Fimmtudagur 02.07.2009 - 09:51 - Rita ummæli

Meira tuð um þrískiptingu valds.

Núna tala margir um að við þurfum breytingar. Nýtt fólk með nýja sýn og ný viðhorf. Við þurfum gagnsæi og upplýsingar. Opna umræðu og heiðarleika. Við viljum ekki leynd og pukur lengur. Við viljum öðruvísi stjórnmál og öðruvísi fólk til að stjórna. Nýtt Ísland. Auðvitað…

Þetta er allt gott og blessað og við getum flest skrifað undir þetta. En hvernig viljum við ná þessu fram? Það hlýtur að vera spurningin. Viljum við kjósa upp á nýtt og skipta út persónum og leikendum? það er aðferð sem er alkunn og hefur ekki dugað algerlega til. Getur verið að við þurfum að breyta systeminu svo að hin nýja hugsun og hin nýju viðmið njóti sín?

Við erum enn einu sinni að horfa upp á framkvæmdvaldið traðka á löggjafanum í kringum Icesave málið. Við erum í raun hætt að taka eftir þessu. Í vetur varð þingmanni það á að vilja frekari upplýsingar um mál frá ríkisstjórn til að geta gert upp hug sinn og hann var úthrópaður fyrir vikið. Þvílík ósvinna. Hann þvældist fyrir framkvæmdavaldinu!

Löggjafinn á að vera framkvæmdavaldinu aðhald. Þingmenn eru kosnir til þess að setja lög. Þeir eiga ekki að sitja í ríkisstjórn á sama tíma. Af hverju er flókið að breyta þessu? Þingmenn þurfa að gerast hálfgerðir liðhlaupar til þess að geta fylgt sannfæringu sinni frá einum tíma til annars eins og staðan er í dag. Framkvæmdavaldið ræður þessu öllu.

Það ákveður hvernig reglurnar skulu vera og framfylgir þeim svo. Er báðu megin borðs. Er það heilbrigt? Svoleiðis þykir ekki fínt í viðskiptalífinu en eigum við að sætta okkur við það í stjórnmálunum? Nei segi ég. Og burt með framkvæmdavaldið úr þinginu. Ráðherrar setja ekki lög. Hvusrlags dónaskapur er það gagnvart löggjafanum að framkvæmdavaldið geti bara haldið mikilvægum upplýsingum frá þinginu eins og gerist ítrekað í Icesave farsanum? Lýðræðinu og þingræðinu er nauðgað aftur og aftur og við rífumst um dægurmál á meðan.

Breytum grundvallarreglunum því að þar liggur vandinn að stórum hluta. Notum tækifærið núna þegar jarðvegurinn er frjór og tökum til í rótinni. Þrískipting valds er ekki léttvægt atriði. Núna er hrópað á nýtt siðferði á torgum.

Frá mínum bæjardyrum séð er siðlaust að framkvæmdavaldið meðhöndli löggjafann eins og við sjáum endurtekið reglulega.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og sex? Svar:

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur