Þriðjudagur 13.9.2011 - 19:03 - 6 ummæli

Ólöf sýndarhástökkvari dagsins!

Hástökkvarinn í sýndarbikarkeppninni þessa stundina er Ólöf Nordal! Frammistaða Ólafar kemur mörgum á óvart en Ólöf er fylgin sér í reynd og sýnd og hefur staðið sig með eindæmum í andsvörum við félaga sína undanfarinn sólarhring.

Enn hefur Gunnar Bragi Sveinsson þó undirtökin og hefur í raun treyst forustu sína þar sem framganga Péturs Blöndals er í daufara lagi og Birgir Ármannsson er nánast hættur virkri þátttöku í sýndarbikarkeppninni.

Þeim mun meiri er ánægja áhorfenda með góðan sprett formanns Framsóknarflokksins, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sem sparaði hvergi andsvörin viðfélaga sína í dag og gærkvöldi, og er nú í 3. sæti ásamt Ólöfu. Einnig er rækilega veðjað á nýtt sýndarstirni, Ásmund Einar Daðason sem hefur nú náð Vigdísi Hauksdóttur að stigum í 6. sæti.

Staðan fyrir ræðu Vigdísar um sjöleytið:

1. sæti – 21 stig: Gunnar Bragi Sveinsson, B

2. sæti – 16 stig: Pétur Blöndal, D

3.-4. sæti – 14 stig: Ólöf Nordal, D, og Sigmundur D. Gunnlaugsson, B

5. sæti – 13 stig: Unnur Brá Konráðsdóttir, D

6.-8. sæti – 12 stig: Ásmundur Einar Daðason, Sigurður Ingi Jóhannsson og Vigdís Hauksdóttir, B

9. sæti – 11 stig: Birgir Ármannsson, D

10.-11. sæti – 10 stig: Ásbjörn Óttarsson, D, og Birkir Jón Jónsson, B

Þess skal getið að þátttakendur í sýndarbikarkeppninn hafa ekki getað beitt sér að fullu í dag þar sem nokkrir stjórnarsinnar hafa legið á því lúalagi að panta andsvör við stjórnarandstæðinga, og hafa þau ýmist mjög stutt eða falla frá andsvarsréttinum þannig að keppendur fá ekki svigrúm til að sýna hvað í þeim býr. Yfir þessu var með réttu kvartað í umræðum um fundarstjórn forseta nú undir kvöld. Tekur fréttaritari á sýndarbikarkeppninni eindregið undir þær kvartanir og beinir því til viðkomandi að láta af því að trufla keppendur með stráksskap og öfund.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 12.9.2011 - 20:15 - 11 ummæli

Fær Gunnar Bragi sýndarbikarinn?

Keppnin um sýndarbikarinn ­er ótrúlega spennandi, og hafa orðið miklar sviptingar meðal alþingismanna í stjórnarandstöðu í dag. Forustan hefur þó allan daginn haldist í höndum Gunnars Braga Sveinssonar þingflokksformanns Framsóknar, sem er tveimur stigum ofar en næsti keppandi og hefur staðið sig vel í dag.

Sýndarbikarinn verður sem kunnugt er veittur þeim alþingismanni úr stjórnarandstöðu sem best stendur sig í sýndarandsvörum á septemberþinginu, þ.e. andsvörum við félaga sína úr stjórnarandstöðu um ekki neitt til að hala inn mínútur í málþófi Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks gegn flestum helstu málum septemberþingsins.

Næstur Gunnari Braga er Pétur Blöndal, en það skyggir nokkuð á frammistöðu Péturs að aðrir keppendur telja hann ekki hafa gert sér að fullu grein fyrir íþróttinni þar sem hann kunni ekki skil reyndar- og sýndarandsvara. Hafa dómnefnd borist kvartanir þar sem þess er krafist að þingmaðurinn verði dæmdur frá keppni, og verður málið tekið fyrir á næstu dægrum.

Þriðji er Birgir Ármannsson og tók mikinn sprett nú rétt fyrir kvöldmat og náði Sigurði Inga Jóhannssyni  við einlæga hrifningu áhorfenda, sem hefðu að vísu mátt vera fleiri. Þeir eru nú í þriðja sæti ex equo.  

Enn um sinn hafa karlar verið öflugri í sýndarandsvörunum nú á septemberþinginu en konur, og munar þar verulega um slaka frammistöðu Vigdísar Hauksdóttur sem hefur valdið fjölmörgum aðdáendum sínum vonbrigðum. Ólöfu Nordal tókst í kvöld að komast frammúr henni að stigum, og er þess nú beðið með óþreyju að Vigdís mæti á svæðið og geri eðlilegt tilkall til sýndarbikarins með málefnalegum frumleika sínum og orðkynngi. Koma svo, Vigdís!

Stigagjöf er þannig að fyrir veitt andsvar við samherja eru gefin tvö stig, en aðalræðumaður,sá sem fyrir andsvarinu verður fær aðeins eitt stig, þar sem hann átti ekki frumkvæði að andsvarinu.

Staða efstu manna við kvöldmatarhlé nú klukkan 19.30 var þessi:  

1. sæti, 18 stig — Gunnar Bragi Sveinsson, B

2. sæti , 16 stig – Pétur H. Blöndal, D

3.-4. sæti,  12 stig ­– Birgir Ármannsson, D, og Sigurður I. Jóhannsson, B

5. sæti, 10 stig – Birkir Jón Jónsson, B

6.-7. sæti,  9 stig – Ásbjörn Óttarsson og Ólöf Nordal, D

8. sæti, 8 stig Vigdís Hauksdóttir, B

Keppnin fer að mestu  drengilega fram en þó ber nokkuð á kvörtunum yfir framgöngu Birgis Ármannssonar sem þykir nánast ótilhlýðilega þaulsætinn og reynir að grípa tækifærið þegar aðrir stjórnarandstöðuþingmenn þurfa úr salnum til að sinna líkamlegum nauðþurftum eða sinna fyrirgreiðslu fyrir höfðingja í héraði. Einkum hefur Sigurður Ingi haft orð á þessu við mótsnefndina enda hörð keppni um þriðja sætið, sem gefur rétt til þátttöku í Evrópukeppni sýndarbikarhafa.

Frekari fréttir af sýndarbikarkeppninni um kaffileytið á morgun.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 9.9.2011 - 09:56 - 11 ummæli

Hver fær sýndarbikarinn?

Fyrir svona áratug voru tekin upp svokölluð andsvör í umræðum í þinginu – þegar ræðumaður hefur lokið máli sínu getur annar þingmaður komið strax upp með stutta spurningu eða einhverskonar álit sem hinn svo svarar, spyrjandinn kemur aftur og ræðumaður svarar aftur. Þetta þótti mikil framför. Ræðumaður getur átt von á að þurfa að standa strax fyrir einstökum staðhæfingum í máli sínu, sækja og verjast í stuttu máli. Andsvörin heppnuðust vel, gáfu færi á snörpum skoðanaskiptum nánast í samræðustíl og urðu kjörlendi fyrir rökræðu, hnippingar og jafnvel skop.

Eðli málsins samkvæmt eru það þingmenn á öndverðum meiði sem helst eigast við í andsvörum þótt þau séu líka notuð til að biðja ræðumann að skýra einstök atriði í málflutningi sínum án sérstakrar gagnrýni.

Nú hafa málþófsmeistarar stjórnarandstöðuflokkanna lagt undir sig andsvörin líka. Þegar málþæfandi er búinn að nota allan tímann sinn í ræðustólnum koma félagar hans, úr sama flokki eða þá systurflokknum, og fara í andsvör við hann. Þannig er hægt að eyða til einskis talsverðum tíma í hvert sinn. Ef fjórir koma í andsvör getur hver talað tvisvar í mínútu og ræðumaðurinn tvisvar í mínútu í hvert sinn, samtals 1 × 2 × 2 × 4 = 16 plús tíminn á rauða ljósinu og tíminn sem tekur forseta að kynna hvern ræðumann í hvert skipti – stundum rúmar tuttugu mínútur. Munar um minna þegar til dæmis tíu stjórnarandstæðingar hafa talað, þá geta andsvör tekið tíu sinnum tuttugu mínútur = 200 mínútur, og búið að eyða tíma þingsins í ekki neitt í næstum hálfa fjórðu klukkustund!

Það er einstök þolinmæðisþraut fyrir okkur hin að sitja undir þessu:

Jón Hansson, Framstæðisflokki: Virðulegi forseti. Ég vil þakka háttvirtum þingmanni Guðrúnu Jónsdóttur fyrir ræðuna sem var afar fróðleg og merkileg. Mig langar að spyrja háttvirtan þingmann hvort hún sé ekki örugglega sammála mér um það að þetta sé alveg afleitt frumvarp, og mundi eyðileggja atvinnulífið og brjóta niður lýðræðið í landinu? Ég vil svo þakka háttvirtum þingmanni aftur fyrir sína góðu ræðu og fullvissa hann um að við Framstæðismenn stöndum fast með þingmanninum og félögum hans gegn þessari duglausu ríkisstjórn.

Guðrún Jónsdóttir, Sjálfsóknarflokki: Virðulegi forseti. Ég vil þakka háttvirtum þingmanni Jóni Hanssyni fyrir mjög góða spurningu í andsvari sínu. Ég tel einmitt að hér sé á ferð alveg afleitt frumvarp. Það er enginn vafi í mínum huga að þetta frumvarp mundi í fyrsta lagi eyðileggja atvinnulífið og í öðru lagi brjóta niður lýðræðið í landinu. Ég fagna því að háttvirtur þingmaður Jón Hansson skuli taka undir þetta inntak í minni ræðu, og fullvissa hann um að við í Sjálfsóknarflokknum ætlum ekki að láta undan síga fyrir þessari duglausu ríkisstjórn.

Et cetera et cetera ad infinitum et nauseatum.

Í gærkvöldi hófst enn eitt málþóf á þinginu, númer tvö núna í september, og andsvörum beitt til hins ítrasta. Við fórum nokkur að leita að heiti á þessari sérstöku bókmenntategund, og reyndum til dæmis gerviandsvar eða sammálasvar  – en að lokum kom orðið: sýndarandsvar.

Þá eru til tvær tegundir andsvara: reyndarandsvar – sem er alvöru-andsvar, og sýndarandsvar sem er svona Er-ekki-háttvirtur-þingamaður-sammála-mér-um-æfing í pontu til að hlaða inn þingræðumínútum í boði skattborgaranna.

Og nú er gaman – því ákveðið hefur verið að í lok septemberþingsins verði þeim alþingismanni sem best hefur staðið sig í þessari nýju íþrótt veitt sérstök viðurkenning, nefnilega sýndarbikarinn, sem þessa stundina er verið að ganga frá á sama verkstæði og framleiddi fötin fyrir keisarann hans H.C. Andersens.

Einsog staðan er núna eru líklegust og hnífjöfn þau Gunnar Bragi Sveinsson, Birgir Ármannsson og Vigdís Hauksdóttir …

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 7.9.2011 - 11:03 - 8 ummæli

Árósasamningurinn í húsi

Hér á að vera hátíð hjá áhugamönnum um umhverfismál og náttúruvernd!

Árósasamningurinn um umhverfisvernd og mannréttindi verður leiddur endanlega í lög á morgun – insjalla – þegar samþykkt verða tvö frumvörp sem tryggja framgang þess af þremur meginþáttum hans sem okkur vantaði: Réttur almennings til réttlátrar málsmeðferðar vegna ákvarðana um umhverfismál, einsog það heitir nokkuð stirðlega á opinbersku – að almenningur hafi kæruleið til að skipta sér af ákvörðunum um umhverfi sitt.

Tveir aðrir meginþættir Árósasamningsins eru þegar komnir í lög, nefnilega réttur almennings til aðgangs að upplýsingum um umhverfismál, í sérstökum lögum (frá 2006, hér) og svo réttur almennings til þátttöku í umhverfisákvörðunum, sem var tryggður með því að menn geti haft sitt að segja við mat á umhverfisáhrifum (frá 2000 og 2006, hér og hér). Þessi þriðji áfangi er að því leyti merkari en hinir fyrri að núna var tekin sérstök pólitísk ákvörðun um að leiða Árósaþáttinn í lög, en í fyrri skiptin voru ríkisstjórn og stjórnarmeirihluti á þingi að hlýða leiðarlögum frá Evrópusambandinu (sem oftar kallast tilskipun í vondri þýðingu) með hangandi hendi.

Árósasamningurinn var undirritaður 1998, fyrir 13 árum, en síðan hefur fullgilding hans beðið – annarsvegar af lagatæknilegum ástæðum en hinsvegar vegna andstöðu Sjálfstæðisflokksins sem hefur staðið öndverður gegn þeim réttarbótum sem fullgilding hans ryddi braut.

Fullgilding samningsins varð þessvegna ekki að raunveruleika fyrr en með ríkisstjórn án Sjálfstæðisflokksins og þingmeirihluta án Sjálfstæðisflokksins.

Til hamingju með þetta.

Realpólitík

Við sem núna erum að landa þessum afla á þinginu erum gagnrýnd harkalega fyrir að hafa á leiðinni þynnt samninginn þannig út að hann sé „hálfur“ (Þór Saari) eða „hunsaður“ (Jónas Kristjánsson).  Mér finnst bara gott að vera skammaður fyrir þetta, að hafa gefið eftir almenna málskotsheimild, af því það var ekki auðvelt að gera. En bið menn að skoða málin með sanngirni áður en hafin eru óp og köll.    

Almenn málskotsheimild – actio popularis á latínu – átti samkvæmt frumvarpinu að gilda um þrjú afmörkuð en mikilvæg tilvik, nefnilega um:

a.   ákvarðanir Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmda, sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum og endurskoðun matsskýrslu samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum,

b.   ákvarðanir um að veita leyfi til framkvæmda sem eru matsskyldar skv. III. kafla laga um mat á umhverfisáhrifum,

c.   ákvarðanir um að veita leyfi samkvæmt lögum um erfðabreyttar lífverur til sleppingar eða dreifingar erfðabreyttra lífvera eða markaðssetningar á erfðabreyttum lífverum eða vörum sem innihalda þær.

Þessi heimild fyrir hvern sem er til að kæra (sá á sök sem vill, heitir hliðstæð regla í Grágás) er mjög í takt við meginmarkmið Árósasamningsins. Samningurinn skyldar aðildarríki sín hinsvegar ekki til að fara þessa leið, og því miður hefur hún ekki verið tekin upp hrein og tær nema í einu Evrópuríki, nefnilega í Portúgal. Víða í álfunni er réttarfari og stjórnsýslu þó þannig háttað að jafna má við að reglan gildi í tilvikum svipuðum þeim sem talin voru.

Þar sem ekki er opin kæruleið fyrir einstakling, nema hann hafi hina svokölluðu og ginnhelgu „lögvörðu hagsmuni“ – þar felst réttur almennings í því að fara sömu leið með samtökum sínum, sem geta kært án þess að hafa „lögvarða hagsmuni“. Þau samtök eru umhverfisverndar- eða útivistarsamtök á borð við Landvernd, Náttúruverndarsamtök Íslands, Sól á Suðurlandi, Græna netið – Ferðafélag Íslands, Útivist, 4×4 og svo framvegis. Til að hafa kærurétt er eingöngu gerð sú krafa  að þessi samtök séu til, það er að segja að í þeim séu félagsmenn, að þau starfi samkvæmt samþykktum, haldi aðalfund, og séu öllum opin sem áhuga hafa.

Ég tel umhverfisverndar- og útivistarsamtök ákaflega gagnlegan félagsskap, er félagsmaður í nokkrum slíkum, nýhættur formennsku í einum. Samt hef ég haldið um það miklar ræður á þingi að Íslendingar eigi að virða rétt einstaklingsins við afskipti af umhverfi sínu og alls mannkyns þessvegna – og aftur og aftur veifað Einari Ben um að nú eigi að rísa sú öld sem einliðann virðir. Mér finnst einfaldlega óeðlilegt, og alveg sérstaklega í fámenninu hér á Íslandi, að einstaklingar með meiningar og viðhorf sem eiga að komast á framfæri við stjórnsýsluna þurfi að stofna um það sérstök samtök. Röksemdir verða ekkert miklu merkilegri við að margir taki undir – ábendingar um rétt og rangt eru jafngóðar frá einum manni og milljón.

Og samt taldi ég rétt að fórna þessum ákvæðum frumvarpsins um actio popularis-regluna þegar sú leið opnaðist á mánudaginn að fá frumvörpin samþykkt möglunarlaust gegn því að láta samtakaregluna gilda um öll tilvik.

Í upphafi umræðunnar um Árósamálin á föstudag lagðist Sjálfstæðisflokkurinn gegn frumvörpunum í heild sinni og hóf málþóf  í þinginu um frumvörpin. Á mánudaginn kom hinsvegar fram breytingartillaga frá fulltrúum flokksins, Birgi Ármannssyni og Kristjáni Þór Júlíussyni, sem höfðu tekið Framsókn með sér í líki Vigdísar Hauksdóttur. Með breytingartillögunni hafði flokkurinn í raun skipt um afstöðu til málsins yfir helgina – hvort sem þingmennirnir áttuðu sig á því eða ekki – og þá varð til þetta tækifæri í þágu umhverfisverndar og mannréttinda. Mitt fólk í umhverfisnefnd var nokkuð tregt í taumi, einsog ég hefði líklega verið sjálfur í þeirra sporum, en flestir mátu það þannig að lokum, einsog ég, að mikilvægast væri að tryggja Árósafrumvörpunum greiða för um þingið.

Realpólitík. Hún er líka til í umhverfismálum. Gott að vera með geislabaug, en betra að ná árangri. Sem við þurfum svo sárlega á að halda.

Og erum að ná. Hér er listi sem ég smíðaði fyrir málefnanefnd um umhverfismál í flokknum mínum í síðustu viku, og sýnir í stikkorðastíl árangur síðustu missera í umhverfislöggjöf í samstarfi okkar og vinstri grænna, undir forystu Svandísar Svavarsdóttur, og á margt rætur í umhverfisráðherratíð Þórunnar Sveinbjarnardóttur, sem við tregum nú manna mest á þinginu:

Rammaáætlun um vernd og orkunýtingu á náttúrusvæðum, lög samþykkt, þingsályktunartillaga í kynningu.

Vatnajökulsþjóðgarður, stofnun, verndaráætlun, viðbætur.

Ný skipulags-, mannvirkja- og brunavarnalög.

Ýmsar lagabætur um úrgang og endurvinnslu.

Samræmdar landupplýsingar hjá Landmælingum ( eftir Inspire-leiðarlögum Evrópusambandsins).

Vatnastjórnarlög (eftir vatnaleiðarlögum Evrópusambandsins).

Endurbætt vatnalög á síðasta snúningi – almannaréttur tryggður.

Aðild að viðskiptakerfi ESB með losunarkvóta (ETS).

Rannsóknar- og stefnumótunarvinna í loftslagsmálum, tvær merkar skýrslur, aðgerðaáætlun samþykkt í kjölfarið.

Lög um umhverfisábyrgð (frumvarp tilbúið í 2. umræðu) – mengunarbótareglan kirfilega inn í íslenskan umhverfisrétt.

Árósasamningurinn (fullgilding samþykkt) og lög um endanlega lögleiðingu hans með auknum rétti almennings til áhrifa á umhverfisákvarðanir.

Hálft og hunsað?

(Árósafrumvörpin eru hér og hér, líka nefndarálit meiri- og minnihluta, og umræða um þetta á þinginu —  þar á meðal nokkuð góð framsöguræða formanns umhverfisnefndar í upphafi 2. umræðu á föstudaginn.)

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 17.8.2011 - 11:20 - 8 ummæli

Til varnar vatnalögum

Fyrir okkur mörgum sem teljum okkur umhverfissinna og náttúruverndarmenn er Guðmundur Páll Ólafsson nánast einsog heilagur maður. Svo þarft verk hefur hann unnið við að kynna íslenska náttúru og andæfa eyðingaröflum sem á hana herja.

Þessvegna bregður mér þegar Guðmundur Páll sker í dag upp herör gegn vatnalagafrumvarpi Katrínar Júlíusdóttur (Fréttablaðinu, bls. 14). Ekki síst vegna þess að í dag skilar umhverfisnefnd alþingis, og þarmeð formaður hennar, yðar einlægur – jákvæðu áliti um þetta frumvarp til þeirra sem nú fara með málið á þinginu, sem eru þingmenn í iðnaðarnefnd. Við leggjum vissulega til ýmsar breytingar, í samræmi við ágætar umsagnir frá meðal annars Umhverfisstofnun, Náttúrufræðistofnun, heilbrigðiseftirlitunum og Aagot Vigdísi Óskarsdóttur lögfræðingi, einum helsta sérfræðingi okkar á þessu sviði – en erum í heildina sátt við frumvarpið og teljum að það dugi vel til að framlengja hin gömlu og góðu vatnalög frá 1923 þangað til hægt verður að fást við vatnamálin öll á nýjum grunni. Það sem nú vantar fyrst og fremst eru stjórnarskrárákvæði um sameign á helstu auðlindum og um almannarétt, plús almenn stefnuprinsipp um meðferð allra auðlindanna og siðlega náttúruvernd.

Frumvarpið sem vonandi verður afgreitt núna í september snýr við stefnu fyrri stjórnarflokka í lögunum frá 2006 – deilulögunum miklu sem við börðumst gegn af eldmóði, GPÓ, ég og miklu miklu fleiri. Eignarréttur á vatni verður samur og ákveðinn var 1923 – landeigendur nýta vatn á fasteign sinni með tilteknum hætti sem lýst er með sérstökum lagaákvæðum, að öðru leyti gildir almannaréttur. Þetta er kallað jákvæð skilgreining einkaeignaréttarins/nýtingarheimildanna – en þeir Davíð og Halldór samþykktu 2006 svokallaða neikvæða skilgreiningu, þar sem eignarréttur landeigenda og nytjaréttur var algjör nema lögin kvæðu sérstaklega á um annað.

Í greinargerð með frumvarpinu segir svo að með endurskoðun á öðrum lögum eigi að koma í nýtt horf lagaákvæðum um grunnvatn, sem árið 1998 var illu heilli flokkað með mó, kolum, málmum og öðru námutæku verðmæti sem einkaeign landeigandans.

Í Fréttablaðsgreininni finnur Guðmundur Páll það fyrst og fremst að frumvarpinu að þar sé fátt sagt um vatnsvernd. Það er út af fyrir sig alveg rétt. En þá gleymist að nú í vor, 7. apríl, voru samþykkt sérstök vatnsverndarlög, lögin um stjórn vatnamála (36/2011), þar sem innleidd er langþráð vatnatilskipun Evrópusambandsins. Flutningsmaður Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra. Þau lög eiga vissulega eftir að komast í framkvæmd – en þessi lög tvenn eru héðan í frá óaðskiljanleg, önnur um vatnsvernd og vatnastjórn, hin um nýtingu vatns og rétt landeigenda og almennings til vatns.

Ég er vanur að hlusta þegar Guðmundur Páll Ólafsson tekur til máls, og ætla að halda því áfram. Okkur hinum dauðlegu færir greinin í Fréttablaðinu hinsvegar þá huggun í amstri dagsins að jafnvel heilagir menn geta skriplað á skötunni.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 15.8.2011 - 15:05 - 10 ummæli

Keyptur formannsstóll

Bjarni Benediktsson tilkynnti núna um helgina að hann yrði einn í kjöri þegar valinn verður formaður Sjálfstæðisflokksins á landsfundinum í haust.

Við sama tækifæri tilkynnti hann þau nýju viðhorf sín að Íslendingar ættu að draga til baka aðildarumsóknina að Evrópusambandinu. Í leiðinni hafnaði formaður Sjálfstæðisflokksins evrunni sem framtíðargjaldmiðli íslenska hagkerfisins.

Bjarni sagði auðvitað ekkert um stöðu ríkisins innan Efnahagssvæðis Evrópu, og enn minna um aðrar hugsanlegar lausnir í gjaldeyrismálum. Þess þurfti heldur ekki. Öllum er ljóst samhengið milli tilkynninganna tveggja í ræðu Bjarna.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 11.8.2011 - 19:50 - 13 ummæli

Bakkabræður veiða hval

Bakkabræður pössuðu sig að ávarpa hver annan alltaf með öllum þremur nöfnum sínum af því þeir voru aldrei alveg vissir hver var hver. Gísli, Eiríkur, Helgi. Eitthvað sérlega íslenskt við þetta. Við erum einmitt ekki alveg klár á hver er hver og hvað er hvers.

Í dag var haldinn fundur þriggja þingnefnda um síðasta fund Alþjóða-hvalveiðiráðsins – þegar íslenska sendinefndin gekk út með öðrum fylgiþjóðum Japana til að koma í veg fyrir að hægt væri að ganga til atkvæða um griðasvæði hvala í Suðurhöfum.

Það er víst ekki til siðs að birta nákvæma frásögn af svona fundi, en hann hefði sannarlega átt skilið að vera í beinni útsendingu. Sjávarútvegsráðherra grænu vinstri stjórnarinnar fékk einróma stuðning stjórnarandstæðinga fyrir framgöngu sinna manna í hvalveiðiráðinu, þeim mun eindregnari sem lengra dró til hægri í hópi stjórnarfjenda. Hérumbil allir stjórnarsinnar sem til máls tóku, ábyrgðarmenn sjávarútvegsráðherrans á valdastóli, spurðu hinsvegar hvassra spurninga um hegðun sendinefndarinnar á fundinum í Jersey og um samhengið í hvalveiðistefnu ráðherrans.

Þeir sem töluðu af hálfu gesta voru Jón Bjarnason, Tómas Heiðar og Jóhann Sigurjónsson. Aðalgestur fundarins, sjálfur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sagði eins lítið og hann gat. Embættismaðurinn, formaður íslensku sendinefndarinnar í Jersey, talaði mest og brá sér óhikað í gervi vísinda- og fræðimanns um hvalastofna og heimsviðskipti. Og vísindamaðurinn talaði líka, forstjóri Hafrannsóknastofnunarinnar, en aðallega einsog pólitíkus.

Gísli, Eiríkur og Helgi.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 12.7.2011 - 10:03 - 18 ummæli

Fyrsta vindmyllan!

Rokið – helsta auðlind Íslands? Það er að vísu nokkuð langt í að sá draumur rætist en allt í lagi að láta sig dreyma eftir sögulega stund á laugardaginn þegar Haraldur orkubóndi Magnússon á Belgsholti í Melasveit vígði fyrstu vindmylluna sem tengist rafkerfinu, og byrjaði þarmeð að selja rafmagn úr rokinu vestan Hafnarfjalls.

Þetta er talsvert mannvirki og sést vel af hringveginum, þrír spaðar og snerust glatt í gjólunni á laugardag. Þarna er sífelldur vindur, einsog víðar við strendurnar, og lítil hætta á að tækið stöðvist. Afköstin 30 kílóvött, en til heimanota fara um 11 kílóvött þannig að sirka 20 kaupir Rarik. Og nú geta landsmenn að fylgst með öllum gangi vindorkumála í Belgsholti á netinu (hér), á samvinnuvef Belghyltinga og Orkusetursins á Akureyri þar sem nýorkumál eru í öndvegi.

Það var skemmtileg íslensk sveitagleði þarna á laugardaginn, fólk úr sveitinni og ættinni og vinahópnum, frá stofnunum og fyrirtækjum sem þau Haraldur og Sigrún hafa haft samstarf við um þetta –  yðar einlægur var þarna meðal annars í hlutverki stjórnarformanns í Orkusjóði sem styrkti verkefnið á fyrri stigum – og veitingar voru úr búskapnum sjálfum: Bakkelsi og bjór úr heimaræktuðu byggi. Nokkur óhátíðleg ávörp við mastrið og svo settu þrír afastrákar vindmylluna af stað.

Nokkrir gesta og heimamanna tóku myndir (hér, myllan sjálf í gangi hér) en þarna voru af einhverjum ástæðum engar sjónvarpsvélar og fátt um fjölmiðlamenn, sem vekur furðu á miðri gúrkutíð. Ekki síst vegna þess að eftir nokkra áratugi kynni þetta húllumhæ í Melasveitinni að teljast einn merkasti fréttaviðburður sumarsins, að minnsta kosti í orku- og umhverfismálum.

Fyrst þarf auðvitað að bíða og sjá hvernig Belgsholtsmyllan stendur sig, en mér skilst að nokkur fjöldi bænda og landeigenda sé í startholunum að hefja viðlíka búskap, sem vel gæti orðið þokkalegur hluti af raforkuframleiðslu í sveitum þegar fram í sækir. Tölur að utan um kostnað við stórfellda orkuframleiðslu  benda ekki til þess í bili að vindorkan verði samkeppnisfær við aðra kosti hér í almennri sölu, hvað þá stóriðjusölu. Ég hef samt á tilfinningunni að forustumenn í orkuiðnaði hérlendis hafi verið nokkuð fljótir á sér að afgreiða vindinn sem vitleysu. Það er allt á fleygiferð í þessum málum í heiminum, og dæmið er þegar orðið verulega miklu hagstæðara í nýjum risa-vindmyllum í Evrópu en fyrir bara nokkrum árum.

Gleymum því ekki að það er nýkominn feikilegur kraftur í allar rannsóknir og tækniþróun eftir slysið mikla í Japan – og það er alveg óhætt að gera ráð fyrir að ákvörðun Angelu Merkel og þýsku stjórnarflokkanna (í hægristjórn!) um að yfirgefa kjarnorkuna verði sá dropi sem mælinn fyllir og kemur af stað raunverulegum orkuskiptum í okkar heimshluta. Þýskaland er helsta forusturíki Evrópusambandsins – og þeir hafa töluverða reynslu af stórframkvæmdum Þjóðverjar, síðast var það sameiningin, þar áður tvær heimstyrjaldir, að ógleymdri iðnbyltingunni, heimspekinni, tónlistinni … þannig að líklega taka þeir „die Wende“ í fullri alvöru.

Einn ræðumanna við vindmylluvígsluna í Belgsholti minnti á að allir þekktu Neil Armstrong en enginn myndi eftir því hver var númer tvö á tunglið. Það er samt aldrei að vita nema númer tvö í vindmyllunum á Íslandi gæti fest í minni landans. Ef Landsvirkjun vinnur sín verk af viti.

Það á að gera. Umræður um orkukosti og umhverfismál að undanförnu sýna ágætlega að við erum á krossgötum í þessu ferðalagi, engu síður en Þjóðverjar þótt með öðrum hætti sé. Orkulindir vatns og jarðhita eru ekki óþrjótandi á Íslandi og umhverfiskröfur aukast í sífellu. Einnig hreinir viðskiptahagsmunir sífellt mikilvægari atvinnugreinar, ferðaþjónustunnar. Líka þessvegna kann vindmylluvígslan í Belgsholti að vera merkari viðburður en nú er talið á fréttastofum Stöðvar tvö og Rúvs.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 8.7.2011 - 16:44 - 14 ummæli

Gott hjá Össuri

Össur Skarphéðinsson hefur heitið stuðningi Íslendinga við fyrirhugaða umsókn Palestínuríkis um aðild að Sameinuðu þjóðunum á allsherjarþinginu í september. Þetta er mikilvægt framlag af okkar hálfu við baráttu Palestínumanna fyrir mannsæmandi lífi og sjálfstæðu ríki á heimaslóðum sínum. Ýmsar ríkisstjórnir Evrópuríkja hafa þegar heitið stuðningi við málið – í trássi við Bandaríkjastjórn sem sífellt heldur hlífiskildi yfir apartheid-kerfinu í Ísrael, og stuðningur Íslendinga skiptir sannarlega máli í þeim kapal.

Stefna Abbasar Palestínuforseta um formlegt sjálfstæði nú er nánast örþrifaráð til að koma hlutunum á hreyfingu suður þar – og það er auðvelt  að hafa þær mótbárur uppi að ríkið er enganveginn sjálfstætt hvað sem aðild að SÞ líður. Sú aðild yrði fyrst og fremst táknræn – en táknin skipta líka óvenjulega miklu máli í stjórnmálum Miðausturlanda.

Ég fór til Palestínu fyrsta sinni í ferðahópi með Jóhönnu Kristjónsdóttur í fyrrahaust. Það var sannarlega merkileg upplifun – tvöföld eiginlega, því óvíða rennur saman jafn-einkennilega saga og nútími. Ferðalangur er eiginlega í þremur löndum í senn, í Palestínu og í Ísrael og svo í Landinu helga sem við kynntumst í barnaskóla og á biblíumyndunum. Og í slíkri ferð á maður alveg endilega að hafa með sér bók bóka og fletta á víxl upp í Gamla testamentinu og því nýja: Höfuðskeljastaður, og Getsemanegarður þar sem postularnir sofnuðu, og samverska konan með lifandi vatnið og Jeríkó þar sem lúðurinn glumdi, rétt hjá fjallinu þar sem okkar manni voru boðin öll ríki veraldar …

Við komumst ekki á Gasaströndina, en þrátt fyrir augljósa vankanta á samfélagi Palestínumanna á vesturbakkanum varð maður eiginlega mest hissa á því að á þeim var allsekkert fararsnið. Þeir búa í borgum sínum og þorpum – við gistum í sjálfri Betlehem – en minna í sveitunum sem Ísraelsmenn hrifsa til sín smám saman – en þarna er fullkomlega arabískt land, með palestínskum sérkennum auðvitað en meira og minna einsog í grannríkjunum, hluti annars menningarheims en Ísrael vill standa fyrir. Pattstaðan og ofríki nágrannans dregur úr Palestínum efnahagslegan mátt en þetta  er duglegt fólk og vel menntað – og ekki í neinum uppgjafarhugleiðingum.

Myndir (hér og hér!) sem okkur berast af utanríkisráðherranum í ferðinni sýna að Mister Skarphéðinsson er greinilega í essinu sínu meðal Palestínumanna, að láta vel að börnum og ræða við kallana við höfnina. Félagi Össur hefur gert til Palestínu góða reisu sem er bæði honum og okkur til sóma.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 6.7.2011 - 10:13 - 15 ummæli

Fundur um keisarans skegg

„Össur standi fyrir máli sínu“ er fyrirsögn Vísis.is á frétt um að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hafi krafist fundar í utanríkismálanefnd þingsins þar sem Össur á … að standa fyrir máli sínu.

Það er orðinn siður stjórnarandstöðuþingmanna að krefjast fundar í aðskiljanlegum þingnefndum þegar þeir þurfa að komast í blöðin. Svo heyrist yfirleitt minna í þeim þegar fundurinn hefur verið haldinn, enda tilganginum náð með fyrstu fréttinni.

En fyrir hvaða máli á Össur Skarphéðinsson að standa gagnvart Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni? – spyr maður við þennan fréttaflutning. Á að hafa heilan fund um mitt sumar til að Össur og Sigmundur Davíð spjalli um það hvort lausn sem við getum unað við í sjávarútvegsmálum heitir undantekning eða sérlausn?

Og við sem héldum að það sem öllu skipti væri að ná fram markmiðum okkar í sjávarútvegsmálum í þessum viðræðum! – og ekki hvað þau eru kölluð í Brussel eða í höfuðstöðvum Framsóknarflokksins við Hverfisgötu.

Það markmið okkar að stjórna áfram veiðum við Íslandsstrendur eftir aðild að Evrópusambandinu er fullkomlega raunhæft þótt búast megi við snarpri andstöðu helstu fiskveiðiríkja innan ESB. Fordæmin eru þegar til – svo sem sjálfstjórnarsvæðið kringum Möltu og ýmsar ámóta lausnir hjá ESB-ríkjum með sérstöðu á ákveðnum sviðum, þar á meðal „heimskauts-“landbúnaður Svía og Finna.

Svo vill til að orðið undantekning er ekki vel séð innan Evrópusambandsins. Engar eiginlegar undantekningar eru til frá grunnprinsippum í sáttmálum þess – svipað og við líðum engar eiginlegar undantekningar frá prinsippum í stjórnarskrá okkar. Hinsvegar er mannlífið flókið, og stjórnmálalífið líka, og víða þarf sérstakar lausnir vegna sérstakra aðstæðna, tímabundnar eða viðvarandi. Það er líka þannig í ESB að hver nýr aðildarsamningur er viðbót við grunnreglur sambandsins, og ,undantekningarʻ sem þar kann að semjast um verða hluti af lagaverkinu öllu.  

Þetta veit Sigmundur Davíð ágætlega, en nú þykir honum rétt að nýta gúrkutíðina og fylgja eftir stórkostlegri fylgisaukningu Framsóknarflokksins í einni Gallup-könnun með því að herða ennþá frekar á pópúlismanum í flokkslínunni. Og ekki verra að berja enn betur á ESB-fylgismönnum innanflokks.

Endilega halda fundinn þar sem Össur verður látinn „standa fyrir máli sínu“. En þá verður fundurinn að vera opinn – þannig að landslýður allur geti fylgst með samtali þeirra Össurar og Sigmundar Davíðs um Evrópusambandsins orðfræðilegu kategóríur og um Framsóknarkeisarans skegg.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur