Ég leyfi mér að birta hér leiðara Alþýðublaðsins frá 1. apríl 1976, líklega skrifaðan af Sighvati Björgvinssyni, þáverandi ritstjóra blaðsins. Þessi leiðari á jafn mikið erindi við okkur eins og hann átti við foreldar okkar.
—–
Í Alþýðublaðinu í gær (31. mars 1976) birtist athyglisverð grein um hvernig Nýfundnaland glataði sjálfstæði sínu. Ástæðan var sú, að stjórendur landsins misstu öll tök á efnahagsmálum þess. Mikill framkvæmdahugur var í mönnum en forsjá ekki að sama skapi.
Því lögðu Nýfundnalendingar út á þá braut að slá sér lánsfé erlendis til þess að standa undir framkvæmdum heima fyrir. Í fyrstunni reyndist auðvelt fyrir landið að fá slik lán, enda eðlilegt að leita eftir erlendu lánsfé að ákveðnu marki til þess að standa undir verðmætaskapandi framkvæmdum. En stjórnvöldum þessa litla lands þótti sláttan auðvelt þjóðráð. Eyða strax, borga seinna — lifa hátt í dag og hafa ekki áhyggjur af morgundeginum. Þannig var lífið svo auðvelt og fyrirhafnarlítið fyrir ráðamenn þessa litla ríkis. En svo fór að syrta í álinn.
Á aðeins einum áratug tvö-og-hálffölduðust erlendar skuldir þjóðarinnar. Og þessar erlendu lántökur voru ekki aðeins gerðar til þess að standa undir verðmætaskapandi framkvæmdum. Á hverju þessara tíu ára var halli á rekstri ríkissjóðs Nýfundnalands og létta leiðin ljúfa — að slá erlend eyðslulán til þess að jafna metin — var svo freistandi, að hún var líka farin til þess að að jafna halla ríkissjóðs. Þannig gekk fjármálabúskapur þessarar litlu þjóðar fyrir sig í einn áratug. Greiðslubyrði hinna erlendu lána jókst stöðugt og var nú komin að því að sliga þjóðina. Byrði afborgana og vaxta var orðin svo þung, að hún var orðin þjóðinni ofviða. Og þá átti enn að leika sama leikinn til þess að losna úr klípunni. Ríkisstjórn Nýfundnalands bauð út 8 milljón dollara lán. En nú fékkst enginn til þess að kaupa skuldabréfin. Lánstraust þjóðarinnar var þorrið. Enginn lánveitandi þorði lengur að lána henni fé.
Stjórnvöld Nýfundnalands sáu nú loksins hvað ritað hafði verið á vegginn. En það var orðið of seint. Stjórnvöld tóku það ráð að snúa sér til Breta, sem áður höfðu verið nýlenduherrar Nýfundnalands, og biðja þá um ráð. Eftir tveggja ára stríð við að reyna að koma lagi á fjárhag landsins var horfið að því ráði að skipa brezka rannsóknarnefnd til þess að gera úttekt á fjárhagsstöðu landsins. Nefndin skilaði ítarlegu áliti og komst að þeirri niðurstöðu, að Nýfundnaland væri gjaldþrota. Stjórnmálamenn landsins hefðu afskræmt þingræðiskerfið og komið þjóð sinni á vonarvöl. Árið 1934 voru sjálfstjórn og fjárráð tekin af Nýfundnalandi og landinu stjórnað af embættisefnd frá London. Áfallið, sem þjóðin hafði orðið fyrir, var slíkt, að fimmtán árum síðar, þegar þjóðaratkvæðagreiðsla fór fram í landinu um hvort menn vildu reyna aftur að vera íbúar sjálfstæðs ríkis ellegar gerast fylki í Kanada, þá valdi meirihluti kjósenda síðari kostinn. Íbúar Nýfundnalands höfðu misst kjarkinn. Þeir þorðu ekki að reyna aftur sem sjálfstæð þjóð.
Söguna um, hvernig Nýfundnaland missti sjálfstæðið má lesa í sérhverri alfræðiorðabók. Sú saga á mikið erindi við okkur Íslendinga eins og nú standa sakir. Á Nýfundnalandi bjó einu sinni sjálfstæð þjóð álíka fjölmenn og sú íslenzka. Aðalatvinnuvegur hennar var sjávarútvegur og þjóðin var vel menntuð. Nú er hún ekki lengur til sem sjálfstæð þjóð af því hún kunni ekki fótum sínum forráð.
Á áratug tæplega þrefaldaði þessi þjóð skuldir sinar i erlendum gjaldeyri. Á fyrstu þremur mánuðum þessa árs jukust erlendar skuldir Íslendinga um 80 þús. kr. á hvert mannsbarn í landinu.
Að þeim tíma loknum var greiðslubyrðin svo þung, að Nýfundnaland gat ekki undir henni risið. Innan fárra ára þurfum við Íslendingar að verja fimmtu hverri gjaldeyriskrónu okkar til þess að greiða vexti og afborganir af erlendum skuldum.
Á þessu tímabili þraut allt lánstraust Nýfundnalands erlendis. Upp á síðkastið höfum við Íslendingar ekki fengið okkar erlendu lán frá hefðbundnum lánveitendum heldur höfum við þurft að sækja þau til arabískra olíufursta við afarkjörum.
Sá háttur var hafður á Nýfundnalandi að jafna halla rikissjóð með stöðugum lántökum. Nákvæmlega sömu aðferðum er nú beitt til þess að rétta hinn íslenzka ríkissjóð af.
Alfræðiorðabækur segja um Nýfundnaland: Vel menntuð en fámenn þjóð öðlaðist sjálfstæði. Hún vildi gera allt i einu og til þess að svo gæti orðið hóf hún skefjalausar lántökur erlendis. Þjóðin reyndist ekki hafa þroska til að stjórna efnahagsmálum sínum. Í kjölfar pólitískrar spillingar fylgdi fjármálaspilling og þjóðin varð gjaldþrota. Sjálfviljug afsalaði sér hún stjórn fjármála sinna í hendur erlendri embættismannanefnd. Sjálfviljug afsalaði hún sér sjálfstæði sinu í hendur erlendri ríkisstjórn. Nú er þessi þjóð ekki lengur til.
Í öllum alfræðiorðabókum er líka kafli um aðrar litla eyþjóð í norðanverðu Atlandshafi — um íslenzku þjóðina. Sjálfstæðinu og fjármálastjórninni heldur hún enn. En hversu lengi ef svo heldur fram, sem horfir?
Alþýðublaðið ráðleggur Geir Hallgrímssyni og ráðherrum hans öllum að lesa söguna um Nýfundnaland bæði kvölds og morgna.
—–
Ástandið á Íslandi er að mörgu leyti alvarlegra nú en þegar Geir Hallgrímsson var forsætisráðherra. Erlendir lánamarkaðir eru nú lokaðir, ekki er hægt að færa landhelgina út í 200 mílur eins og gert var 1975 og treysta á aðstoð Bandaríkjanna sem hér höfðu herstöð. Nei, nú erum við líkari Nýfundnalandi en nokkru sinni fyrr. Í stað Breta fer AGS með okkar fjárræði.
Þegar Bretar slepptu hendinni, „missti“ Nýfundnaland sitt sjálfstæði, hvað gerist þegar AGS sleppir hendinni hér? Getum við treyst því að þetta muni einfaldlega „reddast“?