Hér á að vera hátíð hjá áhugamönnum um umhverfismál og náttúruvernd!
Árósasamningurinn um umhverfisvernd og mannréttindi verður leiddur endanlega í lög á morgun – insjalla – þegar samþykkt verða tvö frumvörp sem tryggja framgang þess af þremur meginþáttum hans sem okkur vantaði: Réttur almennings til réttlátrar málsmeðferðar vegna ákvarðana um umhverfismál, einsog það heitir nokkuð stirðlega á opinbersku – að almenningur hafi kæruleið til að skipta sér af ákvörðunum um umhverfi sitt.
Tveir aðrir meginþættir Árósasamningsins eru þegar komnir í lög, nefnilega réttur almennings til aðgangs að upplýsingum um umhverfismál, í sérstökum lögum (frá 2006, hér) og svo réttur almennings til þátttöku í umhverfisákvörðunum, sem var tryggður með því að menn geti haft sitt að segja við mat á umhverfisáhrifum (frá 2000 og 2006, hér og hér). Þessi þriðji áfangi er að því leyti merkari en hinir fyrri að núna var tekin sérstök pólitísk ákvörðun um að leiða Árósaþáttinn í lög, en í fyrri skiptin voru ríkisstjórn og stjórnarmeirihluti á þingi að hlýða leiðarlögum frá Evrópusambandinu (sem oftar kallast tilskipun í vondri þýðingu) með hangandi hendi.
Árósasamningurinn var undirritaður 1998, fyrir 13 árum, en síðan hefur fullgilding hans beðið – annarsvegar af lagatæknilegum ástæðum en hinsvegar vegna andstöðu Sjálfstæðisflokksins sem hefur staðið öndverður gegn þeim réttarbótum sem fullgilding hans ryddi braut.
Fullgilding samningsins varð þessvegna ekki að raunveruleika fyrr en með ríkisstjórn án Sjálfstæðisflokksins og þingmeirihluta án Sjálfstæðisflokksins.
Til hamingju með þetta.
Realpólitík
Við sem núna erum að landa þessum afla á þinginu erum gagnrýnd harkalega fyrir að hafa á leiðinni þynnt samninginn þannig út að hann sé „hálfur“ (Þór Saari) eða „hunsaður“ (Jónas Kristjánsson). Mér finnst bara gott að vera skammaður fyrir þetta, að hafa gefið eftir almenna málskotsheimild, af því það var ekki auðvelt að gera. En bið menn að skoða málin með sanngirni áður en hafin eru óp og köll.
Almenn málskotsheimild – actio popularis á latínu – átti samkvæmt frumvarpinu að gilda um þrjú afmörkuð en mikilvæg tilvik, nefnilega um:
a. ákvarðanir Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmda, sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum og endurskoðun matsskýrslu samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum,
b. ákvarðanir um að veita leyfi til framkvæmda sem eru matsskyldar skv. III. kafla laga um mat á umhverfisáhrifum,
c. ákvarðanir um að veita leyfi samkvæmt lögum um erfðabreyttar lífverur til sleppingar eða dreifingar erfðabreyttra lífvera eða markaðssetningar á erfðabreyttum lífverum eða vörum sem innihalda þær.
Þessi heimild fyrir hvern sem er til að kæra (sá á sök sem vill, heitir hliðstæð regla í Grágás) er mjög í takt við meginmarkmið Árósasamningsins. Samningurinn skyldar aðildarríki sín hinsvegar ekki til að fara þessa leið, og því miður hefur hún ekki verið tekin upp hrein og tær nema í einu Evrópuríki, nefnilega í Portúgal. Víða í álfunni er réttarfari og stjórnsýslu þó þannig háttað að jafna má við að reglan gildi í tilvikum svipuðum þeim sem talin voru.
Þar sem ekki er opin kæruleið fyrir einstakling, nema hann hafi hina svokölluðu og ginnhelgu „lögvörðu hagsmuni“ – þar felst réttur almennings í því að fara sömu leið með samtökum sínum, sem geta kært án þess að hafa „lögvarða hagsmuni“. Þau samtök eru umhverfisverndar- eða útivistarsamtök á borð við Landvernd, Náttúruverndarsamtök Íslands, Sól á Suðurlandi, Græna netið – Ferðafélag Íslands, Útivist, 4×4 og svo framvegis. Til að hafa kærurétt er eingöngu gerð sú krafa að þessi samtök séu til, það er að segja að í þeim séu félagsmenn, að þau starfi samkvæmt samþykktum, haldi aðalfund, og séu öllum opin sem áhuga hafa.
Ég tel umhverfisverndar- og útivistarsamtök ákaflega gagnlegan félagsskap, er félagsmaður í nokkrum slíkum, nýhættur formennsku í einum. Samt hef ég haldið um það miklar ræður á þingi að Íslendingar eigi að virða rétt einstaklingsins við afskipti af umhverfi sínu og alls mannkyns þessvegna – og aftur og aftur veifað Einari Ben um að nú eigi að rísa sú öld sem einliðann virðir. Mér finnst einfaldlega óeðlilegt, og alveg sérstaklega í fámenninu hér á Íslandi, að einstaklingar með meiningar og viðhorf sem eiga að komast á framfæri við stjórnsýsluna þurfi að stofna um það sérstök samtök. Röksemdir verða ekkert miklu merkilegri við að margir taki undir – ábendingar um rétt og rangt eru jafngóðar frá einum manni og milljón.
Og samt taldi ég rétt að fórna þessum ákvæðum frumvarpsins um actio popularis-regluna þegar sú leið opnaðist á mánudaginn að fá frumvörpin samþykkt möglunarlaust gegn því að láta samtakaregluna gilda um öll tilvik.
Í upphafi umræðunnar um Árósamálin á föstudag lagðist Sjálfstæðisflokkurinn gegn frumvörpunum í heild sinni og hóf málþóf í þinginu um frumvörpin. Á mánudaginn kom hinsvegar fram breytingartillaga frá fulltrúum flokksins, Birgi Ármannssyni og Kristjáni Þór Júlíussyni, sem höfðu tekið Framsókn með sér í líki Vigdísar Hauksdóttur. Með breytingartillögunni hafði flokkurinn í raun skipt um afstöðu til málsins yfir helgina – hvort sem þingmennirnir áttuðu sig á því eða ekki – og þá varð til þetta tækifæri í þágu umhverfisverndar og mannréttinda. Mitt fólk í umhverfisnefnd var nokkuð tregt í taumi, einsog ég hefði líklega verið sjálfur í þeirra sporum, en flestir mátu það þannig að lokum, einsog ég, að mikilvægast væri að tryggja Árósafrumvörpunum greiða för um þingið.
Realpólitík. Hún er líka til í umhverfismálum. Gott að vera með geislabaug, en betra að ná árangri. Sem við þurfum svo sárlega á að halda.
Og erum að ná. Hér er listi sem ég smíðaði fyrir málefnanefnd um umhverfismál í flokknum mínum í síðustu viku, og sýnir í stikkorðastíl árangur síðustu missera í umhverfislöggjöf í samstarfi okkar og vinstri grænna, undir forystu Svandísar Svavarsdóttur, og á margt rætur í umhverfisráðherratíð Þórunnar Sveinbjarnardóttur, sem við tregum nú manna mest á þinginu:
Rammaáætlun um vernd og orkunýtingu á náttúrusvæðum, lög samþykkt, þingsályktunartillaga í kynningu.
Vatnajökulsþjóðgarður, stofnun, verndaráætlun, viðbætur.
Ný skipulags-, mannvirkja- og brunavarnalög.
Ýmsar lagabætur um úrgang og endurvinnslu.
Samræmdar landupplýsingar hjá Landmælingum ( eftir Inspire-leiðarlögum Evrópusambandsins).
Vatnastjórnarlög (eftir vatnaleiðarlögum Evrópusambandsins).
Endurbætt vatnalög á síðasta snúningi – almannaréttur tryggður.
Aðild að viðskiptakerfi ESB með losunarkvóta (ETS).
Rannsóknar- og stefnumótunarvinna í loftslagsmálum, tvær merkar skýrslur, aðgerðaáætlun samþykkt í kjölfarið.
Lög um umhverfisábyrgð (frumvarp tilbúið í 2. umræðu) – mengunarbótareglan kirfilega inn í íslenskan umhverfisrétt.
Árósasamningurinn (fullgilding samþykkt) og lög um endanlega lögleiðingu hans með auknum rétti almennings til áhrifa á umhverfisákvarðanir.
Hálft og hunsað?
(Árósafrumvörpin eru hér og hér, líka nefndarálit meiri- og minnihluta, og umræða um þetta á þinginu — þar á meðal nokkuð góð framsöguræða formanns umhverfisnefndar í upphafi 2. umræðu á föstudaginn.)