Fimmtudagur 03.03.2011 - 11:57 - Rita ummæli

Í aðdraganda síðustu kosninga komu ótrúlega margir Sjálfstæðismenn að máli við mig og voru flokknum reiðir. Vildu refsa honum í viðleitni til að gera flokkinn að betra stjórnmálaafli. Ég hafði og hef ákveðna samúð með þeirri hugsun í sjálfu sér þó ég hafi þá þegar bent þessu fólki á að aðferðin sem stóð til að nota væri fráleit.

Vissulega hafa yngri kjósendur það sér til málsbóta þegar þeir kjósa yfir sig hreinræktaða vinstri stjórn að hafa ekki haft slíka stjórn yfir sér áður. Nú eru áróðursmeistarar til vinstri að hefja herferð til að selja okkur það að hér sé allt að rétta sig við með batnandi tíð með blóm í haga. Vissulega hlaut eitthvað að hjarna við hjá okkur og það þrátt fyrir þessa hörmulega ríkisstjórn.

Við búum vel í fjármálaráðherra sem telur bensinhækkunina gott mál enda dragi með henni úr notkun á bensíni. Hvað þýðir svona tal? Hvað þarf til að koma hjólum atvinnulífs af stað? Hvað er hagvöxtur?

Við sem lifum ekki við þau fríðindi að fá frítt eldsneyti og búum ekki öll nærri okkar vinnustað þurfum hvað sem tautar og raular að nota bílinn okkar. Nú þegar skattaofbeldið er okkur flest að kæfa hefur lund Steingríms sjaldan risið hærra.

VG fagnar líka í hvert skipti sem tekst að koma í veg fyrir orkufrekan iðnað. Vinir nátturunnar með ofstækismanninn Andra Snæ sem heldur að við lifum ölla af því að borga honum listamannalaun fagnar ákaft og þetta fólk heldur áfram að selja okkur það að orkufrekur iðnaður þýði alltaf náttúruspjöll.

Ég bið í ofvæni eftir því að „eitthvað annað“ átakinu verði hrint í framkvæmd. Það verður bráðhollt og atvinnuskapandi og alveg víst að engin erlend fyrirtæki muni græða þar um leið og við. Engir „peningamenn“ eins og hinn sjálfumglaði rithöfundur kýs að kalla þá sem starfa við iðnað en ekki bóksölu.

Ég nenni ekki að halda því fram að allt í hugmyndafræði hægri mann sé fullkomið né heldur að ekki hafi verið gerð mistök í tíð Sjálfstæðisflokksins. En ég held því bísperrtur fram að sú stefna sem við keyrum á núna er í grunninn ónýt í góðæri og beinlínis hættuleg í hallæri.

Hættum að rífast um Icesave og ESB enda eru það mál sem eru í farvegi hvort sem mönnum líkar það betur eða verr. Tölum um efnhagsmál því þau eru mál málanna núna.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og sex? Svar:

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur