Þriðjudagur 08.11.2011 - 20:01 - 4 ummæli

Helgi Hjörvar og rökræðan

Helgi Hjörvar þingmaður Samfylkingar sem helst hefur unnið sér það til frægðar að senda Geir Haarde til landsdóms þrasaði við Bjarna Ben um efnahagsmál í þinginu í dag. Helgi er afsprengi morfísrökræðulistarinnar og getur verið skratti skemmtilegur þegar sá gállinn er á honum.

Helgi barmar sér undan tillögum Sjálfstæðisflokksins í skattamálum að mér virðist á þeim forsendum helstum að sá flokkur hafi verið í ríkisstjórn þegar allt hrundi. Helgi Hjörvar man auðvitað alls ekki að hann var sjálfur hluti af þeirri ríkisstjórn. Það er að verða plagsiður Samfylkingar að reyna að skjótast undan því að vera í þeim ríkisstjórnum sem flokkurinn er þó sannarlega í.

Gagnrýni Helga á tillögur Sjálfstæðisflokksins um skattalækkanir er ekki útbúin neinum rökum heldur miklu frekar gömlum tuggum um að eina leiðin út úr kröggunum sé að skattleggja allt upp í topp. Helgi hirðir að öðru leyti ekki um að svara því hvers vegna skattalækkanir myndu koma heimilum og atvinnulífi illa nú þegar allt efnahagslíf þjóðarinnar er að beinfrjósa.

Skattahækkanir og stórmagnað hugmyndaflug við smíði nýrra skatta auk vaxtahækkana Más Guðmundssonar klæðskerasaumaðs seðlabankstjóra Jóhönnu Sigurðardóttur er einungis að skemmta AGS og ríkisstjórn sem keppast svo við að gefa hvort öðru toppeinkunn fyrir allt saman. Magnað skjallbandalag þar á ferð og helstu klappstýrur eru kröfuhafar og vogunarsjóðir.

Ég reyni ekki að þræta fyrir það að okkur hefur miðað áfram frá hruni en held því fram að það sé ekki vegna ríkisstjórnarinnar hans Helga Hjörvars heldur þrátt fyrir hana.

Ekki er mikið gefandi fyrir rökræður um tillögur í efnhags og skattamálum sem snúast einungis um það hvaðan þær koma en í engu um það sem þær geta falið í sér. Ef Helgi Hjörvar og hans fólk réði yrðu skattar aldrei lækkaðir alveg óháð því hvort tekjur ríkissins af skattheimtunni minnki í réttu hlutfalli við aukna ásókn í launin okkar eða stöðu þjóðarbúsins í stóru eða smáu.

Helgi Hjörvar trúi því nefnilega að besta leiðin til að örva atvinnulíf og einkaneyslu sé að Steingrímur fá launin okkar að stærstum hluta til úthlutunar að smekk áður en okkur tekst að nota þau til þess að örva hagvöxt í gegnum neyslu með tilheyrandi auknum skatttekjum.

Svona er heimsmynd Helga Hjörvars þegar kemur að skattamálum. Þegar ríkið þarf aura skal það ekki gert þannig að fólki sé hvatt til neyslu sem skilar bæði fjörugu atvinnulífi með aukinni skattinnheimtu heldur einungis með auknum sköttum á fólk og fyrirtæki sem hafa síminnkandi kaupmátt hafi það á annað borð vinnu. Engir hagsmunaaðilar á vinnumarkaði deila þessari delluhagfræði með ríkisstjórninni en slíkt hreyfir nú ekki við Helga Hjörvar.

En þetta rímar svo allt í dúr rog moll við hugmyndir gömlu allaballana um að best sé fyrir okkur öllum komið í vinnu hjá hinu opinbera þar sem stjórnmálamenn eins og Helgi sjálfur getur séð um að taka fyrir okkur ákvarðanir.

Ég hef samúð með þeim sem tala um mistök Sjálfstæðisflokksins í skattamálum í góðærinu en skil ekki að þeir sem tala mest um það geti ekki séð að skattahækkanir í niðursveiflu eru líka mistök.

Af hverju hefur Helgi Hjörvar ekki þrek til að rökræða þessi mál?

Röggi

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (4)

  • Anonymous

    Helgi Hjörvar er einn mesti froðusnakkur sem setið hefur á þingi.Hann hefur enga tilfinningu né skilning á hugtakingu „atvinnulíf“ eins og sannaðis best á bramboli hans og Hrannars Arnarsonar í svikamyllunni Svart á Hvítu.Hann sér fyrir sér musterishallir ESB í Brussel og drauminn um að fá þar sæti við háborðið og þiggja góð skattfrjáls laun fyrir á meðan landsmenn lepji dauðann úr skel.

  • Anonymous

    Efnahagslíf sem brann upp í stjórartíð B/D og S/D „beinfrýs nú hjá VG/S“ eins og Röggi segir réttilega.Nú deilir 4flokkurinn um hvort verra sé að brenna eða frjósa.Taki þjóðin ekki á sig Rögg í næstu kosningum og reki þetta bófalið af höndum sér þá á vitiborið fólk fárra kosta völ hér á landi.

  • Anonymous

    Vegna óbilgirni núverandi sjórnarflokkar, fjandsamlegrar afstöðu þeirra til landsbyggðar og sjómanna, auk hatursfullrar orðræðu álitsgjafa og svokallaðra „fræðimanna“ á snærum Samfylkingarinnar, ætla margir að segj; nei við nýrri stjórnarskrá, nei við aðildarsamningi við ESB, og nei við VG og Samfó í næstu Alþingiskosningum.

  • Anonymous

    Helgi Hjörvar sér lausn vandamálanna í að allir borgi hærri skatta. Hann sjálfur var reyndar passlega á pari við þetta lausn sjálfur þegar hann var að starfa í einkageirangum, þá seldi hann bækur, sem voru með 24,5% virðisaukaskatt, en skilaði bara ekki skattinum til ríkissjóðs. Reksturinn fór í þrot hjá Arnarssyni og Hjörvari.Vissulega gaman að hlusta á Helga taka þessa MORFÍS slagar sína á þingi. Þegar hann keppti á sínum tíma fyrir MH gegn MR tapaði liðið sem hann keppti fyrir. Umræðuefnið var ekkert ólíkt því sem hann hefur verið að fást við undanfarið, þ.e.a.s. geimferðir. Ferð ríkisstjórnarinnar á þessu kjörtímabili hefur nefninlega hálfgerð geimferð. Margir eru búnir að gleyma setu Helga í borgarstjórn. Hann sat þar lengi vel. Margar af þeim ákvörðunum sem eru núna að koma borgarbúum á kaldan klaka fjárhagslega voru einmitt teknar á meðan Helgi sat í borgarstjórn. Orkuveitan var t.d. skuldlaust og vel rekið fyrirtæki. Á meðan Helgi og Don Alfredo voru þarna í borginni náðu þeir að taka eina öflugustu kennitölu landsins og gera hana að einu stóru núlli. Helgi Hjörvar er ágætur að tala um geimferðir í rökræðukeppnum, en honum ferst ekkert sérstaklega vel að passa upp á Kalla Werners, Alferð Þorsteins eða virðisaukaskattinn af bókunum sem hann gaf út.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og tveimur? Svar:

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur