Þriðjudagur 29.12.2015 - 09:43 - Lokað fyrir ummæli

Ríghaldið í gamla tímann

Í hinum vestræna heimi ríkir oftast góð samvinna á milli ríkisframtaks og einkarekstrar. Þessi samvinna er öllum til góða. Á þessu eru nokkrar undantekningar og þar er Ísland líklega fremst í flokki. Það er leitandi að OECD landi þar sem ríkisafskipti og ríkisrekstur eru jafn viðamikil og á Íslandi. Og skilin á milli ríkis og einkageirans eru hvergi óljósari en jafnframt skarpari – allt er svart og hvítt, engu má blanda saman, ekkert nýtt má prufa. Viðhorfin eru oft Orwellian, ríkisrekstur góður, einkarekstur vondur.

Hvers vegna skyldi einkarekstur hafa svona slæmt orð á sér á Íslandi? Er það formið eða fólkið? Eða er íslenskur ríkisrekstur bestur í heimi? Ef litið er til annarra landa eru “bestu” sjúkrahús og menntastofnanir ekki ríkisreknar? Hvað kunna aðrar þjóðir í einkarekstri sem Íslendingar geta ekki?

Þegar reynsla stærri þjóða er skoðuð betur er erfitt að draga aðra ályktun en að á Íslandi liggi vandamálið í einkageiranum. Ekki að ríkisrekstur sé betri hér en annars staðar. Og vandamálið liggur ekki í rekstrarforminu heldur miklu meira í fólkinu og afskiptum sjórnmálamanna. Í báðum þessum hópum er það þekkingarleysi og klíkuskapur sem eitrar allt frá sér og skemmir. Menn eru lokaðri inn í einsleitum sandkassa og sjá aldrei heildarmyndina. Þá haga menn sér eins og hundar, fórna sér fyrir húsbóndann í stað þess að hugsa sjálfstætt og standa í lappirnar.

Það er mjög skiljanlegt að almenningur sé skeptískur á íslenskan einkarekstur, sporin hræða. Og þó að hin almenna regla sé að ríkisrekstur sé ekki besta rekstrarformið, er Ísland enn undantekning og verður líklega um langan tíma. Það er fátt sem bendir til að menn séu tilbúnir í þær róttæku breytingar sem þarf að gera, ef einkarekstur í örríki á einhvern tíma að ná upp á sama plani og í nágrannalöndunum. Það hreinlega hentar ekki valdastéttinni sem notfærir sér fámennið og einangrunina til að ríghalda í gamla tímann.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 12.12.2015 - 10:52 - Lokað fyrir ummæli

Um verðmat

Það er oft sagt að eign sé aldrei verðmeiri en það sem einhver er tilbúinn að borga fyrir hana. Það eru undantekningar á þessu, eins og öllu. Á Íslandi er helsta undantekningin að menn er oft tilbúnir að yfirborga hvern annan til að komast yfir eitthvað sem er í tísku þann daginn. Þannig semur klókur seljandi góða sögu um að fyrirspurnir um, eign til sölu, komi alls staðar frá og ekki síst frá útlöndum. Þá rjúka menn upp til handa og fóta til að vera fyrstir til að kaupa draslið.

Þennan leik léku erlendir aðilar af mikilli snilld fyrir hurn og spiluðu miskunnarlaus á íslenska hégómagirnd og smáborgaraskap. Það voru ekki svo fáar erlendu eignirnar sem íslensku bankarnir og útrásarvíkingar þeirra keyptu á yfirverði fyrir hrun.

Og þessi leikur er enn í fullum gangi. Í hruninu endaði eitt leikrit og annað hófst með endurnýjuðum leikhópi. Eftir hrun hefur leikurinn helst gengið út á að duppa upp gamlar eignir og selja lífeyrissjóðunum á yfirverði. Margir hafa efnast vel á þessu, enda hafa nýju bankarnir spilað með og oft verið hryggjarstykkið í slíkum dílum. En eitt sem menn lærðu af hruninu er að auglýsa þessar uppákomur minna.

Annað sem hefur breyst er að fjármagn til að slá upp stórum leiksýningum er takmarkað. Útlendingar vilja ekki lengur henda peningum í slíkan pytt sem síðan gufa upp eða enda sem stöðugleikaframlag þegar allt fer úr böndunum. Þannig standa Íslendingar frammi fyrir því að hafa ekki aðgang að lánsfé til að yfirborga hvern annan, nú þegar stærstu bankar landsins fara allir á markað. Og þetta peningaleysi getur sett strik í ríkisbókhaldið.

Í þessu sambandi er vert að skoða hvernig þeir sem sýsla með fjármál sem sína aðalvinnu líta á málið. Kröfuhafar Glitnis, sem eru búnir að reyna að selja Íslandsbanka lengi, töldu að best væri að láta hann í fangið á ríkinu sem stöðugleikaframlag. En slíkur gjörningur myndar um leið verðmat á íslenska banka, sem ekki er hátt. Og það er alls ekki víst að ríkið komi út í plús, því verðmiðinn á Landsbankanum fellur um leið og ríkið tekur við Íslandsbanka. En kannski endurspeglar þetta bara raunveruleikann? Íslenskir bankar á minnsta myntsvæði heims, sem hafa enga vaxtamöguleika erlendis, og keppa á markaði sem er yfirfullur af dýrum fjármálastofnunum í yfirstærð, eru í heildina aldrei verðmeiri en einn góður sparisjóður sem þjónar 330,000 manna samfélagi.

Því miður bendir margt til að íslenska ríkið endi uppi með um 400 ma kr. bundna í úreltu og verðlitlu bankakerfi á meðan Landspítalinn er fjársveltur. Hvernig endaði allt þetta fé í bankakerfinu en ekki í heilbrigðiskerfinu? Það verður verðugt rannsóknarefni næstu kynslóðar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 11.12.2015 - 08:17 - Lokað fyrir ummæli

„Leyfið börnunum að koma til mín“

Jólabarnið sagði: “Leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim eigi, því slíkra er Guðs ríki.”

Senn halda Íslendingar jól og minnast byltingarmannsins, Jesús, sem ekki skorti kjark til að standa upp í hárinu á þeirra tíma valdastétt. Við minnumst kenninga hans um mannúð og manngæsku.

Það er því ósköp skiljanlegt að þegar ríkissjórn landsins, sem lætur þjóðkirkjuna blessa sig á hverjum sunnudegi í öllum kirkjum landsins, ákveður korteri fyrir jól að kasta veiku barni úr landi í skjóli nætur, að hin kristna þjóð mótmæli. Ekki batnar málið þegar gjörningurinn er varinn með því að sækja í smiðju Pílatusar. Ráðherra þvær hendur sínar og segist ekki hafa getað gert annað. Lögfræðingastéttin ver ráðherrann, alveg eins og lögmenn forðum stóðu með Pílatusi, hann var jú bara að fara eftir lögum og skipunum síns tíma?

Jesús hefði mótmælt þessum brottflutningi á veiku barni kröftulega. Svona verknaður er ekki í samræmi við kenningar hans. Eða hvað? Hvar er fulltrúi Jesús á Íslandi? Hvers vegna þessi ærandi þögn frá þeirri stofnun? Er það vegna þess að kirkjan er ríkiskirkja og menn á þeim bæ eru orðnir hollari peningavaldinu? Ætlar biskup Íslands að standa með Pílatusi eða Jesús? Það fá menn vonandi að heyra um þessi jól.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 7.12.2015 - 10:21 - Lokað fyrir ummæli

Pólitískur bankastjóri

Yfirboðarar ríkisbankastjórans mega vera ánægðir með sinn mann. Ísland er í blússandi góðæri þökk sé ríkisstjórninni, segir bankastjóri Landsbankans í nýlegu viðtali. Þá rómar hann Seðlabankann, sem sé að gera frábæra hluti.

Allt er þetta í klassískum íslenskum stíl. Ríkisforstjórar klappa hver öðrum á bakið og skjalla sína ráðherra og yfirmenn. Og svo er þetta kórónað með því að segja að allt sé í algjörlega nýrri umgjörð og að menn eigi bara að vera bjartsýnir. Getur þetta orðið framsóknarlegra?

Það er aldrei traustvekjandi þegar bankastjóri kemur í viðtal og nefnir engar tölur um vöxt eða arðsemi. Í bankarekstri þurfa menn að vera talnaglöggir. Þá er skrýtið að hampa hlutafélagsformi bankans en tala aldrei um hluthafa. Það er ekki hægt að slíta þetta í sundur. Ríkisbankastjórinn talar um að arðsemi bankans eigi að vera nóg til að bankinn geti viðhaldið sér – sé sjálfbær. En hvað þýðir það? Hvar koma hluthafar inn í þá formúlu?

Þá var athyglisvert að bankastjórinn virtist tilkynna afkomuviðvörum í viðtalinu. Hann sagði að arðsemi af bankarekstri yrði minni í framtíðinni. En eins og með stjórnmálamenn talaði hann óskýrt. Allir gera sér grein fyrir því að einskiptisliðir tengdir hruninu hverfa með tíð og tíma, en hvað með reglulegan rekstur bankans? Var bankastjórinn að tilkynna að það væru vandamál með þann rekstur í framtíðinni? Það væri ekki traustvekjandi korteri fyrir sölu, nema fyrir væntanlega kaupendur sem gætu túlkað þetta sem verðlækkun á verðmiða ríkisins?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 6.12.2015 - 11:05 - Lokað fyrir ummæli

Guðs útvöldu þjóðir

Ísland og Ísrael eru Guðs útvöldu þjóðir. Alla vega þegar kemur að verðtryggðum lánum, en þessar tvær þjóðir búa víst einar að lánaformi sem sumir kenna við Guð almáttugan.

Guð hefur hins vegar verið mun mildari við Ísrael en Ísland þegar kemur að vaxtabyrði. Verðtryggð lán í Ísrael byggja á skuldabréfum sem bera 0.75% verðtryggða vexti en á Íslandi hefur hin guðlega tala 3.75% lengst af verið notuð og er óhagganleg, eða í það minnsta geta íslenskir stjórnmálamenn ekkert gert í málinu nema talað og lofað banni.

En vill Guð banna verðtryggð lán? Ekki er svo að sjá í hans fyrirheitna landi, Ísrael. Þar eru verðtrygg lán í boði og talin henta ungu fólki sem sér fram á góðar launahækkanir umfram verðbólgu í framtíðinni. Þannig getur ungt fókl fengið hærri lán fyrr á ævinni sem síðan má endurfjármagna eða greiða niður þegar það hækkar í launum á miðjum aldri. Fyrir launafólk á almennum kjarasamningum sem hækka í takt við verðbólguna eru verðtryggð lán hins vegar ekki eins spennandi.

En það er ekki aðeins að Ísrael sé blessað með lægri vöxtum, þar blómstrar lánaflóra sem varla fæst þrifist á köldum klaka. Ísraelskir bankar bjóða upp á 1) gengislán fyrir þá sem eru með laun í erlendum gjaldeyri, 2) gengistryggð lán fyrir þá sem eru með laun tengd erlendum gjaldeyri, 3) óverðtryggð lán á föxtum vöxtum eða breytilegum vöxtum sem annað hvort fylgja vöxtum seðlabankans eða markaðsvöxtum á ríkisskuldabréfum og svo 4) verðtryggð lán. Í Ísrael fær kúnninn raunverulegt val.

Ef íslenskir stjórnmálamenn fengju að ráða, væru öll lánaform bönnuð nema eitt. Hvers vegna eru Íslendingar að eyða einna manna mest, innan OECD, við að mennta landsmenn ef almenningur er settur á sjálfstýringu frá vöggu til grafar?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 2.12.2015 - 09:34 - Lokað fyrir ummæli

Krugman og Þorvaldur

Það vill oft gleymast þegar frægir hagfræðingar róma krónuna að spyrja þá hvort þeir vilji nú ekki fá kaupið sitt í krónum, skipta húsnæðisláninu yfir í verðtryggt lán á yfir 3% raunvöxtum og eiga lífeyrissjóð sem er með 70% af eignum í krónum?

Sjálfstæð mynt er ekki öll í sama flokki. Það er t.d. himinn og haf á milli sænsku og íslensku krónunnar. Ein er viðurkennd alþjóðleg mynt þar sem engin þörf er á verðtryggingu, hin er í hötum og enginn veit hvert raunverulegt skiptigengi hennar er. Svo er auðvitað spurning hvort íslenska krónan geti talist mjög sjálfstæð með höft og verðtryggingu?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 29.11.2015 - 09:33 - Lokað fyrir ummæli

Allaballinn á Bessastöðum

Það verður að teljast til tíðinda að Ólafur Ragnar sé farinn að flagga öryggis- og varnarmálum í kosningabaráttu sem aldrei tekur enda. Þessi málaflokkur hefur ekki verið hans sterkasta tromp hingað til, enda hefur hann alla tíð haft fóbíu á Nató, grunnstoð íslenskrar varnarstefnu.

En tímarnir breytast. Nú hefur félaga Pútin súist hugur og hann er farinn að skjóta á öfgamenn í Sýrlandi við hlið Bandaríkjanna og annarra Natóríkja. Og þá er tími fyrir Ólaf Ragnar að taka enn eina U-beyjuna, en sá snúningur er orðinn hans aðalsmerki á 20 ára valdatíma.

Það verður athyglisvert að fylgjast með hvort þessi nýjasta U-beyja Ólafs Ragnars leiði til breytinga á viðhorfi hans til Nató og hvort hann muni nú leggja til hliðar söng síns gamla flokks “Ísland úr Nató – herinn burt”?  Verða sendimenn Nató nú loksins boðnir velkomnir til Bessastaða en hingað til hafa dyr forsetabústaðarins staðið þeim lokaðar öfugt við sendimenn Sádíarabíu, Kína og Rússlands?

Stuðningsmenn Nató eru jú síðasti hópurinn á Íslandi sem Ólafur Ragnar hefur ekki höfðað til í forsetatíð sinni. Kannski er tími Nató runninn upp á Bessastöðum. Hver veit?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 28.11.2015 - 07:11 - Lokað fyrir ummæli

Tími málmbræðslu liðinn

Íslensk orka er of verðmæt til að nota í málmbræðslu. Ný tækni hefur opnað nýjan markað fyrir orkuna sem er tilbúinn að borga tífalt hærra verð. Þetta er hliðstætt því þegar flugið opnaði nýja markaði fyrir fiskinn. Bæði fiskurinn og orkan er fyrsta flokks hrávara sem nágrannaþjóðirnar eru sólgnar í.

Framþróun tækninnar verður ekki stöðvuð. Álver og málmbræðsla á Íslandi er barn síns tíma. Að þrjóskast við að nota orkuna í slík verkefni sýnir þröngsýni og íhaldssemi. Menn verða að opna augun fyrir breyttum heimi. Þessi nýja staða mun kalla á aðlögun sem verður erfið og sársaukafull fyrir marga, sérstaklega þá sem vinna við málmbræðslu, en allar kynslóðir þurfa að gíma við breytingar og framþróun. Íslendingar ættu að þekkja það manna best.

Mikilvægt er að Íslendingar fari að marka sér skynsama heildarstefnu í orkumálum, stefnu sem tekur til næstu 20-30 ára. Slík stefnumótun þarf að liggja fyrir áður en farið er að semja um sæstreng til Bretlands. Menn mega ekki missa sig í pólitísku dægurþrasi og láta erlenda aðila taka frumkvæðið og stýra ferð.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 27.11.2015 - 08:03 - Lokað fyrir ummæli

ESB heimtar gengislán

Eftir hrun bönnuðu íslensk stjórnvöld gengislán. Nú segja skriffinnar hjá ESB – nei þetta megið þig ekki.

Og hvað gerir ríkisstjórn Sigmundar Davíðs? Hún búkkar sig og beygir fyrir ESB og ætlar nú að leggja fram frumvarp um gengislán sem þóknast herrunum í Brussel. Íslendingar hafa nú varla verið settir í jafn auðmýkjandi stöðu síðan að danskur kóngur réði hér öllu.

Það verður spennandi að fylgjast með hvort allir þingmenn ríkisstjórnarinnar munu láta smala sér eins og kindur og samþykkja þessa kröfu ESB?

En það hangir fleira á spýtunni hér en krafa ESB. Gengislán framtíðarinnar á vildarkjörum verða ekki fyrir almenning. Þau verða aðeins fyrir fjársterka aðila í gjaldeyrishagkerfinu – þá sem eru með tekjur í evrum en ekki krónum. Það er því verið að búa til kerfi þar sem krónu-Jón og evru-Jón sitja ekki við sama borð. Þetta frumvarp mun ýta undir stéttaskiptingu og gera hina ríku enn ríkari.

Líklega mun þetta útspil ESB verða til mikilla trafala fyrir Evrópuandstæðinga. Fátt sundrar íslenskri þjóð meir, en efnahagsleg mismunun, sérstaklega ef hún er af erlendri ætt.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 25.11.2015 - 12:44 - Lokað fyrir ummæli

Evruhverfi og krónugettó

Losun hafta og betri aðgangur að erlendu lánsfé getur orðið mikil lyftistöng fyrir ferðaþjónustuna. Þar sem tekjur ferðaþjónustunnar eru að mestu leyti í erlendum gjaldeyri er eðlilegt að skuldir hennar séu í sömu mynt. Þetta gefur erlendum aðilum með gott lánstraust og aðgang að lánsfé tækifæri á að ná betri arðsemi úr íslenskri ferðaþjónustu en innlendum aðilum sem verða að reiða sig á dýrt og óskilvirkt íslenskt bankakerfi. Lægri fjármagnskostnaður erlendra aðila rennur beint í vasa þeirra sem hagnaður.

Þessi þróun mun ýta undir tvöfalt bankakerfi. Þörfin fyrir aðila sem geta miðlað erlendu lánsfé mun aukast og með nýrri tækni verður auðveldara að þjónusta hið sívaxandi gjaldeyrishagkerfi landsins. Ein afleiðing af innflæði af ódýru lánsfé er að eignaverð hækkar, sérstaklega húsnæði og land á besta stað. Greiðslugeta þeirra sem eru með evrur í vasanum er svo miklu meiri en þeirra sem slygast með krónuna. Þannig mun samfélagið skiptast í stéttir eftir gjaldmiðli. 101 verður evruhverfi borgarinnar þar sem bílastæðin verða full af nýjum og flottum bílum. Úthverfin verða svo krónugettó.

Þeir sem fá að taka erlend lán þegar höftin verða losuð verða krýndir hin nýja forréttindastétt landsins.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur