Laugardagur 30.4.2016 - 14:43 - Lokað fyrir ummæli

Hlutabréf falla

Hutabréf féllu hressilega í fyrir helgi. Hvers vegna? Vissulega hafði uppgjör Icelandair áhrif, en þar með er ekki öll sagan sögð. Hærri kostnaður vegna launahækkana er ekkert nýtt.

Það sem var nýtt var að fjámálaráðherra tilkynnti að ríkið ætlaði að selja um 60 ma kr af eignum, þar á meðal skráð bréf fyrir áramót. En það þarf ekki nema grunnskólaþekkingu í hagfræði til að skilja hvaða áhrif slík getur haft á markaðinn. Þegar menn auka framboð án þess að eftirspurn aukist á sama tíma, fellur verðið. Og með því að tímasetja söluna eins og gert var, líklega út frá pólitískum veruleika, er tryggt að verðfallið verður hámarkað. Þetta eru því góðar fréttir fyrir fjársterka aðila sem hafa aðgang að bankakerfinu og geta fjármagnað svona kaup með lánum þar sem bréfin eru sett að veði. Hér verður ríkið báðum megin við borðið, selur og fjármagnar. Allt á einum stað, eins og sagt er. Nú verður gaman að sjá hvernig ný bankaráð ríkisbankanna og FME höndla svona tækifæri! Er nýtt Borgunarklúður í uppsiglingu eða tekst nýju fólki að standa vörð um orðspor bankanna? Það á eftir að koma í ljós.

Hitt er víst að þegar ríkið selur eignir í tímaþröng er verið að bjóða upp á reyfarakaup – hámarks gróða með lágmarks áhættu. Það er engin furða að menn séu spenntir. Það sem stjórnmálamenn þurfa að svara er hvernig á að tryggja að almenningur fái að taka þátt í þessari sölu – og að hún takmarkist ekki við svokallaða “fagfjárfesta”.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 19.4.2016 - 10:22 - Lokað fyrir ummæli

Rök konungssinna

Rök Ólafs Ragnars fyrir áframhaldandi setu á Bessastöðum eru rök konungssinna. Krafan um festu, ábyrgð, skyldur og reynslu byggða á tengingum við fortíðina eru allt rök sem eru ofaná í löndum eins og Danmörku og Bretlandi. Þessi rök eiga fyllilega rétt á sér, en þá þarf umgjörðin að passa.

Íslenska þjóðhöfðingaembættið á meira skylt við konungsembætti frá síðustu öld, en nútíma forsetaembætti lýðveldis. Rök Ólafs Ragnars passa vel inn í þessa gömlu skilgreiningu á embættinu. En ef þetta er það sem þjóðin vill, er þá ekki eðlilegra að kalla hlutina réttum nöfnum?

Ákall þjóðarinnar um áframhaldandi setu Ólafs Ragnars verður vart túlkað á annan veg en að Íslendingar sakni Konungsríkisins Íslands. Voru sambandsslitin við Dani þá mistök?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 7.4.2016 - 06:25 - Lokað fyrir ummæli

Höftin hjá Pírötum

Ríkisstjórnin taldi í byrjun kjörtímabils að létt yrði að afnema gjaldeyrishöftin. Það var vanmat og nú er stjórnin að falla á tíma.

Ein ástæða þess að erfitt er að dagsetja kosningar er að þá er komin föst tímasetning á afnám hafta, sem er eitt aðalmál ríkisstjórnarinnar, en AGS og aðrir sérfræðingar hafa varað við fastri dagsetningu.

Frá sjónarhóli fjárfesta er aðalvandamálið pólitísk óvissa á Íslandi. Enginn veit hver raunveruleg efnahagsstefna Pírata verður í nýrri ríkisstjórn. Það er mjög óvenjulegt að sá flokkur sem mælist með lang mesta fylgið hafi enga reynslu af efnahagsstjórnun landsins. Í því felst fjárhagsleg áhætta. Leið fjárfesta til að mæta þeirri áhættu er að færa krónur í gjaldeyrisskjól fram yfir kosningar þar til meiri reynsla er komin af stjórn Pírata. En útflæðisþrýstingur á krónuna er einmitt það sem þarf að varast þegar höftin eru afnumin. Þannig er ljóst að afnám hafta við núverandi pólitískan raunveruleika er hættulegt. Það þarf ekki annað en á líta á veika stöðu breska pundsins, rúmum tveimur mánuðum fyrir þjóðaratkvæðisgreiðslu um ESB aðild, til að sjá að gengi krónunnar gæti fallið hressilega, ef höftin verða losuð fyrir kosningar.

Hraðvirkasta leiðin til að losa höftin er að flýta kosningum og eyða þeirri óvissu sem stjórnarflokkarnir ráða ekki við, en er á borði Pírata.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 6.4.2016 - 15:04 - Lokað fyrir ummæli

Léleg enska

Það verður að gera þá lágmarkskröfu að þeir sem skrifa fyrir hönd forsætisráðherra Íslands séu sæmilega ritfærir á enska tungu.

Það sem fékk marga til að brosa yfir hinni dæmalausu tilkynningu frá forsætisráðuneytinu í gærkvöldi voru eftirfarandi orð:

“for an unspecified amount of time”

Hvernig á þetta að skiljast? Er Sigmundur Davíð nú farinn að mæla tímann í kílógrömmum? Er furða að erlendir aðilar klóri sér í höfðinu. En eins og allir vita sem hafa lært ensku í grunnskóla er talað um “period of time” ekki “amount of time”. Á íslensku tölum við ekki um “óákveðið magn af tíma”!

Nýr forsætisráðherra þarf að láta bæta prófarkalestur í ráðuneytinu.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 6.4.2016 - 08:03 - Lokað fyrir ummæli

Hver stjórnar Íslandi?

Varnarlaus eyja í Norður-Atlantshafi sem ekki getur stjórnað sér sjálf hlýtur að vera áhyggjuefni nágrannalandanna. Hver er forsætisráðherra Íslands, spyrja menn?

Eitt aðalsmerki þróaðs lýðræðis er að ef skipta þarf um forsætisráðherra er það gert fumlaust og faglega. Sú staða sem nú er komin upp á Íslandi sýnir að Lýðveldið Ísland er ekki eins sterkt og rótgróði og margir vilja halda. Leita þarf suður fyrir Miðjarðarhaf til að finna lönd sem geta telft fram fleiri óvissuþáttum þegar kemur að stjórnskipulagi.

Augu alheimsins eru á Íslandi og menn fylgjast glöggt með hvernig Íslendingar ætla að endurheimta glatað traust og trúverðugleika.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 5.4.2016 - 15:41 - Lokað fyrir ummæli

„The Fat Controller“

Aldrei hefur forsætisráðherra rústað orðspori Íslands erlendis eins og Sigmundur Davíð. Ísland er orðið að aðhlátursefni og því lengur sem þessi „sápuópera“ heldur áfram því meiri verður skaðinn.

Afnám hafta er í uppnámi og mun tefjast. Erlendir aðilar munu hika við að koma með fjármagn til Íslands, ekki vitandi hvort þeir munu verða fyrir smitáhrifum. Sama má segja um sölu ríkisins á bönkunum, það ferli verður allt erfiðara og flóknara. Ávöxtunarkrafa fjárfesta fer hækkandi, sem ekki styður við þá vaxtalækkun sem almenningur þarf á að halda.

Því miður er fátt sem bendir til að pólitísk óvissa minnki í náinni framtíð. Fjórflokkurinn er allur í rúst og fáir vita hvað Píratar bjóða upp á. Það má halda vel á spilum nú, ef ekki á að koma bakslag í efnahagsbatann.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 31.3.2016 - 14:29 - Lokað fyrir ummæli

Landsbankinn rassskelltur

Framtíðarsýn Landsbankans hefur síðustu árin byggst á frösunum “að vera til fyrirmyndar” og “svona á banki að vera”.

Nýjasta athugun FME varðandi viðskiptahætti Landsbankans, sýnir að himinn og haf er á milli frasastefnu ríkisbankans og raunveruleikans. En í áliti FME segir orðrétt:

“…að verklagi Landsbankans við sölu á 31,2% eignarhlut hans í Borgun á árinu 2014 hafi verið áfátt og það heilt á litið ekki hafa verið til þess fallið að skila bestri niðurstöðu fyrir bankann. Með vísan til þess er það mat Fjármálaeftirlitsins að verklag bankans við sölu á eignarhlut hans í Borgun hafi ekki að öllu leyti samræmst eðlilegum og heilbrigðum viðskiptaháttum á fjármálamarkaði, sbr. 19. gr. laga nr. 161/2002”

Það er ljóst að mikil verkefni bíða nýs stjórnarformanns, sem verður sá fjórði frá 2008. Eitt það fyrsta er að marka bankanum raunverulega stefnu og stoppa klaufalegar frasaauglýsingar. Þá er ljóst að nýr stjórnarformaður verður að hafa augu og eyru opin, en umfram allt að hafa bein í nefinu og passa upp á að halda sér í ákveðinni fjarlægð frá framkvæmdastjórninni.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 9.3.2016 - 23:49 - Lokað fyrir ummæli

Fjármálakerfi á brauðfótum

Það ætlar að verða mun erfiðara að byggja upp traust á íslenskum fjármálamarkaði en svartsýnustu menn áætluðu. Vart líður sá mánuður að ekki bætist í hinn sístækkandi sarp fjármálaklúðurs.

Nýjasta dæmið um arðgreiðslur tryggingafélaga kastar ljósi á alvarlegar brotalamir í kerfinu. Fjármálaráðherra gagnrýnir harðlega fjármálagjörning sem forstjóri FME leggur blessun sína yfir. Hér er forstjóri FME kominn í svipaða stöðu og bankastjóri Landsbankans og farinn að verja hið óverjanlega.

Það er skiljanlegt að menn spyrji hvort FME ráði við hlutverk sitt? Aðalmarkmið FME eins og það auglýsir á vefsíðu sinni er að: “standa vörð um traust og heilbrigði fjármálamarkaðarins”. Það er ekki nóg að fjármálagjörningar séu löglegir. Þeir þurfa að byggja á heilbrigðum viðskiptalegum grunni og þar liggur vandamálið sem FME og margir aðilar á íslenskum fjármálamarkaði virðast ekki skilja. Gamla hugarfarið “löglegt en siðlaust” virðist enn í fullu gildi og það jafnvel innan opinberra eftirlitsstofnanna? Stjórn FME þarf að taka af allan vafa í þessu máli og útskýra fyrir almenningi hvernig FME hyggst ná markmiði sínu og endurheimta traust sem hefur tapast.

Það er ljóst að áhyggjur AGS á sínum tíma, um veikleika í eftirlitisþætti fjármálamarkaðarins eru enn til staðar. Á meðan svo er, er ekkert vit í að selja eignarhluti ríkisins í bönkunum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 9.2.2016 - 20:11 - Lokað fyrir ummæli

Landsbankakúltúrinn

“Við skiptum ekki um nafn heldur hugarfar”, auglýsti Landsbankinn eftir hrun. En það þarf meira til en auglýsingar til að skipta um hugarfar og Borgunarklúðrið bendir til að bankinn sé fastur í gamalli viðskiptamenningu. Blússandi hóphugsun virðist enn ríkjandi í bankanum þrátt fyrir að Rannsóknarskýrsla Alþingis sé orðin 5 ára, en þar er rækilega varað við einsleitum bankastjórnendum sem verða hóphugsun að bráð.

Þegar verið er að selja eignir til kaupenda sem hafa meiri þekkingu og reynslu en seljandinn þá eiga menn að hafa varann á og láta utanaðkomandi aðila sjá um söluna fyrir opnum tjöldum. Að nota lokað ferli og láta innanhúss aðila sjá um söluna er það versta sem hægt er að gera, því ef eitthvað fer úrskeiðis þá hámarkast bæði hinn fjárhagslegi og orðsporslegi skaði, eins og Landsbankamenn eru nú að upplifa.

Hvers vegna hringdu engar viðvörunarbjöllur í stjórn bankans? Eitt aðalverkefni sjórna eftirlitskyldra fjármálafyrirtækja eftir hrun er jú eftirlitsþátturinn. Félagssjórn ber að sannreyna forsendur og útreikninga framkvæmdastjórnar í málum sem ekki flokkast undir daglegan rekstur. Allir stjórnarmenn Landsbankans eiga að hafa lokið hæfisprófi hjá FME og eiga því að gera sér grein fyrir skyldum sínum. Þá hafa þeir aðgang að utanaðkomandi sérfræðingum sér til halds og trausts, ef bankinn fylgir leiðbeiningum Viðskiptaráðs um góða stjórnarhætti. Það er áhyggjuefni bæði fyrir eigendur bankans og FME hvers vegna stjórnin stoppaði ekki söluna í tíma?

Liklegast er að stjórn bankans hafi sogast inn í Landsbankakúltúrinn og ekki gætt að sér. Þetta er kúltúr sem ofmetur eigin hæfileika og kunnáttu og vanmetur áhættur og andstæðinga. Eitt stærsta verkefni nýrrar stjórnar, sem kjósa þarf á næsta aðalfundi, er að innleiða nýja viðskiptamenningu. Það verður ekki auðvelt verk en er nauðsynlegt til að tryggja framtíðarhag bankans. Án nýs kúltúrs verður erfitt, ef ekki ómögulegt, að innleiða nýja stefnu og koma reglulegum rekstri bankans í ásættanlegt horf. Borgunarklúðrið og eftirleikur þess hefur sent sterk skilaboð til markaðarins að nauðsynleg umbótarverkefni eru enn óunnið innan Landsbankans, og því er allt tal um sölu á eignarhlut ríkisins ótímabært eins og mál standa.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 21.1.2016 - 20:31 - Lokað fyrir ummæli

Veikleiki Landsbankans

Borgunarklúðrið er klassískt dæmi um klóka viðskiptamenn sem plata bláeyga ríkisforstjóra og notfæra sér stjórnarhætti sem byggja frekar á pólitík en viðskiptaviti. Þegar við bætist síðan kjánaskapurinn vegna nýrra höfuðstöðva, er ekki hægt að draga aðra ályktun en að viðskiptalegt orðspor Landsbankans hafi skaðast. Slíkt er ekki gott veganesti í söluferli.

Hver vill vera minnihlutaeigandi með svona fólk í brúnni? Varla alvöru fjárfestar. Og þar liggur einn mesti veikleiki Landsbankans þegar kemur að sölu. Á þennan vanda er ekki minnst í nýlegri stöðuskýrslu Bankasýslunnar um sölu á eignarhlut ríkisins í Landsbankanum. Hvers vegna? Og hvað annað vantar í þá góðu skýrslu, sem annars telur 95 blaðsíður?

Það er, því miður, full ástæða til að hafa áhyggjur af söluferli Landsbankans. Það verður ekki trúverðugt fyrr en það er komið í hendurnar á óháðum erlendum fagaðilum. Betur má ef duga skal.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur