Laugardagur 24.4.2010 - 14:52 - 9 ummæli

Vel mælir Njörður

Karfan er nýtt lýðveldi með nýrri stjórnarskrá.  Ekkert minna dugar.  Nú er kominn tími til að stofna samtök lýðveldissinna sem berjast fyrir nýju og betra lýðveldi.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 22.4.2010 - 07:16 - 6 ummæli

Grynnka þarf á skuldum með sölu til almennings

Síðasta færsla mín um Verne Holding hefur vakið athygli en ég vildi setja hana í heilstætt samhengi til að forða misskilningi.  Í nýrri skýrslu AGS kemur fram að eitt helsta áhygguefni hér á landi eru skuldir einkageirans og þar erum við að tala um skuldir fyrirtækja að stærstum hluta.

Til að grynnka á þessum skuldum þurfa menn að selja eignir.   Á sama tíma eru bankarnir fullir af peningum sem þurfa að fara út í atvinnulífið.  Hér þarf að jafna hlutina út og nota tækifærið að koma eignum í dreift eignarhald.

Praktísk og fljótleg leið er að selja bestu fyrirtæki landsins til almennings (hér á ég líka við lífeyrissjóðina).  Þar með rennur arður af þessum eignum í vasa fólksins í landinu en ekki skuldugra útrásarvíkinga.

Samhliða þessu þarf að koma hlutabréfamarkaðinu af stað, en það myndi efla atvinnulífið til mikilla muna.  Í haust verða 2 ár liðin frá hruninu.  Við getum ekki endalaust þrasað og beðið eftir að eitthvað fullkomið gerist, einhver þarf að hafa frumkvæðið og setja hlutina af stað.  Því fyrr því betra.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 21.4.2010 - 16:55 - 12 ummæli

Hlutur Björgólfs í Verne til almennings

Iðnaðarnefnd Alþingis ræðir nú á föstudag hina vandræðalegu stöðu sem komin er upp í Verne Holding.  Hér er um mikilvægt verkefni að ræða þar sem erlendir fagfjárfestar koma að.  Það er vægast sagt óheppilegt að íslenskir stjórnarmenn sem sitja í Verne skuli sitja fyrir hönd Björgólfs Thors.

Eftir að Skýrslan kom út getum við ekki verið þekkt fyrir að taka ekki á þessu vandamáli.  Við einfaldlega verðum að koma þessum íslenska eignarhluta í hendur almennings og setja inn almennilega stjórnarmenn sem geta komið fram fyrir hönd Íslands með sóma.

Nú er tækifæri fyrir Björgólf að stíga fram og láta verk fylgja orðum.  Hann á að hafa frumkvæði að því að selja sinn hlut í Verne til almennings á sómasamlegum afslætti.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 21.4.2010 - 08:44 - 24 ummæli

Varnir Davíðs

Amx vefurinn gerir mikið úr varnarbréfi Davíðs sem hann ritaði rannsóknarnefndinni.  Nú eiga allir rétt á vörnum og sjálfsagt að lesa bréf Davíðs.

Varnir Davíðs byggja fyrst og fremst á vanhæfni nefndarmanna og þröngum starfsvettvangi Seðlabankans sem takmarkaði möguleika á björgunaraðgerðum.  Ábyrgðin lá hjá FME og ráðherrum, samkvæmt bréfi Davíðs, og vissulega er margt til í því.  Hins vegar verður að draga þá ályktun þegar bréf Davíðs er borið saman við Skýrsluna, að Davíð hafi verið kominn langt út fyrir sitt valdsvið og farinn að vasast í  verkefnum annarra.  Davíð mátti vita að allt í kringum hann voru skjálfandi hríslur sem ekki stóðu í lappirnar svo auðvelt var fyrir hann að stjórna því sem hann vildi.

Og þar er komið að kjarna málsins, hvers vegna beitti Davíð sér ekki fyrir því að sterkari menn völdust til áhrifa í flokknum hans og í embættismannakerfið þegar hann var ráðherra? Gaf þessi mannauðsveikleiki honum ekki frítt spil að gera það sem hann vildi og geta jafnframt skellt skuldinni á hríslurnar þegar eitthvað færi úrskeiðis?  Það var jú í hans ráðherratíð sem hinar mjög svo þröngu reglur um Seðlabankann voru samþykktar.

Það er erfitt að sjá að Davíð komi gagnrýnislaust út úr þessu.

PsAmx hneykslast yfir því að þetta bréf Davíðs skuli ekki hafa fengið meiri umfjöllun í fjölmiðlum.  En er það svo skrýtið.  Varla getur Mogginn farið að hampa þessu og ekki er mikil áhugi á Fréttablaðinu á skoðunum Davíðs.   Á furðulegan hátt sýnir þetta mál þá miklu krísu sem fjölmiðlar eru í á Íslandi.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 20.4.2010 - 14:41 - 11 ummæli

Íslenska bankakreppan er frá 1929

Íslenska bankakreppan er meir í ætt við kreppuna á Wall Street 1929 en lausafjárkrísuna 2008 í okkar nágrannalöndum.   Kveikjan að íslensku kreppunni eru lán til hlutabréfakaupa, sérstaklega lán fyrir eigin bréfum bankanna.  Þegar hlutabréfaverð féll, féll veðstofn bankanna og þeir með.

Það sem er svo ótrúlegt er að stjórnir bankanna og FME skyldi láta þetta viðgangast þegar þessi áhættuþáttur var vel þekktur út um allan heim.  Flest lönd höfðu lært lexíur frá 1929 og styrkt eftirlit og löggjöf.  Þetta fólst t.d. í því að aðskilja fjárfestingabanka frá viðskiptabönkum og banna lán til hlutabréfakaupa.

Þau lönd sem fylgdu lærdómi frá 1929 best, eins og t.d. Kanada sluppu við kreppuna 2008.  Lönd sem höfðu slakað á eftirliti og löggjöf, eins og t.d. Bandaríkin og Bretland lentu verr í þessu og lönd sem engan lærdóm lærðu frá 1929 eins og Ísland kolféllu.

Það er hreint ótrúlegt hversu einangrað Ísland er enn á 21. öld.  Við erum fljót að taka upp alls konar ósiði erlendis frá, en við þrjóskumst enn við að læra af mistökum okkar nágranna, viljum helst læra allt sjálf sama hversu kostnaðurinn verður.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 20.4.2010 - 14:01 - 10 ummæli

Einræðisstjórnskipulag

Það er alltaf að koma betur í ljós hvers konar einræðisstjórnskipulag Ísland býr við.  Foringjar stjórnarflokkanna eru eins konar einræðistvíburar.  Oftast eru þetta „góðkynja“ stjórnir en með Davíð Oddsyni virðist kerfið hafa orðið illkynja, með hræðilegum afleiðingum sem eru gerð ýtarleg skil í Skýrslunni.

Spurning er hvað vannst með sjálfstæðisbaráttu Íslendinga?  Innleiddum við hér opið og rökrétt lýðræði byggt á stjórnarskrá saminni af íslensku þjóðinni fyrir íslensku þjóðina?  Svarið er nei.

Stjórnmálaflokkar og hagsmunahópar sáu sér færi að misnota gallaða stjórnarskrá Danakonungs sem var samin fyrir konungsveldi en ekki lýðveldi, til að koma sér og sínum í  yfirburða áhrifastöður.  Ráðherraveldið Ísland á sér enga lýðræðislega fyrirmynd en samt er það það eina sem kynslóðir Íslendinga þekkja.

Stjórnlagaþingi verður ekki lengur skotið á frest.  Þetta er brýnasta verkið sem okkar bíður til að koma Íslandi loksins í hóp siðmenntaðra lýðræðisþjóðfélaga.  Stjórnlagaþing þarf að vera skipað af þversniði þjóðarinnar, þar mega alls ekki sitja varðhundar spilltrar stjórnmálastéttar landsins.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur