegir þjóðarinnar?
  2. Hvaða gjaldmiðil ætlum við að nota?
  3. Hvers konar velferðarkerfi höfum við efni á?
  4. Hvernig ætlum við að fjármagna sjoppuna Ísland?
  5. Hvernig viljum við að landinu sé stjórnað og af hverjum?
  6. Hvar ætlum við að skipa okkur í alþjóðasamfélaginu?
  7. Hvaða markmið viljum við setja m.t.t. efnahagslegra gæða og hagvaxtar?

Þegar við höfum markað okkur skýra framtíðarsýn er miklu auðveldara að taka á spurningunni hvort ESB aðild muni verða hjálp eða hindrun?  Það er mun skynsamlegra að líta á ESB aðild og evruna sem tól og tæki sem getur fært okkur að settu markmiði, en ekki öfugt.

Ekkert tæki eða tól á síðustu 100 árum hefur fært Þjóðverjum meiri völd í Evrópu en evran. Þýskaland í dag er meira efnahagslegt veldi og með meiri áhrif um alla Evrópu í krafti evrunnar en þýska marksins.  Hún er auðvita vandmeðfarin eins og dæmin í Grikklandi og Írlandi sýna.  En röksemdafærslan má ekki vera á þann veginn að við séum meiri skussar en Írar og Grikkir og því sé evran engin „töfralausn“ hér.  Við megum ekki afskrifa evruna af því að við viljum halda í skussana!  Við verðum að hafa aðeins meiri trú á okkur en svo.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 24.11.2010 - 13:48 - 36 ummæli

„Schadenfreude“

Vandræði annarra er himnasending til þeirra sem eru með allt niðri um sig, og ekkert er betra en þeir sem lenda í meiri vandræðum en maður sjálfur.  Í stað þess að sýna samúð og samstöðu með nágrönnum okkar, Írum, virðast þeir sem stóðu vaktin hér á landi í hruninu byrjaðir að notfæra sér ófarir Íra sem staðfestingu á því að þeir hafi tekið „réttar“ ákvarðanir 2008.  Brátt má búast við að áróðursherferð fari af stað til að sverta Rannsóknarskýrslu Alþingis.  Jafnvel krónu-Forsetinn er farinn að notfæra sér ófarir Íra, á erlendri grund, til að grafa undan sínum eigin utanríkisráðherra.  Þetta er allt staðfesting á því að Ísland hagar sér ekki eins og aðrar nágrannaþjóðir.

Munurinn á Íslandi og Írlandi er að Írar hafa reynt eins og þeir geta, að fylgja öllum reglum og lögum.  Þeir völdu aðra leið en Ísland vegna þess að þeir höfðu val og stjórn á eigin málum og hafa alltaf ræktað góð samskipti við sína nágranna.  Ísland hafið ekki þetta val, hafði ekki stjórn á hlutunum, það voru utanaðkomandi aðilar sem hreinlega blöskraði ástandið hér, og tóku til örþrifaráða og þvinguðu Ísland í „gjaldþrotameðferð“ undir umsjón AGS.

Ef leið Íra er sönnun þess að Ísland hafi „valið rétt“ (aðrir völdu en Íslendingar, en látum það liggja á milli hluta) þá má halda fram með sömu rökum að Gordon Brown hafi verið mesti bjargvættur Íslands, og að hryðjuverkalögin sem felldu Kaupþing hafi, eftir allt, verið blessun!  Má þá ekki búast við að Íbúðarlánasjóður verði næstur í röðinni og þurfa kröfuhafar þar ekki að fara að undirbúa sig undir „hárklippingu“ eins og það heitir á erlendu fjármálamáli? 

Svona andlitslyfting og Þórðargleði er stórhættuleg og getur skaðað orðspor landsins og gert framtíðarfjármögnun mjög erfiða.

En aftur að Írum.  Auðvita eru þeir í gríðarlegum vanda en þeir munu ekki fara íslensku leiðina þar sem kröfuhafar voru afgreiddir með neyðarlögum, seðlabankinn var settur á hausinn ásamt öllum helstu viðskiptabönkum og allar erlendar fjármálabrýr við næstu nágranna voru brenndar í einhverju Icesave æði .  Nei, þetta er ekki rétta leiðin til að ná fram skuldaleiðréttingu.  Írar munu líklega þurfa að fá sínar skuldir leiðréttar en þeir munu gera það með samningum við kröfuhafa og sína nágranna.  Þeir láta ekki taka af sér völdin á jafn auðmýkjandi hátt og Ísland þurfi að upplifa 2008.

Það er lítilmannlegt af Íslendingum að rétta ekki Írum hjálparhönd, þó að hún væri ekki nema táknræn.  Það er ekki upphæðin sem skiptir máli heldur hugarfarið.  Eru menn búnir að gleyma aðstoð Færeyinga til Íslands?

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 22.11.2010 - 17:11 - 10 ummæli

Skussaevra

Nú er farið að tala um að evran verði að klofna í tvennt, miðevra fyrir úrvalsdeild ríkja í mið og norður Evrópu og svo jaðarevra eða skussaevra fyrir ríkin í suðri og vestri.

Skussaevran mun verða hönnuð fyrir ríki sem kenna öllum öðrum en sjálfum sér um sínar efnahagslegu ófarir.  Þetta eru lönd sem ekki hafa aga eða kúltúr til að fylja fyrsta flokks hagstjórn.  Lönd þar sem pólitísk spilling grasserar, klíkuskapur og fyrirgreiðsla ræður ríkjum,  ásamt almennu þekkingarleysi á hagstjórn og fjármálum.  Sem sagt klúbbur sem Ísland smellpassar inn í.

Hér virðist því í uppsiglingu myntkerfi sem íslenska þjóðin ætti að geta sameinast um.  Engin hætta á að þurfa að halda í þýska eða norræna efnahagsstaðla.  Reglulegar gengisfellingar og engin verðtrygging, sem sagt gamla góða kerfið sem margir muna eftir frá 8. áratuginum en nú með alþjóðlegum gæðastimpli!

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 21.11.2010 - 22:48 - 8 ummæli

Úrvalsdeild Evrópu

Í úrvalsdeild ESB eru Finnland, Svíþjóð, Danmörk, Þýskaland, Holland og Austurríki.  Svo segir í Sunday Times í dag og er fólki ráðlagt að halda sér við þessi lönd þegar kemur að fjárfestingum.  Svo kemur annar og þriðji flokkur og restina rekur Grikkland sem er í ruslaflokki.

Þá er athyglisverð umræða um evruna í sama blaði.  Talið er líklegt að hún liðist í tvenn, sterk evra fyrir mið og norður Evrópu en veik evra fyrir suður og vestur Evrópu.

Eða eins og breskur blaðamaður benti á einu sinni:  öll efnahagslega sterku ESB löndin eru yfirgnæfandi mótmælendatrúar og vantreysta miðstýrðu valdi.

Það er oft hægt að benda á undarleg tengsl á milli efnahagslegrar velgengni og trúarbragða sem margir afgreiða sem tilviljanir.  En eru þetta tilviljanir?   Eitt er víst, Ísland er eins og venjulega, undantekningin sem sannar regluna, eða hvað?

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur