Þriðjudagur 27.7.2010 - 11:11 - 22 ummæli

Enginn íslenskur blaðamaður í Brussel?

Nýlokið er blaðamannafundi í Brussel við upphaf formlegra viðræðna við ESB.   Hér er um mikilvægt þjóðfélagsmál að ræða og útkoman hver sem hún verður mun hafa mikil áhrif á stöðu landsins og lífskjör í framtíðinni.  Það var því með ólíkindum að enginn íslenskur blaðamaður skyldi spyrja spurninga á þessum fundi.  Alveg sama hvort menn eru með eða á móti ESB, menn verða að leita sér upplýsinga og staðreynda.

Þetta hlýtur að vala mönnum vonbrigðum í Brussel.  Stækkunarstjórinn Stefan Fule, sagði í sínum inngangi að hann hefði áhyggjur að hugsanleg ESB aðild nyti ekki breiðs stuðnings á Íslandi og að umræðan yrði að vera byggð á staðreyndum en ekki goðsögn.  Afskiptaleysi íslenskra fjölmiðla í svona stóru máli er því mjög bagaleg og vandræðaleg.

Það hefur ekki farið fram hjá þeim stóra hópi evrópskra blaðamanna sem þarna spurðu spurninga fyrir hönd sinna lesanda að kollegar þeirra á Íslandi virtust víðsfjarri?  Hvers vegna?

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 27.7.2010 - 07:47 - 5 ummæli

Landhelgisgæslan vísar veginn

Fá ríkisfyrirtæki og stofnanir virðast betur stjórnað en Landhelgisgæslunni.  Gæslan á heiður skilið fyrir skjóta og góða endurskipulagninu á síðustu tveimur árum.  Þær fréttir berast nú að rúmlega helmingur verkefna Gæslunnar komi erlendis frá. (Minni þjónusta við Ísland er áhygguefni en þar er ekki við Landhelgisgæsluna að sakast heldur ríkið.)

Þetta sýnir að Landhelgisgæslan veitir þjónustu á heimsmælikvarða og er eftirsóttur þjónustuaðili.  Ekki aðeins hefur verið dregið úr kostnaði innanlands, heldur er Gæslan farin að leggja myndarlegan hlut til gjaldeyrissköpunar þjóðarbúsins.

Hér er kominn vísir að nýjum tækifærum.  Það sem helst takmarkar „útrás“ Gæslunnar er skortur á fjármagni til tækjakaupa og þjálfunnar starfsmanna.  Ríkið getur auðvita ekki skaffað neitt nýtt fjármagn eins og staðan er í dag, því er eini möguleikinn ef starfsemin á að vaxa og dafna að finna Landhelgisgæslunni góðan og traustan erlendan samstarfs- og fjármögnunaraðila.  Þá þyrfti að aðskilja innlenda og erlenda starfsemi stofnunnar, en spurning er hvort pólitískur vilji er fyrir því?

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 26.7.2010 - 18:54 - 16 ummæli

Einu sinni var þjóð …

Ég leyfi mér að birta hér leiðara Alþýðublaðsins frá 1. apríl 1976, líklega skrifaðan af Sighvati Björgvinssyni, þáverandi ritstjóra blaðsins.  Þessi leiðari á jafn mikið erindi við okkur eins og hann átti við foreldar okkar.

—–

Í Alþýðublaðinu í gær (31. mars 1976) birtist athyglisverð grein um hvernig Nýfundnaland glataði sjálfstæði sínu.  Ástæðan var sú, að stjórendur landsins misstu öll tök á efnahagsmálum þess.  Mikill framkvæmdahugur var í mönnum en forsjá ekki að sama skapi.

Því lögðu Nýfundnalendingar út á þá braut að slá sér lánsfé erlendis til þess að standa undir framkvæmdum heima fyrir.  Í fyrstunni reyndist auðvelt fyrir landið að fá slik lán, enda eðlilegt að leita eftir erlendu lánsfé að ákveðnu marki til þess að standa undir verðmætaskapandi framkvæmdum.  En stjórnvöldum þessa litla lands þótti sláttan auðvelt þjóðráð. Eyða strax, borga seinna — lifa hátt í dag og hafa ekki áhyggjur af morgundeginum.  Þannig var lífið svo auðvelt og fyrirhafnarlítið fyrir ráðamenn þessa litla ríkis. En svo fór að syrta í álinn.

Á aðeins einum áratug tvö-og-hálffölduðust erlendar skuldir þjóðarinnar.  Og þessar erlendu lántökur voru ekki aðeins gerðar til þess að standa undir verðmætaskapandi framkvæmdum.  Á hverju þessara tíu ára var halli á rekstri ríkissjóðs Nýfundnalands og létta leiðin ljúfa — að slá erlend eyðslulán til þess að jafna metin — var svo freistandi, að hún var líka farin til þess að að jafna halla ríkissjóðs. Þannig gekk fjármálabúskapur þessarar litlu þjóðar fyrir sig í einn áratug.  Greiðslubyrði hinna erlendu lána jókst stöðugt og var nú komin að því að sliga þjóðina.  Byrði afborgana og vaxta var orðin svo þung, að hún var orðin þjóðinni ofviða. Og þá átti enn að leika sama leikinn til þess að losna úr klípunni.  Ríkisstjórn Nýfundnalands bauð út 8 milljón dollara lán.  En nú fékkst enginn til þess að kaupa skuldabréfin. Lánstraust þjóðarinnar var þorrið.  Enginn lánveitandi þorði lengur að lána henni fé.

Stjórnvöld Nýfundnalands sáu nú loksins hvað ritað hafði verið á vegginn.  En það var orðið of seint.  Stjórnvöld tóku það ráð að snúa sér til Breta, sem áður höfðu verið nýlenduherrar Nýfundnalands, og biðja þá um ráð.  Eftir tveggja ára stríð við að reyna að koma lagi á fjárhag landsins var horfið að því ráði að skipa brezka rannsóknarnefnd til þess að gera úttekt á fjárhagsstöðu landsins.  Nefndin skilaði ítarlegu áliti og komst að þeirri niðurstöðu, að Nýfundnaland væri gjaldþrota.  Stjórnmálamenn landsins hefðu afskræmt þingræðiskerfið og komið þjóð sinni á vonarvöl.  Árið 1934 voru sjálfstjórn og fjárráð tekin af Nýfundnalandi og landinu stjórnað af embættisefnd frá London.  Áfallið, sem þjóðin hafði orðið fyrir, var slíkt, að fimmtán árum síðar, þegar þjóðaratkvæðagreiðsla fór fram í landinu um hvort menn vildu reyna aftur að vera íbúar sjálfstæðs ríkis ellegar gerast fylki í Kanada, þá valdi meirihluti kjósenda síðari kostinn.  Íbúar Nýfundnalands höfðu misst kjarkinn.  Þeir þorðu ekki að reyna aftur sem sjálfstæð þjóð.

Söguna um, hvernig Nýfundnaland missti sjálfstæðið má lesa í sérhverri alfræðiorðabók.  Sú saga á mikið erindi við okkur Íslendinga eins og nú standa sakir.  Á Nýfundnalandi bjó einu sinni sjálfstæð þjóð álíka fjölmenn og sú íslenzka.  Aðalatvinnuvegur hennar var sjávarútvegur og þjóðin var vel menntuð.  Nú er hún ekki lengur til sem sjálfstæð þjóð af því hún kunni ekki fótum sínum forráð.

Á áratug tæplega þrefaldaði þessi þjóð skuldir sinar i erlendum gjaldeyri.  Á fyrstu þremur mánuðum þessa árs jukust erlendar skuldir Íslendinga um 80 þús. kr. á hvert mannsbarn í landinu.

Að þeim tíma loknum var greiðslubyrðin svo þung, að Nýfundnaland gat ekki undir henni risið.  Innan fárra ára þurfum við Íslendingar að verja fimmtu hverri gjaldeyriskrónu okkar til þess að greiða vexti og afborganir af erlendum skuldum.

Á þessu tímabili þraut allt lánstraust Nýfundnalands erlendis.  Upp á síðkastið höfum við Íslendingar ekki fengið okkar erlendu lán frá hefðbundnum lánveitendum heldur höfum við þurft að sækja þau til arabískra olíufursta við afarkjörum.

Sá háttur var hafður á Nýfundnalandi að jafna halla rikissjóð með stöðugum lántökum.  Nákvæmlega sömu aðferðum er nú beitt til þess að rétta hinn íslenzka ríkissjóð af.

Alfræðiorðabækur segja um Nýfundnaland: Vel menntuð en fámenn þjóð öðlaðist sjálfstæði.  Hún vildi gera allt i einu og til þess að svo gæti orðið hóf hún skefjalausar lántökur erlendis.  Þjóðin reyndist ekki hafa þroska til að stjórna efnahagsmálum sínum.  Í kjölfar pólitískrar spillingar fylgdi fjármálaspilling og þjóðin varð gjaldþrota.  Sjálfviljug afsalaði sér hún stjórn fjármála sinna í hendur erlendri embættismannanefnd.  Sjálfviljug afsalaði hún sér sjálfstæði sinu í hendur erlendri ríkisstjórn.  Nú er þessi þjóð ekki lengur til.

Í öllum alfræðiorðabókum er líka kafli um aðrar litla eyþjóð í norðanverðu Atlandshafi — um íslenzku þjóðina. Sjálfstæðinu og fjármálastjórninni heldur hún enn.  En hversu lengi ef svo heldur fram, sem horfir?

Alþýðublaðið ráðleggur Geir Hallgrímssyni og ráðherrum hans öllum að lesa söguna um Nýfundnaland bæði kvölds og morgna.

—–

Ástandið á Íslandi er að mörgu leyti alvarlegra nú en þegar Geir Hallgrímsson var forsætisráðherra.  Erlendir lánamarkaðir eru nú lokaðir, ekki er hægt að færa landhelgina út í 200 mílur eins og gert var 1975 og treysta á aðstoð Bandaríkjanna sem hér höfðu herstöð.  Nei, nú erum við líkari Nýfundnalandi en nokkru sinni fyrr.  Í stað Breta fer AGS með okkar fjárræði.

Þegar Bretar slepptu hendinni, „missti“ Nýfundnaland sitt sjálfstæði, hvað gerist þegar AGS sleppir hendinni hér?  Getum við treyst því að þetta muni einfaldlega „reddast“?

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 24.7.2010 - 22:16 - 28 ummæli

AGS dregur úr ESB áhuga

Ein ástæða þess að stuðningur við ESB aðild hefur dalað er að AGS prógrammið hefur tekist vonum framar. 

Kreppan er búin, er sagt, þó svo að við séum í gjörgæslu AGS með ónýta krónu, höft, lokaða fjármálamarkaði og lánstraust í ruslaflokki.

Halda menn virkilega að AGS og Norðurlöndin munu halda áfram að dæla hér inn sparifé útlendinga til að halda Íslendingum utan við ESB? 

70% þjóðarinnar er fullviss um að svona muni þetta reddast í framtíðinni. 

Hvað gerist þegar AGS skrúfar fyrir kranann?

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 24.7.2010 - 09:59 - 26 ummæli

Fölsk lífskjör og fyrirheit

Þorsteinn Pálsson skrifar athyglisverða grein í Fréttablaðið í dag um fölsk lífskjör og fyrirheit.  AGS hefur varið landið fyrir hrikalegu lífskjarafalli og er það vel, en hvað tekur við þegar hendi AGS sleppir?
Þorsteinn veltir þessari spurningu fyrir sér og kemst að þeirri niðurstöðu að enn er fátt um skýr svör frá stjórnmálaflokkunum.

Eins og ég hef margoft skrifað um þurfa flokkarnir að fara að útskýra stefnu sína í efnahagsmálum án hjálpar AGS.  Hinar 3 stóru spurningar sem þarf að svara eru:

1. Hvernig á að opna fyrir erlenda fjármálamarkaði?  Án erlends fjármagns verður hér stöðnun í atvinnulífinu.  Við þurfum erlent fjármagn til að fjárfesta í nýjum atvinnutækifærum.  Annars mun næsta kynslóð í auknu mæli flytjast úr landi.  Þó Grikkland sé í erfiðum málum geta þeir enn fjármagnað sig þó kostnaðurinn sé hár. Þetta leiðir okkur að að næstu spurningu?

2. Hvernig á að bæta lánstraust Íslands?   Það er ekki nóg að hafa aðgang að erlendu fjármagni það þarf að vera á viðráðanlegu verði.  Enginn veit hvert markaðsverðið er á lánum til Íslands?  Ef lánin eru of dýr fækkar fjárfestingarmöguleikunum og dregur úr líkum á raunlaunahækkunum handa almenningi.  Of dýr lán auka líkurnar á að Íslandi verði „láglaunaland“ í Evrópu sem mun ýta undir landflótta á hæfu ungu fólki.  Yfir lengri tíma gæti þetta haft verulegar afleiðingar á samfélagsmynstur þjóðarinnar.  Þá er hár fjármagnskostnaður dragbítur á velferðakerfið.  Ekki er nóg að líta á skuldabyrgði þjóðarinnar sem hluthall af landsframleiðslu, betra er að skoða vaxtabyrgði ríkisins sem hlutfall af landsframleiðslu.  Japanska ríkið er skuldugra en hið íslenska en mun ódýrara er fyrir Japani að fjármagna þennan skuldabagga þar sem lánstraust þeirra er betra.  Að lokum ræður lánstraustið miklu um endurfjármögnunarmöguleika fyrirtækja og kostnað við slíkt.  Ef ekki tekst að bæta lánstraustið mun endurfjármögnun hjá t.d. OR og LV éta upp hagnað og/eða nýja fjárfestingarmöguleika.

3. Hver er framtíðargjaldmiðill landsins?  Í dag veit enginn hvert er hið „rétta“ markaðsverð krónunnar.  Henni er haldið „uppi“ með höftum og handstýringu.  Þetta er hins vegar ekki trúverðug framtíðarstefna því til að halda gjaldmiðlum föstum þarf gríðarlegan gjaldeyrisvarasjóð sem við eigum ekki.  Þá er erfitt að sjá hvernig hægt verður að opna fjármálamarkaði og hækka lánstraustið nema með eðlilega skráðan gjaldmiðil? 

Það er því margt sem bendir til að þegar hendi AGS sleppi þurfi hressilega gengisfellingu.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 23.7.2010 - 11:28 - 48 ummæli

Sjálfstæðisflokkurinn og ESB

Sjálfstæðisflokkurinn er stærsta og öflugasta stjórnmálaaflið á Íslandi.  Það er eðlilegt og rökrétt að gera þá kröfu að flokkurinn hafi forystu um málefnalega og opna umræðu um ESB aðild, eitt stærsta samfélagsmál samtíðarinnar.  Þetta er ekki einkamál Samfylkingarinnar né er það æskilegt að örfáir einstaklingar stýri og stjórni ESB umræðu og viðhorfum Sjálfstæðisflokksins innan frá sem í aðalatriðum virðist spegilmynd af stefnu VG.

Þetta ber hvorki vott um lýðræðisleg vinnubrögð né er þetta í anda sögu flokksins.  ESB umræða verður að vera lifandi og opin.  Efnahagslegt hrun hefur skapað hér óvissu um framtíð og sjálfstæði landsins.  Spurningunni um hvernig núverandi kynslóð ætlar að skila betra búi til sinna barna en tekið var við, er ósvarað.  Staða og framtíð Íslands í alþjóðasamfélaginu þegar hendi AGS sleppir er óviss. 

Stærsti stjórnmálaflokkur landsins verður að fara að taka af skarið og leiða umræðu og leit að svörum við krefjandi spurningum um hvernig við best stöndum vörð um sjálfstæði og fullveldi landsins.

ESB aðild getur hér skipt sköpum, en áður en við ákveðum að segja „já“ eða „nei“ er gott að gera sér sem besta grein fyrir því hvað muni felast í aðild og ekki síður hverjar verði líklegar afleiðingar af því að standa fyrir utan ESB.

Vonandi mun Sjálfstæðisflokkurinn bera gæfu til að geta tekið á þessu viðfangsefni af stillingu, yfirvegun og ró þar sem málefnaleg gagnrýni og opin umræða verði höfð að leiðarljósi.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 23.7.2010 - 00:08 - 14 ummæli

Ég og hin heila brú hjá AMX

Hinn mikli veraldarvefur AMX heldur því fram að ekki sé heil brú í mínum ESB málflutningi.  Þegar maður er kominn á radarskjá hjá fuglahvísli AMX er maður farinn að stuða Sjálfstæðisflokkinn og hans heilögu þrenningu.  En hver stendur flokknum nær,  AMX eða ég?   

Friðrik Eggerz frá Ballará og síðar Akureyjum var afi Sigurðar Eggerz fyrrum forsætisráðherra og stofnanda Sjálfstæðisflokksins og Friðrik var langalangafi minn.  Jón Magnússon forsætisráðherra fyrir Íhaldsflokkinn var giftur afasystur minni Þóru Jónsdóttur.   Faðir minn var á framboðslista Sjálfstæðisflokksins.   Ég er því kominn af einhverjum mestu íhaldsættum Íslands.   Svo lengi sem ég man hafa allir í minni ætt kosið Sjálfstæðisflokkinn.   Frænkan mín Svava Brands verslaði aldrei við KRON eða Sambandið.  Þannig var ég alinn upp.

Ef ég er farinn að agitera fyrir ESB þá skil ég vel að AMX vefurinn sé farinn að panikera.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 22.7.2010 - 07:58 - 10 ummæli

Landsmenn borga

Björgólfur Thor gefur út yfirlýsingu um að hann ætli að borga sínar skuldir og er það gott og vel, en mér finnst nú að hann hefði getað þakkað sjúklingum Íslands fyrir þeirra þátttöku í hans persónulega átaki.  Flestir landsmenn munu, nefnilega, taka þátt í að borga skuldir útrásarvíkinganna í formi hærra vöruverðs og lægri launataxta.  Hinn mikla áhættusækni útrásarvíkinganna hefur leitt til þess að mörg stærstu fyrirtæki landsins (og ríkið) eru skuldum vafin og sliguð af fjármagnskostnaði og lélegu lánstrausti. 

Til að lækka þennan fjármagnskostnað þarf að borga þessi lán upp.  Til að fá peninga til að borga lán hratt upp þarf að halda tekjum eins háum og kostur er og kostnaði lágum.  Ein aðferð er hátt vöruverð og lág laun!  Ef lánin eru ekki borguð upp þarf að koma til endurfjármögnunar, en þá geta málin versnað, þar sem vaxtakostnaður á erlendum lánum mun rjúka upp úr öllu valdi enda er lánstraust okkar nú í ruslaflokki en var í hæstu hæðum þegar upprunalegu lánin voru tekin.  Þetta er t.d. hættan við OR, eins ég hef áður skrifað um.

Þetta lélega lánstraust og hár skuldabaggi mun verða einver mesti dragbítur á lífskjör hér á landi næsta áratuginn hið minnsta. 

Aðeins þegar við höfum frjálsan aðgang að lánsfé á sambærilegum kjörum og okkar samkeppnislönd er hægt að tryggja sambærileg lífskjör.  Nauðsynlegt en þó ekki nægjanlegt skilyrði fyrir þessu er að við fáum alþjóðlegan viðurkenndan og traustan gjaldmiðil.

Það er nokkuð ljóst að 320,000 manna samfélag getur ekki haldið úti stöðugum og traustum gjaldmiðli á 21. öldinni.  Hér þurfum við hjálp.

Eini erlendi seðlabankinn sem mun hjálpa okkur í því máli er Evrópski Seðlabankinn og þá aðeins að við göngum inn í ESB.

Allt er þetta tengt, eins og hlekkir í keðju.  Vanti einn hlekkinn heldur keðjan ekki.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 21.7.2010 - 22:16 - 6 ummæli

Búrbónskur uppruni Íslendinga?

Kunningi minn, erlendis, spurði  mig um daginn:  eru Íslendingar nokkuð komnir af Búrbónum, þeirri merku konungsætt í Evrópu?

Ha, sagði ég, hvers vegna spyrðu?

Jú, Íslendingar eru alveg eins og Búrbónar, gleyma engu og læra ekkert!

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 20.7.2010 - 06:55 - 37 ummæli

Enn um leiðinlegt ESB þras!

Nú þegar tveggja ára afmæli hrunsins nálgast virðist enginn endir í nánd á áföllum, eftirköstum og afleiðingum.   Eina sem hægt er að segja er að lengi getur vont versnað.  Ofaná Rannsóknarskýrsluna fáum við nú dóm Hæstaréttar og Magma málið, og guð má vita hvað er handan við hornið.  Það virðist enn langt í land að einhver raunveruleg uppbygging geti hafist enda erum við enn að slökkva elda.

Umræða um gjaldmiðil og fjármögnun atvinnutækifæra virðist komin upp á hillu.  Fólk virðist farið að sætta sig við ónýta krónu og AGS sem þrautavarnarlánveitanda um ókomna framtíð.  Slíkt er hættulegt, það er vísir að uppgjöf.  Í raun má segja að ákveðið sýndarástand ríki á landinu, fólk er farið að velja upphafspunkta fyrir og eftir hrun eftir hentisemi.  Hvergi er þetta augljósara en í ESB umræðunni.

70% þjóðarinnar vill slíta ESB umræðum án þess að þjóðin fái að kjósa um samning.  Ég efast um að þetta hlutfall yrði nokkurn tíma eins hátt í löndum eins og Noregi og Sviss og hafa þau lönd þó efni á að segja nei við ESB.

Það er eins og 70% landsmanna haldi að Ísland standi jafnfætis hinum EFTA löndunum og hér hafi aldrei orðið neitt hrun.  Og ekki nóg með það, eingöngu er nóg að segja „nei“, ekkert virðist þurfa að hugsa um hvað taki við eftir „nei“, enda er búið að stilla ESB umræðunni þannig upp að aðild er alls ekki partur af efnahagsendurreisn Íslands, heldur einhver hugmyndaleikfimi Samfylkingarinnar.  Þannig er ESB aðild orðin að flokkspólitísku þrasi sem allir eru orðnir hundleiðir á.  Þetta er auðvita óskastaða „nei“ liðsins því þá þurfa þeir ekki að gera grein fyrir hvernig staðið verði að efnahagsuppbygginu hér án ESB aðildar, né þurfa þeir að svara spurningum um framtíðargjaldmiðil eða hvernig við losnum við AGS.  „Þetta mun reddast einhvern veginn“, virðist sem fyrr, fullkomið svar fyrir meirihluta þjóðarinnar.

Hér er Ísland á öndverðum meiði við útlönd.  Erlendis sjá menn skýra tengingu á milli AGS prógramms og ESB aðildar.  Í margra augum eru þetta óaðskiljanlegar undirstöður efnahagsuppbyggingar Íslands.  Aðeins með ESB aðild fær Ísland stuðning Evrópska Seðlabankans og aðeins þannig fær landið stöðugan gjaldmiðil (fyrst krónu innan EMR-2 vikmarka og síðan evru) og þannig aðgang að fjármálamörkuðum á viðunandi kjörum og innan ásættanlegs tímaramma.  Þannig verður óvissunni eytt.

En það sem útlendingar átta sig ekki á er að Íslendingar þrífast á óvissu og þrjósku.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur