Tveimur árum eftir bankahrunið stefnir í hrun heilbrigðisþjónustunnar á landsbyggðinni. Reynsla annarra þjóða sýnir að heilbrigðisstofnanir þola ekki 20% niðurskurð, þjónustan einfaldlega hrynur.
Það er engin tilviljun að Bretar ætla ekki að skera niður í heilbrigðisþjónustu hjá sér í þessari kreppu, allt annað verður skorið niður meira. Þeir vita af bitri reynslu að flatur niðurskurður upp á 10% er „lífshættulegur“ í heilbrigðisgeiranum, eins og gerðist um 1990 þegar stjórn íhaldsflokksins skar niður, og það tók stjórn verkamannaflokksins 10 ár að byggja kerfið aftur upp, 1 ár fyrir hvert 1% í niðurskurði! Þetta lærðu menn þá og eru vitrari í dag.
Því miður þrjóskast Íslendingar við að læra af reynslu annarra þjóða, óvitarnir við Austurvöll og á Arnarhvoli vita allt best!
20% niðurskurður sem er boðaður úti á landi og í engu samráði við Landspítalann, að því er virðist, er hreinlega dauðadómur yfir þessum stofnunum. Það mun taka heila kynslóð að byggja heilbrigðisþjónustuna aftur upp úti á landi ef þetta fer í gegn, ef þá einhverjir verða enn búsettir fyrir utan höfuðborgarmölina.
Ef nauðsynlega þarf að skera niður um 20% er betra að loka tveimur stofnunum og halda hinum gangandi. Þetta er auðvita ekki auðvelt, en er margfalt betra en að rústa öllu kerfinu. En því miður, eru það ekki heilbrigðissjónarmið sem gilda hér, heldur hrá landshlutapólitík, enginn vill að lokað sé hjá sér, því er betra að fórna öllu kerfinu, a.m.k eru allir þingmenn þá í sama sökkvandi báti.