Laugardagur 9.10.2010 - 12:59 - 22 ummæli

Heilbrigðishrun

Tveimur árum eftir bankahrunið stefnir í hrun heilbrigðisþjónustunnar á landsbyggðinni.  Reynsla annarra þjóða sýnir að heilbrigðisstofnanir þola ekki 20% niðurskurð, þjónustan einfaldlega hrynur.

Það er engin tilviljun að Bretar ætla ekki að skera niður í heilbrigðisþjónustu hjá sér í þessari kreppu, allt annað verður skorið niður meira.  Þeir vita af bitri reynslu að flatur niðurskurður upp á 10% er „lífshættulegur“ í heilbrigðisgeiranum, eins og gerðist um 1990 þegar stjórn íhaldsflokksins skar niður, og það tók stjórn verkamannaflokksins 10 ár að byggja kerfið aftur upp, 1 ár fyrir hvert 1% í niðurskurði!   Þetta lærðu menn þá og eru vitrari í dag.

Því miður þrjóskast Íslendingar við að læra af reynslu annarra þjóða, óvitarnir við Austurvöll og á Arnarhvoli vita allt best!

20% niðurskurður sem er boðaður úti á landi og í engu samráði við Landspítalann, að því er virðist, er hreinlega dauðadómur yfir þessum stofnunum.  Það mun taka heila kynslóð að byggja heilbrigðisþjónustuna aftur upp úti á landi ef þetta fer í gegn, ef þá einhverjir verða enn búsettir fyrir utan höfuðborgarmölina.

Ef nauðsynlega þarf að skera niður um 20% er betra að loka tveimur stofnunum og halda hinum gangandi.  Þetta er auðvita ekki auðvelt, en er margfalt betra en að rústa öllu kerfinu.  En því miður, eru það ekki heilbrigðissjónarmið sem gilda hér, heldur hrá landshlutapólitík, enginn vill að lokað sé hjá sér, því er betra að fórna öllu kerfinu, a.m.k eru allir þingmenn þá í sama sökkvandi báti.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 9.10.2010 - 12:15 - 2 ummæli

Bankarnir ekki mesta vandamálið

Þá hefur Bjarni Ben bæst í hóp allra annarra stjórnmálaleiðtoga sem kenna bönkunum um skuldavanda heimilanna.   Það er mjög athyglisvert að allir flokkar frá Sjálfstæðisflokki til Hreyfingarinnar skella skuldinni á bankana en tala varla um lífeyrissjóðina eða Íbúðarlánasjóð?  Hvers vegna?   Hvar liggur stærsti hluti húsnæðislána landsmanna?

Bankarnir fengu sína lán á afslætti en ekki Íbúðarlánasjóður og lífeyrissjóðirnir, það er málið.  Bankarnir hafa því svigrúm sem ríkið hefur ekki, en um það má ekki tala svo best er að slá ryki í augu landsmanna og sækja að bönkunum.  Sókn er jú besta vörnin.

Staðreynd málsins er: að bankarnir hafa minnsta hluta húsnæðislána til einstaklinga og mesta svigrúmið til aðgerða, Íbúðarlánasjóður hefur stærsta hluta lánasafnsins og minnsta svigrúmið.

Hvað gera stjórnmálamenn ef bankarnir hrinda tillögum Arion banka frá 2008 í framkvæmd og koma til móts við samtök heimilanna?  Hvað gerir Íbúðarlánasjóður þá eða lífeyrissjóðirnir?  Er það ekki kjarni málsins sem stjórnmálamenn vilja ekki ræða.

Það var ekkert vitlaust gefið þegar bankarnir keyptu sín lán af kröfuhöfum, vitleysan liggur hjá stjórnmálastéttinni sem ekki vill horfast í augu við staðreyndir.   Afsláttur hjá Íbúðarlánasjóði verður ekki búinn til úr engu.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 8.10.2010 - 21:30 - 19 ummæli

Hver á að borga?

Að bjarga heimilunum kostar kr. 200-220 ma en að skera niður heilbrigðisþjónustu um 20% á landsbyggðinni eins og fjárlög boða, sparar aðeins tæpa kr. 3 ma.  Ef það er hægt að finna peninga til að bjarga heimilunum þá hlýtur að vera lítill vandi að bjarga heilbrigðisþjónustunni úti á landi, ekki satt?

Vandamálið í þessum reikningi eru ekki bankarnir.  Þeir gætu eflaust komið til móts við kröfur HH vegna sinna kúnna, eins og í raun Arion banki stakk upp á strax 2008 en stjórnvöld afþökkuðu.  Langmest af húsnæðislánum er hjá Íbúðarlánasjóði og lífeyrissjóðunum.  Stærsti hluti lána bankanna eru lán til fyrirtækja.  Íbúðarlánasjóður hefur ekkert svigrúm til aðgerða og í raun sem ríkisstofnun má ekki auka skuldastöðu ríkisins vegna AGS samningsins.  Ef ríkið ætlar að bjarga skuldurum er það gert á kostnað sjúklinga á landsbyggðinni, þetta er aðeins spurning um forgangsröðun.

Og það er engin lausn að segja AGS samningnum upp, þá versnar málið eingöngu, því þá þarf að finna nýtt fjármagn til að fjármagna ríkishallann.  Samkvæmt upplýsingum frá AGS er til neyðaráætlun ef fjármögnun ríkisins klikkar.  Niðurskurður í  fjárlögum 2011 er barnaleikur miðað við það sem mun vera í þessari neyðaráætlun sem þingmenn þegja um.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 8.10.2010 - 12:47 - 5 ummæli

Hinn íslenski Yasser Arafat!

Hver stjórnar Íslandi?  Þetta er spurning sem erlendir aðilar velta fyrir sér.  Sérstaklega er þetta umhugsunarvert fyrir starfsmenn AGS  í Washington.  Ansi er ég hræddur um að starfsmenn þar hafi verið of fljótir á sér að klappa á bakið á Steingrími og gefa yfirlýsingar um 3% hagvöxt hér á landi 2011.

Icesave vandamálið er aðeins toppurinn á ísjakanum.  Veikleikar Íslands sem leiddu til hrunsins eru enn að mestu leyti til staðar.

Erlent orðspor og trúverðugleiki stjórnvalda hefur enn náð nýjum lágpunkti.  Þrátt fyrir ítrekaðar skriflegar yfirlýsingar til framkvæmdastjóra AGS um að uppboðsfresturinn verði ekki framlengdur hefur blaðinu verið snúið við á elleftu stundu án haldbærra skýringa.  Hvað á að gera á næstu 5 mánuðum sem ekki var hægt að gera á síðasta ári?  Hvað varð um allar þær aðgerðir sem voru svo lofaðar í skjölum til AGS?  Hvernig eiga aðgerðir sömu manna á næstu mánuðum að verða betri en þær sem hafa verið í smíðum í yfir eitt ár?

Íslensk stjórnvöld eru farin að stjórna að hætti Yasser Arafats sem sagði eitt á arabísku til heimabrúks en svo allt annað á ensku.

Það verður fróðlegt að fylgjast með 4. endurskoðun á áætlun AGS og þá sérstaklega hinu enska orðalagi sem íslenskir embættismenn munu velja til að útskýra aðgerðir stjórnvalda.  Þá verður ekki síður athyglisvert að sjá hvort starfsmenn sjóðsins hafi vaknað til vitundar um eðli og vandamál Íslands.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 6.10.2010 - 21:08 - 11 ummæli

Að eiga fyrir mat

Sú staðreynd að þúsundir manna þurfi að standa í biðröð til að þiggja matargjafir er einhver mesti áfellisdómur á íslensk stjórnvöld sem hugsast getur og sýnir hversu langt Ísland er komið af braut norræna velferðarkerfisins.  Ekki einu sinni í Bandaríkjunum þarf fólk að leggjast svona lágt.  Þar í landi úthlutar hið opinbera öllum sem eiga ekki fyrir mat, svokölluðum „foodstamps“ eða matarkorti. Talið er að um 40 milljónir Bandaríkjamanna notfæri sér þetta úrræði, og segir það kannski margt um misskiptingu í því landi, en er staðan betri á Íslandi?  Lítum aðeins nánar á bandaríska kerfið.  Ég hef hér notað tölur frá New York fylki til viðmiðunar.

„Foodstamps“, er í dag greiðslukort sem fjölskyldur sem uppfylla ákveðin tekju- og eignaskilyrði fá.  Þessi kort virka eins og venjuleg greiðslukort í flestum matvöruverslunum og hægt er að kaupa alla almenna matvöru sem uppfylla ákveðin gildi um hollustu og næringu.

Í dag er tekjumarkið fyrir 4 manna fjölskyldu $2,389 eða um kr. 268,000 á mánuði fyrir skatt.  Þeir sem eru undir þessu marki geta að hámarki fengið $688 eða kr. 77,000 á mánuði til matarkaupa.  Ef fjölskyldan er með ellilífeyrisþega eða örorkuþega á sínum snærum hækkar tekjumarkið upp í kr. 493,000.

Einstaklingar sem eru á örorku og einhleypir ellilífeyrisþegar fá $200 eða kr. 22,000 á mánuði í matarkaup ef heildartekjur þeirra eru undir kr. 200,000.

Miðað við þessar tölur ættu tugþúsundir Íslendinga rétt á matarkorti ef bandarískar reglur giltu hér.  Umhugsunarvert, ekki satt!

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 6.10.2010 - 13:01 - 11 ummæli

Allt enn í hnút eftir 2 ár!

Nú eru tvö ár liðin frá hruni og enn er verið að ræða hugmyndir um skuldaaðlögun fyrir einstaklinga og fyrirtæki.  Ekki vantar tillögur og aðgerðir en íslensk pólitík og þrjóska á sér fáa líka.

Það er deginum ljósara að á Íslandi er ekki til sú þekking, reynsla og kunnátta sem þarf til að leysa vandamál af þessari stærðargráðu.  Við þurfum mikla erlenda hjálp sérfræðinga til að nálgast þetta verkefni á faglegan og óháðan hátt.  Þetta var ljóst strax frá hruni, en þeir fáu norrænu sérfræðingar sem fengu að koma hingað til lands voru fljótt reknir heim af pólitískum öflum sem er meira annt um að halda völdum en að finna réttu lausnirnar.

Fyrir hrun héldu Íslendingar að þeir væru sérfræðingar í að reka banka og nú eftir hrun halda menn að þeir séu sérfræðingar í að leysa úr allri vitleysunni sem fyrsta fullyrðingin kom þeim í.

Það eina sem hefur bjargað landinum á síðustu tveimur árum eru sérfræðingar AGS, án þeirra væri allt hér í kaldakoli.  Það munu ekki allir taka undir með fjármálaráðherra að það verði gleðidagur þegar AGS fer og íslenskir pólitíkusar taka við.  Við þurfum ekki minni erlenda hjálp heldur miklu meiri.  Því fyrr sem menn gera sér grein fyrir þessu, því fyrr tekst okkur að komast úr úr þessum erfiðleikum.

Svo er athyglisvert að fylgjast með hvernig áróðursmaskínur stjórmálastéttarinnar og fjölmiðlar hamra á að allt sé hér skuldastöðunni og nýju bönkunum að kenna þegar landinu hefur verið breytt í eitt mesta láglaunaland í norður Evrópu.  Skuldavandinn er afleiðing en ekki orsök, lág laun og léleg hagstjórn er hin raunverulega orsök sem ekki má tala um.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 5.10.2010 - 14:15 - 8 ummæli

Jóhanna og uppboðsmálin

Það er ekki bæði haldið og sleppt þegar kemur að uppboðsmálum.  Innanlands er gefið í skyn að þetta sé bönkunum að kenna og stjórnvöld virðast koma af fjöllum í þessu máli.  Til utanlandsbrúks er annað upp á teningnum eins og þessi skrif stjórnvalda  til Dominique Strauss-Kahn framkvæmdastjóra AGS sýna.

7. apríl, 2010 skrifa Jóhanna og Steingrímur:

„We emphasize that with this refined framework in place, there will be no further extensions of the moratoriumon foreclosures, and we will allow it to expire on schedule at end-October 2010.“

Og aftur 13. september skrifa Jóhanna og Steingrímur til Dominique:

„Finally, with the framework in place, we are proceeding as planned to remove temporary post-crisis measures—like the moratorium on home foreclosures—the continuance of which represent a barrier to debtor participation.“

Mbl.is birtir síðan þessa frétt í dag:

„Hún (Jóhanna) sagði mikilvægt að allir, sem séu með sín mál í vinnslu núna í kerfinu, í bönkunum og hjá umboðsmanni, fái uppboðum frestað þar til ljóst verður hvaða lausnir eru fyrir hendi. „1. nóvember er enginn lokadagur í því efni að mínu viti ef á annað borð er hægt að leysa mál þessa fólks.““

Þrátt fyrir ítrekuð skrif og útlistanir á lausnum sem eiga að liggja til grundvallar afnámi uppboða segir Jóhanna nú, að ekkert verði gert fyrr en það er ljóst hvaða lausnir eru fyrir hendi?  Hvað hefur hún og Steingrímur þá verið að skrifa upp á og senda til AGS hingað til?

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 5.10.2010 - 12:34 - 4 ummæli

Úr bönkum yfir í fjölmiðla

Margar af helstu persónum í Rannsóknarskýrslu Aþingis virðast hafa fært sig úr bankafúski yfir í fjölmiðlafúsk.  Á sama hátt of yfirráð yfir bönkum sameinaði þetta fólk áður fyrr, sameinar fjölmiðlarekstur þetta lið í dag, ef fjölmiðlarekstur er rétta orðið.

Ætli matreiðsla þeirra á fréttum og skoðunum verði jafn afdrifarík og skuldasúpa þeirra?

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 4.10.2010 - 13:50 - 7 ummæli

Skuldavinna tefur uppbyggingu

„Steingrímur telur mikilvægast nú að vinna að skuldavanda heimila og fyrirtækja, því verkefni sé ekki lokið“, segir á Eyjunni í dag.

En menn verða að muna að hver mínúta sem fer í skuldavinnu fortíðarinnar er töpuð mínúta í atvinnuuppbyggingu framtíðarinnar.  Eftir 2 ár sér varla högg á vatni á skuldavanda þjóðarinnar.  Þúsundir manna og sérfræðinga hefur það nú að aðalvinnu að leysa úr skuldavanda á einn eða annan hátt.  Þetta er að verða ein stærsta atvinnugrein á Íslandi og sogar allt athafnafólk til sín.

Á meðan okkar nágrannar eru að huga að uppbyggingu fyrir næstu kynslóð erum við enn að reyna að leysa klúður fortíðarinnar.  Það er lítill hagvöxtur í skuldavinnu enda tala hagvaxtatölur sínu máli og útlitið fyrir 2011 er varla bjart í því efni.

Til að reikna út hið „raunverulega“ atvinnuleysi á Íslandi þyrfti að bæta við tölu atvinnulausra, öllum þeim sem eru að fást við skuldavanda hrunsins.  Þetta má kalla hrunatvinnuleysi.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 29.9.2010 - 14:44 - 22 ummæli

Hver plataði hvern í gær á Alþingi?

Féll Samfylkingin fyrir þeirri miklu freistingu að panta þá niðurstöðu sem Alþingi matreiddi í gær?  Hvert 10 ára barn getur reiknað út að Samfylkingin hafði allar aðstæður til að ráða niðurstöðu Alþingis –  þetta var einfalt stærðfræðidæmi.  Það var vitað að allir Sjálfstæðismenn voru á móti og að Hreyfingin og Vinstri grænir voru með.  Þá þurfti ekki mikið ímyndunarafl til að segja sér að Framsókn myndi bera kápuna á báðum öxlum og skiptast jafnt með og á móti.  Þar með voru allir flokkar nema Samfylkingin orðnir að fastri stærð og leikur einn fyrir lítinn hóp alþingismanna að taka völdin í sínar hendur og skýla sér á bak við hið þægilega ópólitíska tjald.

Svo má spyrja, hvers vegna í ósköpunum lét Sjálfstæðisflokkurinn leiða sig út í svona gildru?  Þetta var svo augljóst að maður spyr sig hvort hér hafi verið um tvöfalt plott að ræða?

Kjósendur munu líklega aldrei fá að vita sannleikann í þessu máli.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur