Fimmtudagur 09.09.2010 - 17:23 - Rita ummæli

Upp er komin undarleg og erfið staða í fótboltanum. KR hefur komist að þeirri niðurstöðu að ákveðnum dómara sé ekki treystandi vegna tengsla hans við FH en þessi félög eru að slást um titilinn í afar spennandi lokaumferðum.

Þessi umræddi dómari dæmdi reyndar bikarúrslitaleik sem KR tapaði fyrir FH og þar varð honum það á að dæma tvær vítaspyrnur á KR, réttilega að mínu mati, og því gleyma röndóttir illa. Og nú á hann að dæma risaleik í næstu umferð hjá KR.

Þarna eru nokkur sjónarmið áhugaverð. Dómaranefnd KSÍ velur að sjálfsögðu dómara en ekki félögin sjálf. Það er grundvallaratriði sem ekki má hvika frá. Þegar KR tekur málið upp opinberlega er endanlega úr sögunni að færa til dómara hafi sá möguleiki verið fyrir hendi á einhverjum tímapunkti. þar ræður fordæmisgildið mestu…

KR treystir dómaranefnd KSÍ ekki til þess að meta hlutgengi dómara. Besta leiðin og sú sem fagmannlegust er og best fyrir bransann í heild er að gera sínar athugasemdir við þá sem raða dómurum og treysta þeirra fagmennsku sem byggist á hlutleysi.

Ákvörðunin um að gera málið opinbert á þessu stigi einkennist af ójafnvægi og verður engum til góðs. Mér finnst þarna tekin ákvörðun um að una ekki úrskurði hlutlausra fagaðila og fara með málið fyrir dómstól götunnar.

Fyrir þeim dómstóli gilda engin rök. Þar hafa menn skoðanir eftir því með hverjum þeir halda. Ég hef ekki trú á þannig vinnubrögðum og sé ekki hvernig KR eða KSÍ á að geta fengið vinningsstöðu í þessum leik.

Röggi

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og fimm? Svar:

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur